sunnudagur, 31. desember 2006

Húsbóndinn enn í eldhúsinu...

eitthvað að fást við mat... á meðan sit ég bara á mínum rassi og geri nánast ekki neitt af viti. Á ennþá eftir að hengja upp úr einni þvottavél, leggja á borð, laga aðeins til í stofunni, klæða mig í sparifötin og snyrta. Hef verið ótrúlega löt og drusluleg í dag og dauðfegin að hafa verið úthýst úr eldhúsinu fyrir löngu síðan. Ef ég hefði átt að elda matinn í kvöld hefði heimilisfólk sjálfsagt ekki átt von á lambafillé með bordelaise sósu í aðalrétt og heimatilbúnum ís með súkkulaðisósu í eftirrétt. En sem betur fer bregst bóndinn ekki frekar en fyrri daginn, hann stendur sína plikt og það með sóma. Þannig að nú er best að taka sig saman í andlitinu og fara að sinna sínum eigin verkum s.s. að klára eitthvað af því sem upp var talið hér að framan.

Að lokum langar mig að óska fjölskyldu, vinum og bloggvinum gleðilegs nýs árs og megi árið 2007 færa ykkur farsæld og gleði.

Það getur verið afar skemmtilegt að fylgjast með

samskiptum kattanna okkar, þeirra Birtu og Mána. Þau liggja náttúrulega og sofa megnið úr sólarhringnum eins og katta er siður og oftar en ekki samankurluð. Þó gerir Máni nokkuð sem Birta gerir aldrei og það er að troða sér undir teppi og sængur og sofna þar. Yfirleitt líður ekki á löngu þar til Birta er komin og nusar af honum í gegnum rúmteppið, snýr sér í nokkra hringi á meðan hún finnur besta staðinn en leggst síðan hálft í hvoru ofan á hann. Þar liggja þau svo í sátt og samlyndi þar til Mána er orðið mátulega heitt undir teppinu og ákveður að nú sé kominn tími til að færa sig um set. En þegar hann kemur undan teppinu er það hans fyrsta verk að reka Birtu í burtu og leggjast svo nákvæmlega þar sem hún lá áður, enda er það væntanlega hlýjasti staðurinn á rúminu. Hún reynir af hóflegri bjartsýni að liggja sem fastast og sýna reiðisvip en lætur alltaf undan og færir sig uppá skrifborð á meðan Máni kemur sér fyrir. Þegar hún er svo viss um að hann sé örugglega kominn í ró færir hún sig í áttina að honum, afar varlega því ef hún kemur of snemma rekur hann hana aftur burt, og leggst svo álíka varlega við hliðina á honum. Síðan sofna þau bæði sætum svefni sem getur varað klukkustundum saman ef enginn kemur og truflar þau.

laugardagur, 30. desember 2006

Palli, Guðný og Anna


Palli, Guðný og Anna, originally uploaded by Guðný Pálína.

Það heyrir til tíðinda að við systkinin komum öll saman - hvað þá að tekin sé mynd af okkur saman - og þar af leiðandi datt mér í hug að birta þessa mynd sem var tekin í áttræðisafmæli mömmu í september síðastliðnum. Að vísu vorum við öll rauðeyg á myndinni en með því að fikta í einhverju myndvinnsluforriti tókst mér að eyða rauða litnum. Spurning samt hvort við erum eitthvað skrýtin til augnanna eftir þá meðferð, en það skrifast þá alfarið á vankunnáttu mína í þessum efnum ;-)

Er svo glöð

yfir því hvað ég jafnaði mig fljótt í bakinu. Uppgötvaði að ég gat synt bæði skrið- og bakskriðsund þrátt fyrir verkinn og held að það hafi aldeilis gert mér gott. Hver svo sem ástæðan er hef ég að minnsta kosti aldrei náð mér af bakverk á svona stuttum tíma áður :-) Því miður er Kiddi hennar Sunnu núna kominn með í bakið svo þetta er greinilega að ganga hér í götunni... sendi honum hér með batakveðjur.

Er sem sagt í voða góðum gír í augnablikinu, búin að fara í sund í morgun með bóndanum (hann dreif mig á lappir, ég hefði örugglega snúið mér á hina hliðina og haldið áfram að sofa ef hann hefði ekki ætlað í sund líka), búin að fá mér ágætis brauð úr Bakaríinu við brúna, búin að klippa bóndann (vikuleg klipping með sauðaklippunum... ;-) búin að þvo eina þvottavél og setja í aðra og svo ætla ég að fá mér heilsubótargöngu á eftir (ganga í vinnuna). Sem sagt góð byrjun á góðum degi!

föstudagur, 29. desember 2006

Rólegheit

Er í vinnunni og það er svoooo rólegt. Nokkuð sem er víst eðlilegt svona skömmu eftir jól. Gott að slappa aðeins af eftir allan hasarinn í desember en það er auðvitað miklu skemmtilegra að vera í vinnunni þegar er mikið að gera. Reyndar eru næg verkefni fyrir höndum; vinna í heimasíðunni (ákveða uppsetningu og setja inn vörur, markmiðið er að það verði hægt að versla á síðunni), gera áætlanir, færa bókhald, reyna að ná í skottið á þeim sem raða í plássin á Glerártorgi (erum að spá í að reyna að komast þangað inn þegar torgið verður stækkað)... og örugglega eitthvað fleira. En það eina sem ég nenni að gera í augnablikin er að lesa mér til um vörurnar sem við erum að selja, blogga og borða sælgæti (Sunna þú veist þá af hverju Makkintossið er að klárast ;-) Held að ég láti þetta gott heita, er frekar andlaus í augnablikinu.

fimmtudagur, 28. desember 2006

Smásál

Ég var að átta mig á því hvað ég er mikil smásál - í dag að minnsta kosti, vonandi ekki alla daga. Vorkenni sjálfri mér fyrir að vera illt í bakinu með bilað hné þegar það eru svo margir sem hafa það miklu verra. Sá til dæmis að Gurrí vísaði á bloggsíðu ungrar konu sem var valin Íslendingur ársins af tímaritinu Ísafold. Þessi kona er þrítug og þriggja barna einstæð móðir, er veik af krabbameini og er þar að auki búin að missa bæði móður sína og systur úr arfgengum sjúkdómi. Ég tek hér með mitt fyrra kvörtunarblogg til baka og ætla í í staðinn að gleðjast yfir öllu því góða sem lífið hefur uppá að bjóða.

Eins og farlama gamalmenni

Eitt tekur við af öðru, ég var loks að skána í hnénu (hætt að vera bólgin, bara með verki þegar ég fer út að ganga) þegar ég fékk hnykk á mjöðmina/mjóbakið þegar ég var að stíga út úr bíl í gær og hökti um í dag eins og... ja mig skortir eiginlega orð til að lýsa því. Það sem ég skil ekki alveg er hvernig kona á besta aldri sem syndir daglega getur verið svona mikill aumingi. En það þýðir víst ekki að velta sér upp úr því, ég hef fengið í bakið áður og það lagast, þarf bara að vera þolinmóð enn og aftur... var ég nokkuð búin að segja áður að þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið?

miðvikudagur, 27. desember 2006

Hrefna, Andri og Ísak jólin 2006

Það er erfitt að ná góðri mynd af þremur einstaklingum á sama tíma - en þessi svona sleppur fyrir horn... ;-)

þriðjudagur, 26. desember 2006

Gleymdi að segja frá því

að það er ekki enn búið að skreyta piparkökurnar og ekki heldur búið að gera "kúkinn".  Svona fór um sjóferð þá!

Fékk nokkrar bækur í jólagjöf

og hef legið í þeim í gær og í dag. Afleiðingin eru tvö þreytt augu - ég gleymdi nefnilega að nota gleraugun mín við lesturinn. Gleymi nær alltaf að nota þau heima, man bara eftir þeim þegar ég er að vinna við tölvuna. Enda get ég auðveldlega lesið án þeirra, fæ bara verki í augun eftirá...

Annars er ég eins og svefngengill í dag, fór snemma að sofa í gær og svaf alltof lengi frameftir. Vaknaði að vísu klukkan sex í morgun þegar eldri sonurinn var að fara í háttinn en sofnaði aftur og svaf alveg til klukkan ellefu. Þrátt fyrir að hafa farið í (örstuttan) göngutúr og borðað dýrindis eplapæ húsbóndans líður mér enn eins og vörubíll hafi ekið yfir mig. Valur hins vegar ætlar út að hlaupa með nýja púlsúrið sem ég gaf honum í jólagjöf og hefur verið hinn sprækasti í dag. Munar sennilega um það að hann vaknaði tveimur tímum á undan mér í morgun þar sem hann þurfti að mæta í vinnu.  Það væri hins vegar synd að segja að ég væri spræk, á í mestu erfiðleikum með að halda augunum opnum.........

sunnudagur, 24. desember 2006

Komin í jólafrí :-)

Og mikið sem það er nú gott!  Jólaverslunin gekk afar vel fyrir sig í Pottum og prikum, við Sunna skiptum með okkur vaktinni og svo var Nanna að vinna hjá okkur alla seinni partana síðustu vikuna. En engu að síður er ég orðin hálf lúin og það verður gott að fá nokkurra daga hvíld, borða og sofa... ;-) Kannski ég nái meira að segja að prjóna nokkrar umferðir og jafnvel lesa eina bók eða svo.

þriðjudagur, 19. desember 2006

Er alveg punkteruð

og það er ekki spurning hvort er gáfulegra, að blogga eða fara að sofa. Hins  vegar er spurning af hverju maður velur alltof oft þann valkostinn sem er síður gáfulegur í svona kringumstæðum? Jólin eru alveg að skella á, eða það finnst mér að minnsta kosti, og við á síðustu stundu með þetta allt saman... vorum að búa til jólakortin í tölvunni í kvöld (þ.e. Valur bjó þau til, ég var aftursætisbílstjóri, eins og þeir eru nú skemmtilegir) en ekki gafst tími til að skrifa inní þau. Eigum líka eftir að klára eina gjöf sem á að fara suður og pakka þremur suðurlands-gjöfum en eins og alþjóð veit væntanlega þá er síðasti öruggi skiladagur fyrir póst og pakka innanlands á morgun. Hvað eigum við nú eftir fleira? Jú, við eigum eftir að kaupa jólagjafir handa börnunum og hvort öðru, eftir að kaupa í matinn, eftir að baka úr piparkökudeiginu sem við Ísak bjuggum til í kvöld, eftir að búa til "kúk" (sem er marsipan-núggat-súkkulaðihjúpuð sælgætisrúlla sem Valur kallar þessu skemmtilega nafni), eftir að búa til jólaísinn, eftir að kaupa jólatré, eftir að skreyta húsið.....  og þá held ég að þetta sé svona nokkurn veginn upptalið.  En jólin koma nú alltaf sama hvort maður er tilbúinn eða ekki og alltaf hefst þetta allt að lokum. Stundum hefur jólamaturinn reyndar dregist nokkuð fram á kvöldið, eins og árið sem við vorum að taka efri hæðina á húsinu í gegn og eldhúsinnréttingin kom í hús á Þorláksmessu. En svo höfum við líka haldið jólin á Þorláksmessu einu sinni, þegar við bjuggum í Bergen í Noregi og Valur var á vakt á aðfangadag. Þannig að við erum ýmsu vön í jólahaldinu :-)

laugardagur, 16. desember 2006

Einmitt þegar

ég hugsaði með hryllingi til þess að fá ekki einn einasta frídag fram að jólum datt Sunnu það snjallræði í hug að við skiptum með okkur helginni. Hún tók þess vegna daginn í dag og ég verð að vinna á morgun. Þetta voru reyndar ójöfn skipti því opnunartíminn á morgun er tveimur tímum styttri en í dag - en ég verð bara að bæta henni það upp síðar. Það er búið að vera alveg hellingur að gera og um daginn kom kona í búðina sem sagðist hafa heyrt að þetta væri best geymda leyndarmálið á Akureyri - ekki slæmt það!

Annars hefur bloggið enn einu sinni sannað mátt sinn því eftir að hafa minnst á það á blogginu um daginn að okkur vantaði aðstoð í Pottum og prikum fyrir jólin þá birtist Nanna, elsta dóttir Fríðu, og sótti um vinnu. Nú er hún byrjuð hjá okkur og stendur sig með miklum sóma. Gaman að þessu :-)

miðvikudagur, 13. desember 2006

Klukkan er 01.11 og ég er andvaka

í sennilega fjórða skiptið á stuttum tíma. Sofnaði reyndar uppúr ellefu en vaknaði rétt fyrir miðnættið við það að eldri sonurinn var að æla (vona hans vegna að hann sé ekki kominn með einhverja magapesti) og gat bara ómögulega sofnað aftur. Ekki eru það áhyggjurnar sem eru að sliga mig heldur er ég bara eitthvað svo upptjúnnuð þegar ég ætla að fara að sofa á kvöldin. Hugurinn á fljúgandi ferð og engin leið að slappa af. Þyrfti að læra innhverfa íhugun eða eitthvað álíka til að geta tamið hugann. Man reyndar þegar ég skrifa þetta að ég á einhvers staðar geisladisk með rigningarhljóði sem er rosalega róandi að hlusta á en veit ekki hvar ferðageislaspilarinn er. En eftir að hafa bylt mér í klukkutíma ákvað ég að fara á fætur í smá stund og endaði í tölvunni... hvar annars staðar...

Annars voru Gunna og Matti, foreldrar Vals hérna hjá okkur frá föstudegi og þar til í dag. Það var afskaplega gaman að fá þau í heimsókn en tilefnið var áttræðisafmæli Gunnu, sem hún hafði ekki orku í að halda uppá og stakk því af norður í land. Svo kemur Hrefna frá Köben á morgun og það verður nú aldeilis gaman að sjá hana aftur :-)

Jæja, kannski ég reyni að leggjast aftur, það er ekkert grín að vera svona andvaka, maður verður svo agalega úldinn daginn eftir.

fimmtudagur, 7. desember 2006

Ég hefði betur sleppt því

að vera að monta mig af því hérna um daginn að vera byrjuð svo snemma á jólaverkunum. Keypti jú jólafötin á Ísak og tvær jólagjafir og síðan ekki söguna meir. Setti reyndar upp jólagardínur í eldhúsið núna í kvöld en er ekki byrjuð að baka neinar smákökur og það þykir sonunum báðum hin mesta hneisa. Að auki finnst þeim yngri við vera alveg sérlega léleg í að skreyta húsið að utan, sem og garðinn. Einhvern tímann var hann líka búinn að biðja um að fyrir þessi jól yrði bakað piparkökuhús - og ég sagði svona hálfpartinn já við þeirri ósk. Hm, hvað er aftur langt til jóla??? Okkur Sunnu vantar nauðsynlega einverja góða konu til að vinna með okkur í búðinni núna í desember og svo til afleysinga en það gerist lítið í þeim málum hjá okkur. Óttast að við verðum að standa vaktina sjálfar og þá geta það nú orðið langir dagar. Annars kom umfjöllun um Potta og prik í Akureyrarblaðinu sem fylgdi Mogganum í dag og við vorum ánægðar með það. Við meira að segja litum alveg ágætlega út á myndinni sem birtist með greininni, myndin hefði þess vegna mátt vera stærri... ekki á hverjum degi sem maður myndast vel ;-)

laugardagur, 2. desember 2006

Nú er öldin önnur...

Andri fór á árshátíð MA í gærkvöldi. Hann skutlaði sér í jakkafötin, blés á sér hárið og var tilbúinn, en stelpurnar þurftu að fara í förðun, greiðslu og galakjóla... eða svona næstum því. Ég var í kvennaklúbb í gær og þar var dóttirin á bænum að fara á árshátíðina, alveg stórglæsileg, og þá fórum við mömmurnar að rifja upp hvernig þetta var þegar við vorum í MA. Það var engin förðun, engin greiðsla og kjólarnir voru kapítuli út af fyrir sig. Einhverjir prjóna- eða flauelskjólar, alveg hrikalega ömmulegir eitthvað. Ég var nú reyndar í buxum og peysu á minni einu árshátið í þessum skóla en man vel eftir panikk ástandinu þegar ég fór í bæinn og  var að leita að einhverju til að vera í.

Annars:
- gerðum við laufabrauð í dag ásamt Sunnu, Kidda og þeirra + okkar börnum
- sat tafla föst í hálsinum á mér í morgun í nærri þrjú korter - og það var ekki gott
- er ég með bólu á tungunni - og það er ekki heldur gott
- er ég að skána í hnénu
- settum við upp jólaljós í stofunni í dag
- komst ég ekki í sund í morgun út af þessu háls-veseni
- er ég alveg að sofna og klukkan er bara 22.43 á laugardagskvöldi
- eru tengdó að koma í heimsókn um næstu helgi
- þurfum við að standa skil á virðisaukaskattinum eftir þrjá daga og ég hef ekki komið nálægt bókhaldi síðan ég lærði það fyrir sex? árum síðan
- er ætlunin að setja upp jólagardínur í eldhúsinu á morgun
- ætti ég kannski að gera jólakrans til að hafa við útidyrnar
- hef ég ekkert meira að segja

fimmtudagur, 30. nóvember 2006

Tíminn líður eitthvað svo hratt þessa dagana

Skil ekki alveg hvað verður af honum. Einhvern veginn gerir maður fátt annað en vinna, borða og sofa og kannski einmitt þess vegna finnst mér tíminn líða svona hratt. Allt í einu kominn föstudagur og mér finnst síðasti föstudagur rétt vera liðinn. Ég er í alvöru að velta því fyrir mér hvort mér myndi finnast tíminn líða hægar (eða ég myndi upplifa að ég fengi meiru áorkað) ef ég nýtti tímann á fjölbreyttari hátt. Gerði meira af "óvenjulegum" hlutum, þ.e. einhverju öðru en bara vinna, borða og sofa. Kannski eru þessar pælingar alveg út í hött en stundum er dagurinn liðinn og mér finnst ég í raun ekki hafa gert neitt. Samt hef ég gert allt þetta venjulega. En það að gera eitthvað óvenjulegt krefst þess að maður fari út fyrir þægindasvæðið og þægindasvæðið mitt er orðið svo skelfilega lítið eitthvað. Hm, þetta eru kannski alltof sjálfhverfar pælingar fyrir bloggið, það verður þá bara að hafa það.

þriðjudagur, 28. nóvember 2006

Það er merkilegt

hvað eitt bólgið hné hefur víðtæk áhrif á líf eiganda síns. Til dæmis get ég ekki synt skriðsund með góðu móti (bak-skrið sleppur fyrir horn), ég get ekki verið í pilsi (er með hvítan hólk utan um hnéð sem sæist í gegnum sokkabuxurnar), ég get ekki verið í skóm með smá hæl (fæ verk í hnéð), ég get ekki farið út að ganga... Man ekki eftir fleiru í bili, vonandi er þetta allt og sumt. Það flækir þó óneitanlega lífið, og þá sérstaklega á morgnana, að geta hvorki verið í pilsi né skóm með hæl (þá er ég bara að tala um pínulítinn hæl, er ekkert í háu-hæla-deildinni). Lendi þar af leiðandi í mesta basli við að ákveða í hvaða fötum ég á að vera í í vinnunni. Finnst skemmtilegra að vera snyrtilega til fara þar, þó ég sé ekki beint í sparifötunum, en ég á t.d. enga smarta flatbotna skó. Brún leðurstígvél á ég reyndar og hef verið í þeim nánast upp á hvern einasta dag undanfarið. Svo á ég bara tvennar almennilegar gallabuxur og hef verið í þeim til skiptis síðustu tvær vikurnar. Sé það núna að eina lausnin á þessu vandamáli mínu er að fara að versla mér buxur og flatbotna skó, a.m.k. virðist hnéð ætla að vera með stæla við mig enn um sinn :(

mánudagur, 27. nóvember 2006

Nú skammar Hrefna mig örugglega

hún var að kvarta undan því um daginn að stundum liði vika milli þess sem ég bloggaði og stundum bloggaði ég oftar en einu sinni sama daginn. Henni fannst þessi ófyrirsjáanlega hegðun mín eitthvað erfið - og hafði sem sagt "misst af" einhverju bloggi af þessum sökum.

En ég varð bara að blogga til að segja hvað mér líður vel eftir grænmetis/pastasúpuna sem ég var að elda. Þar sem kokkurinn er að heiman ákvað ég að elda súpu því hann er enginn sérstakur súpumaður. En mér finnst það einhvern veginn passa svo vel að hafa heita súpu í matinn á köldu vetrarkvöldi. Þessi var líka með helling af hvítlauk svo ég ætti ekki að kvefast á næstunni. Og nú myndi ég örugglega segja sjö-níu-þrettán ef ég væri hjátrúarfull, sem ég er ekki. Þori samt varla að segja svona því ég á það til að vera svo kvefsækin. En heitur pottur, gufubað og köld sturta fimm daga í viku hljóta nú að vera ágætis forvarnir...

powered by performancing firefox

Kosturinn við að vera með ketti

eða einn af kostunum alla vega, er sá að þá fagnar manni alltaf einhver þegar maður kemur heim. Ja, það er að segja ef þau eru vakandi... og oft rífa þau sig nú á lappir ef enginn hefur verið heima lengi. Þá eru þau svo agalega glöð að einhver skuli koma heim. Núna áðan kom ég heim að steindauðu húsi, þ.e. allt var slökkt og þegar ég kom inn og kallaði "halló" þá svaraði enginn. En viti menn, Birta og Máni komu hlaupandi og Máni sló nú ekki hendinni (loppunni) á móti smá klappi. Nú er bara spurningin hvar hitt heimilisfólkið er niðurkomið? Valur er reyndar á Sauðárkróki en um Andra og Ísak veit ég ekki. En ætli þeir skili sér ekki þegar hungrið sverfur að... :-)

sunnudagur, 26. nóvember 2006

Ótrúlega þreytt

í dag eitthvað. Þreytan fer í taugarnar á mér og allt áreiti sömuleiðis. Vildi að það væri kominn háttatími svo ég gæti verið löglega afsökuð og farið að sofa. Eiginlega svolítið fyndið að hugsa um það að ef ég byggi ein þá væri ég sjálfsagt ekkert að tvínóna við það, gæti bara háttað mig upp í rúm án þess að nokkrum fyndist það athugavert. En kann einhvern veginn ekki við það þegar allir aðrir fjölskyldumeðlimir eru í fullu fjöri. Andri að laga til í herberginu sínu, Ísak úti og Valur að drekka kaffi í eldhúsinu með vini sínum. Ég aftur á móti nenni engu. Er að vísu með einhvern krimma í láni á bókasafninu sem væri líklega alveg tilvalinn aflestrar á svona kvöldi. Orka ekki einu sinni tilhugsunina um að prjóna. Já, það er annað hvort að detta niður dauð fyrir framan imbann eða skrönglast inn í stofu og kíkja í bók!

föstudagur, 24. nóvember 2006

Rakst á þessa mynd


þegar ég var að taka til í tölvunni hjá mér. Hún var tekin á Pompidou (man ekki hvernig nafnið er skrifað í augnablikinu... þessi alzheimer light tekur sinn toll...) safninu í París í frábærri ferð til borgarinnar í október 2004. Ferðin var afmælisgjöf mín til bóndans það árið (ég borgaði miðana, hann allt hitt, haha :-) og Hrefna var heima og gætti bús og barna. Já, það var áður en hún flutti til Köben - nú komumst við náttúrulega hvorki lönd né strönd...

Hvað er betra

en koma heim úr vinnunni og fá mexíkóskan mat í boði bóndans, borða við kertaljós og þegar búið er að ganga frá, setjast inn í stofu og hlusta á Ali Farka Toure, prjóna nokkrar umferðir og blogga svo? Það gerist ekki betra!
Það var nóg að gera í vinnunni í dag, fólk greinilega komið á fullt í jólagjafainnkaupunum. Eitt það skemmtilegasta við vinnuna eru samskiptin við viðskiptavinina og alltaf er að koma nýtt fólk. Margir hafa aldrei komið áður, sem segir okkur að vikulegu auglýsingarnar í Dagskránni eru að virka. Í gær kom karlmaður (sem ég kannast reyndar við) ásamt konu og dóttur + tengdasyni og hann (karlmaðurinn) sagði að hann væri nú orðinn 53ja ára en hefði aldrei áður eytt matarhlénu sínu í að skoða ostaskera! Í dag komu svo hjón sem voru að leita að jólagjöf handa syni sínum og voru líka að koma í fyrsta sinn. Þau fara alltaf í Kokku þegar þau eru fyrir sunnan og voru ekkert smá ánægð með að það væri komin verslun á Akureyri sem væri með svipaðar (og sömu) vörur. Nú þyrftu þau ekki lengur að fara suður til að kaupa vandaðar vörur í eldhúsið. Þannig að þetta lofar bara góðu :-)

miðvikudagur, 22. nóvember 2006

Þjónustugæði

hafa verið mér hugleikin síðan ég tók áfanga í þjónustugæðum sem hluta af náminu í viðskiptafræði við HA. Alltof oft verður maður vitni að lélegri þjónustu þó vissulega hafi mörg fyrirtæki tekið sig verulega á í þeim efnum.

Norðurorka hér á Akureyri virðist vera eitt af þeim fyrirtækjum. Um daginn kom tilkynning frá þeim þess efnis að vegna framkvæmda við raflagnir í Kaupangi þyrfti bráðlega að grafa upp gangstíg sem liggur framhjá húsinu okkar og myndi eitthvað ónæði verða af þeim sökum. Í fyrradag kom svo annar miði frá þeim og í þetta sinn var tilkynnt að vegna framkvæmda við spennistöð (sem er beint fyrir ofan húsið okkar) yrði rafmagnið tekið af hverfinu frá klukkan tíu í dag og fram eftir degi.

Ég var sem sagt með yfirvofandi rafmagnsleysi alveg á hreinu en þar sem ég átti ekki að fara í vinnu fyrr en eftir hádegið var ég búin að velta því fyrir mér hvað ég ætti nú að gera þegar lokað yrði á rafmagnið - enda veit hver heilvita maður að nútíma manneskjan lendir í tómu tjóni þegar ekkert er rafmagnið til að knýja heimilistækin og internetið ;-) Lausnin var sú að senda vinkonu minni SMS og viti menn hún var heima og bauð mér í morgunkaffi/te.

Þegar hér var komið sögu var húsið orðið rafmagnslaust samkvæmt áætlun og ég bara sátt og sæl með þetta allt saman. Alveg þar til ég fór út í bílskúr og ætlaði að bakka út úr honum. Þá fyrst áttaði ég mig á því að bílskúrshurðin er rafknúin og þar af leiðandi var ég föst með bílinn inni í skúr. Ég varð hálf miður mín því fyrir utan bólgið hné sem þolir ekki miklar göngur þá var ég líka búin að lofa eiginmanninum að sækja hann í vinnu nr.1 og keyra hann í vinnu nr. 2 klukkan hálftólf.

Með öndina í hálsinum gekk ég að spennustöðinni og vonaði að kallarnir gætu bara sett rafmagnið aftur á í smá stund, bara rétt á meðan ég kæmist út úr skúrnum. En, nei, þeir voru komnir á fullt í vinnu og það var ekki raunhæfur möguleiki í stöðunni. Einn þeirra hefur líklega séð hvað ég var bjargarlaus á svipinn því hann sagði mér að það væri snúra sem héngi niður úr bílskúrshurðinni og í hana gæti ég togað til að opna hurðina. Eitthvað rámaði mig í umrædda snúru svo ég tölti af stað í átt að bílskúrnum, heldur upplitsdjarfari. Þarna hefði Norðurorku-maðurinn getað hætt sínum afskiptum af málinu en hann reyndist sannur riddari og fylgdi á eftir mér að skúrnum. Fann snúruna og togaði í hana. Var þá hægt að ýta hurðinni upp með handafli, en hún vildi bara alls ekki festast uppi sama hvað við gerðum margar tilraunir. Lyktir málsins urðu þær að hann bauðst til að halda undir hurðina á meðan ég bakkaði út, sem hann og gerði. Já þetta kalla ég góða þjónustu :-)

mánudagur, 20. nóvember 2006

Maginn fullur af Brynjuís -

kannski ekki sérlega gáfulegt svona rétt fyrir nóttina... Kallarnir mínir þrír eru allir vitlausir í Brynjuís og það er dóttirin reyndar líka (bara erfiðara fyrir hana að fullnægja fíkninni í Danaveldi en það styttist nú í jólafrí hjá henni :-) Þó ég sé ekki ísfíkill finnst mér ísinn ekki svo slæmur með helling af súkkulaðisósu ... já, eiginlega bara nokkuð góður...

Annars er ég svo fótafúin núna að ég man vart eftir öðru eins frá því ég var að vinna sem sjúkraliði (þá gekk maður nú oft ófáa kílómetrana á dag). Kiddi hennar Sunnu smíðaði nefnilega nýtt afgreiðsluborð handa okkur en áður notuðumst við skrifborð og því fylgdi að sjálfsögðu stóll þannig að ég stóð ekki upp á endann allan daginn heldur sat á rassinum á milli þess sem ég afgreiddi viðskiptavini, tók upp vörur, þurrkaði af o.s.frv.

Í dag var fyrsti dagurinn með nýja afgreiðsluborðið í notkun og ég komst að því að ég er greinilega í afspyrnu lélegri stöðu-þjálfun. Þegar dagur var að kvöldi kominn líkist ég helst tveimur úr tungunum sem voru "gengnar upp að herðablöðum" ef ég man rétt. Taldi það meira að segja nokkurt þrekvirki að geta staulast upp tröppurnar frá neðri hæðinni núna áðan, að afloknu sjónvarpsglápi kvöldsins. Og um leið og ég skrifa þetta þá átta ég mig á því að ég prjónaði víst ekkert í dag - nei, slökkti bara á heilasellunum (þessum fáu sem enn voru vakandi) fyrir framan imbann. Og nú hyggst ég slökkva á restinni af mér og er hér með farin í háttinn.

sunnudagur, 19. nóvember 2006

Morgunsund gefur gull í mund

er sem sagt búin að fara og synda í morgun - í þetta sinn með eiginmanninum. Við vorum búin að ákveða í gær að vakna snemma og drífa okkur í sund (ég fór nefnilega ekki á föstudaginn af því þá var fundur í Lundarskóla, ekki í gær af því þá var ég löt og kemst ekki á morgun af því ég fer á fund kl. 8).

Í gærkvöldi fórum við hins vegar út að borða á Karólínu Restaurant og fengum þar ágætis mat. Langvíu í forrétt, hreindýr í aðalrétt og súkkulaðisufflé í eftirrétt. Nema hvað, ég er orðin svo óvön að borða mat sem er þungur í maga (og þoli reyndar ekki sveppi og það var hellingur af þeim með hreindýrinu - en mér finnst þeir góðir og borðaði þá gegn betri vitund), svo ég gat ekki sofnað fyrr en seint og um síðir í gær af því mér var svo illt í maganum.

Vaknaði samt uppúr átta og við fórum í sundið eins og áætlað hafði verið. Valur og Ísak drifu sig svo í Fjallið en ég er með bólgið hné og kemst ekki með. Ætlaði þá að vera rosa dugleg og vinna í tölvunni - en er svo syfjuð núna að ég er alveg að drepast. Sótti dagsbirtulampann minn fram í eldhús ef ske kynni að hann hjálpaði mér að vakna en enn sem komið er hefur hann lítil áhrif. Hm, hvað gera bændur þá?

laugardagur, 18. nóvember 2006

Ég hefði viljað vera með myndavél

á leiðinni í vinnuna í morgun. Sólin kom upp akkúrat þegar ég var hálfnuð niðureftir og þegar ég var efst í Skátagilinu þá var einstaklega fallegt útsýni yfir Pollinn og Vaðlaheiði þar sem þau böðuðu sig í sólargeislunum.

Kuldaboli heiðrar okkur með nærveru sinni

þessa dagana. Á meðan sumum stendur á sama og aðrir eru allt að því ánægðir með þetta veðurfar þá eru enn aðrir sem þola svona veðurfar engan veginn. Kettirnir okkar falla í síðastnefnda flokkinn. Þau hafa ekki farið út fyrir hússins dyr í tvær eða þrjár vikur, og liggja bara og sofa mest allan daginn.

Á miðvikudagsmorguninn var Birta reyndar að drepast úr pirringi yfir þessu ástandi og gekk vælandi um húsið. Eftir smá stund var ég orðin svo þreytt á henni að ég opnaði útidyrnar til að sýna henni að úti væri snjór og kalt. Þegar hún stóð í dyragættinni og snusaði út í kalda loftið kom Máni hlaupandi og hélt að hann væri að missa af einhverju. Þá tók Birta eitt eða tvö varfærnisleg skref í átt að dyrunum og var jafnvel að spá í að sýna það stórkostlega hugrekki að fara alveg í gættina. Í einhverju pirringskasti tók ég báða kettina og henti þeim út á pall. Það var smá auður blettur beint fyrir framan þröskuldinn og þar stóðu þau, eins og álfar út úr hól. Ég lokaði dyrunum og hugsaði með mér að þau hefðu bara gott af því að fá sér smá súrefni. Fékk ógurlegt samviskubit fyrir að fara svona illa með dýrin og hleypti þeim aftur inn eftir u.þ.b. eina mínútu. Þá hafði kuldinn svo sannarlega komið blóðinu á hreyfingu því þau þeyttust um allt hús í eltingarleik og kæti - sem styrkti mig í trúnni að þau hefðu bara haft gott af þessu!

Nú á eftir ætla ég að beita sjálfa mig sömu meðferðinni, hætta mér út í tæplega 15 stiga frostið og afreka að ganga í vinnuna. Hlýt að verða rosalega spræk á eftir!

fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Prjónaskapurinn gengur hææææægt

Mér finnst ég einhvern veginn aldrei hafa tíma til að prjóna - sem er náttúrulega bara vitleysa - en hver sem ástæðan er þá er ég bara búin með bakstykkið og hálft hægra forstykkið. Ég var reyndar búin með tvo þriðju af forstykkinu (segir maður forstykki eða framstykki?) en uppgötvaði þá að ég hafði gert villu og þurfti að rekja upp. Ég gerði það án þess að blikna (tja, kannski smá ýkjur) en fyrir tuttugu árum eða svo þegar ég var uppá mitt besta í prjónaskapnum þá hefði ég nú ekki verið að stressa mig á svoleiðis smámunum, bara reynt að fiffa þetta eitthvað til. En þangað til ég kemst betur í prjónagírinn verð ég bara að horfa á peysuna á netinu og láta mig dreyma um það hvað ég verð flott í henni þegar hún verður búin ;-)

Annars er það í fréttum að synirnir áttu báðir að vera staddir á fjarri heimilinu um helgina og satt best að segja var ég farin að spá í hvað það yrði nú skrítið að hafa hvorugan þeirra heima heila helgi. En ferðin hans Ísaks (til Reykjavíkur) var blásin af í dag, því miður fyrir hann, og átti veðrið sök á því. Ennþá stendur til að Andri fari en hann er reyndar að fara alla leið til Vestmannaeyja, fyrst með rútu og síðan með Herjólfi, þannig að þetta verður heilmikið ferðalag fyrir þá.

Læt þetta gott heita í bili, Guðný has left the building.

miðvikudagur, 15. nóvember 2006

Það er merkilegilegt hvernig hitastigið

úti segir lítið til um það hvernig maður upplifir hita/kulda. Um daginn var t.d. ekki nema -1 á mælinum (en reyndar vindur) og mér var svo skítkalt þegar ég var að fara ofan í laugina en í dag var -8 og mér var ekkert kalt. Fór meira að segja í kalda sturtu á eftir heita pottinum og fannst ég vera alveg hrikalega hraust!

Annars fólst mesti spenningur morgunsins í því hvort ég kæmist klakklaust á bensínstöð því bíllinn var "allt í einu" orðinn bensínlaus. Þessi blessaður bíll sýnir reyndar í kílómetrum hvað er mikið eftir á tankinum og í allan gærdag sýndi hann 50 km. Hefur greinilega staðið eitthvað á sér því þegar ég startaði honum í morgun var hann kominn niður á núllið. Það hvarflaði að mér í smá stund að fresta sundinu og fara fyrst að taka bensín en það var nú ekki lengi. Ég er greinilega orðin svo bundin á klafa vanans að ég verð að gera allt í sömu röð á hverjum degi... Hin skýringin (og sú líklegri) er að ég hafi ekki talið hættandi á að sýna mig á bensínstöðinni, nývöknuð, hæfilega mygluð, með hárið allt út í loftið (nenni ekki að greiða mér áður en ég fer í sundið) og ekki búin að sparsla í hrukkurnar né setja lit á varirnar. En - ég komst alla leið og fyllti á tankinn án nokkurra vandkvæða - og slapp með skrekkinn :-)

mánudagur, 13. nóvember 2006

Dóttirin í Danmörku á afmæli í dag

Innilega til hamingju með daginn elsku Hrefna mín, bestu kveðjur frá okkur öllum hér heima, bara verst að geta ekki komið í afmæliskaffi til þín!

Annars borðaði ég greinilega of mikið af kökum í mínu eigin afmæli í gær (átti afganga í frystikistunni frá kvennaklúbbs-bakstri)þannig að ég hefði sennilega ekki haft gott af því að borða kökur í dag líka.

Í gærkvöldi fórum við Valur svo í Akureyrarkirkju þar sem var dagskrá til heiðurs Matthíasi Jochumsen. Þórunn Valdimarsdóttir las uppúr bók sinni, leiknir voru stuttir leikþættir m.a. úr Skugga-Sveini, stúlknakór Akureyrarkirkju söng og Megas söng einnig nokkur lög. Þetta var hin fínasta kvöldskemmtun og verður vonandi til þess að við hjónin verðum duglegri að drífa okkur út á kvöldin þegar eitthvað er um að vera.

Hm, ef einhverjum finnst þessi pistill minn samhengislaus og skrýtinn þá er það vegna þess að ég er að fara í vinnuna og á eftir að hengja upp þvott áður en ég fer - en ég vildi endilega koma afmælisóskunum á framfæri fyrst.

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Hef verið að hugsa um allt fólkið sem

maður kynnist á lífsleiðinni, á samleið með í vissan tíma en svo skilja leiðir. Í mínu tilfelli eru þetta reyndar aðallega konur þó einn og einn karlmaður slæðist reyndar með. En ef við tökum t.d. dæmi þá erum við búin að búa í tólf ár á Akureyri (í þessari lotu) og á þeim tíma hef ég kynnst mörgum nýjum konum og endurnýjað kynnin við aðrar. Nema hvað, svo bara flytja þessar sömu konur í burtu (flestar til Reykjavíkur) og eftir sit ég með sárt ennið...

Sólrún sem ég kynntist á óléttunámskeiði og var seinna með í blaki, saumaklúbb og kvennaklúbb (flutt suður), Hjördís sem ég var með í sauma- og kvennaklúbb (flutt suður), Tobba sem var í kvennaklúbbnum (flutt suður), Ester sem ég var með í saumaklúbb (flutt suður), Eva sem ég kynntist í háskólanum (flutt til Bandaríkjanna, Dodda sem ég kynntist líka í háskólanum (flutti til Englands og svo til Reykjavíkur) Inga og Dóri, vinafólk okkar sem við fórum m.a. með í afar skemmtilega ferð til Ítalíu (fluttu suður) og ... nú man ég allt í einu ekki eftir fleirum þó ég viti að þær séu fleiri. Þegar Sólrún, Ester og Hjördís voru allar fluttar suður lagðist saumaklúbburinn af og þá hætti ég líka að hitta Rögnu, Hönnu Dóru og Agnesi, svo það voru sannkölluð samlegðaráhrif til hins verra þar. Og þegar ég hætti að vinna í Háskólanum s.l. vor þá hætti ég líka að hitta margt skemmtilegt fólk sem ég umgekkst daglega, eins og t.d. fólkið í húsumsjóninni, konurnar í mötuneytinu og samkennara mína sem voru margir hverjir alveg ágætir.

Ef ég fer lengra aftur í tíma þá kynntist ég frábærum konum í Tromsö sem ég hef alveg tapað sambandinu við s.s. Stínu sem nú býr á Ólafsfirði, Helgu sem er komin á Sauðárkrók, Ólöfu sem er í Reykjavík, Láru sem enn er í Tromsö, Valborgu systur hennar sem er í Mosfellsbæ ásamt Berglindi, Anne-Marie sem ég held að sé í Brussel, Ásthildi sem er í Reykjavík og Annie sem ég var með í sálfræðinni og býr einhvers staðar í Noregi. Í Bergen voru það hin norska Unni, hin austur-þýska Kerstin og ... arg, nú man ég ekki hvað hún heitir en hún er íslensk og átti heima ekki svo langt frá okkur. Í Förde voru Jens og Astrid sem m.a. pössuðu Hrefnu meðan ég fór á sjúkrahúsið og fæddi Andra.

Ég held að ég láti þessari upptalningu hér með lokið en bottom line í þessu öllu saman er, að þrátt fyrir að maður komi kannski í manns stað, þá er enginn eins og ég sakna þessa fólks sem einu sinni var hluti af lífi mínu en er það ekki lengur.

Jákvæða hliðin er reyndar sú að ég er enn að kynnast nýju frábæru fólki, t.d. í kvöld fór ég á fyrirtækjakynningu hjá norðankonum í FKA og myndaði þar ný tengsl sem kannski eiga seinna meir eftir að verða meiri :-)

miðvikudagur, 8. nóvember 2006

Er búin að setja persónulegt met

í því að vera snemma í jólaundirbúningnum. Venjan er nefnilega sú að ég er að kaupa jólaföt á krakkana rétt fyrir litlu jólin og jólapakkana rétt áður en sendingarfresturinn rennur út. En núna er ég sem sagt búin að kaupa jólafötin á Ísak og byrjuð að búa til jólagjafalista. Er reyndar ekki búin að kaupa neitt á listanum ennþá - en sumt fæst í Pottum og prikum þannig að hæg eru heimatökin :-) En ég er sem sagt að vona að það verði svo mikið að gera hjá okkur í búðinni fyrir jólin að ég hafi engan tíma þá til að sinna jólastússi - og ætla þess vegna að freista þess að vera búin að sem mestu áður en aðalvertíðin byrjar. En hvernig mér gengur að standa við þessi fínu fyrirheit, það er nú önnur saga. Byrjar alla vega vel!

miðvikudagur, 1. nóvember 2006

Fékk móral

þegar mér varð hugsað til þess að strákarnir kæmu heim úr skólanum og myndu finna angandi bökunarlykt í húsinu - en ekkert væri handa þeim, bara kaka í frystikistunni ætluð í kvennaklúbb. Afleiðingin: Ég ákvað að baka möffins handa þeim! Þannig að nú er ég búin að vera bundin "bak við eldavélina" megnið af morgninum. En það er líka allt í lagi. Vona bara að synirnir kunni að meta viðurgjörninginn :-)

Kvennaklúbbur hjá mér á föstudaginn

og ég er með súkkulaðislettu í auganu.

Mun fleiri súkkulaðislettur skreyta ljósu flíspeysuna mína.

þriðjudagur, 31. október 2006

Samtal i heita pottinum

Þrír karlar sitja í heitasta heita pottinum og spjalla saman þegar kona kemur ofan í pottinn og býður þeim góðan daginn. Þeir endurgjalda kveðjuna og um leið og konan hefur sest og lokað augunum í afslöppun halda þeir áfram þar sem frá var horfið í samræðunum. Umtalsefnið virðist vera heilsan og þeir byrja á því að ræða hvernig komið sé fyrir gömlum sjóara sem þeir þekkja.

Svo spyr einn þeirra: "Hvernig ertu annars í hnénu Guðmundur?"
Guðmundur svarar: "Ég er allur að koma til, fer út að ganga á hverjum degi í Kjarnaskógi og það gerir mér voða gott."
Einn: "Já, en nú fer færið að verða slæmt í Kjarnaskógi, þá geturðu ekki lengur gengið þar."
Guðmundur: "Að vísu, en ég er nú líka að verða miklu betri."
Einn: "Annars fór ég nú út að ganga um helgina. Gekk hringinn hjá Kristnesi með konunni. Eða réttara sagt, hún dró mig á eftir sér. Það þyrfti nú barasta að hengja lóð aftan í rassinn á henni til að hægja á henni, það er ekki hemja hvað hún gengur hratt konan.
Sá þriðji: "Er það ekki bara þú sem gengur svona hægt góði?"
Einn (hefur greinilega tekið þessa athugasemd nærri sér) segir með þjósti: "Þegi þú nú bara, vertu ekkert að skipta þér af þessu!"
Sá þriðji þegir.
Einn (sér greinilega eftir því að hafa verið svona hranalegur): "Þetta hefur alveg snúist við hjá okkur. Fyrir tuttugu árum nennti ég aldrei að fara með henni út að ganga því hún komst varla úr sporunum. Nú er það hún sem flýgur áfram og þarf að dröslast með mig í eftirdragi." Ekki er ljóst við að greina megi sorg í röddinni yfir því að vera orðinn þetta lélegur en jafnframt örlar líka á stolti yfir því hvað konan er orðin spræk.

Þegar hér er komið sögu er konunni, sem hefur setið þegjandi og hlustað á þessi samskipti, orðið vel heitt og hún drífur sig uppúr pottinum. Karlarnir sitja áfram og ræða sín mál.

mánudagur, 30. október 2006

Erfitt að vakna þessa dagana ...

Rumska við það að eiginmaðurinn fer fram úr. Sný mér á hina hliðina og held áfram að sofa. Vakna aftur skömmu síðar við skurk í eldhússtól og veit að hann (maðurinn, ekki stóllinn) er að fá sér morgunmat. Loka aftur augunum, úti er niðamyrkur og ég er svo ofboðslega þreytt og syfjuð. Eftir smá stund heyri ég vatnshljóð í pípunum og veit að hann er að raka sig frammi á litla klósetti. Dæsi, bráðum neyðist ég til að fara á fætur. Þegar ég heyri að hann er búinn að bursta tennurnar veit ég að minn tími er kominn, kveiki á lampanum og mjaka mér út úr rúminu. Það er hlýtt í herberginu, sem er ágætt. Ég átti erfitt með að sofna í gærkvöldi af því mér var svo kalt á fótunum (þrátt fyrir ullarsokka). Hlýnaði ekki fyrr en ég stakk köldum tánum undir sængina hjá eiginmanninum.

En nú þýðir ekkert annað en drífa sig fram. Klósettið næst á dagskrá og tannburstun. Mikið sem mig langar samt til að sofa lengur. Kveiki á útvarpinu og vona að í því sé eitthvað hressilegt lag sem hjálpi mér að vakna. Dreg andann djúpt og fer og ýti við yngri syninum. Hann sem áður spratt upp á morgnana eins stálfjöður er orðinn eins og klassískur unglingur (þó hann verði ekki 12 ára fyrr en í mars) og sefur núna eins og steinn þar til hann er vakinn. Fyrstu viðbrögð eru þau að snúa sér á hina hliðina og draga uppfyrir haus, vitandi það að hann fær að kúra aðeins lengur. Ég heyri engan umgang úr herbergi eldri sonarins og banka á hurðina en þá er hann vaknaður. Það er ótrúlega mikill munur síðan hann fór að vakna sjálfur, verð að segja það. Ég græja nestið fyrir þann yngri (sem hefur komist fram í eldhús en lítur út fyrir að vera ennþá hálf sofandi þar sem hannn situr við eldhúsborðið) og minni þann eldri á að taka með sér sitt nesti. Kveð þá bræður, gríp sundtöskuna og dríf mig í mitt hefðbundna morgunsund.

Þegar ég stend í sturtunni get ég varla hugsað mér að fara út í laug af því það er kalt úti og mig langar bara að vera áfram undir heita vatninu. En læt mig hafa það og og hálfhleyp þessa fáu metra að bakkanum. Kuldinn smýgur inn að beini en samt er ekki einu sinni kalt úti (hitastigið rétt við frostmark) en laugin er köld. Nenni ekki að synda allar 40 ferðirnar, læt 36 nægja í dag. Fer í pottinn og þaðan í gufuna. Get ekki hugsað mér að fara í kalda sturtu eftir að það byrjaði að kólna úti. Í sturtunni á ég erfitt með að horfa ekki á konu sem virðist þjást af lystarstoli á háu stigi, Vona hennar vegna að svo sé ekki. Skelli á mig hæfilegum skammti af snyrtivörum, blæs hárið og dríf mig heim.

Næ því að borða morgunmat í rólegheitum og lesa blöðin við ljósið af dagsbirtulampanum mínum áður en ég þarf að fara í vinnuna. Er full af orku eftir sundið og matinn og alveg búin að gleyma því hve erfitt var að vakna fyrr um morguninn.

sunnudagur, 29. október 2006

Er loksins byrjuð að

prjóna peysuna. Datt sú "vitleysa" í hug að gera prjónfestu-prufu, en það er nokkuð sem ég hef aldrei gert áður, og það hafði þær afleiðingar að mér seinkaði um sólarhring í prjónaskapnum. Komst nefnilega að því þegar ég gerði prufuna að ég hafði keypt of litla prjóna. Fór í Hagkaup í dag og skipti prjónunum og nú er þetta bara bein braut framávið... eða þannig.

Venjulega er ferlið hjá mér þannig að ég byrja af miklum ákafa og næ jafnvel að klára megnið af flíkinni á afar skömmum tíma. Þá hins vegar gerist eitthvað sem ég kann ekki alveg að útskýra, en nánast undantekningarlaust kemur bakslag í seglin og ég legg prjónana til hliðar (á yfirleitt að vera tímabundið) og það geta liðið vikur, mánuðir eða ár þar til ég tek þá fram að nýju.

Fyrir nokkrum árum síðan kom prjónalöngun yfir mig og ég ætlaði að rjúka til og kaupa mér garn en datt í hug að kíkja fyrst í prjónakörfuna mína. Þar fann ég peysu sem var nánast fullkláruð, átti aðeins eftir að prjóna aðra ermina og sauma hana saman. Þar fann ég líka hálfkláraðan trefil, nærri fullkláraðan barnasamfesting sem ég byrjaði á þegar Andri var lítill og "norska" peysu sem átti að vera á Ísak (bara bokurinn búinn á henni). Ég tók peysuna upp og kláraði hana en hitt dótið liggur ennþá í körfunni. En bara svo það sé nú alveg á hreinu þá er þessi árátta, að hætta við verkefni í miðju kafi, aðeins tengd prjónaskap og ég klára allt annað sem ég tek mér fyrir hendur! Eða það held ég að minnsta kosti...

Bæti því við hér að ósk eiginmannsins að mín bíða speltvöfflur í eldhúsinu, bakaðar af honum, og nú er ég farin að borða vöfflur með rjóma :-)

föstudagur, 27. október 2006

Mér leiðast rútínur

Þegar ég hef fylgt sama munstrinu í nokkurn tíma kemur yfirleitt að því að ég nenni því ekki lengur. Þarf smá tilbreytingu. Ég hef synt á hverjum morgni alla virka daga núna í haust og verið mjög ánægð með það. Svo í morgun nennti ég allt í einu ekki í sund. Langaði að gera eitthvað annað. Vissi þó ekki hvað það ætti að vera. Þannig að nú er klukkan orðin 8.34 og ég er ekki búin að gera neitt af viti ennþá. Byrjaði á því að lesa blöðin (eða hluta af öllu því blaðafargani sem kemur hér inn um lúguna á morgnana) og færði mig svo inn í tölvuherbergið og fór að lesa blogg. Íhugaði að leggja mig aftur því ég hef verið svo þreytt undanfarið en aldrei þessu vant þá fann ég að ég var of vel vakandi til þess að geta sofnað aftur. Það vantar svo sem ekki verkefnin, ég gæti t.d. skúrað eldhúsgólfið og farið með rusl upp í Endurvinnslu - en í augnablikinu nenni ég ekki að gera neitt svo viturlegt. Spurning að fara í bað, fara út að ganga, prenta út peysuuppskriftina af netinu (garnið kom með póstinum í gær), hafa samband við vinkonu mína - eða bara halda áfram að sitja eins og svefngengill fyrir framan tölvuna og lesa fleiri blogg... ?


sunnudagur, 22. október 2006

Finnst ég eiginlega þurfa að blogga

til að halda uppi heiðri mínum á þessum vettvangi - en hef verið svo andlaus undanfarið að mér finnst ég ekki hafa neitt að segja. Get þó sagt frá því að mín elskulega systir er búin að kaupa fyrir mig garn í peysu og ég hlakka til að fara að prjóna. Þetta er gróft garn (sem ætti að henta mér vel, þetta gengur þá hraðar fyrir sig) í dökkbrúnum lit en ég er í einhverjum brúnum fasa þessa dagana. Því miður eru fataverslanir hér norðan heiða lítið birgar af þessum brúna lit svo ég held áfram að ofnota þessar tvær flíkur sem ég á í brúnu þar til peysan er tilbúin.

Nú styttist í að Pottar og prik fari að auglýsa en lógóið er loksins tilbúið! Það gekk nú hálf erfiðlega að velja litinn á það en hann er einhvers konar blanda af gráu, brúnu og grænu... Hm, hljómar kannski undarlega en ég held að hann verði fínn. Þannig að vonandi náum við að fá skilti framan á búðina og auglýsingu í Dagskrána á miðvikudag. Hér byggist allt á því að auglýsa í Dagskránni því milli 80 og 90% Akureyringa lesa þann miðil. Sem er ágætt, það einfaldar málið verulega. Okkur vantar ennþá nýtt afgreiðsluborð, nýjar innréttingar að hluta og nýja heimasíðu - en þolinmæði þrautir vinnur allar svo það er um að gera að temja sér dágóðan skammt af þeim eiginleika. Þolinmæði hefur reyndar ekki verið mín sterkasta hlið í gegnum árin en mér finnst ég nú hafa tekið stórstígum framförum hvað það snertir :-)

þriðjudagur, 17. október 2006

Það reyndist erfiðara en ég hélt

að finna garn og uppskrift að peysu. Það eru þrjá verslanir á Akureyri sem selja slíkar vörur og ég komst að því í gær að þær eru með nánast sama úrval af garni og uppskriftablöðum. Fann ekkert sem mig langaði í, a.m.k. enga uppskrift að peysu á mig. Fann fallegar smábarnauppskriftir en þar sem ég á ekkert lítið barn og mér vitanlega er ekkert slíkt á leiðinni hjá öðrum fjölskyldumeðlimum þá voru þær uppskriftir ekki alveg að gera sig fyrir mig. Ein vinkona mín á reyndar lítið barn en hún erfir prjónafatnað í stórum stíl frá frænkum sínum svo ekki vil ég bæta á það.

Það var ekki fyrr en mér datt í hug að fara á netið (já já hefði sjálfsagt átt að byrja á því, liggur í augum uppi) að ég fann peysuuppskrift sem mér líst á. Þær má finna í hundraðatali inni á Garnstudio.com og Anna systir var örugglega búin að segja mér frá því einhvern tímann en ég og mitt gullfiskaminni náðum ekki að muna eftir því. Alla vega, ég fann peysu og Anna er búin að lýsa sig reiðubúna að kaupa viðeigandi garn í Noregi þannig að nú er mér ekkert að vanbúnaði.

Í leit minni að prjónauppskriftum (sem byrjaði inni á síðu Vestanpóstsins) þá rakst ég á mörg skemmtileg prjónablogg og verða bara að segja: "Mikið ósköp sem margar konur eru duglegar!"

föstudagur, 13. október 2006

Tómstundir

hafa verið af skornum skammti undanfarin ár ýmissa hluta vegna. Nú bregður hins vegar svo við að ég hef tíma aflögu í sólarhringnum og veit ekki alveg hvað ég á að gera við hann. Er reyndar með eitt verkefni í gangi, mér liggur við að segja eilífðarverkefni því mér gengur eitthvað svo hægt að vinna í því, en nú helltist allt í einu yfir mig gríðarleg löngun til að gera einhverja handavinnu. Ætli prjónaskapur verði ekki fyrir valinu og þá vantar mig bara garn og uppskrift! Það er af sem áður var þegar ég var svo forfrömuð (eða kaldrifjuð) að prjóna jólakjól á dóttur mína án þess að hafa uppskrift til að fara eftir. Hvítan kjól með rauðum hjörtum í borða neðst á ermum og faldi (ef ég man rétt...). Those were the days!

miðvikudagur, 11. október 2006

Kostir og gallar

fylgja nánast öllu, þ.e. yfirleitt er hægt að finna bæð eitthvað jákvætt og neikvætt við flesta hluti.

Þar sem ég byrja oft ekki að vinna fyrr en milli kl. 9 og 10 og stundum ekki fyrr en kl. 14 þá þarf ég ekki lengur að drífa mig í sund jafn snemma og ég gerði í fyrravetur. Þá stefndi ég yfirleitt að því að vera komin út úr húsi í síðasta lagi kl. 7.40 en núna er ég 20-30 mínútum seinna í því.

Kosturinn er sá að núna hef ég laugina nánast út af fyrir mig (a.m.k. heila braut alein). Það er gott því þá get ég synt flugsund en núna reyni ég alltaf að enda á því að taka nokkrar flugsundsferðir. Ástæðan? Jú, það styrkir bæði maga- og rassvöðva. Ég áttaði mig nefnilega á því að síðan ég byrjaði að synda reglulega (skriðsund með froskalappir) styrktust lærvöðvarnir all verulega en ýmsir aðrir vöðvar ekki neitt. Þannig að ég keypti mér líka "blöðkur" á hendurnar til að styrkja handleggsvöðvana og svo fattaði ég að flugsundið væri gott fyrir áðurnefnda vöðva. Tel mig ná að dekka það helsta með þessu...

Gallinn er sá að núna missi ég af því að hlusta á konurnar skvaldra í búningsklefanum, þær eru flestar farnar þegar ég kem uppúr.

Þannig að nú þarf ég að velja hvort ég met meira, að sleppa við að synda í braut með 2-3 öðrum (hver og einn á sínum hraða), eða að hafa félagsskap skemmtilegra kvenna. En það viðurkennist hér með að ég sakna þess ótrúlega mikið að hlusta á konurnar spjalla saman og taka þátt í samræðunum þegar svo ber undir. Þannig að líklega kem ég til með að vakna aðeins fyrr á morgnana og færa sundtímann fram um ca. 20 mínútur :-)

Fyrir utan flugsundið er ein önnur nýjung hjá mér í sundinu, ég tók upp á því að fara alltaf í kalda sturtu á eftir heita pottinum og gufunni. Mikið rosalega sem það er hressandi!

laugardagur, 7. október 2006

Nóg að gera

í nýrri vinnu. Við erum að taka í notkun nýtt sölukerfi og það fer ótrúlega drjúgur tími í að skrá allar vörurnar í búðinni inn í kerfið. En þetta er skemmtilegt engu að síður!

þriðjudagur, 3. október 2006

Lífsgleði

er eiginleiki sem ég hrífst mjög af hjá fólki. Kannski af því mér finnst ég ekki alltaf nógu lífsglöð sjálf, kannski af því að lífið er nú einu sinni til að lifa því og það er varla hægt að segja að maður lifi lífinu ef maður gætir þess ekki að gleðjast þegar ástæða er til og jafnvel þó engin sérstök ástæða sé fyrir hendi. Með þessu er ég ekki að segja að fólk eigi alltaf að vera á útopnu, heldur bara hafa augu og eyru opin og gleðjast yfir litlu hlutunum sem láta ekki alltaf svo mikið yfir sér en geta gefið manni svo mikið ef maður bara tekur eftir þeim.

Ein vinkona mín t.d. á við ýmsa erfiðleika að stríða en það er alveg sama hve svart útlitið er hjá henni, alltaf kann hún samt að gleðjast. Hún gleðst yfir fuglunum sem syngja í trjánum, yfir gróðurlyktinni, yfir sólinni sem skín o.s.frv.

Önnur kona sem beinlínis er stútfull af lífsgleði vinnur núna í sundlauginni hér á Akureyri. Hún er alltaf í góðu skapi, býður öllum góðan daginn með bros á vör og sýnir sérdeilis lagni við börn og gamalmenni.

Um helgina var ég t.d. að klæða mig í búningsklefanum og þar var líka móðir með tvo litla stráka. Sá yngri var svangur og þreyttur eftir sundið og mamman ákvað að gefa honum brjóst til að róa hann. Þá varð sá eldri (ca. 3ja ára) afar óþolinmóður og fór að láta öllum illum látum. Kemur þá konan sem áður er getið og fer að spjalla við strákinn. Hún nær athygli hans og hann spyr hvað hún sé að gera (hún var með moppuskaft í hendinni). Hún segist vera að þrífa gólfið en nú ætli hún að gera svolítið annað. Stráksi horfir opinmynntur á hana, spenntur að sjá hvað hún ætlar að gera. Það kemur brátt í ljós, því án þess að hika bregður hún sér "á bak" moppuskaftinu og tekur á rás inni í búningsklefanum. Sælubros breiddist um andlit stráksins og ég gat ekki annað en hlegið hjartanlega, hún var hreint út sagt óborganleg þar sem hún "reið á hestbaki" um klefann brosandi og glöð. Þau spjölluðu svo aðeins meira saman og stráksi varð ekki til meiri vandræða fyrir mömmu sína í þetta sinnið.

föstudagur, 29. september 2006

Matarlyst fer ekki alltaf saman við matarlist

Dygga lesendur þessarar síðu rekur án efa minni til þess að hafa séð pistla mína varðandi skort minn á matreiðsluhæfileikum. Hef ég iðulega fengið a.m.k. vægt kvíðakast þegar eiginmaðurinn hefur verið að heiman því það hefur í för með sér að ég þarf að elda. Nú er kokkurinn staddur í Rússlandi og ég þarf að sjá um matinn í rúma viku, nokkuð sem undir venjulegum kringumstæðum hefði gert mig klepptæka.

Ég tók hinsvegar meðvitaða ákvörðun um að stressa mig ekki upp út af þessu og hef verið sallaróleg þann tíma sem liðinn er. Byrjaði reyndar með því að panta pítsu s.l. laugardag en eldaði hrísgrjónagraut á sunnudaginn og fiskibollur í karrýsósu á mánudaginn. Á þriðjudeginum splæsti ég Subway á strákana því þá var ég sjálf á súpufundi hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri og á miðvikudaginn var ég með lambanagga með súrsætri sósu og hrísgrjónum. Ísak borðaði naggana með bestu lyst en sá eldri var nú ekki alveg jafn hrifinn og ég sá að ég yrði að hafa einhvern "alvöru" mat kvöldið eftir. Var svo heppin að í Fréttablaðinu þann dag var uppskrift að kjúklingabringum með pestói og fannst alveg gráupplagt að elda þær. En þar sem Ísak skellti sér í bíó með félögum sínum þá vorum við Andri bara tvö í mat og þess vegna var töluverður afgangur af matnum. Honum var komið fyrir inni í ísskáp, við hliðina á afgöngunum af hrísgrjónagrautnum og lambanöggunum.

Í dag vissi ég ekki hvað ég átti að elda en blaðið Birta kom mér til bjargar, eða öllu heldur Halla Bára Gestsdóttir blaðamaður. Hún var með uppskrift að tómatsúpu með makkarónum og ég var alveg viss um að súpan myndi falla í kramið hjá yngri syninum. Var ekki eins viss um þann eldri en hann var hvort eð er á leiðinni á handboltaæfingu og myndi því ekki borða mikið. Þegar ég var að saxa laukinn (þrjá skalottulauka) varð mér í smá stund hugsað til þess að ef til vill væri uppskriftin í stærra lagi fyrir okkur þrjú. Sú hugsun staldraði þó ekki lengi við og ég hélt áfram að gera súpuna. Dreypti á einu rauðvínsglasi við eldamennskuna og var harla ánægð með sjálfa mig. Ég gæti sko alveg eldað!

Þetta var alvöru súpa, engin pakkasúpa, og ég varaði drengina við því að þetta væri sko "the real thing" og þess vegna svolítið þykk. Ísak smakkaði súpuna og kvað upp þann dóm að hún væri góð. Ég varð auðvitað yfir mig glöð og þegar ég var búin að setja harðsoðna eggið ofaní súpuna mína og raspa parmesan ost yfir hana smakkaði ég líka og var alveg sammála syninum. Sá eldri sagði fátt. Eftir smá stund, þegar Ísak var ca. hálfnaður með skammtinn sinn, spurði hann hvort það væri til afgangur af hrísgrjónagraut. Þá var svarti piparinn farinn að segja til sín (NB! bróðir hans fann ekki einu sinni piparbragð enda vanur sterkum mat föður síns) og skyndilega var súpan ekki svo góð lengur.

Ég kyngdi stoltinu og sótti grjónagraut í ísskápinn og gaf honum. Handboltastrákurinn lét einn disk nægja og ég varð pakksödd af einum diski. Þannig að ég sit uppi með tæpan lítra af súpu í afgang. Er einhver svangur? Sá hinn sami getur valið um nagga, kjúkling eða súpu...

Blöð sem ég er búin að lesa í dag:

Morgunblaðið
Fréttablaðið
Blaðið
Birta
Orðlaus
Sirkus

er það nema furða að ég sé orðin hálf þung í höfðinu?

miðvikudagur, 27. september 2006

Nú get ég ekki þagað yfir leyndarmálinu lengur

Ég sem ætlaði ekki að segja neitt fyrr en allt væri klappað og klárt! En ég er sem sagt að fara að gerast verslunareigandi ásamt Sunnu vinkonu minni. Við ætlum að kaupa rekstur verslunarinnar Dagga og erum búnar að stofna nýtt félag um reksturinn og heitir það "Pottar og prik ehf". Verslunin mun einnig fá það nafn þegar við erum komnar með lógó (Dísa í Concept er að hanna það fyrir okkur) og búnar að breyta skiltinu utan á búðinni. Við ætlum sem sagt að versla með búsáhöld og umhverfisvænar ræstivörur og komum til með að fá vörur frá heildsölum hér á Íslandi (a.m.k. til að byrja með), t.d. frá Kokku á Laugavegi og fleirum. Við munum leggja áherslu á að vera með vandaðar vörur en þó reyna að bjóða upp á hluti í mismunandi verðflokkum svo fólk geti fundið eitthvað við sitt hæfi þó það sé ekki milljónamæringar:-) Svo verðum við með heimasíðu þannig að hægt verður að skoða/panta vörur og fá heimsendar með póstinum.

Þetta er búið að vera í bígerð síðan í sumar en nú er loks að verða af þessu og munum við taka við rekstrinum á mánudaginn. Þá byrja ég líka að vinna aftur og hætti þessu hangsi. Mér hefur reyndar liðið ljómandi vel í mínu langa sumarfríi en "vinnan göfgar manninn" eins og sagt er og ég hlakka til að takast á við þetta nýja og spennandi verkefni.

Þá vitið þið það!

mánudagur, 25. september 2006

Jæja, hvíldin um helgina hefur haft sitt að segja

ég er þónokkuð hressari í dag en undanfarna daga. Blogglesendum hlýtur að létta við þessar fréttir því þá fer ég kannski að skrifa um eitthvað annað en mitt ömurlega heilsufar ;-)

Ég fór í Bónus í dag. Passaði vel og vandlega að hafa með mér í bílinn gulu innkaupapokana sem ég keypti í þeirri sömu verslun á tvöhundruð kall stykkið (eða var það þrjúhundruð?) og rúma marga lítra af mjólk hver, auk annarra hluta. Mér finnst þessir pokar algjör snilld en áður en þeir fóru að fást í Bónus reyndi ég alltaf að taka kassa undir vörurnar. Eini gallinn við þetta allt saman er sá að mér tekst alltaf að gleyma pokunum í bílnum meðan ég fer og versla. Svo stend ég við kassann og byrja að setja vörurnar á bandið og þá fyrst man ég eftir pokunum í bílnum. Tvisvar sinnum hef ég verið með bílinn svo nálægt að ég hef getað hlaupið út og sótt þá á meðan kassadaman (eða drengurinn ef svo ber undir) klárar að renna vörunum í gegn, en í dag (og oftar) var bíllinn svo langt undan að það kom ekki til greina. Þannig að heim kom ég með þrjá plastpoka í hendi (engir kassar til í dag) og fínu innkaupasekkirnir lágu óhreyfðir í aftursæti bílsins. Þannig fór um sjóferð þá.

sunnudagur, 24. september 2006

Allsherjar andleysi

hefur hrjáð mig þessa helgina. Kenni ég þar um kvefinu sem ætlar engan endi að taka. Hálsbólgan er að vísu á undanhaldi en í staðinn er höfuðið á mér stappfullt af hor. Þannig að ég hef ekki verið til stórræðanna en brá á það ráð að reyna að sofa sem mest ef hvíld skyldi vera meðalið sem virkar á þessi ósköp. Fór snemma að sofa bæði föstudags- og laugardagskvöld og svaf lengi frameftir. Er ekki alveg viss um að allur þessi svefn hafi haft þau heilsubætandi áhrif sem honum var ætlaður - finnst ég vera ennþá slappari ef eitthvað er. Vona bara að botninum sé náð því þá hlýtur leiðin að liggja uppávið héðan í frá...

Annars er ég grasekkja þessa dagana því eiginmaðurinn skellti sér til Rússlands í laxveiði, hvorki meira né minna. Þessi ferð hefur verið marga mánuði í undirbúningi og hann var orðinn spenntur eins og smákrakki þegar hann loks lagði af stað. Gaman að þessu!

fimmtudagur, 21. september 2006

Mamma er 80 ára í dag

til hamingju með það mamma mín! Afmælisveislan var reyndar haldin í gærkvöldi og heppnaðist hún afar vel. Þrjár frænkur mínar, þær Sigga, Palla og Bára (bróðurdætur mömmu), voru svo rausnarlegar að gefa henni veisluna í afmælisgjöf og var hún haldin heima hjá Pöllu í Sæviðarsundi. Anna systir kom frá Noregi og Palli bróðir kom frá Danmörku og það var sérlega ánægjulegt að við skyldum vera þarna öll saman komin. Það gerist alltof sjaldan. Í dag hittumst við systkinin svo á Lækjartorgi, röltum uppá Laugaveg og enduðum inni á Te og kaffi þar sem við sátum heillengi og spjölluðum. Á leiðinni tilbaka rak ég augun í jurtaapótekið og rauk þangað inn til að kaupa mér eitthvað gott við hálsbólgunni sem hefur hrjáð mig í hálfan mánuð núna. Er orðin þreytt á "whisky voice", hósta og særindum. Vona bara að þetta virki!

þriðjudagur, 19. september 2006

80 skinkusnúðar

eru afrakstur nokkurra klukkutíma vinnu. Mér líður alla vega eins og ég hafi staðið hálfan daginn í eldhúsinu... Hef ekki bakað skinkusnúða í nokkur ár en dreif í því í dag vegna þess að mér leiddist. Önnur ástæða var sú að Ísak bað mig um að baka svona snúða fyrir einhverjum vikum eða mánuðum síðan (já framtakssemin er mikil á þessu heimili). Og eins og sannri húsmóður sæmir ákvað ég að gera tvöfalda uppskrift, án þess að spá mikið meira í það. Var ekki alveg viðbúin þeirri viðveru við eldhúsbekkinn sem þetta krafðist - en hafði svo sem ekki mikið annað að gera svo þetta slapp nú allt saman.

Á morgun stendur ferð til Reykjavíkur fyrir dyrum. Ég er búin að setja persónulegt met, ég sem fer nánast aldrei suður er að fara mína þriðju ferð síðan í byrjun ágúst!

mánudagur, 18. september 2006

Var að hengja út þvott áðan

í alveg yndislegu veðri. Nema hvað, einhvern veginn tókst mér að missa snjóhvítan stuttermabol niður í iðagrænt grasið, og ótrúlegt en satt þá kom grasgræna í bolinn! Bara við að detta í grasið kom fagurgrænn blettur beint framan á brjóstið. Ég skil ekki hvernig þetta er hægt (en það er nú svo margt sem ég skil ekki).

Talandi um bletti í fötum þá verður spennandi að sjá hvernig Andri kemur útleikinn heim úr skólanum í dag. Ég skildi ekkert í því að hann fór í vinnugallann þegar hann vaknaði í morgun en skýringin er sú að í dag er víst busavígsla. Stóra spurningin er bara hvaða "efni" verða notuð við vígsluna, skyldi það vera skyr eða eitthvað verulega ógeðslegt?

sunnudagur, 17. september 2006

Handbolti

hefur verið þema helgarinnar hér í Vinaminni. Andri var að keppa og til tilbreytingar fór mótið fram hér á Akureyri, nokkuð sem gaf okkur tækifæri til að fylgjast með leikjunum. Það hafði reyndar ekki góð áhrif á röddina í mér sem var nú tæp fyrir. En ég bara get ekki mætt á leiki án þess að hvetja. Í fyrravetur var ekki eitt einasta mót fyrir norðan heldur þurftu strákarnir að fara margsinnis suður til að keppa. Já, svona er að búa úti á landi... Annars hefur Andri hafið nám í þeirri virðulegu menntastofnun MA og fetar þar með í fótspor systur sinnar. Ja og mín líka, nema hvað ég var algjör aumingi og hætti þar námi eftir nokkra mánuði á sínum tíma. Ég treysti því að hann taki ekki upp á slíkum heimskupörum... Annars má segja að líklega hefðum við Valur aldrei hist ef ég hefði ekki hætt í MA svo eiginlega var það bara til góðs þegar upp er staðið. Held að ég láti þetta gott heita í bili, sjáumst síðar.

föstudagur, 15. september 2006

Gömul og ung (eða ung og enn yngri... ;-)


gps&hse, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hér má sjá dóttur mína á flugvellinum rétt áður en hún flaug af landi brott til baunaveldis. Þar sem hana er hvorki að finna á msn né skype í augnablikinu brá ég á það ráð að horfa á mynd af henni í staðinn. Að vísu er mamma gamla með á myndinni...

Sundið

var sérlega ljúft í dag, að minnsta kosti framan af. Þegar ég byrjaði að synda reglulega að nýju eftir áratuga hlé velti ég því oft fyrir mér hvað það væru mikil forréttindi. Að geta farið í sund á morgnana fyrir vinnu, sama hvernig sem viðrar, og svo er afslöppunin í heita pottinum á eftir alveg gulls ígildi. Smám saman verður þetta að vana og maður hættir að hugsa um það hvað þetta er frábært allt saman.

En í morgun var alveg sérlega yndislegt að synda. Ég var óvenju seint á ferð og það var verið að kenna þremur bekkjum skólasund, með tilheyrandi hávaða og látum í krökkunum. Sólin skein og ég fann að ég er farin að hressast eftir þessa pesti sem hefur verið að angra mig undanfarið. Að vísu var ég reyndar nærri búin að lenda í árekstri við mann sem synti allt í einu þvert í veg fyrir mig rétt í því andartaki sem ég var að spyrna mér frá bakkanum. Ég þurfti að snarbremsa og hann baðst afsökunar og þá ætlaði ég að segja að þetta væri í góðu lagi en röddin í mér var ekki alveg að hlýða svo það heyrðist bara eitthvað krunk í mér.

Svo kláraði ég dagskammtinn (er núna 750 metrar, var 1000 metrar fyrir veikindin) og fór í pottinn. Sat þar og hlustaði á skvaldrið í krökkunum og horfði á geisla sólarinnar smella léttum kossi á allt sem á vegi þeirra varð þegar ég fann að það byrjaði að leka úr nefinu á mér. Minnug þess að hafa fengið blóðnasir í gær greip ég um nefið á mér og jú jú, það var byrjað að fossa úr því á ný. Dreif mig upp úr pottinum og inn i hús og mætti á leiðinni manninum sem ég hafði nærri klesst á. Hann leit undrandi á mig og spurði hvort ég hefði lent í árekstri við einhvern annan og slasað mig... ég sagði að þetta væru bara saklausar blóðnasir og í þetta sinn heyrðist alla vega hvað ég sagði, hæsin aðeins á undanhaldi.

Þessi friðsæla sundferð endaði með því að ég þurfti að standa heillengi í sturtuklefanum á meðan ég beið eftir því að blóðnasirnar hættu - sem þær gerðu fyrir rest. En ekki áður en kona ein hafði sagt mér söguna af mömmu sinni sem var alltaf að fá blóðnasir og þá kom í ljós að hún var með of háan blóðþrýsting. Ég fullvissaði konuna hins vegar um að ekkert væri að mínum blóðþrýstingi, ég væri bara búin að snýta mér svo mikið undanfarið ...

fimmtudagur, 14. september 2006

Auglýsi hér með eftir húsráðum við hæsi

Er búin að vera svo þegjandi hás síðan í gær að ég get ekki haldið uppi eðlilegum samræðum við fólk. Veit ekki hvort þetta er einhver ábending til mín um að tala minna yfirhöfuð, en mikið óskaplega sem þetta er þreytandi ástand. Var t.d. áðan í klippingu og litun og átti í mestu erfiðleikum með að gera mig skiljanlega við hárgreiðslukonuna. Sem er reyndar vinkona mín og mér þótti enn verra að geta ekki spjallað almennilega við hana. Að svara í símann er hreinasta hörmung og hið sama má segja um að bjóða góðan daginn í verslunum. Ef ég fer í Pollýönnuleik þá dettur mér helst í hug að ég megi vera heppin að vera ekki í vinnu þessa dagana. Það hefði t.d. ekki verið gaman að vera að kenna undir þessum kringumstæðum!

Berjatími


krækiber, originally uploaded by Guðný Pálína.

Af því margir eru að tína ber þessa dagana þykir mér við hæfi að birta hér mynd af krækiberjalyngi. Myndin var að vísu tekin fyrr í sumar, á Seyðisfirði, en þar rákumst við á fullþroskuð aðalbláber og krækiber í lok júlímánuðar.

miðvikudagur, 13. september 2006

Anna systir á afmæli í dag

og fær hér með senda afmæliskveðju alla leið til Noregs :-) Ætlaði nú reyndar að hringja í hana en þá var hún upptekin í hinum símanum - að tala við mömmu... Ég geri aðra tilraun á eftir, en blogga á meðan ég bíð.

Eins og velflestir hafa gert sér grein fyrir eru skólarnir byrjaðir að nýju, með tilheyrandi foreldrafundum og fjöri. Ég mætti á einn slíkan fund nú í vikunni þar sem verið var að kynna skólastarf vetrarins. Þegar leið að lokum fundarins kvaddi ein mamman sér hljóðs og spurði hvernig kennaranum litist á ákveðna kennslubók í stærðfræði. Ég kveikti strax á perunni þegar hún nefndi bókina því kvöldið áður hafði ég setið með sveittan skallann að reyna að aðstoða Ísak við heimanámið.

Áður en lengra er haldið ber þess að geta að Ísak þarf nánast aldrei aðstoð við að læra heima, hann sér alveg um þetta sjálfur. En í þetta sinnið gekk honum illa að kljást vð ákveðið reikningsdæmi þar sem m.a. átti að teikna hring og inn í hann sexhyrning, sem aftur átti að skipta í jafnhliða þríhyrninga, og loks átti að mæla stærð hornanna á þríhyrningunum. Þetta tók nú töluvert á mig enda hefur stærðfræði aldrei verið mín sterka hlið en að lokum var það drengurinn sjálfur sem kláraði dæmið.

Kennarinn kannaðist ekki við að krakkarnir hefðu átt að leysa sérlega flókið dæmi heima og sótti bókina til að athuga hvað málið snérist um. Ekki kannaðist mamman við bókina sem kennarinn kom með og ég sá strax að þetta var ekki bókin sem Ísak hafði verið að læra í. Hann hafði verið með verkefnabók sem tilheyrði þessari og ég sagði kennaranum það. Þá kom upp úr kafinu að strákarnir okkar báðir og einn í viðbót höfðu tekið vitlausa bók með sér heim. Ekki var búið að fara í efnið sem dæmið fjallaði um og þar af leiðandi ekki nema von að þeim gengi illa að leysa það.

Þegar ég áttaði mig á því hvernig í öllu lá og varð hugsað til þess hvað ég eyddi miklum tíma í að klóra mér í höfðinu yfir þessu dæmi, fannst mér þetta allt saman eitthvað svo fyndið að ég sprakk úr hlátri og átti erfitt með að hætta að hlægja. Hinir foreldrarnir horfðu á mig og hafa örugglega ekkert skilið hvað var svona fyndið - enda veit ég það varla sjálf...

þriðjudagur, 12. september 2006

Þegar ég kynntist manninum mínum

var hann sannkallaður skipulagsfíkill hvað snertir ákveðna hluti. Sem dæmi má nefna að þegar hann hafði sótt myndir í framköllun raðaði hann þeim samstundis í albúm og losnaði þannig við vandamál sem margir kannast við. (Vandamálið að sitja uppi með ótal myndabunka og vaxa það svo mikið í augum að raða þeim í albúm að fólk sleppir því frekar). Bræður hans áttu það til að gera grín að honum fyrir þessa skipulagsáráttu en ég held að þeir hafi nú bara öfundað hann ;-)
Nema hvað, ég fór fljótt í sama farið og það var aldrei nein óregla í myndasafninu hjá okkur - fyrr en stafræn myndavél kom á heimilið. Þá voru ekki framkallaðar myndir svo mánuðum/árum skipti og þegar það var loks gert voru framkallaðar nokkur hundruð myndir. Við fengum bara þrjá risastóra bunka í hendurnar og mér féllust hendur þegar að því kom að raða í albúm. Er búin að geyma allt heila klabbið ofan í skúffu í rúmt ár og hef aldrei komið mér að því að raða þeim. Ætlaði svo að byrja núna í kvöld - en aftur féllust mér hendur. Þurfti að sækja tölvuna til að geta sorterað og raðað nokkurn veginn í rétta tímaröð og þegar það var búið nennti ég ekki meiru. Þannig að blessaðar myndirnar eru ekki enn komnar í albúm - og heilt ár sem á eftir að framkalla og raða í albúm... Já, tæknin er til framfara á ýmsum sviðum en ekki öðrum!


miðvikudagur, 6. september 2006

Það er eiginlega stórskrýtið

hvernig ég dett í og úr stuði til að blogga. En ég er sem sagt á lífi ennþá, kvennaklúbburinn gekk vel og svo fór helgin síðasta mestmegnis í að halda áfram að taka til og henda hlutum. Nú er ég að verða búin að fara í gegnum öll herbergi í húsinu og grynnka á þessu endalausa dóti sem vill safnast fyrir í krókum og kimum, engum til gagns. Valur er líka búinn að taka bílskúrinn í gegn og nú á ég bara eftir geymsluna undir stiganum, þá er þetta komið.

Annars er ég heimavinnandi húsmóðir þessa dagana og kann því bara nokkuð vel. Fínt að byrja daginn á því að synda og koma svo heim aftur og fá sér morgunmat og lesa blöðin í rólegheitum. Taka úr uppþvottavélinni, ryksuga, þvo þvott og gera önnur tilfallandi húsverk. Enda hefur húsið sjaldan verið svona fínt hjá mér... Ég er nefnilega ekki beint þessi týpa sem er með allt strokið og hreint alla daga, þannig að þetta er ágætist tilbreyting ;-)

fimmtudagur, 31. ágúst 2006

Leitið og þér munuð finna

Já, að sjálfsögðu fann ég blessaða bókina, þýðir ekkert að gefast upp...

Þoli ekki þegar hlutir gufa upp

á að því er virðist yfirnáttúrulegan hátt. Að sjálfsögðu er það yfirleitt maður sjálfur sem hefur lagt þá frá sér á vitlausan stað - en sama hvað maður leitar þá finnur maður ekki hlutinn sem um ræðir. Í þetta skiptið er það lítil bók sem ég skrifa í matreiðsluuppskriftir. Það er nú svo skrýtið með það að þó eiginmaðurinn sé aðal kokkurinn á heimilinu þá safna ég líka uppskriftum. Kannski kökur og smáréttir fái þó meira pláss en heimilismatur, skal ekki segja. En nú ætla ég að vera með konuklúbb á föstudaginn og þá vantar mig blessaða uppskriftabókina - sem er gufuð upp! Ekki þar fyrir, það eru heilu bílfarmarnir af matreiðslubókum og blöðum til í húsinu, en ég vil samt finna bókina MÍNA.

miðvikudagur, 30. ágúst 2006

Nú er úti veður vott

verður allt að klessu.
Ekki á hún Gunna gott
að gifta sig í þessu.

Ekki er ég á leiðinni í brúðkaup en þessi vísa kom upp í hugann þegar ég sat og horfði út um gluggann. Það er svona "þægileg" rigning úti og alveg blankalogn, sem sagt fallegt rigningarveður. Ég ætla að drífa mig út að ganga á eftir (í nýja regnjakkanum að sjálfsögðu :-)

Félagar mínir, þau Birta og Máni, eru hins vegar ekki hrifin af þessu veðri og þeirra viðbrögð eru að sofa megnið af sólarhringnum. Eiginlega er ég bara fegin því þau gera þá ekki eins mikið af sér á meðan. Þau hafa nefnilega tekið upp á þeim ósóma að "merkja" húsið svo það sé nú alveg ljóst hver eigi heima hér. Það bar svolítið á þessu í fyrrasumar en ekkert í vetur. Svo byrjaði fjörið á nýjan leik nú í sumar. Þau eru ekki að pissa í þeimi skilningi, heldur spreyja smá skvettu á veggina (sem svo lekur niður á gólf) en afleiðingin er sú sama: ólykt. Sérstaklega ef skaðinn uppgötvast ekki í tíma.

Þannig að ég er stöðugt á varðbergi og keypti sérstakt lyktar- og blettaeyðandi spray til að nota í þessu samhengi. Ef ég næ að uppgötva "slysið" nógu snemma og get notað þetta efni þá kemur hvorki lykt né blettur. En það tekst ekki alltaf. Það er líka hægt að kaupa Feliway (lyktarhormón) sem á að virka róandi á ketti og láta þá hætta þessu en það efni er rándýrt og mér fannst það nú ekki virka neitt rosalega vel í fyrra þegar við prófuðum það.

Hins vegar gengur þetta náttúrulega ekki svona, ég er að breytast í einn stresshnút út af þessu og það er búið að takmarka aðgang kattanna að stórum hluta hússins, sem fer gríðarlega í taugarnar á þeim (sérstaklega Birtu þó). Ætla að tala við dýralækni og sjá hvort einhver fleiri ráð eru í stöðunni. Er ekki alveg tilbúin að láta lóga þessum heimilismeðlimum vegna þessa - en mun líklega neyðast til þess ef ekki finnst einhver lausn. Þetta er erfitt líf!

þriðjudagur, 29. ágúst 2006

Hef ekkert að segja - og ætti því að þegja

En lífið er ekki svo einfalt að maður geri alltaf það sem maður ætti að gera - og þess vegna blogga ég í dag.

Er búin að endurheimta eiginmanninn úr veiði, sonum okkar til mikillar ánægju því þá fá þeir loks ætan bita á matmálstímum á ný. Ég er búin að átta mig á því að þeir eru orðnir alltof góðu vanir og matur sem þótti frambærilegur hér áður fyrr, þykir það ekki lengur, því sælkerakokkurinn er alltof oft með eitthvað gott að borða. Sem dæmi má nefna þá keypti ég heilgrillaðan kjúkling með frönskum og gosi á tilboði í Hrísalundi um helgina og þeir snertu varla á þessum "kræsingum". Frönskurnar þóttu vondar og kjúklingurinn þurr! Og ég var sú eina sem borðaði tikka masala sósuna (úr krukku) með. Heimatilbúin pítsa féll reyndar vel í kramið en svokallað "hátíðarkjöthakk" gerði það hins vegar ekki. Það þarf alla vega enginn að efast um mikilvægi fjölskylduföðursins hér á heimilinu :-) Mín verk s.s. að þvo þvottinn, laga til og þrífa, falla hins vegar óhjákvæmilega í skuggann, en svona er þetta víst bara...

Annars hafði ég lúmskt gaman af því þegar nýráðinn forstöðumaður Ferðamálaseturs hringdi í mig vegna heimasíðu stofnunarinnar. Hann hafði frétt að ég hefði verið að vinna í síðunni í fyrrasumar og hélt að ég væri algjör gúrú í þessum efnum (smá djók!). Ég fór og kíkti á hann i morgun og sá að það sem hann var að bögglast með hafði ég ekki heldur getað leyst í fyrra. Ég var hins vegar svo heppin að fá aðstoð hjá honum Jóa sem var þá að leysa af á Gagnasmiðjunni en er nú útskrifaður tölvunarfræðingur. Þannig að ég gat ekki annað en sagt manninum eins og satt var, að mér hefði nú ekki tekist þetta á eigin spýtur heldur fengið aðstoð. Hann vildi þá vita hjá hverjum og nú er bara spurning hvað hann gerir við þær upplýsingar, hvort Jói greyið fær símtal...

mánudagur, 28. ágúst 2006

Hver er að þramma á brúnni minni?

Leikið við lækinn


Leikið með vatn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Nýji regnjakkinn minn


Við Skálanes, originally uploaded by Guðný Pálína.

er í svolítið skærum litum eins og sjá má á þessari mynd. Ég hafði samt ekki reiknað með allri þeirri athygli sem ég fæ út á jakkann. Fór út að ganga í gær og það var horft svo mikið á mig að ég fór hálfpartinn hjá mér. Akureyringar eru reyndar þekktir fyrir að horfa mikið á náungann, en þetta var eiginlega "too much". Jakkinn er samt afskaplega þægilegur, lipur og mátulega hlýr.

sunnudagur, 27. ágúst 2006

Fersk í morgunsárið

Það er eitthvað alveg sérstakt við það að fara í sund snemma á morgnana um helgar. Nánast enginn í lauginni og eitthvað svo mikil ró yfir öllu. Ég hjólaði í sundið (hef verið bíllaus síðan á fimmtudaginn og finnst það fínt!) og fannst ég vera alveg hrikalega fersk. Stefni svo að því að fara út að ganga seinna í dag. Önnur verkefni dagsins eru að klára að fara yfir próf í markaðsfræðinni og laga til í húsinu. Og aldrei að vita nema ég baki eina köku eða svo...

föstudagur, 25. ágúst 2006

Flutningur milli herbergja

Þegar Hrefna byrjaði í menntaskóla á sínum tíma þótti okkur nauðsynlegt að hún fengi almennilegt skrifborð. Því var keypt handa henni nýtt borð en sá galli fylgdi gjöf Njarðar að það komst ekki fyrir í herberginu hennar. Þess vegna upphófust hinir mestu hreppaflutningar. Hrefna fékk herbergið sem við hjónin höfðum verið í (það er stærsta herbergið á hæðinni), Andri fór inn í hennar gamla herbergi og við fórum í herbergið sem Andri hafði verið í (sem er reyndar hjónaherbergið samkvæmt teikningu). Þessu fylgdi smá málningarvinna því Hrefna vildi fá nýjan lit á sitt herbergi og við skiptum líka um lit á hjónaherberginu.

Ísak var áfram í minnsta herberginu þar til Hrefna flutti að heiman en þá var aftur skipt um herbergi, Ísak fór í Andra herbergi, Andri í hjónaherbergið og við í stærsta herbergið aftur. Ég fékk Ísaks herbergi sem vinnuherbergi og er alsæl með það. Sit þar inni í þessum töluðu (skrifuðu) orðum.

Nú er Andri að hefja menntaskólanám í haust og erfir gamla skrifborðið hennar systur sinnar. Bindum við vonir við að hann sýni lit og fari að læra heima þegar hann fær betri aðstöðu til heimanáms. En hjónaherbergið rúmar hins vegar ekki svo mikið, því einn veggur fer undir skáp og á öðrum er gluggi og stór ofn. Þannig að enn á ný þurfti að breyta um herbergi, og í það fór gærdagurinn hjá okkur mæðginum. Í þetta sinn var þó ekkert málað en engu að síður er þetta ótrúlega mikið rask og töluverð vinna að færa öll húsgögn á milli, þrífa og nota tækifærið og grisja úr skápum og hillum. En hann er núna kominn með fínustu aðstöðu, sér skrifborð og sér tölvuborð, og svo fékk hann stóra kommóðu undir fötin sín.

Eini gallinn er sá að þó ég eigi ekki mikið af fötum (alveg satt!) þá er skápurinn í hjónaherberginu þess eðlis að það rúmast ekki vel í honum og hann er ekki stór á nútíma mælikvarða. Þannig að fötin mín komast ekki öll fyrir í mínum hluta skápsins og ég sé fram á að þurfa að fá mér kommóðu til að hafa við fótagaflinn á rúminu. Það verður reyndar pínu þröngt en sleppur samt alveg. Og MALM kommóðurnar frá IKEA eru rosalega rúmgóðar - þannig að ég ætti að verða í góðum málum :-)

Dóttir mín er reyndar þeirrar skoðunar að það sé hvergi skipt jafn oft um herbergi eins og hér í Vinaminni - spurning hvort það er rétt hjá henni?

fimmtudagur, 24. ágúst 2006

Máttur bloggsins

Um leið og Hrefna fékk að vita að hún hefði komist inn í læknisfræðina í Kaupmannahöfn byrjaði fjörið að leita sér að húsnæði. Hún fór á netið og skráði sig hjá einhverri leigumiðlun og las jafnframt allar auglýsingar sem hún fann annars staðar. Ekki hafði hún haft heppnina með sér þegar stúdentaíbúðum var úthlutað, enda langur biðlisti þar. En skömmu síðar var ég að leita að einverju á netinu og sló leitarorðinu upp á Google (man ekki lengur að hverju ég var að leita enda er það aukaatriði í þessu samhengi ;-) Nema hvað, ég lenti þá inni á einhverri bloggsíðu og ætlaði að fara að loka henni þegar ég sá tengil á Vaðbrekkuætt í tenglasafni hjá viðkomandi manneskju. Þetta vakti forvitni mína því vinkona okkar er af Vaðbrekkuætt og ég vissi að það hafði nýlega verið ættarmót hjá þeim. Smellti á tengilinn og sá að þarna var að finna ýmsar upplýsingar um ættina s.s. ættartré. Einnig var listi yfir þá ættingja sem voru með bloggsíður. Ég smellti af rælni á eitt nafnið á listanum. Þetta var kona og yfirskriftin á nýjasta blogginu hennar var eitthvað í þá áttina að biðin væri á enda, dóttir hennar hefði komist inn í læknisfræði í Köben. Þetta fannst mér ansi skondin tilviljun svo ég smellti mér inn á síðu dótturinnar. Þar voru sömu fréttir að finna, en auk þess kom í ljós að hún og kærastinn voru búin að fá íbúð en þau vantaði meðleigjanda því þetta var svo stór íbúð og kostaði 8 þús. danskar á mánuði. Þessar upplýsingar lét ég síðan ganga áfram til dóttur minnar og hún er núna farin að leigja með þessum krökkum! Segið svo að bloggið svínvirki ekki :-)

þriðjudagur, 22. ágúst 2006

Ég tók þessa mynd af krökkunum


Systkinin, originally uploaded by Guðný Pálína.

í dag í tilefni þess að Hrefna var að flytja til Danmerkur. Andri stendur neðar í tröppunni heldur en Hrefna og Ísak til að leyfa Hrefnu að "vera stærst". Hún er ekkert voðalega ánægð með það hvað bróðir hennar er orðinn mikið stærri en hún. En hann er reyndar orðinn stærri en við foreldrarnir svo hún þarf nú ekki mikið að kvarta... En það voru blendnar tilfinningar að fylgja henni á flugvöllinn. Stolt yfir því að "litla" stelpan mín er orðin svona stór en jafnframt söknuður yfir því að hún er að flytja til útlanda og ég kem ekki til með að hitta hana mikið næstu sex árin (að minnsta kosti). En þetta er víst gangur lífsins og hægt að gleðjast yfir því að hún skuli vera að fara að gera það sem hana langar til.

mánudagur, 21. ágúst 2006

Það er mesta furða

að ég skuli ekki vera orðin hnöttótt í laginu:

- ég borða þegar ég er svöng
- ég borða þegar ég er stressuð
- ég borða þegar ég er þreytt
- ég borða þegar ég er leið
- ég borða þegar ég mig vantar orku
- ég borða þegar ég sit lengi við vinnu
- ég borða fyrir framan sjónvarpið á kvöldin

Það er nánast bara þegar ég er svöng sem ég borða hollan mat, hin fæðan samanstendur af óhollustu s.s. súkkulaði, sætindum og kexi. Hef þó reynt að bæta við hnetum, fræjum, gulrótum og einstaka ávöxtum en hef enga sérstaka fíkn í svoleiðis hollustu...

Um daginn var viðtal í Fréttablaðinu við bandarískan þingmann sem kom hingað til lands til að halda fyrirlestur um næringu og heilbrigðan lífsstíl. Þingmaðurinn vill meina að af því við borðum svo mikið af óhollustu og mat sem er svo mikið unninn að hann skortir öll næringarefni, þá kalli líkaminn í sífellu á meiri mat því hann fær ekki þá næringu sem hann þarfnast. Og við bregðumst við með því að borða meiri óhollustu... Ekki gott mál og mesta furða hvað við mannfólkið getum farið illa með þennan eina líkama sem okkur áskotnast í vöggugjöf.

Ég er alltaf að reyna að borða hollari mat í heildina séð (og Valur eldar hollan mat, bara svo það sé á hreinu, það er ég sjálf sem sé um að koma óhollustunni inn fyrir mínar varir). Þó skortir mikið uppá að ég nái 5 skömmtum af ávöxtum og grænmeti á hverjum degi. En ég held áfram að reyna...

föstudagur, 18. ágúst 2006

Ekki þurfti mikið að gerast

til að ég kæmist út úr þessu doða-ástandi sem hefur verið á mér síðustu dagana. Ég fékk símhringingu frá háskólanum þar sem ég var beðin að taka að mér að búa til + fara yfir ágústpróf í markaðsfræðinni. Strax og ég var komin með eitthvað svona "áþreifanlegt" verkefni þá fylltist ég orku (a.m.k. tímabundið) þó ekki ætlaði ég nú að skila prófinu af mér fyrr en á mánudaginn. Þá var aftur haft samband frá háskólanum. Einn nemandi hafði skráð sig í ágústpróf í neytendahegðun og nú þarf að búa til próf í hvelli því prófið er á þriðjudagsmorguninn. Og eins og alltaf þá get ég ekki bara drifið mig í að gera hlutinn sem þarf að gera, nei fyrst þarf ég að laga til, setja í þvottavélina og gera alla (nei ekki alla, bara suma) hlutina sem ég hefði getað gert í vikunni en var of framtakslaus til að gera :-) En nú er ég farin að semja próf...

Ekki þurfti mikið að gerast

til að ég kæmist út úr þessu doða-ástandi sem hefur verið á mér síðustu dagana. Ég fékk símhringingu frá háskólanum þar sem ég var beðin að taka að mér að búa til + fara yfir ágústpróf í markaðsfræðinni. Strax og ég var komin með eitthvað svona "áþreifanlegt" verkefni þá fylltist ég orku (a.m.k. tímabundið) þó ekki ætlaði ég nú að skila prófinu af mér fyrr en á mánudaginn. Þá var aftur haft samband frá háskólanum. Einn nemandi hafði skráð sig í ágústpróf í neytendahegðun og nú þarf að búa til próf í hvelli því prófið er á þriðjudagsmorguninn. Og eins og alltaf þá get ég ekki bara drifið mig í að gera hlutinn sem þarf að gera, nei fyrst þarf ég að laga til, setja í þvottavélina og gera alla (nei ekki alla, bara suma) hlutina sem ég hefði getað gert í vikunni en var of framtakslaus til að gera :-) En nú er ég farin að semja próf...

fimmtudagur, 17. ágúst 2006

Þegar ég var lítil

datt mér einhvern tímann í hug að verða rithöfundur þegar ég yrði stór. Samdi nokkrar sögur og ljóð og var ekkert smá montin þegar saga eftir mig var lesin upp í Stundinni okkar, þegar ég var ca. 11 ára. Þrátt fyrir þessa góðu byrjun á ferlinum - og þrátt fyrir að draumurinn um að skrifa hafi kannski aldrei verið langt undan - hef ég gert flest annað en að skrifa.

Ég hætti í menntaskóla og fór í staðinn í sjúkraliðanám, eignaðist dóttur, vann sem sjúkraliði, skellti mér aftur í skóla og tók stúdentinn, flutti til Noregs, vann sem sjúkraliði, eignaðist son, gifti mig, stundaði nám í sálfræði, vann sem sjúkraliði, flutti til Íslands aftur, eignaðist annan son, var heimavinnandi, stundaði nám í viðskiptafræði, var atvinnulaus í eitt ár, stofnaði fyrirtæki og starfrækti  í tæp tvö ár, fór að kenna við háskólann, hætti að kenna... Þessa dagana er ég án vinnu og eftir að hafa verið ein með sjálfri mér í nákvæmlega fjóra daga er mér farið að leiðast. Samt er Ísak heima á daginn (fyrir utan fótboltaæfingar og leiki með félögunum) og aðrir fjölskyldumeðlimir eru heima eftir klukkan fjögur. Hið sama gilti þegar ég var atvinnulaus, mér leiddist alveg óskaplega. Nú skyldi maður halda að sá sem hefur allan þennan frítíma geti notað hann í eitthvað gáfulegt s.s. að þrífa húsið, reita arfa í garðinum, setja myndir í myndaalbúm, sauma nýjar eldhúsgardínur, laga til í skápum ofl. ofl. Verkefnin bíða í hrönnum og ég - ég geri nánast ekki neitt af viti.

Ég er fyrir löngu búin að komast að því að til að geta "virkað" eðlilega þarf ég samneyti við fólk. Þarf vissan skammt af örvun til að koma heilanum í gang. Og nú er ég loks að koma að því sem er mergurinn málsins með þessum pistli mínum: Ég gæti aldrei starfað sem rithöfundur, setið alein fyrir framan tölvuna lungann úr deginum án samveru við annað fólk. Það dugar mér ekki að fara í sund á morgnana og hitta svo engan fyrr en klukkan fjögur á daginn. Þegar ég var að kenna þá var það yfirleitt svo að ég var bara með kennslu tvisvar til þrisvar í viku, restina af tímanum sat ég inni á skrifstofu (ein) og var að undirbúa kennsluna, fara yfir verkefni o.s.frv. Og mér leiddist það alveg hörmulega. Fimmtán mínútna kaffitími á hverjum morgni dugði ekki til að slá á þörf mína fyrir mannleg samskipti, og ekki hafði ég tíma til að hanga hálfan daginn í kaffi.

Ergo: Eg þarf að vinna á vinnustað þar sem ég hitti margt fólk!

Bíllinn okkar er þeim eiginleikum gæddur

að láta vita þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera hjá honum. Til dæmis ef einhver lokar ekki hurðinni hjá sér nógu vel þá koma skilaboð á skjá um að farþegahurð sé opin. Fyrr í sumar komu skilaboð um að það þyrfti að fara með bílinn í þjónustuskoðun. Þriðjudag í þessari viku fór ég loks með bílinn á verkstæðið. Í viðbót við skoðunina þurfti að skipta um framrúðu því sú gamla brotnaði í steinkasti á íslenskum þjóðvegi, og eins þurfti að athuga einhverjar leiðslur því öryggið sem stýrir farþegasætinu frammí var alltaf að springa. Þetta gekk nú allt saman þokkalega en þeir voru samt heilan dag að stússast í bílnum.

Nema hvað, í morgun þegar ég var að fara í sund kviknaði rautt aðvörunarljós í mælaborðinu og skilaboð birtust á skjánum "Coolant low. Stop engine now." Ég verð að viðurkenna algjöra vankunnáttu mína varðandi bílvélar - ég vil bara geta komist milli staða og langar sem minnst að vita um starfsemi vélarinnar. En "coolant" datt mér helst í hug að væri einhvers konar kælivökvi og ég þorði ekki annað en fara með bílinn rakleiðis á verkstæðið til að tékka á þessu. Ja, ekki alveg rakleiðis þó, fór fyrst í sundið... Mikið sem strákurinn sem tók á móti mér á verkstæðinu skammaðist sín fyrir hönd sinna manna þegar ég sagði honum hvers kyns var. Jú, "coolant" var frostlögur og þeir hefðu átt að fylla á hann við skoðunina en hafði yfirsést það. Þannig að ég fékk fría áfyllingu af frostlegi og gat síðan ekið áhyggjulaus heim á leið.

þriðjudagur, 15. ágúst 2006

Mikið sem maður verður steiktur i höfðinu

af að vafra um á netinu. Hef setið fyrir framan tölvuna megnið af deginum (tja kannski aðeins orðum aukið...) og er komin með hausverk og augnverk - þokkalegt! Er ekki bara málið að drífa sig út að ganga og hrista þennan tölvusjúkdóm af sér?

mánudagur, 14. ágúst 2006

Ikke ble det noe blogg ifra Norge

en nú erum við Ísak komin heim aftur og hér kemur eitt stykki blogg:

Ég heyrði það strax í flugvélinni á útleið að ég var farin að stirðna í norskunni - fékk það betur staðfest þegar ég fór að tala við mág minn og vantaði alveg hrikalega mikið af orðum, a.m.k. fyrst í stað. Hófst handa við að lesa norsk tímarit hjá systur og smám saman skánaði ástandið. Var orðin nokkuð sleip í lok heimsóknarinnar og var þá jafnvel farin að hugsa á norsku - sem aftur gerði það að verkum að ég mundi ekki einföldustu íslensk orð... ekki einfalt mál sem sagt. Ég verð að segja að ég dáist að henni systur minni fyrir það hvað hún talar enn góða íslensku eftir ca. 25 ára dvöl í Noregi.

Annars var þetta afskaplega notaleg ferð og það besta var að sjálfsögðu að hitta Önnu og geta spjallað við hana. Ég vorkenni mér stundum hálfpartinn fyrir það hvað fjölskyldan er sundruð um allar jarðir (ég á Akureyri, mamma í Keflavík, Anna í Noregi og Palli bróðir í Danmörku) en svona er þetta bara - og fyrir vikið verður bara enn skemmtilegra að hittast!

Það eina sem plagaði mig var hitinn, sem var í kringum 30 gráður megnið af tímanum. Þrátt fyrir óhemju vatnsdrykkju þjáðist ég af svima (sem eiginmaðurinn segir mér að sé einkenni vökvaskorts) og var bara alveg að kafna úr hita til að byrja með. Þetta er eiginlega hálf tragískt, hér á Íslandi dreymir mann um hlýrra loftslag en svo þegar maður fær þá ósk sína uppfyllta þá nær maður ekki að njóta þess heldur verður bara slappur og aumingjalegur. Ég gerði amk. tvær tilraunir til að sitja úti í sólinni og lesa, svona til að fá smá lit á kroppinn, en gafst fljótlega upp í bæði skiptin og flúði inn í hús.

Dagskráin í Noregi einkenndist af því að gera eitthvað fyrir synina s.s. að fara í Askim badeland og Tusenfryd skemmtigarðinn + út að borða á pítsustað. En við fórum líka á Notodden bluesfestival og hlýddum þar á tónleika með Gary Moore og smá verslunarleiðangur í Ski storsenter (þó ekki "shop till you drop" í þetta sinnið) og ég rölti um á Karl Johann meðan Anna skrapp í vinnu á miðvikudeginum.

Heima á ný tekur síðan dagsdagleg tilvera við aftur með öllum þeim viðfangsefnum sem henni fylgja. Þessa dagana ber þó hæst sú staðreynd að einkadóttirin er að flytja utan til náms og er það tregablandin tilhlökkun. En þetta er víst gangur lífsins - og nútíma samskiptamöguleikar s.s. skype gera fólki kleift að vera í daglegu sambandi ef því er að skipta - svo við hljótum að lifa þetta af öll sömul :-)

miðvikudagur, 2. ágúst 2006

Ætti að vera byrjuð að pakka

því ég er að fara í flug klukkan tólf - en er í einhverju undarlegu ástandi og nenni engu. Verð hjá Hrefnu í dag en svo kemur Ísak suður á morgun og við fljúgum til Noregs á föstudagsmorguninn. Þannig að það er ólíklegt að nokkuð verði bloggað á næstunni (ja nema ég stelist í tölvuna hjá Önnu systur...).

Annars á minn elskulegi eiginmaður afmæli í dag - til hamingju með daginn!

mánudagur, 31. júlí 2006

Loks kom að því

að dóttirin fékk svar við umsókn sinni um háskóla. Þetta er búið að vera langt ferli og biðin var orðin frekar taugatrekkjandi undir það síðasta. En í dag kom bréfið langþráða, þar sem henni var boðið pláss við Læknadeild Kaupmannahafnarháskóla. Það var mikil gleði á heimilinu þegar þetta kom í ljós og fórum við út að borða á Greifann til að halda upp á þetta. Nú situr hún sveitt og skoðar húsnæðisauglýsingar á netinu - enda ekki nema tæpur mánuður til stefnu að finna sér húsnæði og flytja út. Best að drífa sig að kaupa málningu, hún ætlaði að mála baðherbergið niðri áður en hún færi... (reyna að nýta sem mest út úr henni meðan hún er hér ennþá, eða þannig :-) En fyrst þarf hún víst að fara í hjartaþræðingu, fer suður á morgun og í þræðingu á miðvikudaginn. Vonandi tekst betur til núna en síðast svo hún losni við þessar hjartsláttartruflanir fyrir fullt og allt.

Í fæðuöflun


lundi.jpg, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já það var brjálað að gera hjá lundanum í fæðuöflun fyrir ungviðið þegar við litum við í Hafnarhólma á fimmtudagsmorgni.

laugardagur, 29. júlí 2006

Ætla ekki

að gera alla brjálaða með því að þylja upp ferðasöguna í smáatriðum. Las yfir það sem ég hafði þegar skrifað og sá að þetta yrði þvílík langloka sem enginn hefði gaman af. Hér koma því í staðinn nokkrir punktar úr ferðalaginu:

- Að koma í Fellabakarí á Egilsstöðum er sérstök upplifun. Ekkert út á bakkelsið að setja samt.

- Þoka á Seyðisfirði kom í veg fyrir að við sæum til fjalla meðan á veru okkar þar stóð.

- Hótel Aldan er nýuppgert og í gömlum húsum en virkilega fínt og ef fólk tímir að eyða peningum í gistingu (ein nótt í tjaldi var nóg fyrir mig og þetta var eina gistiplássið sem var laust) þá er virkilega hægt að mæla með gistingu þar.

- Við gengum út að Skálanesi og sáum m.a. seli og fuglabjarg. Þar hjá er líka stærsti lúpínuskógur sem ég hef séð - og hundurinn Bjartur sem Ísak vingaðist fljótt við.

- Á Seyðisfirði var nýlokið listaviku unga fólksins og við borðuðum í Menningarmiðstöðinni Skaftfelli, þar sem Valur keypti meðal annars póstkort af "íslenskri gleði" - en á kortinu er mynd af tveimur (frekar útlifuðum) mönnum að djúsa og spila á gítar.

- Á Seyðisfirði fórum við líka á kakjak, Ísaki til mikillar ánægju og svei mér þá ef ég hafði ekki bara nokkuð gaman af því líka...

- Þar fannst okkur við vera stödd í súrrealískri bíómynd þegar við ókum fram á tvíbura sem stóðu á gangstétt nálægt fiskvinnslufyrirtæki staðarins. Þeir voru alveg eins klæddir - báðir í ljósum buxum og ljósum jökkum, gott ef skórnir voru ekki hvítir, hárið farið að grána en andlitin sólbrún. Aldurinn óræður - líklega á milli sextugs og sjötugs!

- Á Borgarfirði eystri keyptum við okkur mat í félagsheimilinu Fjarðarborg en þar ræður mamma hans Magna (eina sanna) ríkjum. Steikti hún ofaní okkur hinar ágætustu lambakótilettur. Annars var allt á fullu í húsinu við að undirbúa breiðtjald og hljóð fyrir útsendingu kvöldsins frá Rockstar Supernova (er það ekki nokkuð rétt nafn á þættinum, er ekki alveg inn í þessu...).

- Þar fórum við líka í fuglaskoðun um kvöldið og vorum alein að fylgjast með ótalmörgum lundum og fleiri bjargfuglum í alveg yndislegu veðri.

- Við höfnina er vefmyndavél og stóðst ég ekki mátið að hringja heim í Andra (sem var í tölvunni aldrei þessu vant) og segja honum að hann gæti fylgst með okkur í beinni útsendingu :-)

- Um nóttina gistum við í farfuglaheimili staðarins og þar var ekkert fyllerí og engin læti heldur hinn besti svefnfriður enda flest útlendingar þar fyrir utan okkur.

- Álfasteinn býður upp á úrval hluta sem búnir eru til úr íslensku grjóti og þar fengum við okkur líka afbragðsgóða fiskisúpu með heimabökuðu brauði áður en við lögðum í hann heim aftur.

- Borgarfjörður eystri er með fallegri stöðum á landinu, þar er mikil friðsæld og fólkið með afbrigðum almennilegt.

föstudagur, 28. júlí 2006

Komin heim aftur

úr frábærri ferð austur á land. Ekki var nú farið sérlega víða enda var það ekki tilgangur ferðarinnar en þetta var sem sagt afskaplega ljúf og góð ferð. Til að gleðja lesendur síðunnar (eða þannig) fylgir hér hóflega löng ferðalýsing og þeir sem ekki hafa áhuga á slíkum lýsingum geta hætt að lesa hér með...

Mánudagur:

Vöknuðum heima í Vinaminni og tókum okkur til í rólegheitum. Meiningin var að tjalda í Atlavík um kvöldið en langt var um liðið síðan tjaldið hafði verið notað síðast. Fannst það þó, ásamt svefnpokum og vindsængum, á vísum stað í bílskúrnum. Lögðum við svo af stað austur um eittleytið en fyrst þurfti frúin að koma við í 66 gráður norður og kaupa sér létta peysu því heitt var í veðri og ljóst að þykka flíspeysan væri "too much" í hitanum.

Fyrsta stopp var á Skútustöðum í Mývatnssveit en þar var keyptur ís til að halda upp á það að við værum í sumarfríi saman fjölskyldan. Reyndar aðeins þrír fimmtu hlutar hennar því Hrefna og Andri voru bæði í vinnu og komust þ.a.l. ekki með.

Áfram var ekið en ekki svo lengi því við höfðum ákveðið að á og borða nestið okkar á Möðrudal á Fjöllum. Þar var yfir 25. stiga hiti og ég var að kafna úr hita en á sama tíma var alveg yndislegt að vera þarna og horfa á tilkomumikla fjallasýnina.

Við hefðum í raun alveg getað hugsað okkur að vera þarna áfram en Atlavík beið... svo við héldum áfram og komum til Egilstaða um fimmleytið. Fórum í Bónus og Kaupfélagið og versluðum í kvöldmatinn + einnota grill til að elda á. Brunuðum svo í Atlavík og eftir að hafa beðið árangurslaust eftir tjaldverði fundum við okkur stað til að tjalda á.

Ég þurfti nú aðeins að horfa á tjaldið og rifja upp hvernig á að setja það saman en Valur (sem hefur mun meira verkvit en ég) þurfti ekkert að rifja upp. Þá var komið að því að elda en þegar til átti að taka kviknaði ekki í einnota grillinu. Það varð okkur til happs að rétt hjá okkur var kona sem ég hafði verið með í konuklúbbi fyrir mörgum árum síðan og þau hjónin lánuðu okkur sitt ferðagasgrill og björguðu þannig máltíðinni.

Næsta mál á dagskrá var að blása upp vindsængurnar. Byrjað var á þeirri minni og í fyrstu leit þetta ágætlega út en svo sáum við að loftið lak allt úr henni. Ástæðan var sú að stærðar rifa var þvert yfir vindsængina en við höfðum ekki tekið eftir henni þegar við pökkuðum í bílinn. Þannig að vindsængin sú fór í tunnuna ásamt einnota grillinu.

Það gekk betur að blása upp vindsæng númer tvö og að því loknu fórum við í gönguferð upp að Ljósárfossi sem er þarna skammt frá. Komin til baka aftur fórum við að taka okkur til í háttinn og fann ég þá fljótt að rassinn á mér nam við tjaldbotninn, þ.e.a.s. vindsængin var ekki alveg að virka. Valur tók að sér að sofa á einangrunardýnu sem var með í för, í stað vindsængurinnar sem lenti í ruslinu.

Ekki leið þó á löngu þar til við gerðum okkur grein fyrir því að ekki yrði um svefn að ræða alveg á næstunni. Fólkið í nágrenni við okkur hafði verið að drekka öl og vín frá því fyrir kvöldmat og ekkert lát var á þeim gleðskap þó á mánudagskvöldi væri. Fór það svo að Ísak sofnaði fljótt en við Valur vöktum lengur og ég gat ekki sofnað fyrr en um þrjúleytið en þá hætti fjörið.

Framhald síðar...