föstudagur, 30. desember 2005

Það er orðið ansi stutt eftir af árinu,

einn sólarhringur eða svo. Og hvort sem það er vegna þessara tímamóta eða einhvers annars þá er höfuðið á mér fullt af alls kyns pælingum. Ég þarf m.a. að finna mér nýja vinnu á árinu því ég hef ákveðið að hætta því sem ég er að gera í dag - og þá byrjar víst fjörið... Ætli sé ekki bara best að hugsa sem minnst, bara "go with the flow" og treysta því að mín bíði eitthvað spennandi ;-) Stundum finnst mér það ansi hart að vera komin yfir fertugt og vera ekki ennþá búin að finna minn sess, minn stað í lífinu, a.m.k. hvað atvinnu snertir en það þýðir víst lítið að ergja sig yfir því. Punktur og basta.

miðvikudagur, 28. desember 2005

Þá eru jólin liðin hjá

og flestir komnir aftur í vinnu. Ég var nú svo dugleg í gær að fara í sund þegar ég vaknaði um sjöleytið en ekki voru margir í sundlauginni. Slapp þar af leiðandi alveg við baráttu í brautinni... Reyndar hafði ég nú ætlað að vera sem mest í fríi milli jóla og nýárs en ýmislegt ófyrirséð kom í veg fyrir það. Sat á mínum rassi fyrir framan tölvuna frá 8-17 og 19-21.30 og er að drepast í rófubeininu á eftir ;-( Ég var nefnilega orðin eitthvað tæp í bakinu og datt það snjallræði í hug að breyta stillingunni á skrifborðsstólnum mínum. Ákvað að láta setuna halla meira fram - og hætti alveg að finna til í bakinu. Svo í gærkvöldi þegar ég var komin heim og settist fyrir framan sjónvarpið (já ég veit, meiri seta, ekki mjög hollt) þá fann ég að ég var orðin eitthvað skrýtin í rófunni og er það enn í dag. Alveg helaum í rófubeininu - þannig að ég er búin að laga stillinguna á stólnum í fyrra horf. En þar sem ég var búin að panta mér tíma í klippingu kl. 11 þá er víst best að fara að gera eitthvað af viti.

P.S. Við áttum hin notalegustu jól og gerðum eins og allir aðrir: slöppuðum af, borðuðum og fórum í göngutúra til að koðna ekki alveg niður í afslappelsinu öllu. Okkur var meira að segja boðið í skötuveislu á Þorláksmessu en ég verð að játa að ég lét mér nægja að borða bara einn munnbita af skötunni en bætti það upp með saltfiski, gellum og heimabökuðu rúgbrauði. Samskonar rúgbrauð var sent í ábyrgðarpósti til Cuxhaven í Þýskalandi, þannig að sjá má hvílíkt dýrindis rúgbrauð þetta var. Póstafgreiðslumaðurinn hafði víst orðið hálf kindarlegur þegar hann heyrði hvert innihald pakkans var en hafði verið fljótur að jafna sig og spurði hvort viðkomandi vildi ekki fá tvöfalda ábyrgð undir svona dýrmætan farm :O)

sunnudagur, 18. desember 2005

Bloggið hefur verið heldur neðarlega

á forgangslistanum undanfarið. Það hefur verið nóg annað að gera s.s. ýmis konar jólaundirbúningur og vinna. Við erum reyndar að setja nýtt met held ég barasta, mér sýnist að við verðum tilbúin með allt svo tímanlega í ár... Hefur ekki alltaf verið þannig, t.d. árið sem við tókum efri hæðina á húsinu í gegn, þá kom eldhúsinnréttingin í húsið á Þorláksmessu ef ég man rétt og fyrsta máltiðin sem var elduð í nýja eldhúsinu var jólamáltíðin. Hins vegar var bara nýbúið að parkettleggja stofuna og átti eftir að mála hana þannig að við tókum upp pakkana inni í herberginu sem þá var sjónvarpsherbergi en er núna hjónaherbergið okkar. Ekki tókst okkur heldur að hafa allt klárt klukkan sex (ætli hálf átta sé ekki nær lagi) og Hrefna, sem þá var 12 ára, var alveg að tapa sér yfir þessum seinagangi á sjálfum jólunum. Á jóladag fórum við svo að mála stofuna...já, það er mikið basl að standa í svona framkvæmdum og jólin svo sannarlega ekki besti tíminn til þess. En það var þá eins og svo oft áður, búið var að lofa að allt yrði klárt um miðjan nóvember - sem stóðst náttúrulega ekki.

Núna er sem sagt búið að kaupa flestallar jólagjafirnar, kaupa jólatréð og hangikjötið, baka smákökur (að vísu bara þrjár sortir, ætla að gera eina í viðbót) og þrífa það sem þarf að þrífa. Valur tók nú aldeilis á því í dag, þreif bæði hina margumtöluðu eldhúsinnréttingu og gluggana að utan ;-) Það eru bara fáeinir lausir endar sem þarf að hnýta en mikið sem er gott að vera búin með það mesta.

sunnudagur, 11. desember 2005

Við vorum í veislu á föstudagskvöldið

hjá hjónum sem voru að halda upp á 25 ára brúðkaupsafmælið sitt. Þau höfðu reyndar ekki sagt neinum fyrir fram hvert tilefnið væri en létu það uppi í veislunni. Það athyglisverða við þetta er að hjónin eru indversk og þau sáu hvort annað í fyrsta sinn 30. nóvember og giftust þann 5. desember. Brúðurin hafði ekki einu sinni séð mynd af væntanlegum brúðguma sínum áður en þau hittust og nánast strax eftir brúðkaupið flugu þau til Íslands, í myrkrið, kuldann og snjóinn. Við höfum náttúrulega engar forsendur til að skilja aðra menningarheima og hér áður fyrr tíðkaðist það víst að ungu brúðhjónin sáust í allra fyrsta sinn í brúðkaupinu sjálfu. En það varð mér hins vegar mikið umhugsunarefni hvað hún hefur verið hugrökk, ekki aðeins að giftast manni sem hún þekkti ekki neitt, heldur einnig að flytja með honum nánast hinum megin á hnöttinn og takast á við líf í nýju landi langt í burtu frá ættingjum og vinum. Hún var heimavinnandi lengst framan af og mér finnst í raun ótrúlegt hvað hún og þau bæði reyndar hafa aðlagast íslensku samfélagi fullkomlega, t.d. tala þau nánast óaðfinnanlega íslensku. Já, það er ekki hægt annað hægt en bera virðingu fyrir svona fólki ;o)

föstudagur, 9. desember 2005

Svipmynd úr skóginum


Svipmynd úr skóginum, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég fór sem sagt í gönguferð í Kjarnaskóg fyrr í þessari viku og smellti af nokkrum myndum. Gallinn var bara sá að klukkan var orðin aðeins of margt, þ.e. byrjað var að skyggja, eins og sjá má. Ég birti þetta nú samt til gamans, bara svona til að gefa smá hugmynd um fegurðina, þó myndin geri henni reyndar ekki góð skil. Nú er hins vegar komin asahláka og snjórinn á hröðu undanhaldi.

Hefur einhver týnt toyota lykli?


Skilti, originally uploaded by Guðný Pálína.

Sumt er meira orginalt en annað...

miðvikudagur, 7. desember 2005

Frost á Fróni


Frost á Fróni, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hm, þetta átti að vera tilraun til listrænnar ljósmyndunar ;o) Spurning að láta Val bara um þetta...

Fór í sund í morgun í frostinu

en það er einhvern veginn mun kaldara úti heldur en hitastigið segir til um. Það er svo mikill raki í loftinu og hann gerir það að verkum að 7 stiga frostið virkar frekar eins og 17 stiga frost...jæja nú ýki ég kannski aðeins... en það er a.m.k. freistandi að standa bara áfram undir sturtunni og sleppa því að fara í laugina. En ég er náttúrulega gallhörð og læt mig hafa það ;o) Nema hvað, þegar ég kom uppúr sá ég að ég hafði gleymt snyrtiveskinu heima og það þýðir bara eitt: ég þarf að fara heim og "setja á mig andlitið" því ekki fer ég "andlitslaus" í vinnuna. Já, það er ótrúlegt hvað við kvenfólkið (eða sumar okkar öllu heldur) erum orðnar háðar meiki, varalit og maskara... Sem betur fer í þessu tilviki, því þegar ég kom heim þá sá ég að útihurðin var opin og var orðið býsna kalt í forstofunni og eldhúsinu. Ísak minn hefur greinilega ekki lokað hurðinni nógu vel og blaðberanum hefur augljóslega ekki dottið í hug heldur að loka en hafði stungið Fréttablaðinu inn um opnar dyrnar í staðinn. Þannig að þegar öllu var á botninn hvolft þá var það aldeilis heppilegt að ég skyldi gleyma snyrtiveskinu heima í dag ;o)

mánudagur, 5. desember 2005

Fyrir nokkrum vikum

fékk ég nýjan félagsskap hérna í vinnunni. Kínversk kona kom þá á skrifstofuna gegnt mér á ganginum og strax fyrsta daginn kom hún og heilsaði mér, sem var afar fallega gert af henni. Næsta dag var hún í vandræðum með tölvuna og kallaði í mig til að athuga hvort ég gæti hjálpað henni. Það gat ég reyndar ekki en hringdi í Gagnasmiðjuna og Óskar kom að vörmu spori og reddaði málinu. Síðan hef ég verið henni innan handar með ýmislegt smálegt en ekki staðið í neinum stórræðum þó. Þess vegna kom það mér fullkomlega í opna skjöldu þegar hún kom í morgun og færði mér gjöf. Ég vissi varla hvað ég átti að segja en þar sem ég var nýlega búin að vera á fyrirlestri um kínverska menningu þá vissi ég að það væri hin mesta ókurteisi að neita að taka við gjöfum frá kínverja, þannig að ég þakkaði bara kærlega fyrir mig. Þetta voru þá tveir hálsklútar úr silki með myndum af andlitsgrímum sem notaðar eru í óperunni í Bejing. En jafn gaman og það er að fá gjafir þá er ég núna í hinum mestu vandræðum - ég veit nefnilega ekki hvort kínverskar hefðir gera ráð fyrir því að ég eigi að gefa henni eitthvað til baka...

Og þar sem ég er farin að tala um menningu og menningarmun þá var sú kínverska um daginn að spyrja mig hvernig maður ætti að bera sig að ef maður væri óánægður með þjónustuna á einhverjum stað. Ég sagði að hún ætti endilega að tala aftur við þann sem hefði afgreitt hana og ef hann myndi ekki greiða úr málunum þá væri sjálfsagt að tala við hans yfirmann. Hún var nú heldur treg til að gera þetta og ég skildi ekki af hverju. Það kom þá í ljós að ef það er kvartað undan starfsfólki í Kína þá er dregið af launum þeirra við næstu útborgun!

föstudagur, 2. desember 2005

Dóra á móti kom færandi hendi í dag

með nýbakaðar kleinur og soðið brauð með kúmeni sem þau hjónin höfðu verið að baka. Mikið sem það er nú gott að eiga svona góða granna ;o) Í þessu sambandi rifjuðust upp fyrir mér æskuminningar um að hafa fengið nákvæmlega sama bakkelsi í gamla daga þegar ég var í heimsókn hjá henni Rósu vinkonu minni (sem er dóttir hennar Dóru svo þetta sé nú allt á hreinu). Líka man ég eftir því að hafa borðað ristað fransbrauð með rabarbarasultu á sama stað... Já, það er ekki síður gott að eiga góðar minningar en góða granna ;o)

fimmtudagur, 1. desember 2005

Ég sat inni í stofu með handavinnu

og hlustaði á Merle Haggard þegar ég stóð á fætur einhverra hluta vegna - er búin að steingleyma hvað ég ætlaði að fara að gera - og endaði fyrir framan tölvuna. Hingað hef ég samt ekkert sérstakt erindi en þar sem ég er komin er best að skrifa nokkrar línur..

Ég hef tekið því rólega í vinnunni þessa vikuna því kennslu er lokið og prófið er ekki fyrr en 9. des. þannig að ég má alveg drolla svolítið. Var búin að sjá það fyrir mér að ég myndi fara í brjálað dugnaðarkast hérna heima, baka og skreyta, en það eina sem hefur gerst á þeim vettvangi er að aðventuljósið er komið í eldhúsgluggann. Jú, svo er ég búin að fletta jólablaði Moggans og Fréttablaðsins en ólíkt því sem stundum hefur verið áður þá kom jólaandinn bara alls ekki yfir mig við lestur þessara blaða. Og þrátt fyrir jólalög í útvarpinu, skreytingar um allan bæ og í flestum búðum, þá kemst ég bara ekki í gírinn. Keypti samt eina jólagjöf í dag svo mér er kannski ekki alls varnað ;o)

mánudagur, 28. nóvember 2005

Kattakonan


Kattakonan, originally uploaded by Guðný Pálína.

Svo það sé alveg á hreinu þá eru það kettirnir sem elta mig um allt en ekki öfugt ;o) En þeir eru aldrei langt undan eins og sjá má á þessari mynd. Vil bara taka það fram að ég var ekki að borða þetta nammi sem sést á skrifborðinu hjá mér... þetta er sjónvarpsnammið hans Vals (og nú verður hann glaður - eða þannig...).

sunnudagur, 27. nóvember 2005

Súlur "í skýjunum"


Súlur "í skýjunum", originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessa mynd tók Valur síðdegis í dag - enn skreyti ég mig með fjöðrum annarra...

þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Vantaði buxur í fjósið

Ég fór í Hagkaup í gær að svipast um eftir jólafötum á Ísak. Mér datt nefnilega í hug að vera einu sinni tímanlega í þessu, er yfirleitt á síðustu stundu með allt sem tengist jólunum. Nema hvað, þar sem ég stend og skoða jakkaföt, skyrtur, vesti ofl. kemur fjölskylda aðvífandi og mamman segir við son sinn að nú sé upplagt að skoða föt fyrir jólin. Hann er ca. 7-8 ára gamall og tekur vel í það. Sér fyrst standinn með flauelsjakkafötunum og fer að skoða dökkbláar flauelsbuxur vel og vandlega, svona eins og hann væri fæddur skraddari og væri að athuga hvort efnið væri nógu vandað og saumarnir nógu sterkir. Svo gellur allt í einu í honum "Mamma, þessar væru fínar í fjósið, mig vantar líka fjósbuxur". Hér mættust augu mín og mömmunnar og báðar brostu út í annað því tónninn í rödd stráksa var alveg óborganlegur. Það var eins og hann hefði fundið gull og gleðin eftir því. Sú gleði stóð reyndar ekki lengi því mamman var fljót að kippa honum niður á jörðina aftur og benda honum á að nú væru þau að leita að jólafötum. Hvernig þessu lyktaði veit ég ekki, kannski hafa þau keypt flauelsbuxurnar og komist að samkomulagi um að þegar þær væru búnar að gegna hlutverki sínu sem sparibuxur fengju þær nýtt hlutverk sem fjósbuxur ;O)

sunnudagur, 20. nóvember 2005

Hélt að ég væri í nokkuð góðu formi

af öllu sundinu en komst að því um helgina að svo er ekki. Fór á jóganámskeið sem stóð frá 18-21 á föstudagskvöldinu og 10-17 í gær og er að drepast úr strengjum eftir þetta. Var svo búin á því í gær að mér leið eins og ég hefði verið í fjallgöngu en er skárri í dag.

Annars fórum við Valur áðan að heimsækja vinafólk okkar sem voru að byggja hús og ég verð nú að játa að mikið er ég fegin að vera ekki í þeirra sporum. Allt hálfklárað og náttúrulega langt, langt á eftir áætlun. Iðnaðarmenn á vappi um húsið alla daga og þau eru bara nýbúin að fá hurðar á herbergin + það eru engar gardínur komnar enn svo ekki er hægt að segja að það sé mikið næði/einkalíf á þeim bæ.

Hef í sjálfu sér ekkert meira að segja - og segi þetta því gott...

þriðjudagur, 15. nóvember 2005

HmmFræðatröll


Þú ert vanafastur, tilfinningaríkur innipúki.

Fræðatröllið er forvitið að eðlisfari og er köllun þess í lífinu að komast að sannleikanum. Fræðatröll má gjarnan finna í dimmum skúmaskotum bókasafna þar sem þau rykfalla og sussa á aðra gesti safnsins. Fræðatröllið klæðist gjarnan flaueli - nema þegar það er í tísku. Hringitónninn í síma þess er stefið úr þættinum Nýjasta tækni og vísindi, sem það grætur stöðugt að sé ekki lengur á dagskrá.Hvaða tröll ert þú?

mánudagur, 14. nóvember 2005

Er komin með

nýtt vinnuskrifborð hér heima - vá þvílíkur munur! Það er reyndar svolítið stórt, fyllir næstum upp í herbergið (bara næstum...) en það er L-laga og með yfirdrifnu plássi. Borðið sem ég var með var gamalt eldhúsborð, keypt í IKEA í Noregi fyrir ansi mörgum árum en það var nú búið að duga vel. Svo eftir að ég fékk nýtt skrifborð í vinnunni þá fann ég hvað var mikill munur að vera með svona almennilegt borð og ákvað að drífa bara í því að fá nýtt borð hérna heima líka. Nú vantar bara betri skrifborðsstól, sá sem ég sit á núna var keyptur á sama stað og eldhúsborðið og þjónaði því hlutverki að vera skrifborðsstóll Hrefnu lengi framan af. Hann er reyndar orðinn svo lélegur að maður fær í bakið innan nokkurra mínútna frá því maður sest í hann og Valur var kominn á fremsta hlunn með að henda honum í síðustu ferð á haugana.... En þetta kemur allt með kalda vatninu, gallinn er bara sá að það getur reynst þrautin þyngri að finna stól við hæfi, sérstaklega þar sem hann þarf helst að þola ketti (þeir halda nefnilega að skrifborðsstólar með ullaráklæði séu hugsaðir til að brýna klær á þeim). Þegar rétti stóllinn kemur í leitirnar þá er líka meiningin að unglingurinn á heimilnu noti þessa aðstöðu til að læra - og hætti þá að skilja skólabækurnar sínar eftir á stofuborðinu ;o)

laugardagur, 12. nóvember 2005

Birthday girl...

samanber Uptown girl... með Billy Joel. Má ekki bara skipta uptown út fyrir birthday? Allavega þá á ég afmæli í dag. Er víst orðin 41 árs samkvæmt þjóðskrá! Ísak hélt í dag að ég væri 39 ára - betur að svo væri... En mér finnst fínt að vera 41, það er ágætis tala ;o) Ég þakka hér með fyrir allar góðar afmæliskveðjur, minn heittelskaði eiginmaður mundi eftir afmælinu um leið og hann vaknaði í morgun, mamma hringdi í hádeginu, Anna systir hringdi um miðjan daginn og tengdó hringdu í kvöldmatnum. What more can a girl want?? Afmælisgjöfin frá Val (aka Hal) var að fara með mér í sund í morgun og á meðan ég synti tuttugu ferðir skriðsund þá svamlaði hann í heitu lauginni en við fórum saman í pottinn og gufu (þetta hljómar eitthvað undarlega en var ekki illa meint, sjá pistil Hals í dag , hann vantar bara ýmis hjálpartæki til að geta nýtt sér sundlaugina að fullu.

Eftir sundið + morgunkaffi þá fóru þeir feðgar, hann og Andri, í fjallið en ég fór í langa göngu hér innanbæjar í skíðabuxum og dúnúlpu og gönguskóm. Var að drepast úr þreytu á eftir og lagði mig í sófanum með Mána mér við hlið. Svo birtust dóttirin og tengdasonurinn óvænt á kaffitíma og að minni tillögu bakaði Halur vöfflur sem sumir (Hrefna) borðuðu að norskum sið, með brúnosti (NB! norskum TINE brúnosti sem Anna systir færði í búið í haust). Elli btw (þetta er stytting úr "by the way" fyrir þá sem eru ekki innvígðir í enskar orðastyttingar) er mun betri af andlitslömuninni og VÞM segir að það sé af því hann hafi stundað DNA heilun á Ella.... Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það ;-)

En allavega, áður en ég hætti þessu þá vil ég bara geta þess að Valur minn eldaði handa mér dýrindis máltíð í kvöld, heimagert pasta með sjávarréttum (og krabbalöppum sem Kári hennar Bryndísar kom með frá "Russia with love") og bragðaðist allt saman afar vel. Á morgun erum við svo boðin í afmæliskaffi til Hrefnu minnar sem á 22ja ára afmæli - og ég hlakka til ;o)

fimmtudagur, 10. nóvember 2005

In her shoes

heitir bíómynd ein - sem er bara mun betri en ég átti von á - og kom ánægjulega á óvart.

mánudagur, 7. nóvember 2005

Það er stundum sagt um karlmenn

að þeir geti ekki gert margt í einu, þ.e.a.s. ekki horft á sjónvarpið, straujað þvott og haldið uppi samræðum á sama tíma. En það geta konur hinsvegar. Einhverjir fræðingar hafa reiknað út að þetta sé kynbundinn munur samkvæmt meðaltalskonunni og meðaltalskarlinum. Ég hef komist að því að ég hlýt að hafa meira af karllægum heilasellum hvað þessa hlið snertir, það hentar mér alveg hrikalega illa að vera með mörg verkefni í takinu á sama tíma.

Þetta var speki dagsins ;O)

föstudagur, 4. nóvember 2005

Loksins, loksins

í fjórðu tilraun tókst okkur vinkonunum, mér, Unni og Heiðu að komast á kaffihús. Og mikið sem það var notalegt að hitta þær og spjalla saman yfir tebolla. Við erum allar sjúkraliðar og unnum saman á Selinu, sem er hjúkrunardeild fyrir aldraða, fyrir tuttugu árum síðan. Það var virkilega gaman hjá okkur í vinnunni þá, megnið af sjúkraliðunum voru ungar stelpur og hressar og það var oft mikið hlegið. Og líka í gærkvöldi - það er nú kosturinn við að hitta þessar tvær - við hlægjum alltaf mikið, jafnvel þó við séum að tala um eitthvað leiðinlegt...

En talandi um vinkonur þá átti Sunna vinkona mín afmæli þann 1. nóvember en af því ég var eitthvað utan við mig þá (eins og flesta daga) fær hún sem sagt afmæliskveðjuna núna. Til hamingju með afmælið Sunna mín ;o)

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Þetta er engin frammistaða hjá mér

Læt líða nærri viku á milli þess að ég skrifa hérna. Og það er ekki von á neinu gáfulegu frá mér í augnablikinu, er alltof þreytt til að skrifa eitthvað af viti.

Það er nú hálfgert ástand á fjölskyldunni þessa dagana. Tengdasonurinn kominn með lömun í helminginn af andlitinu (sem gengur vonandi tilbaka) og svo skar Andri sig í fingurinn í kvöld, stóran skurð með brauðhnífnum, og pabbi hans þurfti að fara með hann upp á sjúkrahús og láta sauma hann. Mér brá nú við þetta enda sá ég óhappið gerast og sá bara í hvítt og hélt að hann hefði skorið sig inn að beini. En sem betur fer skaddaðist ekki sinin þannig að hann slapp við aðgerð og vesen. Ég er hálf glötuð eitthvað þegar svona lagað kemur uppá. Kalla bara á Val og bíð eftir því að hann reddi málunum. En ef í harðbakkan slægi þá gæti ég nú verið róleg og yfirveguð og farið með barnið á slysadeildina, það er bara svo þægilegt að geta treyst á að Valur sjái um allt svona lagað. Því miður var hann hvergi nálægur þegar Hrefna fór í "meint" hjartastopp í sumar, mér hefði örugglega liðið betur ef hann hefði verið á svæðinu. Ég held reyndar að mér hafi aldrei brugðið svo mikið á allri ævinni eins og mér brá þá - og gott að vera stödd á slysadeildinni af öllum stöðum - en það er nú önnur saga.

Annars er bara vinna og aftur vinna + afslöppun um helgar + sundferðir á morgnana. Var búin að gera þrjár tilraunir til að komast á kaffihús í síðustu viku en þær klikkuðu allar. Fyrst vegna kvennafrídagsins, svo vegna ælupesti vinkonu minnar og síðast vegna þess að önnur vinkona afboðaði sig. Og ég sem var að reyna að gera átak í því að eiga mér eitthvað líf utan vinnunnar ;O)

miðvikudagur, 26. október 2005

Sól, snjór og 3 gráður á Celsius

hvað er betra en fara út í gönguferð í hádeginu? Gekk niður á Glerártorg og tilbaka hingað upp á Sólborg. Ah, gerist ekki ljúfara, ég er endurnærð ;O)

Það er alltaf hálfgert happdrætti

að velja sér braut til að synda í á morgnana. Flestir eru reyndar svo vanafastir að þeir synda alltaf í sömu brautinni og ég er t.d. farin að vita að á braut 1, 5 og 6 er yfirleitt eldra fólk sem syndir hægt. Á braut 2 eru flestir sem synda með blöðkur og gæti því verið fínt fyrir mig að vera þar, en þau eru ansi mörg svo ég nenni ekki að vera þar. Þannig að það er yfirleitt spurning um brautir 3 eða 4 fyrir mig.

Í morgun voru tvær manneskjur að synda í braut 4 svo ég fór í 3 í staðinn því þar var bara ein kona. Og mér til mikillar ánægju fór hún uppúr rétt um það leyti sem ég var að setja blöðkurnar á mig og ég hafði brautina út af fyrir mig. En Adam var ekki lengi í Paradís... fljótlega kom karlmaður sem syndir alltaf bringusund (blöðkulaus) en það var allt í lagi, ég fór bara framúr honum þegar við átti. Nema hvað, skömmmu síðar kemur ein eldri frú (sem er reyndar ótrúlega spræk, syndir skriðsund og hvaðeina en bara alveg rosalega hæææægt) og þá vandaðist málið.

Nú þurfti ég að fara framúr tveimur manneskjum og karlmaðurinn þurfti að fara fram úr konunni í hverri ferð því hann synti töluvert hraðar en hún. Sundferðin breyttist sem sagt í hindrunarsund þar sem aðalatriðið var að reikna út fjarlægðir og tímasetja framúrsund rétt svo enginn myndi slasast... Þetta gekk nú allt vel - en mikið rosalega held ég að þau tvö hafi verið fegin þegar ég fór uppúr ;O)

sunnudagur, 23. október 2005

Ég var með

kvennaklúbb á föstudaginn og aldrei þessu vant þá gekk undirbúningurinn svona líka ljómandi vel. Eftir að hafa flett blöðum og bókum í leit að einhverju fljótlegu (ég nenni aldrei að eyða einhverjum rosa tíma í eitthvað dúllerí) fann ég þrjár uppskriftir hver annari fljótlegri og ólíkari. Fyrst bjó ég til súkkulaðiköku með súkkulaðirjóma, svo spínat-ríkotta píramída (sem var í klúbbablaði Gestgjafans) og loks crostini með fíkjum og gráðosti. Mér tókst reyndar næstum því að kveikja í því síðastnefnda en það átti nefnilega að byrja á því að skera eina baguette (stóð svona í uppskrifitinni, það sér hver heilvita maður að baguette er miklu fínna orð heldur en snittubrauð...) í sneiðar og grilla báðum megin áður en lengra væri haldið. Ég skar brauðið samviksusamlega í sneiðar, setti inn í ofninn... og steingleymdi því... a.m.k. í smá stund. Það voru sem betur fer bara kantarnir sem voru brunnir og auðveldlega hægt að skafa brunarákina í burtu. Ég er snillingur í eldhúsinu, það verður ekki af mér skafið. En svo ég klári nú bara uppskriftina að þessum rétti, þá á næst að smyrja smurgráðaosti ofan á sneiðarnar, þá skera ferskar fíkjur í litla báta og setja ofaná, og loks að bræða saman hálfan dl. púðursykur og hálfan dl. balsamedik og hellla ofan á fíkjurnar. Þetta vakti þvílíka lukku hjá dömunum að ég naut þess í smástund að finnast ég bara ágætis kokkur ;O) En til að lesendur þessa pistils skilji af hverju það er ánægjuefni hjá mér þá læt ég hér fylgja að lokum eina setningu sem heyrðist þegar liðið var á klúbbinn og maðurinn minn var kominn heim. Ég hafði farið fram í eldhús til að tala við hann og ákvað að nota tækifærið og fylla á crostini diskinn og þegar ég kom aftur inn í stofu gellur í einni "ertu svo bara með manninn í eldhúsinu - er hann kannski búinn að gera þetta allt?"

þriðjudagur, 18. október 2005

Skammdegið lætur ekki að sér hæða

það læðist aftan að manni og allt í einu er myrkur þegar maður vaknar á morgnana og svoooo erfitt að koma sér á fætur. Og ef eitthvað er, jafnvel enn erfiðara að hafa sig af stað í sundið. Í búningsklefanum er ég enn að hugsa um hvað ég sé þreytt og hef orð á því við konu sem þar er stödd að ég nenni varla að synda í dag. "Þú sleppir því og ferð bara í pottinn og gufuna eins og ég gerði" svarar hún, reiðubúin að leysa öll mín vandamál, en mér finnst það hálfgert svindl. Veit líka eins og er að þá missi ég af því að anda að mér súrefni og fá blóðið almennilega á hreyfingu. Fer geispandi í sturtu og hitti þar fyrir aðra konu sem segir "já, nú er skammdegið komið, allt verður svo miklu erfiðara í skammdeginu" alveg eins og hún hafi lesið hugsanir mínar. Ekki get ég annað en tekið undir það. Síðan dröslast ég þreytulega að bakkanum, læt mig leka ofan í laugina og viti menn... um leið og ég spyrni mér frá bakkanum og tek fyrstu sundtökin er ég búin að steingleyma því að ég hafi átt eitthvað erfitt með að koma mér af stað ;O)

mánudagur, 17. október 2005

Það sem tíminn flýgur...

það verða komin jól áður en maður veit af. Annars var ég nú bara fegin að síðasta vika skyldi líða titölulega hratt, það var alltaf eitthvað óskemmtilegt að koma fyrir mig - en sem betur fer slapp ég þó með skrekkinn. Klessti t.d. ekki á bílinn sem rann í veg fyrir mig á gatnamótum og braut engin bein þegar ég flaug á hausinn (lenti reyndar á mjöðminni, ekki hausnum) á bílastæðinu fyrir utan vinnustaðinn síðar í vikunni. En nú er komin ný vika og um að gera að brosa framan í heiminn ;O)

þriðjudagur, 11. október 2005

Ég hef náttúrulega verið svo upptekin

að framkvæma hluti af listanum að ég hef ekki mátt vera að því að blogga... eða þannig. Ég átti hina bestu helgi með systur minni sem því miður er horfin aftur heim til sín ;-( Það er alltaf hálf tómlegt þegar góðir gestir eru farnir aftur en þá er bara að njóta minninganna um samveruna ;-) En þó við höfum ekki gert margt þá höfum við örugglega framkvæmt einhver atriði af listanum, s.s. að fara út að ganga, fara í sund, hlustað á börn hlægja og örugglega eitthvað fleira. Valur sá til þess að þau mæðgin og við hin yrðum ekki hungurmorða og Hrefna og Elli nutu líka góðs af því á sunnudeginum.

Ég er áfram í blogg-letikasti og hef ákveðið að skrifa bara þegar andinn er yfir mér - hmm, vonandi verður það einhvern tímann... Yfir og út.

þriðjudagur, 4. október 2005

Litlir hlutir sem gera má til að auka vellíðan í lífinu

Ég var að laga til í einhverjum skúffum hjá mér um daginn og rakst þá á eftirfarandi lista sem er víst kominn frá séra Þórhalli Heimissyni. Mér finnst þetta bara ansi góður listi hjá honum ;O)

1. Haltu dagbók
2. Spilaðu á greiðu
3. Farðu á námskeið í slökun
4. Horfðu á himininn
5. Horfðu á skýin
6. Slepptu lyftunni og notaðu stigann
7. Búðu til jurtate
8. Skrifaðu vini þínum bréf
9. Skrifaðu maka þínum fallega kveðju
10. Hlustaðu á uppáhaldstónlistina þína
11. Taktu dansspor í stofunni
12. Hlustaðu á rigninguna
13. Leyfðu þér að gráta
14. Leyfðu þér að hlægja
15. Láttu aðra vita af væntumþykju þinni
16. Horfðu á sólarlagið
17. Hlustaðu á börn hlægja
18. Farðu út að hlaupa eða ganga
19. Taktu til
20. Horfðu á gamanmynd
21. Skrifaðu lista yfir alla jákvæða hæfileika þín
22. Hugsaðu um eitthvað jákvætt í fari allra sem þú hittir
23. Horfðu á sólaruppkomuna
24. Flokkaðu og farðu með rusl í endurvinnslu
25. Gerðu grín að sjálfum þér
26. Farðu út að borða
27. Faðmaðu barnið þitt/unglinginn þinn
28. Borðaðu rómantíska máltíð við kertaljós með maka þínum
29. Gerðu eitthvað til að auka friðinn í heiminum
30. Eldaðu grænmetismáltíð
31. Andaðu djúpt tíu sinnum í röð
32. Farðu í ævintýraferð í huganum
33. Farðu í messu
34. Láttu maka þinn nudda á þér bakið
35. Nuddaðu bakið á maka þínum
36. Syngdu uppáhaldssönginn þinn
37. Farðu í heitt bað
38. Farðu í heitan pott
39. Íhugaðu
40. Farðu í jóga
41. Skrifaðu ljóð
42. Gerðu einhverjum gott (án þess að þér sé þakkað fyrir)
43. Lestu eitthvað sem er fullt af gleði, von og ást
44. Fáðu þér lúr
45. Gerðu teygjuæfingar
46. Hringdu í einhvern sem þú hefur ekki talað við lengi
47. Farðu á námskeið
48. Fyrirgefðu sjálfum þér
49. Fyrirgefðu öðrum
50. Eyddu helginni á fallegum og rólegum stað
51. Kíktu í leikhús á gamanleikrit
52. Bakaðu köku
53. Leiktu þér að nýjum hugmyndum
54. Leiktu þér að flugdreka
55. Sofðu hjá
56. Lestu teiknimyndaseríur
57. Klifraðu uppí tré, uppá hæð eða uppá fjall
58. Faðmaðu maka þinn
59. Farðu í hjólreiðatúr
60. Farðu á skauta
61. Láttu þig dreyma dagdrauma
62. Gefðu blóð
63. Taktu til í skápum
64. Kauptu blóm
65. Láttu eins og kjáni
66. Farðu í róðrartúr
67. Heimsæktu húsdýragarðinn
68. Gefðu öndunum
69. Farðu í stutta kraftgöngu um hverfið þitt
70. Gefðu þér verðlaun fyrir vel unnin störf
71. Heimsæktu veikan vin

Láttu hugann leika um listann. Skrifaðu niður á blað fleiri hugmyndir að einhverju sem þú getur gert til að LIFA LÍFINU LIFANDI!
Veldu síðan þrjá hluti sem þú ætlar að gera í dag. Endurtaktu valð á hverjum degi, alla daga og NJÓTTU SVO DAGSINS

mánudagur, 3. október 2005

Sissel heillaði landann uppúr skónum

enda með eindæmum skemmtileg söngkona. Hefur mikla útgeislun og greinilega húmor líka. Ég var svo ánægð með að hún skyldi tala norsku á tónleikunum, óttaðist það nefnilega fyrirfram að hún myndi tala við áheyrendur á ensku milli laga en mig langaði svo ógurlega að hlusta á Bergens-mállýskuna hennar. Eini gallinn við þessa annars ágætu tónleika var sá að mér fannst allt þetta undirspil (sinfóníuhljómsveit, kór og hennar eigið band) og ljósashow, vera fullmikið á köflum. Hefði frekar viljað einfaldari útsetningar á lögunum - meiri Sissel og minna af öllu hinu. En þetta var engu að síður skemmtilegt ;O)

Var að kenna í kvöld frá 17-19. Get ekki sagt að ég sé í mínu besta formi á þeim tíma sólarhringsins en þetta hefst nú allt engu að síður. Svo eru nemendurnir líka þreyttir... og svangir... þannig að það er ekki beint hægt að kalla þetta kjöraðstæður til náms.

fimmtudagur, 29. september 2005

Kettirnir eru lagstir í vetrardvala

og það liggur við að mann langi nú sjálfan til að gera slíkt hið sama. Þau sofa megnið úr sólarhringnum núna og þegar ég kom heim í hádeginu sváfu þau svo fast að þau komu ekki einu sinni fram að heilsa upp á mig. En þegar ég ætlaði að fara að mynda þau til að láta mynd fylgja þessum pistli þá drifu þau sig að sjálfsögðu á lappir. Þannig að myndin verður bara að koma síðar.

miðvikudagur, 28. september 2005

Finnst venjulega hressandi að fara út að ganga

en held að það þyrfti að borga mér fyrir að fara út í þetta veður... Brrr, eins stigs hiti, stíf norðanátt og hríðarslydda ;-( Hvað á þetta veðurfar eiginlega að þýða? Eini kosturinn er sá að útivera freistar lítið, sem er kostur þessa dagana því ég er svo upptekin innandyra.

Var að skoða bloggsíður í dag og sá þá að það er komið nýtt íslenskt vefdagbókar-umsjónarkerfi. Það kostar reyndar tæpar 3 þúsund krónur á ári að vera í áskrift hjá þeim en það er svo sem ekki mikill peningur.

Er búin að sitja á rassinum fyrir framan tölvu meira og minna síðan klukkan 9 í morgun svo það er sennilega hollt að finna sér eitthvað annað að gera. Taka úr uppþvottavélinni, þrífa kattaklósettið, brjóta saman þvott, setja í þvottavélina... já þessi hefðbundu heimilisstörf sem enginn tekur eftir - svo lengi sem þau eru framkvæmd reglulega ;o)

þriðjudagur, 27. september 2005

Ferköntuð augu..

held að augun á mér séu að verða ferköntuð í laginu af að stara sífellt á þessa blessaða tölvuskjái. Já, það eru víst bæði kostir og gallar við tölvurnar eins og svo margt annað. Sem betur fer er þetta allt annað líf hjá mér eftir að ég fékk mér gleraugun - mig er hætt að verkja svona rosalega í augun eins og mig gerði. Hins vegar gengur mér hálf illa að venjast gleraugunum og er fljót að taka þau ofan t.d. ef einhver kemur að tala við mig. Þá finnst mér eins og gleraugun séu "fyrir" - æi, það er erfitt að útskýra það.

Það styttist í heimsókn Önnu systur og Sigurðar - það verður gaman að hitta þau og vonandi verður veðrið skaplegt...

Það styttist líka í tónleikana með norska söngfuglinum Sissel Kyrkjebø og allt bendir til þess að ein stysta suðurferð hingað til verði farin til að hlusta á hana syngja. Líklega þarf ég þó að kíkja á bað í leiðinni og lengir það ferðina örlítið. Áætlunin gengur út á suðurferð á föstudagseftirmiðdag og heimferð á laugardagskvöldi eftir tónleikana. Kemur í ljós hvort það stenst.

mánudagur, 26. september 2005

Rigning og bleyta...

verð að viðurkenna að ég kunni betur við snjóinn heldur en þetta veður. Já, maður er aldrei ánægður...

sunnudagur, 25. september 2005

Snjór + börn = gaman


Snjór + börn = gaman, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessi mynd þarfnast engra útskýringa við - nema hvað strákurinn á sleðanum er Ísak en ég veit því miður ekki hver stelpan á snjóbrettinu er.

laugardagur, 24. september 2005

Súlur í september


Súlur í september, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hér eftir mun ég birta mynd af þessu sjónarhorni á hverjum degi... nei, bara að grínast. Vildi leyfa væntanlegum gestum að fylgjast með veðrinu á Akureyri ;-)

föstudagur, 23. september 2005

Mynd af engu - nema smá snjó

Þetta er útsýnið hjá mér akkúrat núna. Sit í "gamla" herberginu mínu við vinnu og horfi á snjóinn út um gluggann. Það sést ekki í Súlur fyrir skýjahulu. Ég man ekki eftir því að það hafi snjóað þetta mikið í September áður, a.m.k. ekki síðustu 10 árin.

miðvikudagur, 21. september 2005

Afmælisbarn dagsins er mamma

en hún er hvorki meira né minna en 79 ára, sem er náttúrulega enginn aldur ;O) Til hamingju með daginn mamma! Nú hefði verið gott að skreppa í smá afmæliskaffi, kannski fá pönnukökur með rjóma eða ostaköku... Það er algjört hallæri að búa svona langt frá öllum ættingjum sínum - aldrei afmæliskaffi, engin jólaboð o.s.frv. En svona er þetta bara og það þýðir víst ekkert að væla yfir því.

Lífið er frekar fábreytt þessa dagana - vinna, sofa, synda og fara stöku sinnum í leikfimi. Þarf endilega að taka mig á, hitta fleira fólk og gera eitthvað skemmtilegt! Á reyndar miða á tónleika með norsku söngkonunni Sissel Kyrkjebø í Háskólabíói þann 1. okt. og verð að reyna að drífa mig þangað. Hef samt varla tíma til þess, það er svo þétt dagskrá hjá mér í kennslunni. Auk þess er ég að kenna þennan áfanga í fyrsta skipti og það þýðir bara eitt: hrikalega mikinn undirbúning fyrir hvern tíma. Er aftur farin að spá í framhaldsnám en finnst margt flókið við það. Langar helst til Skotlands en mikla þetta fyrir mér, Andri vill ekki fara frá félögum sínum í heilt ár, Valur þarf að fá vinnu úti, við þyrftum að leigja húsið og ..... hvað í ósköpunum gætum við gert við kettina?

mánudagur, 19. september 2005

Var "klukkuð" af Æri

og þó ég hafi ekki hugmynd um hvað "klukk" er þá skilst mér að leikurinn felist í því að setja niður á blað fimm staðreyndir um sjálfan sig. Eigi veit ég hvort Ærir hefur gert sér grein fyrir því - en það að finna fimm hluti er mér nærri því ofviða. Ég get þó ekki annað en tekið áskoruninni þannig að ...

1. Ég fæddist ekki á sjúkrahúsi eins og velflestir jafnaldrar mínir, heldur fæddist ég á Sjónarhæð þar sem fjölskylda mín bjó á þeim tíma.
2. Ég þjáðist af lyftufælni í mörg ár, en ástæðan fyrir fælninni var óvenju krassandi lýsing á lyftuslysi (af mannavöldum) í bók eftir Arthur Haily sem ég las á unga aldri.
3. Mér finnnst síld einhver sá allra versti matur sem ég hef nokkurn tímann smakkað => ég borða ekki síld!
4. Ég var orðin tvítug þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda, en það var í "Flug og bíl" til Salzburg í Austurríki með mínum ástkæra þáverandi "vini" og núverandi eiginmanni (og vini).
5. Í annarri utanlandsferð nokkrum árum síðar bjargaði Valur mér frá bráðum bana þegar kjötbiti stóð fastur í hálsinum á mér á veitingastað í sveitahéraði skammt frá Costa del sol. "Heimlich" takið kom þar að góðum notum ;-)

Svo mörg voru þau orð. Mér skilst að nú sé um að gera að "klukka" aðra í framhaldinu. Svo ég klukka Hrefnu og Rósu

laugardagur, 17. september 2005

Er að ná nýjum hæðum í bloggleti

og engin afsökun fyrir hendi. Líklega finnst mér heldur lítið vera að gerast hjá mér þessa dagana en eins og einhver sagði "engar fréttir eru góðar fréttir" þannig að kannski er það ekki svo slæmt þó ég hafi frá litlu að segja.

Það gengur hálf illa að klára baðið, nú er það baðkarið sem er að stríða okkur. Við keyptum nuddbaðkar í verslun í Reykjavík, á sama stað og við keyptum baðinnréttinguna, blöndunartækin og klósettið. Fengum góðan magnafslátt þannig að við vorum bara sátt. Áttum að fá allt heila klabbið sent norður í sömu sendingu en fljótt áttuðum við okkur á það vantaði einn skáp og svo tvo af fjórum fótum undir baðið. Já, og svo höfðum við fengið sendan vitlausan spegil.

Ég hringdi suður og kvartaði undan þessu og fljótlega komu þessir hlutir norður með bíl. Svo leið og beið og baðið var flísalagt og svo mættu pípararnir aftur á svæðið til að gera sitt - en viti menn þá kom í ljós að það vantaði festingar á baðkarið, bæði til að festa það við vegginn og festa svuntuna. Ég var þá líka búin að átta mig á því að það vantaði ljós sem átti að fylgja speglinum. Við hringdum bæði suður, píparinn og ég, og þeir í búðinni lofuðu að koma þessu dóti á fyrsta bíl. Svo leið tíminn og eftir tæpa viku hafði ég áttað mig á því að þeir hefðu greinilega gleymt okkur.

Hringdi aftur suður og aftur lofuðu þeir öllu fögru. Í þetta sinn stóðu þeir við orð sín og sendingin skilaði sér eftir tvo daga. Píparinn mætti aftur á svæðið í gær og festi baðið. Komst þá að því að einn nuddstúturinn lak og festingarnar fyrir svuntuna voru vitlausar. Hann fékk mann hér í bænum til að búa til nýjar festingar og kíttaði nuddstútinn með einhverju límkítti - og svo eigum við að fylla baðkarið í dag til að tékka á því hvort það er í lagi með viðgerðina... Sem sagt hálfgerð langavitleysa allt saman og ekki útséð um það hvernig þetta fer ennþá.

miðvikudagur, 14. september 2005

Ég sé út um gluggann að sólin er farin að skína ;-)

Held barasta að ég drífi mig út að ganga - það er einmitt komið hádegi og ég orðin glorsoltin. Fínt að rölta heim og borða afganginn af ítölsku grænmetissúpunni sem Valur eldaði í gærkvöldi.

þriðjudagur, 13. september 2005

Afmælisbarn dagsins er Anna systir mín

Til hamingju með daginn Anna mín - hlakka til að sjá þig í október ;O)

Ég var að skoða hvað ég hafði skrifað á sama tíma í fyrra og þá hafði ég m.a. verið á leiðinni í húsmæðraorlof til Reykjavíkur. Sem er sennilega ástæðan fyrir því að Rósa vinkona mín var að spyrja að því um daginn hvort ég væri ekki að koma suður í orlof... Ég á reyndar miða á tónleika með Sissel Kyrkjebö í Háskólabíói þann 1. okt. og ætla að fara suður þá, en það hittist bara svo illa á m.t.t. vinnu hjá mér. Á að vera með kennslu bæði þann 3. og 4. og hefði þurft að nota helgina til undirbúnings. En ætli þetta bjargist nú ekki allt saman, það gerir það venjulega.

sunnudagur, 11. september 2005

Ákvað að blogga

þó ég hafi ekkert að segja - er sem sagt ennþá að drepast úr andleysi... Þannig að kylfa mun ráða kasti varðandi það hvað kemur á blaðið (skjáinn) í þetta sinnið. Talandi um skjái þá fékk ég nýja/gamla tölvu í vinnunni í síðustu viku. Var ekkert smá ánægð með að fá flatskjá (þó lítill sé) en á móti kemur að það suðar svo rosalega í turninum (heilabúi tölvunnar) að ég er frekar búin á því í lok dags. Ætla að gefa henni smá séns - hún er nefnilega svo miklu hraðvirkari heldur en gamla daman sem ég var með áður :)

Well, well, well, hvað gerði ég um helgina sem er að líða? EKKERT af viti - en líklega ekkert af óviti heldur, þannig að þetta er nokkuð vel sloppið. Hrefna og Elli komu til okkar í mat á laugardagskvöldið sem Valur eldaði af sinni alkunnu snilld. Kjúklingabitar á teini með pintóbaunasósu + hrísgrjón + brauð. Við vígðum nýtt borðstofuborð í leiðinni og ekki var það nú slæmt heldur. Minn heittelskaði hafði nefnilega kvartað undan því í mörg ár að ekki væri pláss fyrir nokkurn skapaðan hlut á gamla borðinu (sem við keyptum notað og hafði verið smíðað rétt eftir stríð þegar húsin voru lítil og húsgögnin líka). Nýja borðið er 1x2 og nú er loksins hægt að hafa matinn á borðinu, ekki bara borðbúnaðinn ;O)

Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað heilinn í manni er undarlegt fyrirbrigði. Meðan við bjuggum í Noregi varð ég gjörsamlega ómælandi á önnur tungumál en norsku og íslensku, enskan t.d. hvarf bara út í bláinn. Hún hefur nú verið að koma til baka smátt og smátt enda les ég ensku meira og minna á hverjum degi. Í síðustu viku hringdi svo kona í mig í vinnunni og talaði ensku. Ég ræddi við hana nokkra stund og allt gekk eins og í sögu, alveg þar til hún sagði nafnið sitt, sem var dæmigert norrænt nafn. Og það var eins og við manninn mælt, öll mín enskukunnátta hvarf út í buskann, norskan tók völdin í heilanum á mér og mér tókst varla að ljúka símtalinu skammlaust!! Hvað á þetta eiginlega að þýða? Það eru 10 ár síðan ég bjó í Noregi og t.d. les ég norskuna ekki oft (of sjaldan í rauninni) á meðan ég er alltaf að lesa ensku. En mig skortir greinilega talþjálfun, það er nokkuð ljóst. Enda var ég að spá í að taka mastersnám í enskumælandi landi, m.a. til að reyna að troða ensku tali inn í heilann á mér aftur.

miðvikudagur, 7. september 2005

Andleysi er undarlegt fyrirbrigði

Ég er sem sagt eitthvað svo óskaplega andlaus þessa dagana, nenni ekki að blogga, finnst ég ekki hafa frá neinu að segja. En til að sýna að ég er ennþá á lífi þá set ég hér fáeinar línur á blaðið.

Um daginn hringdi í mig kona og bauð mér að koma í nudd. Ástæðan var sú að fyrir 2-3 árum síðan var ég í nuddi hjá henni, Shiatsu nuddi sem mér fannst henta mér mjög vel (maður þarf ekki að fara úr fötunum og það er ekkert olíusull). Jæja, ég hafði keypt fimm tíma afsláttarkort hjá henni og var búin með þrjá tíma þegar hún flutti skyndilega úr bænum. Nú er hún hins vegar komin aftur og mundi þá eftir mér - fannst vera kominn tími til að greiða skuld sína við mig. Þannig að ég fékk óvænt tvo "fría" nuddtíma ;O)

Ég bauð mig fram sem bekkjarfulltrúa í Andra bekk á foreldrafundi í bekknum hans í dag. Það er algjör kvöl og pína þegar kemur að þessum lið á fundinum, allir þegja og enginn vill bjóða sig fram. Mér leiðist þetta svo mikið þannig að ég stakk höfðinu upp úr sandinum og bauð mig fram. Þegar ég var búin að brjóta ísinn bauð önnur mamma sig líka fram þannig að þetta slapp allt saman fyrir horn. En það verður sennilega yfirdrifið nóg að gera í þessu embætti því í vor útskrifast krakkarnir úr grunnskóla og komin er hefð fyrir skólaferðalagi í vetrarlok en það þýðir líka fjáröflun o.s.frv.

Læt þessum andlausa pistli hér með lokið.

mánudagur, 5. september 2005

Úti í guðsgrænni náttúrunni

Þar sem ég hef ekkert sérstakt að segja í dag ákvað ég að birta þessa mynd í staðinn af rollu sem við Valur hittum fyrir á Melrakkasléttu um daginn. Hún var ótrúlega gæf en við töluðum nú samt ekki mikið saman ;O)

laugardagur, 3. september 2005

Vinna, vinna, vinna....

Já, eins og sjá má þá hefur vikan farið í vinnu og hvort þetta eru viðbrigðin eftir sumarfrí, slappleiki eftir veikindin, eða blanda af hvoru tveggja, þá er ég bara alveg búin á því í vikulok. Öll orka búin og meira að segja sólin úti freistar mín lítið.

Samt langar mig að skreppa í berjamó. Það þarf ekki einu sinni að vera alvöru berjamór (keyra eitthvert lengra + taka með nesti, berjatínur o.s.frv.), mér nægir alveg að fara hérna rétt upp fyrir bæinn og sitja í smá stund og tína upp í mig. Taka kannski með eina litla krús undir ber til að bjóða öðru heimilisfólki að smakka... Já, kannski ég láti verða af þessu þegar ég er búin að klippa bóndann.

Annars er ég öll út ötuð í einhverjum litlum hormónabólum - aðallega á hálsi og bringu + öxlum en ein og ein hefur ratað í andlitið á mér. Maður er orðin svo gamall að bólur eru ekki akkúrat efst á óskalistanum (eins og þær hafi einhvern tímann verið það!) og ég er nú hálf fúl yfir þessu enda klæjar mig líka í þær.

Loksins, loksins skín sólin ;O)

þriðjudagur, 30. ágúst 2005

Back to work...

voðalega er ég orðin ensku-skotin eitthvað... Ein ástæða er sú að það er ekki hægt að skrifa íslenska stafi í fyrirsögnina ef ég hef opnað Blogger í Safari vafranum - sem ég gerði í þetta sinn. En sem sagt, ég er byrjuð aftur að vinna og mikið sem skrokkurinn á mér á erfitt með að aðlagast skrifborðsvinnunni að nýju eftir svona langt sumarfrí. Í gær var ég að drepast í bakinu, í dag var ég komin með vöðvabólgu í axlir og hnakka (já hnakka, ég spenni vöðvana í hnakkanum alltaf svo mikið þegar ég sit við tölvuna) og verk í hægri mjöðmina líka... Já mannskepnan er greinilega ekki gerð fyrir skrifstofuvinnu, svo mikið er víst. Það hjálpar víst ekki til að ég hafði ekki synt mitt venjubundna morgunsund í heila viku sökum veikinda. En nú er ég byrjuð að synda aftur á fullu, fór létt með 40 ferðir í morgun með nýju froskalöppunum þannig að þetta horfir allt til betri vegar ;-)

"Úti regnið grætur" og ég nenni ekki að skrifa meira. Er að fara yfir próf, auk þess sem við Valur ætlum í bíó í kvöld að sjá Bill Murray í "Broken flowers". Góðar stundir.

sunnudagur, 28. ágúst 2005

Horft inn um glugga á eyðibýli

Skinnalón á Melrakkasléttu

föstudagur, 26. ágúst 2005

66 gráður norður


66 gráður norður, originally uploaded by Guðný Pálína.

Valur bendir hér á 66norður merkið á peysunni til að leggja sérstaka áherslu á þá staðreynd að myndin er tekin á þeirri breiddargráðu ;-)


Smá leiðrétting...myndin er sem sagt tekin aðeins norðar en 66 gráður ;-) Mér skilst að Hraunhafnartangaviti sé á nyrsta stað á Íslandi, þ.e.a.s. fyrir utan Grímsey (sem er að sjálfsögðu ekki á Íslandi þó eyjan tilheyri landinu). Það viðurkennist hér með að landafræði hefur aldrei verið mín sterka hlið og hefði ég kannski átt að ráðfæra mig við bóndann áður en þessi færsla var skrifuð...

Um daginn

hafði ég ekki bloggað í tæpa viku og þá hringdi mamma til að athuga hvort það væri ekki allt í lagi með mig. Á meðan maður bloggar þá er sem sagt nokkuð öruggt að maður er á lífi... Nú er ég farin að hafa áhyggjur af því hvort það sé ekki allt í lagi með hana Kötu, hún hefur ekki bloggað síðan 5. ágúst... "Baulaðu nú Búkolla mín ef þú ert nokkurs staðar á lífi" sagði stráksi í ævintýrinu um hana Búkollu og sama segi ég "láttu nú heyra frá þér Kata mín". Það veitir ótrúlega mikla ánægju að fá innsýn í líf vina og kunningja í gegnum bloggið - nútímafólk er oft svo önnum kafið að lítill timi vill gefast til samskipta og þá er gott að hafa þennan möguleika til að fylgjast með því hvað er að gerast hjá vinafólki. Það er líka á forsendum hvers og eins, maður þarf ekki að hafa áhyggjur af að ráðast inn á fólk eins og þegar farið er í óvæntar heimsóknir - og það er aldrei á tali...

Fór í fataleiðangur með eldri syninum í dag. Á dagskránni var jakki og flíspeysa en hann vantaði líka buxur og skó. Flíspeysan fékkst í 66norður og gallabuxur hjá Steina í Perfect en erfiðara gekk að finna jakka við hæfi. Við fórum í Sportver og skoðuðum þar Cintamani jakka (eftir að hafa fengið sérfræðiráðgjöf hjá föðurnum sem fannst tími til kominn að kaupa vandaðan útivistarjakka sem myndi endast næstu 5-10 árin) en eitthvað fundust mér númerin vera undarlega lítil. Hann var kominn í XL og samt voru ermarnar í það stysta. Ég spurði afgreiðslumanninn hvort þetta væru ekki örugglega herrajakkar og jú hann var alveg viss um það. Svo fór ég á heimasíðu fyrirtækisins áðan og sá þar að þetta hafði verið kvenmannsjakki. Athyglisvert var líka að Sportver hafði auglýst að í dag yrði sérstakur ráðgjafi frá Cintamani í búðinni og mikið af nýjum vörum - enginn var nú ráðgjafinn á staðnum og aðeins ein tegund af jökkum! Það er samt ekki meiningin að drulla neitt sérstaklega yfir Sportver, maður fær yfirleitt mjög góða þjónustu hjá þeim og sömuleiðis er starfsfólkið yfirhöfuð sérlega hjálpsamt. Líklega hefur þetta verið nýr starfsmaður sem ekki vissi betur.

fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Er öll að koma til

en hins vegar kvörtuðu Hrefna og Andri bæði undan því að vera komin með einhver særindi í hálsinn í kvöld þannig að það er spurning hvort mér hefur tekist að smita alla fjölskylduna af þessari pest. Vonandi ekki!

Valur fór í veiði í Mývatnssveit í dag, í síðasta sinn á þessu sumri. Ekki var nú veðurspáin góð fyrir veiðidagana, 4-5 stiga hiti (kuldi) og rigning (slydda?) en minn maður var hvergi banginn og fór af stað með sömu tilhlökkun og ávallt.

Ég hefði átt að vera byrjuð í vinnunni í þessari viku en sökum veikindanna þá hef ég bara verið heima (ég var svo veik að Valur bauðst til að skrifa upp á fúkkalyf handa mér og það gerist nú ekki að ástæðulausu, svo mikið er víst...). Nú þýðir ekki að vera með neinn aumingjaskap lengur, sjúkrapróf á morgun og styttist í venjubundna kennslu. Í þetta sinn er ég að byrja með áfanga sem ég hef ekki kennt áður, neytendahegðun, en þá fæ ég loksins tækifæri til að nýta mér sálfræðina sem ég lærði forðum í Noregi því neytendahegðun byggist mikið á öðrum félagsvísindum, s.s. sálfræði, félagsfræði og mannfræði. Ég segi það nú ekki, ég hefði gjarnan viljað vera komin með kennslubókina fyrr í hendurnar en eins og við Íslendingar segjum svo gjarnan: "Þetta reddast!"

Já, á meðan ég man, múrarinn kom aftur í dag... og ætti samkvæmt áætlun að byrja að leggja flísarnar á baðherbergið á morgun. Við höfum sýnt fádæma þolinmæði í sambandi við iðnaðarmennina og nennum ekki að vera að stressa okkur yfir því hvort þeir mæta í þessari viku eða næstu (eða þessum mánuði eða næsta), þetta hefst allt fyrir rest.

miðvikudagur, 24. ágúst 2005

Ryðrautt og grænt


Ryðrautt og grænt, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég féll fyrir litasamsetningunni þegar ég gekk fram á þetta tannhjól af óþekktum uppruna í fjörunni nálægt Hraunhafnartangavita á Melrakkasléttu.

þriðjudagur, 23. ágúst 2005

Dröslast um húsið með klósettpappírsrúllu í eftirdragi...

ekki af því mér finnist það svo skemmtilegt, heldur er ég að upplifa eina þá verstu kvefpesti/flensu sem ég hef lengi fengið. Ég vaknaði á laugardagsmorguninn síðasta og fann að eitthvað var nú heilsufarið í ólagi, var bæði illt í hálsinum og með höfuðverk. En af því við höfðum verið búin að ákveða að skella okkur í dagsferð á Sléttuna þá harkaði ég af mér og lagði í hann eftir að hafa birgt mig upp af vatni og verkjalyfjum. Eftir gönguferðina út að vitanum var ég hins vegar alveg búin á því (ef vel er gáð sést á myndinni að ég er hálf sljó til augnanna) og hefði ekki komist skrefinu lengra. Síðan hefur ástandið bara versnað og í nótt var höfuðið á mér gjörsamlega að springa, fullt af hor og ég fór vopnuð öllum mínum pappírsvasaklútum í rúmið. Náði ekki að sofna fyrr en undir morgun fyrir hor-rennsli og vanlíðan og kláraði alla klútana. Sem er ástæðan fyrir klósettpappírnum...

Ýmislegt rekur á fjörur manns

mánudagur, 22. ágúst 2005

Smá lífsmark...

Ósköp er sumarið fljótt að líða, skólinn byrjaður aftur hjá strákunum og styttist í að kennsla byrji hjá mér. Ég hef verið í einhverju óstuði undanfarna viku og ekki nennt að blogga þannig að mammma hringdi í dag til að athuga hvort ekki væri allt í lagi hjá mér. Það er allt í lagi, ég hef bara verið löt að blogga enda lítið að gerast. Annars fórum við Valur í dagsferð á Melrakkasléttu á laugardaginn var og það var mjög fín ferð hjá okkur. Höfðum með okkur smurt nesti og veðrið skartaði sínu fegursta. Mér finnst mjög gaman að koma á þessar slóðir, hvað þá í svona góðu veðri. Maður sér samt hvað náttúruöflin geta verið mikil þegar sjá má rekavið langt uppi á landi en nóg er af honum á sléttunni. Við gengum meðal annars út að Hraunhafnartangavita og rákumst þar á leifarnar af dufli frá norsku veðurstofunni (eða einhverri álíka stofnun). Set inn myndir seinna í kvöld eða á morgun, læt þetta duga í bili.

þriðjudagur, 16. ágúst 2005

Undarlegir dagar

Skrýtið hvað rigning í sumarfríinu hefur mikil áhrif á mann - þrátt fyrir fögur fyrirheit um hið gagnstæða. Ekkert hefur orðið úr fleiri ferðalögum fjölskyldunnar, a.m.k. ekki að sinni. Engin garðverk unnin, ekkert legið í sólbaði, engar máltíðir úti í garði... ég nenni meira að segja varla í sund og þá er nú fokið í flest skjól. Fór í ræktina í morgun með Val en þá var úrhellisrigning úti og einhverra hluta vegna höfðaði það meira til mín að vera innandyra en utan. Eins og það getur þó verið hressandi að vera úti í rigningu ;O)

En á morgun verð ég að prufukeyra nýju froskalappirnar sem ég pantaði að sunnan og sótti í póstinn í dag. Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif það hefur að vera með froskalappir, kannski ég komist þá 40 ferðir á sama tíma og 30 ferðir áður?? Ég hef nefnilega verið að auka við mig upp í 40 ferðir en gallinn er sá að það tekur aðeins of langan tíma (ég er alltaf að miða við að vera búin að öllu - synda, þvo mér, klæða mig, blása hárið, mála mig - á klukkutíma). Vandamálið er bara að mér finnst gott að breyta stöðugt til, synda á víxl skriðsund, bringusund og bakskrið en það er víst heldur hæpið að synda bringusund með froskalappir... þannig að þegar þær eru komnar á, þá er bara mögulegt að synda skrið og bakskrið. En hefur maður ekki bara gott af því að breyta aðeins til, gera hlutina á annan hátt en venjulega?

Þau undur og stórmerki gerðust í gær að píparinn mætti á svæðið, 5-6 vikum eftir áætlaðan komutíma og í dag lauk hann sinni vinnu á baðherberginu (í bili a.m.k.) þannig að nú er allt klárt fyrir múrarann... sem er búinn að lofa að koma á morgun, eins ótrúlegt og það hljómar nú. Smá bjartsýni sakar ekki.

laugardagur, 13. ágúst 2005

Ísak með boltann


Ísak með boltann, originally uploaded by Guðný Pálína.

Komin heim af Króksmóti

- í bili að minnsta kosti. Lagði af stað rúmlega sjö í morgun með tvo stráka í aftursætinu, spennta en þreytta (höfðu farið seint að sofa sökum spennings). Á Sauðárkrókinn komum við um hálf níu og þá var hafist handa við að gera svefnstæðin í skólanum klár fyrir kvöldið. Næst á dagskrá var skrúðganga, fyrst og fremst ætluð fyrir íþróttamennina ungu - en ég rölti með til að halda á mér hita. Mælirinn sýndi 8 gráður og þar að auki var norðanátt og rigningarsuddi. Aftur haldið í skólann og nestið tekið upp enda hafði matarlystin verið lítil kl. hálf sjö að morgni... Fyrsti leikurinn var á móti Fjölni (sem ég landsbyggðarmanneskjan held að sé íþróttafélagið í Grafarvogi) og eftir nokkuð jafnan leik enduðu mínir menn sem sigurvegarar, staðan var 3:2 í leikslok. Fór næst og gerði misheppnaða tilraun til að heimsækja aðra af tveimur manneskjum sem ég þekki á Króknum - en hún var sem sagt ekki heima (segir sig nokkuð sjálft af framansögðu). Ég hafði reyndar hitt hina manneskjuna (Védísi systur Kidda) sem ég þekki fyrr um morguninn en eitthvað hafði fattarinn hjá mér ekki verið í lagi því ég áttaði mig ekki á því að hún var að bjóða mér að kíkja í kaffi. Heyrði ekki alveg hvað hún sagði og hélt að hún ætti von á fólki í kaffi (fer að verða spurning um heyrnarmælingu - ég er nú komin með gleraugu, kannski heyrnartækið sé næst ;O)

Nóg um það, eftir að hafa farið í Skagfirðingabúð og keypt mér regnbuxur, fengið mér smurt brauð og te í frábæru Sauðárkróksbakaríi (sem ég tel vera eitt best bakarí á landinu, grínlaust), lagt mig örstutt á dýnunni hans Ísaks í skólastofunni og farið í kjörbúðina aftur og hitt þar Kidda (fjölskylduvin okkar með meiru) þá var loks komið að leik nr. tvö og úrslitin þar urðu hin sömu, 3:2 fyrir mínu liði. Eftir hálftíma var svo síðasti leikurinn og eftir mikinn bardaga af beggja hálfu varð niðurstaðan 1:0 fyrir Ísak og félögum. Ánægjan skein af andlitum þeirra en ég kyssti soninn bless og brunaði í bæinn þar sem hössbandið tók á móti mér með grilluðum urriða, nýjum íslenskum kartöflum úr Bónus og ... spergilkáli úr garðinum ;O) Góður endir á góðum degi - á morgun bruna ég svo aftur á Krókinn að fylgjast með úrslitunum.

föstudagur, 12. ágúst 2005

Vá, er gjörsamlega að fara fram úr sjálfri mér

í eldhúsinu. Eins og dyggir lesendur síðunnar eflaust muna þá hef ég stundum notað þennan vettvang til að býsnast yfir því hvað ég á að elda þegar bóndinn (kokkurinn ;O) er að heiman og hafa nokkrar tilraunir mínar í eldamennsku endað illa, sbr. London lambið og lambakótilettur í raspi. Í kvöld hins vegar small þetta svona líka flott hjá mér; sauð Rustichella pasta, sótti spergilkál út í garð og hitaði á pönnu ásamt ólífuolíu, hvítlauk, gulrótum og ætiþistlum. Setti pastað neðst á diskinn, hrúgaði grænmetinu þar ofan á og dreifði svo fetaosti yfir allt saman. Þetta bragðaðist afbragðsvel með einu glasi af rauðvíni - við hliðina á mér sat Ísak og borðaði sitt pasta með tómatsósu en unglingurinn var að sjá brettamyndir í bíó.

Brrrr...

mér er kalt. Er í kvartbuxum og berfætt og þegar hitamælirinn úti sýnir bara 10 gráður þá er spurning að klæða sig í samræmi við það. Eini gallinn er sá að ég var að þvo allar gallabuxurnar mínar í morgun (þetta hljómar eins og stórþvottur, á bara þrennar gallabuxur) og því er úr vöndu að ráða.

fimmtudagur, 11. ágúst 2005

Stínu-muffins (múffur?)

Eftir lauflétta ábendingu frá systur minni ákvað ég að setja hér inn uppskriftina að súkkulaði muffins sem ég var að baka í dag, eða múffum eins og ég held að þetta sé kallað á íslensku. Uppskriftin er komin frá Stínu vinkonu minni sem bjó í Tromsö á sama tíma og við - en því miður hittumst við alltof sjaldan núorðið (enda býr hún á Ólafsfirði, það er svo rosalega langt þangað...). Það má alveg örugglega skipta smjörlíkinu út með góðri olíu, minnka sykurinn og skipta smá af hveitinu út með heilhveiti til að gera múffurnar örlítið hollari. Spurning hvernig það félli í kramið hjá börnunum?? Allavega, hér kemur uppskriftin ;O)

2,5 bollar hveiti
1,5 bollar sykur
1 tsk. natron
1 tsk. salt
2 msk. vanillusykur
3 egg
1 dós jógúrt
220 gr. brætt smjörlíki
150-200 gr. saxað súkkulaði

Allt hrært saman, sett í múffuform og bakað við 190°C í ca. 15 mín.

Gæti ekki einfaldara verið! En talandi um hollustumúffur þá fann ég uppskrift að spelt múffum með súkkulaði hér sem svipar mjög til þessarar uppskriftar.

Kanntu brauð að baka?


Kanntu brauð að baka?, originally uploaded by Guðný Pálína.

Vá ég er bara að verða fyrirmyndarhúsmóðir... búin að baka tvo daga í röð - fyrst grófar bollur í gær og svo súkkulaðimöffins núna áðan. Biðst reyndar afsökunar á því að myndgæðin eru ekki alveg í lagi en sýni myndina fyrst og fremst sem "physical evidence" svo fólk efist ekki um þennan dugnað í mér.

Annars tók ég eftir því að möffins kökunum er ekki raðað af vísindalegri nákvæmni á bökunarplötuna - sem sýnir að ég á greinilega langt í land ennþá svo ég verðskuldi titilinn "fyrirmyndarhúsmóðir".

miðvikudagur, 10. ágúst 2005

Ég hef eiginlega ekki gert annað en laga til

síðan við komum að sunnan. Var húsið virkilega allt í drasli? kynni einhver að spyrja og svarið við því er bæði já og nei. Á yfirborðinu var þetta nokkuð gott en í skúffum og skúmaskotum (það eru engin skúmaskot hér, þetta bara hljómaði svo flott saman..) var hins vegar drasl, drasl og aftur drasl. Fyrr í sumar hafði ég þrifið eldhúsinnréttinguna og fataskápinn í forstofunni en fataskápar strákanna voru ennþá eftir, já svo ekki sé minnst á kommóðu eina sem stendur mjög miðsvæðis í íbúðinni og var einu sinni notuð sem símaborð (það var fyrir tíma þess þráðlausa) en gegnir nú helst því hlutverki að vera áfangastaður fyrir alls kyns dót. Dót sem maður þarf að leggja frá sér tímabundið eins og póst, gleraugu, seðlaveski o.s.frv. og líka dót sem þarf að eiga einhvern samastað til lengri tíma litið s.s. dúkar, lyklar, GPS tæki, myndavél, póstkort, vegabréf, símaskrá, vasaljós.......... ég gæti haldið endalaust áfram en af tillitssemi við lesendur hætti ég hér.

Kommóðan sem keypt var í "RL Magasin" eða Rúmfatalagernum öðru nafni gafst upp undan öllu því sem á hana var lagt og brautirnar eyðilögðust. Minn ástækæri tók sig því til og gerði við hana í gær. Þá var röðin komin að mér að tína upp allt draslið/dótið, flokka og henda sem mestu. Það varð heill haldapoki hvorki meira né minna sem fór í ruslið! Kommóðan er næstum því tóm núna blessunin - ja a.m.k. um stundarsakir því ef ég þekki okkur rétt þá líður ekki á löngu þar til vantar stað fyrir eitthvað smálegt og ......... (need I say more? ;O)

Ísak og Skuggi "litli"


Ísak og Skuggi "litli", originally uploaded by Guðný Pálína.

Ísak hafði virkilega gaman af því að leika við Skugga þegar við vorum hjá Guðjóni og Eddu. Og Skugga fannst það ekki síður skemmtilegt ;O)

mánudagur, 8. ágúst 2005

Komin heim aftur úr hinni ágætustu borgarferð

og vorum svo heppin að daginn sem við ókum norður (laugardaginn) buðu Sunna og Kiddi okkur í mat þannig að við renndum bara í hlaðið, tókum dótið úr bílnum og röltum svo upp í nr. 18 þar sem við fengum hina ljúffengustu kjúklingasúpu ;O)

Þetta var bara ekta túristaferð hjá okkur til Reykjavíkur, tengdaforeldrarnir heimsóttir, farið í sund, keilu, bíó, aftur í keilu, út að borða og við fórum meira að segja í Bláa lónið eftir að hafa heimsótt mömmu og Ásgrím í Keflavík. Við gengum líka Laugaveginn og kíktum til Hrundar bróðursystur Vals sem er nýlega búin að opna þar gullsmíðaverkstæði. Einnig vorum við boðin í mat til Hjartar (bróður Vals) og Guðbjargar og Guðjóns (elsti bróðurinn) og Eddu og það var virkilega skemmtilegt að hitta þau öll. Sem sagt hin notalegasta ferð í alla staði - gaman að því. Ekki spillir fyrir að strákarnir eru orðnir svo stórir að það er alltaf ró og friður í aftursætinu... það er fátt sem mér finnst leiðinlegra en að vera á ferðalagi með krakka sem eru að rífast.

Spurning hvort við reynum að ferðast eitthvað meira. Það skortir heldur ekki verkefnin hér heima við og Valur er þegar farinn að ráðast á þau. Ég lét mér nægja í gær að laga til í húsinu en ætlaði að vera duglegri í dag, þvo þvott o.s.frv. Byrjaði á því að setja í eina vél en fékk þvílíku bullandi blóðnasirnar þegar ég ætlaði að hengja upp þvottinn og endaði útafliggjandi í sófanum því þær vildu ekki gefa sig "med det samme". Er hætt þessum kjaftavaðli og farin að fá mér kaffi með bóndanum.

þriðjudagur, 2. ágúst 2005

Afmælisbarn dagsins

er minn ástkæri eiginmaður Valur Þór. Til hamingju með daginn elskan ;-)

Ég var nú nærri búin að eyðileggja afmælisdaginn fyrir honum því ég var svo rotuð þegar ég vaknaði að ég gekk eiginlega í svefni fyrsta hálftímann - og mundi ekkert eftir því hvaða merkisdagur var í dag. En eftir örlitla ábendingu þar að lútandi tókst mér að óska afmælisbarninu til hamingju með daginn... Ég verð náttúrulega að bæta honum þetta upp með einhverju móti og ætli sú leið verði ekki farin að baka handa honum köku. Ekki þýðir að kaupa blóm því við erum að fara suður og það er ekkert gaman að kaupa blóm þegar enginn verður eftir í húsinu til að njóta þeirra.

Svo eigum við hjónin líka 15 ára brúðkaupsafmæli í dag en við höfum aldrei verið sérlega dugleg við að halda upp á slík tímamót. Greinilega ekki þau allra rómantískustu...

mánudagur, 1. ágúst 2005

Verslunarmannahelgin

hefur liðið hjá í miklum rólegheitum. Valur var á vakt frá föstudegi til mánudagsmorguns og þ.a.l. vorum við bara heima. Það stendur þó til bóta því á morgun er ætlunin að færa sig suður yfir heiðar með synina og fara í smá fjölskyldufrí. Enda erum við foreldrarnir loksins komin í sumarfrí - yndislegt! Það á sem sagt að byrja í höfuðborginni og láta svo ráðast hvert haldið verður í framhaldinu. Við verðm nú örugglega ekki lengi á flakki því fótboltamót hjá Ísak og veiði hjá Val setja okkur skorður hvað tímann snertir.

Það verður hins vegar spennandi að sjá hvernig gengur að samræma svefntíma ólíkra fjölskyldumeðlima í ferðinni því Valur vaknar alltaf milli sex og sjö, Ísak vaknar um níuleytið, ég hef verið að sofa til hálf tíu undanfarna morgna (og vaknað eins og trukkur hafi keyrt yfir mig) og Andri.. já Andri hefur sofið til klukkan þrjú á daginn... Hann er ansi snöggur að snúa sólarhringnum við í fríum. Það er af sem áður var, þegar ég var á hans aldri var ég alltaf kominn á fætur um hádegi, þrátt fyrir að hafa farið seint að sofa. Ekki vildi maður missa af sunnudagslærinu eða öðru sem var í helgarmatinn - og þá var aðalmatartíminn í hádeginu, ekki á kvöldin eins og tíðkast núna. Já, þetta eru ellimerki (að vera farin að rifja upp barnæskuna) ég veit það ;O)

laugardagur, 30. júlí 2005

Samspil ljóss og skugga


Samspil ljóss og skugga, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hér kemur enn ein myndin sem tekin var þegar við hjónakornin fórum í bíltúr eitt kvöldið í vikunni sem er að líða. Það var svo einstaklega fallegt, sólin var lágt á lofti og magnaði landslagið upp eins og henni einni er lagið.

föstudagur, 29. júlí 2005

Stundum hringir

Ísak í mig í vinnuna og spyr um hitt og þetta, hvort hann megi poppa, hvort hann megi fá sér Sunlolly o.s.frv. Í dag hringdi hann til að tilkynna að hann væri að fara með vinum sínum í sundlaugargarðinn en þar eru skemmtileg leiktæki fyrir krakka. Af því þetta var um hádegisbilið spurði ég hann hvort hann væri búinn að borða eitthvað en það var hann ekki. Ég setti það sem skilyrði að hann yrði að borða fyrst. Þá kom hann með krók á móti bragði og spurði hvort hann mætti ekki bara taka með sér nesti. Það fannst mér góð hugmynd hjá honum og sagði að það væri alveg upplagt. Var svo sem ekki mikið að velta því fyrir mér hvaða nesti hann færi með, kannski kex og safa eða engjaþykkni. Seint í dag rak ég svo augun í bakpokann sem hann hafði farið með í Sundlaugargarðinn og fann að hann var frekar þungur. Opnaði pokann og viti menn - í honum fann ég glerkrukku með súkkulaðiáleggi, borðhníf, tóman kexpakka og vatnsflösku. Þá hafði Ísak sótt sér brauð í frysti og tekið með sér + súkkulaðiáleggið til að smyrja á brauðið. Mér fannst þetta eitthvað svo bráðfyndið að ég fór að skellihlægja - en var jafnframt ánægð með það hvað hann var duglegur að bjarga sér ;O)

En annars er ég komin í sumarfrí og Valur kemst í frí eftir helgi. Þannig að nú er bara að fara að plana hvað á að gera í fríinu.. við eigum t.d. alveg eftir að fara á Vestfirði en miðað við hvað við höfum stuttan tíma til ferðalaga þá verður það víst takmarkað sem við komumst yfir að gera. Það er þó alveg bráðnauðsynlegt að koma sér eitthvað burt úr bænum.

fimmtudagur, 28. júlí 2005

Kaupangur í Eyjafjarðarsveit

Þetta er að breytast í myndablogg hjá mér... En hér kemur sem sagt önnur mynd sem tekin var í gærkvöldi - og þessi er birt fyrir Val sem bað svo fallega um það ;-)

Það rifjaðist upp fyrir mér áðan

af hverju ég reyni yfirleitt að halda mig við sömu hárgreiðslukonuna sem lengst. "Mín" hárgreiðslukona er farin í sumarfrí og ég klikkaði á að panta hjá henni tíma áður en hún fór í fríið. Hef áður farið á Medúllu og fundist það ágætt en datt í hug að prófa eitthvað nýtt og fór á stofu sem ég hef aldrei farið á áður. Liturinn í hárinu er fínn - og klippingin er örugglega alls ekki sem verst - en ég er bara ekki að fíla hana. Toppurinn (sem er nú þunnur fyrir því ég er með svo fíngert hár) var þynntur og styttur ansi hressilega en hluti af því skrifast á mig, ég gleymdi nefnilega að segja konunni að það má helst ekki klippa toppinn mjög stuttan því hann kippist svo mikið upp af sjálfu sér þegar hárið þornar. Pytt, pytt (það er aldeilis sem ég hugsa á norsku þessa dagana) þetta vex aftur!

miðvikudagur, 27. júlí 2005

Í kvöldblíðunni


Í kvöldblíðunni, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessa mynd tók Valur í gærkvöldi á bökkum Eyjafjarðarár (eða þar í grenndinni a.m.k.) og er hún birt hér fyrir hestakonuna hana mömmu sem hefur enga hesta í Keflavíkinni ;-)

Viðmið

eru undarlegt fyrirbæri. Mér fannst t.d. alveg nógu langt að synda 25 metra milli bakkanna í sundlauginni hér á Akureyri, þar til ég fór að synda í Laugardalslauginni sem er 50 metra löng... Fannst ég aldrei ætla að vera komin yfir laugina - reyndi þó að líta á björtu hliðarnar - þurfti bara að synda 15 ferðir í stað 30 fyrir norðan. En svo kom ég heim aftur og viti menn, nú finnst mér ég varla vera lögð af stað frá bakkanum þegar ég er komin yfir. Já, það eru þessi blessuð viðmið, þau hafa svo mikið að segja varðandi það hvernig við skynjum hlutina.

Á meðan ég man þá var ljósmyndin hér að neðan birt í tilefni af pistli Vals sem hann skrifaði um kattakonuna á meðan ég var í höfuðborginni ;-)

mánudagur, 25. júlí 2005

Já, kettirnir eru aldrei langt undan..


, originally uploaded by Guðný Pálína.

Komin heim í heiðardalinn

.. eða þannig. Allavega komin heim aftur og tók sólina með mér úr höfuðborginni ;-) Hef sjaldan verið í Reykjavík í svona góðu veðri, það t.d. hreyfði ekki vind á Kjalarnesinu og sjórinn var spegilsléttur þegar við ókum þar hjá á þriðjudeginum.

Hjartaþræðingin hjá Hrefnu gekk bæði vel og illa en hún er búin að segja frá því öllu á sinni bloggsíðu svo ég ætla ekki að endurtaka það hér. Nú er bara að bíða og vona það besta.

Lofa lengri pistli næst - er bara í pásu í vinnunni - best að fara að gera eitthvað ;-)

mánudagur, 18. júlí 2005

Mikið sem það er skrýtið

að vera alein í stóru húsi sem venjulega er iðandi af lífi en núna að kvöldlagi er það þögnin sem ríkir og þögnin er svo mikil að hún er næstum áþreifanleg.

Er sem sagt í vinnunni og það er ekki sála hérna nema ég og mér finnst það eiginlega hálf óþægilegt. Lenti líka í erfiðleikum með að komast inn, reyndi árangurslaust að slá inn pin-númerið mitt nokkrum sinnum en það virkaði ekki! Skrýtið... Aðgangsnúmerið mitt hér (þetta er svo nýtt og flott hús að hér eru bara lykilkort og aðgangsnúmer en ekki venjulegir lyklar) og pin-númerið byrja nefnilega á sömu stöfum (smá afsökun fyrir ruglinu ;-) og mér fannst eftirlitsmyndavélin vera farin að horfa tortryggnum augum á mig þegar ég stóð þarna við innganginn og reyndi hvað eftir annað að slá inn númerið. Bjóst við Securitas á hverri stundu en þeir hafa nú ekki látið sjá sig ennþá.

En nú er sem sagt erindinu lokið og best að koma sér heim að pakka fyrir suðurferðina. Reikna ekki með bloggi fyrr en um helgina - sjáumst síðar og hafið það gott.

sunnudagur, 17. júlí 2005

Enn ein helgin

á enda og ný vika framundan. Þessi vika verður þó eilítið frábrugðin þeim sem á undan komu því ég ætla að fylgja Hrefnu til Reykjavíkur í hjartaþræðinguna. Valur verður í veiði einn dag og vinnu hina dagana og því þarf að koma Ísak í "fóstur" á daginn. Það gengur þó verr en venjulega þar sem Jón Stefán besti vinur hans er fjarverandi og Gunnar er líka að fara í burtu en þó ekki fyrr en á miðvikudaginn, svo Ísak getur verið hjá honum á þriðjudag en þá er Valur í veiðinni. Kosturinn er sá að Ísak á marga vini svo ég er ekki orðin ráðalaus ennþá.

Læt þetta duga að sinni, er hálf andlaus eitthvað þessa stundina.

föstudagur, 15. júlí 2005

Garðurinn í blóma


, originally uploaded by Guðný Pálína.

Get reyndar ómögulega munað hvað þetta tiltekna blóm heitir...

fimmtudagur, 14. júlí 2005

Skil ekki

hvað er í gangi hjá mér. Hef ekki gert annað en sulla niður eða klína einhverju í fötin mín í dag.

Í morgun fór ég í hvítar buxur sem ég keypti mér í sumar. Ég hef ekki átt hvítar buxur síðan á unglingsárum og datt aldrei í hug að kaupa buxur í þeim lit meðan börnin voru lítil því ég var viss um að þau myndu alltaf káma mig alla út. Nema hvað, ég ákvað að vera sumarleg og sæt í dag í sólinni og fór því í hvítu buxunum í vinnuna. Tók reyndar eftir því þegar ég kom þangað að ég hafði ekki látið nægja að setja meik framan í mig, heldur var smá sletta á buxunum. Náði henni úr að mestu leyti og var góð alveg fram að hádegi. Þá fór ég að keyra Val á stofuna og þegar ég kom aftur hafði mér á óútskýranlegan hátt tekist að setja smurningu í buxurnar. Reyndar bara smá en samt voru þetta tveir blettir sem sáust vel Eitthvað kám var líka komið á hægra lærið.

Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim úr vinnunni var að skella buxunum í þvottavélina eftir að hafa úðað blettahreinsi á þær. Var svo í stuttbuxum úti í garði en skipti fyrir matinn og fór í hreinar buxur. Viti menn, þegar ég var að ganga frá eftir matinn þá missti ég dós með tómatsósu á gólfið og það skipti engum togum að sósan slettist út um allt og þar af fór slatti á buxurnar mínar. Sem "by the wy" fóru beinustu leið í þvottavélina...

Jæja, eftir matinn fóru Valur og Andri í bíó en ég ákvað að fara út að hjóla í góða veðrinu. Fór í þunnan jakka utan yfir mig (sem var tandurhreinn, ég hafði ekki notað hann frá síðasta þvotti) og hjólaði góðan hring. Þegar nær dró heimilinu var ég orðin svo þyrst að ég stoppaði á vídeóleigu og keypti mér eplasafa. Nennti ekki að bíða meðan ég kláraði hann og hjólaði af stað með safann í hægri hendinni . Stuttu seinna þurfti ég að bremsa snögglega (með handbremsunni að sjálfsögðu) og - kemur á óvart - eplasafinn kreistist úr fernunni og sprautaðist yfir vinstri handlegginn á mér...... Hvernig er þetta hægt??

P.S. Þetta er það sem Valur kallar kellingablogg (svona kjaftavaðall - en það verður bara að hafa það ;-)

miðvikudagur, 13. júlí 2005

Vinnumaðurinn


, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já það er nú aldeilis gott að hafa svona flottan og duglegan vinnumann ;-)

mánudagur, 11. júlí 2005

Skrapa, skrapa, skrapa...

Úff, púff, "uffa meg" eins og þeir segja á norskunni. Það ætlar að reynast þrautin þyngri að ná þessu veggfóðri af - sem mömmu minnir að hafi verið límt með jötungripi á sínum tíma. Já, þau hafa ætlað að vera viss um að það dytti ekki af ;-)

Ég ætlaði að rifja upp gamla takta í eldamennskunni í dag og keypti lambakótilettur í raspi í kvöldmatinn. Þurfti reyndar að fá upplýsingar um matreiðslu á kótilettum hjá Bryndísi og ekki var það matreiðslan sem klikkaði. Nei, það var bragðið, ég er alltaf að sjá betur og betur að margt sem ég borðaði hér áður fyrr, finnst mér hreinlega ekki gott lengur. Næst kaupi ég kótilettur án rasps, það er alveg á hreinu. Andra leist svo illa á þetta að hann fór út í búð og keypti sér coca puffs sem hann svældi í sig í staðinn. Já, þetta er nú uppeldið hjá mér, leyfi unglingnum að borða pakkamat í staðinn fyrir "staðgott" lambakjöt (má líklega deila um heilbrigði kjötsins þegar búið er að velta því upp úr raspi og steikja það upp úr olíu). Ísak hins vegar spurði hvort þetta væri eins og Naggar og jú, jú, ég hélt það nú. Sú staðreynd + það að ég skar alla fituna í burt af hans kjöti dugði til þess að hann borðaði þrjú stykki. Sennilega öndum við öll léttar á morgun en þá kemur kokkurinn heim úr veiðinni og synirnir (og ég) fá eitthvað ætilegt á ný.

sunnudagur, 10. júlí 2005

Það er hrikalega erfitt

að ná af 30 ára gömlum veggdúk. Auðveldast er að ná ysta laginu sem er nokkuð hart plastefni en svo byrjar fjörið. Þrátt fyrir að bleyta pappírinn með vatni er hann ótrúlega fastur í líminu - sem er sjálft alveg pikkfast við vegginn. Vann í þessu í tæpan klukkutíma í morgun en fór þá í ræktina, alveg búin í hægri handleggnum. Dreif mig svo aftur af stað um hálf eitt og ætlaði aldeilis að taka þetta með trukki. Andri kom líka með mér og við hömuðumst á veggnum í dágóða stund, eða alveg þar til hægri handleggurinn var við það að detta af mér. Og nú er pása...

laugardagur, 9. júlí 2005

Hrefna komin heim

af sjúkrahúsinu, Valur farinn í veiði, Ísak gistir hjá vini sínum, Andri er í tölvunni og ég er í letikasti. Hið sama má reyndar segja um kettina þannig að ég er í ágætis félagsskap. Bjó til pítsu í kvöldmatinn með smá aðstoð frá Andra sem hefur fengið einhver kokkagen frá föður sínum og er búinn að velja bæði matreiðslu og bakstur í skólanum næsta vetur. Ætlaði að láta það eftir mér að liggja í leti í dag og fór á bókasafnið til að fá mér blöð og bækur til að fullkomna letidaginn en kom að lokuðum dyrum. Lét það ekki aftra mér og lagðist þá bara upp í rúm í staðinn og steinsofnaði í klukkutíma eða svo. Fór svo og þvoði bílinn en það + pítsugerðin + sundferð er það eina sem ég hef gert af viti í dag. Verð að vera duglegri á morgun og fá Andra með mér í að skrapa af veggfóðrið á baðinu svo þetta verði tilbúið undir flísalagningu þegar múrarinn má vera að því að koma.

Valur fékk heimsókn í dag, skömmu eftir að hann var farinn af stað í veiðina, er þetta ekki dæmigert? En gesturinn var jafnvel að spá í að heimsækja hann þá bara í veiðina í staðinn - og vonandi gerir hann það. Ég veit að Valur yrði spældur að missa alveg af honum, enda gesturinn langt að kominn eða alla leið frá Minnesota.

Hrefna er sem sagt komin heim og þarf að taka lífinu með ró þar til hún fer í hjartaþræðinguna. Engin vinna, engin leikfimi en hún má fara í rólega göngutúra - og láta strax vita ef hjartslátturinn fer að hækka aftur. Vonandi gerist það ekki.

Jæja, ætla að kíkja á "The girl in the café" sem mér skilst að sé tekin upp hér á landi.

föstudagur, 8. júlí 2005

Lyfið farið að virka...

svo nú er Hrefna aldeilis að koma til. Hefur verið með eðlilegan púls frá því seinni partinn í gær, þ.e.a.s. eðlilegan hraða, hann er óreglulegur ennþá. En þar sem hjartað þarf ekki að erfiða svona rosalega lengur þá er hún bara full orku og langar mest til að fara í ræktina... Læknarnir eru nú ekki alveg tilbúnir að sleppa af henni hendinni ennþá en ef vel gengur fær hún að fara heim á sunnudaginn. Svo er komin dagsetning á hjartaþræðinguna en hún verður þann 20. júlí. Þannig að þetta er allt á réttri leið ;-)

fimmtudagur, 7. júlí 2005

Hrefna er heldur að hressast

sem betur fer. Hún var ekki að rjúka svona rosalega hátt í púls í dag eins og undanfarið. Er að vísu með mjög óreglulegan hjartslátt og fær ennþá þessi stuttu stopp á milli. Hún er nú samt ekkert á leiðinni heim af sjúkrahúsinu, þeir vilja hafa hana lengur undir eftirliti. En það er a.m.k. góðs viti að hún er ekki með svona rosalega hraðan púls. Hins vegar er hún ansi þreytt, enda kannski ekki skrítið eftir að hafa verið í svona ástandi í heila viku.

Annað er eiginlega ekki í fréttum. Ísak er að fara á fótboltamót á morgun á Ólafsfirði og pabbi hans á bókaðan dag í Eyjafjarðará. Svo fer Valur áfram í veiði í Mývatnssveit með bræðrum sínum frá laugardegi fram á þriðjudag. Ætli við Andri verðum ekki hér heima og dundum okkur við að ná gömlu veggfóðri af baðherberginu á milli þess sem ég heimsæki Hrefnu á sjúkrahúsið.

miðvikudagur, 6. júlí 2005

Sigurður var með myndavel


í Súluferðinni þó ég hafi klikkað á því. Hér má sjá þá frændur uppi á Súlutindi, frekar stolta og ánægða...

Veikindi

í fjölskyldunni hafa valdið því að bloggskrif hafa ekki verið efst á forgangslistanum í dag og í gær. Verð samt að segja frá því að eftir að hafa samviskusamlega notað gleraugun í tvo daga steingleymdi ég að setja þau á mig í morgun. Ekki alveg orðin vön því að vera með þau. Nema hvað, eftir tveggja tíma tölvuvinnu var ég að drepast í augunum þannig að það er ljóst að þau eru aldeilis að virka - sem er auðvitað hið besta mál. Ég þarf bara að venjast því að hafa þau á nefinu, finnst ég alltaf vera með einhvern aðskotahlut framan í mér.

Flestir sem að mér standa vita að Hrefna var lögð inn á sjúkrahús í gærmorgun með alvarlegar hjartsláttartruflanir. Líklega er þetta blogg alveg eins góð leið til að flytja fréttir af henni eins og hver önnur. Það er sem sagt tvennt sem er að plaga hana, alltof hraður hjartsláttur (fer yfir 240 og allt upp í 300, a.m.k. einu sinni) og svo hættir hjartað alveg að slá annað slagið í 3-4 sek. en það gerist aðallega á nóttunni. Verið er að reyna að ná tökum á hjartslættinum með lyfjagjöf en það virðist því miður ekki ganga of vel. Næsta skref yrði þá að hún færi í hjartaþræðingu (lífeðlisfræðilega rannsókn á hjartanu) þar sem reynt yrði að finna út úr því hvaða leiðslutruflanir eru í gangi og vonandi yrði hægt að brenna fyrir leiðsluna/æðina sem er að valda þessum óskunda. En deildin í Reykjavík sem annast þessar aðgerðir er lokuð vegna sumarleyfa. Þannig að vonandi fer nú lyfið að verka betur.

En hún hefur a.m.k. fótaferð svo þetta er ekki alslæmt... henni leiðist nú samt alveg hrikalega enda í fyrsta skipti á ævinni sem hún liggur á sjúkrahúsi. Svo er hún tengd við hjartarita sem pípir inni á vaktinni í hvert sinn sem hún fer upp fyrir ákveðna tölu og það gerist mjög oft, þannig að þá koma hjúkrunarfræðingarnir hlaupandi til að athuga hvort ekki sé í lagi með hana og henni finnst hún undir stöðugu eftirliti... sem hún náttúrulega er. En nú á að auka skammtinn af þessu lyfi sem hún fær svo maður vonar það besta ;-)

mánudagur, 4. júlí 2005

Það er alltaf hálf tómlegt í húsinu

þegar góðir gestir eru farnir til síns heima á ný. Ísak sem hafði haft herbergisfélaga í tæpa viku fékk að gista á dýnu inni hjá okkur í nótt því honum fannst svo einmanalegt í herberginu eftir að Sigurður var farinn. En þetta er víst gangur lífsins, og gaf mér tækifæri til að útskýra orðið tómlegt fyrir honum...

En þeir frændur náðu að vinna þrekvirki daginn áður en Sigurður fór. Þannig var að á föstudeginum spurði hann hvort við gætum ekki gert eitthvað skemmtilegt, já t.d. gengið á eitthvað fjall. Ísak greip það á lofti og spurði hvort við gætum ekki gengið upp á Súlur. Hann hafði nefnilega aldrei gengið þangað upp en pabbi hans og Andri hafa farið nokkuð reglulega síðustu árin og sennilega fannst Ísak að hann gæti nú ekki verið minni en þeir að þessu leyti. Ég hef reyndar ekki gengið á Súlur síðan ég var 14 ára og er ekki viss um að ég hefði farið ef einhver annar hefði spurt mig. Hugsaði sem svo að 10 og 11 ára strákar myndu fara sér svo hægt að ég hlyti að eiga roð í þá. Hafði rétt fyrir mér að því leytinu, þeir stoppuðu ótal sinnum til að skoða steina, kasta grjóti, drekka úr lækjarsprænum, rannsaka skordýr og blóm o.s.frv. Þannig að við röltum þetta í rólegheitum og ekkert uppgjafarhljóð var í þeim þrátt fyrir að gangan tæki svolítið á, sérstaklega í urðinni. Já upp komumst við og hringdum m.a. til Noregs af toppnum til að Sigurður gæti montað sig af því að hafa gengið upp á 1144 m. hátt fjall á Íslandi.

Ég viðurkenni að það var mun erfiðara að ganga niður og tók hressilega í hnén á mér og einnig voru ökklarnir farnir að kvarta. En eftir heitt bað og góðan nætursvefn var ég nærri því eins og ný og ekkert nema smá strengir í lærunum í dag bera vitni um gönguna. Því miður gleymdi ég myndavélinni heima svo engar hef ég nú myndirnar til að hafa með þessari frásögn :-(

föstudagur, 1. júlí 2005

Er með hálfgerða sjóriðu...

Var að fá mér gleraugu í fyrsta skipti á ævinni og sit nú með þau hér við tölvuna. Ég hafði farið þrisvar sinnum í sjónmælingu á síðustu tíu árum og ekkert fannst að sjóninni í mér. Vandamálið var bara að ég var alltaf að drepast í augunum, bæði ef ég sat lengi við lestur (eins og fylgir nú háskólanámi óhjákvæmilega) og eins ef ég sat lengi fyrir framan tölvuna.

Svo fór ég í fyrrahaust í sjónmælingu hjá sjóntækjafræðingnum á Glerártorgi og viti menn - hún mældi hjá mér einhverja (smá) nærsýni á öðru auga og svo sjónskekkju. Þrátt fyrir þessa vitneskju þráaðist ég við, fannst ég ekki þurfa gleraugu, ég sem hef alltaf séð svo vel. Hélt bara áfram með mína augnþreytu og verki. Alveg þar til fyrir 2-3 vikum síðan þegar Bergþóra (sem ég er að vinna með)sá mig vera stöðugt að nudda augun og vöðvana í kringum augun og spurði (frekar hvössum rómi) af hverju ég fengi mér ekki gleraugu. Það var fátt um svör og í lok þeirrar sömu viku fór ég á stúfana að leita mér að gleraugnaumgjörðum.

Sú leit gekk nú ekkert alltof vel. Mér fannst ég eins og furðufugl með flestar umgjarðir en á endanum fékk ég 7 mismunandi umgjarðir lánaðar heim yfir helgina. Val datt það snilldarráð í hug að taka myndir af mér með þær og svo gat ég skoðað á tölvuskjánum hvernig ég leit út með ólíkar umgjarðir. Einnig "böggaði" ég vini og vandamenn með fyrirspurnum um hvað færi mér best. Komst að vísu að því að persónulegur smekkur hvers og eins blandaðist óhjákvæmilega inn í þeirra mat en á endanum var þetta spurning um tvær umgjarðir. Einhverra hluta vegna var ég samt ekki alveg að "fíla" þær og skilaði öllum. Datt þá reyndar í hug að athuga í aðra verslun og sá þar í fyrstu atrennu gleraugu sem mér fundust smellpassa. Nú sit ég sem sagt með þessi sömu gleraugu og reyni að venjast þeim.Spurning hvað það tekur langan tíma að losna við sjóriðuna??

fimmtudagur, 30. júní 2005

Snúðarnir standa alltaf fyrir sínu


Já, mér skilst að snúða með súkkulaði sé ekki hægt að fá í Noregi. Sigurður er vitlaus í svona snúða og er þetta þriðji dagurinn í röð sem ég kaupi snúða handa strákunum. Hann kemur örugglega vannærður aftur til mömmu sinnar...

þriðjudagur, 28. júní 2005

Mæli ekki með því

að byrja daginn á að liggja í heitum potti í tæpa tvo tíma, a.m.k. ekki ef ætlunin er að gera eitthvað meira þann daginn. Ég fór sem sagt í sund með Ísak og Sigurð í morgun og þeim fannst svo rosalega gaman að ég ætlaði aldrei að ná þeim uppúr. Byrjaði sem betur fer á því að synda mínar 20 ferðir því ég hefði aldrei nennt því eftir að hafa legið í heita pottinum. Sólin var líka svo vingjarnleg að kíkja fram úr skýjunum einmitt á þeim tíma sem við vorum í sundi og það var nú ekki verra.

Hef annars verið í símasambandi við verslun í Reykjavík sem selur gamaldags baðinnréttingar en í ljós kom að þeir eru að hætta með þetta merki og því var 25% afsláttur á þeim (alveg nógu dýrt samt...). En svo gefa þeir auka afslátt ef maður kaupir bað + wc hjá þeim líka - eini gallinn er sá að mér finnst nógu erfitt að velja baðinnréttingu í gegnum símann en ég held að það sé bara ekki hægt að velja klósett óséð ;-)

mánudagur, 27. júní 2005

Frændur skylmastJá þeim leiðist ekki frændunum, Ísak og Sigurði. Og ekki spillir góða veðrið fyrir, 18 stiga hiti í dag þegar Sigurður var sóttur á flugvöllinn. Á morgun er stefnan svo tekin á sundlaugina og vonandi heldur þetta blíðskaparveður áfram.
P.S. Ég var eitthvað að hamast í fókusnum á myndavélinni (sem er auðvitað sjálfvirkur en ég ruglaðist aðeins, fannst ég vera með "eldgömlu" myndavélina mína í höndunum). Afleiðingin er sú að Ísak minn er ekki alveg í fókus - það gengur bara betur næst!

sunnudagur, 26. júní 2005

Loksins er ég búin að þrífa eldhúsinnréttinguna

eftir að hafa haft það á "að gera" listanum mínum í einhverja mánuði. Tók hvert einasta snitti út úr skápunum, þreif og þurrkaði og raðaði svo aftur inn. Hm, þetta er reyndar ekki alveg rétt hjá mér, allir hlutirnir fengu ekki að fara aftur inn í skáp heldur standa einhverjir þeirra núna á eldhúsbekknum og gera það að verkum að eldhúsið er allt í drasli. Ég ákvað nefnilega að taka ýmislegt dót úr umferð sem hefur ekki verið notað síðustu 10 árin eða svo. Nú er bara stóra spurningin, hvað á ég að gera við það?

Á morgun kemur Sigurður

sonur Önnu systur í heimsókn. Hann kemur aðallega til að heimsækja Ísak en það eru 1 ár og 4 mánuðir á milli þeirra í aldri, þ.e.a.s. Sigurður er eldri en Ísak. En þeim frændunum kemur svona líka vel saman og er um að gera að reyna að viðhalda tengslunum. Eina vandamálið er hversu langt er á milli þeirra - en Sigurður býr jú í Noregi. Þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur einn til Íslands og verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Við hlökkum a.m.k. mikið til að fá hann í heimsókn ;-)

laugardagur, 25. júní 2005

Valur

fór í fuglaskoðunarferð í Mývatnssveit í júníbyrjun. Hér má sjá Óðinshana úr þeirri ferð. Ég sjálf hef fullan hug á því að fara að taka fleiri myndir, svo ég þurfi ekki að skreyta mig með fjöðrum annarra í framtíðinni.

Ég skil ekki hvað hefur gerst,

allt í einu er bara eitt línubil í textanum á síðunni - en ég var ekki að fikta neitt í uppsetningunni - og það sem verra er, kann ekki að laga það.

fimmtudagur, 23. júní 2005

Ef það er ekki kominn tími til að blogga

þá veit ég ekki hvað... Hef verið svo steikt í höfðinu undanfarið eftir að horfa á tölvuskjá í 6-8 tíma á dag að ég hef ekki verið í stuði til að setjast fyrir framan tölvuna þegar heim kom.

Ísak er kominn til Vestmannaeyja þar sem hann er "gulur og glaður" með hinum KA strákunum. Liðið hans er búið að spila tvo leiki og gerðu þeir jafntefli í þeim fyrri en unnu þann seinni. Það er gott fyrir okkur sem heima sitjum að geta fylgst með mótinu á heimasíðunni. Mér tókst að merkja allan hans farangur (meira að segja nærbuxurnar líka) áður en hann fór og var bara nokkuð ánægð með sjálfa mig. Sérstaklega þegar ég áttaði mig á því að merkimiðarnir með nafninu hans (sem ég keypti þegar hann byrjaði á leikskóla en notaði aldrei) voru ekki til að sauma í, heldur var lím neðan á þeim og hægt að festa með straujárni.

Sem var reyndar bæði gott og slæmt og töpuðust einir fótboltasokkar vegna þess. Þannig var að ég hafði merkt eitt par af sokkum og datt þá í hug að það væri nauðsynlegt fyrir hann að eiga sokka til skiptanna, t.d. ef það mmyndi rigna. Ég dreif mig þess vegna og keypti annað sokkapar - sem reyndar leit ekki alveg eins út og hinir sokkarnir en voru samt KA sokkar. Jæja, fer heim með þá og ætla að merkja þá í hvelli, skelli straujárninu á (hafði sem betur fer bökunarpappír á milli) og viti menn sokkarnir bara bráðnuðu fyrir framan augun á mér og breyttust í plastklump (þ.e.a.s. sá hluti sem lenti undir straujárninu). Þvílíkt drasl! Ég mátti gjöra svo vel að fara aðra ferð í búðina, kaupa nýtt par af sokkum og merkja þá með tússpenna (svona eins og Sunna benti mér á ;-) Já, svona fór um sjóferð þá.