sunnudagur, 29. ágúst 2004

Ætla aldrei aftur að kaupa London lamb

Þvílíkt óæti og þvílíkur bömmer fyrir mig. Ætlaði nú aldeilis að sýna ungunum að mamman gæti eldað mat (eins og pabbinn) og eftir að hafa skoðað það sem í boði var í 10-11 ákvað ég að kaupa london lamb. Hef að vísu ekki borðað þannig mat í mörg ár en strákarnir eru hrifnir af reyktu kjöti svo ég hélt að þetta félli nú aldeilis í kramið. Sauð lambið eftir leiðbeiningum á umbúðunum og hafði kartöflur og hvítan jafning (uhhstú eins og Valur kallar það) með. Fannst ég alveg rosalega eldhús-leg eitthvað á meðan á eldamennskunni stóð og var rosalega ánægð með sjálfa mig. Og þar sem væntingarnar voru miklar var auðvitað fallið hátt. Þetta var bara ógeðslegt. Kjötið var eins og límt saman einhvern veginn og fullt af hörðum tægjum og fitu. Við fengum okkur öll eina sneið af óætinu (strákarnir vildu reyna að gleðja mömmu sína og ég varð náttúrulega að ganga á undan með fögru fordæmi og borða það sem ég hafði nú einu sinni sjálf eldað) en svo henti ég afgangnum í tunnuna. Þarna fóru 1551 krónur fyrir lítið. Ég er að velta því fyrir mér hvers konar fólk kaupir þetta - því einhverjir hljóta að vera ábyrgir fyrir því að þetta kjöt er yfirhöfuð framleitt (það ætti að vera sök neytendanna ef lögmál framboðs og eftirspurnar er í jafn miklu gildi og markaðsfræðingar vilja vera láta). Jæja, nóg um það.

Hef verið að skoða hótel í París á netinu síðasta klukkutímann eða svo. Það er úr ýmsu að velja og erfiðast að vita í hvaða "hverfi" borgarinnar er best að gista. Mér datt nefnilega ekkert í hug til að gefa Val í afmælisgjöf svo ég ákvað að bjóða honum til Parísar og er búin að kaupa farseðlana en á sem sagt þetta hótel-dæmi eftir. Hvað sem því líður þá verður gaman að fara í ferðalag saman tvö ein til útlanda án þess að um læknaráðstefnu sé að ræða.

Ég hafði nú ekki hugarflug í að láta mér detta í hug samhengið á milli veiðitúra Vals - ískursins í bílnum og reykta fisksins. En Baldur vinur okkar í Tromsö/Kópavogi sá í gegnum þetta og nú verður Valur aldeilis tekinn í karphúsið þegar hann kemur heim úr veiðinni. Ég ætti kannski að fá lánað svona fjólublátt vasaljós eins og löggurnar í CSI eru alltaf með og leita að sönnunargögnum í aftursætinu...... (Vona að þetta hafi ekki verið of gróft fyrir viðkvæmar sálir en svona geta "saklaus" comment á bloggið haft áhrif á bloggskrifara).

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig væri með latínuhverfið? "latinkvarteret" eða e-ð í þá áttina á norsku, hvað það heitir á frönsku hef ég ekki glóru um. A--a

Nafnlaus sagði...

Einhver sagðist ætla aldrei aldrei aftur að vinna í Ísbirninum eða Vinnslustöðinni segir sá er þetta hripar en margt fer öðruvísi en ætlað er. Það þýðir ekkert að deila um smekkinn en gott að vita af því að slíkur matur verði ekki í bráð í Vinaminni ef manni skyldi verða boðið í mat sem er víst alveg með eindæmum þar.

Ég held að kallinn sætti sig við hvaða hótel sem er þar sem hann er nýbúinn að vera í veiði (og mála) og verður þá a.m.k. mjög glaður á næstunni (eins og alltaf!) og sérstaklega ef mið er tekið af kommenti Baldurs nýlega. Hann er það harður nagli að hann klárar svona dæmi án vandræða.

jason derulo sagði...

tell it sista