fimmtudagur, 31. maí 2012

Í sól og sumaryl


Ég áttaði mig á því nýlega að ég hef ekki tekið myndir í heilan mánuð. Veit ekki hvað veldur, en ákvað að bæta úr því, og skrapp skottúr í Lystigarðinn eldsnemma í morgun. Gat ekki verið lengi því ég átti eftir að borða morgunmat og fara í sturtu áður en ég færi í sjúkraþjálfun kl. 9.30. Í Lystigarðinum var líf og fjör. Bæði var verið að vinna að lokafrágangi nýja kaffihússins og eins var verið að slá gras og reita arfa úr beðum. Ég var ekki með stóru linsuna mína, svo það takmarkaði aðeins ljósmyndamöguleikana, en ég náði þessari hérna mynd og er bara nokkuð sátt við hana. Finnst hún vera lýsandi fyrir veðurblíðuna sem við höfum verið svo lánsöm að fá að njóta undanfarið.

P.S. Smellið á myndina ef þið viljið sjá hana stærri.

fimmtudagur, 24. maí 2012

Umfjöllun um Potta og prik á bloggsíðu



Það er flott umfjöllun um búðina okkar Sunnu á bloggsíðunni mAs. Við erum kannski ekki þær allra duglegustu að koma okkur á framfæri, svo það er extra gaman að fá svona óvænta umfjöllun.

Það er að segja, þetta kom kannski ekki alveg á óvart, að því leytinu til að þær systur sem standa fyrir síðunni, voru búnar að hafa samband við okkur og lýsa yfir áhuga á því að gera þetta. Þær sögðu að Pottar og prik væru ein uppáhalds verslunin þeirra á Akureyri og þær kíkja alltaf við hjá okkur þegar þær koma norður.

Við tókum líka þátt í smá leik með þeim. Gáfum FireWire grillpinna, sem þær ætla að gefa heppnum lesanda bloggsins, þegar þær hafa náð 100 vinum á facebook.

Þær eru reyndar ekki einar um það að koma alltaf við hjá okkur þegar þær eru á Akureyri. Fyrr í vikunni komu hjón í búðina. Þau búa líka fyrir sunnan og koma alltaf og versla aðeins við okkur þegar þau eru á ferðinni hér norðanlands. Í fyrra tókum við spjall saman og í ljós kom að sonur þeirra hafði búið í Tromsö, alveg eins og ég. Og núna þegar þau komu, heilsuðu þau mér með miklum virktum.  Bara gaman að því :-)

Í dag gerðist líka dálítið skemmtilegt í vinnunni. Í búðina komu hjón sem sögðust reka farfuglaheimili á Austfjörðum. Þau voru að leita að ákveðnum hlut, fati sem hægt væri að nota undir álegg. Fatið þurfti að vera ferkantað og helst hvítt á litinn. Ég sýndi þeim það sem við eigum en ekkert hentaði. Svo versluðu þau annan hlut og héldu síðan á brott. Eftir að þau voru ákvað ég að fá mér að borða og byrjaði að háma í mig salat.

Á meðan ég var að borða ráfaði ég inn á lager og þar rak ég augun í postulínsfat sem ég hafði gleymt að sýna fólkinu. Sá strax að þetta væri líklega akkúrat rétta fatið og fannst miður að hafa ekki munað eftir því. Datt þá í hug að finna farsímanúmerið þeirra og hringja, svona ef ske kynni að þau væru kannski ennþá á Glerártorgi. Þau voru hins vegar farin burt af torginu og komin eitthvert út í bæ. Ég sagði þeim samt erindið og sagðist bara hafa viljað láta þau vita, svona ef þau hefðu verið enn á torginu. Svo kvöddumst við.

Nokkru síðar birtust þau samt. Ég sýndi þeim fatið, sem þau voru mjög hrifin af, og keyptu tvö stykki. Síðan hurfu þau á braut sæl og glöð og ég var mjög ánægð með dagsverkið :-)

sunnudagur, 20. maí 2012

Vöfflur ÁN eggja, mjólkur og glúteins



158 gr. möndlumjöl (ég set möndlur í blandarann og bý til mjöl)
1/2 bolli kartöflumjöl
2 tsk. vínsteinslyftiduft
1/2 msk. sjávarsalt (má nota aðeins minna)
2 msk. sykur

1/4 bolli eplamauk
2 msk. olía
1/2 -13/4 bolli vökvi (t.d. rísmjólk, kókosmjólk, vatn)

Blandið þurrefnunum saman.
Hrærið saman eplamauk, olíu og vökva og blandið saman við þurrefnin.
Best er að byrja með 1/2 bolla af vökva, og sjá hvort það er nóg. Ef ekki, þá bæta smátt og smátt við meiru þar til hræran er passlega þykk.

Pensla vöfflujárnið vel með olíu fyrir hverja vöfflu sem steikt er. Steikingartími er örlítið lengri en venjulega (m.v. vöfflur með hveiti og eggjum). Passa að vafflan sé nógu steikt áður en reynt er að losa hana úr vöfflujárninu.

Ofaná: Kókosmjólk frá Santa Maria sett í kæli. Þegar dósin er opnuð er þykka lagið efst skilið frá vökvanum, sett í skál og þeytt með smá vanilludufti.

P.S. Svona kókosmjólk. Aðrar eru betur blandaðar, og ekki hægt að þeyta.


P.P.S. Ég gleymdi að láta þess getið hvaðan þessi uppskrift er komin. En upphaflegu uppskriftina er að finna hér

laugardagur, 19. maí 2012

Kemst ekki í afmælisbrunch hjá vinkonu minni

Því miður. Þetta er þriðji dagurinn sem ég er veik. Fyrsta daginn var ég bara með heljarinnar hálsbólgu, annan daginn bættist hor í hópinn og nú er hóstinn að byrja. Hálsbólga, hor og hósti. H-in þrjú eins og Umferðar-Einar (karakter úr þáttum með Tvíhöfða) myndi kalla þetta. Nema hvað hann hefði ekki munað hvað þriðja H-ið stóð fyrir.

Það er leiðinlegt að missa af afmælinu hennar Ernu, en hún er fimmtug í dag og heldur uppá það með heljarinnar brunch sem byrjar núna kl. 10.30. Við Erna höfum þekkst síðan við vorum unglingar. Mig minnir að ca. 17 ára hafi hún verið hárgreiðslunemi á hárgreiðslustofunni í Kaupangi og þá byrjaði ég að fara til hennar í klippingu. Nokkuð sem ég hef gert nánast alla tíð síðan, þó vissulega hafi ég búið í Noregi á tímabili og stundum tekið tarnir hjá öðrum hárgreiðslukonum, þá enda ég alltaf aftur hjá Ernu. Svo erum við líka klúbbsystur, í litla konuklúbbnum með stóra nafnið, Kvennaklúbbi Akureyrar.

Kosturinn er sá að ég er ekki jafn rosalega þung yfir höfðinu í dag miðað við gær, en þá gat ég hvorki prjónað, saumað eða lesið mér til afþreyingar. Þannig að kannski ég komi rennilásnum í buxurnar sem ég var að bisa við í gær. Hafði gert ótal tilraunir og þetta varð alltaf skakkt og skælt hjá mér, nú eða þá að ég saumaði buxnaklaufina alveg saman eins og gerðist í eitt skiptið ;O)


Ljósmyndin sem hér fylgir er tekin í skóginum fyrir ofan Kristnes, síðustu vikuna mína þar.

föstudagur, 18. maí 2012

Takk þið sem svöruðuð könnuninni minni


Þetta var nú mest til gamans gert, en líka í upplýsingaskyni fyrir mig. Ég hafði á huga á því að vita hvort það væru aðallega ljósmyndirnar sem væru að trekkja að (alla mína mörgu lesendur, hehe) eða hvort textinn stæði sjálfur fyrir sínu. Og sú var niðurstaðan, textinn var vinsælli svarmöguleiki heldur en ljósmyndirnar. Hins vegar, eftir að ég fór að birta bloggfærslur á facebook, breyttist aðeins jafnvægið í þessu, og fleiri fóru að merkja við svarmöguleikann "vinur/vinkona". 

Svona eftir á að hyggja var þetta kannski fremur langsótt aðferð við að reyna að finna út hvort fólk hefði gaman af því að lesa bloggið mitt. Ég hefði kannski frekar átt að spyrja bara hreint út... Svona er þetta stundum, maður leitar langt yfir skammt :-)



fimmtudagur, 17. maí 2012

Garðyrkja er góð fyrir geðheilsuna



Hrefna Harðardóttir leirlistakona og ÁLFkona (meðlimur í ljósmyndaklúbbnum mínum) var með tengil á athyglisverða grein á facebook síðunni sinni. Titill greinarinnar er: Why gardening makes you happy and cures depression, og viti menn, forvitni mín var vakin og ég ákvað að lesa greinina.

Í stuttu máli gengur hún út á að vísindamenn hafa komist að því að ákveðin jarðvegsbaktería (Mycobacterium vaccae) eykur losun serotonins í heila okkar. Serotonin er stundum kallað hamingjuhormónið, þar sem skortur á því getur m.a. valdið þunglyndi og fleiri kvillum að því er talið er. Á þessum síðustu og verstu tímum, þegar þunglyndi virðist vera að verða að alheimsfaraldri, þá er ekki úr vegi að hver og einn skoði hvað hann getur gert til að verjast þeim vágesti. Ein leið er sem sagt að drífa sig út í garð og vinna berhent(ur) í moldinni svo líkaminn komist í snertingu við þessa ágætu bakteríu. Hvort sem það er að rækta sitt eigið grænmeti, gróðursetja blóm og runna, eða reita arfa úr beðunum.

Ekki veit ég hvort það er áðurnefndri jarðvegsbakteríu að þakka, en var ég einstaklega ánægð í vinnunni, þau sumur sem ég vann í Garðræktinni.  Vinnan var afskaplega fjölbreytt. Við gróðursettum blóm, runna og tré, lögðum þökur, hellulögðum, tíndum grjót úr túnum, reittum arfa úr beðum, slógum gras, unnum í gróðurhúsinu og ábyggilega eitthvað fleira sem ég man ekki. Bónusinn var líka sá, að það var alveg frábær hópur sem vann þarna, bæði krakkar og fullorðnir. Um daginn hitti ég stelpu (konu jafngamla mér...) sem vann með mér í Garðræktinni og við skemmtum okkur vel við að rifja upp góðar stundir. Svona eins og t.d. þegar við vorum að eitra í kartöflugörðum bæjarins að nóttu til, og Jónsi ók á traktor yfir kaffibrúsann minn. Okkur kom ekki alveg saman um það hvoru okkar væri um að kenna. Sá sami Jónsi setti mig líka undir stýri á traktor og kenndi mér á kúplingu og bensíngjöf. Af stað fór ég - en verr gekk þegar ég ætlaði að stoppa. Það varð einu tré færra á Hamarkotstúni...

Til að auka magn serotonins í líkamanum, er hægt að gera ýmislegt fleira en vinna í garðinum, s.s. að stunda hvers kyns líkamsrækt. Ennig að stunda iðju sem felur í sér taktfasta endurtekningu, eins og að prjóna, mála eða leika á hljóðfæri svo dæmi séu nefnd. Jafnvel það að tyggja tyggjó getur haft áhrif ("Secrets of Serotonin" eftir Carol Hart). Að vera úti í sólinni, fara í nudd, og rifja upp ánægjulegar minningar eru einnig þættir sem auka magn serotonins

Loks er þáttur mataræðis alveg ótalinn hér, enda held ég að það væri efni í heila bók. En fyrir áhugasama þá er t.d. ein grein hér um það hvernig hægt er að hafa áhrif á þunglyndi með mataræði.


P.S. Myndina af hádegisblómunum tók ég í Lystigarðinum sumarið 2009. Hádegisblóm voru ein uppáhaldsblómin mín þegar ég vann í Garðræktinni. Þau opna sig og blómstra þegar sólin skín, en þegar er þungskýjað er engin leið að sjá hvað þau eru falleg. Svolítið eins og með okkur mannfólkið. Þegar við erum glöð á góðum degi sést það langar leiðir, en erfiðara að sjá þetta góða sem í okkur býr þegar depurð og þunglyndi hafa náð yfirhöndinni.

mánudagur, 14. maí 2012

Fyrir þá sem nota Bloglovin

Þá er núna hægt að fylgjast með blogginu mínu í gegnum þá:
Follow my blog with Bloglovin

Eitthvað sem minnir á sumarið :)


"Það er vorhret á glugga,
napur vindur sem hvín. "

Er þá ekki bara málið að brosa breitt og hugsa um sumarið sem kemur (vonandi sem fyrst :)

laugardagur, 12. maí 2012

"Allir" að flytja burt úr götunni minni



Jæja OK það er nú kannski ekki alveg svo slæmt að allir séu að flytja, en upplifunin er svipuð. Núna um helgina er verið að flytja úr tveimur húsum, nr. 6 og nr. 8.

Í fyrsta lagi þá er hún Dóra að flytja úr húsinu á móti okkur, eftir að hafa búið þar í ein 45 ár. Og þar sem ég átti jú heima hér í sama húsi sem barn og fullorðin, þá hefur Dóra verið nágranni minn nánast allt mitt líf. En eftir að Jón maðurinn hennar dó þá var ljóst að það var of mikið fyrir hana að vera ein í einbýlishúsi, og nú er hún að flytja í blokkir fyrir aldraða í Víðilundi, hér stutt frá. Það er gott fyrir hana að þurfa ekki að hafa áhyggjur af viðhaldi húss né garðs lengur, og svo tekur hún mikinn þátt í handavinnu fólksins í Víðilundi , og þá verður nú aldeilis stutt að fara í handavinnuna. En mikið sem það verður skrítið að sjá einhverja aðra í húsinu þeirra Jóns og Dóru! Að minnsta kosti svona fyrst í stað.

Eins og ég sagði í byrjun er fólkið í Stekkjargerði 6 líka að flytja í dag. Ég þekki þau ekki mikið en þó nóg til að heilsa og spjalla aðeins þegar ég hitti þau. Þetta er viðkunnanlegt fólk sem verður eftirsjá að.

En þetta er víst gangur lífsins. Fólk kemur og fer. Það verður samt alltaf einhver angurværð í hjartanu við svona breytingar.

Ég minnist þess að þegar við bjuggum í Bergen í Noregi kynntist ég konu sem var með mér í heimspekiáfanga í háskólanum. Kersti hét hún, var þýsk og dálítið sérstök, en við náðum þokkalega saman. Þegar kom að því að ég var að flytja frá Bergen til Tromsö, álpaðist ég til að segja við hana að hún myndi ábyggilega kynnast einhverri annarri konu í staðinn fyrir mig. Það er ekki hægt að lýsa svipbrigðum hennar, né rödd, þegar hún svaraði með hálfgerðum þjósti: "Heldur þú að ein manneskja geti komið í stað annarrar? Þannig er það bara ekki!". Og auðvitað var það alveg rétt hjá henni Kersti.

fimmtudagur, 10. maí 2012

ÁLFkonur verða með ljósmyndasýningu í sumar


Sem er bara skemmtilegt :) Þessi sýning verður í Lystigarðinum ( ég held að ég hljóti að mega segja frá því hér). Hins vegar getur það verið smá púsluspil að velja mynd á svona samsýningu. Ég eyddi dágóðum tíma í gær í að fara í gegnum gamlar myndir, auk þess sem ég hef tekið nokkrar nýjar að undanförnu. Í gær datt ég niður á þessa mynd sem ég tók í Lystigarðinum sumarið 2010.

miðvikudagur, 9. maí 2012

Birta gamla með barkarbólgu

Já þá vitum við það, kettir geta fengið barkarbólgu. Ég sem hélt að hún væri bara kvefuð. Hún er búin að vera hóstandi annað slagið og mishás síðustu vikur, en þar sem hún hefur borðað og drukkið eðlilega þá hélt ég að þetta væri eitthvað sem myndi bara rjátlast af henni.

Svo í morgun gerðist tvennt. Hið fyrra var að hún vildi fara út og ég hleypti henni út en lokaði hurðinni af því golan var svo köld. Mér tókst að gleyma henni alveg þar til ég fór svo í sund (tja svona 20 mínútur að hámarki) og þegar hún kom inn byrjaði hún að hósta enn eina ferðina. Hið síðara var að okkur vantaði kattasand og ég ákvað að fara uppeftir til Elvu dýralæknis til að kaupa sand, og forvitnast í leiðinni um þetta kvef. Sem ég og gerði. Nema hvað, þá fæ ég að vita að þetta sé mjög líklega barkarbólga og við henni þurfi að gefa sýklalyf.

Þannig að það var ekkert annað í stöðunni en bruna heim aftur og sækja köttinn. Eins og venjulega varð hún alveg sármóðguð yfir því að vera sett í búr, en þó er bílinn hennar versti fjandi. Hún hóf því fljótlega upp ráma raust sína og kvartaði hástöfum alla leið til dýralæknisins. Úff, ekki það skemmtilegasta sem ég veit að keyra með kvartandi kött. Nógu er hún hávær svona dags daglega, en þarna finnst henni liggja svo mikið við að koma skilaboðunum á framfæri, að hún hækkar sig upp um marga tóna. Í dag var hún jú í þokkabót frekar hás, svo þetta var ekki fagur söngur né þægilegur áheyrnar.

Jæja, en við komumst á áfangastað og hún fékk sýklalyf í sprautuformi + verkjalyf og ég fékk  sýklalyf í fljótandi formi til að taka með heim og halda áfram meðferðinni þar. Að sjálfsögðu mjálmaði frúin ekkert minna á heimleiðinni, þó heldur væri farið að draga úr hljóðstyrknum. Hún varð glöð að komast heim en samt áfram svo stressuð að hún gekk hér um gólf mjálmandi af og til í góða stund. Svo vildi hún fara út og fékk það. Kom inn aftur og ældi (eins og venjulega) smá skammti af grænu grasi. Þegar hér var komið sögu var orkan búin í bili og hún örmagnaðist á rúminu hér við hliðina á tölvunni minni. Ætli hún verði þar ekki í dag.


Hér sést svo drottningin sjálf í fanginu á Ísaki. Ekki kannski virðulegasta stellingin fyrir aldraða kisu, en hún er orðin svo athyglissjúk að hún lætur sig hafa hvað sem er, svo lengi sem einhver sýnir henni athygli.

1400 bloggfærslur

Ég rak allt í einu augun í það að ég er búin að skrifa og birta alls 1.400 bloggfærslur. Mér finnst það nú eiginlega bara nokkuð gott. En miðað við árafjöldann sem ég hef bloggað gætu þær auðvitað verið ennþá fleiri. Samt - þá er gaman að þessu :-)

P.S. Þetta var bloggfærsla nr. 1.401.

þriðjudagur, 8. maí 2012

Jón Spæjó

Það var einu sinni lag með Ladda með þessu nafni. Einhverra hluta datt mér það í hug núna, en umfjöllunarefnið er mín eigin njósnastarfsemi. Tja, kannski svolítið yfirdrifið að tala um njósnir, en já nú ætla ég að gera það sem ég hef lengi hugleitt að gera, en aldrei látið verða af. Nefnilega að skrá niður allar athafnir mínar og líðan og sjá hvort ég læri ekki eitthvað af því. Hvort ég finn samhengi milli fleiri þátta heldur en ég þekki nú þegar. Eitt sem ég áttaði mig t.d. á þegar ég var á Kristnesi, var að orkan mín er svo sveiflukennd, að þó ég sé örmagna fyrri part dags, þá kemur kannski smá orkuskot seinni partinn, og þá get ég t.d. notað þann tíma til að fara út að ganga í stað þess að þvinga mig út að ganga þegar ég er þreytt.

Þessi skráning mín er liður í því að læra að lifa með Fröken Vefjagigt, og verður spennandi að sjá hvort einhver athyglisverð munstur koma í ljós. Aðal vandamálið verður að muna eftir því að skrá allt - alltaf - og fyrir manneskju sem getur ekki einu sinni munað að taka vítamín daglega er það vissulega áskorun. En ég er byrjuð og til þess að auðvelda mér skráninguna bjó ég til nýtt dagatal inni í Google calendar (sem er frábært forrit). Ég get skráð jafnóðum þar inn þegar ég er tölvutengd, en svo keypti ég mér líka litla stílabók til að hafa með mér í töskunni og nota þegar ég ekki nálægt tölvu. Þannig að ég ætti að vera tilbúin í slaginn.

En þetta með orkuna er mér sífellt undrunarefni. Í vinnunni í dag leið mér t.d. nógu vel til þess að ég ákvað að þrífa útstillingarborðin með vatni og sápu í stað þess að þurrka bara rykið með rykkústi (sem er mun fljótlegra og þægilegra). Ég byrjaði reyndar á þessu verki í gær og ætlaði aldeilis að vera skynsöm og deila þessu í fleiri smærri áfanga, til þess að klára mig ekki á þessu. Svo hélt ég sem sagt áfram við þetta í morgun og tók svo ágætis pásu, fékk mér að borða og græjaði nokkrar pantanir til birgja. Fór svo í lokahnykkinn og fyrst var allt í lagi en svo bara allt í einu var eins og ég gengi á vegg (já eða gengi fram af björgum...). Umskiptin voru svo snögg að það er eiginlega alveg stórmerkilegt. Frá því að vera bara í nokkuð góðum gír en smá lúin, yfir í það að vera gjörsamlega veik af þreytu. Ég fékk mér gingseng te og hresstist pínu lítið við það, en það sem eftir lifði dags hef ég verið hálf ónýt. Skrifa þetta t.d. liggjandi á sófanum.

Ég fór nú samt út að ganga fyrir kvöldmatinn, kannski meira á hörkunni, og ef ég hefði verið skynsöm þá hefði ég líklega átt að sleppa því. Það er bara svo erfitt að vera skynsöm. En ég var með GPS úrið og mældi m.a. púlsinn og hann var alveg 20 slögum hærri að meðaltali en á sunnudagskvöldið þegar við Valur fórum í gönguferð og þá var ég ekki svona þreytt eins og í dag. En já já, batnandi mönnum er best að lifa og svo lengi lærir sem lifir o.s.frv. You get my point!


sunnudagur, 6. maí 2012

Smá könnun til gamans

Á meðan Ísak fór að lana í gærkvöldi, og Valur og Andri fóru í bíó, notaði ég tímann og lék mér aðeins með bloggið mitt. Setti inn nokkra nýja "fítusa" hægra megin á síðuna og svo undir hverjum pistli kemur núna möguleikinn "You might also like" sem sýnir eldri pistla sem lesandinn gæti einnig haft áhuga á að skoða. Mér tókst reyndar ekki að láta þann valmöguleika birtast á íslensku, en annars vil ég hafa þetta sem allra mest á ástkæra ylhýra móðurmálinu.

Núna áðan klykkti ég svo út með því að setja smá könnun hér í hornið efst hægra megin. Það er nefnilega þannig að þó ég sé aðallega að blogga fyrir sjálfa mig, ættingja og vini, þá er alltaf gaman að fá athugasemdir á færslurnar, og eins að sjá hvað það er sem fólk er að sækjast eftir með því að lesa bloggið. Nú er bara spennandi að sjá hvort einhver svarar þessari könnun minni - og NB! það er hægt að velja fleiri en einn svarmöguleika.

Gáseyri (enn og aftur ;)

Já við förum alltaf nokkrar ferðir út á Gáseyri á hverju ári, enda gaman að koma þangað. Þessa mynd tók ég á mánudagskvöldið síðasta.

laugardagur, 5. maí 2012

Lazy Daisy á laugardegi

Stóðst ekki mátið að leika mér aðeins með fyrirsögnina hér, en jú ég er löt og það er laugardagur. Morguninn hefur verið tekinn afar rólega hér á bæ. Við sváfum til rúmlega hálf níu og drukkum svo morgunkaffið og lásum blöðin í rólegheitum. Hús og híbýli datt hér inn um lúguna og ég sá að þar var meðal annars innlit til konu hér á Akureyri. Hún á heima í hverfinu hér fyrir neðan mig og er þar að auki með bloggsíðu sem gaman er að skoða. Þegar ég byrjaði að blogga fyrir (mér liggur við að segja hundrað árum) tæpum 8 árum voru ekki svo mörg íslensk blogg, en mér finnst fjöldi þeirra hafa margfaldast bara á síðustu 2-3 árum. Sérstaklega þau sem flokka mætti sem tískublogg, eða hönnunar- og húsbúnaðarblogg. Þessi nýja tegund blogga kemur í viðbót við blogg eins og mitt, sem er svona "allt og ekkert" blogg og snýst aðallega um daglegt líf og einhverjar vangaveltur viðkomandi höfundar. Hvað um það, mér finnst sérstaklega gaman að skoða blogg sem sýna "fyrir og eftir" myndir af breytingum sem gerðar eru á hlutum eða innviðum heimila. Stefni að því að taka saman tengla á nokkur slík.

P.S. Þessi færsla var skrifuð svona ca. um hádegisbilið, en svo fór ég í vinnuna og gleymdi þessu alveg... Þannig að hún kemur seint og um síðir - og í millitíðinni er ég sem sagt búin að vinna, koma heim, fara út að ganga með GPS tækið, borða dýrindis pítsu með smá rauðvínstári, ganga frá í eldhúsinu, setja í þvottavél og hengja upp, setja í aðra þvottavél og hanga í tölvunni. Bara nokkuð gott dagsverk ;-)

Smá sýnishorn úr Lystigarðinum

miðvikudagur, 2. maí 2012

Það eru margir sem eiga við veikindi að stríða

Eins undarlega og það kannski hljómar, þá fór ég áðan í gönguferð í rigningunni, og afrakstur þeirrar gönguferðar urðu vangaveltur um alla þá eiga í veikindum af einhverju tagi, og þau miklu áhrif sem það hefur á líf þeirra.

Þetta var ekki langur göngutúr, ég fór bara smá hring í mínu næst-nánasta umhverfi. (Nánasta umhverfi er hringurinn hér í hverfinu mínu, en þarna fór ég niður í næsta hverfi fyrir neðan, mýrarnar). Ég hafði ekki gengið lengi þegar ég gekk framhjá húsi einu, og allt í einu rifjaðist upp fyrir mér að konan sem þar býr var að hluta til á Kristnesi á sama tíma og ég. Hún hafði veikst hastarlega fyrir einhverju síðan og hefur ekki náð sér aftur nema að litlu leyti. Skömmu síðar gekk ég fram hjá öðru húsi, og einnig þar á húsfreyjan við veikindi að stríða. Veikindi sem gengið hefur illa að finna út af hverju stafa, og þar af leiðandi er erfitt að meðhöndla þau. 

Í kjölfarið fór ég að hugsa um allar þær ungu konur sem eru að greinast með vefjagigt og þurfa að finna leiðir til að láta hverdaginn ganga upp, margar hverjar með ung börn, heimili og vinnu/skóla. Ég er þó svo "lánsöm" að vera ekki lengur með lítil börn, og ég á mann sem tekur sinn hlut af heimilisstörfunum. Þrátt fyrir þetta gengur mér ekkert of vel að vinna með vefjagigtinni, þ.e. að vinna með henni í stað þess að vera í endalausu stríði við hana. 

Kosturinn við prógrammið á Kristnesi var sá að hver einstakur dagskrárliður tók aldrei nema 30-40 mín. í mesta lagi og því náði maður að pústa á milli. Ég las einhvers staðar um konu sem fór að taka sér reglulegar 5-10 mín. pásur á hverjum klukkutíma og tókst að bæta virknina/líðanina yfir daginn töluvert. Það eru líka til kenningar um þetta með að fara ekki út fyrir orku-rammann sinn. Ein heitir The envelope theory og önnur kallast Pacing - ég held að í grófum dráttum fjalli þær um það sama. Ég þarf að kynna mér þetta efni betur og reyna að finna eitthvað kerfi sem hentar mér. Það er alveg bráðnauðsynlegt, því ég upplifi það eins og ég sé strax aftur að falla í gamla munstrið. Eftir að hafa verið í vinnunni í 4-5 tíma kem ég örmagna heim og þá er ekki um annað að ræða en henda sér upp í sófa, eða hanga fyrir framan tölvuna - eða víxla þar á milli. En vissulega eru líka viðbrigði að byrja aftur að vinna eftir hlé, svo kannski er þetta bara "byrja-að-vinna-aftur-þreyta". 

Ég er alla vega búin að afreka það að fara í sund í morgun, og þó svo ég hafi legið fyrir að mestu frá því ég kom heim úr vinnunni, tókst mér að herða mig upp og fara út að ganga núna áðan. Svo ástandið er nú ekki alslæmt ;-)

þriðjudagur, 1. maí 2012

Álkulilja - Fritillaria ruthenica

Það er eitthvað að gerast í Lystigarðinum, hin ýmsu blóm að skjóta upp kollinum. Þar á meðal þessi litla liljutegund, sem er kná þó hún sé smá ;-)