Ég hætti í menntaskóla og fór í staðinn í sjúkraliðanám, eignaðist dóttur, vann sem sjúkraliði, skellti mér aftur í skóla og tók stúdentinn, flutti til Noregs, vann sem sjúkraliði, eignaðist son, gifti mig, stundaði nám í sálfræði, vann sem sjúkraliði, flutti til Íslands aftur, eignaðist annan son, var heimavinnandi, stundaði nám í viðskiptafræði, var atvinnulaus í eitt ár, stofnaði fyrirtæki og starfrækti í tæp tvö ár, fór að kenna við háskólann, hætti að kenna... Þessa dagana er ég án vinnu og eftir að hafa verið ein með sjálfri mér í nákvæmlega fjóra daga er mér farið að leiðast. Samt er Ísak heima á daginn (fyrir utan fótboltaæfingar og leiki með félögunum) og aðrir fjölskyldumeðlimir eru heima eftir klukkan fjögur. Hið sama gilti þegar ég var atvinnulaus, mér leiddist alveg óskaplega. Nú skyldi maður halda að sá sem hefur allan þennan frítíma geti notað hann í eitthvað gáfulegt s.s. að þrífa húsið, reita arfa í garðinum, setja myndir í myndaalbúm, sauma nýjar eldhúsgardínur, laga til í skápum ofl. ofl. Verkefnin bíða í hrönnum og ég - ég geri nánast ekki neitt af viti.
Ég er fyrir löngu búin að komast að því að til að geta "virkað" eðlilega þarf ég samneyti við fólk. Þarf vissan skammt af örvun til að koma heilanum í gang. Og nú er ég loks að koma að því sem er mergurinn málsins með þessum pistli mínum: Ég gæti aldrei starfað sem rithöfundur, setið alein fyrir framan tölvuna lungann úr deginum án samveru við annað fólk. Það dugar mér ekki að fara í sund á morgnana og hitta svo engan fyrr en klukkan fjögur á daginn. Þegar ég var að kenna þá var það yfirleitt svo að ég var bara með kennslu tvisvar til þrisvar í viku, restina af tímanum sat ég inni á skrifstofu (ein) og var að undirbúa kennsluna, fara yfir verkefni o.s.frv. Og mér leiddist það alveg hörmulega. Fimmtán mínútna kaffitími á hverjum morgni dugði ekki til að slá á þörf mína fyrir mannleg samskipti, og ekki hafði ég tíma til að hanga hálfan daginn í kaffi.
Ergo: Eg þarf að vinna á vinnustað þar sem ég hitti margt fólk!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli