miðvikudagur, 2. september 2015

Babú - babú - babú ... vælubíllinn er á ferðinni !!

Klukkan er 13:06 á miðvikudegi. Ég er örmagna af þreytu. Hef samt ekki gert neitt í dag sem orsakað gæti þessa þreytu. Að vísu byrjaði ég í nýrri leikfimi í fyrradag og þetta eru hugsnalega síðbúin eftirköst.

En ég sef líka fremur illa þessa dagana. Á erfitt með að sofna og vakna oft um miðja nótt og á í erfiðleikum með að sofna aftur. Í gærkvöldi var ég þreytt þegar ég fór í háttinn en samt eitthvað upprifin. Eftir að legið vakandi dágóða stund sá ég fram á að geta ekki sofnað af sjálfsdáðum og tók 1/3 af svefntöflu. Sofnaði uppúr miðnætti. Vaknaði í tvígang og fór á klósettið, án þess að líta á klukkuna. Glaðvaknaði svo kl. fimm. Var samt dauðþreytt og langaði alls ekki að fara á fætur klukkan fimm að morgni. Velti mér og bylti dágóða stund, setti svo hugleiðslutónlist í eyrun og hef sennilega verið sofnuð aftur um sexleytið.

Vissi ekkert hvað klukkan var þegar ég vaknaði, fannst ég vera nýsofnuð en þegar ég leit á klukkuna var hún rétt rúmlega níu.

Úff það hafði alls ekki verið meiningin að sofa svona lengi. Ég var búin að missa af morgunsundinu (eða þannig upplifði ég það að minnsta kosti) en sólin skein úti og þá fannst mér að ég yrði að fara út fyrir hússins dyr sem allra fyrst. Þannig að ég fékk mér bara smá sítrónuvatn og dreif mig út í bíl og tók myndavélina með. Hélt kannski að það væri alveg logn og þá er Pollurinn oft svo myndvænn, en það var samt ekki 100% logn þó það væri frekar lygnt. Ég ók út að Krossanesi, á hæðina þar sem hægt er að sjá út fjörðinn og Kaldbak. Þar smellti ég af nokkrum myndum og naut góða veðursins.

Fann að ég var nú ekki alveg eins og ég á að mér að vera, en datt samt í hug að fara að Eyjafjarðarbrú og athuga hvort ég fyndi eitthvað myndefni þar í grennd. Stoppaði bílinn í tví- eða þrígang og tók einhverjar myndir en var nú farið að líða verulega illa. Þung í skrokknum og þreytt og syfjuð.

Þannig að ég dreif mig heim og fékk mér staðbetri morgunmat, hélt að það myndi kannski bjarga einhverju, en ónei það var ekki svo gott. Var bara algjörlega máttlaus í líkamanum og ótrúlega þung og þreytt öll. Það eina sem ég gat gert var að lesa, svo ég las bæði dagblöðin og hékk aðeins á netinu, áður en ég lagðist inn í sófa þar sem ég steinsofnaði. Hef líklega sofið hálftíma, klukkutíma, og vaknaði í síst betra standi.

Í örvæntingarfullri tilraun til að líða betur fékk ég mér te og 85% dökkt súkkulaði en þegar það dugði ekki til þá greip ég kexpakka (sem var keyptur í sumar þegar Valur fór í veiði) og gúffaði í mig þrjár kexkökur. Í nokkrar mínútur leið mér eins og ég væri að fá í mig einhvern lífsneista en þá gerðist tvennt. Fyrst fékk ég hraðari hjartslátt og í kjölfarið heiftarlegt samviskubit yfir því að hafa dottið í glúten- og sykur-sukk því ég byrjaði nefnilega í fyrradag í átaki með að taka akkúrat þetta tvennt út úr fæðinu. Þannig að nú bættist samviskubit ofan á þreytu og aðra vanlíðan. Frábært!

Úti skín sólin og ég hef mig ekki í að fara út í góða veðrið. Það eykur svo enn á vanlíðanina því þegar maður býr á Íslandi þá er nánast skylda að „nýta“ sólina þegar hún loks lætur sjá sig.

Arg! Þetta er nú meiri vitleysan. Til að kóróna ástandið er svo leikfimi í dag kl. 16:15 og ég er ekki að sjá hvernig ég á að meika það dæmi. Veit samt af gamalli reynslu að ég mun fara og ég mun gera æfingarnar að svo miklu leyti sem ég treysti mér til.

Það er þetta sem ég þoli ekki við vefjagigtina, hversu óútreiknanleg hún er. Eða kannski hefði ég getað séð þetta þreytukast fyrir, ég veit það ekki. Í gær var ég bara „pínu lúin“ en fór samt í sund, útréttaði aðeins í bænum, fór í Bónus og svo á fund í gærkvöldi. Borðaði bara hollt allan daginn, fyrir utan hálfa sneið af súkkulaðiköku og smá snakk. Fór út að ganga um tíuleytið í gærkvöldi í dásemdarveðri og leið vel. Þess vegna var alveg extra fúlt að sofa svona illa og vera þetta þreytt í dag.

En já það þýðir ekki að væla bara ... nú fer ég og sest út í sólina með bók eða blað :-)

P.S. Kl. 15:30. Ég fór út í sólina og tók með mér möppu sem inniheldur fróðleik um vefjagigt og ýmislegt fleira. Þegar ég blaðaði í möppunni rakst ég á eftirfarandi setningu á norsku: 
„Pasientens smerteforståelse og hvilken trusselverdi smerten representerer vil i stor grad bestemme smertens intensitet og varighet. Så lenge den respresenterer en fare eller en trussel for pasienten, vil smerten vedlikeholdes.“  
Eða: þeim mun hræddari sem sjúklingurinn er við sársaukann (vefjagigtarverkina, þreytuna) og upplifir hann sem ógn, þeim mun lengur þjáist sjúklingurinn af verkjum. Með því að bregðast við verkjum með áhyggjum og ótta, þá skapast vítahringur. Markmiðið ætti þá væntanlega að vera það að finna aðferðir sem hjálpa manni að slaka á og „afvegaleiða“ hugann þannig að maður sé ekki bara að hafa endalausar áhyggur og magna þær upp. 
Ég t.d. VEIT að það er ekki heimsendir þó ég sé þreytt, en samt líður mér þannig og fer að hafa áhyggjur af öllu sem ég get ekki gert vegna þreytunnar. Betra væri fyrir mig að segja: OK ég er svona í dag. Þá verð ég bara að sætta mig við það og reyna að slaka á þar til þetta ástand líður hjá.