fimmtudagur, 30. september 2004

Grasekkja enn og aftur

þar sem Valur er farinn austur á Neskaupstað að lækna og líkna. Nú kemst enginn með flugi austur á land án þess að millilenda í höfuðborginni og eyddi hann deginum þar en hringdi áðan og var þá kominn á leiðarenda. Er víst í gamalli og frekar þreyttri blokk sem lítur út eins og "bæjarblokk" að utan en inni vantar þó nokkrar ljósaperur og annað í takt við það.

Ég hafði fögur fyrirheit, ætlaði að detta í dugnaðarkast í kvöld en varð eitthvað minna úr verki. Fór samt í ágætan göngutúr með vinkonu minni og eldaði þessa fínu stafasúpu þegar ég kom heim. Þetta er svo mikið vatnsgutl að maður þarf ekki einu sinni að drekka vatn með súpunni. En Ísaki finnst stafasúpa góð og Andri borðar hana án þess að mögla - þá er nú takmarkinu náð í minni eldamennsku! Ætli það verði ekki klassísk föstudagspítsa á morgun.....Dominos er í mestu uppáhaldi þessa dagana.

Fór í árangurslausan leiðangur í dag að leita að gardínuefni fyrir gluggann hjá Ísak. Herbergið var málað í vor og ég á alltaf eftir að setja upp nýjar gardínur, sem er ekki alslæmt því þá fær Valur tækifæri til að stríða mér! En mér til afsökunar skal tekið fram að það eru rimlagardínur fyrir glugganum, vantar bara eitthvað hlýlegt með þeim. Vandamálið hefur líka verið það að ég hef ekki fundið neitt efni sem hentar, ekki má það vera of barnalegt þar sem drengurinn er á tíunda aldursári, og ekki vil ég hafa það of fullorðinslegt heldur ;0)

Viðurkenni að andinn er ekki alveg yfir mér í skriftunum núna, best að hætta áður en maður drepur alla úr leiðindum. Er reyndar hálf þreytt og verð eiginlega að segja frá ástæðunni því það er hálf fyndið. Nema hvað, eftir mikla þreytu alla síðustu viku fór Valur í geymsluna og sótti minn kæra skammdegisþreytu-lampa. Ég byrjaði samviskusamlega að sitja fyrir framan hann 30 mín. á dag og fann fljótt gríðarlegan mun. Langaði ekki lengur að leggja mig þegar ég kom heim úr vinnunni á daginn og rauk um húsið og fann mér hin ýmsu verkefni. Varð reyndar svo ör að ég hef átt í erfiðleikum með að sofna á kvöldin alla þessa viku.....Eins og Bryndís samstarfskona mín segir þá má ég náttúrulega ekki misnota lampann svona!

þriðjudagur, 28. september 2004

Einhverra hluta vegna

koma ekki íslenskir stafir í fyrirsögnina þannig að ég þarf að passa mig á því að velja fyrirsögn án séríslenskra stafa. Það getur verið svolítið skondið stundum en verst er auðvitað hvað það heftir sköpunarfrelsið. Eða þannig, þetta er nú ekkert stórmál. Svo var ég að fá fréttir af því að ekki tækist alltaf að birta comment á síðunni, þau "gufa bara upp" þegar búið er að skrifa þau. Þetta er náttúrulega ótækt og sérlega fúlt að missa af þessum fáu commentum sem þó koma. Ætli þetta blessað blogger.com kerfi hafi bara nokkuð undan, það eru örugglega fleiri hundruð þúsund manns í heiminum að nota það. Ég hef reyndar verið að velta fyrir mér að skipta yfir í annað kerfi og það væri gaman að fá álit minna kæru lesenda á því.

Í fréttum er það helst að ég byrjaði á námskeiði í gærkvöldi. Ákvað að splæsa því bara á mig - eða láta kallinn (afsakið, minn ástkæra eiginmann) splæsa því á mig. Líklega má segja að þetta sé námskeið í skapandi skrifum en heiti námskeiðisins er "Hvernig verður þinn Blíðfinnur til?" og er það Þorvaldur Þorsteinsson listamaður og rithöfundur með meiru sem heldur það. Markmiðið er að maður verði kominn með hugmynd að barnabók í lok námskeiðisins og vonandi einhver verkfæri til að skrifa hana. Ég hef reyndar áður farið á námskeið í skapandi skrifum, fyrir mörgum árum síðan, og fannst það virkilega skemmtilegt. Þá skrifaði ég mína fyrstu sögu þ.e.a.s. sem fullorðin en þegar ég var yngri skrifaði ég t.d. sögu sem ég sendi í Stundina okkar og var ekki lítið glöð þegar hún var lesin upp! Aðalatriðið er að hafa gaman af þessu - og það hef ég. Skortir samt alltaf eitthvað sjálfstraust í skrifunum, hélt lengi vel að ég þyrfti að vera bókmenntafræðingur og hafa lesið allar heimsbókmenntirnar, svo ekki sé minnst á öll verk Laxness, til að "hafa leyfi til að skrifa" en er loks búin að átta mig á því að það er bara fyrirsláttur hjá mér. Á meðan ég held það, þá þarf ég náttúrulega ekki að skrifa staf og er því löglega afsökuð frá því að svo mikið sem reyna það. Ókey, ætli sé ekki komið nóg af trúnaðarskeiðinu í bili.

Er allt í einu komin með eftirfarandi setningu á heilann og er að velta því fyrir mér hvaðan í ósköpunum ég hafi dregið þetta upp. En satt er það engu að síður.

"Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt"


laugardagur, 25. september 2004

Veit vel

að ég tala oft um mat á þessari síðu minni en matur er líka leiðin að hjarta konunnar.......... Hvað um það, við Valur fengum sem sagt góða vini okkar í mat í kvöld, þau Sunnu og Kidda og börnin þeirra þrjú, Jón Stefán (sem er besti vinur Ísaks), Patrek Örn og Þórgunni Ásu. Valur grillaði urriða sem hann hafði sjálfur veitt í sumar og með honum höfðum við einfaldlega soðnar kartöflur og salat + hvítlaukssmjör, hvítvín handa okkur fullorðna fólkinu en börnin sættu sig við gos. Í eftirrétt voru íspinnar/vanilluís handa smáfólkinu en ostakaka með kirsuberjasósu og rjóma handa okkur hinum. Það er alltaf jafn gaman að bjóða góðu fólki í mat og í hvert skipti hugsar maður með sér að þetta verðum við að gera oftar - en svo líður alltof langt þar til næst.
Að öðru leyti hefur dagurinn verið tíðindalítill, smá tiltekt í geymslunni sem orsakaðist af því að kona í vinnunni spurði hvort einhver ætti rúm sem hann þyrfti að losna við. Einn sagðist þá eiga gamlar dýnur og þá mundi ég allt í einu eftir því að við værum með rúmgrind úti í geymslu og ekki væri nú verra að geta losnað við hana. Þetta er gamla fururúmið sem Valur átti þegar ég kynntist honum, 120 cm. breitt og þótti nú nógu breitt þá, enda ástin svo heit, - spurning hvort okkar dytti fyrst á gólfið ef við reyndum að sofa í því núna (orðin vön 180 cm. breiðu rúmi).
Þó prófuðum við að sofa í ennþá mjórra rúmi í sumar er við fórum í helgarferð á Öndólfsstaði í Reykjadal með sama vinafólki og var hjá okkur í kvöld. Öndólfsstaðir eru í eigu fjölskyldu Kidda og hafði afi hans smíðað hjónasængina. Þá var ekki verið að bruðla með timbrið og líklega hefur einnig þurft að taka mið af því hve mikið pláss var fyrir rúmið. Það var gaman að prófa þetta, þurftum að snúa okkur samtímis og það hefði líka verið nóg að vera bara með eina sæng því þessar tvær tóku alltof mikið pláss og þvældust bara fyrir. En helgin í sveitinni var ósköp ljúf og leið hratt enda ýmislegt brallað. Meðal annars var farið í Jarðböðin við Mývatn og Valur og Kiddi "pósuðu" sérstaklega fyrir útlendingana sem voru þar að taka myndir. Biðu svo í ofvæni eftir símtali frá útlöndum - sem aldrei kom - en þeir töldu afskaplega líklegt að myndirnar yrðu frægar út fyrir landsteinana. Hápunkturinn var svo gríðarlegur vatnsblöðru-slagur sem háður var að loknu nautakjöti og rauðvíni á laugardagskvöldinu. Það mátti ekki á milli sjá hverjir skemmtu sér betur, strákarnir litlu eða stóru!

föstudagur, 24. september 2004

Valur og Andri

fóru í bíó að sjá Collateral með Tom Cruise og Ísak ætlar að gista hjá Jóni Stefáni vini sínum þannig að ég er bara ein í kotinu ásamt köttunum Birtu og Mána, en auk þess syngur Edith Piaf inni í stofu. Úti orðið svartamyrkur og tími til komin að taka fram kerti og hafa það huggulegt.
Ég lenti í smá veseni áðan, ætlaði að skrifa Önnu systur minni bréf og fannst þá að ég hefði ekkert að segja við hana. Af hverju skyldi það nú hafa verið? Jú, allt þessu blessuðu bloggi mínu að kenna. Hún fylgist auðvitað með öllu mínu lífi gegnum netið og ekkert eftir til að segja henni prívat og persónulega. Engin ástæða til að hafa of miklar áhyggjur, mér með mína munnnræpu tókst að finna upp á einhverju. Til dæmis þakkaði ég henni fyrir bókina sem hún sendi mér í vikunni. Hún er nefnilega að þýða bækur úr norsku (yfir á íslensku) sem verið er að gefa út í einhverjum föndur-bókaklúbbi sem ég man því miður ekki í augnablikinu hvað heitir. Það er þetta með minnið hjá mér, það versnar stöðugt og gott á meðan ég man enn hvað ég heiti og hvar ég á heima.... Ég leita þá bara að bílskúr með beyglaðri hurð þegar ég verð orðin svo kölkuð að ég rata ekki heim!
Fór í kvennaklúbb í dag (takið eftir að ég segi ekki saumaklúbb) en þetta er klúbbur kvenna (vá, skyldi maður þurfa að skora mjög hátt á gáfnaprófi til að skilja það?) sem hittist alltaf á föstudögum yfir vetrartímann og hefur verið starfandi þó nokkuð lengi, eða sennilega 7 ár (ég MAN það EKKI fyrir víst). Það er alveg ágætt að enda vikuna á því að setjast niður með hópi kvenna og spjalla um allt og ekkert, og ekki spilla krásirnar fyrir. Í upphafi var tekin sú ákvörðun að hafa ekkert fyrir þessu, við vorum bara nokkrar heimavinnandi húsmæður sem ætluðum að hittast og hafa í mesta lagi kaffi og smá snarl (popp og nammi...) til að narta í. Þessi fögru fyrirheit fóru fljótlega fyrir lítið og nú keppumst við við að hafa hnallþórur og heita rétti, ostabakka o.s.frv. Með reglulegu millibili tölum við um það að þetta gangi nú ekki svona, sé alltof mikið stress, og heitum því að taka upp betri siði. Ég er t.d. mikil talsmanneskja þess að draga aðeins úr veitingunum og þá sérstaklega þegar komin er röðin að mér að vera með klúbb. Það er segin saga að allt fer í handaskolum hjá mér þegar ég ætla að töfra fram hlaðborð af hnallþórum. Síðast lenti ég t.d. í því að rjómasúkkulaðikaka með döðlum og möndlum bakaðist bara ekki neitt og var ekki tibúin fyrr en kl. hálf sjö, rétt áður en konurnar fóru! Þannig að ég sting upp á því að nú sé kominn tími til að slaka á klónni með veitingarnar og hafa í mesta lagi eina köku og einn heitan rétt (já og kannski eitthvað eitt í viðbót). Nema hvað, allar taka undir þetta og gætu ekki verið meira sammála. Svo mætir maður í næsta klúbb og viti menn, borðið svignar undan öllum kræsingunum :o)

fimmtudagur, 23. september 2004

Er skapi næst

að kvarta undan kennaraverkfallinu. Unglingurinn á heimilinu á góðri leið með að snúa sólarhringnum við, þótt hann sé örugglega ekki sammála því, enda sefur hann BARA til kl. eitt á daginn. Nú getur hann verið í tölvunni allan þann tíma sem hann er vakandi með þeirri undantekningu þó að hann fer á handboltaæfingar 4 sinnum í viku. Bróðir hans er ótrúlega duglegur að hafa ofan af fyrir sér sjálfur og í morgun vaknaði ég við það að hann var að spila dracco við sjálfan sig kl. hálf tíu en þá hafði hann verið vakandi í tvo tíma. Annað en svefnpurrkan mamma hans sem tók sér frí í vinnunni fyrir hádegi og lét það eftir sér að sofa út. Eins og það væri ekki nóg þá sofnaði ég líka eftir kvöldmatinn og svaf í klukkutíma, milli sjö og átta. Spurning hvernig mér gengur að sofna í kvöld?? Það er þessi blessuð skammdegisþreyta mín, ég ætti nú að vera farin að þekkja hana. Þarf að drífa í því að sækja dagsbirtulampann minn í geymsluna svo ég fari að hressast.
Jæja, Valur fór í Brynju að kaupa ís - ætli sé ekki best að fara að taka til skálar, íssósu og ískex....NAMM!

miðvikudagur, 22. september 2004

Hef ekki sama hugmyndflug

og maðurinnn minn sem talar um "munaðarharðlífi" á síðunni sinni í dag. Sá hinn sami er ekki ennþá búinn að taka ákvörðun um reiðhjólakaup en ég bíð spennt. Hann er nú a.m.k. ekki orðinn alveg afhuga þessu og er enn að skoða reiðhjólasíður á netinu.
Fyrir framan mig er ljósmynd af okkur mæðgum, mér og Hrefnu, sem tekin er á Costa del Sol sumarið 1987. Hún er 3ja og hálfs og ég 22ja og hálfs. Við erum svo sætar saman (báðar berar að ofan en myndin er innan velsæmismarka) og Hrefna með sundbolaför á bringunni. Ég hafði keypt ofsalega sæta bikinibrók handa henni fyrir ferðina sem hún var hæstánægð með - en hún vildi endilega vera í sundbol innan undir bikinibrókinni.......rosalega smart! Hún hafði sem sagt snemma ákveðnar skoðanir á hlutunum og það hefur ekki breyst í áranna rás, svo mikið er víst. Því miður sé ég hana alltof sjaldan þar sem hún er hálf partinn flutt til kærastans (hún+fötin og skórnir en dótið hennar er allt hér) en þegar hún kemur heim þá er hún svo illa haldin af kattarofnæmi að hún klórar sér um allan skrokkinn, hnerrar og snýtir sér sem vitlaus væri. Hennar aðal vandamál um þessar mundir er að ákveða hvað hún á að verða "þegar hún verður stór". Þetta er þekkt vandamál á þessu heimili, ég hugsa að ég sjálf verði ennþá að velta þessari grundvallarspurningu fyrir mér á elliheimilinu eftir ca. 40 ár. Vá! Og ef henni finnst liggja á að taka ákvörðun, hvað þá með mig?

mánudagur, 20. september 2004

Netið var bilað

og spurning hvort okkar var pirraðra, ég eða tölvufíkillinn sonur minn. En nú er allt komið í samt lag aftur og tími til kominn að blogga!
Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að ég var í húsmæðraorlofi í Reykjavík um helgina. Ferðin var í einu orði sagt FRÁBÆR og nú hafa vinkonur mínar í höfuðborginni, þær Rósa og Sólrún, stungið upp á því að ég geri þetta að reglulegum viðburði, helst tvisvar á ári. Dagskráin var í grófum dráttum á þá leið að á fimmtudeginum fór ég á afmælisfund Félags kvenna í atvinnurekstri sem haldinn var í Laugum Spa. Það komu 120 konur á fundinn sem var mjög skemmtilegur. Meðal annars þá kom Brynhildur Guðjónsdóttir og söng nokkur lög úr Edith Piaf sem verið er að sýna í Þjóðleikhúsinu. Svo fengum við "guided tour" um Laugar og skoðuðum m.a. það allra helgasta, baðstofuna, en þar eru margvísleg gufuböð, slökunarherbergi o.s.frv. Þeir sem vilja borga stórfé fyrir að láta sturta yfir sig köldu vatni úr fötu geta að sjálfsögðu fengið þær óskir sínar uppfylltar. Að fundinum loknum var síðan farið í Kaffi Flóru í Grasagarðinum þar sem Marentza Paulsen matreiddi ofan í okkur ljúffengan kvöldverð sem samanstóð aðallega af "grasi" eins og vélsmiðjueigandi frá Akranesi komst að orði. Já, það voru jafnvel blóm í salatinu sem bragðaðist afskaplega vel og fór vel í maga.
Á föstudeginum tók ég daginn frekar snemma og dreif mig í Laugardalslaugina. Ekki synti ég einn einasta metra en slappaði af í heitasta pottinum sem ég fann á svæðinu og í gufubaðinu. Þar inni var svo mikil gufa að ég sá ekki handa minna skil fyrst þegar ég kom þar inn. Fékk smá svona "creepy" tilfinningu og ímyndaði mér að þó það lægi lík á gólfinu þá sæi ég það ekki fyrr en ég stigi ofan á það! Mér fannst gaman að því að fara í sund svona snemma því þá er allt gamla fólkið í lauginni að sinna þörfum sínum fyrir félagsskap eins og ein gömul (og afskaplega hrukkótt) kona orðaði það svo skemmtilega. Eftir skoðunarferð um IKEA og dauðaskammt í Kringlunni fór ég í heimsókn til Gunnu og Matta tengdaforeldra minna en það er algjört "must" þegar maður er staddur á þeirra slóðum í höfuðborginni. Þau eru orðin það gömul og lasburða að þau koma aðeins á ca. 2ja ára fresti norður og þar sem við Valur förum svo sjaldan suður þá er nú lágmark að heimsækja þau þegar maður er þar á annað borð.
Þar næst lá leiðin í Ríkið til að kaupa rauðvínsflösku sem ég færði Rósu og við drukkum með kvöldmatnum en um kvöldið fórum við út á lífið og skemmtum okkur vel.
Á laugardeginum svaf ég nú ansi lengi, eða fram að hádegi en það gerist nú bara aldrei. Maður greinilega gerir ýmislegt í svona ferðum sem maður gerir ekki annars, eða þannig! Þá var kominn tími til að drífa sig í Hafnarfjörðinn að hitta hana Sólrúnu sem þar býr. Þegar hún heyrði að ég hefði verið hrifin af söng Bynhildar úr Edith Piaf dreif hún sig í símann og pantaði miða í leikhúsið um kvöldið. Svo skelltum við okkur í Smáralindina þar sem helmingur íslensku þjóðarinnar virtist vera samankominn (sá helmingur sem ekki var í Kringlunni...) og kíktum í búðir. Ég verslaði mér "leikhúspeysu" fyrir kvöldið en lét annars nægja að skoða bara. Um kvöldið fengum við okkur svo að borða í Alþjóðahúsinu (að uppástungu Rósu sem líka keyrði okkur þangað) áður en við fórum í leikhúsið. Það er ótrúlega gaman að koma á staði eins og Alþjóðahúsið þar sem þjónarnir tala saman á frönsku og matseðillinn er samsafn rétta frá ýmsum löndum. Ekki spillti fyrir að einhver hljómsveit var að æfa sig í herberginu við hliðina þannig að við höfðum þessa fínu dinnertónlist.
Leikritið var bara STÓRKOSTLEGT og langt síðan ég hef skemmt mér svona vel í leikhúsi. Samspil texta, lýsingar, búninga og söngva gerði þetta að meiriháttar upplifun og ég mæli hiklaust með Edith Piaf ef einhver skyldi vera að spá í leikhúsferð. Eftir leikhúsið kom Rósa og hitti okkur á Vínbarnum og við fórum á pöbbarölt allar þrjár. Ég fékk tækifæri til að æfa mig í norskunni þegar við hittum nokkra norðmenn frá Mo í Rana en einn þeirra talaði svo hrikalega mállýsku að ég átti í mesta basli við að skilja hann.
Heim dreif ég mig svo á sunnudagsmorgni og var gott að vera komin heim svona snemma því þá gat ég hvílt mig.....gamla konan. Var orðin lúin eftir allan hamaganginn en jafnframt rosalega ánægð með ferðina.
Er hætt þessu bulli og farin að horfa á CSI með bóndanum.

fimmtudagur, 16. september 2004

Jæja,

hér sit ég og bíð. Hefði með réttu átt að sitja í flugvél á leið til Reykjavíkur núna en sit í staðinn fyrir framan tölvuna. Veður hamlar flugi en hér á Akureyri er engu að síður dúnalogn (kannski lognið á undan storminum?). Fór í saumaklúbb í gærkvöldi og skemmti mér vel. Það góða við saumaklúbba eru ekki hannyrðirnar, ekki kjaftasögurnar, ekki einu sinni kökurnar - nei, það er þessi tilfinning að sitja með góðum vinkonum og vera bara til í núinu. Það er skilyrðislaus ánægja, engin gagnrýni, ekkert stress, bara að vera til og hlægja saman. Þessi saumaklúbbur setti reyndar met í því að hittast sjaldan í fyrravetur en nú eru uppi fögur fyrirheit um mánaðarlega klúbba í vetur. Verður spennandi að sjá hvernig tekst til.

En eins og saumaklúbbar eru góðir þá verð ég svo upprifin af því að fara út á kvöldin og afleiðingin verður sú að ég get ekki sofnað fyrr en um miðja nótt. Þannig að síðustu nótt svaf ég bara frá 2-6 og smábarnið ég þarf nú talsvert meiri svefn en það. Ætlaði að leggja mig aftur í morgun en þá var svo mikill spenningur í mér út af fluginu (hvort það yrði nú fært) að ég náði ekki að festa blund. Er þar af leiðandi hálf sljó eitthvað þessa stundina.

Og held áfram að bíða. Næst átti að athuga með flug kl.13.30......

Er að gera tilraunir

með að setja myndir inn á síðuna en það er ekki að ganga neitt rosalega vel.

Eyjafjörður
Originally uploaded by Guðný Pálína.

miðvikudagur, 15. september 2004

Spennandi....

að sjá hvort ég kemst ekki örugglega til Reykjavíkur á morgun. Mér skilst að spáð sé stormi - kannski ekki það besta þegar maður ætlar að fara að fljúga. Það fer ein önnur kona héðan frá Akureyri á fundinn hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri, hún Lóa sem rekur Hárgreiðslustofuna Kamillu. Ekki er það nú verra, ég verð þá ekki alveg jafn umkomulaus þarna á fundinum. Kveið því hálfpartinn að fara og þekkja engan.
Úff, var að borða pylsur í kvöldmatinn (má auðvitað deila um það hvort pylsur teljist til matar) og geri ekki annað en ropa. Maginn á mér er ekki ýkja hrifinn af unnum kjötvörum og kvartar og kveinar þegar honum er nauðgað með slíkum ósóma. Og ég sem er að fara í saumaklúbb í kvöld og borða þar enn meiri óhollustu, þetta endar örugglega ekki vel. En minn ástkæri eiginmaður er ekki heima og eins og dyggir lesendur vita, þá er það hann sem stendur fyrir matreiðslunni á heimilinu. Ég er orðin eins og versti karlmaður og rétt næ að búa til einfaldan mat s.s. að grilla pylsur. Ég þyrfti eiginlega að koma mér upp lista yfir mat sem ég get eldað + sem strákarnir borða (en það fer nú ekki alltaf saman) þá myndi ég kannski ekki alltaf lenda í þessum ógöngum þegar Valur er ekki heima.
Það var ansi skondið í dag í vinnunni. Við hjá Innan handar erum með skrifstofu við hliðina á Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE) og í dag komu tveir þingmenn í heimsókn til Magnúsar hjá AFE, þeir Steingrímur Sigfússon og einhver annar sem ég kann ekki að nefna. Magnús var í símanum þegar þeir komu og þá sáu þeir sér þann leik vænstan í stöðunni að heimsækja okkur Bryndísi í staðinn. Þeir komu inn til okkar og við gátum ekki annað en staðið upp, tekið í lúkurnar á þeim og heilsað. Við höfðum ekki fyrr lokið því er Magnús var búinn í símanum og við sáum bara í hælana á blessuðum þingmönnunum. Milli okkar urðu því engin orðaskipti, þeir bara heilsuðu og fóru. Mér fannst þetta algjör brandari. Það er ekki tekið út með sældinni að sitja á þingi og þurfa sífellt að reyna að heilla hugsanlega kjósendur. En hvort eitt handaband dugar, það er nú önnur saga!

mánudagur, 13. september 2004

Afmælisbarn dagsins

er Anna systir mín, til hamingju með afmælið Anna :o)

Nú væri gott að geta skroppið í afmæliskaffi til hennar en það er aðeins of langt á milli, eða ca. 2-3 þúsund kílómetrar (þetta var lausleg ágiskun míns ektamanns). Hún býr sem sagt í Osló og þar er haustið að koma, alveg eins og hér. Orðið dimmt á kvöldin og haustlitir að taka völdin í náttúrunni.

Ég er búin að panta mér ferð til Reykjavíkur á fimmtudaginn kemur - erindið suður er að fara á 5. ára afmælisfund FKA . Ég er nefnilega búin að vera að berjast fyrir því að stofnuð verði Norðurlandsdeild félagsins og komu þær FKA konur norður í vor og kynntu starfsemi félagsins. Þannig að maður verður víst að sýna lit og mæta á svæðið þegar það er "afmælisveisla" hjá þeim. Fæ að gista hjá Rósu vinkonu minni og ætla að stoppa í höfuðborginni fram á sunnudag. Hlakka mikið til að komast í smá húsmæðraorlof, kíkja á næturlífið með Rósu (vonandi), skreppa í búðir og hitta vinkonur.

Hjá mér situr Valur og er að skoða reiðhjólabæklinga. Hefur átt sama hjólið í 15 ár (því miður hefur það dugað svona hræðilega lengi, enda af "Det Beste Sykkel" tegundinni) og er farinn að dauðlanga í nýtt hjól. Nú er bara spurningin hvort hann lætur duga að skoða hjól á netinu, athuga hvað þau kosta á Íslandi og USA og láta sig dreyma........eða hvort hann lætur vaða og skellir sér á eitt stykki hjól. Framhald í næsta þætti........

sunnudagur, 12. september 2004

Leikhus raunveruleikans

Við Valur fórum í leikhús í gærkvöldi að sjá Brim. Leikritið hefur fengið góða dóma og var allt í lagi - en þó fannst okkur vanta herslumuninn upp á að það væri jafn gott og gagnrýnendur hafa viljað láta. Hvað um það, það sem vakti reyndar mesta athygli mína í leikhúsinu var ekki leikritið sjálft, heldur undarlegur atburður sem gerðist þegar leiksýningin var nýlega hafin.

Verið var að sýna atriði þar sem sjómennirnir um borð í bátnum voru að spjalla saman og kokkurinn (sem steig ekki í vitið) fer að segja frá því þegar hann hafi verið sendur suður í skóla sem unglingur. Eitt það fyrsta sem hann átti að gera var að keppa á sundmóti fyrir hönd skólans en þegar hann mætti á mótið skildi hann ekkert í því að flest allir keppendurnir voru fatlaðir á einhvern hátt. Mamma hans og pabbi höfðu nefnilega innritað hann í Öskjuhlíðarskóla! Nema hvað, hann á að keppa við nokkra aðra stráka, á einn vantar annan handlegginn, á annan strák vantar fót o.s.frv. Hann gat lítið gert nema að stinga sér til sunds þegar flautað var og reyna að leggja sig allan fram. Þegar hér var komið sögu - í leikritinu - kallaði allt í einu maður sem sat á næsta bekk fyrir framan okkur "Og finnst þér þetta fyndið?" og beindi spurningu sinni greinilega til leikarans. Sem hélt áfram að leika og segja frá kappsundinu og því hvernig hann hefði unnið sundið. Aftur kallaði þá maðurinn "Finnst þér þetta fyndið" og leikarinn sagði "Já" en það svar var í fullkomnu samræmi við þann karakter sem hann lék. Þá stóð maðurinn upp, gekk út úr salnum og kom ekki aftur.

Fyrst hélt ég að þessi köll mannsins ættu bara að vera hluti af leiksýningunni en þegar hann kom ekki aftur í salinn og konan hans var greinilega óróleg og fór svo á eftir honum skömmu síðar, þá áttaði ég mig á því að svo væri ekki. Ég hafði tekið eftir manninum þegar hann kom í salinn því þau komu frekar seint inn og þurftu að biðja fólkið sem sat fyrir framan okkur að standa upp fyrir sér. Hann var yfirmáta kurteis og þakkaði hverjum og einum fyrir að standa upp. Virtist ekki vera undir áhrifum áfengis. Þetta er ráðgáta dagsins, hvaða bakgrunn hefur fólk sem bregst á þennan hátt við leikriti og nær ekki að greina skáldskap frá raunveruleika? Hvað hefur gerst í hans lífi sem lætur hann missa stjórn á sér fyrir framan allan þennan fjölda leikhúsgesta?

laugardagur, 11. september 2004

Morgunstund gefur gull i mund

Við Valur vorum vöknuð um 7. leytið í morgun, greinilega föst í viðjum vanans. Ekki náðum við að sofna aftur og drifum okkur því á fætur og vorum farin út að ganga fyrir hálf níu. Mér fannst ég ógeðslega fersk að fara út að ganga svona "snemma" og hélt að við værum bara eina fólkið á Akureyri sem væri svona morgunhresst á laugardegi. En viti menn, það var bara töluvert af fólki á ferli. Reyndar ekki margir gangandi en fyrir utan Háskólann var fullt af bílum og menn við vinnu í Rannsóknarhúsinu en meiningin er að taka það í notkun í október. Á eftir gönguferðinni ákvað ég að skella mér í sund, enda búin að vera hræðilega stíf í skrokknum alla vikuna. Í sundlauginni var líka fullt af fólki, þó aðallega eldra fólk og svo fólk með lítil börn. Mikið sem það er gott að slappa af í heita pottinum og fara svo í gufubað á eftir! Nú, svo var auðvitað alveg upplagt að fara í Bakaríið við brúna og kaupa gott brauð til að gæða sér á að lokinni sundlaugarferð og einnig þar var töluvert af fólki í morgunkaffi (þegar hér var komið sögu var klukkan rétt um 10).

Eftir kaffi og brauð í hádeginu skelltum við Valur okkur svo í bæinn og byrjuðum á því að fara á sýninu Óla G. Kristjánssonar í Ketilhúsinu . Þar voru margar myndir og misgóðar eins og gengur en nokkrar þó alveg stórfínar. Meðal annars sáum við eina mynd sem hefði sómt sér vel í stofunni hjá okkur en hún var því miður seld. Niðri í miðbæ gerði ég enn eina misheppnaða tilraun til að fá á mig einhver föt en sennilega hef ég bara svona skrítinn smekk því ég sé aldrei neitt sem mig langar í. Valur ætlaði að kaupa þrífót undir myndavélina okkar en þá var lokað í Pedromyndum. Þannig að heim fórum við aftur án þess að hafa tekist að létta nokkuð á pyngjunni, þrátt fyrir fagrar fyrirætlanir í þeim efnum. Valur skrifar reyndar um það í pistli sínum í dag hve mikið maður sparar á því að búa á Akureyri, einfaldlega vegna þess hve úrvalið er lítið hér í bænum og engin leið að fara á eyðsluflipp. Svo hefur hann nú aðra sparnaðaraðferð sem virkar ekki síður vel. Hann langar kannski í eitthvað og eyðir löngum stundum í að kynna sér allt um viðkomandi hlut. Hvaða tegundir eru til, hvað þær kosta, hvar þær fást, hvort ódýrara er að kaupa vöruna í gegnum netið, hvaða framleiðendur séu bestir o.s.frv. Þetta ferli allt tekur töluverðan tíma og loks þegar hann veit allt sem hægt er að vita um vöruna þá hefur hann oft (ekki alltaf) misst áhugann og kaupir þar af leiðandi ekki neitt. Þannig hætti hann t.d. við að kaupa sér pallbíl - sem er reyndar ekki alveg nógu gott dæmi því hann hefur ennþá áhuga á að eiga pallbíl og ef hann væri ekki giftur mér þá æki hann líklega núna um á Ford eða RAM, með kúrekahatt á höfðinu og "gærur" á pallinum :-)

fimmtudagur, 9. september 2004

Trúi engu í DV

Stundum er ótrúlega gaman að hlutsta á annað fólk rabba saman. Vera bara áheyrandi án þess að taka þátt í samræðunum. Ég var í leikfimi í morgun og eins og alltaf fór ég að teygja á eftir. Dýnurnar eru í sama sal og upphitunarhjólin en þar er líka sjónvarp. Eldri kona og yngri maður voru að hjóla og höfðu lítið talað saman þegar farið var að fjalla um breytingarnar á Ruth Reginalds í Íslandi í býtið. Meðal annars voru sýndar myndir af Ruth í líkamsrækt. Nema hvað, þá fer sú gamla að tala um það hvað sé nú strax orðinn mikill munur á henni Ruth en sá yngri var greinilega ekki alveg tilbúinn að skrifa undir það. "Já, finnst þér það?" spurði hann með ískaldri kurteisi en tónninn í röddinni ljóstraði því upp að hann var greinilega ekki hrifinn af þessu Ruthar-dæmi. Gamla tók ekkert eftir því en hélt áfram að mala og vitnaði í DV máli sínu til stuðnings. Þá sagði hann "Ég trúi engu sem kemur í DV, ekki einu sinni dagsetningunni". Þar með lauk þessum samræðum.
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira um Ruth og hennar "fegrunaraðgerðir" en hvað DV snertir þá gæti ég ekki verið meira sammála stráknum í ræktinni. Þetta er þvílíka sorablaðið og það hvarflar ekki að mér að kaupa það.

þriðjudagur, 7. september 2004

Var að velta því fyrir mér

hvort það væri ekki alveg nauðsynlegt að setja inn fleiri tengla á aðra bloggara. En þá kemur upp smá vandamál. Hvernig velur maður þá bloggara sem maður vill hafa inni á síðunni sinni. Mér sýnast vera nokkrir möguleikar í stöðunni:
1. Það er hægt að setja eingöngu inn tengla á vini og kunningja. Þetta er hægara sagt en gert því það eru svo fáir að blogga sem ég þekki.
2. Það er hægt að velja fólk sem maður kannast eitthvað við, t.d. hafa bara Akureyringa. Veit ekki alveg hvað mér finnst um það.
3. Það er hægt að hlaða inn öllum þeim bloggurum sem maður finnur, sama hverjir það eru. Mér sýnist nú ansi margir hafa farið þá leið því þetta eru mikið til sömu nöfnin inni á fullt af bloggsíðum.
4. Það er hægt að fá ábendingar hjá öðrum um sniðugar/skemmtilegar bloggsíður.
5. Nú svo er líka hægt að sleppa þessu bara.
Ef ég væri með bloggið mitt inni á blog.central.is þá gæti ég búið til skoðanakönnun úr þessum vandræðum mínum og leyft lesendum (ef einhverjir eru!!) að ráða. Eins og flestum er ljóst er ég ekki með bloggið þar inni og er ástæðan sú að mér finnst þær síður oft svo rosalega lengi að hlaðast inn. Þannig að ég verð bara að halda áfram að velta þessu fyrir mér! En nú er ég hætt þessu rugli, er að fara á Bláu könnuna með tveimur vinkonum mínum. Ég er að spá í að fá mér te og eina söru. Sörurnar standa alltaf fyrir sínu þegar mann langar í eitthvað sætt. Get það líka með góðri samvisku því kvöldmaturinn var svo hollur. Grillaður steinbítur með brokkólí (úr garðinum), tómötum (úr Bónus) og Basmati hrísgrjónum.

mánudagur, 6. september 2004

Er greinilega

búin að ná mér í einhverja víruspesti. Hélt bara áfram að liggja til skiptis í rúminu og á sófanum megnið af gærdeginum og var þá búin að sjá að þetta var nú meira en venjuleg leti sem var að hrjá mig. Ætlaði samt að gera tilraun til að hrista af mér slenið í morgun og dreif mig í leikfimi fyrir vinnu. Hafði ekki verið nema tæpar 5 mínútur á hlaupabrettinu (gekk á sama hraða og farlama gamalmenni) þegar ég sá að þrátt fyrir fögur fyrirheit þá myndi ég ekki geta "platað" þessa pesti sem er að hrjá mig. Neyddist til að játa mig sigraða og fara aftur heim með skottið milli lappanna. Aumingjaskapurinn var svo mikill að ég treysti mér ekki einu sinni í vinnuna, þannig að Bryndís hefur staðið vaktina ein í dag.

Annars fengum við óvænta heimsókn í gær. Það voru mamma og Ásgrímur maðurinn hennar sem voru skyndilega komin án þess að gera boð á undan sér. Þau búa í Keflavík en hafa verið á Siglufirði undanfarna daga og ákváðu að skella sér inn til Akureyrar þegar þeim bauðst far með manni sem keyrir Mercedes Benz. Það var ekki hægt að hafna því að aka í svona lúxuskerru. Ég hef gaman af því hvað þau eru "frjáls eins og fuglinn" og drífa sig bara af stað ef þeim dettur í hug að fara eitthvert. Mamma var föst á Akureyri í mörg ár, fyrst var hún bundin yfir ömmu minni (mömmu sinni) sem var sjúklingur lengi og fór aldrei á elliheimili né sjúkrahús heldur annaðist mamma hana alltaf hérna heima. NB! Við erum að tala um að amma mín varð 100 ára! Svo skömmu eftir að amma dó þá veiktist pabbi, fékk heilablóðfall og missti máttinn öðru megin. Þá hélt mamma áfram í hjúkrunarhlutverkinu og annaðist hann þar til yfir lauk, í 4-5 ár. Þannig að mér finnst bara flott að mamma, sem er rétt að verða 78 ára, hagi sér svolítið eins og unglingur.

Við fórum á Götugrillið á laugardagskvöldið og það kom mér bara skemmtilega á óvart. Þetta er lítill staður en mjög huggulegur, ég bíð bara eftir því að Vala Matt fari þangaði í heimsókn í Innlit- útlit, því þær Gulla (í Má Mí Mó) sem hannaði staðinn virðast vera bestu vinkonur ef dæma má af því hversu oft Gulla hefur komið í þáttinn til Völu. En við fengum okkur indverska máltíð og það voru meira að segja ekta indverskir kokkar í eldhúsinu. Þetta var bara alveg ágætt hjá þeim en bar kannski svolítinn keim af því að um skyndimat var að ræða, þetta var ekki alveg nógu "djúsí" einhvern veginn. Og mér fannst það ansi klént að hafa sama salatið með forréttinum og aðalréttinum. Mér fannst samt ánægjulegt hvað það voru margir að borða þarna því við komum svo snemma, eða fljótlega uppúr sex. Það er allt í lagi að hafa smá samkeppni við Greifann og þó það sé nú ekkert barnahorn (sá það a.m.k. ekki) þá var Ísak bara glaður því hann fékk fría áfyllingu á gosið og nammipoka á eftir matnum.

Ég er að drepast úr eirðarleysi þessa dagana og vantar einhver ný viðfangsefni. Lét mér detta í hug að það gæti nú verið ráð að fara á námskeið af einhverju tagi, þannig að ég las ýtarlega um hvert einasta námskeið sem auglýst er inni á http://www.simey.is Sumt af því var áhugavert s.s. Aukin persónuleg færni, Hvernig verður þinn Blíðfinnur til?, Ítölsk matargerð, Spænska fyrir byrjendur, Hjónanámskeið, Vínsmökkun og fyrir þá sem fara illa út úr vínsmökkunarnámskeiðinu; 12 spora námskeið á vegum kirkjunnar. Gallinn við megnið af þessum námskeiðum er sá að þau eru svo dýr. Misdýr að vísu en Blíðfinns-námskeiðið kostar t.d. 32 þús. krónur. Ódýrast er 12 spora námskeiðið en það er ókeypis! Nú er bara vandinn að velja.....

laugardagur, 4. september 2004

Er eins og sprungin blaðra

Það er laugardagur og ég er búin að vera eins og drusla í allan dag. Druslaðist á lappir um hálf tíu leytið í morgun, bara til þess að sitja fyrst við eldhúsborðið og lesa Moggann í náttsloppnum og færa mig svo inn í stofu og leggjast upp í sófa með "Alt for damerne". Kettirnir kvarta reyndar ekki yfir því þegar ég er þreytt því þá gefst þeim tækifæri til að koma og leggjast ofan á mig - en það finnst þeim algjör draumur í dós að geta legið á svona fínum upphituðum bedda. Þegar leið að hádegi lufsaðist ég inn á bað og þvoði mér um hárið og setti á mig andlitið til þess að hræða ekki líftóruna úr þeim sem ég myndi hitta er ég færi í Bakaríið við brúna. Það tókst og í bakaríið fór ég, auk þess sem ég skrapp í Heilsuhornið að kaupa ólífulauf handa Andra sem er kominn með hálsbólgu.
Hann var meira og minna veikur allan síðasta vetur, hefur sennilega fengið hálsbólgu og kvef 7-8 sinnum, en hefur verið frískur í allt sumar. Nú er skólinn byrjaður og ..... veikindin greinilega líka en krakkinn er skólaleiður með afbrigðum. Annars byrjaði þetta vel, hann var bara nokkuð ánægður fyrstu dagana en í miðri 2. vikunni heyrði ég þessa gullvægu setningu þegar ég fann hann fúlan með afbrigðum inni á baði og spurði hvort eitthvað væri að "ég nenni bara ekki í skólann, það er hundleiðinlegt þar". Og í lok þessarar sömu viku er hann sem sagt orðinn veikur! Hvað á maður að gera við svona börn?

Komin heim úr leiðangrinum fékk ég mér brauð og te með bóndanum (sem fékk sér auðvitað kaffi) og þá var kominn tími til að spýta í lófana, bretta upp á ermarnar, gefa fullt gas og fara að laga til í húsinu. Sem sagt gera eitthvað af viti. En hvað gerir mín þá? Jú, hún fer aftur inn í stofu og (eftir að hafa setið í smástund) leggst upp í sófa með kvennatímarit í hendi. Eftir smástund var hún svo steinsofnuð og við erum ekki að tala um að hún hafi sofið í svona 10 mínútur (bara smá fegurðarblund). Nei, hún svaf í 2 tíma, geri aðrir betur, án þess að vera veik eða þunn (sem væri náttúrulega lögleg afsökun!). Á meðan þessu fór fram var Valur að sjálfsögðu úti að vinna, þ.e.a.s. að mála gluggana á húsinu. Mikið er nú gott að eiga svona duglegan mann því ef hans nyti ekki við væri hér allt í niðurníslu. Hver haldið þið að hafi svo ryksugað? Nú hann auðvitað. Þannig að hér sit ég með kolsvarta samvisku og búin að eiga langar einræður við sjálfa mig um það hvílíkur lúser ég er eiginlega. Mér til hugarhægðar ætlar Valur ekki að elda í kvöld heldur ætlum við að skreppa og fá okkur indverskan mat á Götugrillinu.

fimmtudagur, 2. september 2004

Langt um liðið

frá síðasta bloggi, eða fjórir dagar. Tíminn er náttúrulega afstæður eins og allir vita en ég er búin að sjá það að maður verður eiginlega háður því að blogga. Skyldi það nú vera gott eða slæmt? Kannski er það að blogga bara tækifæri til að setjast niður með sjálfum sér í smástund og góð afsökun fyrir því að láta hugann reika um stund. Svona svipað og innhverf íhugun.... Hvað um það, ég er búin að vera að fara yfir próf síðustu daga. Maður tekur að sér að kenna einn áfanga og svo er maður endalaust að fara yfir próf. Fyrst "aðalprófið" í maí sem eitthvað um 90 manns tóku, svo júníprófið (upptöku og sjúkrapróf) sem ca.12 til 15 manns tóku (man þetta ekki lengur, minni mitt dugar nú ekki einu sinni milli herbergja, hvað þá mánaða) og svo núna ágústprófið sem 9 manns tóku. Vinsælasta spurningin hjá fólki sem ég hitti þessa dagana er "verður þú eitthvað að kenna í vetur?". Og hvert er svo svarið? Ég hef ekki hugmynd um það. Rekstrar- og viðskiptadeildin er nú ekki beinlínis þekkt fyrir skipulagshæfileika. Heyrði af einni um daginn sem hélt að hún væri að fara að kenna tvo áfanga, einn á haustönn og annan á vorönn. Einn daginn átti hún hvorugan áfangann að kenna, næsta dag ekki neitt, svo átti hún að kenna eitthvað allt annað og síðan.....nú þessa sömu tvo áfanga. Í millitíðinni hafði henni verið sagt að nemandi hefði skráð sig í ágústpróf hjá henni svo hún settist niður og bjó til próf - en nemandinn skráði sig svo úr prófi og .... ekkert próf! Þetta er STUÐ!

Verð samt að viðurkenna það að mér þótti lúmskt gaman að kenna. Pabbi var náttúrulega kennari svo kannski þetta sé í blóðinu??? Honum fannst a.m.k. gaman að kenna en ánægðastur var hann (held ég) þegar hann fékk að kenna stelpnabekk í einhverjum skóla (í forföllum aðalkennarans) á meðan hann var ennþá í kennaranámi. Hann var sjálfur lítið eldri en stelpurnar og þurfti að hafa svolítið fyrir því að halda uppi aga í bekknum og sýna þeim að hann væri nú ekki alvitlaus.

Ég var ferlega stolt af sjálfri mér í síðustu viku og um helgina fyrir það hvað ég var dugleg að ganga. Var farin að sjá mig í anda klífa fjöll og allt hvað eina :o) Er ekki alveg jafn spræk þessa vikuna en fór þó út í morgun í rigningunni og gekk í ca. 35 mín. áður en ég fór í vinnuna. Ótrúlega frískandi að finna regnið á andlitinu en minna spennandi þegar það var farið að leka úr hárinu og niður hálsinn.

Það er frekar fyndin saga sem gengur um allt ljósum logum núna. Kona í Reykjavík bloggar um það þegar hún var að leika blinda manneskju með hvítu leikfanga-plast-geislasverði sonar síns. Þeir sem hafa gaman af góðum sögum geta kíkt á síðuna hennar hér: http://toothsmith.blogspot.com/ undir fyrirsögninni "Er ég blind?" Eini gallinn við það að lesa svona skemmtilegar sögur er að manni finnst manns eigið blogg frekar litlaust í samanburði :o(