þriðjudagur, 26. apríl 2005

Hef velt vöngum

yfir ýmsum málum í dag. Launamálum meðal annars en seint verður sagt að stundakennarar hafi há laun, þ.e.a.s. að minnsta kosti ekki ef kennslan er þeirra aðal starf. En - betri er einn fugl í hendi en margir í skógi... Sem sagt það er betra að hafa vinnu þó illa launuð sé en að hafa enga vinnu!

Er farin að hlakka til laugardags en þá förum við kvennaklúbbssystur ásamt mökum út að borða á Friðrik fimmta. Tilefnið er að vísu frekar sorglegt, ein okkar er að flytja til höfuðborgarinnar nú í vor og á að kveðja þau hjónin formlega á laugardagskvöldið. Friðrik kokkur ætlar að setja saman matseðil handa okkur eins og honum einum er lagið og það verður spennandi að sjá hvað við fáum að borða. En talandi um flutninga suður, þá finnst manni einhvern veginn eins og bókstaflega hálfur bærinn sé á suðurleið þessa dagana. Hvernig endar þetta eiginlega? Er enginn á leiðinni norður?

mánudagur, 25. apríl 2005

Náði þeim áfanga í morgun

að geta synt skriðsund án þess að vera alveg að drepast eftir tvær ferðir. Galdurinn? Að synda hægar... Ég var alltaf í þriðja gír og gat bara einhvern veginn ekki synt hægar en svo allt í einu í morgun small þetta. Nú þarf ég bara að endurnýja sundgleraugun mín og fá mér blöðkur á fæturnar og þá er ég til í skriðsunds-slaginn. Þvílík forréttindi sem það eru að byrja daginn á því að synda í útisundlaug í glampandi sól og blíðu.

Helgin leið hjá í miklum rólegheitum. Valur vann í garðinum en ég gerði mest lítið. Ég var reyndar með kvennaklúbb á föstudaginn og tókst að klambra saman kökum/heitum rétti án stórslysa í eldhúsinu. Fann svona þrælfína (imbahelda) uppskrift að súkkulaðiköku í Nýju lífi og féll hún aldeilis í kramið hjá klúbbsystrum.

Á laugardagskvöldið áttum við miða í leikhúsið að sjá "Pakkið á móti" en vorum hvorugt í rétta gírnum fyrir leikhúsferð svo við breyttum um áætlun og fórum í bíó í staðinn. Sáum "The Interpreter" með Nicole Kidman og Sean Penn. Myndin var alveg ágæt en enn og aftur undrast maður að það skuli yfir höfuð vera hægt að halda uppi kvikmyndahúsi á Akureyri, hvað þá tveimur!

fimmtudagur, 21. apríl 2005

Sumarið heilsar með rjómablíðu

a.m.k. hér í höfuðstað Norðurlands.

Það er alveg yndislegt að fylgjast með því hvernig blessuð börnin vakna úr dvala tölvuleikja og sjónvarpsgláps og fara að leika sér úti - eins og kálfar sem sleppt er úr fjósi. Ísak fékk fótbolta í sumargjöf og hefur varla sést inni í dag. Annað en blessaður unglingurinn bróðir hans sem settist á sinn fasta stað eftir að hafa sofið 12 tíma og farið í sturtuferð dagsins. Einmitt núna heyrast hlátrasköll frá herberginu hans en pabbinn var að reyna að njósna um það hvort hann væri í samskiptum við einhverjar stelpur á MSN.

Hvað okkur "gamla settið" snertir þá fórum við á sýningu á ljósmyndum RAX í Minjasafninu í dag. Óhætt er að segja að hann svíkur aldrei og voru nokkrar frábærar myndir þarna inn á milli.

Þarna tók ég mér smá hlé frá blogginu og horfði á tengdapabba í fréttum RÚV en tekið var lauflétt viðtal við hann í tilefni dagsins...

miðvikudagur, 20. apríl 2005

Tengdapabbi

verður á sínum stað á morgun í Víðavangshlaupi ÍR. Hans staður er við rásmarkið en eins og kemur fram á Mbl.is þá er hann búinn að ræsa hlaupið yfir 50. sinnum. Geri aðrir betur!

Viðurkenni að ég er með smá fiðring

vegna öldungamóts í blaki sem byrjar hér á Akureyri á morgun. Ég æfði nefnilega blak í 2 - 3 ár fyrir nokkru síðan en hætti því þegar meira var orðið að gera í náminu. Hætti auðvitað á toppnum eins og þeir bestu gera alltaf - var þá rétt farin að geta eitthvað!! Ætlaði alltaf að byrja aftur þegar ég væri búin með skólann en margt fer öðruvísi en ætlað er og ekki er ég nú byrjuð enn. En á blakferlinum afrekaði ég að fara á tvö öldungamót, það fyrra á Akranesi og hið síðara á Siglufirði. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa svona viðburði með orðum, verður að upplifast, en það er mikil stemming í kringum mótin og alveg sérstakur andi sem svífur yfir vötnum. Ekki er ólíklegt að ég eigi eftir að kíkja á einn leik eða tvo um helgina, svo mikið er víst ;-)

Eindæma veðurblíða

úti gerir það að verkum að erfitt er að festa hugann við vinnuna. Er að spá í að skrópa eftir hádegið og fara út að ganga í sveitinni við Skipalón með Unni vinkonu minni sem er ættuð þaðan.

þriðjudagur, 19. apríl 2005

Er vonlaus bloggari þessa dagana

Dettur ekkert í hug að skrifa um. Sennilega af því lífið hjá mér er óvenju ferkantað eitthvað og tíðindalítið. Nóg að gera í vinnunni þrátt fyrir að formlegri kennslu sé nánast lokið. Er að leiðbeina tveimur nemendum með lokaverkefni og er líka byrjuð að að vinna að verkefni á vegum Ferðamálaseturs Íslands.

Eftir að hafa verið ótrúlega spræk í sundi og gönguferðum undanfarið sprakk ég á limminu í dag, verkjar í vöðva og vöðvafestur og er óendanlega þreytt. Fékk mér meira að segja siestu eftir hádegismatinn, nokkuð sem gamla fólkið gerir gjarnan, og sýnir það vel hvernig komið er fyrir mér :-(

sunnudagur, 17. apríl 2005

Mikið sem það er gott

að eiga frí. Vakna, fara í sund, fá sér morgunmat, laga til í húsinu, þvo þvott, kaupa í matinn, fara út að ganga, borða, horfa á sjónvarpið, sofa.... Svona var helgin hjá mér í grófum dráttum. Það sem var þó allra best var sú staðreynd að ég var full af orku og fann vart fyrir þreytu. Sleppti góðu boði Hjördísar og Hörpu um að fara með þeim á árshátíð Átaks í gærkvöldi - það höfðaði meira til mín að fara snemma að sofa og vakna fersk og velúthvíld í morgun.

Nú er kominn tími á garðverkin - en Valur var þó búinn að klippa runnana fyrir nokkru. Enn er eftir að raka lauf og hirða rusl úr beðum. Talandi um lauf þá var ansi hressilegt rok á tímabili í gær og sjá mátti ummerki þess í sundlauginni í morgun. Lauf og sandur út um allt en hann Steini (sundlaugarvörður og fuglaáhugamaður með meiru) barðist við þessa aðskotahluti með tilþessgerða sundlaugar-ryksugu að vopni og þegar ég fór var hann búinn að ná yfirhöndinni, a.m.k. fram að næsta roki!

föstudagur, 15. apríl 2005

Konukvöld

í Sjallanum í gærkvöldi var skrýtin upplifun og hálf súrrealísk á köflum. Olíubornir karlmenn gangandi um salinn að bjóða súkkulaði, tískusýning með hugrökkum konum, sumum í yfirstærð og með áberandi appelsínuhúð í flóðlýsingunni, Helga Braga með uppistand og léttan magadans, slitin og þreytt innréttingin í Sjallanum, sígarettulykt sem barst í salinn þó bannað væri að reykja þar, þrjár "heppnar" konur sem fengu lúsarlega tvo tíma í ljós í verðlaun.......... Á tímabili fannst mér sem ég væri stödd í bíómynd eftir Kaurismaki - en sem betur fer tók þetta enda og ég gat farið heim að sofa fyrir miðnætti :-)

fimmtudagur, 14. apríl 2005

hænurnar

það voru einu sinni tvær hænur að horfa á fótbolta leik þá sagði ein þeirra:hvað rosalega fara þeir illa með eggið!

Yngri sonurinn

er búinn að koma sér upp bloggsíðu. Eða ekki... þetta er ekki bloggsíða hjá honum heldur gátu- og brandarasíða. Það verður spennandi að fylgjast með framþróun síðunnar og hversu duglegur hann verður að uppfæra hana.

Byrjaði daginn á því

að sitja á ríflega klukkutíma löngum fundi í Lundarskóla. Verið var að kynna valáfanga sem krakkarnir í 9. bekk geta valið sér á næsta ári. Þetta var svo sem allt í lagi en það var svo kalt þarna inni, mikill gustur frá útidyrunum sem sífellt var verið að opna og loka, að ég var bara alveg að krókna að fundi loknum. Er búin að drekka einn tebolla til að fá í mig hita og er að hugsa um að ná mér í annan.

miðvikudagur, 13. apríl 2005

Afrekuðum

að fara í bíó í gærkvöldi hjónin. Okkur finnst báðum gaman að fara í bíó en einhverra hluta vegna förum við samt ekki nema í hæsta lagi 3-4 sinnum á ári. Mig minnir að myndin hafi heitið "In good company" og hún var bara alveg ágæt. Það mátti a.m.k. hafa gaman af henni þó hún hafi ekki skilið mikið eftir sig. Ég skil samt ekki alveg hvernig þeir fara að því að halda úti kvikmyndahúsi á Akureyri. Held að við höfum verið 8 í allt sem vorum á þessari mynd og svipaður fjöldi í hinum salnum.

Annars er ég vöknuð fyrir allar aldir þessa morgnana, eða uppúr hálf sex, sem telst nú snemmt þegar ég á í hlut. Hvort sem það er birtan úti eða streita þá finnst mér þetta eiginlega ekki fyndið. Kannski er þetta bara ellin.... Finn það a..m.k. að B-manneskjan ég er farin að kunna vel við A-manneskju mynstrið. Fara snemma að sofa og snemma á fætur, líka um helgar. Enda var ég mætt í sund fyrir hálf níu á sunnudagsmorguninn síðasta. Það hefði nú einhvern tímann þótt frétt til næsta bæjar!

mánudagur, 11. apríl 2005

Allur vindur

úr mér farinn svona að kvöldi dags. Hef samt ekki gert neitt annað en slæpast í dag. Fór meðal annars með tengdamömmu í Purity Herbs þar sem hún endurnýjaði birgðirnar af fótakremi ofl. Það er gaman frá því að segja að við Valur gáfum henni þessar vörur með í jólapakkann og hún hefur verið að bera kremið á stirða hnjáliðina með frábærum árangri. Ég keypti mér líka sjampó sem ég ætla að prófa. Það er fínt að geta keypt svona beint hjá framleiðsluaðilanum og fengið leiðbeiningar og góð ráð, auk þess sem það er 25% ódýrara en að kaupa vöruna í gegnum smásöluaðila.

Við kíktum líka aðeins í bæinn, þ.e.a.s. göngugötuna en í morgun kl. 10.30 vorum við einu manneskjurnar á ferð í göngugötunni! Já, það er líflegur miðbærinn hér norðan heiða, það vantar nú ekki ;-(

Eftir skyr og brauð í hádeginu ók ég þeim svo á flugvöllinn og þar með lauk vel heppnaðri heimsókn tengdaforeldranna til Akureyrar. Annað er ekki í fréttum nema það að ég er alveg ofboðslega þreytt eitthvað þessa stundina og ætla snemma að sofa í kvöld. Og ótrúlegt en satt, ég fékk strengi í fæturnar eftir að synda tuttugu ferðir bringusund í gærmorgun. Hm.

laugardagur, 9. apríl 2005

Arg og garg

Sit hér með bjór í annarri og sígarettu í hinni.... nei, bakka með sígarettuna (hef aldrei reykt á ævinni og ætla ekki að byrja á því núna, ekki einu sinni í þykjustunni). Er bara með einn aumingjabjór (Corona) og bíð eftir því að andinn komi yfir mig svo ég geti bloggað eitthvað sniðugt. Hmm - dettur ekkert í hug! Þá verður þetta bara hefðbundin skýrslugjöf. Hvað gerði ég í gær o.s.frv.

Í gær skilaði ég loks af mér verkefnunum sem ég var búin að hafa hangandi yfir hausamótunum á mér síðan í mars. Var mikið glöð þegar því var lokið ;-) Í gær pöntuðum við pítsu í matinn - í nta skiptið - en mikið sem tengdó voru ánægð með að fá þennan mat enda borða þau ekki pítsu nema tvisvar til þrisvar á ári.

Í gærkvöldi horfðum við síðan á gamlan klassíker sem ég tók á bókasafninu "North by Northwest" með Gary Grant ofl. Ísak horfði á alla myndina með okkur og hafði gaman af. Seinni hlutann lá hann reyndar á dýnu sem hann sótti sér vegna þess að hann ætlaði að gista í sjónvarpsherberginu í nótt. Af hverju skyldi nú Ísak hafa ætlað að gista í sjónvarpsherberginu?

Jú, pabbi hans tók sig til um daginn, sagði upp Sýn og tók Stöð 2 í staðinn en sú sjónvarpsstöð hefur aldrei áður verið hér í húsinu. Og viti menn, á þessari stöð byrjar barnaefnið kl. sjö á morgnana þannig að Ísak ákvað að sofa niðri svo hann myndi ekki missa af einni mínútu af barnaefninu... Og þrátt fyrir að hafa enga vekjaraklukku þá vaknaði minn klukkan sjö og gat legið í makindum undir sæng og horft á barnatímann ;o)

föstudagur, 8. apríl 2005

iPod, iPhoto, iPal...

það er verið að koma tengdaforeldrunum inn í nútímann. Fyrr en varir verður örugglega farið að kenna afa gamla á PlayStation eins og Harpa stakk upp á ;-)

fimmtudagur, 7. apríl 2005

Jæja, þá eru tengdó komin í heimsókn

norður yfir heiðar. Það háttar þannig til að tengdapabbi verður áttræður á laugardaginn og hann ákvað að flýja allt veislustúss og besta leiðin til að gera það er að vera "að heiman" á afmælisdaginn. Við Valur sóttum þau út á flugvöll um þrjúleytið, fórum með þau heim, gáfum þeim kaffi og fórum svo bæði aftur í vinnuna. Skemmtilegir gestgjafar eða hitt þá heldur! En ég þarf að klára ýmislegt fyrir morgundaginn því það er síðasti kennsludagur hjá mér að sinni. Á reyndar eftir að "hitta" fjarnemana tvisvar í viðbót, þannig að þessu er ekki alveg lokið enn. En það er a.m.k. smá pása fram að prófum. Þá byrjar fjörið aftur, enda um 100 próf sem ég kem til með að fara yfir.

Nú er bara spurningin: Hvernig á að hafa ofan af fyrir tengdaforeldrunum?

þriðjudagur, 5. apríl 2005

Sumir dagar...

fá mann til að velta því fyrir sér af hverju í ósköpunum maður hafi ekki bara legið áfram á sínu græna eyra í stað þess að fara á fætur.

Dagurinn byrjaði eins og allir aðrir dagar. Við vöknuðum um sjöleytið, Valur græjaði nesti handa fjölskyldunni og strákarnir fóru í skólann. Þá var komið að okkur fullorðna fólkinu að koma okkur af stað í vinnu. Ég ætlaði að keyra Val fyrst á stofuna og fara svo í sund áður en ég færi sjálf að vinna. En þá fundust bíllyklarnir hvergi. Sökudólgurinn var ég - hafði verið síðast á bílnum. Datt helst í hug að ég hefði sett lyklana í vasann á flíspeysunni minni (í stað þess að hengja þá á þar til gerðan snaga). Ekki voru þeir þar. Ég leitaði út um allt en datt þá allt í einu í hug að hugsanlega hefði ég gleymt þeim í svissinum (sem hefur aldrei gerst áður). Viti menn, þar voru þeir!

Við brunuðum af stað og ég skilaði Val af mér áður en ég ók sem leið lá upp í sundlaug. Þar tók við næsta vandamál. Komin úr öllum fötunum áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt sundgleraugunum heima, sem þýddi það að ég gat ekkert synt. Hefði getað klætt mig aftur og farið fram í afgreiðsluna til að fá lánuð sundgleraugu en nennti því ómögulega. Þannig að það var bara heitur pottur + gufa í þetta sinnið.

Eftir að hafa grillað mig og gufusoðið mætti ég í vinnuna um hálf níu leytið, tilbúin að takast á við verkefni dagsins. En þá var tölvan mín frosin og ég þurfti að endurræsa hana. Windows log in kerfið er hins vegar bilað í tölvunni (sem er ástæðan fyrir því að ég var löngu hætt að slökkva á henni en valdi alltaf stand by í staðinn) og það tók mig klukkutíma að komast inn í tölvuna. Klukkutíma! Var þá búin að logga mig inn einhvers staðar á milli 10 og 20 sinnum (hætti að telja eftir 10 skipti). Nú er liðinn rúmur hálftími síðan ég gat byrjað að vinna - en ég er bara dottin úr öllu stuði. Eins og einhver spyrji að því hvort maður sé í stuði!

mánudagur, 4. apríl 2005

Fór á tónleika

með Kvennakór Akureyrar í gær. Það var bara alveg virkilega gaman, sérstaklega eftir hlé en þá var dagskráin ögn léttari. Lög frá Ungverjalandi, Perú og jafnvel negrasálmar. Þórhildur Örvarsdóttir stjórnaði kórnum af miklum krafti og Sigrún Arna Arngrímsdóttir söng einsöng. Ég held að ég hafi bara aldrei farið áður á tónleika með kór áður og ástæðan fyrir því að ég fór núna er sú að Hjördís vinkona mín sem er í kórnum er að flytja suður í vor þannig að þetta voru síðustu forvöð að sjá/heyra hana syngja. En mér fannst þetta svo gaman að það er spurning hvort ég sæki ekki bara um plássið hennar í kórnum...

sunnudagur, 3. apríl 2005

Tom Waits

bergmálar um íbúðahverfið núna. Hver skyldi standa fyrir því? Minn heittelskaði að sjálfsögðu! Hann fór með nýjasta leikfangið sitt (iPod) út í bílskúr, þar sem hann tengdi það við gamlan magnara og gamla hátalara sem búið var að leggja til hliðar. Nú hafa þessir hlutir öðlast nýtt líf, þökk sé þessu nýja leikfangi eiginmannsins (sem á mjög lítið af leikföngum miðað við marga aðra karlmenn, bara svo það sé nú ljóst). Ég bíð bara eftir því að einhver nágranninn hringi í lögregluna og kvarti undan hávaðamengun ;-)

Hér er þvílík sól og blíða í augnablikinu að minnir á gamla daga. Já og snjór, ekki má gleyma því. Reyndar er að byrja að rifa í malbik á götum og göngustígum en í morgun var alveg ótrúlega fallegt um að litast. Alveg eins og í gær þá skiptum við Valur með okkur verkum, ég kannaði hitastig sundlaugarinnar á meðan hann kannaði hitastig skíðasvæðisins. Hann kom hins vegar öllu "manískari" úr fjallinu heldur en ég úr sundlauginni þannig að sennilega hefur verið heitara á skíðunum...

laugardagur, 2. apríl 2005

Snjór - og sól

Í þessum töluðu (skrifuðu) orðum kom sólin fram úr skýjunum og lýsir á nýfallinn snjóinn. Vildi að ég þyrfti ekki að snúa mig nærri því úr hálsliðnum til að sjá út um gluggann á skrifstofunni minni. En útsýnið er fallegt! Vaðlaheiðin böðuð sól þar sem hana ber við dimmbláan Pollinn.

Það sem snjónum kyngir niður

Veturinn er greinilega ekki alveg tilbúinn að sleppa okkur ennþá. Eftir góða sundferð í morgun og morgunmat (í formi brauðs með tei) með bóndanum fór ég í vinnuna. Þar skemmti ég mér við að fara yfir verkefni, alveg þar til maginn í mér var farinn að kvarta yfir meðferðinni og ég gekk heim til að fá mér kaffi (með bóndanum að sjálfsögðu, við erum eins og samlokur;-)

Á leiðinni snjóaði þessi lifandis ósköp og snjóflygsurnar voru rennblautar, þungar og á stærð við hrossaflugur. En ég var við öllu búin - með húfu og vettlinga - þannig að þetta var nú bara hressandi. Eftir meira te og brauð fór ég aftur út í skóla og fór yfir fleiri verkefni. Verð að klára þetta, er alveg að tapa geðheilsunni á því að hafa þetta hangandi yfir hausamótunum á mér!

föstudagur, 1. apríl 2005

Ég á lítinn skrítinn skugga

skömmin er svo líkur mér ... eða hvað? Þetta eru reyndar tveir skuggar og þeir eru ekki vitund líkir mér. Nema ég sé eins og köttur - sem getur auðvitað vel verið! Já, þetta eru þau Birta og Máni sem elta mig um húsið, milli herbergja, niður í kjallara, inn í geymslu, á klósettið... (þau bíða að vísu þolinmóð frammi á gangi á meðan ég er á klósettinu - þar dreg ég mörkin!).

Yfirleitt er þetta bara notalegt, t.d. voða gaman þegar þau koma hlaupandi á móti mér þegar ég kem heim í hádeginu. En stundum fæ ég alveg nóg, sérstaklega þegar þau þvælast fyrir fótunum á mér og ég er kannski nærri dottin. Nú eða þá sparka óvart í annað hvort þeirra og sendi það í salibunu. Valur segir að ég sé mamma þeirra og líklega líta þau á mig sem einhvers konar mömmu. Og eins og með alvöru börnin þá situr maður uppi með þau það sem eftir lifir ;-)

Læknaskop

Ég var að leita að einhverju á netinu og þegar ég sló viðkomandi leitarorð inn í Google kom leitarvélin upp með ýmsar síður, þar á meðal var Broshornið, en það er þáttur í Læknablaðinu sem ætlað er að létta lundina og fá fólk til að brosa. Ég stóðst ekki mátið að birta eina litla sögu:

Gefið undir fótinn

Eldri kona með mikla lífsreynslu var lögð inn á spítala. Er hún fór að hressast tók hún til við að daðra við karlkynið í hópi starfsfólks. Þegar ungur og myndarlegur deildarlæknir var að skoða hana gat hún ekki orða bundist: "Heyrðu vinur minn, ég hef verið að velta því fyrir mér hvort það mundi ekki flýta fyrir bata mínum ef við tvö eyddum nóttinni saman?"

"Jú, góða mín, ég er nokkuð viss um það en ég er ekki eins viss um að sjúkratryggingarnar myndu taka þátt í kostnaðinum."