Svo spyr einn þeirra: "Hvernig ertu annars í hnénu Guðmundur?"
Guðmundur svarar: "Ég er allur að koma til, fer út að ganga á hverjum degi í Kjarnaskógi og það gerir mér voða gott."
Einn: "Já, en nú fer færið að verða slæmt í Kjarnaskógi, þá geturðu ekki lengur gengið þar."
Guðmundur: "Að vísu, en ég er nú líka að verða miklu betri."
Einn: "Annars fór ég nú út að ganga um helgina. Gekk hringinn hjá Kristnesi með konunni. Eða réttara sagt, hún dró mig á eftir sér. Það þyrfti nú barasta að hengja lóð aftan í rassinn á henni til að hægja á henni, það er ekki hemja hvað hún gengur hratt konan.
Sá þriðji: "Er það ekki bara þú sem gengur svona hægt góði?"
Einn (hefur greinilega tekið þessa athugasemd nærri sér) segir með þjósti: "Þegi þú nú bara, vertu ekkert að skipta þér af þessu!"
Sá þriðji þegir.
Einn (sér greinilega eftir því að hafa verið svona hranalegur): "Þetta hefur alveg snúist við hjá okkur. Fyrir tuttugu árum nennti ég aldrei að fara með henni út að ganga því hún komst varla úr sporunum. Nú er það hún sem flýgur áfram og þarf að dröslast með mig í eftirdragi." Ekki er ljóst við að greina megi sorg í röddinni yfir því að vera orðinn þetta lélegur en jafnframt örlar líka á stolti yfir því hvað konan er orðin spræk.
Þegar hér er komið sögu er konunni, sem hefur setið þegjandi og hlustað á þessi samskipti, orðið vel heitt og hún drífur sig uppúr pottinum. Karlarnir sitja áfram og ræða sín mál.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli