sunnudagur, 22. október 2006

Finnst ég eiginlega þurfa að blogga

til að halda uppi heiðri mínum á þessum vettvangi - en hef verið svo andlaus undanfarið að mér finnst ég ekki hafa neitt að segja. Get þó sagt frá því að mín elskulega systir er búin að kaupa fyrir mig garn í peysu og ég hlakka til að fara að prjóna. Þetta er gróft garn (sem ætti að henta mér vel, þetta gengur þá hraðar fyrir sig) í dökkbrúnum lit en ég er í einhverjum brúnum fasa þessa dagana. Því miður eru fataverslanir hér norðan heiða lítið birgar af þessum brúna lit svo ég held áfram að ofnota þessar tvær flíkur sem ég á í brúnu þar til peysan er tilbúin.

Nú styttist í að Pottar og prik fari að auglýsa en lógóið er loksins tilbúið! Það gekk nú hálf erfiðlega að velja litinn á það en hann er einhvers konar blanda af gráu, brúnu og grænu... Hm, hljómar kannski undarlega en ég held að hann verði fínn. Þannig að vonandi náum við að fá skilti framan á búðina og auglýsingu í Dagskrána á miðvikudag. Hér byggist allt á því að auglýsa í Dagskránni því milli 80 og 90% Akureyringa lesa þann miðil. Sem er ágætt, það einfaldar málið verulega. Okkur vantar ennþá nýtt afgreiðsluborð, nýjar innréttingar að hluta og nýja heimasíðu - en þolinmæði þrautir vinnur allar svo það er um að gera að temja sér dágóðan skammt af þeim eiginleika. Þolinmæði hefur reyndar ekki verið mín sterkasta hlið í gegnum árin en mér finnst ég nú hafa tekið stórstígum framförum hvað það snertir :-)

Engin ummæli: