Á miðvikudagsmorguninn var Birta reyndar að drepast úr pirringi yfir þessu ástandi og gekk vælandi um húsið. Eftir smá stund var ég orðin svo þreytt á henni að ég opnaði útidyrnar til að sýna henni að úti væri snjór og kalt. Þegar hún stóð í dyragættinni og snusaði út í kalda loftið kom Máni hlaupandi og hélt að hann væri að missa af einhverju. Þá tók Birta eitt eða tvö varfærnisleg skref í átt að dyrunum og var jafnvel að spá í að sýna það stórkostlega hugrekki að fara alveg í gættina. Í einhverju pirringskasti tók ég báða kettina og henti þeim út á pall. Það var smá auður blettur beint fyrir framan þröskuldinn og þar stóðu þau, eins og álfar út úr hól. Ég lokaði dyrunum og hugsaði með mér að þau hefðu bara gott af því að fá sér smá súrefni. Fékk ógurlegt samviskubit fyrir að fara svona illa með dýrin og hleypti þeim aftur inn eftir u.þ.b. eina mínútu. Þá hafði kuldinn svo sannarlega komið blóðinu á hreyfingu því þau þeyttust um allt hús í eltingarleik og kæti - sem styrkti mig í trúnni að þau hefðu bara haft gott af þessu!
Nú á eftir ætla ég að beita sjálfa mig sömu meðferðinni, hætta mér út í tæplega 15 stiga frostið og afreka að ganga í vinnuna. Hlýt að verða rosalega spræk á eftir!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli