Norðurorka hér á Akureyri virðist vera eitt af þeim fyrirtækjum. Um daginn kom tilkynning frá þeim þess efnis að vegna framkvæmda við raflagnir í Kaupangi þyrfti bráðlega að grafa upp gangstíg sem liggur framhjá húsinu okkar og myndi eitthvað ónæði verða af þeim sökum. Í fyrradag kom svo annar miði frá þeim og í þetta sinn var tilkynnt að vegna framkvæmda við spennistöð (sem er beint fyrir ofan húsið okkar) yrði rafmagnið tekið af hverfinu frá klukkan tíu í dag og fram eftir degi.
Ég var sem sagt með yfirvofandi rafmagnsleysi alveg á hreinu en þar sem ég átti ekki að fara í vinnu fyrr en eftir hádegið var ég búin að velta því fyrir mér hvað ég ætti nú að gera þegar lokað yrði á rafmagnið - enda veit hver heilvita maður að nútíma manneskjan lendir í tómu tjóni þegar ekkert er rafmagnið til að knýja heimilistækin og internetið ;-) Lausnin var sú að senda vinkonu minni SMS og viti menn hún var heima og bauð mér í morgunkaffi/te.
Þegar hér var komið sögu var húsið orðið rafmagnslaust samkvæmt áætlun og ég bara sátt og sæl með þetta allt saman. Alveg þar til ég fór út í bílskúr og ætlaði að bakka út úr honum. Þá fyrst áttaði ég mig á því að bílskúrshurðin er rafknúin og þar af leiðandi var ég föst með bílinn inni í skúr. Ég varð hálf miður mín því fyrir utan bólgið hné sem þolir ekki miklar göngur þá var ég líka búin að lofa eiginmanninum að sækja hann í vinnu nr.1 og keyra hann í vinnu nr. 2 klukkan hálftólf.
Með öndina í hálsinum gekk ég að spennustöðinni og vonaði að kallarnir gætu bara sett rafmagnið aftur á í smá stund, bara rétt á meðan ég kæmist út úr skúrnum. En, nei, þeir voru komnir á fullt í vinnu og það var ekki raunhæfur möguleiki í stöðunni. Einn þeirra hefur líklega séð hvað ég var bjargarlaus á svipinn því hann sagði mér að það væri snúra sem héngi niður úr bílskúrshurðinni og í hana gæti ég togað til að opna hurðina. Eitthvað rámaði mig í umrædda snúru svo ég tölti af stað í átt að bílskúrnum, heldur upplitsdjarfari. Þarna hefði Norðurorku-maðurinn getað hætt sínum afskiptum af málinu en hann reyndist sannur riddari og fylgdi á eftir mér að skúrnum. Fann snúruna og togaði í hana. Var þá hægt að ýta hurðinni upp með handafli, en hún vildi bara alls ekki festast uppi sama hvað við gerðum margar tilraunir. Lyktir málsins urðu þær að hann bauðst til að halda undir hurðina á meðan ég bakkaði út, sem hann og gerði. Já þetta kalla ég góða þjónustu :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli