miðvikudagur, 8. janúar 2020

Að leyfa sér að dreyma


Undanfarin ár hef ég fylgst aðeins með konu að nafni Mel Robbins. Ég hef hlustað á bækur eftir hana og finnst hún hress og skemmtileg og að gera góða hluti. Hún hristir alla vega upp í manni og fær mig oft til að sjá hluti í nýju ljósi.

Mel brennur fyrir því að hjálpa fólki að bæta líf sitt og býður m.a. upp á ókeypis námskeið núna í janúar sem hún kallar #BestDecadeEver. Þar sem ég endaði árið 2019 á óvenju bjartsýnum nótum fannst mér tilvalið að skrá mig á þetta námskeið til að skerpa enn frekar á óskum mínum um gott ár 2020, sem og næsta áratug. Með aðstoð Mel eiga þátttakendur að láta sig dreyma STÓRA drauma varðandi framtíðina og hún hjálpar til með ráðum og dáðum og bendir á verkfæri sem nýtast okkur við að láta draumana rætast.

En það að leyfa mér að dreyma um eitthvað yfirhöfuð er eiginleiki sem ég er næstum búin að missa. Síðustu 10 árin hefur minn stóri draumur verið að öðlast betri heilsu en að öðru leyti hef ég bara reynt að „lifa af“ hvern dag fyrir sig. Jú mig hefur líka dreymt um að geta unnið aftur fyrir mér, en þar sem það er háð heilsu, þá hefur það hingað til verið fjarlægur draumur. 

Ef ég ætla að gera verkefnin sem lögð eru fyrir á námskeiðinu þá þarf ég að finna eitthvað hlið í heilanum á mér sem er næstum ryðgað fast, bera olíu á hjarirnar og opna það upp á gátt! 

Þetta námskeið er opið öllum og aðgengilegt hér, ef einhver skyldi vilja tékka á þessu :) 
#DreamBigger