sunnudagur, 29. ágúst 2004

Ætla aldrei aftur að kaupa London lamb

Þvílíkt óæti og þvílíkur bömmer fyrir mig. Ætlaði nú aldeilis að sýna ungunum að mamman gæti eldað mat (eins og pabbinn) og eftir að hafa skoðað það sem í boði var í 10-11 ákvað ég að kaupa london lamb. Hef að vísu ekki borðað þannig mat í mörg ár en strákarnir eru hrifnir af reyktu kjöti svo ég hélt að þetta félli nú aldeilis í kramið. Sauð lambið eftir leiðbeiningum á umbúðunum og hafði kartöflur og hvítan jafning (uhhstú eins og Valur kallar það) með. Fannst ég alveg rosalega eldhús-leg eitthvað á meðan á eldamennskunni stóð og var rosalega ánægð með sjálfa mig. Og þar sem væntingarnar voru miklar var auðvitað fallið hátt. Þetta var bara ógeðslegt. Kjötið var eins og límt saman einhvern veginn og fullt af hörðum tægjum og fitu. Við fengum okkur öll eina sneið af óætinu (strákarnir vildu reyna að gleðja mömmu sína og ég varð náttúrulega að ganga á undan með fögru fordæmi og borða það sem ég hafði nú einu sinni sjálf eldað) en svo henti ég afgangnum í tunnuna. Þarna fóru 1551 krónur fyrir lítið. Ég er að velta því fyrir mér hvers konar fólk kaupir þetta - því einhverjir hljóta að vera ábyrgir fyrir því að þetta kjöt er yfirhöfuð framleitt (það ætti að vera sök neytendanna ef lögmál framboðs og eftirspurnar er í jafn miklu gildi og markaðsfræðingar vilja vera láta). Jæja, nóg um það.

Hef verið að skoða hótel í París á netinu síðasta klukkutímann eða svo. Það er úr ýmsu að velja og erfiðast að vita í hvaða "hverfi" borgarinnar er best að gista. Mér datt nefnilega ekkert í hug til að gefa Val í afmælisgjöf svo ég ákvað að bjóða honum til Parísar og er búin að kaupa farseðlana en á sem sagt þetta hótel-dæmi eftir. Hvað sem því líður þá verður gaman að fara í ferðalag saman tvö ein til útlanda án þess að um læknaráðstefnu sé að ræða.

Ég hafði nú ekki hugarflug í að láta mér detta í hug samhengið á milli veiðitúra Vals - ískursins í bílnum og reykta fisksins. En Baldur vinur okkar í Tromsö/Kópavogi sá í gegnum þetta og nú verður Valur aldeilis tekinn í karphúsið þegar hann kemur heim úr veiðinni. Ég ætti kannski að fá lánað svona fjólublátt vasaljós eins og löggurnar í CSI eru alltaf með og leita að sönnunargögnum í aftursætinu...... (Vona að þetta hafi ekki verið of gróft fyrir viðkvæmar sálir en svona geta "saklaus" comment á bloggið haft áhrif á bloggskrifara).

föstudagur, 27. ágúst 2004

Stella i orlofi..

eða þannig. Hössbandið farinn í veiði og ég þar af leiðandi í hálfgerðu orlofi. Bara verst að missa kokkinn úr húsinu - það var Mongópítsa í matinn í kvöld. Húsmóðirin lá uppi í sófa frá því hún kom úr vinnunni og fram til sex en þá sá unglingurinn á heimilinu sitt óvænna og pantaði pítsu + fór á hjólinu og sótti hana. Það er þessi blessuð föstudagsþreyta (ég get alla vega logið því í þá sem þekkja mig lítið að þetta tengist föstudögum...). Núna horfði ég á stafla af óhreinu leirtaui í eldhúsinu og leit svo í hina áttina, fór og bloggaði í staðinn fyrir að setja í uppþvottavélina. En mér til hróss má segja frá því að ég er búin að setja í þvottavélina svo Ísak geti farið í hreinum KA galla á fótboltamótið á Húsavík á morgun. NB! Gallinn kemur líklega skítugur heim aftur en svona er lífið! Árangurinn af heimilisstörfunum hefur ansi stuttan lifitíma, vægast sagt.

Það er í tísku í kringum mig þessa dagana að kaupa sér nýjan bíl. Bæði Hrefna dóttir mín og Þóra móðir mín eru búnar að fjárfesta í nýjum (gömlum) bílum. Mamma sem er búin að keyra Skoda í áratug a.m.k. (mér liggur við að segja síðan ég man eftir mér en það er nú ekki alveg svo slæmt) breytti um og keypti Suzuki smájeppa en Hrefna keypti Toyota Yaris. Nú langar mig líka í nýjan bíl :-( Er samt mjög ánægð með jeppann, það er ekki málið. Hann var samt farinn að framleiða alls kyns (ó)hljóð í akstrinum svo ég fór með hann á verkstæði og kvartaði undan því að það ískraði í honum eins og gömlu hjónarúmi. Ég hélt að þetta væri allavega smá fyndið en það fannst verkstæðisformanninum greinilega ekki því honum stökk ekki bros á vör. Svo kvartaði ég líka undan því að það ískraði í bremsunum og hann skrifaði það samviskusamlega niður - en viti menn það ískrar ennþá í þeim eftir viðgerð. Ég er svei mér þá að hugsa um að kvarta og kveina yfir þessu við formanninn.

Kosturinn við að hafa bíl á verkstæði (nú eða í Mývatnssveit sem farkostur míns kæra eiginmanns sem þar er staddur núna) er sá að fæturnir mínir sem flesta daga eru mikið til ónotaðir fá loksins að spreyta sig á malbikinu. Og það er gott að ganga. Í gær gekk ég frá Toyota verkstæðinu og í vinnuna, úr vinnuni og heim og af hárgreiðslustofu á verkstæðið. Fannst ég rosa dugleg. Í dag gekk ég reyndar bara úr vinnunni en morgundagurinn lofar góðu. Er búin að ákveða að fara í sund í fyrramálið (gangandi að sjálfsögðu) og svo í bæinn. Það er Akureyrarvaka á morgun en ég ætlaði nú bara í bæinn að skoða föt (ótrúlega ómenningarleg eitthvað þessa stundina). Er nefnilega að fara í fertugsafmæli á morgun til Margrétar Steinnunnar Thorarensen og á við aldagamalt vandamál kvenna að stríða: "Á ekkert til að fara í".
Læt hér við sitja og fer að sinna móðurhlutverkinu. Sækja Ísak út á fótboltavöll og draga hann í háttinn svo hann verði hress og sprækur í fyrramálið.

miðvikudagur, 25. ágúst 2004

Ókey, kannski fullsnemmt

að segja að það sé komið haust. Þessi hitabylgja sem var hjá okkur um daginn var náttúrulega ekki alveg marktæk. Núna er bara venjulegt íslenskt sumarveður og engin ástæða til að kvarta undan því. Valur er í sumarfríi þessa vikuna og notar tímann til að mála gluggana á húsinu. Það er ótrúlegt hvað hann er fljótur að þessu og eftir að hafa staðið í stiganum í allan dag og málað þá snaraði hann fram Pizzu Calzone fyrir fjölskylduna í kvöld. Einn hálfmáni á hvern fjölskyldumeðlim, að Ísaki undanskildum en hann fær heimatilbúnar ostabrauðstangir í staðinn. Í pítsunni minni var hellingur af hvítlauk, sterkt pepperoni, þistilhjörtu og ostur (já og pítsusósa að sjálfsögðu). NAMM!!! Ég má þakka fyrir að eiga svona snillings-kokk fyrir eiginmann því líklega værum við hin dauð úr hor ef hans nyti ekki við. Nú eða þá dauð úr ofneyslu skyndifæðis eins og sá frægi Mc-Donalds maður.
Er ekki enn búin að tína rifsberin og gera úr þeim hlaup, ætli það endi ekki með því að Valur geri það - eins og allt annað á heimilinu (enda er þetta eiginlega eldhúsdeildin og það er nú einu sinni hans deild...). En þrestirnir hafa greinilega góðan smekk fyrir rifsberjum og eru farnir að gleypa þau í sig af offorsi. Þegar ég fór út í kvöld að fá mér smá ber í munninn var lengi vel eitthvað þrusk úr runnanum og eftir langa mæðu birtist eitt stykki þröstur út úr runnanum - líklega búinn að éta yfir sig því hann var svo lengi að vappa burtu (flaug sem sagt ekki!). Ég sagði við hann "já, var það ekki, bara verið að éta rifsberin mín, það er eins gott að kettirnir mínir komi ekki og éti þig væni.... Það er reyndar ekkert nýtt að ég tali við dýrin (myndi þó seint líkja mér við Dagfinn dýralækni) en það er spurning hvort það er ekki fyrir neðan mína virðingu að vera að hóta smáfuglunum?
Úff. ég er ennþá svo södd að ég er að springa. Ætti kannski að koma mér út í göngutúr til að reyna að koma pítsunni aðeins neðar í meltingarveginn. Hef komist að því að mér finnst best að fara út að ganga á kvöldin og morgnana, loftið er einhvern veginn öðruvísi þá, get ekki útskýrt það á neinn vitrænan hátt. Jú, og það er líka meiri þögn þá, ekki þessi iðandi bílaumferð eins og á daginn.
Hér með lýkur lestri dagsins, "Guðný has left the building".

þriðjudagur, 24. ágúst 2004

Þá hellist haustið yfir

það voru ekki nema 10 gráður á mælinum í morgun en sólin skein og það er nú plús. Hins vegar ruglast maður hálf partinn í ríminu þegar það er svona "gluggaveður", ég er berfætt í skónum og gleymi að fara í jakka þegar ég fer út á morgnana. Kettirnir okkar Birta og Máni láta nú ekki blekkjast af sólinni, þau komu óðar inn aftur eftir að hafa rétt andað að sér (köldu) morgunloftinu. Ég sit hér með langan lista yfir hluti sem ég þarf að gera næstu daga, sem dæmi má nefna: gera sjúkra- og upptökupróf í markaðsfræði, skrá Ísak á fótboltamót, fara með bílinn á verkstæði (það ískrar í honum eins og gömlu hjónarúmi), tína rifsberin og gera úr þeim hlaup, endurnýja árskortið mitt í Átaki o.s.frv. Af tillitssemi við lesendur tel ég ekki upp fleiri hluti hér, þetta er 1 bls. í A4 stílabók!
Sá ansi góða frétt í Vikudegi um daginn (en það ku vera fréttablað okkar Akureyringa). Þannig er mál með vexti að fyrir ca. tveimur árum var göngugatan í miðbænum "fegruð" með því að drita þar niður steinsteypu-kúlum (gráum að sjálfsögðu, það vantaði aðeins meira grátt) á víð og dreif. Þetta eru nokkuð stórar kúlur og um fegurðaraukann af þeim má sjálfsagt deila. Nema hvað, í Vikudegi var frétt um ungt par sem var á leið með kornabarn í Ungbarnaeftirlitið. Faðirinn hélt á barninu í fanginu og sá þar af leiðandi illa fram fyrir sig, hnaut um eitt stykki steypukúlu, datt fram fyrir sig og missti barnið í stéttina. Hér kemur svo rúsínan í pylsuendanum: Blaðamaðurinn endaði umfjöllun sína um þetta mál með því að segja að bærinn þyrfti að taka kúlurnar burt áður en skemmdir yrðu á ökutækjum!!! Ég hefði nú getað sagt honum söguna af vinkonu minni sem var að keyra göngugötuna og fann eitthvað vera fyrir bílnum, hún gaf bara meira bensín og áttaði sig á því eftir á að þetta hafði verið stórt steypu-blómaker sem bærinn setti upp á sama tíma og kúlurnar margfrægu. Það var rönd eftir bílnum endilöngum þar sem kerið hafði skorist inn í lakkið en sem betur fer var þetta bílaleigubíll ;o)

sunnudagur, 22. ágúst 2004

Tilraun

Ætlaði að setja myndir inn á síðuna en það gekk ekki alveg, það er að segja myndin kom en textinn með var allur brenglaður. Prófa að setja inn tengil á mynd í staðinn. http://flickr.com/photos/233742_51035690332@N01_b_d.jpg

Sunnudagar

eru stundum svolítið skrítnir dagar. Einkennast af hálfgerðri leti og manni verður lítið úr verki. Stundum dreymir mig um það að vera nær stórfjölskyldunni og þá ímynda ég mér að við færum í kaffi til hvers annars á sunnudögum og treystum fjölskylduböndin. Eða að við systurnar gætum farið í berjamó með synina. Ég hef ekki ennþá farið í berjamó og samkvæmt Mogganum í dag fer hver að verða síðastur að næla sér í ber í munninn, sultuna eða frystikistuna. Við erum með rifsberjarunna í garðinum og ég hafði nú ætlað mér að tína rifsber um helgina og gera úr þeim hlaup en helgin er að verða liðin og ekkert varð úr því. Reyndar varð mér lítið úr verki yfir höfuð, ólíkt mínum kæra eiginmanni sem fellur nánast aldrei verk úr hendi :O)
Við Bryndís vorum þó að vinna á laugardeginum og var það síðasti formlegi könnunardagur í þeim hluta rannsóknar Ferðamálaseturs Íslands sem við erum að vinna að þessa dagana. Þessi könnun hefur staðið í 18 daga og dreifðust þeir yfir sumarið, þannig að lítið varð um sumarfrí hjá okkur. Bryndís fór í eina viku til London í maí og ég í eina viku til Noregs í júní en annars höfum við verið í vinnunni. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekkert einsdæmi en ég er samt orðin hálf þreytt eitthvað og hefði haft gott af smá pásu. En við erum líka með annað verkefni í takinu og þurfum að ljúka því á næstu tveimur vikum þannig að pásan verður að bíða um sinn.

föstudagur, 20. ágúst 2004

Verð að monta mig

Er komin með nýjan Powerbook Makka en sá gamli gaf upp öndina eftir 5 ára stanslausa notkun og þótti ekki taka því að láta gera við hann. Og svo það sé sagt, hann bilaði ALDREI á öllum sínum ferli. Þannig að það þótti nokkuð sjálfsagt að kaupa nýjan Makka þegar ákveðið var að fjárfesta í nýrri tölvu svo frúin á heimilinu gæti haldið áfram að færa bókhaldið og greiða reikningana rafrænt. Það er aldrei að vita nema þessi nýja tölva verið til þess að skáldagyðjan verði heimsótt á nýjan leik en eftir að hafa fengið 3 smásögur eftir mig birtar í Nýju lífi þá hef ég bara ekkert skrifað. NB! Var líka tölvulaus! Gat fengið að nota vinnutölvuna hans Vals - og gerði það svo eftirminnanlega þegar ég þurfti að undirbúa kennslu í Markaðsfræðinni síðasta vor - og minn heittelskaði þurfti margoft að bíta í það súra epli að tölvan var upptekin þegar hann ætlaði að nota hana. Þannig að nú ætti að draga verulega úr konfliktum á heimilinu :0) Meira að segja Ísak getur tekið gleði sína að nýju því hann fékk aldrei að fara á netið á vinnutölvu pabba síns vegna hættu á vírusum en það eru engir vírusar á Makkanum.

Jæja, þá eru grunnskólarnir að byrja

og lífið fer bráðum að ganga sinn vanagang aftur. Það er bæði gott og slæmt eins og allt hitt í tilverunni. Það góða er að ég get byrjað að fara í leikfimi á morgnana aftur, Andri hættir að vaka á nóttunni og sofa á daginn (ég vakti hann í gærdag kl.15.00) og hann byrjar aftur á handboltaæfingum. Það slæma er að það styttist í veturinn og myrkrið sem óhjákvæmilega fylgir styttri sólargangi. Þó er ég búin að ráða töluverða bót á myrkrinu með "gleðilampanum" mínum sem ég keypti í fyrrahaust þegar ég fann að vetrardrunginn var að leggjast yfir mig. Þessi lampi er tær snilld, maður hefur hann bara á eldhúsborðinu og hefur kveikt á honum meðan maður les blöðin (hálftími á dag er nóg en ég er svo fljót að lesa svo það er gott að við fáum bæði Fréttablaðið og Moggann!).
Ég fylgdi Ísaki á skólasetningu Lundarskóla í morgun og það var gaman að sjá alla krakkana, svo sólbrúna og sæta eftir sumarið.

þriðjudagur, 17. ágúst 2004

Það ætti að vera bannað

að vera svona orkulaus þegar sólin skín úti og maður ætti að vera hress og fullur orku. Því miður þá eru orkugeymarnir bara gjörsamlega tómir þessa dagana og ég nenni engu. Ekki einu sinni að blogga :0(
Helgin var samt mjög góð. Við fórum með Ísak á Króksmót (sem var að sjálfsögðu haldið á Króknum) og það var bara virkilega gaman að bætast í hóp þeirra foreldra sem fylgja börnum sínum á íþróttamót og standa á hliðarlínunni og hrópa "Áfram KA". Þetta var alveg ný upplifun fyrir okkur þar sem áhugi á íþróttum hefur hingað til verið af skornum skammti hjá okkar börnum. Þó hefur Andri reyndar æft handbolta í tvo vetur núna og hlakkar til að hefja vertíðina í ár.
Á laugardeginum svindluðum við reyndar aðeins á þessu foreldra-dæmi og skelltum okkur í ferð á Vatnsnesið. Skoðuðum Borgarvirki http://www.islandsvefurinn.is/photo2.asp?ID=484 Hvítserk http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_hvitserkur.htm og Hindisvík en þar er sellátur og alveg gríðarlega fallegt. Við vorum alein á þessum yndislega stað og lögðum okkur smástund í grasið og sofnuðum í sólinni (nokkuð sem skilaði sér daginn eftir með rauðu andliti og þrútnu). Komum aftur á Krókinn um kvöldmatarleytið og fórum og fengum okkur að borða á stað sem ég man ekki lengur hvað heitir (illa haldin af "alzheimer light") en maturinn þar var mjög góður. Kíktum aðeins á kvöldvöku í íþróttahúsinu þar sem Auðunn Blöndal (Auddi í PopTíVí) og Ofur-Hugi Halldórsson brugguðu ógeðisdrykki og létu börn og þjálfara drekka við mikla hamingju ungviðsins. Það vakti sérstaka lukku þegar kattamatur var settur í ógeðisdrykk þjálfaranna!
Á sunnudeginum skiluðum við foreldrahlutverkinu fullkomlega, horfðum á alla leiki sonarins og ekki spillti það ánægjunni að kapparnir unnu alla leikina. Það var því afskaplega sæll og glaður Ísak sem steinsofnaði í bílnum á leiðinni heim.

föstudagur, 13. ágúst 2004

Margfalt samviskubit

Sit hér með margfalt samviskubit yfir öllu því sem ég ætti að vera að gera - en geri ekki.

1. Ætti að vera að skrifa grein sem ég tók að mér að tjasla saman og á að birtast í 5. ára afmælisblaði Félags kvenna í atvinnurekstri http://www.fka.is Hélt að þetta yrði nú lítið mál og lofaði öllu fögru enda venjulega með ritræpu en svo er þetta að bögglast eitthvað svo ótrúlega mikið fyrir mér. Farin að spá í hvernig stíll henti svona grein best o.s.frv. Best að hugsa sem minnst og skrifa bara...

2. Ætti að hafa farið með Vali í leikfimi í stað þess að sitja heima og slæpast fyrir framan tölvuna. Hef ekki farið í leikfimi í heila viku og er að mygla. En betri siðir verða teknir upp um leið og skólarnir byrja að nýju. Þá verður farið í leikfimi kl.7.45 þrjá morgna í viku, ekkert væl!

3. Ætti að vera byrjuð að taka til dótið hans Ísaks en hann er að fara til Sauðárkróks að keppa á fótboltamóti um helgina. Við foreldrarnir ætlum reyndar að fylgja honum en vera pínu leiðinleg og nota tímann líka eitthvað fyrir okkur sjálf. Ganga á fjall eða fara í smá ferð í Húnavatnssýslu.

4. Ætti a.m.k. að hafa drullast út að ganga úr því ég nennti ekki í leikfimi með bóndanum. Best ég geri það - þá kannski breytist liturinn á samviskunni úr kolsvörtum yfir í steingráan ;0)

P.S. Fékk þá fyrirspurn frá Rósu vinkonu minni hvort öll samskipti okkar hjóna væru komin á rafrænt form - veit ekki alveg hverju ég á að svara - en nei, ætli það sé nú svo slæmt. Þetta er náttúrulega ekki mikið frábrugðið því að senda SMS og það samskiptaform er nú mjög í tísku!

fimmtudagur, 12. ágúst 2004

Mismunandi aðferðir kynjanna við að fara í sturtu

Já, hafi ég ekki vitað það áður, þá er það morgunljóst núna. Konur og karlar hegða sér afskaplega ólíkt við ýmis verkefni og hér er tengill inn á síðu sem lýsir því í hnotskurn hve ólíkt við berum okkur að við jafn einfalda athöfn og að fara í sturtu... http://frontpage.simnet.is/united/TE_sturtuferdir.htm

þriðjudagur, 10. ágúst 2004

Er orðin steikt í höfðinu

af að glápa á tölvuskjáinn. Það er mér hulin ráðgáta hvernig hann Andri sonur minn getur setið fyrir framan skjáinn í 12 tíma á dag án þess að þreytast. Ég er búin á því eftir hálfan vinnudag. Við Bryndís erum að pikka niðurstöður skoðanakönnunar inn í tölfræðforrit og eru þetta yfir 200 spurningalistar (á eftir að fjölga því við erum ekki alveg búnar að hringja út).
En talandi um að vera steikt í höfðinu, þá var ég nú stundum orðin ansi sljó þegar við stóðum í úthringingum. Það sést best á því að mér tókst að spyrja forstöðumann kirkjugarðanna hvort afkoma síðasta árs væri betri eða verri en gert hefði verið ráð fyrir!! (Ég er SNILLINGUR :-)Hann lét sér náttúrulega hvergi bregða og sagði að það væru nú ekki miklar sveiflur milli ára í rekstrinum hjá þeim....



mánudagur, 9. ágúst 2004

Er ég ekki klár?

Tókst að breyta textanum úr "Archives" í "Eldri færslur" o.s.frv. Tókst líka að setja inn nýjan tengil á bloggsíðu bóndans - nú er bara að sjá hvernig honum gengur að setja mig inn hjá sér...

sunnudagur, 8. ágúst 2004

Tiltekt

Er í algjöru tiltektarstuði (tími til kominn myndu kannski einhverjir segja). Verkefni dagsins er reyndar frekar krefjandi en það er að laga til í Ísaks herbergi. Þar eru nokkur kíló af legokubbum stráð yfir gólfið og hafa kubbarnir verið þar í nokkrar vikur, eða allt síðan byrjað var að leggja parkett á neðri hæðina og piltinum var skipað að flytja allt sitt leikfanga-hafurtask upp í herbergið sitt.
Frá og með þeim degi hefur ekki verið hægt að ganga um gólfið inni í herberginu hans og hef ég neyðst til að setja hreina þvottinn (sem með réttu hefði átt að fara í fataskápinn innst í herberginu) á endann á rúminu hans þar sem mér tókst ekki að brjóta mér leið að skápnum.
Loks datt mér það snilldarráð í hug að stinga upp á því að hann myndi bjóða einhverjum félaga sínum að gista yfir nótt - sem hann samþykkti - og viti menn, neyddist hann þá ekki sjálfur til að taka slatta af legokubbunum (nógu mikið til að hægt væri að koma fyrir dýnu á gólfinu) og setja í þar til gerðan kassa. Því miður er þó nóg eftir enn og eru kubbarnir orðnir skemmtilega blandaðir ryki og sjálfsagt örverum af ýmsu tagi. Það er mesta furða að krakkinn skuli hafa haldið heilsu þessar síðustu vikur.....

Er annars að spá í að kynna mér nánar þá lífsfílósófíu sem nefnist "Simple living" og felst m.a. í því að eiga ekki meira en þörf er á. Markmiðið er að hætta sem sagt að safna rusli og drasli sem maður ætlar að eiga svona "just in case" ef á þyrfti að halda seinna meir.... Þannig að nú er bara að bretta upp á ermarnar, tína til svörtu plastpokana og keyra allt heila klabbið í Rauða krossinn, Hjálpræðisherinn eða á haugana, allt eftir ástandi hlutanna.

laugardagur, 7. ágúst 2004

Andinn er ekki alltaf yfir manni...

Nei, satt er það, ekkert var "bloggað" í gær. Var örmagna eftir að hafa staðið í 2 tíma í sundlauginni og lagt spurningakönnun fyrir alla sem voru svo (ó)heppnir að fara í sund á þeim tíma. Ein spurningin hljóðar á þá leið: "Hvað greiðir þú fyrir marga í laugina?". Á síðasta könnunardegi hitti ég á Hafnfirðing með húmorinn í lagi því sá sagðist nú bara vera að greiða fyrir sig sjálfan - en hann væri meira en fús til að greiða fyrir mig líka ef ég kæmi með honum í sund!! Maður fær nú ekki svona kostaboð á hverjum degi :-)

Nú er mál að hætta skrifum og hjálpa bóndanum við að setja upp gardínur í sjónvarpsherberginu. Hann taldi sig ekki geta beðið í 5 ár eftir að ég saumaði gardínur og því pantaði hann tré-rimlagardínur og ætlar aldeilis að vera snöggur að setja þær upp svo hægt sé að horfa á sjónvarpið að nýju.

fimmtudagur, 5. ágúst 2004

Hver á að sitja í farþegasætinu?

Las í Mogganum áðan að sérstök lögmál gilda um jeppaeigendur. Séu karl og kona samferða í jeppa þá er það ætíð karlinn sem ekur. Jafnvel þótt konan sé að "keyra" karlinn í vinnuna og ætli svo að hafa jeppann til eigin nota það sem eftir er dagins, þá keyrir karlinn að vinnustaðnum þar sem konan sest síðan í ökumannssætið þegar hann fer út. Að vinnudag loknum sækir frúin bóndann aftur og víkur þá auðmjúklegast aftur í farþegasætið - enda er stjórnun jeppans auðvitað mun betur komin í höndum hins sterkara kyns....

Mér þykir leitt að valda pistlahöfundi Moggans vonbrigðum en við Valur (jeppaeigendur með meiru) fylgjum ekki þessu mynstri og hljótum því að vera undantekningin sem sannar regluna! Hvort sem það er vegna þess gríðarlega jafnræðis sem ríkir með okkur hjónum, frekjunnar í mér eða einhvers annars. Hins vegar verður það að segjast eins og er að eiginmanninum er aldrei fullkomlega rótt þegar hann situr í farþegasætinu, þó treystir hann mér nú þokkalega vel fyrir stýrinu. Nei, honum finnst bara að "aðrir" hljóti að halda að hann sé FULLUR úr því hann leyfi mér að keyra! Hefur honum því ítrekað dottið í hug að hafa bjórflösku í hanskahólfinu sem hann geti tekið upp og þóst vera að drekka úr henni þegar hann er farþegi í jeppanum með mér.

P.S. Það skal tekið fram að þessar athuganir pistlahöfundar Moggans eiga sérstaklega við um jeppa og ökumenn þeirra - ekki fólksbíla. Og nú er fyrst kominn tími til að klóra sér í höfðinu.

miðvikudagur, 4. ágúst 2004

Næst á dagskrá

Nú er næst á dagskrá að senda ættingjum, vinum og kunningjum upplýsingar um þetta nýjasta áhugamál mitt og hvetja þá til að taka upp nýja og betri siði og byrja að færa samskonar dagbók. Þetta er nauðsynlegt svo ég fái einhverja tengla til að setja inn á síðuna mína....

Alltaf gaman að fá heimsókn

Ég fékk óvænta en ánægjulega heimsókn í gærkvöldi. Var nýbyrjuð að þrífa og laga til í búrinu (með appelsínugula gúmmíhanska og svitaklessur undir höndunum og Kim Larsen þar að auki á fullu gasi í græjunum) þegar dyrabjallan hringdi og ég æddi til dyra, þess fullviss að verið væri að spyrja eftir Ísaki. Nema hvað, á tröppunum stóð þá karlmaður á aldur við mig og það tók mig örugglega 5-10 sekúndur að kveikja á perunni að þetta var Guðjón frændi minn Daníelsson. Jú, jú, við erum reyndar systkinabörn, en þekkjumst ekki mikið og sáumst síðast í jarðarför pabba hans fyrir tveimur árum. Þá hafði ég hvatt hann til þess að koma nú endilega í heimsókn ef hann ætti leið um höfuðstað Norðurlands - og hann tók mig náttúrulega á orðinu. Í fylgd með honum voru Ingileif konan hans og 10 mánaða gömul dóttir þeirra, Arna Líf.
Við vorum að rifja það upp að sennilega hefur hann ekki komið í Stekkjargerðið síðan hann var u.þ.b. 10 ára gamall og mundi hann bara óljóst eftir þeirri heimsókn. Það sem hann mundi best eftir var að amma Pálína og Daníel pabbi hans voru að tala saman og amma sagði alltaf "já, já" aftur og aftur og hann hafði farið að telja hvað hún sagði oft "já". Það sem ég man hins vegar best eftir úr þessari heimsókn var að hann talaði auðvitað sunnlensku og við Rósa vinkona mín vorum að rífast um það við hann hvort væri réttara að tala norðlensku eða sunnlensku :-)

þriðjudagur, 3. ágúst 2004

Leikur að orðum

Er bara að prófa nýju vefdagbókina mína. Ætla að hvetja eiginmanninn til að halda úti sinni dagbók líka, við getum þá alltaf lesið bækur hvors annars ef við skyldum hætta að tala saman upp á gamla mátann.....