Mér finnst ég einhvern veginn aldrei hafa tíma til að prjóna - sem er náttúrulega bara vitleysa - en hver sem ástæðan er þá er ég bara búin með bakstykkið og hálft hægra forstykkið. Ég var reyndar búin með tvo þriðju af forstykkinu (segir maður forstykki eða framstykki?) en uppgötvaði þá að ég hafði gert villu og þurfti að rekja upp. Ég gerði það án þess að blikna (tja, kannski smá ýkjur) en fyrir tuttugu árum eða svo þegar ég var uppá mitt besta í prjónaskapnum þá hefði ég nú ekki verið að stressa mig á svoleiðis smámunum, bara reynt að fiffa þetta eitthvað til. En þangað til ég kemst betur í prjónagírinn verð ég bara að horfa á
peysuna á netinu og láta mig dreyma um það hvað ég verð flott í henni þegar hún verður búin ;-)
Annars er það í fréttum að synirnir áttu báðir að vera staddir á fjarri heimilinu um helgina og satt best að segja var ég farin að spá í hvað það yrði nú skrítið að hafa hvorugan þeirra heima heila helgi. En ferðin hans Ísaks (til Reykjavíkur) var blásin af í dag, því miður fyrir hann, og átti veðrið sök á því. Ennþá stendur til að Andri fari en hann er reyndar að fara alla leið til Vestmannaeyja, fyrst með rútu og síðan með Herjólfi, þannig að þetta verður heilmikið ferðalag fyrir þá.
Læt þetta gott heita í bili, Guðný has left the building.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli