þriðjudagur, 17. desember 2013

Við Birta að „gera æfingar“

Valur tók þessa mynd af okkur vinkonunum um daginn. Ég held á bók um MELT aðferðina, og er að reyna að gera æfingar jafnframt því sem ég les mér til um þær. Komst að því að það er pínu flókið ... En já Birta lætur sig ekki vanta í fjörið eins og sjá má ;-)


P.S. Ég er þreytt og þar að auki í ljótum „heimabuxum“ þegar myndin er tekin, en hverjum er ekki sama?

laugardagur, 14. desember 2013

SkuggamyndUm daginn þegar við Valur fórum út á Hjalteyri, þá sáum við að búið var að saga gat á einn stóra lýsistankinn, þar sem væntanlega á að koma hurð, ef hún er þá ekki þegar komin. Dagbirtan streymdi inn um gatið, og hér má sjá skuggana okkar endurvarpast á vegginn.

föstudagur, 13. desember 2013

Frábær fyrirlestur


Það eru oft mjög góðir fyrirlestrar á ted.com og þessi hér finnst mér sérlega skemmtilegur. Félags-sálfræðingurinn Amy Cuddy fjallar um það hvaða áhrif líkamsstaða okkar hefur á andlega líðan og hversu valdamikil við upplifum okkur. Það eitt að halda ákveðinni líkamsstöðu í 2 mínútur hefur áhrif á magn testosterons og kortisóls í líkamanum, og skiptir meginmáli varðandi það hvernig annað fólk (og við sjálf, sem er ekki síður mikilvægt) upplifir okkur.

Sjá einnig þessa skýringarmynd, sem tekin er af bloggsíðu ted.com. Ef smellt er á myndina þá kemst maður á bloggsíðuna.

fimmtudagur, 12. desember 2013

Komin á yfirsnúning


Já það virðist óhjákvæmilegt að á einhverjum tímapunkti fyrir jólin þá fer ég á svo mikinn yfirsnúning að ég á erfitt með að sofa. Það er alveg ótrúlega pirrandi að liggja í rúminu, svo yfir mig þreytt, en geta samt ekki sofnað því hugurinn lætur mig ekki í friði. Alveg sama hvað ég reyni að slaka á. Í fyrrakvöld náði ég ekki að sofna fyrr en einhvern tímann milli eitt og hálf tvö (fór í háttinn fyrir hálf ellefu) og var vöknuð kl. 6 í gærmorgun. Með dúndrandi stress-hjartslátt. Gaman gaman ...

Annars rættist ótrúlega vel úr deginum. Ég fór í sund uppúr hálf átta, kom heim og borðaði morgunmat, fór með bílinn út á Toyota verkstæði þar sem þeir settu nýjar ljósaperur í afturljósin á meðan ég beið, fór og sótti vörur til Kristjáns og var komin í vinnuna uppúr hálf tíu. Vinnudagurinn leið mjög hratt enda nóg að gera. Ég hafði ætlað að hætta kl. 15 en komst ekki út fyrr en um kl. 16 því skyndilega hrönnuðust upp verkefni sem þurfti að klára. Svo kom ég heim og talaði aðeins við Hrefnu á Skype en fór síðan að skoða prjónablöð því mig langar að prjóna nýja lopapeysu á sjálfa mig. Fann uppskrift sem mér leist þokkalega á og brunaði í Nettó til að kaupa lopa með 30% afslætti, en í gær var síðasti dagurinn í Kaupdögum KEA kortsins. Í gærkvöldi fór ég svo að búa til „deig“ í hráfæðiskex og hrærði einhverju saman, í tilraun til að gera eitthvað nýtt bragð. Valur smurði svo deiginu á bökunarplötur fyrir mig og þetta er enn að malla í þurrkofninum.

Þegar ég lagðist loks upp í rúm, vongóð um að geta sofnað fljótlega af því ég var svo vansvefta, þá byrjaði fjörið enn og aftur. Hugurinn gjörsamlega út um allar trissur (þarf að muna að panta þessar og hinar vörur, gera vinnuskýrslu, klára að kaupa jólagjafir, sennilega vantar okkur eina starfsmanneskju í viðbót til að ná að dekka vinnuna fram að jólum, úff hvað ég vildi eiga frí í meira en þessa tvo daga eftir jól, það væri nú gaman að setja upp fleiri jólaljós í gluggum eða úti í garði, Anna systir er að koma að heimsækja mömmu og Ásgrím, hefði nú verið gaman að ná að hitta hana) ... og svo framvegis. Síðan fór hugurinn að kyrrast en þá tók skrokkurinn yfir athyglina. Ái, mér er illt í fótunum, mér er illt í öxlunum, nei bíddu mér er illt alls staðar. Samt hafði ég tekið verkjatöflu áður en ég fór í háttinn... Sem betur fer sofnaði sofnaði ég nú fyrir rest og vaknaði bara einu sinni í nótt til að fara á klóið. Vaknaði svo í morgun kl. 7:10 og gat engan veginn sofna aftur. Því miður, því ég hafði ætlað að reyna að sofa út (svona til hálf níu a.m.k.). Mér fannst ég líka of þreytt til að geta notið þess að fara í sund svo ég sleppti því. Var samt komin með nýtt persónulegt met, búin að fara í sund fjóra daga í röð (nokkuð sem mér hefði nú ekki þótt mikið einu sinni).

Og nú er ég kannski að nálgast persónulegt met í væli ... skal ekki segja, hef nú svo sem alveg látið gammann geysa hér á blogginu áður. En klukkan er að verða hálf tíu, ég fer að vinna kl. eitt og ég held bara að ég verði að a) reyna gera eitthvað fyrir sjálfa mig b) hvíla mig í smástund fyrir vinnu.


sunnudagur, 8. desember 2013

Hvíld er góð

Já hér á heimilinu er ekkert jólastress í gangi. Að minnsta kosti ekki ennþá ...

Það er reyndar alveg nóg stress í tengslum við vinnuna, en ég er svo lánsöm að vera í fríi þessa helgi og mér sýnist hún muni nánast eingöngu vera notuð í hvíld. Ég keyrði mig út fyrir viku síðan, en þá vann ég sex daga í röð og þar af 10 tíma einn daginn, og er enn að súpa seyðið af því. Núna er svo aftur framundan sex daga vinnuvika ... og á fimmtudaginn hefst kvöldopnun á Glerártorgi, en þá verður opið til kl. 22 öll kvöld fram til jóla (og kl. 23 á Þorláksmessu). Við erum líka enn á fullu að panta vörur og það er alltaf jafn tímafrekt og svo eigum við eftir að gera vinnuskýrslu, sem mér finnst líka alltaf frekar erfitt.

En já hm ... ég er sem sagt í fríi í dag, en eins og sést þá er vinnan aldrei langt undan, svona andlega séð.

Í gær fór ég út að ganga en gerði annars nákvæmlega ekki neitt. Hélt ég yrði hressari í dag en vaknaði þreytt í morgun og með hjartslátt og eyrnasuð, svo þá sá ég hvernig dagurinn í dag yrði. Ég harkaði nú samt af mér og fór í sund með Val um hálf tíuleytið. Það var voða notalegt, enda fáir í sundi svona á sunnudagsmorgnum. Við fengum okkur svo kaffi þegar við komum heim og já svo fór frúin í sófann og hefur verið þar í dag.

Ég var reyndar líka óvenju dugleg í félagslífinu í vikunni sem leið. Á þriðjudagskvöldið voru litlu jól hjá ljósmyndaklúbbnum, á fimmtudagskvöldið var jólahlaðborð hjá Læknastofunum og á föstudagskvöldið fór ég út að borða með kvennaklúbbnum mínum. Allt mjög skemmtilegt og ég er ánægð með að hafa drifið mig af stað, þó þetta sprengi nú alveg skalann hjá mér hvað kvöld-útstáelsi snertir.

Jeppinn var eitthvað að stríða mér í vikunni og var straumlaus einn daginn. Við gátum fengið lánað hleðslutæki og hlaðið hann, en til að hlaða geymana enn frekar þá fór ég rúnt fram í fjörð á föstudaginn fyrir vinnu. Það var ískalt úti, eða 16-20 gráður, allt eftir því hvar í bænum maður var. Ég tók myndavélina með og smellti af nokkrum frostmyndum.


fimmtudagur, 28. nóvember 2013

Morgunblogg og miðnæturopnun


Ég hef verið að reyna að skrifa „morning pages“ undanfarið en markmiðið með þeim er að losa sig við alls konar „rusl“ sem fyllir hugann og kemur í veg fyrir að fólk nái að einbeita sér að verkefnum dagsins. Það var Julia Cameron sem setti fram hugmyndina um að skrifa morgunblaðsíður í bók sinni "The artist's way" en bókin sú á að vera leiðarvísir fyrir fólk sem vill örva sköpunargáfuna skilst mér. Ég hef ekki lesið bókina, las bara umfjöllun um morgublaðsíður einhvers staðar og fannst þetta sniðug hugmynd. Að byrja daginn á því að hreinsa hugann af öllu því sem er að angra mann. Það geta verið litlir hlutir, stórir hlutir, eitthvað mikilvægt eða bara einfaldlega hugsanir um allt sem liggur fyrir þann daginn eða vikuna. Markmiðið er bara að skrifa viðstöðulaust án þess að gagnrýna, án þess að velta því of mikið fyrir sér.  Eins og ég sagði þá fannst mér þetta góð hugmynd og ákvað að prófa. Fór og keypti mér skrifblokk því Julia leggur áherslu á að það eigi að handskrifa þessar þrjár blaðsíður. Og já þær eiga að vera nákvæmlega þrjár. Sem sagt, handskrifa þrjár blaðsíður, og ef þér dettur ekkert í hug þá skrifar þú bara „mér dettur ekkert í hug“ alveg þar til einhver önnur hugsun kemur í kollinn á þér. Þegar þrjár blaðsíður eru komnar þá lokar þú blokkinni án þess að lesa yfir það sem þú hefur skrifað. Ég er ekki frá því að þetta sé bara ansi sniðugt, og bætist þar í hóp ótal margra annarra sem hafa vanið sig á að byrja daginn á þessu. Hm.. já eða þannig, myndi kannski ekki segja að þetta væri orðinn vani hjá mér ennþá. Og það sem stendur í veginum fyrir því er hægri hendin á mér en hún vill ekki taka þátt í handskrift þessa dagana. Ég reyndar hef þá skrifað á bilinu 1-3 bls. en ákvað að hvíla hendina í dag og blogga í staðinn.

Og núna hringdi Hrefna í mig á Skype. Hún hafði aldeilis átt ævintýralegan morgunn, svo vægt sé til orða tekið. Á dagskrá dagsins hjá henni var munnlegt próf í læknisfræði. Prófstaðurinn er langt í burtu frá heimili hennar og þegar hún kom á staðinn, uppgötvaði hún að hún hafði gleymt stúdentaskírteininu sínu heima. Það er ekki leyfilegt að taka próf án þess að sýna skírteinið en starfsfólk á prófstaðnum ræddi samt sín á milli í töluverðan tíma og höfðu hug á að hleypa henni í prófið, þar til ákvörðun var tekin um að hún yrði að vera með skírteinið til að hafa próftökurétt. Henni var sagt að ef henni tækist að sækja það og koma aftur innan þess tíma sem prófin stæðu, og ef einhver myndi ekki mæta, þá gæti hún fengið að taka prófið. Hún fór því aftur heim, og þurfti að taka bæði lest og strætó og hlaupa og svo aftur að hlaupa og síðan taka leigubíl og var komin á prófstað rétt áður en próftímanum lauk. Þá var hún svo heppin að einhver stelpa hafði ekki mætt og hún fékk plássið hennar og gat tekið prófið. Ég er mjög stolt af henni, því henni tókst að halda haus í gegnum allt þetta stress og fékk meira að segja mjög góða einkunn í prófinu.

En já nú þýðir víst ekki að drolla lengur, það er langur dagur framundan hjá mér. Miðnæturopnun á Glerártorgi (opið í dag frá 10-24) og ég byrja að vinna kl. 14. Kemst nú vonandi eitthvað heim um kvöldmatarleytið samt, enda 10 tíma vinnudagur ekki efst á lista yfir það sem er gáfulegt fyrir mig að gera. Vonandi samt verður nóg að gera og við í Pottum og prikum verðum með 10% afslátt af öllum vörum og fullt af öðrum góðum tilboðum í gangi. Sem sagt... kominn tími til að standa upp, fara í sturtu og kannski stuttan göngutúr, fá sér að borða og svo í vinnuna!

sunnudagur, 24. nóvember 2013

Bein útsending úr sófanum

Er búin að eiga hálfgerða hörmungar helgi, undirlögð af verkjum og þreytu. Svona er þetta bara stundum. Er óendanlega þakklát fyrir að hafa verið í fríi. En ég hef fátt gert annað en liggja í sófanum og væflast milli herbergja. Eða jú ég setti mína heimatilbúnu jólakransa í gluggana og afrekaði að taka mynd núna áðan með símanum, liggjandi flöt í sófanum. Svo kryddaði ég myndina með einhverju myndvinnsluforriti, og bloggaði, allt með símanum. Já mikill er máttur nútímatækninnar.   P.S. Finnst ykkur ekki heimilislegt að sjá reiðhjólið hans Vals inni í stofu? ;-) Ég hef a.m.k. lúmskt gaman af því.

Talandi um Val þá hefur hann ekki slegið slöku við um helgina, frekar en fyrri daginn. Fyrir utan að vera á vaktinni þá er hann búinn að sjá til þess að við Ísak deyjum ekki hungurdauða, og þar fyrir utan þá þreif hann sjónvarpsherbergið hátt og lágt í dag. Já svo fór hann í Bónus, gerði eina aðgerð í gær og aðra í dag ... og örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki. 

laugardagur, 23. nóvember 2013

Laugardags-limbó


Þá er enn einn -langar að gera eitthvað en er of þreytt- laugardagurinn runninn upp. Áður en ég væli meira þá get ég hins vegar glaðst yfir því að í raun átti ég að vera að vinna í dag, en skipti við Önnu af því hún bað mig um það. Það þýðir reyndar að þá mun ég vinna 6 daga í röð næstu vinnuviku og fá bara einn frídag ... sem er ekki nóg fyrir mig. En koma tímar koma ráð, ég gæti hugsanlega fengið aðra „helgar-stelpuna“ til að vinna fyrir mig einn eftirmiðdag. Sé til hvernig staðan verður á mér. Ég skil samt eiginlega ekki af hverju ég er svona óskaplega þreytt í dag. Var í fríi á miðvikudaginn og gerði nánast ekkert annað en hvíla mig þann dag. Á miðvikudagskvöldinu var ég samt ógurlega þreytt og mér hefur einhvern veginn ekki tekist að hrista þá þreytu af mér enn. Það var að vísu brjálað að gera í vinnunni í gær, aðallega við að afgreiða viðskiptavini en svo vorum við líka að klára að taka upp vörur. Ég komst hvorki í að borða né fara á klósettið allan tímann sem ég var í vinnunni og það var eins með Sunnu veit ég, enda fór hún ekki heim fyrr en kl. 17 í stað 15/16 eins og vanalega. Það er samt gaman og gott að hafa nóg að gera, manni leiðist þá ekki á meðan ;-)

Annars er ég búin að gera mér lista yfir hluti sem ég veit að gera mér gott, og markmiðið er að gera a.m.k. eitt atriði á listanum á hverjum degi. Þetta er hugsað sem varnarleikur hjá mér núna í jólavertíðinni í búðinni. Það er ótrúlega fyndið, en bara það að skrifa þessi atriði niður, gerir það að verkum að ég verð meðvitaðri um þau og stend mig betur í að framkvæma þau. Svona er listinn minn:

 • Nota dagsbirtulampann 
 • Gera mér grænan hristing
 • Dvelja við jákvæð augnablik 
 • Fara út að ganga
 • Nota frauð-rúlluna (geri t.d. þessa æfingu hér f. hálsinn)
 • Skrifa „My morning pages“ - helst á hverjum degi
 • Vera þakklát fyrir það sem ég hef
 • Sýna sjálfri mér væntumþykju og skilning (self-compassion)
 • Taka ljósmyndir
 • Skrifa eitthvað, t.d. blogga eða skrifa smásögur
 • Fara í nudd / höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun eða eitthvað álíka
 • Borða mat sem fer vel í mig og gefur mér orku
 • Nota Lumosity forritið til að þjálfa heilann
 • Hugleiða / slaka á
Það væri ábyggilega auðvelt að setja fleiri atriði á listann en svona lítur hann út í dag. Ég hef verið misdugleg að framkvæma þessi atriði, hef t.d. ekki gert mér einn einasta græna hristing og ekki farið í Lumosity langa lengi. Held ég hafi gert mest af því að fara út með myndavélina og finn hvað það gerir mér rosalega gott þessa dimmu vetrardaga, ef ég bara kemst aðeins út þegar bjart er. Svo er birtan alveg hreint dásamlega falleg og síbreytileg, eins og sjá má á þessari myndasamsetningu hér að ofan. Neðri myndina tók ég í gær kl. 10:57 en þá efri í dag kl. 10:54. Í gær var mistur og dulúð lá í loftinu, en í dag var tærleiki og kraftur. Myndirnar tók ég úti við Krossanes. Þar er gott útsýni til Kaldbaks í norðri og vá hvað hlýtur að vera gaman að búa þar sem maður hefur þetta stórbrotna útsýni. Tja það er a.m.k. stórbrotið í aðra áttina ... ekki eins spennandi að horfa á Becromal verksmiðjuna þarna rétt neðan og sunnan við ... 


mánudagur, 18. nóvember 2013

Góð helgi að baki

Eftir fimm daga vinnuviku var ég alveg hoppandi glöð að fá helgarfrí ;-) Það munar alveg svakalega um það fyrir mig að hafa tvo daga til að jafna mig eftir vinnuvikuna og ná svona ca. að núllstilla mig fyrir komandi viku, þó ég kannski nái ekki að safna mikilli orku á þessum tveimur dögum.

Fyrir utan vinnu, hafði ég líka verið óvanalega virk í vikunni, fór út að borða í tilefni afmælisins míns á þriðjudagskvöldi, og mætti í ljósmyndaklúbb á miðvikudagskvöldinu og konuklúbb á föstudagseftirmiðdegi.

Enda var ég frekar lúin þegar ég vaknaði á laugardagsmorgninum og tók því rólega til að byrja með. En síðan fór sólin að skína og þá dreif Valur mig með sér út. Við ókum út á Svalbarðseyri, lögðum bílnum og röltum um með myndavélarnar. Mér tókst nú reyndar að fljúga á hausinn þegar ég steig ofan á eitthvað plaststykki sem lá falið meðal fjörusteinanna og sást ekki fyrir snjónum. Fótunum var bókstaflega kippt undan mér og ég féll við. Reyndi að passa uppá myndavélina sem ég hélt á í hægri hönd, og bar fyrir mig vinstri hendina þegar ég datt. Fékk hnykk á bakið og smá verk í vinstri úlnliðinn og vinstri ökklann en slapp annars ótrúlega vel, sem betur fer. Við vorum úti í ca. klukkutíma og það er alveg passlegur tími fyrir mig.


Á laugardagskvöldinu fórum við svo á tónleika með Lay Low í Hofi. Sunnu datt það snjallræði í hug að gefa mér „upplifun“ í afmælisgjöf og tónleikarnir voru sem sagt afmælisgjöfin. Svo komu Valur og Kiddi með okkur og þetta var bara mjög fínt kvöld. Sem breyttist nánast í uppistand á tímabili, þegar Lay Low gat ómögulega munað textann við eitt síðasta lagið. Það var alveg sama hvað hún reyndi, textinn var gjörsamlega horfinn úr kollinum á henni. Þetta hlýtur að vera martröð allra tónlistarmanna, en henni tókst nú að halda haus og hlægja að þessu. Svo mikið reyndar að hún fékk smá hláturskast (skiljanlega því salurinn hló jú með henni) og þá var enn erfiðara að ætla að syngja. Þessi litla uppákoma gerði tónleikana bara ennþá eftirminnanlegri, svo mikið er víst og enginn tók það nærri sér þó hún gleymdi textanum.


Á sunnudagsmorgni vaknaði ég ótrúlega hress og dró Val með mér í sund um hálf tíu leytið. Það voru engir í sundi nema nokkrir fastagestir og við áttum notalega stund í lauginni og eimbaðinu. Svo um eða eftir hádegið var sólin aftur farin að skína og þá datt okkur í hug að skella okkur út á Hjalteyri, enda orðið nokkuð um liðið síðan við fórum þangað síðast. Það var reyndar ótrúlega napurt, enda norðanátt og hafgola/vindur, en virkilega hressandi samt. Ég datt nú ekkert á hausinn í þeirri ferð ... ;o)En já við vorum þarna í kuldanum í um klukkutíma og það var gott að komast heim í hlýtt hús aftur. Svo var nú bara slakað á það sem eftir lifði dags. Í gærkvöldi var ég reyndar orðin svo þreytt eftir allan þennan helgar-hasar að ég lagðist í sófann, en Valur „stóð vaktina“ og gerði deig í frækex fyrir mig.  Ég er enn og aftur að reyna að standa mig betur í mataræðinu. Var farin að vera alltof lin með glúten og jafnvel mjólkurvörur, að ekki sé minnst á sykurinn ... En ég sá fyrirlestra um daginn á netinu um glútenóþol og það er bara ekkert í lagi að borða glúten annað slagið ef maður er með óþol fyrir því... enda leið mér mun betur fyrstu mánuðina haustið 2010 þegar ég var algjörlega ströng varðandi mataræðið. Held að mér líði allra best ef ég sleppi öllu kornmeti og sykri, en það er þrautin þyngri ... Nóg um það í bili.


þriðjudagur, 12. nóvember 2013

Skápadólgur


Ég heyrði nýtt orð í sundi í morgun. Þannig var að þegar ég kom að búningsklefanum tók ég eftir því að það voru óvenju fáir skór í skóhillunni (og það sem meira var, allir svartir, mínir þar með taldir, en það er nú önnur saga). Þegar ég kom svo inn í búningsklefann var þar fyrir ein önnur kona og eftir að hafa boðið góðan daginn, nefndi ég hve fáir væru í sundi í dag.
„Já, sagði hún, en það kom samt ekki í veg fyrir að einhver tæki skápinn minn, einhver skápadólgur.“
Ég hváði, enda hafði ég aldrei heyrt þetta orð áður. Hún sagðist hafa heyrt þetta í sumar og fannst tilvalið að nota það í dag, þar sem hún fékk ekki skápinn „sinn“. Svo hlógum við báðar, enda ekki annað hægt.

Þetta með að eiga skápana í sundlauginni er auðvitað bara fyndið, en það verður ósjálfrátt þannig að þegar maður kemur í sund á hverjum degi (tja eða næstum því ...) þá eignar maður sér ákveðinn skáp. Í mínu tilfelli þá var það nú aðallega vegna tillitssemi við aðrar konur (eða ég tel sjálfri mér a.m.k. trú um það). Á sínum tíma þegar ég byrjaði að synda þá var ég alltaf óvart að fara í skáp sem einhver önnur kona átti og fékk nú stundum að heyra það. Eftir nokkurn tíma var ég búin að kortleggja skápana og eigendur þeirra, og fann lausan skáp þar sem ég var ekki að troða neinum um tær. Hann er alla vega laus á þeim tíma sem ég syndi yfirleitt. Ég veit um konu sem mætir yfirleitt um sjöleytið á morgnana og notar sama skáp, en hún er alltaf farin þegar ég kem. Síðan gerist það stundum um helgar eða á sumrin að við mætum á sama eða svipuðum tíma og þá eru slagsmál um skápinn ... hehe nei nei, ég er að grínast.

Mér er nú nokk sama þó ég fái ekki akkúrat minn skáp, en held mig þá reyndar yfirleitt svona nokkurn veginn á sama svæðinu. Ég er nefnilega hornamanneskja (eins og í blakinu) og finnst ekkert þægilegt að vera í skáparöðinni miðri. En það er fræg saga af manni sem átti heima nálægt sundlauginni hér áður fyrr, og mætti víst stundum á morgunsloppnum í sund, hann átti það til að fara bara heim aftur ef skápurinn hans var ekki laus;-)

Annars á ég afmæli í dag. Ég hef einhvern veginn ekki vanist á það að gera mikið úr afmælinu mínu, en verandi á facebook þá fæ ég alla vega margar kveðjur. Það er eingöngu letinni í sjálfri mér að kenna að ég geri ekki meira úr afmælisdeginum. Nenni ekki að baka og stússast. Og af því ég baka ekki þá býð ég engum í kaffi. Hér áður fyrr fannst mér stundum leiðinlegt ef það var of lítið að gerast á afmælisdeginum mínum, en í dag er ég alveg sátt við það. Finnst bara gaman ef fólk man eftir að senda mér kveðju en ætlast ekki til neins meira. Kannski fer ég einhvern tímann seinna að vera duglegri að gera mér dagamun en þetta er bara í góðu lagi svona núna. Sko, þarna hringdi einmitt ein vinkona mín og það var nú aldeilis gaman :)

P.S. Myndin tengist umfjöllunarefni dagsins ekki beint ... a.m.k. ekki skápadólgnum ...

laugardagur, 9. nóvember 2013

Vetrarsól, þreyta, streita og slökunarviðbragðið


Veturinn hefur aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér en það hefur samt mikið lagast eftir að ljósmyndun varð áhugamál hjá mér. Það er pínulítið eins og að eiga hund (gæti ég ímyndað mér), að því leyti að það verður aukinn hvati að því að fara út og hreyfa sig í leiðinni. Stundum er ég drulluþreytt og nenni engu, en ef ég sé að veðrið úti býður upp á tækifæri til ljósmyndunar, þá drattast ég af stað með myndavélina. Þreytt í fyrstu en gleymi svo stund og stað og næ að njóta þess að lifa í augnablikinu. Þegar það gerist næ ég góðri slökun og það er svo hollt og gott eins og allir vita. Sérstaklega þegar streita er að fara illa með fólk þá er svo mikilvægt að ná þessari djúpu slökun. Ég las einhvers staðar að það væri forsenda þess að líkaminn gæti náð að slökkva á streitu-viðbragðinu (fight og flight response) og byggja sig upp þegar þörf er á (vegna álags, sjúkdóma etc.). Dr. Herbert Benson setti fram hugtakið „relaxation response“ til að lýsa því hvernig hægt er að vinna gegn streitu með slökun. Lissa Rankin, höfundur bókarinnar Mind over medicine, tekur undir með Dr. Herbert Benson og skv. henni hjálpa eftirfarandi athafnir við að virkja þetta slökunarviðbragð:
 • Hlátur
 • Að leika sér við dýr
 • Hugleiðsla
 • Dans
 • Að vera örlát/ur á tíma sinn eða gefa gjafir
 • Nudd
 • Að gera eitthvað skapandi
 • Viðhafa þakklæti (practicing gratitude)
 • Snerting
 • Óhefðbundnar lækningar
 • Hlusta á tónlist
Málið er að samkvæmt Lissu, þá erum við sífellt að framkalla streituviðbrögð í líkamanum. Til þess að lifa af þá er nauðsynlegt að líkaminn bregðist fljótt og örugglega við hættuástandi, sem og hann gerir, án þess að við fáum nokkru um það ráðið. Hér áður fyrr var gerðist það hins vegar mun sjaldnar (eða svo telja menn) og fólk náði fljótt fyrri ró. Hins vegar hafa nútíma lifnaðarhættir gert það að verkum að við erum oft í stöðugu streituástandi og náum ekki að róa okkur niður. Segjum t.d. að þú vaknir of seint að morgni, missir af strætó, komir of seint í vinnuna, hellir kaffi niður á þig, yfirmaðurinn skammar þig fyrir að vera ekki búin að skila skýrslu ... o.s.frv. Svo þegar þú kemur heim þá taka heimilisstörfin við, þú horfir á sjónvarpsfréttir sem skýra frá því að heimurinn sé á heljarþröm ... Já ég læt staðar numið hér. 

En málið er, að við getum hjálpað heilanum okkar að skilja á milli þess hvenær streita er réttlætanleg/nauðsynleg og hvenær ekki. Ég t.d. prófaði aðferð sem Lissa mælir með núna nýlega. Þannig var að ég var á leið í vinnuna og hugurinn var kominn eitthvert allt annað heldur en hann átti að vera. Athyglin var sem sagt ekki lengur á akstrinum en það breyttist skyndilega þegar ég var komin alltof nálægt bílnum fyrir framan mig, sem hafði hægt ferðina til að beygja. Og af því mér brá svo mikið við að uppgötva þetta, þá sá ég ekki að bíllinn gaf stefnuljós til vinstri, en gerði ósjálfrátt ráð fyrir því að hann ætlaði til hægri. Ákvað að fara yfir á vinstri vegarhelming (til að komast fram úr bílnum) en á sama tíma byrjaði hann jú að beygja til vinstri og ég sá að ég yrði að færa mig yfir á hægri vegarhelming ef ég ætlaði ekki að lenda í hliðinni á honum. Það var fljúgandi hálka þegar þetta var og í smá stund hélt ég að allt færi í klessu. En þökk sé stöðugleikakerfinu í bílnum okkar þá tókst mér að sveigja aftur yfir á hægri vegarhelming og forðast árekstur. 

Streituviðbragðið fór á fullt hjá mér og mér leist ekkert á að byrja vinnudaginn svona stressuð. Þannig að ég fór markvisst í að láta heilann á mér vita að þetta væri allt í lagi. Andaði djúpt nokkrum sinnum og blés hægt frá mér aftur. Talaði við sjálfa mig (í hljóði ;) og sagði að þetta væri allt í lagi. Vissulega hefði hurð skollið nærri hælum en allt hefði endað vel og ég gæti bara verið þakklát fyrir það. Nú ætlaði ég ekki að hugsa um þetta meira í bili. Og þetta tókst! Ég fann hvernig það slaknaði á öllum vöðvum og þegar ég var komin í vinnuna var ég ekkert að hugsa um þetta meira.  

Lissa talar líka um það í bók sinni að það sé mikilvægt fyrir lækna að róa sjúklingana sína niður eftir að hafa fært þeim slæmar fréttir (koma t.d. með eitthvað jákvætt o.s.frv.), til þess að vinna markvisst með það að draga úr streituviðbragðinu og auðvelda líkamanum þannig að heila sjálfan sig.

En já nú læt ég þetta gott heita ... Ég sem ætlaði bara að skrifa örlítið um hollustu þess að fara út í sólina/birtuna á köldum vetrardegi :-)

P.S. Ég gleymdi mér alveg í þessu tali um streitu- og slökunarviðbragð en ætlaði að minnast á það að við Valur fórum út að ganga í morgun. Ég sem sagt drattaðist út þrátt fyrir þreytu, og það var svo yndislegt að fara aðeins út í sólina þrátt fyrir 12 stiga frost. Myndirnar hér að ofan eru sem sagt teknar við Naustaborgir, hér í útjaðri Akureyrar.

fimmtudagur, 7. nóvember 2013

Léttara yfir mér í dagKannski af því ég fór loks í leikfimi eftir alltof langa fjarveru, kannski af því ég fór í sund í morgun, kannski af því ég var dugleg að taka upp vörur í vinnunni í dag, kannski af því ég er komin á fulla fart í bókhaldinu, kannski af því ég heyrði í mömmu í dag og henni líður betur?

Ekki er það af því ég er svo vel sofin, svo mikið er víst ... Ég hef greinilega verið í einhverju stresskasti undanfarið því mér hefur gengið svo illa að sofna á kvöldin og vakna mun oftar á nóttunni. Vonandi tekst mér sem allra fyrst að komast á betra ról með svefninn. Það hlýtur alla vega að hjálpa til að ég er komin vel á veg með bókhaldið, svo þá verður einu streitu-efninu færra. 

Annars hef ég svo sem ekkert gáfulegt að segja. Datt bara í hug að skrifa nokkrar línur, enda á það jú að vera svo hollt ;-) Margar rannsóknir hafa sýnt fram á kosti þess að skrifa (t.d. í dagbók) en ég er reyndar ekki með neina rannsókn við hendina núna til að vísa í... kannski seinna. 

Tja á meðan ég man, þá las ég einu sinni áhugaverða grein um að skrifa svokallaðar „morning pages“ en þá byrjar maður daginn á að skrifa 3 bls. um það sem er manni efst í huga þá stundina, til að hreinsa hugann, svo hægt sé að einbeita sér að verkefnum dagsins að þessu loknu. Þetta er reyndar mjög flott grein og ef einhver hefur áhuga þá er hana að finna hér. Ég prófaði þetta um sinn en gleymdi því svo aftur. Spurning að gera aðra tilraun núna í nóvember og desember og sjá hvort það hefur góð áhrif?

P.S. Myndina af mér tók Valur á nútímalistasafninu í Dublin.miðvikudagur, 6. nóvember 2013

Það er stuð á mér núna ...


Ég var reyndar búin að skrifa aðra fyrirsögn - þar sem orðið „andlaus“ kom fyrir en ákvað þá að gera smá könnun. Sló orðinu andlaus inn í leitardálkinn hérna uppi til vinstri á síðunni, og komst að því að þetta orð kemur fyrir í samtals 19 bloggfærslum. Sem er kannski ekki stórt hlutfall þegar haft er í huga að ég hef skrifað 1570 færslur í allt. En ég ákvað að taka út þessa andleysis-fyrirsögn engu að síður.

Það er svona ástand á mér þar sem ekkert er í rauninni að (nema það að ég er lúin og leið) og í sjálfu sér engin ástæða til að vera eitthvað niðurdregin. Sem ég er reyndar ekki beint ... hehe flókið mál ha? Þess vegna finnst mér andleysi svo gott orð, það nær yfir þessa óáþreifanlegu tilfinningu þar sem maður er einhvern veginn ekki nægur sjálfum sér, án þess þó að geta bent á neina sérstaka ástæðu fyrir því.

Hins vegar get ég alveg fundið ástæður fyrir því að ég ætti að vera glöð og í góðu skapi:
 1. Ég fór út með myndavélina í gærmorgun. Það var frost en virkilega fallegt veður og ég átti voða góða stund með sjálfri mér og myndavélinni. Myndin hér að ofan er tekin við Eyjafjarðará.
 2. Ég var í fríi í dag (hehe var varla búin að skrifa þetta þegar ég mundi að ég var reyndar að vinna í bókhaldi í rúman klukkutíma hér heima í morgun).
 3. Ég fór í klippingu og litun til Ernu, hárgreiðslukonu og vinkonu minnar. Það er alltaf jafn notalegt að koma til hennar því þetta er lítil stofa og við spjöllum svo mikið saman. Að vísu er ég reyndar að verða hundleið á því að lita á mér hárið. Er í fúlustu alvöru að hugsa um að prófa að leyfa gráa hárinu að njóta sín næsta sumar. Nú ef mér líst ekkert á, þá get ég bara byrjað aftur að lita það.
 4. Ég spjallaði við Hrefnu á Skype í dag. Það er alltaf svo gaman að heyra í henni og nú styttist í að hún klári læknisfræðina. Nánar tiltekið í lok janúar á næsta ári. Þá hefst nýr kafli í hennar lífi, kandídatsárið.
 5. Andri og Freyja kærastan hans ætla að koma norður um helgina. Það verður voða gaman að fá þau í heimsókn, enda höfum við ekki séð Andra síðan í ágúst. Blindflugs-námið hefur farið seint af stað hjá honum en vonandi kemst hann á fullt núna og getur klárað það á réttum tíma. Svo er hann jafnvel að spá í að bæta við sig flugkennara-námi en það kemur bara í ljós.
 6. Valur eldaði ljúffengan kvöldmat (eins og alltaf) og ég sit hér pakksödd, enda búin að borða alltof mikið. 
Og nú man ég ekki eftir fleiru. Held ég segi þetta bara gott í bili. Verð vonandi hress og kát næst ;-)

þriðjudagur, 5. nóvember 2013

Enn eitt listaverkið í boði náttúrunnar


Kannski ekki öllum sem finnst þetta fallegt listaverk samt ... en hvað skyldi þetta vera? Einhver sem vill giska? ;-)


sunnudagur, 3. nóvember 2013

Bensínlaus í eyðimörkinni?Valur notar mikið samlíkingar til að leggja áherslu á það sem hann er að segja. Stundum kemst hann nokkuð vel að orði, eins og t.d. í dag þegar við vorum að tala saman. Ég var að segja honum hvað næstu tveir mánuðir í vinnunni vaxa mér í augum, enda ein allsherjar vinnutörn framundan, og ég ekki með fullt vinnuþrek. Í dag var ég þar að auki þreytt eftir fimm daga í Dublin + fimm daga vinnu eftir að við komum heim. Valur var að reyna að setja sig í mín spor, og sagði að þetta væri ábyggilega eins og að vera bensínlaus í eyðimörk. Og já þetta er líklega ekki ósvipað. Að þurfa að komast á leiðarenda en vera með tóman tank og engin bensínstöð í nágrenninu. Ég er líka orðin dálítið brennd af þeirri staðreynd að það tekur mig 6-8 mánuði að jafna mig eftir jólatörnina, eða hefur a.m.k. gert það síðustu árin. Það má samt vona að í ár verði ástandið betra á frúnni ;-)

Annars er ég búin að átta mig á því að þegar ég er þreytt þá verð ég kvíðin. Og þreytt og kvíðin manneskja sér hlutina ekki alltaf í réttu ljósi. Engu að síður þá er smá ljós í myrkrinu: 
 • Ég sef betur á nóttunni síðan við fengum okkur Earthing lakið í rúmið
 • Ég fæ mun sjaldnar svima núna en ég gerði á tímabili
 • Ég fæ sjaldnar hjartsláttaróreglu/þungan hjartslátt 
 • Ég lifði af 5 daga borgarferð til Dublin og er ekki dottin í þreytu-breakdown
 • Ég get unnið í bókhaldinu jafnt og þétt, svo það verði ekki jafn mikið álag á mér í kringum 5. desember (þá eru virðisaukaskil)
 • Ég get verið duglegri að hugleiða (finn að það gerir mér gott)
 • Ég get hreyft mig (farið í leikfimi, út að ganga, synt)
 • Ég get farið út með myndavélina (hefur góð áhrif á mig)
 • Ég gæti jafnvel fitjað uppá einhverju á prjónana (finnst róandi að prjóna)
 • Við gætum keypt jólagjafirnar tímanlega (hehe á nú eftir að sjá það)
Annars er þessi jólatörn í vinnunni hjá mér líka mikill álagstími hjá Val, bæði af því hann þarf að gera nánast allt hér heima, en einnig vegna þess að honum finnst svo erfitt að horfa uppá mig örmagna af þreytu. Þannig að ég vona bara að okkur takist báðum að halda haus, njóta þess að vera til og gera eitthvað skemmtilegt líka þessa næstu tvo mánuði :-)

P.S. Bara svo það sé nú alveg á hreinu þá er ég ekki að gleyma henni Sunnu þegar ég tala svona mikið um sjálfa mig í tengslum við jólatörnina í búðinni. Fókusinn er bara á mig af því ég er á mörkunum að ráða við þetta, þrátt fyrir að við séum tvær sem deilum með okkur vinnunni og höfum þar að auki fleira starfsfólk okkur til aðstoðar.


miðvikudagur, 30. október 2013

Fröken fótafúin

Já það er óhætt að segja að ég hafi notað fæturnar ansi mikið undanfarið. Við Valur skruppum nefnilega til Dublin í langa helgarferð (5 dagar) með vinnunni hans, og það vill nú verða þannig að maður gengur býsna mikið í borgarferðum. Þetta verður endalaust stapp einhvern veginn, en skemmtilegt samt, sem betur fer :-)

Við gistum á hóteli í miðborginni og það var alveg einstaklega vel staðsett. Aðal verslunargöturnar/hverfin í þægilegu göngufæri og allt morandi í kaffihúsum og veitingahúsum. Ekki skemmdi fyrir að maturinn á flestum stöðum var mjög góður. Veðrið var líka alveg ágætt, það gekk á með rigningarskúrum en svo skein sólin inn á milli. Hitinn var 10-14 stig svo þetta var ágætis sumarauki. Þeir sögðu Írarnir að það væri óvanalega heitt miðað við árstíma. Fólk var alls staðar mjög almennilegt og það væri gaman að fara aftur seinna til Írlands, stoppa lengur og ferðast meira.

Það sem við gerðum mest af í ferðinni var einfaldlega að rölta um götur og stræti, virða fyrir okkur mannlífið, kíkja aðeins í búðir og fara á kaffi- og veitingahús. Við versluðum nú frekar lítið, en sumir Íslendingarnir voru mun duglegri við það heldur en við. Við heyrðum af fólki sem hafði keypt allar jólagjafir og aðrar mögulegar gjafir fyrir allt næsta ár. Ég hafði ekki einu sinni verið búin að punkta hjá mér hluti sem mig vantaði, eins og ég hef þó yfirleitt alltaf gert áður en ég fer í utanlandsferðir. Kannski „simple living“ hugmyndafræðin sé búin að ná svona miklum tökum á mér ;-)

Einn daginn var veðrið ansi leiðinlegt og þá keyptum við okkur miða í útsýnis-strætó og fórum einn hring með honum. Stoppuðum samt bara á einum stað því tíminn var orðinn frekar naumur þann daginn. Það var á Museum of Modern Art  en listasafnið er gömlu húsi sem áður hýsti hersjúkrahús. Það var gaman að koma þangað en sýningarnar sem voru í gangi höfðuðu nú mis mikið til mín. Það var reyndar ein sýning (um listakonuna og arkitektinn Eileen Gray) sem hefði ábyggilega verið áhugaverð, en við höfðum ekki tíma til að sjá hana. Fengum okkur bara grænmetissúpu á kaffihúsinu og Valur fékk besta kaffibollann í ferðinni líka þar.

Ástæðan fyrir því að við vorum svona tímabundin, var sú að hópurinn sem við vorum í, ætlaði að hittast kl. 17:15 og eyða kvöldinu saman. Sem við og gerðum. Ferðinni var heitið í Jameson viský-verksmiðjuna (sem er núna safn) og þar var skoðunarferð um safnið og svo matur og skemmtiatriði. Írar leggja greinilega mikla áherslu á tvennt þegar kemur að því að skemmta ferðafólki. Í fyrsta lagi er það írsk þjóðlagatónlist og í öðru lagi „riverdancing“. Þetta er hvort tveggja mjög skemmtilegt en kannski í það mesta að fara á svipaða skemmtun tvö kvöld í röð, eins og við gerðum, en það var nú eiginlega óvart.

Daginn sem við fórum heim löbbuðum við Valur svo yfir í Trinity College háskólann, en hann er staðsettur í 5-10 mín. fjarlægð frá hótelinu. Það var alveg dásamlegt að koma þangað, maður gengur í gegnum hlið og er allt í einu kominn í allt annan heim, laus við skarkalann frá umferð og mannmergð. Við ætluðum nú eiginlega ekki að gefa okkur tíma til að skoða gamla bókasafnið (sem er víðfrægt) en fórum samt inn í minjagripaverslunina sem er þar inni, og þá sá ég glitta í bókasafnið uppi á næstu hæð og eftir það var ekki annað hægt en kíkja þangað upp, þó örstutt væri. Það var eiginlega eins og að stíga inn í bíómynd, þetta var svo flott en hálf óraunverulegt á sama tíma. Allar bækurnar í margra metra háum hillum og lykt af gömlum tímum sveif í loftinu, þrátt fyrir alla túristana.

Við flugum út snemma á fimmtudagsmorgni. Þetta var beint flug héðan frá Akureyri og það var þvílík dásemd. Við lentum síðan á Akureyrarflugvelli um tíuleytið á mánudagskvöldi, og vorum komin heim í hús 15-20 mínútum síðar.

Ég tók ekki með mér myndavélina mína út. Valur var með litla vél sem ég hefði vel getað tekið myndir á, en ég var greinilega ekki í þannig stuði. Tók samt örfáar myndir á farsímann og set þær hér með, þó ég hafi nú reyndar verið búin að setja þær á facebook líka.
þriðjudagur, 22. október 2013

Dásamleg upplifun


Hehe, já það vantar ekki fyrirsögnina, efniviðurinn er hins vegar kannski ekki alveg jafn dramatískur eins og hún segir til um. Málið er að:

1) Ég steinsvaf í alla nótt (sem gerist nánast aldrei), núorðið vakna ég yfirleitt a.m.k. einu sinni og stundum tvisvar á nóttu.

2) Ég vaknaði af sjálfsdáðum kl. 7 í morgun og fannst ég vera úthvíld (nokkuð sem gerist aldrei, í alvöru talað, ALDREI nokkurn tímann!).

3) Þetta tvennt til samans var alveg frábært. Þegar við bættist að ég var EKKI undirlögð af verkjum í skrokknum, þá var nú aldeilis tilefni til að fagna.

Full af ánægju yfir þessum góða degi, dreif ég mig í sund og synti níu ferðir án þess að hvíla mig og tíunda ferðin var flugsund, og svo synti ég tvær ferðir í viðbót. Hefði getað synt meira en ætlaði ekki að fara fram úr sjálfri mér. Á tímapunkti var ég alein í lauginni og það var notalegt á vissan hátt en ekki vildi ég nú hafa það þannig á hverjum degi samt.

Eftir sundið kom ég heim og fékk mér morgunmat. Síðan braut ég saman þvott, tók úr uppþvottavélinni og tók smá rispu með klútinn í eldhúsinu. Svo dreif ég mig í vinnuna um tíuleytið. Þar fékk ég þá ágætis hugmynd að vinna mér í haginn í bókhaldinu (næstu virðisauka-skil eru jú 5. desember og þá hef ég allt annað við tímann að gera). Eftir ca. klukkutíma bókhaldsvinnu var svo skyndilega allur vindur úr mér. Það var engu líkara en einhver hefði tekið nál og stungið á orku-blöðruna mína og púff! nema hvað það kom enginn hvellur. Þetta hefði eiginlega verið fyndið ef þetta hefði ekki valdið mér jafn miklum vonbrigðum og það gerði.

Hófst þá hið hefðbundna þreytutengda ferli, sem felst meðal annars í því að ég fer að leita mér að einhverju sem gefur mér skjótfengna orku. Ég átti 85% súkkulaði og byrjaði á því að gúffa í mig tveimur molum. Það dugði samt ekki til og þá var krukkan með hnetublöndunni opnuð og tvær stórar lúkur hurfu ofan í ginið á mér. Svo reyndar þurfti ég aðeins að sinna viðskiptavinum og gat þá ekki troðið í mig á meðan ;-) En gaman að segja frá því að hún Ella bloggari kom og heilsaði uppá mig í eigin persónu, svona af því hún var á ferðinni þarna framhjá.

Einhvern veginn tókst mér nú að komast í gegnum vinnudaginn. Þurrka af ryk (í fjórum áföngum), laga aðeins til, afgreiða og já borða meira ... Ég var reyndar óvenju lengi í vinnunni því við Sunna vorum að skoða nýjar vörur sem við erum að fara að panta, og það er alltaf smá höfuðverkur að ákveða hvaða vörur á að taka, sérstaklega þegar maður sér þær ekki nema á mynd í tölvunni.

Eftir vinnu fór ég að klára að gera upp ferð sem við erum að fara í um helgina, og erindaðist eitthvað meira í leiðinni. Það var slydda úti og ég berhöfðuð, svo akkúrat núna er hárið á mér alveg gasalega smart ... Það breytir því ekki að ég þarf að skreppa og kaupa í matinn í Nettó með mitt klessta hár. Já og sækja Val niður á bílaleigu, en hann var á Sauðárkróki að vinna í gær og í dag. Og að því sögðu, þá er best að drattast af stað svo hann þurfi nú ekki að bíða eftir frúnni.

sunnudagur, 6. október 2013

Það jafnast ekkert á við náttúruna sjálfa

þegar kemur að fallegum listaverkum. Þetta munstur er að finna á gamalli marmarasúlu sem stendur við leiði í kirkjugarðinum.


miðvikudagur, 2. október 2013

Afeitrun að ljúka?


Já þessar tvær vikur síðan ég byrjaði í „Earthing“ hafa verið frekar skrautlegar, svo ekki sé meira sagt. Allra fyrst leið mér voða vel en Adam var ekki lengi í Paradís, og í ca. viku - tíu daga var ég gjörsamlega að drepast. Undirlögð af verkjum í nánast öllum skrokknum en þó sýnu verri í mjöðmum/fótum einhverra hluta vegna. Að ekki sé minnst á veikindatilfinningu, sljóleika, höfuðverk, tannverk og s.l. laugardag var ég með þvílíka verki í augunum að það var eins og þau ætluðu hreinlega út úr höfuðkúpunni.

Á sunnudag var ég ekki með eins mikla verki en rosalega þreytt og kannski ekki skrítið að vera þreytt eftir öll þessi átök. Á mánudaginn leið mér nógu vel til að fara í leikfimi og var nokkuð hress fyrst á eftir en svo dró nú af kellu eftir því sem leið á daginn.

Í gær var ég svona la la. Hafði sofið (mjög vel) 10 tíma um nóttina og var hálf drusluleg til að byrja með en dreif mig svo út með myndavélina, og hresstist eitthvað við það. Náði svo dásamlegri slökun úti við Krossanes, þar sem kyrrðin var algjör og enginn á ferli nema ég. Fór svo að vinna kl. 14 og hafði ætlað að vinna í bókhaldi en hafði enga eirð í mér til þess, en var bara á stöðugu flandri um búðina, fyllti á vörur og breytti eitthvað smávegis til. Það er reyndar óvenjulegt hjá mér að vera svona „aktíf“ þegar ég er á seinni parts vakt, venjulega er ég svo lúin að ég geri ekki mikið meira en ég nauðsynlega þarf, þannig að ætli þetta sé ekki bara góðs viti.

Í morgun fór ég svo í sund og synti 10 ferðir og fannst ég hafa betra úthald en oft áður. Tók eina flugsundsferð (er aðeins að reyna að ögra sjálfri mér) og tók bara eina pásu. Hehe, einhvern tímann hefði ég nú hlegið að því að þurfa að stoppa og hvíla mig í 10 ferðum, en já svona hefur það nú samt verið hjá mér undanfarna mánuði/ár. Í dag var ég svo reyndar að vinna í tölvu allan tímann í vinnunni, fyrst að panta vörur og svo í bókhaldinu, og það verður að viðurkennast að ég var eiginlega alveg búin á því þgar ég kom heim. En ég svaf nú líka ekki vel í nótt, svo það hefur áreiðanlega haft sitt að segja.

Ég held samt að þessi svokallaða afeitrun sé að klárast og þá er spennandi að sjá hvernig framhaldið verður :-)

miðvikudagur, 25. september 2013

Leitin endalausaLöngu áður en ég var formlega greind með vefjagigt, var ég farin að afla mér upplýsinga um það hvað ég sjálf gæti gert til að bæta ástand mitt. Á þeim tíma voru reyndar ekki jafn miklar upplýsingar í boði um vefjagigt og/eða síþreytu og netið ekki jafn öflugt og í dag. En ég komst fljótt að því, að þar sem svo lítið er vitað um orsök vefjagigtar þá voru það mikið til getgátur, hvaða leiðir væru vænlegar til betri líðunar.  Sumt var þó búið að sýna fram á með rannsóknum að hjálpaði s.s. hæfileg hreyfing, hollt mataræði og að fá nægan svefn. Þetta með svefninn er reyndar ekki alveg auðvelt viðureignar, því eitt aðaleinkenni vefjagigtar er slæmur svefn. Fólk vaknar ekki endurnært eftir nóttina. Læknar skrifa oft uppá Amilín fyrir fólk, en það er gamalt geðlyf sem gerir það að verkum að fólk nær dýpri svefni. Þetta lyf virkar vel fyrir suma en hjá mér var það þannig að ég þurfti alltaf stærri og stærri skammt til að fá sömu áhrif, svo ég hætti einfaldlega að taka það.

Einhvern tímann síðar prófaði ég lyfið Cymbalta sem var þá nýlega búið að samþykkja í Bandaríkjunum sem lyf við vefjagigt. Það var nákvæmlega sama sagan, fyrst í stað fannst mér það gera mér gott en eftir því sem tíminn leið dvínuðu áhrifin, ég þurfti stærri skammta og hætti svo bara. Þetta var fyrir meira en 10 árum og síðan leið langur tími þar til ég tók aftur lyfseðilskylt lyf við vefjagigtinni. 

Svo kom tímabil þar sem ég prófaði aragrúa af hinum ýmsu vítamínum og bætiefnum, og troðfyllti heila hillu í eldhússkápnum af þessu dóti öllu. Núna er er ég búin að tæma hilluna og gefa vítamínin upp á bátinn. Það er að segja, allt nema eina fjölvítamíntöflu á dag, krillolíu (omega3), D vítamín og svo reyndar byrjaði ég að taka Q10 um daginn og ætla að halda því áfram (rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi þess við vefjagigt).

Ég hef stundað hóflega hreyfingu (sund, gönguferðir, leikfimi fyrir vefjagigtarfólk) og reglusamt líferni. Eins hef ég tekið mataræðið í gegn og hélt fyrst eftir að ég greindist með mataróþol fyrir glúteini, mjólkurvörum og eggjum að þar væri lausnin loks fundin, en það var víst ekki svo gott. Samt líður mér á margan hátt mun betur þegar ég sleppi því að borða þessa óþolsvalda - sem ég geri í 95% tilfella.

Þreytan, úthaldsleysið og gigtarköstin héldu samt áfram að vera hluti af lífi mínu og þar sem breytt mataræði var ekki lausnin á öllum mínum vandamálum, þá hélt ég áfram að leita. Fyrir rúmu ári síðan ákvað ég að prófa LDN en það er lyf sem hefur reynst sumum vel, t.d. sjúklingum með MS en einnig virðist það hafa góð áhrif á sumt fólk með vefjagigt. Svefninn skánaði töluvert eftir að ég byrjaði á þessu lyfi og kannski var ég örlítið orkumeiri framan af en í raun hef ég ekki séð þann árangur sem ég vonaðist eftir.

Ég er löngu hætt að hlaupa eftir öllum töframeðulum (og hef reyndar aldrei gert) en núna nýlega sá ég samt umfjöllun um eitthvað sem mér fannst að gæti hugsanlega hjálpað mér. Það er fyrirbæri sem kallast „Earthing eða grounding“ á ensku og snýst um að „jarðtengjast“ ef svo má að orði komast. Til dæmis með því að ganga berfætt(ur) á jörðinni, eða nota sérstakar mottur og/eða lök sem hönnuð hafa verið til að ná sömu áhrifum.

Það var maður að nafni Clint Ober sem áttaði sig á því að við mannfólkið göngum jú í skóm og skósólar úr gúmmíi einangra okkur frá jörðinni. Ober vann á árum áður við að leggja sjónvarps-kapalkerfi í Bandaríkjunum og það var ekki fyrr en síðar, þegar hann var hættur í þeim bransa, að hann eiginlega óvart áttaði sig á nauðsyn þess að „jarðtengja“ fólk á sama hátt og rafmagnstæki. Hann gerði smá tilraun á sjálfum sér, sem fólst í því að hann vafði einangrunarlímbandi utan um rúmið sitt, festi vír við það og leiddi vírinn út í garð, þar sem hann stakk pinna í jörðina. Viti menn, hann svaf vært í fyrsta sinn í mörg ár. Í kjölfarið fór hann að jarðtengja ættingja og vini, og allir fundu mikinn mun á sér. Fólk hvíldist betur og fannst það finna margvíslegan annan ávinning.

Ober áttaði sig fljótt á því að hann hefði gert stórmerkilega uppgötvun, þó hann vissi svo sem ekki af hverju þetta virkaði svona vel (hvað nákvæmlega gerðist í líkamanum). Það tók hann töluverðan tíma að ná athygli fræðimanna með þessa uppgötvun sína, en það hafðist fyrir rest, og gerðar hafa verið vísindalegar rannsóknir sem sýna fram á góð áhrif jarðtengingar.

Ég rakst fyrst á umfjöllun um „Earthing“ fyrir 1-2 árum síðan. Það var hjá Dr. Mercola en ég gerði ekkert meira með það þá. Svo fyrir nokkrum vikum síðan hnaut ég aftur um þetta efni einhvers staðar á netinu og fann svo bók á pdf formi, sem ég las og lét í framhaldinu sannfærast um að þetta væri sniðugt. Byrjaði að fara berfætt út í garð og spígspora þar fram og aftur. Var þakklát fyrir að lóðin okkar er nokkuð lokuð af, því ég hafði pínu ponsu áhyggjur af því hvað fólk sem sæi mig kynni að halda. Sérstaklega þegar farið var að kólna í veðri, enda frekar fyndið að vera úti í dúnúlpu með húfu og vettlinga - berfætt :-) Hehe, þar fyrir utan er mér nú annars nokkuð sama hvað fólk heldur um mig. Samt kom sér vel að geta staðið og tínt rifsber af runnunum, og slegið þannig tvær flugur í einu höggi, því rifsberjauppskeran hefur aldrei verið jafn mikil, og ég kunni eiginlega betur við að hafa eitthvað að gera meðan ég var að tengjast jörðinni þarna úti á lóð.

En málið er að mér fannst þetta hafa góð áhrif á mig. Bæði varð ég orkumeiri og ég er ekki frá því að þetta hafi jafnvel haft góð andleg áhrif líka. Þannig að eftir að hafa prófað þetta í ca. 1-2 vikur ákvað ég að láta slag standa og panta mér lak í rúmið, og mottu sem hægt er að hafa á gólfinu t.d. þegar unnið er í tölvu. Í lakið eru ofnir silfurþræðir og lakið er síðan tengt við jarðtengda innstungu. Það er samt ekki rafmagnið sem er verið að nota sem slíkt, bara jarðtengingin. Eins fylgir stálpinni sem hægt er að leiða út um gluggann og stinga í jörðina fyrir utan svefnherbergisgluggann, svona ef maður vill frekar nota þá aðferð.

Nú er ég búin að sofa með þetta lak í 1 viku og áhrifin eru bæði góð og slæm. Ég sef mun betur, sem er gott. Er greinilega að ná dýpri svefni og vakna bara einu sinni á nóttu en ekki tvisvar eða þrisvar eins og ég var vön. Hins vegar virðist ég vera að upplifa það sem fjallað er um í bókinni:
Some people suffering with chronic inflammation, fibromyalgia, fatigue, anxiety, and depression, or who are taking many pharmaceutical drugs, may feel malaise or flu-like symptoms when they initially ground themselves at night. They may, of course, actually have the flu, which has nothing to do with the effects of Earthing. But if not, it is very likely that the grounding has triggered a detoxification response in the body and promoted the release of toxins. As toxins pass through and out the system, a positive process, you could feel as if you had a flu, with perhaps some nausea or even diarrhea. When this happens, it may be advisable to cut back on the grounding, and start with perhaps an hour a day, and then slowly increase the time.
Ég byrjaði á því að vera með slæman höfuðverk í 3 sólarhringa samfleytt, í gær var ég orðin mjög slöpp, og í dag kom höfuðverkurinn aftur, með brjáluðum beinverkjum og mikilli veikindatilfinningu. En eigum við ekki bara að segja að fall sé fararheill? - Ég hef að minnsta kosti ennþá miklar væntingar um að þetta geti verið eitthvað sem muni gagnast mér. Og af því ég hef trú á þessu, þá langaði mig að skrifa um þetta hér, svona ef fleiri vildu kynna sér málið og gætu hugsanlega notið góðs af.

OK þetta er orðinn býsna langur pistill hjá mér, en hérna rétt í lokin er myndband sem skýrir Earthing/grounding í frekar stuttu máli.

mánudagur, 16. september 2013

Valur viðrar frúna - og bæði viðra myndavélarnar

Suma daga, þegar þreytan er svo yfirgnæfandi að ég hef ekki gert neitt nema liggja á sófanum allan daginn, verð ég frekar mygluð á allri inniverunni. Þá á Valur það til að reyna að fá mig með sér út í smá göngu - og segist þá ætla að viðra mig. Það kemur fyrir að ég afþakka hans fína boð,  af því ég er hreinlega of þreytt og held varla haus, en stundum segi ég já takk og við drífum okkur út.

Þegar Valur er að „viðra mig“ á þennan hátt keyrum við stundum bílinn í annað hverfi í bænum og göngum þar um. Til dæmis höfum við gaman af því að rölta um Eyrina. Þar er svo margt að sjá, t.d. gömul hús sem sum hver er búið að byggja margsinnis við, fjölbreytt hús, sjóinn og síðast en ekki síst iðnaðarhverfi. Þar er að finna gömul verkstæði og gamla bíla svo dæmi séu nefnd.

Við tökum gjarnan með okkur myndavélarnar í þessar gönguferðir og þá er myndefnið yfirleitt allt sem fyrir augun ber og getur stundum orðið nokkuð fjölbreytt. Í þetta skiptið var nýlega hætt að rigna en enn var frekar þungbúið.


Þessi fallegi inngangur tilheyrir stóru rauðu húsi við Strandgötu og það verður að segjast eins og er að ég hafði aldrei tekið eftir honum áður. Kannski af því hann snýr ekki út að götunni, heldur í austur.


Það er eitthvað með ljósmyndara og svona „göng“. Maður bara VERÐUR að smella af mynd.


Hér má sjá dæmi um fjölbreytilega íbúðabyggð á Eyrinni. Það væri reyndar efni í heila bók, en það er nú önnur saga.


Ég hef gaman af fallegum formum, eins og þeim sem hér má sjá í þessu gamla Volkswagen „rúgbrauði“. Ekki spillir rauða og bláa litasamsetningin fyrir (blár jeppi, blátt hús).


Grillið á gömlum Volvo. Eigandi þessa bíls hefur greinilega verið meðlimur í Félagi Íslenskra Bifreiðaeigenda, og ef grannt er skoðað má sjá númer bílsins á FÍB merkinu: A-432.


Sami Volvo... Muna ekki allir eftir köflóttu ullarteppunum sem voru svo oft notuð til að breiða yfir bílsæti í gamla daga? Ýmist til að verja þau ágangi, eða fela illa farið áklæði.

Þegar ég sá þennan Volvo, rifjaðist upp fyrir mér ferð, sem ég fór með vinkonu minni og foreldrum hennar í Mývatnssveit endur fyrir löngu. Ég var bara krakki, en man þó ómögulega hvað ég var gömul. Málið var að þau áttu hund, og á meðan bílferðinni stóð lá hundurinn ofan á bríkinni þarna í afturglugganum. Þar másaði hann beint í eyrað á mér, auk þess sem hundalyktina lagði niður til mín. (Það ber kannski að taka fram að á þessum tíma var hundaeign alls ekki jafn algeng og í dag og ég var óvön hundum). Þegar við bættust beygjurnar óteljandi þegar ekið var upp og niður Vaðlaheiðina og holurnar á íslenskum malarvegum þess tíma, var viðbúið að eitthvað myndi gerast. Ég varð sem sagt alveg hræðilega bílveik og man ekki betur en stöðva hafi þurft bifreiðina svo ég kæmist út að æla. Við gerðum ýmislegt í ferðinni, fórum m.a. í réttir og í heimsókn á einn eða fleiri bæi, en þetta er það sem ég man best eftir, því ég skammaðist mín svo ógurlega.


Hér má sjá dæmi um „street photography“ en það ljósmyndaform höfðar mjög til Vals um þessar mundir.


Skemmtilegt járnhlið sem virðist heldur betur komið til ára sinna.


Og að lokum, lítil bóndarós sem gægist út um girðinguna.

Jamm og jæja, ég læt þetta gott heita í bili. Er pínu lúin eftir leikfimitíma dagsins (er byrjuð aftur í vefjagigtarleikfiminni hjá Eydísi Valgarðs) en annars er ég bara nokkuð spræk þessa dagana. Tja eða þannig ... hehe um leið og ég sagði þetta mundi ég að ég lá á sófanum allan laugardaginn - en var reyndar strax töluvert hressari í gær - og var svo innilega þakklát fyrir það.

þriðjudagur, 10. september 2013

Sumir kunna þá list að heilsa fólki fagnandi


List segi ég, því þetta er ekki öllum gefið. Sumir virðast fæðast með þennan hæfileika, en ég er því miður ekki ein af þeim. En vegna þess að mér finnst svo gaman þegar aðrir heilsa mér fagnandi, þá langar mig að vera flinkari í því að heilsa fólki á þennan hátt. Það er svo góð tilfinning þegar einhver brosir út að eyrum við það eitt að sjá þig, og síðan fylgir glaðlegt/hlýlegt ávarp. Já ég er ekki frá því að maður fái orkubúst við það eitt að hitta svona fólk.

Í morgun kom ég í sund og var einmitt heilsað svona fagnandi af tveimur konum sem voru í búningsklefanum. „Þú færð engar skammir (fyrir að vera svona léleg að mæta í sund), við erum bara svo glaðar að sjá þig“. Þetta sögðu þær brosandi út að eyrum, með ósvikna gleði í röddinni. Og þá varð ég náttúrulega rosa glöð líka :-)

Það er reyndar alltaf ósköp notalegt að hitta fastagestina, þetta er jú fólk sem ég hef hitt í sundi í mörg ár og er farin að kannast mjög vel við. Ekki þekki ég nöfnin á öllum, né veit önnur deili á þeim, en það myndast ákveðin samkennd meðal fólksins sem mætir á sama tíma í sund, dag eftir dag, viku eftir viku og ár eftir ár.

Talandi um sundið þá gerði ég eitt í morgun sem ég hef ekki gert langa lengi. Ég synti flugsund - næstum því heila ferð. Það var svaka gaman. Fyndið hvernig það er með sundið eins og hjólið, ef maður hefur einu sinni lært það þá býr maður að tækninni æ síðan.

En já það var þetta með að heilsa fólki fagnandi. Það eru ákveðnir einstaklingar sem búa yfir þessum hæfileika og manni hlýnar alltaf um hjartarætur við að hitta þá eða heyra í þeim. Nokkrar vinkonur mínar eru svona og fleira fólk sem ég þekki. Ég held reyndar að þetta snúist ekki um mig persónulega (það er ekki SVONA gaman að hitta mig), heldur snýst þetta um fólkið sjálft. Það nær einhvern veginn að gefa meira af sér í einu ávarpi, heldur en sumir aðrir.

Mergurinn málsins er sá að það geta jú allir heilsað glaðlega, með hlýju í röddinni, maður þarf kannski bara að verða aðeins meðvitaðri um raddbeitingu og tón. Hér með set ég mér það markmið að reyna að verða meiri gleðigjafi í samskiptum mínum við aðra (hehe, ekkert smá markmið!!).

föstudagur, 23. ágúst 2013

Allt og (aðallega) ekkert


Jebb, mín er að fara að blogga núna og hefur ekkert að segja ... Tja, að minnsta kosti ekkert fyrirfram ákveðið. Stundum bara VERÐ ég að tjá mig á einhvern hátt, þó ég hafi gjörsamlega ekkert vitrænt fram að færa. Kreisí? Já ég veit.

Ætli ég byrji þá ekki bara á hversdagslegu snakki ... Andri er farinn aftur suður á bóginn eftir sumardvöl hér norðan heiða. Það er alltaf svo tómlegt fyrstu dagana eftir að „ungarnir“ hverfa á brott en svo venst það víst. Hann var svo heppinn að fá vinnu strax við komuna til Keflavíkur, en vinur hans mælti með honum í vinnu á bílaleigu (sem ég man ekki hvað heitir...). Áðan hringdi hann frá Vík í Mýrdal og hafði þá skotist þangað að skipta um bíl sem hafði víst bilað eitthvað (en hefur greinilega verið vel ökufær, þar sem Andri átti að keyra hann til baka til Keflavíkur). Það er óhætt að segja að hann gerir víðreist drengurinn, ýmist fljúgandi eða akandi. Annars er ég víst ekkert búin að fljúga með honum í sumar, annað en pabbi hans, sem hefur farið tvisvar með honum í flug. Einhver leti að hrjá þá gömlu.

Annað í fréttum er það helst að við Valur erum bæði í sumarfríi í næstu viku. Höfðum haft miklar fyrirætlanir um að fara eitthvert suður á bóginn með hjólhýsið, en ekki er nú beint hægt að segja að veðurspáin sé okkur hliðholl. Að minnsta kosti ekki á þeim landshluta sem við vorum að spá í. Við eigum t.d. alltaf eftir að skoða Landmannalaugar, en þar er bara leiðindaspá á næstunni. Þannig að ég veit ekki hvernig þetta fer allt saman. Og ég er svo punkteruð eftir að hafa verið í vinnunni í heilar tvær vikur - að ég er ekki að leggja af stað í ferðalag á morgun - það er alveg á hreinu.

Svo eru ÁLFkonur að fara að halda ljósmyndasýningu á Akureyrarvöku en ég ætla ekki að vera með að þessu sinni. Það er önnur sýningin í röð sem ég tek ekki þátt í. Fyrir því eru nokkrar ástæður: Í fyrsta lagi þá er ég að reyna að draga úr öllu því sem veldur mér streitu, og eins gaman og það er að vera með stelpunum í sýningarhaldi, þá er það streituvaldandi fyrir mig. Ég er nú ekki meiri bógur en þetta ... Í öðru lagi þarf að eiga mynd(ir) við hæfi og í þetta sinn var þemað mannlíf og ég tek nánast eingöngu landslags- eða blómamyndir, svo það var nú eiginlega sjálfhætt fyrir mig. Í þriðja lagi þá er alls ekki víst að ég verði heima (ef við Valur förum burt úr bænum eins og við stefnum jú að) og þá gæti ég ekki tekið þátt í stússinu í kringum að setja upp sýninguna. Já já, you get the picture... ég held að ég sé ekkert að tjá mig meira um þetta mál. Finnst samt pínu skrítið að vera ekki með, það verður að segjast eins og er.

Æjá annars styttist víst í haustið og veturinn. Úff, ég er aldrei tilbúin til þess, vil helst hafa endalaust sumar - a.m.k. ef veðrið væri alltaf eins og það er búið að vera þetta sumar. Elska sól og mátulegan hita :-)


þriðjudagur, 13. ágúst 2013

„Drive in“ túristar


Valur gerir stundum góðlátlegt grín að því að við séum svona „drive in“ túristar. Þá er hann að vísa í þá staðreynd að sökum þróttleysis undirritaðrar, þá er aldrei hægt að fara neitt annað en þangað sem við komumst á bíl. Við förum sem sagt aldrei í fjallgöngur, eða lengri gönguferðir til að sjá athyglisverða staði. Allt miðast við að hægt sé að keyra frúna nánast alla leið á staðinn. Það er ekki ólíklegt að við förum á mis við marga fallega staði, en á móti kemur að við förum líka (akandi) á marga staði utan alfaraleiðar - s.s. á Melrakkasléttu, Langanes, Strandirnar o.s.frv. Oft er líka alveg nóg að bara vera úti í náttúrunni, anda að sér fersku súrefni og finna lyktina af sjónum, jafnvel í norðangarra. Það þarf ekki alltaf að leita langt yfir skammt.

Um daginn (í útilegunni á Kópaskeri) fórum við á Langanes. Á einhverjum tímapunkti sá ég fallega fjöru og í henni fullt af ryðguðu brotajárni. Þá lögðum við bílnum, ég klöngraðist niður í fjöruna og við stoppuðum heillengi, tókum myndir og nutum þess að vera úti í náttúrunni. Það spillti reyndar ekki fyrir að þennan dag var 24 stiga hiti og alveg dásamlega fallegt veður.

En það sem ég er að reyna að segja - og gengur ekkert sérlega vel - er að maður getur alveg notið margra hluta þó það sé ýmislegt sem maður getur ekki gert. Ég get ekki hlaupið, ég get ekki farið í fjallgöngur, ég get ekki gengið meira en 1-2 km. í einu - en ég get notið útivistar engu að síður.

Sem sagt ... gleðjast yfir því sem maður getur og vera ekkert að væla yfir hinu ;-)


sunnudagur, 11. ágúst 2013

Að halda haus andlega

er það erfiðasta við að vera í gigtarkasti. Að passa sig að falla ekki í gryfju sjálfsásökunar (sem er jú fáránlegt því vefjagigtin er ekki mér að kenna) og missa sig ekki í sjálfsvorkunn og svartsýni varðandi framtíðina. Núverandi gigtarkast hefur staðið í 5 daga og óhætt að segja að það hafi verið ein risastór andleg prófraun. Get ekki sagt að ég hafi staðist hana 100% en gekk þó betur en stundum áður, m.a. vegna þess að ég er að lesa bókina sem þarna blasir við (reyndar ekki alveg í fókus...).


Það er afskaplega mikilvægt en jafnframt erfitt að sýna sjálfri sér sama skilning og samúð og maður myndi sýna vinkonu sinni við sömu kringumstæður. 

Mæli með því að allir kynni sér self compassion.  


fimmtudagur, 8. ágúst 2013

Fröken náttblind


Þegar ég var krakki og allt fram á fullorðinsár, þá fannst mér alveg dásamlegt að sofa um bjartar sumarnætur. Ég átti ekkert erfitt með að sofna í birtunni og elskaði að vakna í björtu. Þegar ég kynntist Vali þá var annað uppi á teningnum hjá honum. Hann vildi helst vera með dregið fyrir svefnherbergisgluggann á nóttunni og nota myrkvunargluggatjöld. Til að byrja með fannst mér þetta alveg hörmulegt, en vandist þessu svo. Hin síðari ár hef ég svo stundum átt í vandræðum með svefn og nú finnst mér bráðnauðsynlegt að vera með myrkvunargardínur árið um kring. Þá erum við að tala um bæði rúllugardínur og ytri gardínur. Ef ég sef einhvers staðar þar sem þessar græjur eru ekki fyrir hendi, þá brýt ég saman svartan bol t.d. og set yfir augun á mér.

Nú er hins vegar komið upp nýtt vandamál. Ég er nefnilega orðin svo náttblind. Þannig að þegar hausta fer og það dimmir aftur á nóttunni þá sé ég ekki handa minna skil um miðjar nætur. Sem væri ekki vandamál, ef ég gæti nú bara sofið alla nóttina, en það er víst ekki svo. Ég vakna iðulega 1-3x á nóttu til að fara á klóið, og þá staulast ég fram úr rúminu og verð að þreifa mig áfram í herberginu, fram að hurðinni, en þegar ég er komin þangað er mér borgið því það er aldrei jafn dimmt frammi eins og inni í svefnherberginu.

Í nótt vaknaði ég og komst fram á klósett og til baka án teljandi vandræða. Hins vegar þegar ég ætlaði svo að leggjast á koddann misreiknaði ég fjarlægðina í myrkrinu og var mun nær veggnum en ég áætlaði. Með þeim afleiðingum að ég „lagðist“ með höfuðið utan í vegginn svo klingdi í. Sem betur fer meiddi ég mig nú ekki mikið, en þetta var nú samt ekkert sérlega þægilegt...

Það fyrirfinnst afskaplega einföld lausn á náttblindu-vandamálinu. Hún felst í því að skilja eftir örlitla opna rönd neðst á annarri myrkvunar rúllugardínunni, þannig að smá ljósglæta nái að skína inn í herbergið yfir nóttina. Ekki flókið ha? Nei, bara flókið að muna eftir því... hehe..


P.S. Það er nú engin náttblinda í gangi á myndinni sem fylgir þessari færslu. Hún er tekin í fjörunni nálægt bænum Grjótnesi á Melrakkasléttu, en hér sést út á Öxarfjörð. Litli bletturinn þarna við sjóndeildarhring (fyrir miðri mynd) er fiskibátur. Ég veit að þetta er mynd „af engu“ en ég hef lúmskt gaman af því að taka svona myndir. Sólin skín á silfraðan hafflötinn og tíminn stendur í stað eitt andartak.

sunnudagur, 4. ágúst 2013

Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar (eða með Guðnýju, allt eftir því hver á í hlut ...)

Þannig er mál með vexti að mamma og Ásgrímur eru að fara að flytja úr íbúðinni sinni í Innri Njarðvík (sem þau munu leigja út) og flytja sig inn á Nesvelli sem ég held að teljist til Keflavíkur, en á Nesvöllum eru íbúðir og þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Þar er m.a. lyfta og stutt í matvörubúð, ólíkt því sem er í íbúðinni þeirra núna.

Anna systir ætlar að koma frá Noregi eftir ca. viku og aðstoða í flutningunum, og mér fannst alveg ótækt að reyna ekki að hjálpa mömmu eitthvað aðeins við að pakka niður. Ég hafði hugsað mér að fara kannski á mánudag (morgun) eða þriðjudag og vera fram undir næstu helgi. Fannst það samt ekki alveg nógu góður kostur því þá yrði ég kannski of þreytt þegar ég byrjaði aftur að vinna eftir sumarfrí. Svo heyrði ég í mömmu á fimmtudagsmorgninum síðasta, og hún var bara byrjuð að pakka á fullu. Þá datt Vali það í hug, að snjallast væri fyrir mig að drífa mig bara strax sama dag suður. Ef ég gerði það næði ég að hjálpa til en samt fá tíma til að hvíla mig áður en vinnan byrjaði.

Þetta var bara býsna góð hugmynd og ég dreif mig í tölvuna að athuga með flug. Það er nú reyndar pínu púsl að láta flugáætlun passa saman við rútuna í Reykjanesbæ, en ég pantaði flug sem var kl. 14, eða þremur tímum síðar. Fór svo á fullt að pakka niður. Ég þurfti líka að skreppa örstutt í vinnuna og græja launagreiðslurnar með Sunnu og svo skrapp ég í Eymundsson og keypti smá afmælisgjöf handa Vali, en hann átti afmæli daginn eftir (2. ágúst).

Valur skutlaði mér svo á flugvöllinn og ég lenti í Reykjavík í blíðskaparveðri. Ákvað að ganga frá flugvellinum og yfir á BSÍ þar sem veðrið var svona gott. Var búin með ca. 2/3 af leiðinni þegar ég var nú eiginlega farin að sjá eftir því, þar sem skrokkurinn var eitthvað farinn að kvarta, en ákvað að láta þær kvartanir sem vind um eyru þjóta. Enda hafði ég fullt í fangi með að þræða framhjá gæsaskít sem lá eins og hráviði um alla gangstéttina. Þegar ég nálgaðist BSÍ var maginn á mér líka farinn að kvarta og þar sem ég hafði nægan tíma til umráða, ákvað ég að hlusta á þá kvörtun, og labbaði inn á Subway sem var þarna rétt hjá. Þar keypti ég mér kjúklingasalat sem bragðaðist alveg ágætlega. Svo var nú klukkan farin að nálgast fjögur og þá dreif ég mig yfir á umferðamiðstöðina.

Ég fékk að fara úr rútunni við hringtorgið rétt hjá Kaffitári og labbaði þaðan heim til mömmu og Ásgríms, en það var nú ekki langt labb. Mamma hafði skroppið í Bónus og var ekki heima þegar ég kom en Ásgrímur var sem betur fer heima og gat tekið á móti mér. Þegar mamma kom heim hafði hún þá sögu að segja að þegar hún ætlaði að greiða fyrir vörurnar í Bónus, var hún með minni peninga á sér en hún hafði haldið. Nokkuð sem getur komið fyrir alla og er nú ekki mjög skemmtilegt. Hún bað afgreiðslustúlkuna um að taka vörur til baka, þar til hún ætti nóg, en þá gerist það að karlmaður kom aðvífandi og sagðist skyldi borga mismuninn. Það er gott til þess að vita að gjafmilt og hjálpsamt fólk fyrirfinnst enn. En ég var nú fegin að vera komin og geta borið innkaupapokana upp stigann fyrir mömmu, því þeir voru níðþungir.

Þetta var sem sagt á fimmtudagskvöldi, og á föstudag og laugardag reyndi ég að gera eitthvað gagn, en það gekk nú misvel. Mamma hefur ábyggilega viljað passa að ég ofreyndi mig ekki, svo hún var ekki tilbúin að leyfa mér að gera neitt afskaplega mikið. Ég gat þó aðstoðað við að setja allar bækur í kassa og það var nú töluvert. Það þarf líka að passa að setja bækur í nógu litla kassa, svo hægt sé að bera þá, en auðvelt að falla í þá gryfju að hafa kassana alltof þunga. Maður gerir sér ekki alltaf grein fyrir því hvað bækur eru þungar.

Ég fór líka í sund í hádeginu báða dagana, enda veðrið afskaplega fallegt. Í leiðinni kom ég við í Bónus og sótti kassa því það er víst aldrei of mikið til af kössum þegar flutt er. Annars kom það mér á óvart hvað það var fátt fólk í sundi þessa dagana. Á samskonar sólardögum hér á Akureyri þá flykkist fólk í sundlaugina, en þarna voru örfáar hræður í sundi. Mér tókst nú að gera einni konu greiða. Hún hafði týnt gúmmíinu utan af öðru glerinu á sundgleraugunum sínum, og ég fann sá það marandi í kafi, rétt upp við bakkann. Konan var þvílíkt ánægð, enda voru bæði hún og maðurinn hennar búin að leita árangurslaust að þessu.

Seinni partinn í gær fór ég í smá útsýnisferð um plássið. Veðrið var svo yndislegt og mamma vildi endilega að ég tæki mér pásu frá vinnunni, og stakk uppá því að ég færi út á bílnum. Sem ég og gerði. Byrjaði á því að fara niður að sjónum, rétt hjá Bónus/Hagkaup/Húsasmiðjunni, en þar er svaka flott útivistarsvæði. Þar komst ég í ljósmyndastuð því skýjafarið var svo fallegt, en var jú ekki með myndavélina meðferðis þannig að síminn þurfti að nægja í þetta sinn. Síðan ók ég eins nálægt sjónum og ég komst, áfram í átt að Innri-Njarðvík, og fann þar á smá kafla alveg ekta „úti á landi-smábæjar-sjávarpláss-stemmingu“ sem hlýtur að vera arfleifð gamals tíma, og var gaman að finna nánast í þéttbýlinu. Ég tók slatta af myndum á farsímann og þær fylgja sumar hér með þessari færslu. Reyndar var ég búin að birta þær á facebook en myndagæðin eru svo ömurleg þar, þannig að ég ákvað að skella þeim bara hingað líka. Brandarinn er náttúrulega sá að ég fattaði ekki að taka myndir af mömmu og Ásgrími, er svo gjörsamlega orðin föst í landslagsmyndunum að ég man aldrei eftir að taka persónulegar myndir.

Allt tekur enda, og þó ég hefði svo gjarnan viljað stoppa lengur og ná að gera meira, þá var víst komið að heimferð í dag. Mamma ók mér á rútubílastöðina í Keflavík og við lögðum af stað þangað um hálf tólf. Rútan fór klukkan tólf af stað til Reykjavíkur en stoppaði oft á leiðinni, auk þess sem hún fór niður í miðbæ áður en hún endaði á umferðamiðstöðinni, svo ég var ekki komin þangað fyrr en að nálgast hálf tvö. Þá tók ég bara leigubíl yfir á flugvöllinn og vélin mín fór norður klukkan tvö.

Heima beið svo Valur og var búinn að baka þessar flottu glúteinlausu „lummur“ og ég fékk þetta fína kaffi-latté með. Hann klykkti svo út með því að grilla lamba-innralæri í kvöldmatinn svo nú er ég aldeilis södd og sæl.
Flott staðsetning - hefði ekkert á móti því að eiga hús við sjóinn.


Girðing við Njarðvíkurkirkju.


Njarðvíkurkirkja.


Þessi síðasta mynd er tekin af tröppunum hjá mömmu og Ásgrími. Mér fannst himininn svo flottur að ég stóðst ekki mátið að smella af.