sunnudagur, 31. maí 2009

Við Mývatn


Við Mývatn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já við Valur fórum til Mývatns í dag og vorum fyrst heillengi að ganga um Dimmuborgir og taka myndir. Ætluðum nú ekki að fara svona langt en það gerðist samt alveg óvart og vorum við að rölta þarna um í hátt í þrjá tíma. Veðrið var svona la la, sól á köflum og frekar kalt og hvasst. Næst fengum við okkur kaffi og rúgbrauð með reyktum silungi í Gamla bænum. Að því loknu fórum við á myndlistasýningu í hlöðu þar sem nokkrar listakonur eru með samsýningu, meðal annars Guðbjörg mágkona Vals. Þetta er fjölbreytt sýning og var gaman að sjá hana og sérstaklega gaman að hitta Guðbjörgu. Þetta var bara mjög fín ferð og við erum bæði rjóð í kinnum og hálf dösuð eftir alla útiveruna.

laugardagur, 30. maí 2009

Ég hef víst ekki verið í blogg-gírnum undanfarið

Og er það reyndar ekki enn...
Við Valur vöknuðum bæði klukkan sjö í morgun og gátum hvorugt sofnað aftur. Þannig að það var snemmbúið morgunkaffi og svo fórum við út í Kjarnaskóg og gengum þar góðan hring. Við gengum hluta af einverri hjólabraut, sem er þröngur stígur og skemmtilegt að fara aðeins út af þessum venjulega malarstíg.
Svo hefur dagurinn einkennst af meiriháttar leti af minni hálfu. Valur hins vegar er búinn að fara í ræktina, vinna í garðinum, hreinsa myndavélar og er núna að þvo bílinn. Engin uppgjöf hjá honum frekar en venjulega.
Á eftir erum við að fara í fermingarveislu. Það er svolítið merkilegt með veislur, ég er ekki alltaf að nenna að hafa mig af stað í þær, en svo þegar ég er komin á staðinn er yfirleitt voða gaman. Ég á nú reyndar eftir að sjá hvernig fötin sem ég hef sett saman í huganum passa í raun saman. Vonandi vel því ég nenni ekki að upphugsa nýja fatasamsetningu. Það að ákveða í hverju ég á að vera er orðið eitt af því leiðinlegasta sem ég geri. Dettur aldrei neitt í hug og stend bara stjörf fyrir framan fataskápinn á morgnana. Nú er ég reyndar búin að kaupa mér tvo nýja langerma boli svo vonandi skánar þetta eitthvað við það.
Hugsanlega brunum við eitthvert burt úr bænum á morgun í ljósmyndaferð, fer eftir veðri og vindum.

þriðjudagur, 26. maí 2009

Enn á lífi en ekkert í fréttum


Head over water, originally uploaded by Guðný Pálína.

Bara smá þreyta í kellunni í dag, sennilega eftir hjóltúr með eiginmanninum í gærkvöldi. Það vantar ekki hestöflin í hann - en ég hins vegar kláraði bensínið fljótt og átti nú bara í smá basli með að koma mér áfram á tímabili. Engu að síður er gaman að fara út að hjóla og líkaminn er hættur að bregðast jafn ofsalega við þessari nýju tegund af áreynslu.

Það hafa skipst á skin og skúrir í veðrinu í dag. Ég vaknaði í sólskini í morgun og það hélst á meðan ég fór í sund og gerði Mullersæfingar. Svo kom ég heim og borðaði morgunmatinn meira að segja úti í garði - en var að vísu eiginlega að drepast úr kulda. Uppúr hádeginu fór svo að rigna og þegar ég ók heim úr vinnunni var hellirigning við Glerártorg en þegar ég ók upp Dalsbrautina rigndi ekkert þar og hafði greinilega ekki gert. En svo fór að rigna á brekkunni líka en það stóð samt ekki lengi því brátt var sólin farin að skína. Núna er hins vegar einhver úrkoma. Og hér með líkur þessu veður-rapporti.

mánudagur, 25. maí 2009

Fyrir mömmu


Þar sem mamma er svo mikil hestakona reyndi ég að taka myndir af hestum í gær - en það gekk nú svona og svona. Þeir voru svo óþægir, alltaf að hreyfa sig... Þessi er nú ekki í sérlega tígulegri stellingu en hann er nú svolítið skemmtilegur á litinn :-)

sunnudagur, 24. maí 2009

Frammi í firði


Go with the flow, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég skrapp í smá ljósmyndarúnt seinni partinn í dag. Ók fram í fjörð og upp fram hjá Finnastöðum og þann hring (veit ekki hvað þetta heitir). Það var ekki sérlega bjart og á nippinu að fara að rigna en þó komu aldrei meira en nokkrir dropar. Tja, fyrr en í kvöld, þá kom hellirigning. En ég hafði ekki tekið myndir lengi og var farið að klæja í puttana - og fékk alla vega smá útrás :)

fimmtudagur, 21. maí 2009

Fyrst ofan í sundlaugina í morgun

Eins og ég hef örugglega minnst á áður þá hefur sundlaugin undanfarið ekki opnað fyrr en kl. 10 á morgnana um helgar. Þannig að það kom mér mikið á óvar þegar auglýst var að í dag ætti að opna klukkan níu. Lét ég ekki segja mér það tvisvar og var mætt á svæðið ca. eina mínútu yfir. Og afrekaði sem sagt að verða fyrst til að stinga mér (hm, ekki satt, ég er hætt að stinga mér...) ofan í laugina. Kona sem ég hitti sagði mér að það hefðu verið hávær mótmæli fyrir utan sundlaugina síðasta laugardagsmorgun. Þá hefði verið sól og gott veður og margir verið mættir löngu fyrir klukkan tíu. Fólk sem beið fyrir utan eftir að það opnaði, fór að hrópa og kalla fúkyrði s.s. vanhæf bæjarstjórn ofl. Já, það eru bara "byltingar" víða um land þessa dagana.

Nú var ég að reyna að hringja í Hrefnu á Skype-inu en hún svaraði ekki. Við ætluðum að óska henni til hamingju með frábæra einkunn í B.Sc. ritgerðinni, sem hún var að klára þegar við mamma vorum í Danmörku um daginn. Hrefna var farin að hafa smá áhyggjur af því hver árangurinn yrði því leiðbeinandinn var víst lítið fyrir að hrósa og hafði sagt fátt jákvætt - en svo fékk hún hvorki meira né minna en 12 sem er hæsta einkunn! Og nú er ég búin að opinbera það hérna á blogginu og vona að hún skammi mig ekki fyrir það...

Í morgun hefur Valur spilað Megas á vínylplötu sem Kiddi færði honum, og hefur mörg orð um orðsnilli skáldsins. Svo liggur leið hans brátt út í garð þar sem hann heldur áfram við vorverkin. Vorverkin mín áttu eiginlega að vera þau að þvo garðhúsgögnin + bera olíu á þau + kaupa nýjar sessur í stólana - en ég er ekki búin að gera neitt af þessu. Er samt búin að setja sumarblóm í pottana fyrir framan útidyrnar, sem er nú afrek fyrir sig :-)

þriðjudagur, 19. maí 2009

Það er ekki auðvelt að finna lit á hús

Ég er búin að hanga svolítið í tölvunni í morgun og breyta litnum á húsinu okkar í tölvuforriti hjá jotun.no. En gallinn er bara sá að þeir bjóða uppá svo fáa liti og margir eru miðaðir við tréhús sem eru auðvitað allsráðandi í Noregi. Ég fór um helgina og fékk eina litaprufu úti í Húsasmiðju en komin á vegginn er liturinn allt öðruvísi en í bæklingnum... Svo það gagnaðist nú ekki mikið. En jæja, þetta kemur allt með kalda vatninu.

mánudagur, 18. maí 2009

Bara svo fólk haldi nú ekki að ég sé alveg að tapa glórunni

þá var laugardagurinn sem sagt sérlega slæmur verkja- og þreytulega séð. En eins og einhver sagði; þegar botninum er náð liggur leiðin aðeins uppá við. Þannig að nú er stefnan bara tekin þangað ;-)

laugardagur, 16. maí 2009

Varúð - vælublogg!

Já ég ætlaði sem sagt að setjast fyrir framan tölvuna og fá smá útrás fyrir leiða og pirring á tvennu sem er að gera mig brjálaða þessa dagana. Annars vegar er það vefjagigtin og hins vegar eru það afleiðingar brjósklossins frá því í fyrra. En svo er ég bara eitthvað svo tóm og veit ekki hvernig ég á að orða hlutina.

Aðalvandamálið er eiginlega að mér tekst ekki að halda haus þegar ég er að drepast úr verkjum í skrokknum og þreytan er að yfirbuga mig. Það er að segja, ég verð hálf þunglynd af þessu öllu saman og tekst ekki að hrista það af mér. Og það dugar ekki til að hugsa sem svo að ég hafi það nú ekki svo slæmt, það sé fullt af fólki sem hefur það miklu verra, mér finnst ástandið á mér alveg jafn ömurlegt fyrir því.

Ég hitti konu um daginn sem hefur það svipað að sumu leyti, þ.e. hún fékk líka brjósklos og fór í aðgerð og er búin að vera með ómögulegan fót síðan. Hún hefur það reyndar verra en ég, getur hreyft sig ennþá minna. Ég get þó synt og gengið svolítið. En hún getur ekki einu sinni synt. Báðar eigum við erfitt með brekkur. Og báðar eigum við erfitt með að sætta okkur við ástandið. Hún skammast sín líka fyrir að vera að vorkenna sjálfri sér þegar svo margir aðrir sem hefðu það verra.

En það sem er erfitt í þessu öllu saman held ég, er að horfast í augu við að maður er ekki sama persóna eins og maður vill vera. Maður hefur í höfðinu ákveðna mynd af sjálfum sér og sú ímynd stemmir ekki við manneskjuna sem maður er í raun. Þó að ég væri t.d. ekki nein brjáluð íþróttamannseskja sem ung þá hafði ég samt þá ímynd af sjálfri mér að ég gæti gert flest. Í vinnunni í Garðræktinni hafði ég gaman af því að sýna að ég gæti lyft 50 kg. áburðarpokum og borið þunga steina og grasþökurúllur, svo dæmi sé tekið. Sem krakki hafði ég afskaplega gaman af því að hlaupa og hljóp stundum í búðina t.d. í stað þess að ganga, bara af því það var svo skemmtilegt. Að vísu var ég hrakfallabálkur og var sífellt að togna á fæti og svoleiðis, svo að þegar nálgaðist fullorðinsár var ég kannski ekki mikið að hlaupa eða ganga á fjöll, en ég gat þó tekið til hendinni án þess að vera örmagna af þreytu eða fá verki í allan skrokkinn á eftir. Núna get ég ekki gert neitt framyfir það hefðbundna án þess að þurfa að borga fyrir það sama dag eða daginn eftir.

"Saved by the bell" - ekki man ég hvaðan þessi texti er kominn, en sem sagt, ég get víst ekki vælt meira í bili því Valur kallar og segir að ef ég vilji fá salat með matnum þá þurfi ég að búa það til núna. Þannig að ég er farin að gera salat og hætt að væla!

Búin að kaupa sumarblómin

en á reyndar eftir að gróðursetja þau. Hin einmuna veðurblíða heldur áfram og með henni kemur löngunin til að gera sumarlegt í kringum sig. Valur er búinn að vera í garðinum í allan morgun og er núna að slá grasið. Ekki veitir af, það er bara allt í einu orðið grænt og hávaxið. Ég fór sem sagt í Blómaval og keypti blóm en svona eftir á að hyggja hefði ég frekar átt að kaupa þau í Kjarna eða á Grísará. Það veitir ekki af að styrkja fyrirtæki í heimabyggð á þessum síðustu og verstu tímum. En ég var eiginlega að fara í Húsasmiðjuna til að fá málningarprufu og endaði einhvern veginn í Blómavali í leiðinni því það er jú í sama húsi.

Kettirnir bókstaflega elska veðrið úti og Birta liggur/situm langtímum saman í sólinni. Máni er meira á flakki um nágrennið og sér samviskusamlega um að merkja landareignina svo það fari nú ekkert á milli mála hver á heima hér. Hann er reyndar líka byrjaður að merkja húseignina að innan, húsmóðurinni til mikillar gleði og ánægju (eða þannig!).

Í gærkvöldi var haldinn síðasti kvennaklúbbur vetrarins og bauð ein í súpu, brauð og salat heim til sín. Það endaði með því að við sátum og spjölluðum langt fram á kvöld og þetta var virkilega notaleg samvera. Síðan hjólaði ég heim á nýja hjólinu - en hjólaformið er eins og áður hefur komið fram alveg hræðilegt - og fékk ég þvílíka verki í hnén. Ég hjólaði reyndar líka í klúbbinn, eins og ljóst má vera, en sé að ég þarf víst að fara mér aðeins rólegar í hjólreiðunum ef ég ætla ekki alveg að fara með minn gigtveika skrokk.

fimmtudagur, 14. maí 2009

Vá þvílík blíða

Úti er sól, sunnangola og hvorki meira né minna en 20 stiga hiti. Ég fór á smá bæjarrölt áðan og fannst ég bara nokkuð léttklædd, í svörtum buxum og langerma bol, en mér hefði svo sannarlega verið óhætt að vera sumarlegri til fara. Það er allt að verða grænt niðri í bæ og þar í kring en vantar ennþá eitthvað uppá að lóðin okkar verði alveg græn. Við erum reyndar ekki byrjuð á neinum vorverkum í garðinum ennþá, aðallega vegna þess að Valur var veikur og garðurinn hefur víst verið nánast alfarið á hans könnu undanfarin 10 ár eða svo.

Í bænum kíkti ég í nokkrar fatabúðir með lélegum árangri. Mig langar í einhverja nýja sumarlega flík sem ég get notað í vinnunni en það eina sem ég fann var svartur bolur (sem sagt ekki sérlega sumarlegur!). En ég ákvað að gera mér dagamun þar sem ég var nú einu sinni komin út úr húsi og fór á grænmetisstaðinn og fékk mér að borða. Þar er hægt að kaupa hálfan rétt dagsins, sem hentar mér mjög vel þar sem ég er yfirleitt fremur matgrönn. Og - rúsinan í pysluendanum - hægt að setjast út í bakgarð og sitja í sólinni að borða. Ég ætlaði varla að tíma að standa upp aftur þegar ég var búin að borða, það var svo notalegt að sitja þarna. Tja, ef frá eru dregnir garðstólarnir sem setið er í, þeir voru ekki sérlega þægilegir.

Síðan fór ég á bókasafnið og tók hin ýmsu tímarit að láni. Þar sagði Hólmfríður að þetta væri bara eins og í útlöndum, það þyrfti að hafa kveikt á viftu í hitanum. Og ég samsinnti henni og sagðist óska þess að við mættum fá marga svona daga í sumar :-)

miðvikudagur, 13. maí 2009

Þá er ég orðin stoltur hjóleigandi :)

Ég fór áðan og borgaði hjólið og keypti líka nýjan hjálm (Ísak var búinn að leggja hald á minn gamla) og svarta körfu sem var sett framan á hjólið. Svo hjólaði ég heim. Það er að segja, ég hjólaði fyrsta spölinn, alveg þar til ég var orðin blá í framan, en leiddi hjólið upp restina af brekkunni og hjólaði svo þegar ég var aftur komin á jafnsléttu. Hjólaformið ekki alveg upp á það besta ;-) Kom svo heim móð og másandi og með þvílíka hjartsláttinn. Já, það er nokkuð ljóst að ég þarf að æfa mig.

Ég er reyndar farin að æfa á morgnana - eða þannig... Tók uppá því um daginn að fara að gera Mullersæfingar með hópnum í sundi, alla morgna kl. 8.20. Þau hafa verið að reyna að fá mig í hópinn undanfarin ár en ég hef sett það fyrir mig að ég yrði þá svo sein fyrir. En einn góðan veðurdag þegar ég var sérlega slæm í skrokknum datt mér í hug að þetta gæti nú kannski bara verið gott fyrir mig, enda eru þetta aðallega teygjur. En þá þurfti ég líka að breyta aðeins kerfinu hjá mér á morgnana. Ég fer nefnilega alltaf heim eftir sund og fæ mér morgunmat og geri útbý nesti fyrir vinnuna. Og það tekur bara frekar langan tíma að græja nestið því ég bý til salat og það er tímafrekt að skera niður allt sem í það fer. Þannig að núna geri ég salatið um leið og ég fer á fætur, rétt fyrir hálf átta, og get þá farið í æfingarnar án þess að lenda í brjáluðu tímahraki. Svona getur maður nú breytt rútínunni hjá sér ef áhugi er fyrir hendi :-)

Annað hvort hafa öll fötin mín hlaupið...

... eða ég hef stækkað.

sunnudagur, 10. maí 2009

Rólegheita sunnudagur

Eða þannig... Þegar ég hugsa um það þá hef ég nú eiginlega ekki verið neitt sérlega róleg í dag. Ryksugaði nánast alla efri hæðina og fór í gegnum föt til að gefa í Rauða krossinn. Svo fór ég á Glerártorg. Þar skilaði ég teppi sem ég hafði keypt í Rúmfatalagernum og fór í Nettó og Heilsuhornið. Í leiðinni gjóaði ég augunum í áttina að hvítu reiðhjóli sem ég mátaði í gær og er jafnvel að hugsa um að kaupa.

Ég spurði nefnilega sjúkraþjálfarann að því um daginn hvernig reiðhjól gamlar, gigtveikar og bakveikar konur ættu að fá sér og hann sagði að ég ætti að fá mér "konuhjól" með háu stýri, mjúkum hnakki og dempurum. Og í gær sá ég einmitt þannig hjól, hvítt á litinn með brúnum lungamjúkum hnakki, þegar við Valur skruppum í Sportver. En ég ætla líka að kíkja úteftir til Vidda og skoða hjólin hjá honum áður en ég ákveð mig.

Svo þarf ég víst að halda áfram að hugsa um liti á húsið og svefnherbergið - já og ákveða hvernig fataskáp ég vil fá, eða innvolsið í hann öllu heldur. Ætli við kaupum ekki bara skáp í Ikea og notum áfram tvær kommóður sem við erum með. Já, svo þarf víst líka að panta myrkvunargardínur. Ég sem helst vildi alltaf sofa með dregið frá glugganum á sumrin hérna í den get núna varla sofið nema í myrkri - svona breytist maður.

Þetta kallast víst að æða úr einu í annað - en það er bara svolítið eins og ég er núna...

fimmtudagur, 7. maí 2009

Pestarbæli?

Þegar ég kom heim á mánudagskvöldið var Valur orðinn eitthvað skrýtinn í hálsinum og hefur verið hás alla vikuna. Nú er hann ennþá verri og ákvað að sleppa fundi í Reykjavík sem hann ætlaði á á morgun. Ísak kom heim úr skólanum í dag með höfuðverk og hálsbólgu og Andri kvartaði um einhvern slappleika í kvöld. Ég er hress... eða væri það ef ég hefði ekki borðað pítsu frá Dominos í kvöldmatinn. Mig langaði í pítsu og fékk mér vel af henni - sem hefur þau áhrif að ég belgist öll út og er illt í maganum. Já, sumir læra aldrei af reynslunni!

miðvikudagur, 6. maí 2009

Þá er hin ágætasta Danmerkurferð að baki

og allt gekk eins og í sögu. Þetta var náttúrulega svolítið mikið ferðalag, svona "planes, trains and automobiles" en það var voða gaman að hitta alla. Hrefnu mína, Önnu systur, Kjell-Einar og Sigurð, Palla og Jönu, og krakkana hans Palla + Birte, fyrrverandi konuna hans. Það eina sem hefði mátt vera betra var veðrið en það var úrhelllis rigning á sunnudeginum þegar fermingarveislan var haldin.

En ekki skorti nú veitingar í veislunni og var allt ljómandi gott. Enda tók svo langan tíma að borða + vera með skemmtiatriði að veislan stóð í 7 tíma, hvorki meira né minna. Það er að segja, við fórum heim eftir 7 tíma en margir voru lengur. Það hafði verið skipulagður leikur í lok dags en sökum rigningarinnar varð ekkert af honum. Eftir leikinn átti svo að bjóða uppá grillaðar pylsur þannig að Palli var með 120 pylsur í skottinu á bílnum sem hann þurfti svo bara að keyra heim aftur. En já maturinn var nú ekkert slor, það var túnfiskpaté með salati í forrétt, lamba-, kalkúna-, og kálfakjöt + alls skyns meðlæti í aðalrétt, súkkulaðikaka, súkkulaðimús, jarðarberja- og rabbarbarabaka, frómas og heimagerður ís í eftirrétt. Þar á eftir var svo kaffi, kransakaka og nammi. Púff, maður náttúrulega tróð í sig... en mér leið samt ágætlega alveg þar til ég fór ferð nr. 2 að eftirréttahlaðborðinu, það var too much!

Á mánudaginn vöknuðum við svo kl. sjö (fimm að íslenskum tíma...) og lögðum af stað til Vejle korter í átta en það tekur ca. 45 mín. að keyra til Vejle. Palli ók okkur þangað til að ná lestinni til Köben. Lestarferðin tók um 3 tíma og svo tók við 2ja tíma bið á flugvellinum + 3ja tíma flugferð til Íslands. Þar beið Ásgrímur eftir mömmu en ég tók rútuna á BSÍ og leigubíl á flugvöllinn þar sem ég beið í rúman klukkutíma eftir flugi norður. Og það var nú voða gott að koma heim og leggjast í sitt eigið rúm um kvöldið. Ég var eitthvað svo upprifin í ferðalaginu að ég svaf ansi lítið á næturnar og er þar af leiðandi búin að sofa eins og steinn fyrstu tvær næturnar heima.

En sem betur fer var ég í fríi í gær frá vinnunni og gat hvílt mig - og lesið bók... Anna systir lét mig nefnilega fá bók nr. 2 eftir Stieg Larsson, Jenten som lekte med ilden, á sunnudagskvöldið og ég byrjaði að lesa hana á mánudagsmorguninn í lestinni. En átti afskaplega erfitt með að leggja hana frá mér fyrr en hún var búin, enda mjög spennandi. En ég kláraði hana í gær, rétt fyrir kvöldmat, þannig að nú get ég farið að sinna heimilisstörfum og öðru sem ég mátti ekki vera að í gær sökum lestrarfíknar :-)

laugardagur, 2. maí 2009

Blogg frá Köben

Við mæðgur, ég, mamma og Hrefna bíðum eftir því að klukkan verði aðeins meira svo við getum farið af stað í strætó og síðan lest til Jótlands. Ferðin hingað í gær gekk vel og úti er rjómablíða. Mér tókst ætlunarverkið og pakkaði bara í eina litla tösku - en gleymdi reyndar líka hlutum sem áttu að fara með s.s. rauðum topp sem ég ætlaði að vera í í fermingarveislunni... En ég verð þá bara í öðrum fötum í staðinn sem eru reyndar ekki alveg jafn fín/sumarleg. Hrefna eldaði þetta líka fína lasagna handa okkur í gær og svo sváfum við í stofunni í nótt. Ég komst að því að það er aðeins meira af umhverfishljóðum í stórborginni en heima á litlu Akureyri en svaf nú vel fyrir því. En jæja, ætli sé ekki best að klára að taka sig til. See you.