fimmtudagur, 29. september 2005

Kettirnir eru lagstir í vetrardvala

og það liggur við að mann langi nú sjálfan til að gera slíkt hið sama. Þau sofa megnið úr sólarhringnum núna og þegar ég kom heim í hádeginu sváfu þau svo fast að þau komu ekki einu sinni fram að heilsa upp á mig. En þegar ég ætlaði að fara að mynda þau til að láta mynd fylgja þessum pistli þá drifu þau sig að sjálfsögðu á lappir. Þannig að myndin verður bara að koma síðar.

miðvikudagur, 28. september 2005

Finnst venjulega hressandi að fara út að ganga

en held að það þyrfti að borga mér fyrir að fara út í þetta veður... Brrr, eins stigs hiti, stíf norðanátt og hríðarslydda ;-( Hvað á þetta veðurfar eiginlega að þýða? Eini kosturinn er sá að útivera freistar lítið, sem er kostur þessa dagana því ég er svo upptekin innandyra.

Var að skoða bloggsíður í dag og sá þá að það er komið nýtt íslenskt vefdagbókar-umsjónarkerfi. Það kostar reyndar tæpar 3 þúsund krónur á ári að vera í áskrift hjá þeim en það er svo sem ekki mikill peningur.

Er búin að sitja á rassinum fyrir framan tölvu meira og minna síðan klukkan 9 í morgun svo það er sennilega hollt að finna sér eitthvað annað að gera. Taka úr uppþvottavélinni, þrífa kattaklósettið, brjóta saman þvott, setja í þvottavélina... já þessi hefðbundu heimilisstörf sem enginn tekur eftir - svo lengi sem þau eru framkvæmd reglulega ;o)

þriðjudagur, 27. september 2005

Ferköntuð augu..

held að augun á mér séu að verða ferköntuð í laginu af að stara sífellt á þessa blessaða tölvuskjái. Já, það eru víst bæði kostir og gallar við tölvurnar eins og svo margt annað. Sem betur fer er þetta allt annað líf hjá mér eftir að ég fékk mér gleraugun - mig er hætt að verkja svona rosalega í augun eins og mig gerði. Hins vegar gengur mér hálf illa að venjast gleraugunum og er fljót að taka þau ofan t.d. ef einhver kemur að tala við mig. Þá finnst mér eins og gleraugun séu "fyrir" - æi, það er erfitt að útskýra það.

Það styttist í heimsókn Önnu systur og Sigurðar - það verður gaman að hitta þau og vonandi verður veðrið skaplegt...

Það styttist líka í tónleikana með norska söngfuglinum Sissel Kyrkjebø og allt bendir til þess að ein stysta suðurferð hingað til verði farin til að hlusta á hana syngja. Líklega þarf ég þó að kíkja á bað í leiðinni og lengir það ferðina örlítið. Áætlunin gengur út á suðurferð á föstudagseftirmiðdag og heimferð á laugardagskvöldi eftir tónleikana. Kemur í ljós hvort það stenst.

mánudagur, 26. september 2005

Rigning og bleyta...

verð að viðurkenna að ég kunni betur við snjóinn heldur en þetta veður. Já, maður er aldrei ánægður...

sunnudagur, 25. september 2005

Snjór + börn = gaman


Snjór + börn = gaman, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessi mynd þarfnast engra útskýringa við - nema hvað strákurinn á sleðanum er Ísak en ég veit því miður ekki hver stelpan á snjóbrettinu er.

laugardagur, 24. september 2005

Súlur í september


Súlur í september, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hér eftir mun ég birta mynd af þessu sjónarhorni á hverjum degi... nei, bara að grínast. Vildi leyfa væntanlegum gestum að fylgjast með veðrinu á Akureyri ;-)

föstudagur, 23. september 2005

Mynd af engu - nema smá snjó

Þetta er útsýnið hjá mér akkúrat núna. Sit í "gamla" herberginu mínu við vinnu og horfi á snjóinn út um gluggann. Það sést ekki í Súlur fyrir skýjahulu. Ég man ekki eftir því að það hafi snjóað þetta mikið í September áður, a.m.k. ekki síðustu 10 árin.

miðvikudagur, 21. september 2005

Afmælisbarn dagsins er mamma

en hún er hvorki meira né minna en 79 ára, sem er náttúrulega enginn aldur ;O) Til hamingju með daginn mamma! Nú hefði verið gott að skreppa í smá afmæliskaffi, kannski fá pönnukökur með rjóma eða ostaköku... Það er algjört hallæri að búa svona langt frá öllum ættingjum sínum - aldrei afmæliskaffi, engin jólaboð o.s.frv. En svona er þetta bara og það þýðir víst ekkert að væla yfir því.

Lífið er frekar fábreytt þessa dagana - vinna, sofa, synda og fara stöku sinnum í leikfimi. Þarf endilega að taka mig á, hitta fleira fólk og gera eitthvað skemmtilegt! Á reyndar miða á tónleika með norsku söngkonunni Sissel Kyrkjebø í Háskólabíói þann 1. okt. og verð að reyna að drífa mig þangað. Hef samt varla tíma til þess, það er svo þétt dagskrá hjá mér í kennslunni. Auk þess er ég að kenna þennan áfanga í fyrsta skipti og það þýðir bara eitt: hrikalega mikinn undirbúning fyrir hvern tíma. Er aftur farin að spá í framhaldsnám en finnst margt flókið við það. Langar helst til Skotlands en mikla þetta fyrir mér, Andri vill ekki fara frá félögum sínum í heilt ár, Valur þarf að fá vinnu úti, við þyrftum að leigja húsið og ..... hvað í ósköpunum gætum við gert við kettina?

mánudagur, 19. september 2005

Var "klukkuð" af Æri

og þó ég hafi ekki hugmynd um hvað "klukk" er þá skilst mér að leikurinn felist í því að setja niður á blað fimm staðreyndir um sjálfan sig. Eigi veit ég hvort Ærir hefur gert sér grein fyrir því - en það að finna fimm hluti er mér nærri því ofviða. Ég get þó ekki annað en tekið áskoruninni þannig að ...

1. Ég fæddist ekki á sjúkrahúsi eins og velflestir jafnaldrar mínir, heldur fæddist ég á Sjónarhæð þar sem fjölskylda mín bjó á þeim tíma.
2. Ég þjáðist af lyftufælni í mörg ár, en ástæðan fyrir fælninni var óvenju krassandi lýsing á lyftuslysi (af mannavöldum) í bók eftir Arthur Haily sem ég las á unga aldri.
3. Mér finnnst síld einhver sá allra versti matur sem ég hef nokkurn tímann smakkað => ég borða ekki síld!
4. Ég var orðin tvítug þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda, en það var í "Flug og bíl" til Salzburg í Austurríki með mínum ástkæra þáverandi "vini" og núverandi eiginmanni (og vini).
5. Í annarri utanlandsferð nokkrum árum síðar bjargaði Valur mér frá bráðum bana þegar kjötbiti stóð fastur í hálsinum á mér á veitingastað í sveitahéraði skammt frá Costa del sol. "Heimlich" takið kom þar að góðum notum ;-)

Svo mörg voru þau orð. Mér skilst að nú sé um að gera að "klukka" aðra í framhaldinu. Svo ég klukka Hrefnu og Rósu

laugardagur, 17. september 2005

Er að ná nýjum hæðum í bloggleti

og engin afsökun fyrir hendi. Líklega finnst mér heldur lítið vera að gerast hjá mér þessa dagana en eins og einhver sagði "engar fréttir eru góðar fréttir" þannig að kannski er það ekki svo slæmt þó ég hafi frá litlu að segja.

Það gengur hálf illa að klára baðið, nú er það baðkarið sem er að stríða okkur. Við keyptum nuddbaðkar í verslun í Reykjavík, á sama stað og við keyptum baðinnréttinguna, blöndunartækin og klósettið. Fengum góðan magnafslátt þannig að við vorum bara sátt. Áttum að fá allt heila klabbið sent norður í sömu sendingu en fljótt áttuðum við okkur á það vantaði einn skáp og svo tvo af fjórum fótum undir baðið. Já, og svo höfðum við fengið sendan vitlausan spegil.

Ég hringdi suður og kvartaði undan þessu og fljótlega komu þessir hlutir norður með bíl. Svo leið og beið og baðið var flísalagt og svo mættu pípararnir aftur á svæðið til að gera sitt - en viti menn þá kom í ljós að það vantaði festingar á baðkarið, bæði til að festa það við vegginn og festa svuntuna. Ég var þá líka búin að átta mig á því að það vantaði ljós sem átti að fylgja speglinum. Við hringdum bæði suður, píparinn og ég, og þeir í búðinni lofuðu að koma þessu dóti á fyrsta bíl. Svo leið tíminn og eftir tæpa viku hafði ég áttað mig á því að þeir hefðu greinilega gleymt okkur.

Hringdi aftur suður og aftur lofuðu þeir öllu fögru. Í þetta sinn stóðu þeir við orð sín og sendingin skilaði sér eftir tvo daga. Píparinn mætti aftur á svæðið í gær og festi baðið. Komst þá að því að einn nuddstúturinn lak og festingarnar fyrir svuntuna voru vitlausar. Hann fékk mann hér í bænum til að búa til nýjar festingar og kíttaði nuddstútinn með einhverju límkítti - og svo eigum við að fylla baðkarið í dag til að tékka á því hvort það er í lagi með viðgerðina... Sem sagt hálfgerð langavitleysa allt saman og ekki útséð um það hvernig þetta fer ennþá.

miðvikudagur, 14. september 2005

Ég sé út um gluggann að sólin er farin að skína ;-)

Held barasta að ég drífi mig út að ganga - það er einmitt komið hádegi og ég orðin glorsoltin. Fínt að rölta heim og borða afganginn af ítölsku grænmetissúpunni sem Valur eldaði í gærkvöldi.

þriðjudagur, 13. september 2005

Afmælisbarn dagsins er Anna systir mín

Til hamingju með daginn Anna mín - hlakka til að sjá þig í október ;O)

Ég var að skoða hvað ég hafði skrifað á sama tíma í fyrra og þá hafði ég m.a. verið á leiðinni í húsmæðraorlof til Reykjavíkur. Sem er sennilega ástæðan fyrir því að Rósa vinkona mín var að spyrja að því um daginn hvort ég væri ekki að koma suður í orlof... Ég á reyndar miða á tónleika með Sissel Kyrkjebö í Háskólabíói þann 1. okt. og ætla að fara suður þá, en það hittist bara svo illa á m.t.t. vinnu hjá mér. Á að vera með kennslu bæði þann 3. og 4. og hefði þurft að nota helgina til undirbúnings. En ætli þetta bjargist nú ekki allt saman, það gerir það venjulega.

sunnudagur, 11. september 2005

Ákvað að blogga

þó ég hafi ekkert að segja - er sem sagt ennþá að drepast úr andleysi... Þannig að kylfa mun ráða kasti varðandi það hvað kemur á blaðið (skjáinn) í þetta sinnið. Talandi um skjái þá fékk ég nýja/gamla tölvu í vinnunni í síðustu viku. Var ekkert smá ánægð með að fá flatskjá (þó lítill sé) en á móti kemur að það suðar svo rosalega í turninum (heilabúi tölvunnar) að ég er frekar búin á því í lok dags. Ætla að gefa henni smá séns - hún er nefnilega svo miklu hraðvirkari heldur en gamla daman sem ég var með áður :)

Well, well, well, hvað gerði ég um helgina sem er að líða? EKKERT af viti - en líklega ekkert af óviti heldur, þannig að þetta er nokkuð vel sloppið. Hrefna og Elli komu til okkar í mat á laugardagskvöldið sem Valur eldaði af sinni alkunnu snilld. Kjúklingabitar á teini með pintóbaunasósu + hrísgrjón + brauð. Við vígðum nýtt borðstofuborð í leiðinni og ekki var það nú slæmt heldur. Minn heittelskaði hafði nefnilega kvartað undan því í mörg ár að ekki væri pláss fyrir nokkurn skapaðan hlut á gamla borðinu (sem við keyptum notað og hafði verið smíðað rétt eftir stríð þegar húsin voru lítil og húsgögnin líka). Nýja borðið er 1x2 og nú er loksins hægt að hafa matinn á borðinu, ekki bara borðbúnaðinn ;O)

Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað heilinn í manni er undarlegt fyrirbrigði. Meðan við bjuggum í Noregi varð ég gjörsamlega ómælandi á önnur tungumál en norsku og íslensku, enskan t.d. hvarf bara út í bláinn. Hún hefur nú verið að koma til baka smátt og smátt enda les ég ensku meira og minna á hverjum degi. Í síðustu viku hringdi svo kona í mig í vinnunni og talaði ensku. Ég ræddi við hana nokkra stund og allt gekk eins og í sögu, alveg þar til hún sagði nafnið sitt, sem var dæmigert norrænt nafn. Og það var eins og við manninn mælt, öll mín enskukunnátta hvarf út í buskann, norskan tók völdin í heilanum á mér og mér tókst varla að ljúka símtalinu skammlaust!! Hvað á þetta eiginlega að þýða? Það eru 10 ár síðan ég bjó í Noregi og t.d. les ég norskuna ekki oft (of sjaldan í rauninni) á meðan ég er alltaf að lesa ensku. En mig skortir greinilega talþjálfun, það er nokkuð ljóst. Enda var ég að spá í að taka mastersnám í enskumælandi landi, m.a. til að reyna að troða ensku tali inn í heilann á mér aftur.

miðvikudagur, 7. september 2005

Andleysi er undarlegt fyrirbrigði

Ég er sem sagt eitthvað svo óskaplega andlaus þessa dagana, nenni ekki að blogga, finnst ég ekki hafa frá neinu að segja. En til að sýna að ég er ennþá á lífi þá set ég hér fáeinar línur á blaðið.

Um daginn hringdi í mig kona og bauð mér að koma í nudd. Ástæðan var sú að fyrir 2-3 árum síðan var ég í nuddi hjá henni, Shiatsu nuddi sem mér fannst henta mér mjög vel (maður þarf ekki að fara úr fötunum og það er ekkert olíusull). Jæja, ég hafði keypt fimm tíma afsláttarkort hjá henni og var búin með þrjá tíma þegar hún flutti skyndilega úr bænum. Nú er hún hins vegar komin aftur og mundi þá eftir mér - fannst vera kominn tími til að greiða skuld sína við mig. Þannig að ég fékk óvænt tvo "fría" nuddtíma ;O)

Ég bauð mig fram sem bekkjarfulltrúa í Andra bekk á foreldrafundi í bekknum hans í dag. Það er algjör kvöl og pína þegar kemur að þessum lið á fundinum, allir þegja og enginn vill bjóða sig fram. Mér leiðist þetta svo mikið þannig að ég stakk höfðinu upp úr sandinum og bauð mig fram. Þegar ég var búin að brjóta ísinn bauð önnur mamma sig líka fram þannig að þetta slapp allt saman fyrir horn. En það verður sennilega yfirdrifið nóg að gera í þessu embætti því í vor útskrifast krakkarnir úr grunnskóla og komin er hefð fyrir skólaferðalagi í vetrarlok en það þýðir líka fjáröflun o.s.frv.

Læt þessum andlausa pistli hér með lokið.

mánudagur, 5. september 2005

Úti í guðsgrænni náttúrunni

Þar sem ég hef ekkert sérstakt að segja í dag ákvað ég að birta þessa mynd í staðinn af rollu sem við Valur hittum fyrir á Melrakkasléttu um daginn. Hún var ótrúlega gæf en við töluðum nú samt ekki mikið saman ;O)

laugardagur, 3. september 2005

Vinna, vinna, vinna....

Já, eins og sjá má þá hefur vikan farið í vinnu og hvort þetta eru viðbrigðin eftir sumarfrí, slappleiki eftir veikindin, eða blanda af hvoru tveggja, þá er ég bara alveg búin á því í vikulok. Öll orka búin og meira að segja sólin úti freistar mín lítið.

Samt langar mig að skreppa í berjamó. Það þarf ekki einu sinni að vera alvöru berjamór (keyra eitthvert lengra + taka með nesti, berjatínur o.s.frv.), mér nægir alveg að fara hérna rétt upp fyrir bæinn og sitja í smá stund og tína upp í mig. Taka kannski með eina litla krús undir ber til að bjóða öðru heimilisfólki að smakka... Já, kannski ég láti verða af þessu þegar ég er búin að klippa bóndann.

Annars er ég öll út ötuð í einhverjum litlum hormónabólum - aðallega á hálsi og bringu + öxlum en ein og ein hefur ratað í andlitið á mér. Maður er orðin svo gamall að bólur eru ekki akkúrat efst á óskalistanum (eins og þær hafi einhvern tímann verið það!) og ég er nú hálf fúl yfir þessu enda klæjar mig líka í þær.

Loksins, loksins skín sólin ;O)