fimmtudagur, 9. maí 2019

Fagnaði kannski aðeins of snemma


en er ekki alltaf betra að láta bjartsýni ráða för?

Í síðasta pistli skrifaði ég um það hvað ég væri orðin svakalega hress og fín - og mér leið svo sannarlega þannig á þeim tímapunkti. Eiginlega var ég svo ánægð með mig að ég hugsaði að nú væri lag að gera gott ennþá betra. Þannig að ég skráði mig á námskeið hjá Hildi M. Jónsdóttur þar sem markmiðið var að taka mataræðið í gegn og ná enn betri heilsu fyrir vikið. Ég byrjaði á námskeiðinu í lok september og get hiklaust mælt með því. Það voru margar konur sem fengu ótrúlegan bata á tiltölulega stuttum tíma og var virkilega ánægjulegt að verða vitni að því.

Hins vegar fékk ég ekki þann bata sem ég hafði vonast eftir. Að minnsta kosti ekki ennþá en ég held í vonina 😊 Veturinn var satt best að segja býsna erfiður, bæði andlega og líkamlega, en með hækkandi sól er andlega hliðin á uppleið aftur svo það er nú gott.

Námskeiðið var þó engan veginn til einskis. Valur ákvað að taka þátt í breyttu mataræði með mér og hann hefur aldrei verið jafn orkumikill. Svo það er nú aldeilis flott! Hvað mig varðar þá er meltingin betri og ég sef betur. Húðin er mýkri og ég fæ ekki lengur þurrkubletti á hendurnar. Ég hef ekki fengið kvef í allan vegur og það er minna slím í öndunarvegi hjá mér. Þreytudraugurinn ætlar hins vegar ekki að yfirgefa mig svo glatt og vefjagigtarverkirnir eru enn til staðar þó þeir hafi eitthvað minnkað.

Það sem ég hef helst lært á þessari 7 mánaða vegferð er að það dugar ekki að borða hollt ef maður nær ekki að vinna úr neikvæðum áhrifum streitu á líkamans. Álag og hvers kyns áreiti sem veldur steitu er augljóslega minn versti óvinur hvað heilsuna snertir. Þetta eru ekki nýjar upplýsingar (þarf ekki annað en gúggla orðið "streita" á blogginu mínu og þá sést að ég hef oft talað um þetta áður). 

Þannig að nú þarf ég að vera duglegri að nýta mér ólíkar aðferðir til að vinna gegn streitu!