þriðjudagur, 14. mars 2017

Lítil saga af kökubakstri

Ísak sonur okkar á 22ja ára afmæli í dag. Í tilefni dagsins datt mér í hug að baka handa honum köku sem hann gæti tekið með sér í vinnuna og boðið samstarfsfólkinu í Leirunesti með sér. Ég ákvað að hafa þetta ekkert flókið, baka bara köku eftir gamalli uppskrift sem ég fékk hjá dagmömmunni hans Andra fyrir ca. 25 árum síðan þegar við bjuggum í Tromsö. Ég bakaði kökuna síðast þegar Andri átti 22ja ára afmæli og var að vinna í byggingarvinnu hjá SS byggi. Einmitt hér er kannski ástæða til að staldra við … það eru fimm ár á milli þeirra bræðra, sem þýðir að það eru fimm ár síðan ég bakaði þessa köku síðast….

Hvað um það. Ég fór í Bónus í gær og renndi augunum yfir uppskriftina áður en ég lagði af stað í búðina. Sýndist í fljótu bragði að ég ætti allt sem í kökuna ætti að fara nema súrmjólk og suðusúkkulaði. Þannig að þau hráefni voru keypt. Enn var allt í lukkunnar velstandi. Ég var bara nokkuð ánægð með mig að ætla að gera þetta fyrir soninn og hélt að innkaupum fyrir baksturinn væri lokið. Ísak átti hins vegar ekki að mæta í vinnu fyrr en kl. 14 í dag, svo ég ákvað að bíða með að baka kökuna þar til núna í morgun.

Eftir að hafa borðað morgunmat ætlaði ég svo að vinda mér í verkið. Sótti uppskriftina og hafðist handa við að tína fram þau innihaldsefni sem í kökuna áttu að fara. Ekki var ég þó komin langt á veg þegar ég áttaði mig á því að ég átti ekki venjulegt hveiti (einungis glútenlaust og svo gróft spelthveiti og ég þorði hvorugt að nota) og varla nægjanlegt magn af flórsykri. Jæja hér var þá komin góð átylla fyrir því að ganga út í búð og fá sér ferskt loft í leiðinni. Ég klæddi mig í viðeigandi fatnað og skokkaði léttstíg út í 10-11. Þegar ég hafði fundið það sem mig vantaði, var komin á kassann og ætlaði að greiða fyrir vörurnar áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt veskinu heima. Hm, ekkert vandamál, ég bað stúlkuna bara að geyma þetta fyrir mig, ég ætti heima hérna rétt hjá og myndi skjótast eftir peningaveskinu. Skottaðist heim aftur, sótti debetkortið úr veskinu og dreif mig aftur út í búð þar sem ég borgaði fyrir vörurnar og gekk síðan aftur heim.

Þá var loks komið að því að hefjast handa við baksturinn. Fyrst eru 4 bollar af súrmjólk, 4 bollar af sykri, 2 bollar af bræddu smjöri og 6 bollar af hveiti. Næst koma 4 tsk. af natroni og 6 tsk. af kanil. Úbbs! Ég átti bara 1-2 tsk. af kanil. Hvað gera konur þá? Jú, fara aftur í búðina. Í þetta sinn nennti ég ekki að ganga, greip bara handtöskuna mína og keyrði á bílnum út í 10-11. Afgreiðslustúlkan bauð aftur góðan daginn og eftir að hafa boðið góðan daginn tilbaka, sagði ég henni að ég hefði nú bara ætlað að baka eina köku en þetta væri að ganga frekar illa hjá mér. Síðan fann ég kanilinn, kom að kassanum, setti hendina ofan í töskuna til að taka upp peningaveskið og greip í tómt! Ég ætlaði varla að trúa þessu og hvað þá aumingja afgreiðslustúlkan (ég var þegar farin að sjá hana fyrir mér skrifa status á facebook um þessa rugluðu konu!) svo ég fór út í bíl til að athuga hvort veskið lægi kannski í sætinu en ónei svo gott var það ekki. Fór aftur inn í búðina, kallaði til stúlkunnar að ég færi heim að sækja peningaveskið. Held hún hafi ekki alveg vitað hvað hún átti að halda - enda lái ég henni það ekki.

„Heim að sækja peninga“ ferð nr. 2 gekk tíðindalítið fyrir sig. Það rifjaðist samt upp fyrir mér þegar ég sá peningaveskið liggja á skóhillunni að ég hafði ætlað að taka bara veskið með mér og sleppa töskunni, en eitthvað hefur sú áætlun klikkað í framkvæmdinni. Þegar ég kom aftur út í búð (í fjórða skiptið á ca. tuttugu mínútum), spurði afgreiðslustúlkan hvort ég væri ekki örugglega komin með allt  sem ég þyrfti? Nú voru hins vegar komnar glufur í góða skapið hjá mér og ég mumlaði bara eitthvað óskiljanlegt um leið og ég gretti mig. Ég gat eiginlega ekki hugsað þá hugsun til enda að þurfa eina ferðina enn í 10-11, svo ég strengdi þess heit innra með mér að ef mig myndi vanta eitthvað þegar kæmi að því að gera kremið, þá færi ég í Hrísalund!

Hér að neðan er mynd af afmælis"barninu" á leið í vinnuna. Það var svo mikil birta úti að hann náði ekki að hafa bæði augun opin ;)