Ísak var áfram í minnsta herberginu þar til Hrefna flutti að heiman en þá var aftur skipt um herbergi, Ísak fór í Andra herbergi, Andri í hjónaherbergið og við í stærsta herbergið aftur. Ég fékk Ísaks herbergi sem vinnuherbergi og er alsæl með það. Sit þar inni í þessum töluðu (skrifuðu) orðum.
Nú er Andri að hefja menntaskólanám í haust og erfir gamla skrifborðið hennar systur sinnar. Bindum við vonir við að hann sýni lit og fari að læra heima þegar hann fær betri aðstöðu til heimanáms. En hjónaherbergið rúmar hins vegar ekki svo mikið, því einn veggur fer undir skáp og á öðrum er gluggi og stór ofn. Þannig að enn á ný þurfti að breyta um herbergi, og í það fór gærdagurinn hjá okkur mæðginum. Í þetta sinn var þó ekkert málað en engu að síður er þetta ótrúlega mikið rask og töluverð vinna að færa öll húsgögn á milli, þrífa og nota tækifærið og grisja úr skápum og hillum. En hann er núna kominn með fínustu aðstöðu, sér skrifborð og sér tölvuborð, og svo fékk hann stóra kommóðu undir fötin sín.
Eini gallinn er sá að þó ég eigi ekki mikið af fötum (alveg satt!) þá er skápurinn í hjónaherberginu þess eðlis að það rúmast ekki vel í honum og hann er ekki stór á nútíma mælikvarða. Þannig að fötin mín komast ekki öll fyrir í mínum hluta skápsins og ég sé fram á að þurfa að fá mér kommóðu til að hafa við fótagaflinn á rúminu. Það verður reyndar pínu þröngt en sleppur samt alveg. Og MALM kommóðurnar frá IKEA eru rosalega rúmgóðar - þannig að ég ætti að verða í góðum málum :-)
Dóttir mín er reyndar þeirrar skoðunar að það sé hvergi skipt jafn oft um herbergi eins og hér í Vinaminni - spurning hvort það er rétt hjá henni?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli