þriðjudagur, 26. febrúar 2013

Ókeypis bækur á Amazon


Ég vissi það ekki fyrr en nýlega, að á hverjum degi er hægt að fá ókeypis rafbækur á Amazon. Það eina sem maður þarf að gera er að hlaða niður kindle forriti til að geta lesið bækurnar. Þessu forriti er víst hægt að hlaða niður í tölvu, á ipad og í farsíma svo dæmi séu nefnd. Enn sem komið er þá er ég eingöngu með mitt í tölvunni en ég held að það sé algjör snilld að setja það í símann líka. Þá get ég lesið á ferðalögum til dæmis.

Hvernig veit ég hvaða bækur eru ókeypis hverju sinni? Jú það er vefsíða sem heitir fkb.me (free kindle books) sem heldur utan um það. Á hverjum sólarhring gefa þau út lista með ókeypis bókum sem þau mæla með og ef maður er búinn „like-a“ vefinn á facebook þá fær maður tilkynningu þegar kominn er nýr listi. Það eina sem maður þarf að passa, er að þó bækur séu ókeypis þegar listinn er gefinn út, þá getur það breyst skyndilega. Þar af leiðandi er gott að bíða ekki lengi með að hlaða niður þeim bókum sem manni finnast áhugaverðar. Það er líka auðvelt að sjá á Amazon hvort verðið sem gefið er upp við hlið bókarinnar er 0 dollarar, eða eitthvað annað.

Ég er búin að sækja mér margar bækur á þennan hátt, alls konar bækur, og datt þess vegna í hug að fjalla um þennan möguleika hér á blogginu, svona ef það væru fleiri en ég sem þætti kærkomið að fá ókeypis bækur ;-)

En talandi um bækur þá er ég núna að lesa bók eftir Stephen King sem heitir „On   writing“ og fjallar um listina að skrifa bækur. Það er nú frekar fyndið því ég hef ekki lesið neina af skáldsögunum hans og ekki séð neinar kvikmyndir sem gerðar hafa verið eftir bókunum hans, nema Carrie. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef ekki haft áhuga á því. Hins vegar hef ég mjög gaman af þessari bók. Fyrri hlutinn er með sjálfsævisögulegu ívafi og fjallar um það hvernig rithöfundur verður til. Seinni hlutinn snýr meira að hagnýtum ráðum í ritlist. Ég fékk bókina lánaða hjá Önnu Heiðu, kennaranum á námskeiðinu sem ég er á. Hins vegar virðist líka vera hægt að hlaða henni niður af netinu á pdf formi svona ef einhver hefur áhuga.

8. mars 2013
Ég hefði betur sleppt því að benda á þessa síðu sem sýnir ókeypis bækur á Amazon, því það breyttust eitthvað skilmálarnir hjá Amazon og í kjölfarið hætti þessi aðili nánast að benda á ókeypis bækur. Það breytir því hins vegar ekki að það er áfram hægt að fá ókeypis bækur í vefversluninni, en það er sjálfsagt erfiðara að finna þær.

Göngu- og öndunarhugleiðsla


Eitt af því sem mér finnst gaman að gera er að vafra um netið og lesa mér til um allt mögulegt milli himins og jarðar.  Um daginn rakst ég m.a. á þennan pistil um öndunaræfingar sem hægt er að gera á gönguferðum. Með því að einbeita sér að önduninni verður maður til staðar í núinu og er ekki að hugsa streituvaldandi hugsanir um fortíð eða framtíð á meðan. Tja, eða það er a.m.k. markmiðið.

Í greininni er myndband þar sem karlmaður sýnir mismunandi öndunartækni, m.a. að anda rólega inn og telja upp að fjórum, og anda rólega út og telja upp að fjórum, á sama tíma og maður tekur átta skref í allt. Svo er önnur aðferð líka sem hann útskýrir. Ég var eitthvað að prófa þetta um daginn og aðal vandamálið var eiginlega að loftið úti var svo kalt að mér varð illt í nefinu af því að anda því að mér ;-)

mánudagur, 25. febrúar 2013

Lífið er hverfult


Haustið 2004 var ég á námskeiði í Skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni. Ég minntist stundum á þetta námskeið í blogginu og fannst það alveg frábært, þó ekki hafi ég farið að skrifa sögur í löngum bunum að því loknu. Hins vegar fékk ég hugmynd að barnabók, sem situr enn í kollinum á mér, og á ef til vill eftir að rata á blað einhvern tímann.

Fyrir stuttu síðan var ég að skrifa um það hér á blogginu að mig langaði að gefa skrifunum nýtt tækifæri og þá rifjaði ég m.a. upp veru mína á námskeiðinu hjá Þorvaldi. Í framhaldinu benti Þórdís í Kópavogi mér á að á döfinni væri námskeið í ritlist sem væri m.a. haldið í Hofi hér á Akureyri. Ég skráði mig á þetta námskeið (eins og dyggir lesendur vita) og settist í framhaldinu niður og las yfir hluta af glósunum mínum af námskeiðinu hjá Þorvaldi. Þannig má segja að hann hafi verið mér ofarlega í huga upp á síðkastið. Það var því algjört áfall að sjá á netinu í gær að hann væri látinn.

Á sínum tíma hafði það mikil áhrif á mig að kynnast honum og hans lífsviðhorfum - og hann gaf mér von um að einn góðan veðurdag gæti ég farið að rækta hæfileika mína - þegar ég gæfi því pláss í lífi mínu. Það er þó alveg ljóst að ekki getur maður beðið að eilífu eftir rétta tímanum, því enginn veit hvað hann á langt eftir. Samanber það að Þorvaldur var bara 4 árum eldri en ég. Svo það er eins gott að láta drauma sína rætast meðan tækifæri er til.


sunnudagur, 24. febrúar 2013

Aldrei gefast upp!Stundum er svo gott fyrir sálina að sjá hvað getur gerst þegar fólk berst áfram af þrautsegju og gefst aldrei upp.
Njótið dagsins.


Jæja þá er fjörið byrjað

Það er þannig með mig að ef ég er á einhverju spennandi námskeiði, þá gengur mér svo illa að sofna um kvöldið, vegna þess að hugurinn á mér fer á fullt að melta það sem fram fór að deginum til. Og eins og núna þegar námskeiðið snýr að einhverju skapandi, þá fer ég líka á fullt að hugsa upp mögulegar persónur og söguþræði.

En já námskeiðið var sem sagt í Hofi í morgun og mér tókst að mæta tæplega fimm mínútum of seint af því öll bílastæði voru upptekin, bæði við Hof og Átak. Þátttakendur voru að kynna sig þegar ég kom og ég hafði greinilega misst af ca. helmingnum af kynningunni. Anna Heiða spjallaði svo aðeins við okkur en hápunktur tímans var það sem hún kallaði „orðahatt“. Þá fékk hvert okkar þrjá auða miða og áttum við að skrifa eitt orð á hvern miða. Síðan voru allir miðarnir settir í skál (venjulega notar hún hatt) og loks dró hvert okkar þrjá miða úr skálinni. Verkefnið var síðan að skrifa í 10 mínútur einhverja frásögn sem innihélt öll þrjú orðin sem við höfðum fengið.

Orðin sem ég fékk voru Jóga - Hlusta - Túnfiskur. Hehe, ég var komin á flug með fyrstu tvö orðin en túnfiskurinn breytti þeim hugmyndum öllum. En það gafst síðan enginn tími til að hugsa, heldur þurfti maður bara að skrifa það sem kom í hugann, því tíminn var jú svo stuttur. Til gamans þá kemur hér „bullið“ sem ég skrifaði:

Harpa sat í lotus-stellingu og hlustaði á jógakennarann mala. Hún fylgdi leiðbeiningum hans og fór úr einni stellingu í aðra, en hugur hennar var allt annars staðar. Hún átti svo margt ógert. Til dæmis var hún ekki enn búin að ákveða hvað hún ætlaði að hafa í kvöldmatinn. 
Oh! Hún þoldi ekki þetta eilífa vandamál með kvöldmatinn. Auðvitað vissi hún alveg hvernig átti að leysa það. Setjast niður á sunnudegi með nokkrar matreiðslubækur. Gera áætlun fyrir vikuna og búa til innkaupalista í framhaldinu. Bara tær snilld! En nei, það var ekki séns að hún kæmi þessu í verk, frekar en öðru sem gæti einfaldað líf hennar. 
O jæja, nú áttu þau að fara í einhverja stellingu sem hét „fiskurinn“. Hún reif sig upp úr hugsunum sínum og fór í réttu stellinguna. Hm, fiskur - kvöldmatur ... Já, hún gæti haft góða túnfiskréttinn frá Mæju frænku í kvöldmatinn. 

Svo mörg voru þau orð. Næst áttum við að lesa upp textann okkar og þau hin áttu að giska á hvaða orð við hefðum fengið. Því miður þá kom röðin svo seint að mér að ég var eiginlega farin á taugum þegar stundin rann upp. Fannst allir hinir vera með svo flottan texta og sýna mikið hugmyndaflug. En já það er náttúrulega bannað að hugsa svona. Anna Heiða sagði að tónninn í textanum minnti hana á það sem hefur verið kallað „chick lit“ en það eru t.d. bækur eins og Dagbók Bridget Jones ofl. þar sem sagt er frá lífi kvenna með gamansömum undirtón.

Já já, ég dó nú ekkert við þetta en vá hvað ég var fáránlega stressuð miðað við tilefnið. Það hefur eitthvað að gera með mitt undirliggjandi vandamál tengt skriftum. Núna finnst mér nefnilega að ég verði að fara að gera eitthvað með þetta áhugamál mitt en á sama tíma þá fæ ég það sem heitir á norsku „prestasjonsangst“. Ég er hrædd um að standast ekki eigin væntingar og annarra (aðallega mínar eigin samt). En það þýðir ekki að taka þessu svona alvarlega. Ég verð bara að gera mitt besta og hafa gaman af þessu!!

laugardagur, 23. febrúar 2013

Önnur mynd frá Gáseyri


Ég er að gera tilraun með að láta ljósmyndirnar birtast stærri á síðunni. Ef einhver hefur skoðun á því hvort það er betra eða verra, þá væri gaman að heyra það :-)

Í leiðinni breytti ég líka letrinu af því mér fannst Times New Roman ekki koma nógu vel út þegar texta dálkurinn hafði breikkað svona mikið (þurfti að breikka hann til að geta sýnt stærri myndir).

Að pakka fyrir ferðalög

er eitt af því sem hefur löngum vafist fyrir mér og öðrum. Yfirleitt endar það með því að ég tek alltof mikið af fötum með mér en einstaka sinnum hefur það reyndar snúist upp í andhverfu sína og mig hefur vantað föt við hæfi. Í gær rakst ég á skemmtilega vefsíðu sem er tileinkuð einmitt þessu vandamáli. Síðan heitir Travel Fashion Girl og þar er hægt að finna alls konar mismunandi lista yfir fatnað sem hentar að taka með sér í ferðalög, allt eftir því hvert ferðinni er heitið og hve mikinn fatnað viðkomandi vill taka með sér. Ef smellt er á tengilinn hér þá má t.d. sjá fatnað sem hentar fyrir ferðalag til Evrópu, sé flogið með lággjaldaflugfélagi (= lítill farangur) að vetri til.

föstudagur, 22. febrúar 2013

Á Gáseyri í dag


Þrátt fyrir að sófinn kallaði hástöfum á mig þegar ég kom heim úr vinnunni í dag, þá lét ég eins og ég heyrði ekki í honum, og dreif mig þess í stað út með myndavélina. Það var náttúrulega ekki næstum eins flott veður eins og í fyrradag þegar mig langaði út, en hressandi var það samt. Ég var nærri klukkutíma úti og gekk í þúfum, á rennblautum ís og svörtum sandi, enda finn ég fyrir því núna í hjám og mjömum ... hehe.

Í fyrramálið er svo námskeiðið í ritlist í Hofi og vinna seinni partinn. Bara fullt prógramm hjá gömlu.

Áminning til sjálfrar mín

Það að drekka kaffibolla og borða sykursætt súkkulaðihúðað marsipanstykki með, er ávísun á harkalegt blóðsykurfall 1,5 tímum síðar. Með tilheyrandi slappleika, ógleði og "veikindatilfinningu". Kannski leið mér svona vel í gær af því ég borðaði svo lítið af kolvetnum og drakk ekkert kaffi? Hm ...

fimmtudagur, 21. febrúar 2013

Blogg fyrir Val ;-)

Hann skilur (vonandi) hvað ég á við ... ;-)


Annars er það helst í fréttum að það virðist bara hafa gert mér gott að væla aðeins. Að minnsta kosti komu alveg nokkur augnablik í dag þar sem mér leið eins og eðlilegri manneskju - og vá hvað það var gott! Kannski öll þessi hvíld sé bara loks að skila árangri. Tja, það má alla vega vona ...

Ég fór í leikfimi í morgun og gekk bara nokkuð vel. Af því ég vinn til skiptis fyrri og seinni part dags, þá fæ ég að hoppa á milli fyrri og seinni parts tíma í leikfiminni. Morguntímarnir hafa reynst mér frekar erfiðir eftir jól, og þá aðallega vegna þess að ég fæ gjarnan svima. Ég fékk að vísu líka svima í morgun í eitt skipti þegar ég stóð aðeins of snögglega upp, en að öðru leyti gekk tíminn mjög vel. Þetta var líka rólegri tími heldur en síðast. Þá lét hún okkur gera svo miklar þolæfingar + æfingar með teygjum að ég var í tvo daga að jafna mig eftir lætin.

Eftir leikfimina fór ég svo heim og sótti myndavélina mína og smellti af nokkrum myndum niðri við sjóinn. Ég var nú bara örstutta stund en það var samt svo dásamlegt að vera úti og anda að sér fersku sjávarloftinu. Ekki spillti fyrir að sólin skein og endurkastaðist af Pollinum, svo það var mikil birta úti. Svo fór ég í bakaríið og keypti pítsusneið handa Ísaki sem er veikur heima.

Áðan pantaði ég mér svo ferð suður um þarnæstu helgi. Ég var búin að vera alltof lengi að ákveða mig varðandi brottför og heimkomu, en ákvað loks að fara bara suður á föstudagskvöldinu. Þá þarf ég ekki að láta vinna fyrir mig á föstudeginum og hef samt allan laugardaginn og fram til kl. 15 á sunnudeginum með Önnu systur. Svo skrifaði ég Rósu vinkonu og fæ gistingu hjá henni. Sem er frábært því þá næ ég að hitta hana líka. Það er orðið svo voðalega langt síðan við hittumst síðast.

Og já já kannski ég ætti að hætta að slæpast svona í vinnutímanum og fara að gera eitthvað gáfulegt. Svona eins og að vinna í bókhaldi t.d.

miðvikudagur, 20. febrúar 2013

Jæja ... ég verð að reyna að lita bloggið bjartari litum


Hm, þessi mynd er reyndar ekki í björtum litum ... en ég meinti þetta svona „metaphorically speaking“ (og það er ekki séns að ég muni íslenska orðið yfir þetta núna í augnablikinu).

Í hvert sinn sem ég hef fengið útrás hérna á blogginu og leyft mér að væla aðeins, þá fæ ég smá samviskubit. Ekkert gríðarlega stórt, bara svona pínu. Finnst að ég eigi bara að þegja í stað þess að segja eins og er. Hef áhyggjur af því að fólk fari að hafa áhyggjur af mér.

Staðreyndin er bara sú að maður verður alltof sjálfhverfur af því að vera aldrei „í lagi“, það er endalaus naflaskoðun í gangi, og endalausar spurningar ...
- Af hverju er ég alltaf svona ómöguleg?
- Hvað er ég að gera vitlaust?
- Ætli ég sé að borða eitthvað sem fer illa í mig?
- Er ég að gera of mikið?
- Er ég að gera of lítið?
- Skyldi mér aldrei takast að finna hið gullna jafnvægi?
Sem sagt, sjálfhverfa frá A til Ö.

Ég geri mér líka grein fyrir því að t.d. pistillinn í gær hefur ábyggilega verið hálf þunglyndislegur - samt er ég ekki þunglynd. Bara svo innilega leið á þessu ástandi mínu. Alltaf þegar mér finnst ég vera á réttri leið (t.d. fyrst þegar ég breytti mataræðinu og svo þegar ég var búin að vera á Kristnesi) þá fæ ég bakslag og þarf að horfast í augu við það „þetta“ var ekki hin endanlega lausn. Kannski ekki skrítið því hún er ábyggilega ekki til. Engin ein lausn. Það þarf sjálfsagt samspil margra þátta til.

Þegar ég skoða það sem ég hef áður skrifað hjá mér um einkenni sem eru að plaga mig, þá sé ég að það er margt orðið betra. Það er bara alltaf þetta eina risastóra atriði - ÞREYTAN - sem plagar mig langmest og gengur erfiðast að laga.

Og vá hvað mér mistókst að vera bjartsýn í þessum pistli. Engir bjartari litir í dag ... Verður vonandi á morgun ;)

Annars var svo fallegt úti þegar ég var búin að vinna í dag. Það hefði verið upplagt að sækja myndavélina og keyra t.d. út á Gáseyri því birtan var svo falleg yfir Kaldbak. Og jú jú, það hvarflaði alveg að mér að gera það. Sófinn kallaði bara svo hátt á mig (já og Birta gamla líka), svo í stað þess að fara út að taka myndir þá sofnuðum við Birta báðar á sófanum og sváfum vært í einn og hálfan tíma. Þá var líka orðið of seint að fara út með myndavélina.

Í staðinn labbaði ég minn venjulega hring um hverfið. Og smellti af einni mynd á farsímann. Svo eldaði ég mér súpu og sauð pylsur handa Ísaki, þar sem Valur er á Sauðárkróki.

Einmitt núna er svo fundur hjá ÁLFkonum og mig langar að fara ... en samt ekki.  Ég er alveg hreint ótrúlega löt að fara út úr húsi á kvöldin og svo er ég syfjuð ... haha sem er bara fyndið í ljósi þess að ég svaf vel í alla nótt + lagði mig í dag.

Hey! Ég get sagt eitt jákvætt! Anna systir er að koma til landsins núna í lok febrúar og ég stefni að því að skreppa suður og hitta hana. Þarf bara að panta mér flug og redda mér gistingu.

þriðjudagur, 19. febrúar 2013

Sitt lítið af hverju

Það má segja að daglegt líf mitt á nýja árinu hafi fram að þessu einkennst af þreytu og þeirri tilraun minni að reyna að hvíla úr mér þreytuna. Það hef ég gert með því að sofa vel og lengi á hverri nóttu, sleppa sundi á morgnana til að geta sofið lengur, gera nánast ekkert annað en vinna þá daga sem ég er að vinna, og hvíla mig allar helgar (nema helgina sem við Valur fórum suður).

Enn sem komið er hefur þessi tilraun mín borið lítinn árangur. Ég er ennþá þreytt og geng alltof oft á það sem ég kalla „þreytuvegginn“ en þá klárast orkan algjörlega, þó tímabundið sé. Í morgun t.d. þá var ég á hárgreiðslustofu í klippingu og litun, sem tekur tímann sinn, og eftir ca. 2ja tíma setu þá var orkan alveg búin. Þar sem ég sat fyrir framan spegil þá sá ég vel hvernig ég var orðin grá í framan og þetta síðasta korter var virkilega erfitt að halda haus. Þetta var um hálf eitt leytið og þegar ég kom í vinnuna klukkan tvö var ég ennþá dauðþreytt, þó ég reyndi að láta ekki mikið á því bera.

En já þetta fer nú vonandi allt að koma hjá mér, með hækkandi sól og svona.

Annars er ég byrjuð á námskeiðinu í skrifum og búin að horfa á einn fyrirlestur á netinu. Næsti fyrirlestur er á laugardaginn kl. 10:30-12:30 og þá kemur Anna Heiða hingað norður og verður með fyrirlesturinn í Hofi. Það verður ábyggilega skemmtilegra + að þá fæ ég að sjá hina þátttakendurna á námskeiðinu. Eini gallinn er sá að ég er að vinna þann laugardag frá 13-17, svo þetta verður býsna langur dagur fyrir gömlu, en það reddast nú allt.

Um síðustu helgi afrekaði ég reyndar að bjóða vinkonu minni í mat, þegar Valur var fyrir sunnan á Sónar tónlistarhátíðinni. Þær áttu nú eiginlega að koma tvær, en hin forfallaðist. Ég ákvað að standa samt við mitt og hafði það af að elda mat, ótrúlegt en satt. Gerði sama kjúklingaréttinn og Valur gerði um daginn og hann heppnaðist bara ljómandi vel. Við sátum heillengi og spjölluðum og þetta var virkilega notalegt kvöld.

Daginn eftir, um fjögurleytið, hringdi Andri óvænt. Þá var hann staddur úti á flugvelli í smá stoppi, og ég brunaði út á flugvöll og knúsaði hann aðeins. Tók svo þessa mynd á símann minn þegar hann var aftur farinn í loftið.

sunnudagur, 17. febrúar 2013

Andri á afmæli í dag - orðinn 23ja áraOg nei, nei, ég ætla ekkert að tala um það núna hvað tíminn líður fljótt ... hehe ;-)

Í tilefni afmælis Andra þá hafði ég ætlað að skanna inn gamla mynd af honum og birta hér. Svo gerðist það að Hrefna hringdi í mig kl. 8 í morgun. Þá hafði hún verið svo óheppin í gærkvöldi þegar hún ætlaði að ganga yfir götu, að í sömu svifum kom bíll aðvífandi og ók næstum því á Hrefnu, með þeim afleiðingum að hún ökklabrotnaði. Það er ekki gaman að ökklabrotna en gott samt að ekki fór verr.

Og af því hugur minn hefur í dag verið hjá þeim systkinum báðum þá kemur hér ein gömul mynd af þeim. Stóra systir að passa litla bróður, einu sinni sem oftar. Þessi mynd er líklega tekin sumarið (1993?) sem við fórum í ferðalag frá Tromsö og ókum niður Svíþjóð, vorum í tvær vikur í Danmörku og ókum svo upp Noreg. Þetta var heljarinnar ferðalag og gekk alveg hreint ótrúlega vel. Þau systkinin voru til fyrirmyndar allan tímann og við höfðum mjög gaman af þessari ferð öll sömul.

fimmtudagur, 14. febrúar 2013

Einfaldara líf í fataskápinn

Hm, þetta hljómar nú hálf undarlega hjá mér. En fyrir ekki svo löngu síðan var ég að skrifa hér á bloggið um "Simple living" stefnuna og það að fólk gæti hugsanlega lifað betra lífi með því að eiga færri hluti. Það er hægt að leika sér með þetta hugtak á marga vegu og ein leiðin er t.d. að kaupa minna af fötum. Losa sig við föt sem maður notar ekki og kaupa bara ný föt sem ganga með þeim sem maður á fyrir. Áðan rakst ég á myndband sem sýnir viðtal við konu sem notar sömu fötin í þrjá mánuði, en ekki bara það, heldur einskorðar hún sig við að nota bara 33 stykki af fatnaði í þrjá mánuði í einu. Í viðtalinu sýnir hún í fataskápinn sinn og hvernig hægt er að komast af með svona fá fataplögg, sé maður nógu duglegur að velja saman fatnað út frá litum og notagildi. Og svona ef einhver hefur áhuga ... þá er myndbandið hér.sunnudagur, 10. febrúar 2013

Sukk og svínarí ... á bolludaginn ;)

Bolludagurinn er víst ekki fyrr en á morgun, en eins og sannir Íslendingar tókum við forskot á sæluna. Í fyrra held ég að ég hafi ekki borðað neinar bollur en í ár langaði mig að svindla aðeins á mataræðinu, sem ég og gerði. Þá var bara spurningin hvort ég ætti að svindla á þann hátt að ég myndi borða glúten, eða egg ... Þegar óþolsmælingin var gerð hjá mér hérna um árið, þá var ég með mun meira óþol fyrir eggjum, svo ég ákvað að velja skárri kostinn af tveimur vondum. Það er að segja, það var hægt að fá uppskrift að glútenlausum vatnsdeigsbollum með eggjum, eða uppskrift að eggjalausum speltbollum, og ég valdi síðri kostinn.

Ég er á póstlista hjá Sollu Eiríks og hún sendi í vikunni uppskriftir að speltbollum, marsipani, súkkulaði og möndlurjóma, í tilefni bolludagsins. Valur bakaði bollurnar í morgun og gerði marsipanið (reyndar úr möndlum en ekki heslihnetum eins og uppskriftin gerði ráð fyrir). Svo bjó ég til fremur misheppnað súkkulaði og lapþunnan kasjúhneturjóma. Þetta bragðaðist nú samt allt ágætlega en engin mynd var tekin af herlegheitunum.

Annars er bara vorveður úti, vægt til orða tekið. 8 stiga hiti, sólskin, sunnangola og snjórinn bráðnar eins og honum sé borgað fyrir það. Valur skellti sér á skíði og naut sín í botn á nýju skíðunum. Ég sjálf hef voða lítið farið á skíði síðan ég fékk brjósklosið 2008, aðallega af því jafnvægið er ekki ennþá komið í lag. En mig langar samt stundum uppeftir, sérstaklega í svona fallegu veðri eins og í dag. Aldrei að vita nema ég skelli mér einhvern tímann í vor.

Svo áttaði ég mig á því núna, að það eru sem sagt komin fimm ár frá brjósklosinu, sem þýðir að í í vor eru komin fimm ár frá því Pottar og prik fluttu á Glerártorg. Ég veit að ég er alltaf að tönnlast á því sama, en ég bara verð að segja það "upphátt" einu sinni enn ... ég hreinlega skil ekki hvað tíminn líður fljótt!!!


P.S. Fyndið, ég var svo oft að drepast úr kláða hér áður fyrr. Eftir tvo skammta af bollum í dag kom þessi sami kláði aftur. Þá veit ég það ;o)

laugardagur, 9. febrúar 2013

Hláka (og hálka) í dagÉg skrapp út í smá göngutúr áðan. Það var nú eiginlega hálf fyndið að fylgjast með hugsunum  mínum á meðan göngutúrinn stóð yfir. Fyrst í stað var ég hálf sloj eitthvað og gekk fremur álút held ég. Þá skaut þeirri hugsun upp í kollinn á mér að ég yrði að rétta úr mér og ganga eins og ég væri lifandi en ekki dauð. Svo ég tók á mig rögg og gekk eitthvað hnarreistari áfram. Reyndar var svo ofboðslega hált, svo það var nú hálf erfitt annað en horfa niður fyrir fæturnar á sér, svona ef maður vildi á annað borð koma heill heim. 

Jæja, um miðbik göngutúrsins var farið að lifna yfir minni. Súrefnið farið að streyma út í allt kerfið og ég varð öll léttari á mér, bæði líkamlega og andlega. Fór í smá stund á flug, þ.e.a.s. fór að hugsa um það að ég væri nú bara vel hress og mikið sem það væri nú gott að fara út að ganga. Ég gæti nú bara gengið lengri leið en ég ætlaði mér upphaflega. 

En Adam var ekki lengi í Paradís. Fyrr en varði náði þreytan tökum á mér og í ofanálag varð mér óglatt. Þá var stutt í sjálfsásökun og læti. "Guðný þú hefðir betur sleppt því að borða tortillaflögur og súkkulaði rétt áður en þú fórst út að ganga" "Já en mig vantaði jú fljótfengna orku ..

Ég harkaði af mér og í stað þess að ganga stystu leið heim þá fór ég örlítið lengri leið. Þá byrjaði söngurinn í höfðinu á mér aftur. "Oh Guðný, af hverju gastu ekki verið skynsöm, af hverju fórstu ekki beinustu leið heim þegar þú fannst að þér var farið að líða illa? Já af hverju? Hm, ég hef ekki hugmynd um það. Sennilega af því mig langaði bara að labba aðra leið en þessa venjulegu.

Hehe, já þetta er bara fyndið, það er ekki hægt að segja annað. Snilldin er líka að geta áttað sig á því hvaða hugsanir eru að fara í gegnum kollinn á manni, og geta komið með "skynsamlegri" hugsanir á móti þessum vitlausu sem gera ekkert annað en brjóta mann niður. 

Ég t.d. stoppaði og tók þessa mynd og hugsaði með mér að ef ég hefði ekki farið út þá hefði ég ekki fengið að sjá þetta myndefni + ég hefði ekki fengið neitt súrefni í dag. Sem sagt, það var jákvætt að drífa sig út þrátt fyrir að þreytan næði fljótt yfirhöndinni og ég misreiknaði mig aðeins í vegalengdinni. Sem varð í heildina 1,13 km. samkvæmt Garmin úrinu mínu.

föstudagur, 8. febrúar 2013

Önnur mynd í seríunni "Listrænt frelsi"

OK smá djók - ætli ég sé ekki venjulega alltof alvarleg í þessu bloggi mínu ...
En já já í smá stuði til að prófa eitthvað nýtt þessa dagana.


fimmtudagur, 7. febrúar 2013

Á móti sól


Það er eitthvað andleysi að hrjá mig þessa dagana. Ekker sérstakt sem veldur, bara einhver skammdegisþreyta held ég. Heilsan hefur náttúrulega verið að stríða mér og þá er stutt í að ég falli í andlegan forarpytt. Hef samt verið að prófa nýja aðferð með sjálfa mig (sem virkar misvel). En það snýst um "self-compassion" eða því að geta horft í eigin barm og sýnt sjálfri mér skilning, í stað þess að skammast endalaust út í sjálfa mig. Tala við sjálfa mig eins og ég myndi tala við vinkonu eða einhvern sem mér er kær. Hughreysta í stað þess að rífa niður.

Þannig að í morgun þegar ég hefði átt að fara í leikfimi, en fór ekki af því ég var svo illa upplögð og þar að auki illt í maganum, þá gaf ég sjálfri mér "leyfi" til þess að hvíla mig og hugsaði sem svo að ég færi þá bara í staðinn út að ganga þegar ég hefði safnað smá orku. Sem ég og gerði. Gekk upp í næstu götu (hm eða þarnæstu eiginlega) hér fyrir ofan. Sólin skein og ég var með litlu myndavélina. Ætlaði að taka fallegar myndir en endaði eiginlega á því að taka skrítnar myndir. Og nú er ég búin að vinna eina þeirra og gera hana enn skrítnari. Eigum við ekki bara að kalla það listrænt frelsi ...

þriðjudagur, 5. febrúar 2013

Nærri því svarthvítt umhverfi

Önnur tilraun til að blogga úr farsímanum. Ljósmyndin leit reyndar út fyrir að vera mun litlausari í símanum - það er nú töluvert í að þetta geti kallast svarthvítt ...


Annars er ég eiginlega að "stelast" til að blogga í vinnunni. Það er svo rólegt í augnablikinu, enda febrúar yfirleitt afar rólegur mánuður. Svo er klukkan líka orðin fimm og ég er yfirleitt ekki líkleg til mikilla afreka á þessum tíma sólarhrings. Ég gæti reyndar þurrkað ryk, og ég gæti haldið áfram að færa bókhald, svona til að vinna mér í haginn fyrir næstu virðisaukaskil. En akkúrat þessa stundina er ég bara löt og nenni engu gáfulegu. Hm, hafði varla sleppt orðinu þegar ég rak augun í vörur sem hanga uppi á vegg og ég var víst einmitt að hugsa um það rétt áðan að endurraða þeim. 

---------------------------------------

Sko mína, búin að taka smá skurk í að endurraða vörum, þetta gat ég. 

------------------------------------------

mánudagur, 4. febrúar 2013

Meira um mat


Við erum alltaf á höttunum eftir nýjum mataruppskriftum sem henta fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Eftir því sem færri búa heima og Ísak stækkar þá er orðið auðveldara að finna slíkar uppskriftir, auk þess sem maður kannski áttar sig betur á því með tímanum hvað er líklegt til vinsælda.

Um daginn sá ég fiskuppskrift á bloggi sem heitir eldhussogur.com og sendi hana á Val í tölvupósti. Í kjölfarið fór hann að skoða bloggið og fann þar kjúklingauppskrift með chorizo pylsu og fleira góðgæti. Þar sem við höfðum ætlað að panta kjúklingabollur með chorizo pylsu á veitingastað um daginn, en þegar til kom reyndist rétturinn innihalda kjúklingabaunir, þá vorum við pínu spennt að prófa þessa uppskrift. Þannig að Valur keypti inn og eldaði þennan fína kjúklingarétt á sunnudagskvöldið. Okkur fannst þetta mjög góður matur og það fannst Ísaki líka, svo allir voru glaður. En rétturinn heitir Chilikjúklingur með chorizo pylsu, kirsuberjatómötum og rótargrænmeti, svona ef einhver hefur áhuga á að prófa.

Hm, ljósmyndin var nú ekki tekin sérstaklega með það í huga að sýna hana á blogginu, þá hefði ég "stíliserað" þetta aðeins betur, hehe ;)

laugardagur, 2. febrúar 2013

Ljúffengur kínóagrautur (gútenlaus)Þegar maður (kona) borðar ekki egg, mjólkurvörur eða glúten, þá dregur talsvert úr þeim möguleikum sem eru í boði varðandi morgunmatinn. Ég hef því verið á höttunum eftir nýjum uppskriftum og fann loks eina sem ég prófaði í gærmorgun og er alsæl með. Uppskriftina fann ég á vefsíðu sem heitir The Alkaline Sisters og hér er tengill á upprunalegu uppskriftina.

Það eru reyndar mun fleiri girnilegar uppskriftir á síðunni og alls kyns fróðleikur,  og ekki spillir fyrir að þar eru líka gullfallegar ljósmyndir. En varðandi heitið á síðunni, The Alkaline Sisters, þá eru sífellt fleiri að taka upp þann hugsunarhátt að basískt fæði henti líkamanum best, já eða þá basískt/súrt í hlutföllunum 80/20. Ég hef ekki sett mig ítarlega inn í þessi fræði en Robert O. Young er einn helsti talsmaður þessarar stefnu og hefur m.a. gefið út bókina The PH miracle en hann heldur einnig úti blogginu Articles of Health.

En aftur til þeirra systra. Julie hafði þjáðst af mjög slæmu brjósklosi í baki í 18 mánuði þegar hún áttaði sig á því að hún þyrfti að læknast "innan frá" og ákvað að prófa basískt mataræði. Hún fékk Yvonne systur sína með sér í að prófa þetta en Yvonne hafði átt við offituvandamál að stríða. Það er skemmst frá að segja að heilsufar þeirra systranna gjörbreyttist í kjölfarið og hafa þær fylgt basísku mataræði síðan haustið 2008.

Læt ég þessum langa formála hér með lokið og sný mér að uppskriftinni góðu.

Kínóagrautur
1 bolli kínóa
3 bollar möndlumjólk
1/2 tsk. vanilla
1 tsk. kanill
1/4 tsk. all spice
1/2 bolli rúsínur
1 miðlungs stórt epli, brytjað
stevia eða agave (ef vill)
1/2 bolli saxaðar valhnetur
4 msk. sólblómafræ
1 bolli bláber
Ofaná: Hindber, jarðarber, pecan hnetur, möndlur, hempfræ (eitthvað af þessu)

  • Setjið kínóa, mjólkina, kryddið og rúsínur í pott. Látið sjóða í 5 mín. 
  • Bætið þá eplinu út í og sjóðið í 5-7 mín. í viðbót. 
  • Hrærið í og takið svo pottinn af hellunni og látið jafna sig í 5 mín. Þá ætti grauturinn að hafa dregið í sig allan vökvann. 
  • Ef það er ennþá mikill vökvi, sjóðið í 3-5 mín. í viðbót og takið svo af hellunni og látið hvíla í 5. mín. Passa samt að grauturinn brenni ekki í þessari viðbótarsuðu. 
  • "Sykrið" ef þið viljið með agave eða stevia. 
  • Setjið valhnetur + fræ + ber + smá epli ofaná. Njótið :)

Ég gerði bara hálfa uppskrift, enda bara að elda handa sjálfri mér.
Ég átti ekki rúsínur svo ég notaði nokkrar döðlur í staðinn.
Sleppti líka all spice, veit ekkert hvaða krydd það er.
Sleppti sætuefnum, fannst döðlurnar sæta þetta nóg.
Saxaði möndlur ofaná í staðinn fyrir valhnetur.

Mun pottþétt gera þennan graut oftar!

föstudagur, 1. febrúar 2013

Fallegt vetrarveður úti

Og ég í letikasti ... hehe. Eitthvað svefnleysi að hrjá frúna. Í fyrrinótt var ég andvaka milli 3 og 5 en í nótt vaknaði ég kl. 5 og var vakandi til ca. hálf sjö. Ég reyndar bætti mér það nú upp með því að sofa til að verða hálf tíu í morgun. Síðan er ég nánast eingöngu búin að liggja í leti. En mér tókst nú samt að rölta út með myndavél einn lítinn hring í hverfinu.


Bentu í austur ...
Hm, sem sagt svona göngustíga þema í dag. Hér stend ég í Hamragerði og beini myndavélinni að göngustígnum sem liggur að Stekkjargerði.


 Bentu í vestur .... 

Og hér stend ég í Kotárgerði og beini myndavélinni upp göngustíginn sem liggur að Stekkjargerði.

Úff en nú þýðir ekki að búa í Latabæ lengur. Snögg sturta var það heillin og svo að drífa mig að sækja vörur áður en ég fer í vinnuna kl. 14.