föstudagur, 27. október 2006

Mér leiðast rútínur

Þegar ég hef fylgt sama munstrinu í nokkurn tíma kemur yfirleitt að því að ég nenni því ekki lengur. Þarf smá tilbreytingu. Ég hef synt á hverjum morgni alla virka daga núna í haust og verið mjög ánægð með það. Svo í morgun nennti ég allt í einu ekki í sund. Langaði að gera eitthvað annað. Vissi þó ekki hvað það ætti að vera. Þannig að nú er klukkan orðin 8.34 og ég er ekki búin að gera neitt af viti ennþá. Byrjaði á því að lesa blöðin (eða hluta af öllu því blaðafargani sem kemur hér inn um lúguna á morgnana) og færði mig svo inn í tölvuherbergið og fór að lesa blogg. Íhugaði að leggja mig aftur því ég hef verið svo þreytt undanfarið en aldrei þessu vant þá fann ég að ég var of vel vakandi til þess að geta sofnað aftur. Það vantar svo sem ekki verkefnin, ég gæti t.d. skúrað eldhúsgólfið og farið með rusl upp í Endurvinnslu - en í augnablikinu nenni ég ekki að gera neitt svo viturlegt. Spurning að fara í bað, fara út að ganga, prenta út peysuuppskriftina af netinu (garnið kom með póstinum í gær), hafa samband við vinkonu mína - eða bara halda áfram að sitja eins og svefngengill fyrir framan tölvuna og lesa fleiri blogg... ?


Engin ummæli: