laugardagur, 30. júní 2012

Viðburðarríkur dagur

Já það er óhætt að segja að gærdagurinn hafi verið fjörugri en margir aðrir, svona miðað við að venjulega fer ég nú aðallega í sund, vinnuna og er heima hjá mér. Ég reyndar byrjaði daginn á að fara í sund og síðan í vinnuna og var komin heim um þrjúleytið. Þá notaði ég tímann til að hvíla mig fram til fjögur, en þá var opnun á ljósmyndasýningu okkar ÁLFkvenna í Lystigarðinum.

Það er ekki hægt að að segja að fjölmenni hafi verið við opnunina, en reytingur þó, og fólk almennt jákvætt á myndirnar okkar. Þær lífga líka uppá umhverfið þarna í nágrenni kaffihússins, og bæði eigendur kaffihússins og Björgvin lystigarðs"stjóri" voru mjög sáttir við myndirnar. Svo létum við líka útbúa bækur og póstkort sem hægt er að kaupa í kaffihúsinu. Pínu fyndið eiginlega að vera með ljósmynd eftir sig á póstkorti, svona þegar ég hugsa um það. Að því sögðu, þá er ég reyndar að hugsa um að láta útbúa tækifæriskort með ljósmyndum eftir mig, svo ég ætti kannski bara að venja mig við tilhugsunina ;-)


Hið velheppnaða kaffihús, Café Björk, sést þarna ásamt nokkrum af sýningargestunum.Andri og Valur litu við og heilsuðu uppá mig :)


Flottir!Ég dreif mig svo heim að borða um sexleytið, en að kvöldmatnum loknum fóru allir "kallarnir" mínir í flug. Það er að segja, Andri flugmaður fór í flugtúr með bróður sinn og föður. Ég fór með þeim út á flugvöll og tók myndir af þeim til gamans.


Smá spenningur í þeim feðgum fyrir flugið.


 Andri að fylla bensín á vélina.


Flottir feðgar á leið í flugferð.


Og komnir í loftið.

Þegar þeir voru farnir í loftið ók ég sem leið lá inn í bæ og í Listagilið, en þar var verið að setja upp sýninguna Textílbombur. Það hitti svo skemmtilega á að þegar ég kom þá var búið að setja upp annan fánann okkar og verið að setja hinn upp. Ég verð að segja að það kom mér skemmtilega á óvart hvað þetta kom vel út :-) Svo staldraði ég aðeins við í gilinu enda alltaf gaman að vera í félagsskap ÁLFkvenna, þetta er ótrúlega skemmtilegur hópur.


Hér sést fáninn með myndinni minni, en hún er efst. Hm, sést kannski ekki svo vel ...


Og hér sjást báðir fánarnir.

Heim var ég komin um tíuleytið, frekar lúin en samt sæl og glöð með daginn.

fimmtudagur, 28. júní 2012

Lystisemdir í Lystigarðinum

Á morgun kl. 16 opnar ljósmyndasýning ÁLFkvenna í Lystigarðinum hér á Akureyri. Hún er staðsett í næsta nágrenni við nýja kaffihúsið, Café Björk. Í kvöld var verið að setja upp sýninguna og Valur og fleiri karlmenn okkur tengdir komu og aðstoðuðu okkur. Það er að segja, þeir sáu alfarið um að festa myndirnar upp, við gerðum ekki annað en ákveða uppröðun þeirra (en það var nú reyndar ansi flókið verkefni).

Ég er að vinna á morgun til kl. 14 og svo þurfum við að mæta í Lystigarðinn um þrjúleytið til að undirbúa opnunina. Þetta verður langur dagur hjá mér, því til að kóróna þetta, þá er partur af okkur ÁLFkonum líka með í annarri stórri samsýningu, Textílbombunni. Sú sýning verður sett upp annað kvöld og mun ábyggilega taka tímann sinn að setja upp öll verkin, og má búast við að það standi fram á nótt. Ef satt skal segja kvíði ég morgundeginum aðeins og vona að ég nái að standa uppá annan endann allan þennan tíma.

Textílbombu-verkefnið átti að vera litríkt, svo ég tók mynd sem ég átti  og breytti henni til að gera hana að litaBOMBU. Myndir þeirra hinna voru unnar á svipaðan hátt. Síðan eru 5 og 5 myndir settar á fána og þeir hengdir á ljósastaura efst í gilinu. Verður nú pínu spennandi að sjá hvernig þetta kemur út allt saman, því það er óhætt að segja að þetta hafi verið fremur erfið fæðing hjá okkur. En hér má sjá upprunalegu myndina mína -- og svo endanlegu útgáfuna, þegar búið var að ýkja litina alveg í topp. Ég er ekki vön að vinna myndir svona mikið, en gaman að leika sér aðeins í tengslum við þetta ákveðna tilefni.
mánudagur, 25. júní 2012

Vonbrigði = Væntingar - Raunveruleiki


Ég hef ekki verið í bloggstuði undanfarið. Eftir 10 daga tímabil þar sem ég var ótrúlega spræk, helltist þreyta yfir mig aftur, með tilheyrandi vonbrigðum. En ég er reyndar ekki ein um það að verða fyrir vonbrigðum þegar slíkt gerist.

Catherine Eide Vesterby, er norsk kona sem þjáist af síþreytu, og bloggar um líf sitt. Hún er nýkomin heim úr 3ja vikna fríi í Egyptalandi, þar sem öll líðan hennar var svo miklu betri. Eins og þá vill gerast, fór hún á fullt að hugsa um alla hlutina sem hún ætlaði að gera þegar hún kæmi heim og væri með meiri orku en venjulega. EN - við heimkomuna hrundi hún því miður aftur tilbaka í sitt þreytu- og veikindaástand. Bloggfærslan hennar "Antiklimaks" fjallar einmitt um þetta. Og svo sannarlega er þetta eitthvað sem ég kannast við, þó ég sé ekki jafn veik og Cathrine, sem betur fer.

Það er þetta með væntingarnar, raunveruleikann og vonbrigðin. Innan markaðsfræðinnar er lögð áhersla á að reyna að stýra væntingum fólks rétt, því ef of mikið bil er á milli væntinga og upplifunar, þá verður viðskiptavinurinn fyrir vonbrigðum.

Ég er núna að lesa bókina Emotional Equations, eftir Chip Conley. Í henni setur hann tilfinningar upp sem stærðfræðiformúlur, og viti menn, þar kemur fyrir jafnan:

Vonbrigði = Væntingar - Raunveruleiki

Hér er þá málið að reyna að hafa áhrif á annað hvort væntingar, eða skynjaðan raunveruleika. Gera sér minni eða raunhæfari væntingar, án þess þó að leggjast í svartsýni fyrirfram. Varðandi raunveruleikann, þá snýst ekki málið alltaf um stöðuna sjálfa, heldur það hvernig við túlkum hana, og hvernig okkur finnst að líf okkar "ætti" að vera. Ef það er skoðun mín að ég eigi alltaf að vera full af orku og geti bara þannig verið ánægð með lífið, þá er hætt við því að ég verði fyrir vonbrigðum. Í ljósi sögunnar þá ætti ég að vita að þreyta er búin að vera minn fylgifiskur það lengi, að ólíklegt er að hún hverfi nokkurn tímann alveg.

Chip Conley vitnar í bók sinni í hinn þekkta eðlisfræðing Stephen Hawking, sem er með Lou Gehrigs sjúkdóm og að stærstum hluta lamaður. Það hefur samt ekki hindrað hann í vísindastörfum sínum, enda hefur hann sagt:
 "Einbeittu þér að því að gera þá hluti sem fötlun þín hindrar þig ekki í að gera vel. Syrgðu ekki þá hluti sem fötlunin kemur í veg fyrir að þú getir gert.

Og einnig:
" Væntingar mínar urðu að engu þegar ég var 21 árs. Allt sem gerst hefur síðan þá er bónus."

Þannig að ... nú er málið að reyna að sitja á sér hvað væntingar varðar og hætta að ímynda mér að ég sé "að verða frísk" í hvert skipti sem ég er aðeins hressari í nokkra daga

Já og vera þakklát fyrir allt sem ég get þó gert!! Ég get t.d farið út í garð þó ég sé þreytt og tekið myndir af sumarblómunum :-) 

sunnudagur, 17. júní 2012

Fjólan alltaf falleg

Við Valur skruppum smá rúnt í kvöldsólinni. Ég fann þessa fallegu fjólur í vegkantinum, rétt innan við Kaupang í Eyjafjarðarsveit. þriðjudagur, 12. júní 2012

11 heilræði frá 11 veikindaárum

Toni Bernhard er fyrrum lagaprófessor við Kaliforníuháskóla. Fyrir 11 árum fór hún ásamt manni sínum í ferð til Parísar. Þar veiktist hún af alvarlegum vírus og hefur ekki náð sér síðan. Í kjölfarið þurfti hún að hætta að vinna og þrátt fyrir margar tilraunir til lækningar, er hún ennþá mikið veik. Toni lifir lífi sínu að mestu heimavið og er rúmliggjandi stóran hluta sólarhringsins. 
Velflestir myndu sjálfsagt missa móðinn við slíkar kringumstæður, en hún hefur fundið leið til að lifa með ástandi sínu og segir nánar frá því í bók sem hún skrifaði (rúmliggjandi) og nefnist “How to Be Sick: A Buddhist-Inspired Guide for the Chronically Ill and their Caregivers (Wisdom Publications, September 2010). Á heimasíðu bókarinnar er einnig hægt að lesa meira um Toni sjálfa og líf hennar. 
Hún skrifar einnig greinar fyrir vefútgáfu Psychology Today, og þar birtist grein sem ber heitið „11 tips from 11 years sick, What I've learned from 11 years of chronic illness“ en þar deilir Toni reynslu sinni af 11 ára veikindum og kemur með jafnmörg heilræði fyrir fólk sem haldið er langvinnum sjúkdómum. 
Að mínu mati veitir þessi stutta grein í heilræða-formi mikla innsýn í það hvernig er að vera haldinn langvinnum sjúkdómi sem ekki finnst lækning við. Toni kemur hér með margar góðar ábendingar fyrir fólk í þessari stöðu, og ég held að ég sjálf hafi gott af því að reyna að tileinka mér ýmislegt sem þarna kemur fram. En vonandi geta fleiri en ég nýtt sér eitthvað af þessum heilræðum. 
Ég snaraði greininni yfir á íslensku og fékk góðfúslegt leyfi Toni til að birta hana á blogginu mínu. Og hér tekur Toni við: 
 

11 heilræði frá 11 veikindaárum

Fyrir ári síðan skrifaði ég grein með fyrirsögninni “10 heilræði frá 10 veikindaárum.” Síðan er liðið eitt ár og ég er ennþá veik. Þannig að ég fann fram gamla pistilinn, breytti sumum ráðunum og bætti við önnur. Og að sjálfsögðu eru þetta núna 11 ráð, ekki 10!  

1. Upphaf langvinnra sjúkdóma eða verkja, markar einnig upphaf sorgarferlis 
Ég hefði getað gengið í gegnum fyrstu þrjú stig sorgarferlisins - afneitun, reiði, sorg - með mun meiri reisn, hefði ég vitað að sorg er eðlilegt viðbragð við skyndilegum og óvæntum heilsubresti. Það vissi ég hins vegar ekki. Upphaf langvinnra verkja eða veikinda er gríðarleg lífsreynsla. Núna þegar ég horfi til baka á það sem kom fyrir mig, þá virðist það svo augljóst, að það að missa getu mína til að vera virk, myndi hafa í för með sér afneitun, reiði og sorg. En það tók mig mörg ár að átta mig á því, og allan þann tíma var ég ekki nálægt því að komast á fjórða stig sorgarferlisins: samþykki. 

2. Þetta er bara líf þitt
Skrif Zen kennarans Joko Beck, hafa hjálpað mér að verða sátt við líf mitt. Í einni af uppáhaldstilvitnunum mínum segir hún: "Líf okkar er alltaf í lagi. Það er ekkert að því. Jafnvel þó við eigum við hræðileg vandamál að stríða, þá er þetta bara líf okkar." Þessi orð veita mér mikla hughreystingu. Það er ekki hægt að laga allt - hugsanlega ekki einu sinni heilsu mína.  

Í orðunum "bara líf mitt" felst að ég þurfti að hætta að vinna mörgum árum áður en ég reiknaði með því, ég fer sjaldan út úr húsi, mér líður alltaf eins og ég sé veik og ég hef ekki lifað félagslífi í langan tíma. Þetta eru staðreyndirnar um líf mitt. Ég samþykki þær og reyni að gera það besta úr því lífi sem mér hefur verið gefið. Hluti af því að gera hið besta úr þessu lífi, hefur verið að skapa mér nýtt líf, sem fer að mestu leyti fram í rúminu. 

3. Hugsaðu út fyrir rammann þegar þú skapar þér nýtt líf 
Hið nýja líf þitt getur falið í sér ljósmyndun, hannyrðir, skriftir, eða að hjálpa öðrum í gegnum síma eða tölvu. Hugsaðu út fyrir rammann ef þú getur ekki lengur gert það sem þér finnst skemmtilegast. Ef einhver hefði sagt mér, fyrstu árin sem ég var veik, að ég ætti eftir að skrifa bók liggjandi í rúminu, þá hefði ég svarað, "Ekki séns". En ég gerði það og nú er ég að skrifa bók númer tvö. Ég vona að þú munir opna hjarta þitt og huga fyrir þeim möguleikum sem eru innan seilingar.  

4. Ekki eyða þinni dýrmætu orku í að hafa áhyggjur af því hvað aðrir kunni að hugsa um veikindi þín
Fyrst þegar ég varð veik, þá var ég mjög viðkvæm fyrir því sem ég taldi vera álit annarra á veikindum mínum. Skilja þau hversu veik ég er? Halda þau að ég sé að gera mér upp veikindi? Ef einhver sér mig á kaffihúsi, mun hann draga þá ályktun að mér sé batnað?  

Þessar streituvaldandi sögur sem ég sagði sjálfri mér, urðu aðeins til þess að bæta andlegri þjáningu ofan á mínar líkamlegu þjáningar. Það tók mig þónokkur ár að skilja að ég yrði fyrst og fremst að hugsa um sjálfa mig, í stað þess að hugsa um álit annarra á mér! Nú velti ég ekki lengur vöngum yfir því hvernig aðrir sjá veikindi mín. Ég veit sjálf að ég er veik, og það er nóg fyrir mig. 

5. Það er ekki hægt að horfa framhjá því: langvinnir verkir og veikindi taka sinn toll af vináttusamböndum 
Sumir vina minna hurfu á braut. Aðrir voru áfram til staðar, en samband okkar hefur breyst. Áður en ég veiktist naut ég þess að segja frá atburðum í lífi mínu. En núna eru þessir atburðir ekki svo spennandi: Lýsing sjúkdómseinkenna eða upptalning yfir aukaverkanir af lyfjum, frásögn af heimsóknum til lækna. Það tók mig nokkur ár að læra að vera vinur þegar ég er veik. Nú einbeiti ég mér að því að tala um málefni sem eru ótengd veikindum mínum, og mér til undrunar þá hefur það orðið mér dýrmætur stundarléttir frá sjúkdómi mínum.  

Áður fyrr var ég bitur í garð þeirra vina minna sem létu sig hverfa, en ég hef áttað mig á því að vinskapur, eins og allt annað í lífinu, er síbreytilegur. Fólk gæti hafa horfið úr lífi mínu vegna ýmissa ástæðna - vegna álags og streitu í þeirra eigin lífi, eða þau upplifa vanlíðan í tengslum við veikindi (sem kannski minna þau á þá staðreynd að þau eru ekki ódauðleg). Ég veit að þau óska mér alls hins besta, og ég óska þeim alls hins besta.  

6. Þú getur verið að vinna, jafnvel þó þú sért ekki útivinnandi 
Ég ligg í rúminu stóran hluta dagsins, og mér hættir til að hugsa um sjálfa mig eins og ég sé ekki í vinnu. En ég er að vinna! Það er vinna að skrifa þennan pistil. Það er vinna að svara tölvupósti frá fólki sem hefur lesið bókina mína. Það er vinna að skrifa nýju bókina mína! Kannski teiknar þú, prjónar eða saumar út (svo ekki sé minnst á umönnun barna): það er vinna. Ef út í það er farið, getur það raunar verið töluverð vinna að leyfa fólki að fylgjast með stöðu mála varðandi heilsufar okkar.  

Sjónarmið mitt er, að á sama hátt og við erum orðin vön að hugsa um foreldra sem eru heima með börnum sínum, sem vinnandi fólk, þá eru þeir sem hafa þurft að yfirgefa atvinnulífið sökum langvinnra verkja eða veikinda, oft að vinna. Jafnvel þó það sé ekki launuð vinna. Þannig að þegar fólk segir við okkur, “Ég vildi að ég gæti legið fyrir allan daginn aðgerðalaus,” þá vitum við að þau eru engan veginn að átta sig á hlutunum. 

7. Ekki hræðast depurð 
Fólk við góða heilsu verður af og til dapurt, svo auðvitað verðum við það líka. Okkar depurð getur verið sérlega sterk, af því hún tengist oft þeirri gremju og vonleysi sem við upplifum vegna veikinda okkar. Eitt af því sem kallar fram depurð hjá mér, er dagur þar sem ég vakna og er óendanlega þreytt á því að vera veik. Ég hef áður sagt söguna af því þegar ég hitti heimilislækninn minn, skömmu eftir að bókin mín var gefin út. Eins og venjulega spurði hann mig hvernig mér liði. Ég andvarpaði og sagði, “Ég er þreytt á því að vera veik.” Ég bjóst hálf partinn við því að hann myndi svara, “Ha? Er höfundur bókarinnar Hvernig á að vera veikur þreytt á því að vera veik? En hann gerði það ekki. Hann skildi mig.  

Kosturinn við depurðina er sá að hún er eins og veðrið. Blæs upp og síðan lygnir aftur. Hún birtist í huganum, stoppar í einhverja stund og fer síðan. Ég hef lært að reyna ekki að þvinga hana til að hverfa, því við það versnar hún bara. Í staðinn reyni ég að afvopna hana með því að taka vingjarnlega á móti henni, jafnvel þó hún komi óboðin. Ég segi eitthvað þessu líkt, “Ég þekki þig depurð. Þú ert bara komin í heimsókn aftur?” Síðan bíð ég eftir að hún fari, svona eins og ég bíð eftir því að lægð gangi yfir – kannski með því að klappa hundinum mínum, búa mér til uppáhalds heita drykkinn minn eða horfa á mynd í sjónvarpinu. 

8. Guði sé lof fyrir internetið 
Ég veit að mörg okkar þurfa að passa sig, því orkubirgðirnar klárast fljótt þegar verið er í tölvu, en ef ég hefði ekki aðgang að internetinu þá væri svo margfalt erfiðara að lifa með þessum sjúkdómi. Hugsaðu þér hvað fólk var einangrað þegar það komst ekki út úr húsi vegna ástands síns. Það hafði kannski síma, en engan tölvupóst, engan aðgang að heilsu-upplýsingum, og enga möguleika á að hafa samskipti við aðra sem haldnir voru sambærilegum sjúkdómi. Við hinsvegar getum “hitt” fólk víðsvegar úr heiminum í gegnum blogg og Facebook og aðra félagslega miðla.  

Ég hef heyrt í mörgum sem búa einir og komast ekki út úr húsi. Þeir segja mér að vinir þeirra á netinu séu eini stuðningur þeirra. Ég er svo lánsöm að hafa elskandi eiginmann mér við hlið, en engu að síður finnst mér mjög hughreystandi að geta tengst einhverjum á netinu sem er líka með langvinnan sjúkdóm og geta sagt, “Það er einmitt svona sem MÉR líður!” (og hér er ég að tala bæði um andlega og líkamlega líðan). 

9. Finndu fegurðina í hversdagsleikanum 
Hversdagslífið er ekki óspennandi ef við horfum vandlega á það. Ég er mjög hrifin af setningu úr bókinni Emmu eftir Jane Austin, þar sem Emma horfir út um gluggann, á litlu uppákomurnar sem áttu sér stað á þorpsgötunni og segir, “A mind lively and at ease, can do with seeing nothing, and can see nothing that does not answer.”  

Áður fyrr fannst mér að fátt væri að gerast í húsinu mínu og nánasta umhverfi. Núna finnst mér eins og það sé heill heimur til sýnis fyrir utan gluggann minn. Árstíðirnar fjórar eru svo greinilegar – sumarfuglar og vetrarfuglar; litlir íkornar sem vaxa upp og verða að fullorðnum íkornum; græn lauf sem verða appelsínugul. Einnig þykir mér vænt um alla litlu atburðina í svefnherberginu mínu: könguló sem dettur niður úr loftinu á mjóum silkiþræði og stoppar rétt fyrir ofan rúmið mitt; fluga sem flýgur hring eftir hring um herbergið, eins og brjálaður ökumaður úti á þjóðveginum. 

10. Reyndu meðvitað að finna jákvæðar hliðar á hinu nýja lífi þínu
Dag einn var hugur minn fullur af hugsunum um það hversu óréttlátt það væri að þurfa að lifa með langvinnan sjúkdóm. Undir áhrifum af Byron Katie (sem ég útskýri nánar í bókinni), ákvað ég að snúa þessum hugsunum við. Ég tók upp penna og ákvað að skrifa niður allt sem mér þætti gott við að vera veik. Ég byrjaði að gera þessa æfingu með háðslegt glott á andlitinu, en þegar ég hófst handa við að skrifa varð ég undrandi á því hvað mér datt í hug. Hér eru fjögur af tólf atriðum á listanum mínum: Ég þarf ekki að vakna við vekjaraklukku; ég er aldrei föst í umferðarteppu; ég hef fullkomna afsökun til að þurfa ekki að mæta á viðburði sem mig langar ekki að taka þátt í; “Þarf að gera” listinn minn er mjög stuttur.  

Ég vona að þú prófir að gera þessa litlu æfingu. Ég held að niðurstöðurnar komi þér á óvart. 

11. Það er allt í lagi að vera “gangandi mótsögn”
Í þessu samhengi hefði ef til vill verið réttara að segja “sitjandi mótsögn” eða “liggjandi mótsögn” en ég held mig við þann háttinn að tala um “gangandi mótsögn” sem vísar til þess að hafa einkenni sem virðast vera í mótsögn við hvert annað.  

Ég hef uppgötvað að það er allt í lagi að upplifa tilfinningar sem virðast vera í mótsögn hver við aðra. Ég get verið glöð og sorgmædd á sama tíma – sorgmædd vegna þess að ég er veik, en glöð vegna þess að ég get haft samskipti við annað fólk í gegnum internetið, sem skilur hvernig svona líf er. Búddatrúarkennarinn Jack Kornfield, lýsti lífinu einu sinni á námskeiði sem “hamingjusamt-sorgmætt”. Ég kann vel við þá lýsingu.
Ég get líka verið skelfilega vonsvikin, en á sama tíma verið sátt við líf mitt. Það sem veldur mér vonbrigðum núna er að það lítur út fyrir að ég geti ekki mætt á 30 ára endurfundi útskriftarárgangsins míns úr lagadeildinni. Mig langar óskaplega mikið til að fara og er mjög vonsvikin yfir því að komast ekki, en eins undarlega og það hljómar þá er ég engu að síður sátt við líf mitt – ég á ágætis heimili, umhyggjusama fjölskyldu og vinalegan hund.  

Þegar ég leyfi þessum andstæðu tilfinningum að fá pláss í hjarta mínu, þá líður mér betur og er sáttari við líf mitt. Það er einlæg ósk mín að þú munir einnig læra að ná síkri sátt.laugardagur, 9. júní 2012

Dásamlegur dagur

Já þvílíkur dýrðardagur! Ekki nóg með að ég vaknaði í sól og sumaryl í morgun, heldur var þetta fyrsti laugardagurinn í langan tíma þar sem ég var ekki ónýt af þreytu. Fyrir það var ég alveg óendanlega glöð og þakklát. Ég ákvað að byrja daginn á því að fara í sund í góða veðrinu og greip með mér myndavél á leiðinni út úr dyrunum. 

Í sundinu hélt ég uppá það að vera svona spræk, með því að synda heilar 16 ferðir. Sem er nýtt met hjá mér. Ég setti mér það sem markmið þegar ég fór heim af Kristnesi að vera farin að synda 16 ferðir í september, svo ég er nú bara nokkuð ánægð með sjálfa mig, þó það sé nú reyndar alls ekki víst að ég komist þennan sama fjölda á morgun, en það er nú annar handleggur. Ég var reyndar að hugsa um að synda 18 ferðir og hefði alveg komist það, en ákvað að vera skynsöm og fara ekki framúr sjálfri mér.

Eftir sundið fór ég síðan smá myndarúnt, enda var veðrið til þess. Var að hugsa um að kíkja í Lystigarðinn þar sem var opið hús í nýja kaffihúsinu, en ákvað að eiga það inni. 


Þessi mynd er tekin efst í Spítalaveg og sést út á himinbláan Pollinn.


Þessi er tekin frá klassísku sjónarhorni, af veginum við Skautahöllina.


Þarna siglir einhver inn ... ofurlítil duggan. Nei annars, ekki lítil heldur stór!


Næst lá leið mín niður á Torfunesbryggju. Þarna sést í stefnið á Húna II og í fjarlægð er "alvöru" lítil dugga.


Þarna er svo verið að lóðsa skemmtiferðaskipið Ventura að bryggju. Með því komu tæplega 3.000 farþegar. Er þetta skemmtiferðaskip nr. 2 í röðinni af þeim 65 skipum sem munu koma í sumar.


Var aðeins að leika mér, þetta er kannski fremur óvenjulegt sjónarhorn á menningarhúsið okkar.


Þarna sést vel hvað Ventura er stórt skip. Skil samt ekki alveg af hverju litirnir í myndinni eru svona skrítnir hjá mér...

Þegar hér var komið sögu var ég orðin svöng og dreif mig heim. Þar snöggsteikti ég glás af grænmeti og beikon á pönnu og settist svo út í garð og borðaði í sólinni. Ísak sat með mér í smá stund, en annars er hann ekkert sérstaklega hrifinn af sólinni, eða finnst hann að minnsta kosti ekki vera að missa af neinu þó hann sé inni heilan sólardag.

Eftir matinn setti ég í þvottavél en dreif mig svo aftur út. Í þetta skiptið í miðbæinn. Myndavélin var aftur með í för, enda gaman að smella af nokkrum myndum í bænum. Sérstaklega þar sem það leit út fyrir að velflestir farþegar af skemmtiferðaskipinu hefðu ákveðið að sleppa hinni hefðbundnu ferð til Mývatns, og rölta frekar um miðbæinn. Það er ekki oft sem svona margt fólk er samankomið í miðbænum, svo mikið er víst!


Hér sést nýja kaffihúsið í Skátagilinu - Kaffi Ilmur.


Og hér sést annað nýtt kaffihús, en það er í nýuppgerða gamla Hótel Akureyri, nú Akureyri Backpackers. Hér má sjá fleiri myndir þaðan (af facebook síðu þeirra).


Eftir að hafa rölt um í dágóða stund og kíkt inn í nokkrar fatabúðir (vantar sumarlegar buxur sem passa á mig, þessar gömlu eru allar orðnar of stórar) þá fór ég aftur heim, og fékk mér te og brauð úti í garði. Tók enga mynd af því...

Svo fór ég aftur niður í bæ og mátaði og keypti einar buxur sem ég hafði séð í bæjarferð nr. 1. Að því loknu skellti ég mér í heimsókn til hennar Dóru sem bjó á móti okkur hér í Stekkjargerði en er núna flutt í bleiku og bláu blokkirnar, en það eru blokkir með þjónustukjarna fyrir aldraða. Það var mjög gaman að koma til hennar og sjá hvað hún er búin að koma sér ljómandi vel fyrir í nýju íbúðinni sinni og er með frábært útsýni.

Næst fór ég aftur heim og lá í sólbaði og las í smá stund. Það var þó ekki lengi því nú var ég orðin svöng. Þar sem kokkurinn er ekki heima þarf ég að elda ofan í mig sjálf ... en átti reyndar afgang af grænmetissúpu. Skrapp í Hrísalund og keypti mér eina sneið af hrefnukjöti sem ég steikti, skar í bita og skellti út í súpuna. Með þessu drakk ég smá rauðvínstár (kláraði nú ekki einu sinni þetta eina glas sem sést hér á myndinni). Já og borðaði að sjálfsögðu úti í þriðja skiptið í dag :-)


Á morgun stefnir allt í fulla dagskrá hjá mér, eða svona næstum því. Ég ætla pottþétt í sund í fyrramálið (vona að það verði sól) og svo er mér boðið í afmælisbröns hjá Kidda. Á morgun koma líka Guðjón bróðir Vals og Edda konan hans og gista eina nótt. Ég þarf að láta mér detta eitthvað í hug til að elda ofan í þau - og já laga aðeins til í húsinu og svona.

Og nú segi ég þessu maraþon-mynda-bloggi lokið.

sunnudagur, 3. júní 2012

Örlítið bjartara yfir frúnni í dag

Hehe, ég er eiginlega alveg viss um að ég hef áður notað nákvæmlega þessa sömu fyrirsögn á bloggfærslu. En alla vega, já mér líður aðeins betur í dag en í gær, ég var a.m.k. nógu hress til að fara í sund í morgun og synda 14 ferðir (með hléum á milli). Svo reyndar hrundi ég aðeins um hádegisbilið, en já já það er gott að geta þá bara hvílt sig í dag.

Og svona af því ég fæ alltaf samviskubit þegar ég hef skrifað "þreytu- og þunglyndispistil" hér á bloggið, þá kemur hér eitthvað jákvætt og fallegt. Við Valur fórum í fyrrakvöld og keyptum sumarblóm frammi á Grísará. Í gær settum við þau svo í ker (já eða ég gerði það nú bara alveg sjálf, ótrúlegt en satt ;) og ég var bara alveg ljómandi ánægð með útkomuna. Segir maður ljómandi ánægð? Hm, hljómar eitthvað undarlega en ég læt það nú standa.


Hér sjást blómapottarnir við aðaldyrnar. Svo reyndar er þarna líka mjög falleg fjólublá hengiplanta sem sést ekki af því hún er í skugga.


 Bleikt Aftanroðablóm og gul Dalía. Einhverra hluta vegna kolféll ég fyrir öllum bleikum blómum sem ég sá, er ekki venjulega neitt sérstaklega "bleik".


Bleik Margarita í körfu fyrir aftan hús (á sólpallinum). Með henni eru hvítar Skrautnálar en þær sjást nú varla. Ilma hins vegar alveg dásamlega.


Já svo er stakk Valur upp graslauk úr beði og setti í pott, hann er þarna bakvið kerin.


 Valur plantaði líka þessu spínati og salati í bala og pott.


Hér sést drottinging sjálf, Birta gamla, að smeygja sér framhjá mér.


Við keyptum líka Stjúpur sem á eftir að gróðursetja, en það liggur samt við að mig langi í enn fleiri blóm ;-)

laugardagur, 2. júní 2012

Push & Crash

Nú er enn ein helgin runnin upp. Veðrið sýnir sínar allra bestu hliðar, ég þarf ekki að vinna í dag, og gaman væri að geta t.d. unnið í garðinum eða skroppið í ljósmyndaferð. Af hverju geri ég það þá ekki? Af því ég er búin með alla innistæðuna í orkubankanum. 

Þessi skýringarmynd hér að neðan lýsir vel því ferli sem ég fer í gegnum, viku eftir viku, eftir viku. Bara það að vinna mína 4-5 tíma á dag virka daga, gerir það að verkum að ég fer framúr sjálfri mér, svona getulega séð, og helgin fer að mestu leyti í hvíld.


Eftir að hafa hvílt mig yfir helgi er ég búin að ná að safna mér aðeins saman og er þokkalega hress mánudag og þriðjudag. Á miðvikudegi finn ég að farið er að halla undan fæti, sem sést best á því að ég veigra mér við að fara á fundi í ljósmyndaklúbbnum sem haldnir eru á miðvikudagskvöldum. Þetta er frábær félagsskapur en það dugar sjaldnast til að draga mig út úr húsi. Mér tekst þó að harka af mér og halda nokkurn veginn haus á fimmtudegi en föstudagar eru oftast erfiðir. Þá finn ég hvernig ég næ ekki lengur að berjast á móti þreytunni og veit hvað bíður mín.

Á laugardagsmorgni vakna ég yfirleitt eins og keyrt hafi verið yfir mig. Mig verkjar í skrokkinn og er skelfilega stíf og stirð, en það er samt ekki það versta. Yfirgnæfandi þreytan er enn verri. Það er eins og það vanti allan kraft í vöðvana.  Við þetta bætist eyrnasuð, skelfilegt óþol fyrir hávaða, hjartsláttartruflanir og almenn vanlíðan. Bara svo ég nefni það helsta ... ;-)

Að ekki sé minnst á andlegu hliðina. Ég fer á fullt að rífa sjálfa mig niður. Get ekki sætt mig við að eyða fríhelgunum mínum í endalausa hvíld. Fæ móral yfir því að taka ekki meiri þátt í heimilisstörfunum. Langar að gera svo margt.

Lengi vel neitaði ég að láta vefjagigtina stjórna lífi mínu. Ég dældi í mig sætindum og kaffi til að fá tímabundna orku og og með þessa orku að láni á okurvöxtum, gat ég þjösnast áfram og gert það sem mig langaði, hvort sem það var að fara út að taka myndir, eða taka til í skápum.

Nú er ég nánast hætt þessu. Því var eiginlega sjálfhætt þegar öll orkan var búin bæði af aðal- og varatanki. Eftir stendur samt pirringurinn yfir því að geta ekki verið fullgildur þátttakandi í lífinu. Mér hefur ekki enn tekist að sætta mig við þetta ástand og mér ætlar að reynast ótrúlega erfitt að finna leiðir til að lifa með því þannig að vel fari.

En svo ég vísi aftur í skýringarmyndina hér að ofan, þá er hún fengin af bandarískum vef, sem tileinkaður er fræðslu fyrir fólk með síþreytu og vefjagigt. Réttara sagt þá er myndin sem slík fengin af fræðslumyndbandi sem lýsir vel þessu Push & Crash ferli, sem margir ef ekki allir vefjagigtarsjúklingar þekkja svo vel af eigin raun.

Og svo ég snari þessu ferli yfir á ástkæra ylhýra móðurmálið þá lítur það einhvern veginn svona út:

Of mikil áreynsla án þess að taka tillit til eigin takmarkana => Aukin einkenni => Hvíld => Pirringur yfir öllu því sem maður getur ekki framkvæmt á meðan maður hvílir sig => Of mikil áreynsla þegar maður er hressari af því þá fer maður alveg á fullt ... og koll af kolli.

Jæja, þetta er ekki akkúrat skemmtilegasta bloggfærslan mín, en eitthvað sem ég þurfti að koma frá mér. Og nú ætla ég að fara út í garð og annað hvort gera það sjálf, eða horfa á Val setja sumarblóm í ker.