þriðjudagur, 30. júlí 2013

Meira hvað tíminn líður alltaf hratt

Ég man ekki eftir því að þetta hafi verið vandamál þegar ég var krakki en nú þjóta dagar, vikur og mánuðir áfram, án þess að ég fái rönd við reist.

Þessa stundina er það sumarfríið sem mér finnst hafa liðið alltof hratt. Við erum búin að hafa það mjög gott og núna er fjórða vikan í fríi. Ég hefði átt að byrja aftur að vinna í næstu viku, en ég verð hugsanlega viku í viðbót. Það yrði þá nýtt met held ég bara, a.m.k. síðan ég byrjaði að vinna í Pottum og prikum. En mamma og Ásgrímur eru að fara að flytja bráðlega, og ég gæti þá hugsanlega hjálpað eitthvað til í tengslum við flutningana. Að minnsta kosti ef ég er þokkaleg til heilsunnar, en ég hrundi nú reyndar í gigtarkast í fyrradag og gær, en er aftur skárri sem betur fer.

Þegar síðasti bloggpistill var skrifaður þá vorum við að leggja af stað í ferð nr. 2 með hjólhýsið. Við lögðum af stað um hádegi á laugardegi og ókum til Húsavíkur. Þar stoppuðum við og fengum okkur að borða á Naustinu, fiski-veitingastað við höfnina, áður en við héldum áfram austur á bóginn. Við höfðum hugsað okkur að gista á tjaldstæðinu í Lundi í Öxarfirði en þar var svo margt fólk að við nenntum ekki að vera þar. Þá var úr vöndu að ráða. Við vissum að það væri tjaldstæði á Kópaskeri en vissum hins vegar ekki hvort þar væri hægt að tengja hjólhýsið við rafmagn. En við ákváðum að láta á það reyna, enda bæði frekar hrifin af þessum litla bæ og umhverfi hans. Og viti menn, þegar við komum til Kópaskers, þá voru þrjú raftengi á tjaldstæðinu og eitt laust fyrir okkur. Við komum okkur fyrir á besta stað og það gekk eins og smurt að stilla af hjólhýsið. Veðrið var alveg frábær, sól og hiti en smá gola. 

Við byrjuðum á því að fara í smá labbitúr um bæinn, með myndavélar bæði tvö, eins og sannir túristar. Það voru ekki margir á ferli þrátt fyrir þetta dásamlega veður en ýmislegt sem bar fyrir augu. 


Tjaldstæðið er í láginni fyrir aftan þetta rauða hús, en sést sem sagt ekki hér ...


Við fyrstu sýn sýndist mér standa "hárskeri" á þessu skilti en eins og sjá má kallast nafn hárgreiðslustofunnar á við heiti bæjarins.


Við hliðina á hárgreiðslustofunni rákumst við á þennan forláta símklefa. Það er svo fyndið hvað maður er fljótur að gleyma hlutum sem áður þóttu sjálfsagðir, s.s. símklefum.


Fjaran við bæinn er afskaplega falleg, við sátum góða stund á grasbala þarna fyrir ofan og bara nutum útsýnisins.


Útsýnið í hina áttina. Snartarstaðarnúpur þarna hægra megin.


Það var fínn þurrkur þennan dag og gaman að sjá svona „gamaldags“ snúrustaura.


Uppi á holtinu, fyrir ofan barnaskólann (sem sést reyndar ekki á myndinni) má sjá þennan vísi að lystigarði. 


Það veitir víst ekki af að þvo bílana eftir akstur á íslenskum malarvegum.


Lúpínan setur svip á umhverfi sitt, sama hvað fólki almennt finnst um hana.

Eftir gönguferðina borðuðum við sushi í forrétt (hehe já bara lúxus á liðinu, en við keyptum sushi í Naustinu á Húsavík fyrr um daginn) og síðan grillaði Valur kjöt og við sátum úti að borða, þó farið væri aðeins að kólna. Ólíkt því þegar keypt er gisting á gistiheimili, þá er maður í útilegu í hjólhýsi. Og okkur finnst svo gaman að geta borðað úti í góðu veðri. Svo spjölluðum við líka aðeins við aðra Íslendinga á tjaldstæðinu. Þeir voru að flýja veðrið sunnanlands og létu sig ekki muna um að bruna alla þessa leið til að komast í sól og blíðu. 

Ég læt þennan hluta ferðasögunnar duga í bili. Þarf að kíkja aðeins á verkefni sem Hrefna er búin að skrifa og svo er ég líka á fullu að skrá niðurstöður vörutalningar fyrir P&P í Excel skjal. Þannig að það er best að hætta þessu blaðri og bretta uppá ermar ;-)

föstudagur, 19. júlí 2013

Útilega og góðir gestir

Já það er nóg að gera í sumarfríinu ;-) Fyrst gerðist það nú reyndar markvert að við keyptum okkur hjólhýsi. Það var hálfgerð skyndiákvörðun (en við höfum svo sem daðrað við þá hugsun áður án þess að nokkuð yrði úr í það skiptið). Og þar sem við vorum komin með hjólhýsi, þá lá beinast við að drífa sig í útilegu, sem og við gerðum. Lögðum af stað á þriðjudegi og ókum sem leið lá austur í Borgarfjörð Eystri. Þar plöntuðum við hjólhýsinu niður á tjaldstæðinu, reyndar ekki alveg á besta stað, en það slapp nú allt fyrir horn. Svo þegar átti að tengja hýsið við rafmagn kom í ljós að á tjaldstæðinu var 3ja fasa rafmagn en við bara með hefðbundnar klær. Þau á tjaldstæðinu áttu ekki millistykki því þeim hafði öllum verið stolið (fáránlegt!). Við vorum samt svo heppin að það fannst millistykki í bænum sem við gátum fengið lánað.

Við vorum 3 nætur í Borgarfirði Eystri og fannst alveg frábært að vera þarna. Borðuðum fiskisúpu í Álfasteini en elduðum annars sjálf. Meðal annars keyptum við Keilu í Fiskverkun Kalla Sveins, sem Valur marineraði og steikti svo á pönnu. Daginn eftir að við komum var þvílíkt dásemdarveður og við bara tókum lífinu með ró, gengum um þorpið, tókum myndir og lágum í leti. Næsta dag fórum við í ferð í Loðmundarfjörð í ágætis veðri en svo fór reyndar að hellirigna seinnipartinn og rigndi bara töluvert um kvöldið og nóttina. Við höfðum jafnvel ætlað að halda áfram austur fyrir land en spáin var ekki nógu góð, svo við ákváðum að fara frekar heim aftur og sjá svo bara til með meiri ferðalög.

Heim komum við á föstudagskvöldi og eins og við var að búast þá fór helgin í þreytu-breakdown og sunnudagurinn var einn allsherjar sófadagur hjá frúnni ... Einhverra hluta vegna þá er eiginlega enn sorglegra að vera ónýt af þreytu í sumarfríinu, heldur en þegar ég er að vinna. Sennilega af því maður hefur einhverjar óraunhæfar væntingar um að í sumarfríi eigi allt að vera svo æðislegt.

Á þriðjudaginn komu svo tengdaforeldrar mínir í heimsókn. Gunna og Matti hafa ekki komið lengi og það var virkilega gaman að fá þau. Hún er 87 ára á árinu og hann er orðinn 88 ára, svo það er nú meira en að segja það fyrir þau að skreppa norður í land. Við tókum lífinu mest með ró en fórum þó á Flugsafnið í gær og síðan á veitingastaðinn Silvu í Eyjafjarðarsveit þar sem við fengum góða grænmetissúpu og brauð. Þau fóru svo aftur suður í dag og hið sama gerði Ísak sem er að keppa á tölvuleikjamóti í HR um helgina.

Við erum svo búin að pakka flest öllu í hjólhýsið og ætlum að drífa okkur í aðra útilegu á morgun. Meiningin er að gista í Lundi í Öxarfirði eða á Raufarhöfn, sjáum til með það. Ég hef aldrei komið á Langanes og það er spáð góðu veðri á þessu svæði um helgina, svo það lofar góðu.

Hér má sjá nokkrar myndir úr ferðalaginu um daginn.






laugardagur, 6. júlí 2013

Komin í sumarfrí


Líkamlega að minnsta kosti... það tekur aðeins lengri tíma að komast andlega í frí frá vinnunni. Sérstaklega þar sem reksturinn hefur alfarið verið á mínum herðum síðustu 4 vikur, og þann tíma hef ég verið með hugann við þetta nánast dag og nótt. Það er að segja, ég hef verið að vinna í pöntunum heima á kvöldin og stundum mætt fyrr í vinnuna til að ná að gera hluti þar í friði áður en búðin opnar. Að ekki sé minnst á blessað bókhaldið sem ég ákvað að taka duglega syrpu í, til þess að þurfa ekki að vinna bókhaldsvinnu í sumarfríinu.

Það eru 4 pör búin að skrá gjafalista hjá okkur um næstu helgi og þá þarf að passa uppá að hlutirnir á óskalistanum séu til. Annað á að vera „under control“ held ég. Og bara svo það sé alveg á hreinu, þá treysti ég Sunnu fullkomlega til að sjá um að allt gangi sem smurt, það er ekki málið. Vandamálið er bara heilinn minn, sem heldur áfram að velta sér uppúr vinnutengdum hugsunum...

Annars ætlum við bara að byrja á því að slaka aðeins á hér heima. Ég er hálf lúin og ekki alveg tilbúin að stökkva af stað burt úr bænum. En markmiðið er samt að ferðast eitthvað og þá líklega bara „elta sólina“ eins og okkur Íslendinum er tamt að gera. En áður en hægt er að leggja af stað þarf ég líka að baka þurrkex til að taka með í nesti. Og kannski líka súkkulaðismákökurnar sem eru án hveitis. Já svo þarf ég að stytta nýju „ferðabuxurnar“ sem ég keypti í Kaupmannahöfn s.l. haust, og klára að prjóna lopapeysuna sem ég hef geymt ókláraða í heilt ár núna, en tók loks fram aftur um daginn þegar Anna var hérna. Þannig að verkefnin vantar ekki. En í dag ætla ég að liggja í leti!!


þriðjudagur, 2. júlí 2013

Það sem tíminn flýgur


Sumarið hefur verið svo dásamlega gott hingað til hér norðan heiða og ekki annað hægt en vera glaður yfir því. OK reyndar búið að vera frekar kalt síðustu daga en eftir allar þessar met-sólarstundir er sko ekki hægt að kvarta.

Við fengum góða gesti í síðustu viku þegar Anna systir og Sigurður sonur hennar komu og stoppuðu í 3 daga. Það var svo gaman og notalegt að hafa þau í heimsókn og Sigurður orðinn þvílíkt duglegur að tala íslensku. Ég gat fengið mig lausa úr vinnunni að langmestu leyti og bara dinglast með Önnu. Við fórum m.a. í bíltúr fram í fjörð, en þegar við vorum komin tæplega 30 km. frameftir þá sá ég að bíllinn var að verða bensínlaus ... hehe hafði náttúrulega ekki dottið í hug að tékka á því áður en við lögðum af stað. Eina ráðið var að bruna aftur inn til Akureyrar, taka bensín og leggja aftur í hann. Þá var klukkan reyndar orðin svo margt að það var kominn tími á hádegismat og við fórum á veitingastaðinn Silvu í Eyjafjarðarsveit. Það er sannarlega hægt að mæla með þeim stað. Svo ókum við enn lengra og kíktum inn á Smámunasafn Sverris Hermannssonar en það er í þriðja sinn sem ég fer þangað og hef alltaf gaman af. Þegar hér var komið sögu þurfti ég reyndar að mæta í vinnu, svo við drifum okkur í bæinn aftur. 

Daginn eftir fórum við svo að skoða Davíðshús og þaðan að skoða stórfenglega sýningu Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur í Listagilinu. Mæli með því að fólk kíki á þá sýningu ef það er statt á Akureyri eða í nágrenni. Á meðan við vorum í menningunni gekk Sigurður á Súlur og var snöggur að því. Um kvöldið náðum við svo öll að borða saman áður en Andri fór í vinnuna, en hann er að vinna sem þjónn. En já tíminn leið svo alltof hratt og allt í einu voru þau bara farin aftur. 

Nú á ég bara eftir að vinna í 3 daga og þá er ég komin í 4ra vikna sumarfrí. Það er gott að vera það lengi í fríi því í fyrra man ég að þá var ég í 3ja vikna fríi og fyrstu vikuna var ég enn með hugann við vinnuna, aðra vikuna naut ég þess að vera í fríi en þriðju vikuna var ég aftur farin að hugsa um vinnuna. Þannig að nú ætti ég a.m.k. að ná tveimur "raunverulegum" frívikum. Ja, ef maður sleppir þeirri staðreynd að ég þarf víst ábyggilega að vinna eitthvað aðeins í bókhaldi. 

Nóg um það, nú er ég að fara að drífa mig í háttinn, góða nótt.