föstudagur, 30. desember 2011

Hrefna farin aftur, böhöhö...

Já svona er lífið víst. Fólk kemur og fer, sumir alfarnir, en vonandi kemur nú Hrefna okkar aftur :)

Ég er búin að vera frekar ónýt þessa síðustu viku, en fannst ég kannski vera hakinu skárri í dag. Vonandi heldur það bara áfram í rétta átt. Ég er ekki búin að svindla neitt í mataræðinu um jólin, nema ef helst hvað sykurinn snertir. Hef aðeins misst mig í 70% súkkulaðinu... En engar jólasmákökur, enginn ís með eggjum, engin kartöflustappa... Þannig að eiginlega ætti ég bara að vera voða stolt af sjálfri mér - og hætta að skammast þó ég borði einn og einn súkkulaðimola (eða þrjá, eða fjóra).  Það hjálpar auðvitað gríðarlega til að Valur bætir fleiri pottum á eldavélina og ég fæ grænmeti sem meðlæti þegar aðrir borða pasta/hrísgrjón eða kartöflur.

Svo fékk ég alveg svakalega flottar hráfæðisbækur í jólagjöf og hlakka mikið til að fara að prófa rétti uppúr þeim. Þarf bara að safna aðeins meiri orku fyrst.

Mig langar líka til að prjóna mér peysu - og ég á enn eftir að sníða og sauma einn grænan kjól. Efnið í hann bíður (ó)þolinmótt ofan í poka.

Á morgun er ég að vinna frá 10-12 en svo verða rólegheitaáramót hér í húsi. Á þriðjudaginn koma mamma og Ásgrímur með flugi norður. Þau eru að fara í jarðarför Irene Gook, sem lést rétt fyrir jólin.

Og nú er ég að fara að sofa. Hm, eða fá mér aðeins í gogginn fyrst.

þriðjudagur, 27. desember 2011

Spennufall

Já, það er hálf skrítin tilfinning hjá mér núna. Eftir að hafa komist í gegnum desemberannríkið í búðinni, þar sem jólin voru endapunkturinn, þá varð bara algjört spennufall. Ég var í raun frekar hress á aðfangadag... Að minnsta kosti um kvöldið var ég í góðu lagi. Svo á jóladag var ég ennþá nokkuð hress en naut þess þó í botn að hafa löglega afsökun fyrir því að slappa af mestallan daginn. Við Valur skruppum reyndar aðeins út, til að ég gæti prófað nýju linsuna sem hann gaf mér í jólagjöf. Það gekk svona þokkalega, ég þarf að átta mig betur á því hvernig hún virkar, því maður þarf að huga extra vel að forgrunni og víðara umhverfi en maður er vanur. Í gær var ég svo ennþá þreyttari en hina tvo dagana, sennilega vegna þess að ég er hætt að "keyra mig áfram" með góðu eða illu, eins og ég gerði í jólaösinni. Ástandið á mér í gær var frekar dapurt og eins og venjulega þegar ég verð mjög líkamlega þreytt, þá hefur það áhrif á andlegu hliðina. En nú finnst mér eins og ég sé örlítið skárri í dag, og gott að geta hvílt sig aðeins lengur, því Torfi ætlar að vinna fyrir mig í dag og þá get ég leyft mér að taka því rólega einn dag enn.

Hér koma svo nokkrar myndir. Fyrst ein af þeim systkinum við matarborðið á aðfangadagskvöld.
Og svo ein af gamla settinu. Valur með svuntu sem Hrefna gaf honum einu sinni og á stendur "Verdens bedste kokk". Já og hálstauið er gömul slaufa sem ég hjálpaði honum að grafa fram, því nú eru slaufur komnar í tísku aftur. Þessi er ca. 26 ára gömul.

Loks er ein mynd úr fjörunni norðan við Slippinn, rétt hjá ósum Glerár. Hún er tekin með nýju linsunni. Ekki kannski fallegasta mynd sem ég hef tekið. En sýnir vel hversu víð linsan er, því það sem er beint fyrir framan fæturnar á manni kemur jú t.d. með á myndina, þó maður beini myndavélinni ekki beinlínis þangað.

þriðjudagur, 20. desember 2011

Eitt hjól undir bílnum?

Ég er að komast á það stig núna að ég veit varla hvað ég heiti. Framkvæmi hluti í einhvers konar leiðslu og man svo ekkert eftir á hvað ég var að gera. Það er að segja, legg frá mér hluti og man ekki hvar ég setti þá, man ekki hvað ég ætlaði að segja og næ varla að klambra saman heilli setningu. Tja, þetta síðastnefnda er kannski meira kvöld-þreytu vandamál, hef nú verið í lagi í vinnunni. En já, ég þarf víst að halda út aðeins lengur. Ég átti síðast frídag 11. desember, daginn sem tengdamamma átti afmæli, en þegar ég hugsa nánar um það, held ég að við Sunna verið að vinna 3 tíma þann dag við að reikna út laun ofl. Þannig að síðasti frídagur var 7. desember. Sunna er auðvitað líka búin að vera að vinna mikið, bara svo það komi skýrt fram, það er ekki bara ég. En nú á ég að eiga frídag á morgun og markmiðið er nú eiginlega að fara ekkert niður í vinnu þá. Spurning hins vegar hvort það gengur eftir...

Verst finnst mér eiginlega að allur jólaundirbúningur lendir á Val og hann verður svo mikið einn í þessu þegar ég er alltaf annað hvort að vinna eða í þreytukasti hér heima. Jólagjafainnkaup lenda alveg útundan og mér sýnist að engin jólakort verði send í ár, frekar en í fyrra. Valur hjálpar nú reyndar ekki til, með því að neita að skrifa Vinaminnisannál. Hann segir að enginn sakni þess að fá ekki annál, en ég er nú ekki viss um að það sé rétt hjá honum. Mér finnst sjálfri gaman að fá jólakort og lesa þau eftir að hafa tekið upp pakkana á aðfangadag. Þannig að mér finnst hálf öfugsnúið að senda þá ekki frá mér kort handa öðrum að lesa.

Í gærkvöldi var fundur hjá ljósmyndaklúbbnum og ég fór, þrátt fyrir að hafa varla staðið upprétt fyrir þreytu. Ég þurfti auðvitað ekki að standa þar, heldur sitja, en mér fannst ég bara bulla tóma vitleysu og fór frekar snemma heim af því ég var að hugsa um að ég yrði að reyna að ná góðum nætursvefni. En þetta er frábær hópur og það hefði verið gaman að stoppa lengur.

Nú læt ég þessum Vælu-Veinólínu pistli lokið. Búin að fá útrás og get farið að koma mér í sturtu og svo vinnuna kl. 10. Æ já, ég á víst eftir að gera grænan drykk handa mér í nesti líka. En hér á mynd má sjá hvaða dásamlega fallegu veitingar voru reiddar fram í ljósmyndaklúbbnum í gær. Agnes er algjör snillingur að búa til svona vel útlítandi kökur og mat.

sunnudagur, 18. desember 2011

Tvö hjól undir bílnum...

Já, gamla er eitthvað farin að slappast, en held þó haus ennþá. Það er nóg að gera í búðinni, sem er mjög jákvætt. Og skiptir ábyggilega miklu máli að við eigendurnir séum á staðnum, því þótt við séum með harðduglegt fólk í vinnu, þá eru hlutir sem bara við vitum, plús það munar um hvern og einn í vinnu þegar búðin er full af fólki. Hver viðskiptavinur sem labbar út af því hann fær ekki afgreiðslu fljótt og vel skiptir jú miklu máli. Þó það sé bara einn kassi/posi þá munar um að hafa manneskju til að setja í pokana því það flýtir fyrir, og svo geta hinir verið að aðstoða viðskiptavini sem eru að leita að ákveðnum hlut eða vantar upplýsingar.

Ég var eiginlega skrifuð í frí í gær en hafði það alltaf bak við eyrað að ég myndi þurfa að vinna, svona út frá því hvernig laugardagurinn um síðustu helgi var. Þá vorum við þrjú en á vissum tímapunkti óskaði ég þess að við værum fjögur. Þannig að ég fór í vinnuna sem fjórða manneskja í gær og var í ca. 3 tíma. Sem voru afar fljótir að líða því það var svo mikið að gera. Svo var ég náttúrulega ósköp lúin í gærkvöldi og áfram í morgun. En það jákvæða er að ég gat sofið í nótt. Tja, þegar ég var sofnuð, en það var nú ekki fyrr en um tvöleytið.

Svo hef ég ekki gert neitt annað en slaka á í morgun en þarf núna að fara að bretta uppá ermar, því ég er að fara að vinna á eftir. Ætlaði eiginlega að mæta um hálf eitt til að byrja að fylla á vörur og svoleiðis, en miðað við hvað klukkan er orðin þá er ég ekki alveg að sjá það fyrir mér...

En ég er nú búin að taka mynd dagsins fyrir ljósmynda-dagbókina mína svo það er nú ágætt. Svo hefði mig langað að labba einn hring í hverfinu, fara í sturtu, setja í þvottavél og borða. En miðað við tímann sem er aflögu er spurning hvað af þessu verður útundan.

Valur er í geymslunni niðri (nei ég er ekki búin að koma honum fyrir þar endanlega) að setja upp nýjar hillur. Það verður gaman að fá þær í notkun og geta farið að fylla þær af öllu dótinu sem safnast alltaf upp hjá manni ;-)


fimmtudagur, 15. desember 2011

9 dagar til jóla

Úff ég er ekki að fatta að þetta sé svona stutt eftir. Og svo standa jólin yfir eina helgi, það er nú allt og sumt. Ekki eins og maður fái einhver verðlaun í formi hvíldar fyrir að hafa lagt svona hart að sér í desember. Segir ein sem var á fullu frá 10-16 í gær við að taka upp vörur og er hálf lúin í dag, það verður að segjast eins og er. Samt og svo það sé alveg á hreinu, er ég í raun ótrúlega spræk enn sem komið er. Ég meina, ég er lúin en ég er ekki algjörlega úrvinda. Vona bara að það haldist þannig.

Annars er ég að fara í síðasta leikfimitímann fyrir jól núna á eftir. Ég fór ekki á mánudaginn því þá var ég á hárgreiðslustofu. Þrátt fyrir að hafa verið mjög tímanlega í að panta þá átti hún samt engan tíma handa mér (sem skaraðist ekki á við vinnu hjá mér) nema þennan og ég stökk á hann því ekki vil ég vera gráhærð um jólin. Það væri kannski í lagi ef allt væri þá grátt, en sem sagt, ekki fallegt að vera með gráa rót.

Í gærkvöldi fórum við Valur á jólahlaðborð hjá Læknastofum Akureyrar. Þá kemur starfsfólkið sjálft með veitingar á sameiginlegt hlaðborð og á notalega stund saman. Þetta var afskaplega ljúft þó ekki gæti ég borðað margt. Ég fékk mér þó hangikjöt, grænt salat og rauðkál. Var orðin ægilega svöng þegar ég kom heim, hehe ;-) Um jólin ætla ég að borða hangikjöt og svo þarf ég græja eitthvað meðlæti annað en kartöflustöppu. Svona ef ég finn einhvern tíma til að leita að góðri meðlætisuppskrift. Kannski eitthvað sé að finna í nýju uppskriftabókinni hennar Sollu, sem Valur færði mér.

Að lokum kemur hér mynd sem ég tók í gærkvöldi þegar ég áttaði mig á því að ég væri ekki búin að taka neina mynd fyrir daginn. Mig langar að halda áfram að taka mynd á dag, en myndefnið verður þá líka bara hitt og þetta. Málverkið er eftir Óla G. bara svona ef einhver er að spá.

Læt ég nú þessum fremur samhengislausa pistli lokið.


sunnudagur, 11. desember 2011

Ekki fór Valur suður

Því miður höfðu veðurguðirnir sitthvað við þá fyrirætlun hans að athuga, en sökum veðurs gat flugvélin sem átti að fljúga með hann suður, ekki lent hér á Akureyri. Þegar ég var að keyra hann út á flugvöll sáum við að það var farið að blása hressilega að austan og Valur nefndi eitthvað um að vélin væri ekki komin. Ég blés hins vegar á allt bölsýnistal og skildi hann eftir á vellinum en fór sjálf að taka nokkrar myndir við Hoepners bryggju (fyrrverandi bryggju). Þegar ég settist aftur inn í bílinn hringdi síminn og ég mátti gjöra svo vel að snúa við og sækja kappann aftur á flugvöllinn. Leiðinlegt að svona skyldi fara en ekkert við því að gera.

Skömmu eftir að við komum heim aftur fórum við Sunna niður í vinnu. Það átti að vera frekar stutt skrepp til að reikna út desemberuppbót starfsmanna, en svo fórum við líka að borga reikninga og sjóða saman vinnuplan fyrir næstu viku og þegar upp var staðið voru liðnir 3 tímar. Heima á ný hélt ég áfram að reyna að sjóða saman eitthvað vaktaplan fyrir síðustu 7 dagana fyrir jól, en það gekk ekkert sérlega vel. Sunna er eiginlega miklu betri í því en ég. Sú vitneskja stoppaði mig samt ekki í því að hanga alltof lengi að reyna þetta, með vöðvabólgu og höfuðverk sem höfuð-afrakstur þeirrar iðju.

Valur eldaði svo dásamlega kjúklingasúpu í kvöldmatinn og sjónvarpið var helsti vinur minn í kvöld. Svo var meiningin að fara snemma að sofa - en ég er nú aðeins að klikka á því...

Jæja, þá er það byrjað

Arg og garg, get ekki sofnað. Þetta hefur verið venjan síðustu árin á þessum tíma, þegar allt er að verða vitlaust að gera í desember og hugurinn bara nær ekki að slaka á. Alveg sama þó ég liggi og hlusti á slökun af geisladiski. Svo ligg ég andvaka og svo er verð ég svöng og þá er enn erfiðara að sofna. Þannig að núna er ég búin að fara fram og fá mér gulrót með hnetusmjöri og hanga aðeins í tölvunni og næst á dagskrá er að fara aftur inn í rúm og gera aðra tilraun til að sofna.

Það var svo brjálað að gera í vinnunni í dag. Sem er afskaplega jákvætt, en um leið gerir það að verkum að ég settist ekki niður í 5,5 tíma og var orðið óglatt af þreytu þegar ég fór heim. Við vorum þrjú að vinna þegar mesta álagið var, sem betur fer, og hefðum næstum mátt vera fjögur. En það er samt bara einn kassi/posi svo það er takmarkað gagn að því að hafa fleiri starfsmenn. Ég var samt mjög ánægð með daginn, svona rekstrarlega séð, og svo er bara að þrauka næstu 2 vikurnar... þetta hefst. Bara pirrandi að komast aldrei yfir allt sem þarf að gera og ég sé fram á að þurfa að græja ýmislegt á morgun s.s. að reikna út desemberuppbót og panta vörur. Já og við Sunna eigum enn eftir að skipuleggja vinnuna fram að jólum, og ætlum að gera það á morgun. Svo þarf ég að vera á bakvakt, ef ske kynni að það vantaði fleira fólk í vinnu, en þær verða tvær Silja og Kara yfir háannatímann.

Á morgun á líka tengdamamma afmæli. Hún verður 85 ára og ætlar að halda uppá það með því að bjóða fólkinu sínu á jólahlaðborð. Valur flýgur suður í fyrramálið og kemur heim seinnipartinn. Ég fer ekki  með, enda yfirdrifið nóg að stússast + að ég þyrfti nú eiginlega að hvíla mig eitthvað á morgun. En er að sjálfsögðu með samviskubit yfir því að fara ekki... Ég fór reyndar ekki heldur suður þegar mamma átti afmæli - og skammaðist mín líka fyrir það. Mér til afsökunar hélt hún ekki formlega uppá afmælið sitt og ég heimsótti hana skömmu síðar þegar ég var á leiðinni til Köben.

Æ jæja, best að hætta þessu væli og reyna að fara að sofa í hausinn á sér. Spurning hvort þetta endar með uppáskrift á svefnlyf handa frú stresshaus.

föstudagur, 9. desember 2011

Nýtt hobbý

Sem ég veit reyndar ekki hvort ég á eftir að vera dugleg við.. En sem sagt, á netinu er að finna síðu sem er opin fyrir alla blipfoto.com. Gengur hún út á að fólk tekur eina ljósmynd á dag sem það setur inn á síðuna sína. Svo er hægt að skoða síður hjá öðrum og skrifa athugasemdir o.s.frv. Ég sá þetta fyrst hjá Gullu og fannst þetta svo skemmtilegt að mér datt í hug að prófa sjálf. Er nú að vísu bara búin að vera í heila tvo daga... hehe, en ágætt að fá eitthvað annað að hugsa um en vinnuna. Ætli ég verði ekki duglegri að hafa myndavél við hendina og eins að taka myndir af einhverju öðru en landslagi, það má alla vega láta sig dreyma. Blipfoto er enskumælandi samfélag, þannig að textinn sem maður skrifar þarna inn þarf að vera á ensku. Sem er í raun ágætt því ekki veitir af að æfa sig ;-)
En hér er sem sagt tengill á síðuna mína.

Þrjú hjól undir bílnum - en áfram skröltir hann þó ;)

Já já, ég reyni mitt besta til að halda haus í annríkinu í desember. Ef ég á samt að vera alveg hreinskilin þá vildi ég óska að verslunin í búðinni væri aðeins jafnari yfir árið. Mætti vera svona hæfilega mikið að gera alla mánuði ársins og svo heldur meira í desember. Eins og staðan er þá stendur desember fyrir alveg ótrúlega stórum hluta heildarsölu verslana og svo eru nokkrir mánuðir á ári sem eru nánast dauðir og þá er maður sjálfur nánast dauður úr leiðindum...

Núna er það hins vegar álag, streita og þreyta sem eru aðalvandamálið. Við erum eiginlega að tala um meiriháttar dilemma/vandamál þegar kemur að annríkinu í desember. Í fyrsta lagi þá vil ég helst geta unnið sem mest, því það skiptir jú verulegu máli fyrir afkomu verslunarinnar hvernig til tekst með söluna í desember. Í öðru lagi þá vinn ég töluvert meira en ég í raun "get" útfrá ástandinu á mér og reyni að bremsa mig af, þó það takist nú ekkert alltof vel. Sem gerir það að verkum að mér finnst ég ekki vera að standa mig gagnvart Sunnu og sem verslunareigandi. Í þriðja lagi þá verð ég stundum leið á því að eiga aldrei rólegan aðventumánuð og geta bara dúllað mér við bakstur, föndur, kaffihúsaferðir og tónleika.

En svo það sé nú alveg á hreinu þá er þetta ekki bara slæmt. Það er gaman að vera í vinnunni þegar vel gengur. Fólk flest í góðu skapi og við gerum okkar besta til að panta vörur og taka frá fyrir viðskiptavini, svo allir fái nú örugglega "réttu" jólagjöfina handa hverjum og einum.

mánudagur, 5. desember 2011

Að fara öfugu megin framúr

Sumir dagar byrja eitthvað svo öfugsnúnir, þó svo ekkert hafi í raun gerst til að réttlæta það, nema einhverjar vitlausar hugsanir. Í dag var þannig dagur hjá mér. Ég hafði ætlað að fara snemma að sofa í gærkvöldi en var eitthvað svo upprifin þó þreytt væri og sofnaði ekki fyrr en undir miðnætti. Þá hugsaði ég með mér að ég skyldi bara sofa aðeins lengur í dag en stillti samt klukkuna á rúmlega hálf átta til að fylgjast með því að Ísak myndi örugglega vakna í skólann. Sem hann gerir yfirleitt en í dag var hann steinsofandi þegar ég leit inn til hans. Klukkan hafði hringt, hann hafði kveikt ljósið og síðan sofnað aftur.

Eftir að hafa ýtt við Ísaki fór ég aftur inn í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. Svo heyrði ég að hann var með endalaust hóstakjöltur og þá fór ég að hafa samviskubit yfir því að bjóðast ekki til að skutla honum í skólann því það er ansi kalt úti í dag. Samt fór ég ekki á fætur, til þess var rúmið of heitt og notalegt og ég of þreytt og fúl. Svo hringdi síminn og ég heyrði að hann talaði við einhvern en síminn var greinilega ekki til mín, þannig að ég lá sem fastast. Eftir smá stund kom Ísak svo og spurði hvort ég vissi pin númerið á gsm símanum pabba síns. Hann hefði hringt og beðið Ísak að taka símann uppúr skúffunni. Ég sagði nei og skildi ekkert um hvað málið snérist. Ekki dugði þessi ráðgáta þó til að draga mig upp úr rúminu. Svo fór Ísak í skólann en eftir lá ég, glaðvakandi og komin í frekar vont skap yfir því að hafa ekki getað sofið lengur. Fór að rifja upp að það eru skil á virðisaukaskatti í dag og ég er búin að færa allar færslurnar en það var eitt mál sem ég þurfti að kanna nánar áður en hægt er að skila. Þar að auki voru allt í einu komnar einhverjar sölufærslur með 24,5% vsk um daginn, en þar sem vaskurinn á að vera 25,5% mun ég þurfa að leiðrétta þetta, og man ekki í augnablikinu hvernig á að gera það.

Þegar hér var komið sögu sá ég að ekki myndi mér nú takast að sofa meira og best væri að drattast á fætur. Sem ég er að fara fram úr rúminu heyri ég umgang í forstofunni og kalla fram en fæ ekkert svar. Heyri útihurðina lokast og fer fram og sé að Valur er að ganga niður útitröppurnar. Ég átta mig þá samstundis á síma-ráðgátunni, því hann er jú á vakt í dag og hefur greinilega gleymt vaktsímanum heima. Valur gengur í vinnuna þegar of mikill snjór og hálka er til að hjóla, og nú hafði hann sem sagt gengið heim til að sækja símann. Ég kallaði í hann að ég skyldi keyra hann aftur niður í vinnu, en það vildi hann ekki. Hefur ábyggilega ekki viljað gera mér rúmrusk þegar hann talaði við Ísak og svo vildi hann sem sagt ekki draga mig út á náttfötunum til að skutla sér í vinnuna aftur. Sem var vel meint af hans hálfu en mér hefði liðið betur ef ég hefði fengið að skutla honum. Það hefði kannski getað gefið mér þá sýn á sjálfa mig að ég væri nú ágætis manneskja, þrátt fyrir allt, þó ekki hafi ég boðist til að skutla hóstandi syninum í skólann í frostinu...

Þannig var nú það. Sem betur fer er leikfimi núna á eftir og ég bind vonir við að hún dugi til að hressa mig við, bæði andlega og líkamlega.

sunnudagur, 4. desember 2011

Gleymdi aðalatriðinu

Eða að minnsta kosti mikilvægu atriði. Þannig er mál með vexti að fyrstu tónleikarnir sem við Valur fórum saman á, fyrir margt löngu, voru einmitt tónleikar þar sem Vetrarferðin eftir Schubert var í aðalhlutverki. Söngvarinn var Andreas Schmidt og tónleikarnir voru í Borgarbíói hér á Akureyri. Þetta voru ekki bara fyrstu tónleikarnir sem við fórum á saman, heldur fyrstu ljóðatónleikarnir sem ég fór á. Raunar held ég að eina hljómsveitin sem ég hafði áður heyrt í á tónleikum hafi verið Spilverk þjóðanna og svo Bubbi, í Möðruvallakjallara, þetta eina haust sem ég var nemandi við MA hér um árið. Þannig að þessi ferð með mínum heittelskaða í Borgarbíó var svolítið sérstök fyrir ýmsar sakir.

Það er gaman að geta þess að eftir tónleikana nú á laugardaginn, kom til okkar kona, tja eða hún kom nú til Vals öllu heldur, og rifjaði upp að hún hefði setið við hliðina á Val á tónleikunum í Borgarbíói hér um árið. Hann hefur þá greinilega verið umkringdur kvenfólki við það tilefni, því ég sat jú hinum megin við hann.


laugardagur, 3. desember 2011

Sofnaði ekki á tónleikunum

... en það munaði ekki miklu. Við sátum á 3ja bekk og fengum því söng og píanóleik nánast beint í æð. Það var gaman að geta fylgst náið með svipbrigðum þeirra Kristins og Víkings Heiðars, og þannig lagað séð var gaman að sitja svona framarlega. Það er þó ábyggilega betra að sitja á 4-5 bekk, vegna þess að þá er maður í svipaðri hæð og sviðið. Mér finnst eiginlega að enginn ætti að þurfa að sitja á 1-2 bekk því þá fær maður nú bara hálsríg af að horfa uppá sviðið fyrir framan sig. Eiginlega hönnunargalli.

En svo ég víki nú sögunni aftur að tónleikunum sjálfum þá var gaman hvað þeir tveir eru miklar andstæður í útliti. Þrjátíu og fimm ár skilja þá að í aldri og á meðan Víkingur Heiðar er fremur smávaxinn og nettur, er Kristinn þrekinn og stórbeinóttur.  Sá yngri var í aðsniðnum jakkafötum með bindi, gleraugu með dökkri umgjörð og hárið klippt þannig að toppurinn slúttir fram þegar hann hallar sér fram og spilar af ástríðu á píanóið. Sá eldri var í svörtum jakkafötum sem pössuðu honum ekkert alltof vel. Þau voru víð og nokkuð farin að láta á sjá. Innan undir var hann í smókingskyrtu en án hálstaus, sem gaf léttara yfirbragð. En þrátt fyrir ólíkt yfirbragð var samvinnan milli þeirra fumlaus og virðing ríkti greinilega af beggja hálfu fyrir hinum aðilanum. Söngurinn var frábær, Kristinn fór létt með bæði hæstu og lægstu tóna og söng af mikilli tilfinningu. Hið sama má segja um píanóleikinn, alveg fyrsta flokks og vel það.Það eina sem var að trufla mig var lýsingin. Salurinn sjálfur var myrkvaður en sviðið vel uppljómað og birtan af sviðinu skar mig dálítið í augun. Sennilega af því ég var þreytt. Lausnin var að loka augunum og sitja bara og hlusta með lokuð augu. Sem var afskaplega notalegt, en leiddi til þess að í rólegustu köflunum var ég hreinlega alveg að sofna. Úff, það slapp nú samt fyrir horn. En um leið og heim var komið var sófinn í stofunni skyndilega orðinn minn besti vinur og þar lá ég fram að kvöldmat.

Eftir kvöldmat var ég áfram þreytt og pínu pirruð. Aðallega pirruð yfir því að vera svona þreytt og svo langaði mig út að taka myndir. Það jók eiginlega á pirringinn því ef ég ætlaði út að taka myndir, þá vissi ég að ég þyrfti að nota þrífótinn og taka myndir á tíma. Sem ég geri aldrei! Einhverra hluta vegna þá finnst mér þrífótur hefta mig svo mikið. Það á ekki við mig að standa kyrr á sama stað og láta stöðuna á þrífætinum ráða sjónarhorninu á myndefnið. Ég vil helst vera á röltinu og beygja mig niður eftir þörfum. Vissulega er jú hægt að ganga með þrífótinn með sér, hann er léttur, en ég er svo mikill klaufi við að stilla lappirnar á honum rétt. Svo er myndavélin orðin pikkföst ofan á honum og ef ég vil taka mynd sem er lóðrétt þá þarf enn að breyta stillingu á þrífætinum. Allt hægt samt ef viljinn er fyrir hendi.

Ég ákvað að mér myndi líða svona þúsund sinnum betur andlega ef ég sigraðist á þreytu og ótta við þrífótinn og drifi mig út. Svo við Valur skelltum okkur í kuldagallann og brunuðum af stað. Fyrst vorum við niðri við Bílasölu Höldurs, en þar höfðum við séð nokkuð skemmtilegt myndefni fyrr um dagin. En ég varð fljótt leið þar og Valur hafði þá hugmynd að fara í kirkjugarðinn. Þar voru mikil rólegheit, allt svo undrakyrrt og næg myndefni. Ég sá fljótt að ég hafði heldur betur miklað of mikið fyrir mér að taka myndir á tíma, þetta var afskaplega einfalt. Í myrkrinu í gær kom best út að taka myndir á sem lengstum tíma, eða 30 sek. Það sem reyndist erfiðast var að standa svona mikið kyrr, enda var 6-7 gráðu frost úti. En við áttum virkilega notalega stund saman þarna í kirkjugarðinum hjónin :-)

Í gær fór Ísak á sína fyrstu árshátíð í MA

Og af því tilefni smellti ég af honum nokkrum myndum. Ég hef lítið æft mig í að taka myndir af fólki, auk þess sem ég kann ekki að taka myndir með flassi... svo þetta er niðurstaðan.

Andri var farinn á jólahlaðborð með SS byggi, en hann fór líka út í svörtum jakkafötum með slaufu. Hann hafði keypt sér slaufu fyrr en þessi sem Ísak er með um hálsinn er gömul slaufa af pabba hans. Alltaf gott að geta fundið gamla fjársjóði og endurnýtt þá :-)


Tónleikar á eftir

Við Valur erum að fara á tónleika á eftir og hlökkum bæði til. Það eru Víkingur Heiðar á píanó og Kristinn Sigmundsson sem syngur Vetrarferðina eftir Schubert. Ég er enginn besserwisser þegar kemur að tónlist, heldur hef bara gaman af að hlusta á eitthvað fallegt.

Í gær var ég að vinna til að verða fjögur og ætlaði þá bæði á pósthús og í banka, en hætti við hvoru tveggja sökum langra biðraða á báðum stöðum. Þá fór ég í staðinn á Flytjanda og sótti mottur sem við höfðum pantað (óséðar) frá Ikea. Svo brunaði ég í Purity Herbs þar sem var fyrirtækjaheimsókn fyrir FKA konur. FKA stendur fyrir Félag Kvenna í Atvinnurekstri og ég var að reyna að sýna smá lit með því að mæta, því ég hef ekki mætt á hina tvo viðburði haustsins. Það var fróðlegt að heyra Ástu segja frá fyrirtækinu og svo fengum við að skoða húsakynnin. Eftir að hafa verið með fyrirtækið í of litlu húsnæði í 17 ár eru þau nýlega búin að stækka við sig. Ásta sagði okkur frá því að í góðærinu hefðu menn frá bönkunum komið að máli við sig hvað eftir annað og boðið henni að taka lán til að kaupa stærra húsnæði. Þegar hún hafði neitað, spurðu þeir hvort hún vildi ekki þá ekki alla vega taka neyslulán, fá peninga til að ferðast, kaupa sér húsgögn og föt, því hún væri jú með svo góð veð! Fáránlegt í einu orði sagt.

Í gærkvöldi var ég satt best að segja nánast rænulaus sökum þreytu og varð því kannski fyrir enn meiri vonbrigðum en ella, þegar Valur tók mottuna sem fara átti í stofuna, úr umbúðunum. Mottan var allt öðruvísi á litinn en ég hafði ályktað út frá ljósmyndinni á netinu. Þar virtist hún vera grábrún, einlit, en í raun er hún dröfnótt, eða yrjótt, brún og hvít. Það er að segja, sumir þræðir eru alveg brúnir og sumir alveg hvítir. Ég skil ekki alveg hvernig þeim tókst að taka ljósmynd sem sýnir mottuna sem einlita. En  ég hafði reyndar hugsað mér að mála (láta þrælinn mála) endaveggina í stofunni í grábrúnum lit og kannski verður í lagi með mottuna þegar búið er að mála... Úff, best að sofa á þessu mottumáli aðeins lengur. Ég er líka oft lengi að venjast breytingum, finnst sumt ljótt í fyrstu en verð svo hæstánægð með það.

Svo var ég farin í háttinn klukkan tíu eða um það bil, og svaf til hálf níu í morgun. Gott að geta sofið þegar maður er þreyttur! Í morgun fór ég að vinna klukkan tíu og vann til rúmlega tólf. Þetta er í raun ekki mín vinnuhelgi en sem sagt, sem verslunareigandi þá þýðir nú lítið að væla um það, hehe. Það var samt notalegt í vinnunni því það var rólegt og ég var að dunda mér við að þurrka af ryk, fylla á vörur, raða reikningum í möppu og svoleiðis. Svo voru nú leikar að æsast þegar ég fór og mig grunar að þær Silja og Sunna fái nóg að gera í dag.


fimmtudagur, 1. desember 2011

Þegar Hrefna átti afmæli um daginn
ætlaði ég að skanna inn gamlar myndir af henni til gamans, en kom því ekki í verk. En nú er skanninn kominn á borðið og tengdur við tölvuna og þar af leiðandi koma hér nokkrar myndir af okkur mæðgunum á fyrstu mánuðunum. Því miður hef ég ekki hugmynd um það hvenær nákvæmlega þessar myndir eru teknar ...

Skammdegið er greinilega komið í hús

Ég svaf til hálf tíu í morgun og fór létt með það. Úti er ennþá rökkur og ég sit hér nánast hálfsofandi. Lítil merki sjást um dagsbirtu, og miðað við útganginn á mér er ekki hægt að sjá að ég eigi að mæta í leikfimi eftir 40 mínútur.

Í gær var ég að vinna frá 10 til 15.45. Þá fór ég heim og hugsaði að nóg væri komið af vinnu þann daginn. Ekki stóð ég nú samt við það, því þegar ég var búin að fá mér aðeins í gogginn settist ég við tölvuna og fór að reikna út launin. Það er dálítið tímafrekt því við skrifum vinnutíma allra upp í Excel skjal og þó Excel sé síðan eldsnöggt að reikna út fjölda tíma (sem við setjum síðan inn í þar til gert launakerfi sem reiknar út sjálf launin, frádráttarliði og slíkt) þá er það alltaf smá handavinna að skrifa tölur inn í Excel og passa að réttar tölur fari á rétta staði. Að því loknu fór ég að skoða vörulista frá Sagaform og klippa þar út myndir af vörum til að auglýsa þær á facebook. Það var líka handavinna því skjalið var á pdf formi og ég þurfti að taka skjámynd af þeim vörum sem ég vildi og vista þær sem jpg skjöl, svo hægt væri að hlaða þeim inn á fb. En þá eigum við líka fleiri myndir í góðum gæðum sem hægt er að nota þegar við erum að auglýsa í Extra dagskránni. Svo fór ég að skoða verðlista yfir nýjar vörur sem við höfðum ekki komist í að vinna úr. Þá þarf að finna mynd af viðkomandi vöru á netinu, skoða hvað hún myndi kosta út úr búð hjá okkur, og ákveða hvort við viljum panta hana og þá í hvaða magni. Þetta síðasta gerum við Sunna raunar yfirleitt í sameiningu og þess vegna hringdi ég í hana eftir kvöldmatinn og við tókum smá syrpu saman.

Þegar hér var komið sögu var ég orðin frekar steikt í höfðinu en Anna systir bjargaði því að ég yrði enn verri með því að hringja í mig á Skype og við spjölluðum aðeins saman. Alltaf gaman að heyra í fólkinu sínu, ég er að verða enn viðkvæmari fyrir því með aldrinum, hvað er langt á milli okkar allra. Ekki þannig samt að ég hugsi um það alla daga... En já það væri notalegt að geta hist oftar. Það gildir líka um fjölskylduna hans Vals en þau eru jú öll í Reykjavík.

Jæja nú er ég hætt þessu bulli. 30 mínútur þar til leikfimin byrjar, ég ekki búin að borða og Birta liggur í fanginu á mér malandi sæl og glöð. Verst að þurfa að henda henni niður á gólf en við það verður ekki ráðið.