sunnudagur, 31. ágúst 2008

Dugnaðarforkur í dag

Já ég er bara búin að vera dugleg í dag þó ég segi sjálf frá. Meðal annars notaði ég tækifærið þegar Andri var farinn út á flugvöll og lagaði til í herberginu hans. Það var nú svo sem ekki flókið og fólst aðallega í því að tína upp föt sem lágu eins og hráviði hér og þar í herberginu. Flest þeirra fóru í þvott en sum þurfti nú bara að brjóta saman og setja ofan í skúffu. Og já, ég veit að ég á ekki að gera þetta fyrir hann - málið er bara að hann gerir þetta ekki sjálfur - og ég þoli ekki að horfa uppá draslið. Þoli það í ákveðinn tíma og spring svo á limminu.

Svo er tiltektin/breytingin á Ísaks herbergi alveg að verða búin, á bara eftir að sauma gardínurnar. Ætlaði eiginlega að gera það í dag en held að orkan sé búin í bili. Kannski ég detti í stuð í kvöld...

Valur trúir því þegar hann sér það að ég muni sauma þessar gardínur, hann er búinn að missa alla trú á mér sem saumakonu. Gæti haft eitthvað með það að gera að núorðið sést saumavélin ekki uppi við nema á nokkurra ára fresti. Það er af sem áður var þegar ég saumaði heilu dragtirnar á sjálfa mig og ýmsan annan fatnað á Hrefnu og Andra. Tja, það er nú víst ekki rétt að ég hafi saumað mikið á Andra, en eitthvað samt s.s. jólaföt og öskudagsbúninga. Held að ég hafi ekki saumað eina einustu flík á Ísak hins vegar. Jamm og jæja, er hætt þessu rausi og farin í Hagkaup.

laugardagur, 30. ágúst 2008

Spekúleringar

Það er ýmislegt sem ég er að velta fyrir mér þessa dagana. Þar ber hæst vangaveltur um breyttar kringumstæður í kjölfar þess að börnin eru ekki lengur lítil og þar með er margt sem breytist í hinu daglega lífi. Ég er komin í nýjan fasa í lífinu og þá þarf maður einhvern veginn að finna sér sinn "stað" í þessu öllu saman. Þegar maður er með lítil börn er sólarhringurinn undirlagður af verkefnum sem flest tengjast barnauppeldinu en nú er öldin önnur. Það reyndar vantar svo sem ekki verkefnin - en þau eru af öðrum toga. Nægur tími aflögu til að sinna einhverju áhugamáli eða hitta vini sína. En þrátt fyrir að möguleikinn sé til staðar þá er ég ekki að nýta tímann í áhugamál né vini. Finnst ég bara vera í einhverju tómarúmi og ekki ná að gera neitt af viti. Það vantar alla drift í mig, ég geri ekkert annað en vinna, borða og sofa. Auglýsi hér með eftir sparki í rassinn!

Jæja, nýr pistill kl. 1.30 að nóttu... hvað er í gangi?

Ekkert í gangi - venjulega er ég að vísu steinsofandi á þessum tíma sólarhrings en aðstæður eru svolítið frábrugðnar að þessu sinni. Valur er í veiði, síðasta veiðitúr sumarsins, Andri er úti með vinum sínum, Ísak gistir hjá vini sínum og ég var í heimsókn hjá vinkonu minni og vaki þess vegna lengur en venjulega. Annars er ég eiginlega að fara að sofa. Fór bara að kíkja í tölvuna þegar ég kom heim og gleymdi mér aðeins í Flickr... Setti inn tvær myndir í dag frá ferð minni í Mývatnssveit í morgun. Ferð, eða skottúr öðru nafni. Þegar ég kom heim úr vinnunni um sjöleytið í gærkvöldi sá ég vöðluskó eiginmannsins ásamt ullarsokkum standa umkomulausa á bílaplaninu. Höfðu þeir gleymst í flýtinum þegar verið var að leggja af stað í veiðina í gær. Í morgun hringdi ég á hópferðamiðstöðina kl. 08.01 til að spyrja um ferðir austur og var þá tilkynnt að rútan í Mývatnssveit hefði farið kl. 08.00. Þannig að einungis einn kostur var í stöðunni - að aka austur með skóna (og sokkana) áður en ég þurfti að mæta í vinnu kl. 13. Ég skutlaði í mig skyri með rjóma, og eggi, og lagði af stað akandi á mínum fína frúarbíl. Var komin í Mývatnssveit nákvæmlega 60 mín. síðar og reyndi að hringja í Val en hann hefur ekki heyrt í símanum fyrir hávaðaroki sem ætlaði mig að æra. Ég fór með skóna í veiðihúsið og ók í Skútustaði til að kaupa mér kaloríur fyrir heimferðina. Þar var veðurofsinn þvílíkur að ég þurfti að leggjast á hurðina á sjoppunni til að geta lokað henni. Ók ég síðan heim á leið, lagði mig og fór svo að vinna kl. 13. Já, ég gleymdi að segja frá því að ég tók nokkrar myndir á leiðinni en fæstar tókust, sá fleiri myndefni en þar sem ég var með bílinn stilltan á "cruise control" þá nennti ég ekki að stoppa á réttum stöðum... = hámark letinnar!! En hér má sjá smá myndasýnishorn...Ótrúlegt en satt að þessar myndir voru teknar með ca. 20 mínútna millibili - ekki á sama staðnum samt.

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Hálfnað er verk þá hafið er

Ég reyni amk að telja sjálfri mér trú um það. Ég er búin að taka saman helling af gömlu dóti sem Ísak er hættur að leika sér að, búin að þurrka af og ryksuga ósköpin öll af ryki, búin að þvo veggina, búin að fara í gegnum gamalt skóladót og henda, búin að færa rúmið og Valur er búinn að færa kommóðuna og sjónvarpið. Þá er bara eftir að kaupa mjög langa rafmagnssnúru því það vantar innstungur á austurvegginn. Og koma öllu dótinu á sinn stað aftur (því sem ekki fer í geymslu). Og eftir að sauma nýjar gardínur. Þá held ég að allt sé upptalið. Annað hef ég ekki afrekað í dag - en ætli sé ekki best að fara og kaupa skóladót fyrir Ísak sem nennir engan veginn að taka þátt í þeim verknaði.

mánudagur, 25. ágúst 2008

Ég er á leiðinni, alltaf á leiðinni ...

til þess að taka til í herberginu hans Ísaks. Raunar er það ekki hefðbundin tiltekt sem stendur fyrir dyrum heldur ögn meira en það. Þar sem pilturinn er nú á fjórtánda aldursári er kominn tími til að gera herbergið hans örlítið fullorðinslegra (eða unglingalegra?). Taka niður gardínurnar með bílamyndunum, pakka niður legóinu og öðru dóti sem er ekki notað lengur, þrífa veggina, þurrka ryk af bókum og pakka einhverjum þeirra niður. Einnig stendur til að færa rúmið og fleiri húsgögn í herberginu svo það komi meira "nýjabrum" á þetta allt saman. Einhvern tímann hefði ég stokkið í þetta og ekki hætt fyrr en allt væri búið + nýjar gardínur saumaðar og komnar upp... en það var einhvern tímann. Núna er ég bara ekki að hafa mig í þetta. Tók smá syrpu í gærkvöldi og ætla að taka smá syrpu núna á eftir. Fór reyndar í dag og keypti efni í nýjar gardínur sem ég held að verði OK en sé það ekki almennilega fyrr en í dagsbirtu á morgun. Þegar þetta er skrifað er rigningarsuddi og þungbúið úti svo lýsingin er ekki nógu góð til að hægt sé að dæma í gardínumálinu.

Annars er ég óttalega tuskuleg þessa dagana, ekki beint sú hressasta. Mér tekst að vísu að halda mér gangandi á meðan ég er í vinnunni en hryn saman þegar ég kem heim. Vonum bara að þessi slappleiki fari að rjátlast af mér. Andri var líka veikur í síðustu viku en hann var raunverulega veikur, öfugt við mömmu hans. Sem betur fer er hann að hressast því hann ætlar að skella sér til Kaupmannahafnar og Malmö með kærustunni á sunnudaginn kemur. Ísak er hins vegar ekki á leið í neina utanlandsferð heldur byrjar í skólanum á miðvikudaginn. Valur er farinn að vinna eftir sumarfrí en það hindrar hann sem betur fer ekki í að skella sér í síðustu veiðiferð sumarsins síðar í vikunni. Hvað mig varðar þá gæti ég nú vel hugsað mér snögga ferð til Oslóar að hitta hana systur mína en verður víst að bíða betri tíma.

Og nú held ég að sé kominn tími til að setja upp rykgrímu og ráðast til atlögu við bókahilluna inni í Ísaks herbergi.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Er ekki að standa mig í blogginu

Veit ekki hvað veldur, sennilega bara dottin úr æfingu... Ég er byrjuð að vinna eftir 3ja vikna frí og hefði í aðra röndina alveg verið til í að vera aðeins lengur í fríi en í hina röndina er fínt að byrja "í rútínu" aftur. Við fengum góða heimsókn um síðustu helgi en þá komu Hjörtur bróðir Vals og Guðbjörg mágkona hans og gistu hjá okkur eina nótt. Þau komu færandi hendi með afmælisgjöf til míns ástkæra eiginmanns sem varð 50 ára 2. ágúst síðastliðinn. Þá vorum við stödd á Ítalíu svo það var engin eiginleg afmælisveisla og lítið um gjafir. Vonandi finnum við tíma til að halda veislu í haust. En hér er amk. mynd af afmælisbarninu í afmæliskvöldverðinum sem borðaður var á "local" veitingahúsi í Morrona, sem er smábær rétt hjá húsinu sem við gistum í í Toskana.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Komin heim og byrjuð að blogga...

Líklega nenni ég ekki að skrifa ferðasöguna hér, læt þess bara getið að það var ósköp gott að vera í fríi og mikið sem það var ljúft að vera í sólinni og blíðunni í útlandinu. Það var líka gaman að heimsækja Hrefnu í Kaupmannahöfn og koma til Feneyja. Í Toscana þótti okkur "eldra fólkinu" (okkur Val og Hrefnu) gott að slappa af en þeim bræðrum þótti helst til mikil rólegheit þar.

Heimferðin var ansi skrautleg, við höfðum átt pantað flug Flórens-Stokkhólmur-Kaupmannahöfn á laugardeginum og heim til Akureyrar á sunnudeginum. Flugvélin bilaði hins vegar þegar við vorum rétt lögð af stað frá Flórens og við þurftum að lenda í Bologna og hanga þar allan daginn á flugvellinum. Lentum ekki í Stokkhólmi fyrr en eftir miðnætti og vorum þá löngu búin að missa af fluginu til Köben. Við vorum hálf ráðavillt í smá stund en komumst svo loks í tölvu og gátum bókað nýtt flug næsta morgun. Þegar hér var komið sögu var klukkan orðin eitt og mæting í flugið var klukkan hálf fimm, þannig að það tók því ekki að bóka sig á hótel. Við létum fyrir berast í flugstöðinni og sá eini sem náði aðeins að blunda var Valur en við vöktum allan tímann. Ég náði svo aðeins að dotta á leiðinni til Köben en þar tók síðan aftur við enn meiri bið eftir fluginu til Akureyrar. Það var því ekki fyrr en sú vél fór í loftið, um tvöleytið, að við Valur sofnuðum og steinsváfum alla leiðina. Strákarnir voru hinsvegar orðnir svo spenntir að komast heim að þeir sváfu ekki neitt. Þrátt fyrir þennan tæplega þriggja tíma svefn var ég eins og undin tuska bæði mánudag og í gær og það er fyrst í dag að ég er farin að líkjast sjálfri mér aftur. Ég hef reyndar alltaf vitað að það væri ekki gott fyrir mig að missa svefn en þarna fékk ég það staðfest svart á hvítu. Í gær var ég ennþá alveg glær af þreytu og ekki hægt að sjá að ég væri nýkomin frá útlöndum en í dag er ég komin með lit í kinnarnar aftur - sem betur fer .-)