sunnudagur, 31. desember 2006

Það getur verið afar skemmtilegt að fylgjast með

samskiptum kattanna okkar, þeirra Birtu og Mána. Þau liggja náttúrulega og sofa megnið úr sólarhringnum eins og katta er siður og oftar en ekki samankurluð. Þó gerir Máni nokkuð sem Birta gerir aldrei og það er að troða sér undir teppi og sængur og sofna þar. Yfirleitt líður ekki á löngu þar til Birta er komin og nusar af honum í gegnum rúmteppið, snýr sér í nokkra hringi á meðan hún finnur besta staðinn en leggst síðan hálft í hvoru ofan á hann. Þar liggja þau svo í sátt og samlyndi þar til Mána er orðið mátulega heitt undir teppinu og ákveður að nú sé kominn tími til að færa sig um set. En þegar hann kemur undan teppinu er það hans fyrsta verk að reka Birtu í burtu og leggjast svo nákvæmlega þar sem hún lá áður, enda er það væntanlega hlýjasti staðurinn á rúminu. Hún reynir af hóflegri bjartsýni að liggja sem fastast og sýna reiðisvip en lætur alltaf undan og færir sig uppá skrifborð á meðan Máni kemur sér fyrir. Þegar hún er svo viss um að hann sé örugglega kominn í ró færir hún sig í áttina að honum, afar varlega því ef hún kemur of snemma rekur hann hana aftur burt, og leggst svo álíka varlega við hliðina á honum. Síðan sofna þau bæði sætum svefni sem getur varað klukkustundum saman ef enginn kemur og truflar þau.

Engin ummæli: