fimmtudagur, 11. desember 2014

Hefur skammdegið náð í skottið á mér?

Úff ég er allt í einu orðin svo óskaplega þreytt og þung á mér ... Nenni engu og langar mest að liggja áfram í rúminu á morgnana. Þetta er kunnuglegt ástand og tengist líklega myrkrinu. Ég hef náttúrulega ekki verið nógu dugleg að sitja við dagsbirtulampann eða fara út að ganga þegar bjart er úti. Kosturinn er þó sá að ég veit hvað ég þarf að gera ... svo er bara spurningin um framkvæmdina. 
Ég reyni samt yfirleitt að drífa mig í sund um áttaleytið á morgnana, og gerði það í morgun eftir að hafa mokað aðeins af bílaplaninu svo jeppinn kæmist þaðan út. Það var nú reyndar frekar fyndið að vera í sundinu því ég var eina konan í búningsklefa kvenna og þegar ég svo kom út í laug var bara einn karlmaður að synda þar. Einn var í heita pottinum og annar að synda í hinni lauginni. Já og svo sá ég einn sem var að fara þegar ég kom. Þannig að í voru fjórir aðrir en ég í sundi. En það var nú reyndar sérstakt ástand því bærinn hafði verið ófær í nótt og í morgun og skólahald féll niður í grunnskólum. Hins vegar var búið að moka aðalgötur þegar ég fór í sundið um hálf níuleytið, svo ég átti ekki í neinum vandræðum með að komast þangað. 
Svo spjallaði ég aðeins við Hrefnu og Erik á Skype en það eru pínulítið fyndin samtöl því hann vill helst ná í tölvuna og skilur auðvitað ekkert í því af hverju hann má það ekki. Í dag leyfði mamma hans honum að koma nær og þá datt stærðar slef-slumma niður á lyklaborðið, hehe ;-) 
Á mánudaginn koma þau svo til Íslands í 3ja vikna langt jólafrí. Að vísu munu þau stoppa í tvær nætur fyrir sunnan að heimsækja vini og ættingja áður en þau koma norður. Þannig að 17. des koma þau til Akureyrar og síðan koma Andri og Freyja frá Keflavík 19. des. og þá verður nú aldeilis líf og fjör í Vinaminni.
Eins og sjá má á myndinni hér að ofan var engin skammdegisþreyta í mér þegar ég skrapp til Danmerkur um daginn. Mikið sem ég hlakka til að knúsa þennan litla gaur aftur í næstu viku. 

fimmtudagur, 4. desember 2014

Pínulítið týnd

Það er alveg stórmerkilegt að í hvert sinn sem ég ætla að byrja að skrifa hér inn þá fæ ég frestunaráráttu á háu stigi. Núna hafði ég rétt lokið við að skrifa fyrirsögnina og þá fannst mér ég alveg bráðnauðsynlega þurfa að kíkja aðeins í myndvinnsluforritið mitt ... Ég sá að mér um leið og ég var búin að opna það og ákvað að halda áfram að skrifa. Varla liðu samt nema nokkrar sekúndur og þá þurfti ég að kíkja á facebook ... Skil ekki sjálf hvað er í gangi. Það er ekki eins og ég sé að skrifa þetta undir neinni pressu, heldur fyrst og fremst fyrir sjálfa mig. Og þegar ég hef ekki skrifað neitt í langan tíma þá byggist upp þörf hjá mér, svo maður skyldi nú halda að það væri auðveldast í heimi að fullnægja þeirri þörf.  
Mergurinn málsins er sá að ég er svolítið týnd þessa dagana. Nú er sá árstími sem ég hef undanfarin 7 ár verið alveg á kafi í vinnu, og yfirleitt óskað þess að hafa ekki svona mikið að gera. Nema hvað, núna þegar ég hef „ekkert“ að gera þá sakna ég þess eiginlega að vera ekki í vinnunni minni í Pottum og prikum. Ég sakna reyndar ekki vinnuálagsins sem var alltof mikið fyrir manneskju með vefjagigt, en ég sakna viðskiptavinanna og samskiptanna við þá á þessum árstíma. Það voru allir að kaupa jólagjafir og þrátt fyrir að desember sé álagstími hjá mörgu fólki þá lá gleði og jákvæðni í loftinu. Við Sunna á fullu að panta vörur (smá stress í gangi að reyna að velja vörur sem myndu ná að seljast og ákveða hve mikið magn átti að panta), og svo var endalaust kapphlaup við að taka vörurnar sem fyrst uppúr kössum og koma þeim fyrir í hillunum (aldrei nóg pláss).  
Ef við horfum á björtu hliðarnar þá er ég búin að setja upp jólagardínurnar í eldhúsinu, sennilega þremur vikum fyrr en venjulega. Ég er reyndar ekki byrjuð að baka eða neitt þannig en hef þá að minnsta kosti nægan tíma til þess. Ég get hvílt mig heima þegar ég er í þreytu- og/eða gigtarkasti. Ég er smám saman að styrkjast, þó mér finnist það megi nú alveg gerast hraðar. En t.d. þá hlustaði ég á útvarpið í bílnum alla leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um daginn og það hefði ég aldrei getað þegar ég var sem verst.  
Það er sem sagt að renna betur og betur upp fyrir mér að ég er ekki með vinnu, og svona í framhaldi af því þá skjóta alls kyns hugsanir upp kollinum. Svona eins og HVAÐA starf henti manneskju eins og mér, þ.e.a.s. með þetta lítið starfsþrek. Stundum hef ég velt því fyrir mér að reyna á einhvern hátt að starfa sjálfstætt við að skrifa, en svo geri ég ekkert í því að útfæra það nánar í kollinum á mér. Enda er ég kannski ennþá svolítið í þeim gír að vera að tjasla mér saman eftir margra ára ofþreytu. En samt þá læðist þessi tilfinning að mér, að finnast að ég EIGI nú að vera að gera eitthvað gáfulegt, taka þátt í atvinnulífinu, þéna peninga. Og þegar sú hugsun er komin þá fer mér fljótlega að finnast ég alveg gagnslaus af því ég er „bara heima“.  
En já á sama tíma þá er ég sem sagt alls ekki tilbúin til að fara út á vinnumarkaðinn í venjulega vinnu, svo ég verð að læra að lifa með sjálfri mér í þessum nýju kringumstæðum. Og trúa því að ég finni út úr þessu öllu saman þegar rétti tíminn er kominn :-)