þriðjudagur, 31. ágúst 2010

Að komast aftur í rútínu eftir frí

Er bæði gott og slæmt. Það er að segja, aðallega gott reyndar. Ég er til dæmis búin að afreka að fara í sund tvo daga í röð og það er nú eiginlega afskaplega jákvætt. Eftir þetta síþreytuástand mitt sem varaði alveg frá janúar fram í maí/júní er líkamlegt form mitt orðið enn lélegra en það var, og var nógu slæmt fyrir. Þannig að það er hið besta mál að drífa sig í sund. Ég fór líka í sjúkranudd í gær og það var nú eiginlega pínu fyndið. Ég var að hitta þennan nuddara í fyrsta skipti en hún hafði afboðað tíma áður vegna veikinda. Þegar ég pantaði þann tíma var ég svo stíf og stirð í skrokknum að ég átti erfitt með að klæða mig í sokka á morgnana. Svo í gær sagði ég við hana að ég væri nú miklu betri en ég hefði verið. Nema hvað, þegar hún fór yfir sviðið og kannaði ástand vöðva, sagði hún að það væri nánast sama hvar hún bæri niður, alls staðar væru miklar bólgur í vöðvunum. Og ég sem kemst auðveldlega í sokka núna ;) En hún ætlar að hitta mig einu sinni í viku til að byrja með og mælti með því að ég kæmi svo reglulega eftir það, til að viðhalda árangrinum. Svo kom í ljós að hún hefur unnið mjög mikið með vefjagigtarkonur og lumar á ýmsum fróðleik og góðum ráðum, þannig að þetta er hið besta mál.

Ég er eiginlega búin að setja mér það markmið að hugsa betur um sjálfa mig í vetur heldur en ég hef gert undanfarið. Ekki bara hvað hreyfingu snertir heldur líka að vera duglegri að gera eitthvað skemmtilegt, eitthvað sem nærir mig og færir mér orku til að takast á við hverdaginn. Svo er bara spurningin hvað það á að vera. Mér finnst gaman að syngja svo ein hugmyndin er að byrja í kór (ef ég kemst einhvers staðar inn...). Ég hef gaman af því að sauma en hef ekki gert það í mörg ár. Svo þarf ég reyndar að fara að elda matinn oftar, því sú mikla breyting verður hjá okkur í vetur að Valur mun vinna í Noregi að hluta. Það er að segja, hann fer niður í ca. 20% vinnu á sjúkrahúsinu hér, og fer á ca. 6 vikna fresti til Tromsö og vinnur þar í 2 vikur í senn. Það verða viðbrigði fyrir okkur lúxusdýrin (mig, Andra og Ísak) sem erum vön því að hann kokki ofan í okkur, en á hinn bóginn þá höfum við bara gott af því að þurfa að hugsa aðeins um okkur sjálf að þessu leyti. Mér finnst t.d. ekkert leiðinlegt að elda og þeir bræður þurfa líka að æfa sig aðeins í þessu.

Hrefna er komin til Kenya í Afríku þar sem hún verður næstu þrjá mánuðina ásamt vinkonu sinni. Þær verða í bæ sem heitir Busia og verða að vinna á sjúkrahúsinu þar. Þetta er sjálfboðastarf en þær vinna sem læknanemar. Þetta verður án efa mjög fróðlegt fyrir  þær og lærdómsríkt, þó vissulega sé hætta á menningarsjokki fyrst í stað. Ég heyrði aðeins í Hrefnu áðan en þá voru þær stöllur staddar í Nairobi, á leið til Busia. Í nótt sváfu þær í einhvers konar strákofa og voru að drepast úr kulda. Þar komu íslensku lopapeysurnar sterkar inn. Hrefna var kvefuð, kalt og illa sofin en það rætist vonandi úr því öllu þegar þær komast á áfangastað.

Andri tekur sér frí frá námi í vetur. Það finnst mér vera þjóðráð því bæði hefur hann þjáðst af námsleiða í mörg ár og eins hefur hann ekki hugmynd um það hvað hann langar að læra. Þannig að það er bara gott að taka sér aðeins hlé og hugsa málið. En þá er líka vonandi að hann fái vinnu.

Ísak er byrjaður í 10. bekk, síðasta árið hans í grunnskóla. Og nú fór ég eina ferðina enn að hugsa um það hvað tíminn líður hratt... Ekki orð um það meira.

mánudagur, 30. ágúst 2010

Gott að vera komin heim

Þó við Valur hefðum reyndar alveg verið til í að vera nokkra daga í viðbót í Toronto. Veit ekki með Ísak... En það tekur nokkra daga að jafna sig á tímamismuninum og það voru eiginlega síðustu þrír dagarnir sem voru bestir. Þá lét sólin líka sjá sig og við vorum þar að auki farin að rata betur um miðborgina. En það tekur greinilega smá tíma fyrir svona sveitafólk eins og okkur að venjast stórborginni, ég sé það. Til dæmis þá var varla hægt að hafa opið út á svalir í íbúðinni fyrir ógurlegum umferðargný. Svo var slökkviliðið endalaust í útköllum, hvað svo sem hefur valdið því, og hávaðinn í slökkvibílunum var kapítuli út af fyrir sig.

En sem sagt, þetta vandist allt og fólkið þarna var afskaplega kurteist og borgin ótrúlega hrein. Maður sá hvergi rusl, hvorki á götunum né annars staðar. Næstsíðasta daginn fórum við í skemmtigarð sem var eins konar tívolí en þar voru líka vatnsrennibrautir. Þar var fólk endalaust á ferðinni með sópa og fægiskóflur - nema hvað það var bara nánast ekkert rusl til að sópa.

Síðasta daginn fórum við svo upp í turninn, CN tower, sem er helsta kennileiti borgarinnar. Þetta var lengi vel hæsta bygging í heimi 553 mtr. ef ég man rétt. Þar uppi í 350 metra hæð er veitingastaður sem snýst í hringi, svona eins og Perlan í Reykjavík. Með því að panta borð á veitingastaðnum fær maður frábært útsýni ókeypis með en annars kostar slatta að komast þarna upp í turninn. Plús að maður sleppur við biðraðir svo það er vel þess virði að panta sér borð og taka sér góðan tíma í að njóta matarins og horfa á útsýnið.

Við gerðum ýmislegt annað okkur til skemmtunar í borginni. Fórum í bíó og á rokksöngleik. Einnig fórum við í skoðunarferð og siglingu yfir í Eyjarnar fyrir utan borgina. Þar leigðum við okkur hjól og hjóluðum um allt. Svo kíktum við aðeins í búðir en ég var bara alls ekki í neinu verslunarstuði þannig að ég keypti mér bara einar buxur og eina peysu. Valur gaf mér svo nýjan regnjakka því hann er orðinn eitthvað þreyttur á sjálflýsandi gulgræna regnjakkanum mínum...

En já ég þarf víst að fara að koma mér í vinnuna. Það gekk nú ekki sérlega vel að sofna í gær og við vöknuðum örugglega 12 sinnum í nótt, tímamismunurinn er að segja til sín, en það er 4ra tíma munur milli Íslands og Toronto. Og nú er ég farin :)

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Skýjakljúfar og ský í háloftunum

er þemað hér í Toronto. Við leigðum íbúð á opnum markaði og erum ekki á hóteli og allt í kringum okkur eru bara eintóm háhýsi. Ég var eiginlega komin með innilokunarkennd af öllum þessum skýjakljúfum og hef aldrei áður séð jafn há hús, né jafn mikið af þeim á jafn litlu svæði. Rétt hjá okkur er svo einn hæsti turn í heimi - en ég man ekki hvað hann er hár...
Þessa þrjá daga sem við höfum verið hér hefur veðrið verið frekar grátt og rignt á köflum svo við höfum ekki farið í neinar lengri ferðir, heldur haldið okkur mest við miðbæinn og svæðið hér í kring. Í dag fórum við í skoðunarferð í opnum strætó en hættum við að fara í siglingu út í eyjarnar hér fyrir utan vegna rigningar. Hárið á mér náði alveg nýjum hæðum í rigningunni, hitanum og rakanum hér :)
Á morgun er spáð einhverri sól og hugsanlega förum við að skoða dýragarðinn, nú eða þá í þessa ferð sem við ætluðum í í dag. Kemur bara í ljós. Og nú vill Ísak komast í tölvuna svo ég er hætt...

mánudagur, 2. ágúst 2010

20 ára brúðkaupsafmæli hjá gamla settinu í dag

Já það sem tíminn líður (úff ég held að þetta sé algengasta setningin mín hérna á blogginu). En hann bara líður svo ótrúlega hratt. Mér finnst það eiginlega ekki geta verið komin 20 ár - en Andri er jú líka 20 ára á árinu - og Hrefna verður 27 ára... Hjálp, ég er að verða gömul...

Mér fyndist ég kannski ekki svona gömul ef ég væri í fínu formi en það er ég ekki. Hef bara setið og étið á mig gat í sumarfríinu og safnað spiki. Enda er svo komið að ég er hætt að passa með góðu móti í sumar buxurnar mínar. Þetta gengur náttúrulega ekki lengur! Vandamálið er hins vegar að ég get engan veginn farið í megrun og hef aldrei getað. Í þessi skipti sem ég hef verið sem grönnust þá hef ég bara grennst án þess að gera nokkuð í því sjálf. Ekki fer ég að hlaupa af mér kílóin því ég get jú ekki hlaupið, svo það eina sem kemur til greina er einhvers konar tiltekt í mataræðinu án þess þó að um megrun verði að ræða. Þarf víst að sofa aðeins á þessu ;)

Andri kom heill á húfi frá Vestmannaeyjum og bara í nokkuð góðu ásigkomulagi. Hafði ekki sofið mikið í nótt í riginingunni og rokinu, enda var tjaldið hans ekki mjög skjólgott.

Ég byrja aftur að vinna á morgun eftir notalegt 2ja vikna sumarfrí. Það verða smá viðbrigði því ég hef jú bara legið í leti í fríinu og farið seint að sofa og seint á fætur. Við höfum farið í nokkrar ljósmyndaferðir en ferðuðumst ekki meira vegna þess að Valur var svo óheppinn að skera sig í fingurinn og vildi ekki taka neina áhættu með hann, enda hendurnar hans atvinnutæki nr. 1.

En já, bloggið er víst að deyja út, meira að segja mamma komin á facebook og allir þar. En ég held nú samt áfram að blogga annað slagið, bara svona fyrir sjálfa mig.

sunnudagur, 1. ágúst 2010

AldeyjarfossAldeyjarfoss, originally uploaded by Guðný Pálína.
Hér kemur önnur mynd úr ferðinni okkar Vals. Þessi er svona hefðbundnari sýn á fossinn.