þriðjudagur, 31. júlí 2007

Fórum sem sagt suður

á laugardegi og heim á sunnudegi. Ég fer að setja persónulegt met í suðurferðum, bara alltaf að skreppa. En eins og Sólrún vinkona mín benti mér á þá mættum við kannski stoppa lengur í eitthvert skiptið, svo hægt sé að bjóða okkur í mat :-) Afmælisveislan var á sunnudeginum kl. 17 - 20 og við vorum eiginlega hálfgerðir leynigestir því afmælisbarnið vissi ekki af því að við kæmum. Held að það hafi bara komið honum ánægjulega á óvart. Svo sem sagt brunuðum við norður og með einu eða tveimur pissustoppum þá tók það okkur 4 tíma og 10 mínútur á löglegum hraða. Ég var orðin eitthvað svo upptjúnnuð eftir ferðina að ég ætlaði aldrei að geta sofnað og er eiginlega búin að vera þreytt í tvo daga... Dreif mig nú samt í sund í morgun, þarf endilega að fara að koma meiri reglu á sundið aftur.

Annars gerðist það markvert í dag að Sunnu tókst að fá bæjarstarfsmenn ofan af þeirri hugmynd að planta ruslatunnu beint fyrir framan búðargluggann hjá okkur. Þeir voru búnir að rífa upp hellur og byrjaðir að grafa fyrir tunnunni en mokuðu ofan í aftur og settu hellurnar á sinn stað eftir að Sunna hringdi í yfirmann þeirra hjá bænum. Hann kom og leit á aðstæður og tunnunni var fundinn nýr staður. Flott hjá Sunnu!

föstudagur, 27. júlí 2007

Bara fjör

Við vorum með vinafólk okkar í mat í kvöld, þau Ingu og Dóra sem því miður eru flutt til Reykjavíkur (eins og ansi margir aðrir...) og það endaði með því að pöntuð var ferð til Berlínar í lok október, þannig að það er bara fjör! Barcelona í september og Berlín í október. Við höfuðum reyndar rætt þetta áður svo þetta var nú engin skyndiákvörðun, þannig lagað. Er það ekki dæmigert að maður fer ekkert í heilt ár og svo tvo mánuði í röð? Hm, held nú reyndar að ég hafi aldrei farið til útlanda með svo stuttu millibili áður en einu sinni verður allt fyrst. Svo var hringt í dag og okkur boðið í fimmtugsafmæli á sunnudaginn í Reykjavík. Hjörtur bróðir Vals á afmæli og ætli við skellum okkur ekki bara suður, amk. við hjónin. Þá förum við um hádegi á morgun og komum eftir miðnætti á sunnudaginn (veislan er milli 5 og 8). Ísak sagði að hann myndi nenna að fara ef ferðin tæki svona hálftíma og Andri er ekki búinn að gefa svar ennþá. Hrefna hefur líklega ekki verið spurð ennþá hvort hún vilji koma með, það hefur bara gleymst í öllu atinu í kvöld. Annars er ég farin í háttinn, Guðný gamla...

Göngubrú yfir Glerá


Red and blue, originally uploaded by Guðný Pálína.

fimmtudagur, 26. júlí 2007

Ég veit ekki alveg

hvað þessi ógurlega bloggleti á að þýða. Líklega er hún merki um eitthvað allsherjar andleysi sem hrjáir mig þessa dagana. Annars er bara allt í góðu, búið að vera heilmikið að gera í Pottum og prikum undanfarið og allir í ágætu standi hér heima.

Ja, nema þá helst kettirnir, Birta lenti í slagsmálum, var bitin í vangann og fékk sýkingu í sárið. Og Máni fékk ofnæmiskast eftir árlega sprautu og ældi "non stop" í sólarhring. Það var þó skárra en í fyrra, þá missti hann þvag og hægðir og fór alveg í mínus. Þá var það ferðin til dýralæknisins sem gerði hann svona hræddan að hann fékk bara hálfgert taugaáfall. Núna fékk ég bóluefni með heim og Valur sprautaði hann, nokkuð sem gekk svo vel að Máni malaði bara á meðan hann var sprautaður. En svo við víkjum aftur að Birtu þá uppgötvaðist hjá dýralækninum að í hana vantaði neðri vígtönnina og til að kóróna það, þá hefur hún einhvern tímann fótbrotnað án þess að við höfum tekið eftir því. Ég man reyndar eftir því að hún var svolítið hölt á tímabili, en það var nú ekki nógu mikið til þess að við kveiktum á perunni með fótbrot. Elfa sagði að við skyldum ekki hafa móral yfir því (ég fór alveg í steik yfir þessu) því það hefði ekkert verið hægt að gera og hún hefði jafnvel ráðlagt okkur að láta lóga henni ef við hefðum komið með Birtu til hennar fótbrotna. En henni gengur ágætlega með sinn brotna fót, það er aðallega minnkuð hreyfigeta sem háir henni örlítið.

Við fjölskyldan (fyrir utan háskólanemann) eigum pantaða ferð til Barcelona 1. september, í eina viku, og ég var að panta gistingu í dag. Verð að viðurkenna að ég hlakka heilmikið til :-)

sunnudagur, 15. júlí 2007

Skítadjobb

er heiti á bók eftir Ævar Örn Jósepsson ef ég man rétt. Þetta var orðið sem mér fannst lýsa því best að þrífa grillið. Eins og grillaður matur er nú góður þá er ekki jafn gaman að þrífa grillið - enda hef ég látið eiginmanninn algjörlega um þá iðju fram að þessu. Eitthvað var hann þó að svíkjast undan merkjum í þetta sinni, nefndi það um daginn hvort ég gæti ekki gert þetta núna. Ég gaf nú lítið fyrir það en ákvað á þessum fagra sunnudegi að nú væri rétti tíminn kominn. (Þreif líka bílinn í gær með Andra svo hér er allt að verða skínandi hreint... hm, þetta voru reyndar ýkjur, það er af nægu að taka í þrifnaðardeildinni.) Allavega, þá sem sagt þreif ég þetta blessað grill og var amk. einn og hálfan tíma að því. Tók allt í sundur, úðaði með grillhreinsi, skrúbbaði með stífum bursta, skolaði með vatni og lét svo þorna í sólinni. Það hafði eiginlega verið á dagskrá hjá mér í dag að þrífa klósettin en ég held að þau fái bara að vera skítug einn dag í viðbót. Ég er farin út að sleikja sólina :-)

P.S. Valur hringdi í mig í dag úr veiðinni. NOkkuð sem út af fyrir sig eru þónokkur tíðindi því hann hefur það ekki fyrir sið að hringja heim úr veiðiferðum heldur notar þær alfarið til að afslöppunar og að kúpla af frá þessu daglega streði. Sem er hið besta mál af minni hálfu, ég bara samgleðst honum að geta komist burt í nokkra daga án þess að þurfa að hafa áhyggjur af heimilisfólkinu á meðan. Allavega, hann hringdi sem sagt til að segja mér að hann hefði veitt 8 punda urriða, þann stærsta sem veiðst hefur í ánni í sumar. Gaman að því!

Njóli við sjóinn


Njóli við sjóinn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég fór út í gærkvöldi í þeim tilgangi að taka myndir. Ók um bæinn en gekk samt hálf illa að finna myndefni. Vildi nefnilega reyna að hafa kvöldsólina sem lýsingu og hana var bara ekki alls staðar að finna. En hér varpar hún ljóma á þá gróðurtegund sem njóli nefnist, enda skín sólin jafnt á háa sem lága ;-)

föstudagur, 13. júlí 2007

Annað hvort í ökkla eða eyra

Já, ég er að blogga í annað skiptið í dag, eftir að hafa verið afar afkastalítil í þeirri deild undanfarnar vikur. Ástæðan fyrir þessum nýfengna blogg-dugnaði er líklega sú að mér leiðist, í augnablikinu að minnsta kosti. Vissi einhvern veginn ekkert hvað ég átti af mér að gera í dag. Líklega viðbrigðin eftir að hafa haft heimsókn í tæpar tvær vikur og til að auka enn á einmanaleikatilfinninguna þá er eiginmaðurinn í veiði (eins og áður hefur komið fram), dóttirin hefur ekki sést hér heima í dag, eldri sonurinn er farinn í bíó og sá yngri er í heimsókn hjá vini sínum. Þó er ég ekki alveg alein, kettirnir halda mér félagsskap eins og þeim einum er lagið. Þau lágu t.d. bæði ofan á mér meðan ég las 384 bls. bók Árna Þórarinssonar (Tími nornarinnar) en það tók mig sennilega á bilinu 3 til 4 klukkutíma. Og bara svo það komi skýrt fram þá byrjaði ég á byrjuninni og las til enda - kíkti ekkert á endirinn... (Þetta síðasta er sérstaklega skrifað fyrir dóttur mína sem á ekki til orð yfir mömmu sína þegar hún stelst til að lesa endirinn, eða byrjar jafnvel á því áður en hún byrjar á bókinni sjálfri.).

Jamm og jæja, vinna á morgun, annars er ekkert planað. Úti er lágskýjað og rigningarsuddi á köflum, ekki sérlega spennandi veður. Spurning að fara bara að sofa...

Meiri ferðalög...

Já, ég skellti mér yfir Kjöl með Önnu systur, Ísaki og Sigurði. Anna og Sigurður þurftu að komast suður og henni datt í hug að fara með rútu yfir Kjöl. Þá fékk Valur þá snilldarhugmynd að ég gæti bara keyrt þau mæðginin suður og það varð úr.

Við fórum af stað klukkan tvö á mánudaginn (mér að kenna að við fórum svona seint af stað, ég bara get ekki verið fljót að taka mig til í ferðalag). Vegurinn var góður framan af en þegar nálgaðist Hveradali var hann orðinn frekar slæmur og var mjög slæmur megnið af leiðinni eftir það. Þvottabretti og grófur. Samt rosalega gaman að aka þessa leið! Við vorum komnar niður að Gullfossi um níuleytið um kvöldið og fengum okkur að borða á Hótel Gullfossi. Gistum um nóttina að Efsta Dal.

Daginn eftir fórum við að skoða Geysi (hm, eða Strokk öllu heldur) og fórum svo í sund í Reykholti þar rétt hjá. Borðuðum nesti fyrir utan sundlaugina en skelltum okkur svo til Stokkseyrar þar sem við fórum niður í fjöru, Ísak fór að vaða en ég steinsofnaði í smá stund úti í guðsgrænni náttúrunni. Þá voru allir orðnir svangir og við ókum á Eyrarbakka og fengum okkur að borða á veitingastaðnum Rauða húsini. Þar fengu strákarnir sér pítsu en við Anna borðuðum fiskisúpu. Eftir matinn ókum við svo meðfram sjónum alla leið til Keflavíkur og gistum hjá mömmu og Ásgrími um nóttina.

Við Ísak keyrðum svo norður á miðvikudaginn, lögðum af stað frá Keflavík kl. 11.30 og vorum komin til Akureyrar kl.17.10. Stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur að borða en ókum annars nokkurn veginn í einni lotu norður því Ísak þurfti að mæta í afmæli klukkan fimm.

Annars er það bara "business as usual". Valur dreif sig í eina af veiðiferðum sumarsins í dag (ég sleppti því nú víst að skrifa um það en hann fór til Rússlands að veiða um daginn, var í viku) og verður fram á mánudag.

Það gerðist svolítið skemmtilegt í vinnunni í dag. Beta baun (bloggari) birtist allt í einu og verslaði við mig :-) Það er svolítið skrítið að sjá fólk svona "life" eftir að hafa lesið bloggið en aðallega mjög gaman.

fimmtudagur, 5. júlí 2007

Brjálað að gera og enginn tími til að blogga


- Er byrjuð að vinna aftur eftir 2ja vikna sumarfríið - en verð reyndar í fríi á morgun, mánudag og þriðjudag.
- Anna systir og Sigurður systursonur eru í heimsókn hjá okkur núna. Því miður getum við afskaplega lítið sinnt gestunum því:
- Enn eitt mótið (sem hét áður Essomót en heitir núna N1 mótið) er í gangi og Ísak og foreldrarnir frekar upptekin öll sömul í sambandi við það.
- Valur fór klukkan sex í morgun og aðstoðaði við að bera fram morgunmat handa tæplega 900 manns í KA húsinu, ég tók við af honum klukkan átta og var til tíu.
- Ísak er búinn að spila þrjá leiki í dag og einn í gær. Þeir hafa unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli svo það gengur aldeilis vel hjá þeim. Hann skoraði þrjú mörk í fyrsta leiknum og hér sjá mynd af fótboltadrengnum eftir það afrek :-)