mánudagur, 27. febrúar 2006

Er búin að setja nýtt met í að vera klaufi

Hef ítrekað verið að missa hluti úr höndunum á mér undanfarið.

Atvik nr. 1 átti sér stað á fimmtudaginn þegar ég var að versla inn fyrir kökubaksturinn, þá fór ég í Hagkaup og Hrefna var svo (ó)heppin að vera með mér. Eitt af því sem mig vantaði voru sólþurrkaðir tómatar og þegar ég teygði mig í eina krukku þá rak ég mig í leiðinni í krukkustaflann og önnur krukka datt í gólfið með háum hvelli því um glerkrukku var að ræða. Hún brotnaði að sjálfsögðu og tómatar og olía slettust út um allt + allir sem voru í nærliggjandi radíus litu við til að athuga hvað gerst hafði. Karlmaður sem var við hliðina á mér sló á létta strengi og sagði "Heyrðu, þú misstir eitthvað". Góður!

Atvik nr. 2 gerðist næsta dag. Ég var búin að vinna í kaffinu á árshátíðinni og var á heimleið þegar ég mundi að mig vantaði jarðarber til að hafa ofan á ostaístertunni. Kom við í 10-11 og þá var búið að endurskipuleggja alla búðina. Ég fann nú samt grænmetis og ávaxtahilluna en sá engin jarðarber. Fór og spurði afgreiðslustúlkuna og viti menn, jarðarberin voru náttúrulega beint fyrir framan mig þó frú sjónlaus hefði ekki séð þau. Ég greip eina öskjuna - en hvað skeði - jú ég missti hana beint á gólfið og öll jarðarberin skoppuðu út og rúlluðu víðsvegar um gólfið. Mér fannst þetta nú ekki einleikið, ég man aldrei eftir að hafa misst nokkurn skapaðan hlut í verslunum áður og nú gerðist það tvo daga í röð.

Atvik nr. 3 átti sér svo stað í gærkvöldi. Merkilegt nokk gerðist ekkert slíkt á laugardaginn en nægt tilefni gafst nú því ég málaði heilt herbergi þann dag (hm, ruglaðist aðeins, málaði í gær, lá í leti allan laugardaginn). En í gærkvöldi komu tvær vinkonur mínar í heimsókn og mér datt í hug að kveikja á kertum í stofunni og hafa það svolítið huggulegt. Þegar ég teygði mig ofan í skúffuna sem eldspýturnar eru geymdar í og greip eldspýtnastokkinn vildi ekki betur til en ég missti hann út úr höndunum á mér (NB! eftir að hafa verið búin að opna hann uppá gátt) og allar eldspýturnar hrundu í gólfið - og þetta var sem sagt stór eldspýtnastokkur. Mér féll nú bara allur ketill í eld og fór alvarlega að íhuga hvaða áður óþekkti sjúkdómur þetta væri. Verður kannski skýrt "Guðnýjar syndrome"...

miðvikudagur, 22. febrúar 2006

Stiklað á stóru

Það er nú svo skrýtið að af því ég held úti bloggsíðu á annað borð þá finnst mér eins og mér beri skylda til að blogga reglulega. Oftast nær er það ekki neitt vandamál, ég á frekar við ritræpu að stríða heldur en ritstíflu. En svo koma tímabil þegar ég er bara algjörlega andlaus og finnst það ærið verkefni að þurfa að fara á fætur á morgnana og sinna minni vinnu, þó ég þurfi ekki að blogga líka. Fljótlega byrjar þó lítil mjóróma rödd að hvísla: "Já, en Guðný þú verður að blogga, þó ekki væri nema af tillitssemi við lesendur síðunnar". Svo líða dagarnir og röddin verður smám saman sterkari og kröftugri og loks fer hún að hrópa: "Guðný, hvað á þetta eiginlega að þýða, af hverju bloggarðu ekki?". Og ég svara: "En ég hef ekkert að segja, það gerist ekkert markvert." En röddin segir: "Hvaða bull er þetta í þér, þú þarft ekki að hafa neitt að segja. Sýndu bara að það sé lífsmark með þér. Hver veit, kannski þú fáir einhverja hugljómun þegar þú sest fyrir framan tölvuna og fingurnir fara að slá á lyklaborðið." Við þessu á ég ekkert svar nema: "ALLT Í LAGI ÞÁ, ÉG SKAL BLOGGA!"

Stiklur:

* Eldri sonurinn og frumburður föður síns átti 16 ára afmæli þann 17. febrúar. Einhverra hluta vegna þá er sextán ára afmæli alltaf svolítið merkilegt. Því lögðum við áherslu á að hann myndi gera eitthvað í tilefni dagsins (hefur ekki viljað það síðustu þrjú, fjögur árin) - og hann bauð ca. tíu strákum heim í pítsur, gos og nammi á afmælisdeginum en svo vel hittist á að hann var á föstudegi.

*Við þrjú erum hægt og bítandi að sigrast á kvefpestinni sem var að angra okkur. Ég fór m.a. í Heilsuhornið og keypti þar ólífulauf, sólhattsmixtúru og blágrænþörunga til að nota í baráttunni við pestarpúkann. Því miður virðist Andri vera að falla fyrir honum núna svo þessu er ekki alveg lokið enn...

*Við Valur fórum með Ísak á bingó í Lundarskóla í gær. Valur er mikill keppnismaður - var svo lánsamur að fá BINGÓ - og fékk meira að segja verðlaun! Eftir spilið var boðið upp á kaffi og meðlæti sem foreldrarnir komu með. Eini gallinn var sá að það eru 24 börn í bekknum en einungis foreldrar tíu barna mættu, það hefði verið gaman að sjá fleiri.

*Hrefna mín er á fullu að undirbúa umsóknir í danska háskóla - gaman að því. Það verður gaman fyrir hana að komast á fullt í "alvöru nám" eins og Valur orðar það svo skemmtilega.

*Birta og Máni eru hress að venju. Í dag gerðist þó sá fáheyrði atburður að það gleymdist að gefa þeim að borða í morgun. Þegar ég kom heim um fimmleytið í dag fór Birta að mjálma ámátlega og var ég þá fljót að kveikja á perunni og gefa hinum sársvöngu ferfætlingum einhverja næringu.

*Á föstudaginn þarf ég að útvega eina tertu, einn brauðrétt og muffins fyrir árshátíð Lundarskóla en þá eru tíundubekkingar með kaffihlaðborð í fjáröflunarskyni fyrir útskriftarferðina.

*Á föstudaginn verð ég líka með konuklúbb og þarf að græja veitingar handa konunum ;-)

sunnudagur, 19. febrúar 2006

Hóst, hóst, hóst...

er algengasta hljóðið sem heyrist hér í húsi um þessar mundir. Þrír fjórðu heimilismeðlima eru kvefaðir og ég er orðin ótrúlega leið á að hlusta á rámar raddir og rykkjóttan hósta. Valur er búinn að vera lasinn í tíu daga en hefur farið í vinnu eins og hans er von og vísa. Ég var orðin eitthvað skrýtin (fremur venju) eftir hádegi á fimmtudag þannig að ég er bara á degi þrjú í pestinni og á föstudeginum var hringt í mig úr Lundarskóla og ég beðin um að sækja Ísak sem var þá kominnn með hita. Mér skilst að þetta sé ekkert einsdæmi, heilu fjölskyldurnar og hálfu vinnustaðirnir séu undirlögð af þessari pesti. Hvernig myndi Pollýanna taka á þessu máli? Ætli hún myndi ekki gleðjast yfir því að kvefpesti leiðir sjaldnast til dauða og þetta er þar af leiðandi bara spurning um að þreyja þorrann ;-)

Úti er hins vegar alveg yndislegt veður (dæmigert páskaveður), sól, logn, snjór og ekkert smá fallegt að horfa upp í Hlíðarfjall.

þriðjudagur, 14. febrúar 2006

Much ado about nothing / Ys og þys útaf engu

er nafnið á bíómynd sem gerð var árið 1993 eftir leikriti William Shakespeare. Þetta var mjög skemmtileg mynd og vel þess virði að sjá aftur.

mánudagur, 13. febrúar 2006

Í einskismannslandi

Ég er í einhverju undarlegu ástandi þessa dagana - veit varla hvort ég er að koma eða fara einhvern veginn.... Hef of mikið að gera í vinnunni, er búin að vera með einhverja skítapesti í nærri heilan mánuð sem ég bara næ ekki að hrista af mér þrátt fyrir góðan vilja, kemst ekki yfir að vinna ákveðið verkefni sem ég tók að mér og er komin með hörmulega slæma samvisku í kjölfarið, vantar jarðtengingu en vantar líka að geta sleppt mér aðeins lausri (bara njóta þess að vera til, án allra kvaða) - held ég hætti þessari upptalningu áður en ég æri lesendur þessarar síðu.

Fór með mínum ektamanni í bíó í síðustu viku og þar sáum við myndina um Johnny Cash. Þetta var afar skemmtileg kvöldstund og vel hægt að mæla með myndinni (kannski samt æskilegt að hafa gaman af sveitatónlist). Það hlýtur að vera ánægjulegt að búa yfir svona miklum hæfileikum - og geta nýtt sér þá. Johnny lét á það reyna og náði árangri - á meðan margir aðrir guggna bara og prófa ekki einu sinni...

miðvikudagur, 8. febrúar 2006

Vonbrigði

Þegar ég fór suður í byrjun janúar í húsmæðraorlof/innkaupaferð keypti ég mér m.a. hvíta Esprit rúllukragapeysu í Debenhams. Hún er úr blöndu af bómull og einhverju gerviefni sem ég kann ekki að nefna í augnablikinu, afskaplega þægileg að vera í og svolítið sparileg út af hvíta litnum. Það er að segja VAR sparileg. Eftir að hafa farið tvisvar í peysuna datt mér sú vitleysa í hug að þvo hana - stillti vélina á viðkvæman þvott og allt hefði átt að vera í besta lagi - en þegar ég tók peysuna út var hún ekki lengur snjóhvít, heldur með grábláu yfirbragði! Hafði þá blár sokkur legið í vélinni án þess að ég tæki eftir honum - og smitað svona líka út frá sér... Gaman eða hitt þá heldur. Það versta í þessu samhengi er ekki fjárhagslegt tjón, peysan var jú keypt á útsölu og mig minnir að hún hafi kostað 2.500 krónur. Nei, verst er að ég var svo ánægð með hana, hún klæddi mig vel og passaði fullkomlega við svartar (hvít)teinóttar buxur sem ég á. Böhöhö, mig langar nú barasta að fara að gráta......

þriðjudagur, 7. febrúar 2006

Er alveg hriiiikalega syfjuð í dag

og það þýðir bara eitt, ég verð alveg hræðilega utan við mig. Í morgun var ég nærri búin að gleyma að smyrja nesti handa strákunum (Valur gerir það venjulega en er á Sauðárkróki), svo var ég nærri búin að gleyma nestinu mínu heima en rak augun í það á síðustu stundu, ég gleymdi sundgleraugunum mínum í töskunni og var búin að læsa skápnum áður en ég áttaði mig, ég gleymdi að bera á mig body lotion þegar ég kom upp úr lauginni (ég gleymdi samt ekki að synda, haha) - og núna sit ég og les bókina sem ég er að kenna (hellingur af nýju efni sem ég hef ekki séð áður) og gleymi jafnóðum því sem ég er búin að lesa....

Ég hafði þó vit á því að taka með mér gönguskó í vinnuna og á eftir, þegar þreytan ætlar mig lifandi að drepa, þá fer ég út að ganga. Snjöll!

fimmtudagur, 2. febrúar 2006

Var að ganga heim

úr bænum áðan (ég gekk sem sagt í bæinn og heim aftur, dugleg!) þegar tveir bílar stöðvuðu fyrir mér á gangbraut. Þeir voru að koma hver úr sinni áttinni en það var skrýtin tilviljun að þeir voru báðir hvítir - og ég var í hvítri úlpu. Úr þessu spunnust einhverjar hugleiðingar hjá mér um hvíta litinn og í framhaldinu mundi ég allt í einu eftir hvítu dragtinni sem ég saumaði mér einu sinni fyrir langa löngu fyrir árshátíð á sjúkrahúsinu. Þetta var á þeim tíma sem við Valur vorum að draga okkur saman og yfirlæknirinn á Lyfjadeildinni þar sem ég vann hafði boðið öllu starfsfólkinu heim til sín í kokteil fyrir árshátíðina. Ég hafði sem sagt ákveðið að sauma mér dragt og sat sveitt við saumavélina, nánast þar til ég var sótt. En það var þess virði, bæði var ég sjálf mjög ánægð með mig - og þegar ég kom í partýið sá ég að Valur glennti upp augun. Seinna um kvöldið hrósaði hann mér fyrir það hvað ég væri glæsileg ;-) En blessuð dragtin átti ekki mjög langa lífdaga, tískan gekk fljótt af henni dauðri...

Féll í þá gryfju

að borða ekki hádegismat fyrr en klukkan hálf tvö. Mæli ekki með því - borðaði alltof mikið og veit að það er ávísun á þreytu og slen innan skamms. Best að reyna að koma einhverju í verk áður en ég velt útaf...