En nú þýðir ekkert annað en drífa sig fram. Klósettið næst á dagskrá og tannburstun. Mikið sem mig langar samt til að sofa lengur. Kveiki á útvarpinu og vona að í því sé eitthvað hressilegt lag sem hjálpi mér að vakna. Dreg andann djúpt og fer og ýti við yngri syninum. Hann sem áður spratt upp á morgnana eins stálfjöður er orðinn eins og klassískur unglingur (þó hann verði ekki 12 ára fyrr en í mars) og sefur núna eins og steinn þar til hann er vakinn. Fyrstu viðbrögð eru þau að snúa sér á hina hliðina og draga uppfyrir haus, vitandi það að hann fær að kúra aðeins lengur. Ég heyri engan umgang úr herbergi eldri sonarins og banka á hurðina en þá er hann vaknaður. Það er ótrúlega mikill munur síðan hann fór að vakna sjálfur, verð að segja það. Ég græja nestið fyrir þann yngri (sem hefur komist fram í eldhús en lítur út fyrir að vera ennþá hálf sofandi þar sem hannn situr við eldhúsborðið) og minni þann eldri á að taka með sér sitt nesti. Kveð þá bræður, gríp sundtöskuna og dríf mig í mitt hefðbundna morgunsund.
Þegar ég stend í sturtunni get ég varla hugsað mér að fara út í laug af því það er kalt úti og mig langar bara að vera áfram undir heita vatninu. En læt mig hafa það og og hálfhleyp þessa fáu metra að bakkanum. Kuldinn smýgur inn að beini en samt er ekki einu sinni kalt úti (hitastigið rétt við frostmark) en laugin er köld. Nenni ekki að synda allar 40 ferðirnar, læt 36 nægja í dag. Fer í pottinn og þaðan í gufuna. Get ekki hugsað mér að fara í kalda sturtu eftir að það byrjaði að kólna úti. Í sturtunni á ég erfitt með að horfa ekki á konu sem virðist þjást af lystarstoli á háu stigi, Vona hennar vegna að svo sé ekki. Skelli á mig hæfilegum skammti af snyrtivörum, blæs hárið og dríf mig heim.
Næ því að borða morgunmat í rólegheitum og lesa blöðin við ljósið af dagsbirtulampanum mínum áður en ég þarf að fara í vinnuna. Er full af orku eftir sundið og matinn og alveg búin að gleyma því hve erfitt var að vakna fyrr um morguninn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli