mánudagur, 30. janúar 2006

Æ, aumingja eyrað mitt...

Er búin að vera í símanum meira og minna í tvo klukkutíma og er komin með þvílíka hlustaverkinn í vinstra eyrað. Því miður þá er ég haldin þeim undarlega "sjúkdómi" að ég get ekki talað í símann með hægra eyranu (ókey, ég veit að maður talar ekki með eyranu en ég treysti því að fólk skilji hvað ég á við). Er sömuleiðis komin með krampa í vinstri handlegginn af að halda á símtólinu - já ég er farin að átta mig betur á því af hverju maðurinn minn neitar stundum að svara í símann heima eftir að hafa verið mikið í símanum þann daginn í vinnunni ;-)

laugardagur, 28. janúar 2006

Það var mikið - mikið

Mikið sem mér leiðast atvinnuauglýsingar þar sem ekki kemur fram hvaða fyrirtæki er að auglýsa eftir starfskrafti - "Fyrirtæki á Akureyri óskar eftir að ráða...."

Mikið sem mér finnst það skemmtilegur vani hjá konunum (kannski alveg eins hjá köllunum, veit það bara ekki) sem mæta reglulega í Sundlaug Akureyrar að bjóða góðan daginn. Það er svo vinalegt eitthvað, Góðan daginn + bros sem nær til augnanna, hvað vill maður hafa það betra.

Mikið sem ég er fegin að vera að hressast af pestinni sem var að hrjá mig í vikutíma.

Mikið sem er leiðinlegt að frétta að vinafólk sé að flytja á brott.

Mikið sem það er spennandi að vita hvernig rétturinn sem ég ætla að elda í kvöld tekst til hjá mér - hjálparvana eiginkonu "eldhús-snillings".

Mikið sem þau Birta og Máni eru brjáluð í harðfisk.

Mikið sem það er gaman þegar Hrefna mín er í góðu skapi.

Mikið sem ég á duglegan mann.

Mikið sem ég er löt akkúrat í augnablikinu - og ég er mikið að spá í að leggjast upp í sófa og lesa "Alt for damerne"

Mikið sem ég er búin að ofnota orðið mikið núna...

Það má mikið vera ef nokkur nennir að lesa þetta.

þriðjudagur, 24. janúar 2006

Það verður að segjast eins og er

að Calzone pítsur bóndans svíkja engan. Ummm... í minni pítsu voru skinka, pepperoni, ætiþistlar, ostur, tómat"jukk" og hellingur af hvítlauk ;-) Ekki spillir fyrir að ég á afgang til að borða í hádeginu á morgun!

miðvikudagur, 18. janúar 2006

Ég get eiginlega ekki sleppt því að vorkenna sjálfri mér örlítið

á þessum vettvangi. Þannig er mál með vexti að ég er að kenna áfanga í markaðsfræði í þriðja sinn núna. Síðustu tvö skiptin hefur verið sama útgáfa kennslubókarinnar og eftir að hafa farið í gegnum efnið tvisvar var ég komin með góðan glærupakka og það hefði verið virkilega gaman að kenna sama efnið í þriðja sinn og ekki þurfa að hafa eins mikið fyrir þessu. Getað dúllað mér við að finna íslensk dæmi um efnið sem fjallað er um hverju sinni og lagt meiri áherslu á ítarefni. En ónei, ekki var það svo gott. Nú er komin ný útgáfa kennslubókarinnar og nýr meðhöfundur og þeir hafa stokkað efnið svo rækilega upp + komið með töluvert af nýju efni að það er engin hætta á því að ég slappi mikið af þessa síðustu önn mína í kennslu. Sem er náttúrulega allt í lagi þannig séð (mér leiðist þá ekki á meðan), en þar sem stundakennarar eru ekki sérlega vel launaðir þá er þetta í ofanálag meira og minna góðgerðastarf sem maður stundar...

En svo ég tali nú um eitthvað skemmtilegra þá get ég glaðst yfir því hvað gengur vel hjá börnunum okkar í skóla. Hrefna rúllaði prófunum sínum í háskólanum upp eins og hennar var von og vísa og í lögboðnum foreldraviðtölum í Lundarskóla í gær kom í ljós að strákarnir eru aldeilis að gera það gott líka. Virkilega ánægjulegt ;-)

þriðjudagur, 17. janúar 2006

Ekki dugðu áhrifin af kaffinu lengi

eða nákvæmlega í 40 mínútur! Hefði ekki verið betra að fá sér gulrót?

Óvenjumikil þreyta

svona í morgunsárið olli því að ég fór áðan og fékk mér kaffi. Sem ég geri aldrei nema við alveg sérstök skilyrði því mér finnst það svo vont. Súkkulaði með því nær ekki einu sinni að slá á ramma bragðið... Þetta er sannkallaður ógeðisdrykkur :-(

mánudagur, 16. janúar 2006

Loksins komst Ísak í trommukennslu

eftir langa bið. Hann pantaði (með dyggri aðstoð föður síns) trommusett í gegnum ShopUSA snemma í sumar og við vorum svo bjartsýn að halda að hann kæmist í Tónlistarskólann í haust. En þar var bara langur biðlisti... Svo það var mikil gleði þegar Tónræktin, sem er einkarekinn skóli, auglýsti trommukennslu núna í byrjun árs. Fyrsti tíminn var í kvöld og það var afar glaður og kátur snáði sem kom hlaupandi út í bíl að honum loknum. Þegar heim var komið fór hann beint út í bílskúr að æfa sig ;-)

Á meðan hann var í tímanum fór ég í Bónus. Þar hitti ég hvorki meira né minna en þrjár konur sem ég þekki og þurfti að sjálfsögðu að spjalla við. Eini gallinn var sá að ég hitti þær allar inni í kælinum, þannig að mér var orðið ansi kalt þegar ég kom þaðan út. Þar var þó a.m.k. betra loft heldur en í röðinni á kassanum. Þar lenti ég á eftir manni sem lyktaði svo hræðilega af tóbaki að mér varð hálf óglatt og fékk höfuðverk, bara af því að standa við hliðina á honum í nokkrar mínútur. En blessaður maðurinn hlýtur að reykja alveg svakalega mikið, annars myndi hann varla lykta svona!

föstudagur, 13. janúar 2006

Gleraugun mín

biluðu fyrir nokkru síðan (datt úr þeim einhver skrúfa) og það tók mig eilífðartíma að fara með þau í viðgerð. Sem er ekki gott því mér verður svo illt í augunum (og fæ gjarnan höfuðverk í kjölfarið) ef ég er ekki með þau. Svo fór ég loks í fyrradag og lét laga þau og var með þau í gær í vinnunni. Þvílíkur munur! Í dag tókst mér svo að gleyma þeim heima... og um tíuleytið var ég alveg búin í augunum. Tók mér óvenju langa kaffi(te)pásu til að hvíla mig en ætla núna að ganga heim og sækja blessuð gleraugun. Fínt að fá smá hreyfingu í leiðinni, slá tvær flugur í einu höggi.

fimmtudagur, 12. janúar 2006

Er að drepast úr einhverjum pirringi og eirðarleysi

og nenni engu, sem er dæmigert í svona ástandi. Hefði haft gott af því að fara út að ganga í dag - en nennti því ekki. Nenni ekki heldur að fara yfir próf sem ég tók með mér heim, nenni ekki að vinna verkefni sem bíður mín í tölvunni, nenni ekki að greiða reikninga í netbankanum, nenni ekki að gera neitt af viti - og nenni ekki heldur að setjast í sófann með tímaritin sem ég tók á bókasafninu áðan...

Til að kóróna ástandið er ég þar að auki að reyna að minnka hjá mér neyslu kolvetna en það eina sem ég hef borðað í dag er brauð, kex, afgangur af randalínu frá jólunum og nammi (líka afgangur frá jólunum). Sem sagt kolvetni og aftur kolvetni! Nei annars, rétt skal vera rétt, ég er líka búin að borða 6 gulrætur ;-) Enn meiri kolvetni bíða mín á eftir því kvöldmaturinn að þessu sinni verður í boði Dominos...

Það styttist í að ég þurfi að sækja Andra á handboltaæfingu, Val í vinnuna, Ísak á fótboltaæfingu og pítsuna - gott að ná þessu öllu í einni hringferð um bæinn! Sem sagt, best að hætta þessu væli og fara að leggja á borð svo allt verði klárt þegar fjölskyldan kemur banhungruð heim.

mánudagur, 9. janúar 2006

Sældarlíf


Sældarlíf, originally uploaded by Guðný Pálína.

þetta kattalíf... Andri sá þau liggja þarna í sófanum og stillti rauða púðanum upp fyrir aftan þau svo úr varð prýðilegasta myndefni ;o)

sunnudagur, 8. janúar 2006

Komin heim aftur

úr afar vel heppnaðri höfuðborgarferð. ATH! þeim sem nenna ekki að lesa afar nákvæma, langdregna lýsingu á ferðalagi mínu er vinsamlegast bent á að hætta að lesa hér og nú.

Eins og sönnum útsöluóðum Íslendingi sæmir fór ég beinustu leið af flugvellinum í Kringluna á fimmtudeginum - en hvort sem um er að kenna flugþreytu (haha mátti reyna) eða einhverju öðru þá var ég bara ekki í neinu innkaupastuði þann daginn. Ráfaði milli verslana og sá ekkert sem mig langaði í. Var reyndar búin að tína saman einhverjar flíkur til að máta í Next en fékk þá að vita að fyrsta dag útsölu væru mátunarklefarnir lokaðir og þá nennti ég ekki að standa í þessu og skilaði bara fötunum á sinn stað. Í von um að hressast eitthvað keypti ég mér nýpressaðan heilsusafa að drekka í Heilsuhúsinu og varð nógu spræk til að finna á mig sparibuxur í Marc O'Polo en lufsaðist svo bara út úr Kringlunni með skottið á milli lappanna. Velti því fyrir mér hvort ég ætti að hendast í Smáralindina strax en ákvað að fara frekar daginn eftir. Bankaði í staðinn uppá hjá bróður Vals og mágkonu sem búa í Fossvoginum og því stutt að fara. Fékk hjá þeim te og brauð og sat lengi og spjallaði. Að því loknu fór ég til Rósu vinkonu og gestgjafa að Hótel Álfheimum.

Eftir staðgóðan kvöldverð og nætursvefn var ég eins og ný kona og hóf daginn á sundferð í Laugardalslaugina. Lenti næstum í árekstri við konu sem ætlaði í nákvæmlega sömu sturtuna og ég (greinilega ekki bara Akureyringar sem eru vanafastir í sundlauginni...) en hún færði sig treglega í næstu sturtu við hliðina (ég bauð henni mína en hún svaraði því til að það væri svo sem ekkert lífsspursmál fyrir sig að komast alltaf í sömu sturtuna ;-) Eftir sundið fór ég í heimsókn til Gunnu og Matta, tengdaforeldra minna, og fékk hjá þeim morgunkaffi(te) og var þá orðin klár fyrir verslunarferð dagsins.

Ók í Smáralindina og var varla komin inn úr dyrunum í Debenhams þegar ég sá skó sem pössuðu mér fullkomlega og eru góðir bæði spari og eins í vinnunni. Gallabuxur, tvær rúllukragapeysur og spariblússa fylgdu í kjölfarið og ýmislegt fleira mátað án þess að vera keypt. Svo fór ég í Benetton og keypti þar eina peysu og þá fannst mér nú vera komið nóg.

Næst á dagskrá var ferð til Keflavíkur að heimsækja mömmu og Ásgrím og þar fékk ég að sjálfsögðu veitingar og reyndi að hjálpa mömmu í tölvunni. Það hefur vondandi borið einhvern árangur ;-) Það var mjög gaman að hitta þau en um hálf fimm leytið brunaði ég aftur af stað til Reykjavíkur í ausandi rigningu og slagveðri því ég ætlaði að komast í verslunina Kaffiboð fyrir minn kaffi- og tækjasjúka eiginmann. Aksturinn gekk eins og í sögu og ég rataði rétta leið í fyrstu atrennu. Var komin í búðina um hálf sex en losnaði ekki þaðan út fyrr en korter yfir því eigandinn þurfti að rabba svo mikið við mig. Eftir það samtal vissi ég m.a. að langafi hans hefði átt verslun á Akureyri og að haldið hefði verið upp á áttræðisafmæli tengdamóður hans á Holtinu en þjónustan hefði verið hörmuleg... Ég brunaði þarnæst í Kringluna til að kaupa rauðvínsflösku til að taka með mér til Rósu en hún hafði boðið mér í kvöldmat. Eldaði hún alveg frábæran kjúklingarétt með mangó upp úr nýjasta Gestgjafanum og svo sátum við og röbbuðum fram á nótt.

Í gær svaf ég svo til rúmlega tíu en var búin að mæla mér mót við tvær vinkonur mínar, þær Sólrúnu og Hjördísi, á Laugaveginum klukkan eitt. Eftir te og brauð með Rósu skrapp ég í Ikea til að drepa tímann fram til eitt. Fór hraðferð gegnum búðina án þess að kaupa neitt nema tvær "pöddur" sem ég hugsaði að gætu kannski dugað sem kattaleikföng. Ók svo sem leið lá niður á Laugaveg og beint inn í nýtt bílastæðahús sem Sólrún hafði bent mér á. Beið svo eftir þeim inni í versluninni Sautján og það hafði þær afleiðingar að ég kom einum leðurjakka ríkari út aftur! Hann var með 40% afslætti og þannig kostakjör er náttúrulega ekki hægt að láta fram hjá sér fara. Svo röltum við um í bænum og kíktum á útsölurnar en enduðum svo inni á kaffihúsi/veitingastað og fengum okkur beyglur. Það var virkilega gaman að hitta þær stöllur en eins og venjulega leið tíminn alltof hratt og fljótt kominn tími til að fara út á flugvöll.

Heima tók svo minn heittelskaði á móti mér á flugvellinum og eins og alltaf þá er gott að koma aftur heim úr ferðalagi og hitta fjölskylduna. Mikið sem það er nú samt líka gott að komast stundum aðeins í burtu, pústa aðeins og gera eitthvað annað en þetta venjulega ;-)

miðvikudagur, 4. janúar 2006

Ég sá

á blogginu hennar Betu að hægt væri að gera góð kaup á útsölunum í Reykjavík - og ákvað að skella mér bara suður í örlítið húsmæðraorlof. Fæ gistingu á "Hótel Álfheimum" eins og Rósa kallar það svo skemmtilega og verð í tvær nætur. Ætti að geta tekið út helstu pjötlubúðirnar á þeim tíma (þ.e.a.s. á daginnn, ekki nóttunni eins og það hljómaði kannski ;-) Eini gallinn er sá að þegar maður kemur svona sjaldan suður þá veit maður ekki hvar er best að versla - eða öllu heldur, hvar fást helst föt sem ég fíla. Ég fór í tvígang í Next í Kringlunni og fékk eitthvað á mig þar í bæði skiptin. Þá varð ég pottþétt á því að þarna hefði ég nú fundið búð fyrir mig. En nei, í síðustu þrjú skiptin sem ég hef farið þangað hef ég ekki fundið neitt (hm, eða eiginlega ekki neitt, mundi allt í einu eftir bol sem ég keypti þar í sumar...). Eins fann ég einu sinni heilan helling sem ég gat hugsað mér að kaupa í Debenhams en svo þegar ég fór þangað síðast þá fann ég með herkjum eina peysu! Þannig að þetta eru fallvölt vísindi og spurning hvaða búð ég á að prófa næst. Einhverjar uppástungur?

Ég steingleymdi að segja frá því

að ég fór í leikhús um daginn með Rósu vinkonu minni. Hún býr í Reykjavík (ásamt meginþorra landsmanna) en var að heimsækja æskustöðvarnar/foreldra sína um jólin. Einhvern tímann höfðum við verið að spjalla saman á msn og ég að kvarta undan því að gera aldrei neitt nema vinna, borða og sofa (og synda..) þegar hún tók mig á orðinu og spurði hvort ég kæmi ekki með sér í leikhús á milli jóla og nýárs. Ég "gat því ekki annað" en sagt já og þann 29. des. fórum við að sjá Fullkomið brúðkaup hjá Leikfélagi Akureyrar - en mér skilst að troðfullt hafi verið á allar sýningar á þessu leikriti og þurft að bæta við fjölmörgum aukasýningum. Ég fór nú samt hálf skeptísk í leikhúsið, hef lent í því áður að hlægja sama og ekkert að leikritum sem öðrum finnast hrikalega fyndin (sbr. Hellisbúinn) en sýningin var varla byrjuð þegar ég var byrjuð að brosa út í annað og svo hló ég og hló og hafði virkilega gaman af þessu. Að sjálfsögðu var þetta einn heljarinnar farsi og gekk út á mikinn ofleik hjá leikurunum en gaman samt. Ein leikkonan skar sig þó úr og lék áberandi best að mínu mati en það var Maríanna Clara Lúthersdóttir sem lék herbergisþernu. Öll hennar svipbrigði og fas minntu einna helst á trúð og ég fór að hlægja í hvert sinn sem hún kom fram í einhverju atriði.

Eitt skil ég þó engan veginn. Af hverju þurfa íslenskar konur að úða heilu ilmvatnsglasi á sig í hvert sinn sem þær fara á mannamót?

mánudagur, 2. janúar 2006

Mikið er ég rík


Hrefna, Andri og Ísak, originally uploaded by Guðný Pálína.

að eiga þessa frábæru krakka (má kannski deila um það hversu mikill "krakki" hún Hrefna er, orðin 22ja ára). Þau eru falleg bæði að utan og innan ;-)