þriðjudagur, 30. ágúst 2005

Back to work...

voðalega er ég orðin ensku-skotin eitthvað... Ein ástæða er sú að það er ekki hægt að skrifa íslenska stafi í fyrirsögnina ef ég hef opnað Blogger í Safari vafranum - sem ég gerði í þetta sinn. En sem sagt, ég er byrjuð aftur að vinna og mikið sem skrokkurinn á mér á erfitt með að aðlagast skrifborðsvinnunni að nýju eftir svona langt sumarfrí. Í gær var ég að drepast í bakinu, í dag var ég komin með vöðvabólgu í axlir og hnakka (já hnakka, ég spenni vöðvana í hnakkanum alltaf svo mikið þegar ég sit við tölvuna) og verk í hægri mjöðmina líka... Já mannskepnan er greinilega ekki gerð fyrir skrifstofuvinnu, svo mikið er víst. Það hjálpar víst ekki til að ég hafði ekki synt mitt venjubundna morgunsund í heila viku sökum veikinda. En nú er ég byrjuð að synda aftur á fullu, fór létt með 40 ferðir í morgun með nýju froskalöppunum þannig að þetta horfir allt til betri vegar ;-)

"Úti regnið grætur" og ég nenni ekki að skrifa meira. Er að fara yfir próf, auk þess sem við Valur ætlum í bíó í kvöld að sjá Bill Murray í "Broken flowers". Góðar stundir.

sunnudagur, 28. ágúst 2005

Horft inn um glugga á eyðibýli

Skinnalón á Melrakkasléttu

föstudagur, 26. ágúst 2005

66 gráður norður


66 gráður norður, originally uploaded by Guðný Pálína.

Valur bendir hér á 66norður merkið á peysunni til að leggja sérstaka áherslu á þá staðreynd að myndin er tekin á þeirri breiddargráðu ;-)


Smá leiðrétting...myndin er sem sagt tekin aðeins norðar en 66 gráður ;-) Mér skilst að Hraunhafnartangaviti sé á nyrsta stað á Íslandi, þ.e.a.s. fyrir utan Grímsey (sem er að sjálfsögðu ekki á Íslandi þó eyjan tilheyri landinu). Það viðurkennist hér með að landafræði hefur aldrei verið mín sterka hlið og hefði ég kannski átt að ráðfæra mig við bóndann áður en þessi færsla var skrifuð...

Um daginn

hafði ég ekki bloggað í tæpa viku og þá hringdi mamma til að athuga hvort það væri ekki allt í lagi með mig. Á meðan maður bloggar þá er sem sagt nokkuð öruggt að maður er á lífi... Nú er ég farin að hafa áhyggjur af því hvort það sé ekki allt í lagi með hana Kötu, hún hefur ekki bloggað síðan 5. ágúst... "Baulaðu nú Búkolla mín ef þú ert nokkurs staðar á lífi" sagði stráksi í ævintýrinu um hana Búkollu og sama segi ég "láttu nú heyra frá þér Kata mín". Það veitir ótrúlega mikla ánægju að fá innsýn í líf vina og kunningja í gegnum bloggið - nútímafólk er oft svo önnum kafið að lítill timi vill gefast til samskipta og þá er gott að hafa þennan möguleika til að fylgjast með því hvað er að gerast hjá vinafólki. Það er líka á forsendum hvers og eins, maður þarf ekki að hafa áhyggjur af að ráðast inn á fólk eins og þegar farið er í óvæntar heimsóknir - og það er aldrei á tali...

Fór í fataleiðangur með eldri syninum í dag. Á dagskránni var jakki og flíspeysa en hann vantaði líka buxur og skó. Flíspeysan fékkst í 66norður og gallabuxur hjá Steina í Perfect en erfiðara gekk að finna jakka við hæfi. Við fórum í Sportver og skoðuðum þar Cintamani jakka (eftir að hafa fengið sérfræðiráðgjöf hjá föðurnum sem fannst tími til kominn að kaupa vandaðan útivistarjakka sem myndi endast næstu 5-10 árin) en eitthvað fundust mér númerin vera undarlega lítil. Hann var kominn í XL og samt voru ermarnar í það stysta. Ég spurði afgreiðslumanninn hvort þetta væru ekki örugglega herrajakkar og jú hann var alveg viss um það. Svo fór ég á heimasíðu fyrirtækisins áðan og sá þar að þetta hafði verið kvenmannsjakki. Athyglisvert var líka að Sportver hafði auglýst að í dag yrði sérstakur ráðgjafi frá Cintamani í búðinni og mikið af nýjum vörum - enginn var nú ráðgjafinn á staðnum og aðeins ein tegund af jökkum! Það er samt ekki meiningin að drulla neitt sérstaklega yfir Sportver, maður fær yfirleitt mjög góða þjónustu hjá þeim og sömuleiðis er starfsfólkið yfirhöfuð sérlega hjálpsamt. Líklega hefur þetta verið nýr starfsmaður sem ekki vissi betur.

fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Er öll að koma til

en hins vegar kvörtuðu Hrefna og Andri bæði undan því að vera komin með einhver særindi í hálsinn í kvöld þannig að það er spurning hvort mér hefur tekist að smita alla fjölskylduna af þessari pest. Vonandi ekki!

Valur fór í veiði í Mývatnssveit í dag, í síðasta sinn á þessu sumri. Ekki var nú veðurspáin góð fyrir veiðidagana, 4-5 stiga hiti (kuldi) og rigning (slydda?) en minn maður var hvergi banginn og fór af stað með sömu tilhlökkun og ávallt.

Ég hefði átt að vera byrjuð í vinnunni í þessari viku en sökum veikindanna þá hef ég bara verið heima (ég var svo veik að Valur bauðst til að skrifa upp á fúkkalyf handa mér og það gerist nú ekki að ástæðulausu, svo mikið er víst...). Nú þýðir ekki að vera með neinn aumingjaskap lengur, sjúkrapróf á morgun og styttist í venjubundna kennslu. Í þetta sinn er ég að byrja með áfanga sem ég hef ekki kennt áður, neytendahegðun, en þá fæ ég loksins tækifæri til að nýta mér sálfræðina sem ég lærði forðum í Noregi því neytendahegðun byggist mikið á öðrum félagsvísindum, s.s. sálfræði, félagsfræði og mannfræði. Ég segi það nú ekki, ég hefði gjarnan viljað vera komin með kennslubókina fyrr í hendurnar en eins og við Íslendingar segjum svo gjarnan: "Þetta reddast!"

Já, á meðan ég man, múrarinn kom aftur í dag... og ætti samkvæmt áætlun að byrja að leggja flísarnar á baðherbergið á morgun. Við höfum sýnt fádæma þolinmæði í sambandi við iðnaðarmennina og nennum ekki að vera að stressa okkur yfir því hvort þeir mæta í þessari viku eða næstu (eða þessum mánuði eða næsta), þetta hefst allt fyrir rest.

miðvikudagur, 24. ágúst 2005

Ryðrautt og grænt


Ryðrautt og grænt, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég féll fyrir litasamsetningunni þegar ég gekk fram á þetta tannhjól af óþekktum uppruna í fjörunni nálægt Hraunhafnartangavita á Melrakkasléttu.

þriðjudagur, 23. ágúst 2005

Dröslast um húsið með klósettpappírsrúllu í eftirdragi...

ekki af því mér finnist það svo skemmtilegt, heldur er ég að upplifa eina þá verstu kvefpesti/flensu sem ég hef lengi fengið. Ég vaknaði á laugardagsmorguninn síðasta og fann að eitthvað var nú heilsufarið í ólagi, var bæði illt í hálsinum og með höfuðverk. En af því við höfðum verið búin að ákveða að skella okkur í dagsferð á Sléttuna þá harkaði ég af mér og lagði í hann eftir að hafa birgt mig upp af vatni og verkjalyfjum. Eftir gönguferðina út að vitanum var ég hins vegar alveg búin á því (ef vel er gáð sést á myndinni að ég er hálf sljó til augnanna) og hefði ekki komist skrefinu lengra. Síðan hefur ástandið bara versnað og í nótt var höfuðið á mér gjörsamlega að springa, fullt af hor og ég fór vopnuð öllum mínum pappírsvasaklútum í rúmið. Náði ekki að sofna fyrr en undir morgun fyrir hor-rennsli og vanlíðan og kláraði alla klútana. Sem er ástæðan fyrir klósettpappírnum...

Ýmislegt rekur á fjörur manns

mánudagur, 22. ágúst 2005

Smá lífsmark...

Ósköp er sumarið fljótt að líða, skólinn byrjaður aftur hjá strákunum og styttist í að kennsla byrji hjá mér. Ég hef verið í einhverju óstuði undanfarna viku og ekki nennt að blogga þannig að mammma hringdi í dag til að athuga hvort ekki væri allt í lagi hjá mér. Það er allt í lagi, ég hef bara verið löt að blogga enda lítið að gerast. Annars fórum við Valur í dagsferð á Melrakkasléttu á laugardaginn var og það var mjög fín ferð hjá okkur. Höfðum með okkur smurt nesti og veðrið skartaði sínu fegursta. Mér finnst mjög gaman að koma á þessar slóðir, hvað þá í svona góðu veðri. Maður sér samt hvað náttúruöflin geta verið mikil þegar sjá má rekavið langt uppi á landi en nóg er af honum á sléttunni. Við gengum meðal annars út að Hraunhafnartangavita og rákumst þar á leifarnar af dufli frá norsku veðurstofunni (eða einhverri álíka stofnun). Set inn myndir seinna í kvöld eða á morgun, læt þetta duga í bili.

þriðjudagur, 16. ágúst 2005

Undarlegir dagar

Skrýtið hvað rigning í sumarfríinu hefur mikil áhrif á mann - þrátt fyrir fögur fyrirheit um hið gagnstæða. Ekkert hefur orðið úr fleiri ferðalögum fjölskyldunnar, a.m.k. ekki að sinni. Engin garðverk unnin, ekkert legið í sólbaði, engar máltíðir úti í garði... ég nenni meira að segja varla í sund og þá er nú fokið í flest skjól. Fór í ræktina í morgun með Val en þá var úrhellisrigning úti og einhverra hluta vegna höfðaði það meira til mín að vera innandyra en utan. Eins og það getur þó verið hressandi að vera úti í rigningu ;O)

En á morgun verð ég að prufukeyra nýju froskalappirnar sem ég pantaði að sunnan og sótti í póstinn í dag. Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif það hefur að vera með froskalappir, kannski ég komist þá 40 ferðir á sama tíma og 30 ferðir áður?? Ég hef nefnilega verið að auka við mig upp í 40 ferðir en gallinn er sá að það tekur aðeins of langan tíma (ég er alltaf að miða við að vera búin að öllu - synda, þvo mér, klæða mig, blása hárið, mála mig - á klukkutíma). Vandamálið er bara að mér finnst gott að breyta stöðugt til, synda á víxl skriðsund, bringusund og bakskrið en það er víst heldur hæpið að synda bringusund með froskalappir... þannig að þegar þær eru komnar á, þá er bara mögulegt að synda skrið og bakskrið. En hefur maður ekki bara gott af því að breyta aðeins til, gera hlutina á annan hátt en venjulega?

Þau undur og stórmerki gerðust í gær að píparinn mætti á svæðið, 5-6 vikum eftir áætlaðan komutíma og í dag lauk hann sinni vinnu á baðherberginu (í bili a.m.k.) þannig að nú er allt klárt fyrir múrarann... sem er búinn að lofa að koma á morgun, eins ótrúlegt og það hljómar nú. Smá bjartsýni sakar ekki.

laugardagur, 13. ágúst 2005

Ísak með boltann


Ísak með boltann, originally uploaded by Guðný Pálína.

Komin heim af Króksmóti

- í bili að minnsta kosti. Lagði af stað rúmlega sjö í morgun með tvo stráka í aftursætinu, spennta en þreytta (höfðu farið seint að sofa sökum spennings). Á Sauðárkrókinn komum við um hálf níu og þá var hafist handa við að gera svefnstæðin í skólanum klár fyrir kvöldið. Næst á dagskrá var skrúðganga, fyrst og fremst ætluð fyrir íþróttamennina ungu - en ég rölti með til að halda á mér hita. Mælirinn sýndi 8 gráður og þar að auki var norðanátt og rigningarsuddi. Aftur haldið í skólann og nestið tekið upp enda hafði matarlystin verið lítil kl. hálf sjö að morgni... Fyrsti leikurinn var á móti Fjölni (sem ég landsbyggðarmanneskjan held að sé íþróttafélagið í Grafarvogi) og eftir nokkuð jafnan leik enduðu mínir menn sem sigurvegarar, staðan var 3:2 í leikslok. Fór næst og gerði misheppnaða tilraun til að heimsækja aðra af tveimur manneskjum sem ég þekki á Króknum - en hún var sem sagt ekki heima (segir sig nokkuð sjálft af framansögðu). Ég hafði reyndar hitt hina manneskjuna (Védísi systur Kidda) sem ég þekki fyrr um morguninn en eitthvað hafði fattarinn hjá mér ekki verið í lagi því ég áttaði mig ekki á því að hún var að bjóða mér að kíkja í kaffi. Heyrði ekki alveg hvað hún sagði og hélt að hún ætti von á fólki í kaffi (fer að verða spurning um heyrnarmælingu - ég er nú komin með gleraugu, kannski heyrnartækið sé næst ;O)

Nóg um það, eftir að hafa farið í Skagfirðingabúð og keypt mér regnbuxur, fengið mér smurt brauð og te í frábæru Sauðárkróksbakaríi (sem ég tel vera eitt best bakarí á landinu, grínlaust), lagt mig örstutt á dýnunni hans Ísaks í skólastofunni og farið í kjörbúðina aftur og hitt þar Kidda (fjölskylduvin okkar með meiru) þá var loks komið að leik nr. tvö og úrslitin þar urðu hin sömu, 3:2 fyrir mínu liði. Eftir hálftíma var svo síðasti leikurinn og eftir mikinn bardaga af beggja hálfu varð niðurstaðan 1:0 fyrir Ísak og félögum. Ánægjan skein af andlitum þeirra en ég kyssti soninn bless og brunaði í bæinn þar sem hössbandið tók á móti mér með grilluðum urriða, nýjum íslenskum kartöflum úr Bónus og ... spergilkáli úr garðinum ;O) Góður endir á góðum degi - á morgun bruna ég svo aftur á Krókinn að fylgjast með úrslitunum.

föstudagur, 12. ágúst 2005

Vá, er gjörsamlega að fara fram úr sjálfri mér

í eldhúsinu. Eins og dyggir lesendur síðunnar eflaust muna þá hef ég stundum notað þennan vettvang til að býsnast yfir því hvað ég á að elda þegar bóndinn (kokkurinn ;O) er að heiman og hafa nokkrar tilraunir mínar í eldamennsku endað illa, sbr. London lambið og lambakótilettur í raspi. Í kvöld hins vegar small þetta svona líka flott hjá mér; sauð Rustichella pasta, sótti spergilkál út í garð og hitaði á pönnu ásamt ólífuolíu, hvítlauk, gulrótum og ætiþistlum. Setti pastað neðst á diskinn, hrúgaði grænmetinu þar ofan á og dreifði svo fetaosti yfir allt saman. Þetta bragðaðist afbragðsvel með einu glasi af rauðvíni - við hliðina á mér sat Ísak og borðaði sitt pasta með tómatsósu en unglingurinn var að sjá brettamyndir í bíó.

Brrrr...

mér er kalt. Er í kvartbuxum og berfætt og þegar hitamælirinn úti sýnir bara 10 gráður þá er spurning að klæða sig í samræmi við það. Eini gallinn er sá að ég var að þvo allar gallabuxurnar mínar í morgun (þetta hljómar eins og stórþvottur, á bara þrennar gallabuxur) og því er úr vöndu að ráða.

fimmtudagur, 11. ágúst 2005

Stínu-muffins (múffur?)

Eftir lauflétta ábendingu frá systur minni ákvað ég að setja hér inn uppskriftina að súkkulaði muffins sem ég var að baka í dag, eða múffum eins og ég held að þetta sé kallað á íslensku. Uppskriftin er komin frá Stínu vinkonu minni sem bjó í Tromsö á sama tíma og við - en því miður hittumst við alltof sjaldan núorðið (enda býr hún á Ólafsfirði, það er svo rosalega langt þangað...). Það má alveg örugglega skipta smjörlíkinu út með góðri olíu, minnka sykurinn og skipta smá af hveitinu út með heilhveiti til að gera múffurnar örlítið hollari. Spurning hvernig það félli í kramið hjá börnunum?? Allavega, hér kemur uppskriftin ;O)

2,5 bollar hveiti
1,5 bollar sykur
1 tsk. natron
1 tsk. salt
2 msk. vanillusykur
3 egg
1 dós jógúrt
220 gr. brætt smjörlíki
150-200 gr. saxað súkkulaði

Allt hrært saman, sett í múffuform og bakað við 190°C í ca. 15 mín.

Gæti ekki einfaldara verið! En talandi um hollustumúffur þá fann ég uppskrift að spelt múffum með súkkulaði hér sem svipar mjög til þessarar uppskriftar.

Kanntu brauð að baka?


Kanntu brauð að baka?, originally uploaded by Guðný Pálína.

Vá ég er bara að verða fyrirmyndarhúsmóðir... búin að baka tvo daga í röð - fyrst grófar bollur í gær og svo súkkulaðimöffins núna áðan. Biðst reyndar afsökunar á því að myndgæðin eru ekki alveg í lagi en sýni myndina fyrst og fremst sem "physical evidence" svo fólk efist ekki um þennan dugnað í mér.

Annars tók ég eftir því að möffins kökunum er ekki raðað af vísindalegri nákvæmni á bökunarplötuna - sem sýnir að ég á greinilega langt í land ennþá svo ég verðskuldi titilinn "fyrirmyndarhúsmóðir".

miðvikudagur, 10. ágúst 2005

Ég hef eiginlega ekki gert annað en laga til

síðan við komum að sunnan. Var húsið virkilega allt í drasli? kynni einhver að spyrja og svarið við því er bæði já og nei. Á yfirborðinu var þetta nokkuð gott en í skúffum og skúmaskotum (það eru engin skúmaskot hér, þetta bara hljómaði svo flott saman..) var hins vegar drasl, drasl og aftur drasl. Fyrr í sumar hafði ég þrifið eldhúsinnréttinguna og fataskápinn í forstofunni en fataskápar strákanna voru ennþá eftir, já svo ekki sé minnst á kommóðu eina sem stendur mjög miðsvæðis í íbúðinni og var einu sinni notuð sem símaborð (það var fyrir tíma þess þráðlausa) en gegnir nú helst því hlutverki að vera áfangastaður fyrir alls kyns dót. Dót sem maður þarf að leggja frá sér tímabundið eins og póst, gleraugu, seðlaveski o.s.frv. og líka dót sem þarf að eiga einhvern samastað til lengri tíma litið s.s. dúkar, lyklar, GPS tæki, myndavél, póstkort, vegabréf, símaskrá, vasaljós.......... ég gæti haldið endalaust áfram en af tillitssemi við lesendur hætti ég hér.

Kommóðan sem keypt var í "RL Magasin" eða Rúmfatalagernum öðru nafni gafst upp undan öllu því sem á hana var lagt og brautirnar eyðilögðust. Minn ástækæri tók sig því til og gerði við hana í gær. Þá var röðin komin að mér að tína upp allt draslið/dótið, flokka og henda sem mestu. Það varð heill haldapoki hvorki meira né minna sem fór í ruslið! Kommóðan er næstum því tóm núna blessunin - ja a.m.k. um stundarsakir því ef ég þekki okkur rétt þá líður ekki á löngu þar til vantar stað fyrir eitthvað smálegt og ......... (need I say more? ;O)

Ísak og Skuggi "litli"


Ísak og Skuggi "litli", originally uploaded by Guðný Pálína.

Ísak hafði virkilega gaman af því að leika við Skugga þegar við vorum hjá Guðjóni og Eddu. Og Skugga fannst það ekki síður skemmtilegt ;O)

mánudagur, 8. ágúst 2005

Komin heim aftur úr hinni ágætustu borgarferð

og vorum svo heppin að daginn sem við ókum norður (laugardaginn) buðu Sunna og Kiddi okkur í mat þannig að við renndum bara í hlaðið, tókum dótið úr bílnum og röltum svo upp í nr. 18 þar sem við fengum hina ljúffengustu kjúklingasúpu ;O)

Þetta var bara ekta túristaferð hjá okkur til Reykjavíkur, tengdaforeldrarnir heimsóttir, farið í sund, keilu, bíó, aftur í keilu, út að borða og við fórum meira að segja í Bláa lónið eftir að hafa heimsótt mömmu og Ásgrím í Keflavík. Við gengum líka Laugaveginn og kíktum til Hrundar bróðursystur Vals sem er nýlega búin að opna þar gullsmíðaverkstæði. Einnig vorum við boðin í mat til Hjartar (bróður Vals) og Guðbjargar og Guðjóns (elsti bróðurinn) og Eddu og það var virkilega skemmtilegt að hitta þau öll. Sem sagt hin notalegasta ferð í alla staði - gaman að því. Ekki spillir fyrir að strákarnir eru orðnir svo stórir að það er alltaf ró og friður í aftursætinu... það er fátt sem mér finnst leiðinlegra en að vera á ferðalagi með krakka sem eru að rífast.

Spurning hvort við reynum að ferðast eitthvað meira. Það skortir heldur ekki verkefnin hér heima við og Valur er þegar farinn að ráðast á þau. Ég lét mér nægja í gær að laga til í húsinu en ætlaði að vera duglegri í dag, þvo þvott o.s.frv. Byrjaði á því að setja í eina vél en fékk þvílíku bullandi blóðnasirnar þegar ég ætlaði að hengja upp þvottinn og endaði útafliggjandi í sófanum því þær vildu ekki gefa sig "med det samme". Er hætt þessum kjaftavaðli og farin að fá mér kaffi með bóndanum.

þriðjudagur, 2. ágúst 2005

Afmælisbarn dagsins

er minn ástkæri eiginmaður Valur Þór. Til hamingju með daginn elskan ;-)

Ég var nú nærri búin að eyðileggja afmælisdaginn fyrir honum því ég var svo rotuð þegar ég vaknaði að ég gekk eiginlega í svefni fyrsta hálftímann - og mundi ekkert eftir því hvaða merkisdagur var í dag. En eftir örlitla ábendingu þar að lútandi tókst mér að óska afmælisbarninu til hamingju með daginn... Ég verð náttúrulega að bæta honum þetta upp með einhverju móti og ætli sú leið verði ekki farin að baka handa honum köku. Ekki þýðir að kaupa blóm því við erum að fara suður og það er ekkert gaman að kaupa blóm þegar enginn verður eftir í húsinu til að njóta þeirra.

Svo eigum við hjónin líka 15 ára brúðkaupsafmæli í dag en við höfum aldrei verið sérlega dugleg við að halda upp á slík tímamót. Greinilega ekki þau allra rómantískustu...

mánudagur, 1. ágúst 2005

Verslunarmannahelgin

hefur liðið hjá í miklum rólegheitum. Valur var á vakt frá föstudegi til mánudagsmorguns og þ.a.l. vorum við bara heima. Það stendur þó til bóta því á morgun er ætlunin að færa sig suður yfir heiðar með synina og fara í smá fjölskyldufrí. Enda erum við foreldrarnir loksins komin í sumarfrí - yndislegt! Það á sem sagt að byrja í höfuðborginni og láta svo ráðast hvert haldið verður í framhaldinu. Við verðm nú örugglega ekki lengi á flakki því fótboltamót hjá Ísak og veiði hjá Val setja okkur skorður hvað tímann snertir.

Það verður hins vegar spennandi að sjá hvernig gengur að samræma svefntíma ólíkra fjölskyldumeðlima í ferðinni því Valur vaknar alltaf milli sex og sjö, Ísak vaknar um níuleytið, ég hef verið að sofa til hálf tíu undanfarna morgna (og vaknað eins og trukkur hafi keyrt yfir mig) og Andri.. já Andri hefur sofið til klukkan þrjú á daginn... Hann er ansi snöggur að snúa sólarhringnum við í fríum. Það er af sem áður var, þegar ég var á hans aldri var ég alltaf kominn á fætur um hádegi, þrátt fyrir að hafa farið seint að sofa. Ekki vildi maður missa af sunnudagslærinu eða öðru sem var í helgarmatinn - og þá var aðalmatartíminn í hádeginu, ekki á kvöldin eins og tíðkast núna. Já, þetta eru ellimerki (að vera farin að rifja upp barnæskuna) ég veit það ;O)