Ég sem ætlaði ekki að segja neitt fyrr en allt væri klappað og klárt! En ég er sem sagt að fara að gerast verslunareigandi ásamt Sunnu vinkonu minni. Við ætlum að kaupa rekstur verslunarinnar
Dagga og erum búnar að stofna nýtt félag um reksturinn og heitir það "Pottar og prik ehf". Verslunin mun einnig fá það nafn þegar við erum komnar með lógó (Dísa í
Concept er að hanna það fyrir okkur) og búnar að breyta skiltinu utan á búðinni. Við ætlum sem sagt að versla með búsáhöld og umhverfisvænar ræstivörur og komum til með að fá vörur frá heildsölum hér á Íslandi (a.m.k. til að byrja með), t.d. frá
Kokku á Laugavegi og fleirum. Við munum leggja áherslu á að vera með vandaðar vörur en þó reyna að bjóða upp á hluti í mismunandi verðflokkum svo fólk geti fundið eitthvað við sitt hæfi þó það sé ekki milljónamæringar:-) Svo verðum við með heimasíðu þannig að hægt verður að skoða/panta vörur og fá heimsendar með póstinum.
Þetta er búið að vera í bígerð síðan í sumar en nú er loks að verða af þessu og munum við taka við rekstrinum á mánudaginn. Þá byrja ég líka að vinna aftur og hætti þessu hangsi. Mér hefur reyndar liðið ljómandi vel í mínu langa sumarfríi en "vinnan göfgar manninn" eins og sagt er og ég hlakka til að takast á við þetta nýja og spennandi verkefni.
Þá vitið þið það!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli