sunnudagur, 30. nóvember 2008

Myndir já...

Þegar ég kom heim úr hárgeiðslunni og förðuninni birtist Valur í útidyrunum með myndavél og tók myndir af mér. Birtan úti var reyndar mjög flott en það er frekar absúrd að vera svona uppstríluð en samt í flíspeysu og dúnúlpu... En sem sagt, vegna fjölda áskorana koma hér tvær myndir sem sýna hárgreiðsluna frá mismunandi sjónarhornum.
P.S. Í sokkabuxnaleiðangrinum í gær var ég að flýta mér og það var um svo margar gerðir af sokkabuxuum að velja að ég var orðin alveg rugluð. Ákvað þess vegna að taka tvennar og hugsaði með mér að önnur gerðin hlyti að vera í lagi og svo er alltaf gott að eiga auka sokkabuxur. Svo þegar ég var að klæða mig í aðrar þeirra þá skildi ég ekkert í því hvað þær voru stórar eitthvað. Skoðaði pokann utanaf þeim og viti menn... þetta var stærð 48-50! Já, fröken utanviðsig lætur ekki að sér hæða.

laugardagur, 29. nóvember 2008

Það sem maður lætur hafa sig út í...

Já aldrei hefði mig grunað að ég ætti eftir að samþykkja að koma fram sem módel einhvers staðar en nú er það raunin. Hárgreiðslukonan mín sem er líka vinkona mín er að halda sýningu í dag í tilefni þess að stofan hennar er 10 ára og bað hún mig um að vera módel fyrir sig. Mér fannst ég varla getað neitað henni um þennan greiða og samþykkti þetta. Svo er ég eiginlega komin með hálfgerðan hnút í magann yfir þessu en maður verður víst að standa við gerða samninga... þannig að hér sit ég með stríðsmálningu framan í mér og hárið blásið og greitt með heilu tonni af hárlakki þannig að greiðslan leki ekki úr mér áður en sýningin byrjar. Áttaði mig svo á því áðan að ég eyðilagði sokkabuxurnar mínar um daginn og þarf því að fara á stúfana að kaupa nýjar. Get ekki beint sagt að mig langi til þess að sýna mig á almannafæri með þessa svaka málningu framan í mér. En það er best að drífa sig, ég á líka eftir að laga blússuna sem ég verð í og athuga hvort pilsið passar ekki örugglega á mig ennþá...

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Búin að endurheimta heilsuna

Eða svo gott sem... Ég er alla vega laus við þennan rosalega slappleika og beinverki sem hefur verið að hrjá mig undanfarna viku - og er ekkert smá fegin! Og eins og mín er von og vísa þá fór ég náttúrulega á fullt í vinnunni við að þurrka af ryk og laga aðeins til. Svo er spurning að skella sér í bókhaldið í kvöld en bara ef ég verð í stuði. Langar líka að klára sokkinn sem ég á ólokið og svo bíða nokkur kvennablöð þess að vera lesin, þannig að ég hef úr nógu að moða. Ég fór sem sagt á bókasafnið áðan vegna þess að ég fékk tölvupóst um vanskil. Þegar ég lagði af stað niðureftir flaug í gegnum hugann að kannski myndi ég hitta eina vinkonu mína þar, því það hefur gerst oftar en einu sinni. Svo gleymdi ég því og fór að velja mér bækur og blöð. En viti menn, þegar ég var að fara þá kom hún í flasið á mér. Það fannst mér skemmtilegt. Bæði er alltaf gaman að hitta hana og eins var fyndið að þessi hugsun mín skyldi rætast. Spurning að fara að óska sér einhvers stærra úr því þetta virkar svona vel... ;-)

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Eftir langa yfirlegu á hinum ýmsu matarsíðum á netinu

er ég enn jafn hugmyndasnauð um það hvað við eigum að hafa í kvöldmatinn. Ég hef náð að skoða margar margar uppskriftir en langar bara einhvern veginn ekki í neitt af þessu. Segir sennilega meira um mig heldur en uppskriftirnar. Er ennþá stíf og stirð í öllum skrokknum og það er farið að hafa áhrif á andlegu hliðina. Samt fékk ég minn nætursvefn, ólíkt Val sem þurfti að fara út í nótt og gera aðgerð og svaf þar af leiðandi lítið. En þá er einmitt spurning að finna eitthvað þægilegt fyrir hann að elda í kvöldmatinn. Kannski sé bara málið að vera með egg og samlokur eða eitthvað í þá áttina. En þá er líklega best að vara strákana við svo þeir fái sér ekki samlokur í kaffinu...

Annars bar til þeirra tíðinda í gærkvöldi að frúin tók fram próna og prjónaði nokkrar umferðir. Allt í einu kom prjónalöngunin yfir mig og þá var nú aldeilis heppilegt að eiga hálfprjónaða ullarsokka síðan í fyrra ;-)

mánudagur, 24. nóvember 2008

Fröken utanviðsig

Ég held áfram í mínu gigtarkasti sem líkist því helst að ég sé með alveg hrikalega beinverki uppúr og niðrúr. Þannig að í dag ákvað ég að sleppa sundinu og leggja mig frekar aftur þegar Ísak var farinn í skólann. Sem ég og gerði. Steinsofnaði og svaf til klukkan tíu. Verkirnir í skrokknum voru samt enn á síðum stað og ég ákvað að fara í sjóðandi heitt bað. Skolaði baðkarið að innan, skrúfaði frá heita vatninu og setti smá freyðibað saman við. Síðan fór ég fram í eldhús og hélt áfram að lesa blöðin og sitthvað fleira. Það tekur nefnilega svo agalega langan tíma að renna í baðkarið. Bæði er það stórt og svo er bunan alltaf hálf kraftlítil. Jæja, eftir að hafa hlustað á vatnið renna í dágóða stund fór ég loks aftur inná bað og hvað kemur þá í ljós? Jú, mín hafði gleymt að setja tappann í! Svo ég mátti byrja á öllu ferlinu uppá nýtt.

En til að detta ekki í þunglyndi yfir því hvað ég var rugluð að gleyma tappanum þá rifjaði ég upp sögu sem kona í sundi sagði mér um daginn. Einu sinni fyrir löngu var hún að greiða mömmu sinni og spurði þá gömlu hvort hún ætti ekki að setja hársprey yfir greiðsluna svo hún héldist lengur. Sú gamla vildi það nú helst ekki en dóttirin taldi sig vita betur. Seildist í nálægan spreybrúsa og spreyaði vel yfir hárið. Nema hvað, eitthvað fannst þeim vond lyktin af hárspreyinu svo hún leit á brúsann og sá þá að þetta var flugnaeitur!

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Sunnudagssyndrómið lætur á sér kræla

Ég kalla það þessu nafni, ástandið sem kemur yfir mig á sunnudögum þegar ég sef of lengi og verð í kjölfarið undirlögð í skrokknum, löt og illa fyrirkölluð. Valur "sendi mig" í sund í morgun en aldrei þessu vant þá dugði sundferð ekki til að hressa mig. Ekki bætti klukkutíma blaðalestur úr skák... en nú ætla ég að taka mig saman í andlitinu og detta í húsmóðurgírinn. Þarf að hengja uppúr þvottavélinni og svo var nú meiningin að hengja upp jólaljós í stofuna í dag. Ætli sé þá ekki skemmtilegra að þvo gluggana fyrst. Svo ætla ég líka að kíkja í Potta og prik og athuga hvort hann Sveinn sem er að vinna þarf á aðstoð að halda. Sunnudagarnir hafa nefnilega verið rólegir hingað til en nú er fólk í auknum mæli farið að kaupa jólagjafir og nýtir þá sunnudagana líka í innkaupin. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru líka í fremur rólegum gír í dag, svo þetta er bara allt eins og vera ber. Og nú er ég farin að gera eitthvað af viti ;-)

fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Eitthvað andlaus í augnablikinu

Líður eins og ég sé að verða veik en veit af reynslunni að þetta er líklega bara minn venjulegi slappleiki. Hins vegar á ég eitthvað erfitt með að "takla" þetta núna (svo ég sletti nú smá norsku) og datt í huggunarát áðan. Græddi auðvitað ekkert á því nema uppþembu og svekkelsi yfir sjálfri mér. Svo datt mér í hug að mæla mig og sjá hvort ég væri nokkuð með hita en ónei - hitamælirinn sýndi 35,7 og síðast þegar ég vissi telst það ekki vera hiti...

En svo ég tali nú um eitthvað skemmtilegra þá átti ég hina bestu helgi í höfuðstaðnum. Við systurnar náðum að vera töluvert saman og þá var tilganginum náð. Svo gisti ég hjá Rósu vinkonu og náði þar af leiðandi að hitta hana - og á sunnudeginum hitti ég Sólrúnu og Hjördísi. Eins kíkti ég til tengdaforeldranna á mánudaginn og var svo ljónheppin að Matti keyrði mig og mína þungu tösku út á flugvöll. Taskan var svona þung af því við eigum enga millistærð af ferðatösku og maður treður alltaf svo miklu í þessa stóru þó svo maður noti svo ekki nema örlítið brot af innihaldinu. Að vísu fór ég líka norður með 2 kg. af norskum brúnosti sem Anna færði okkur, 2 handavinnubækur sem Anna hefur þýtt og gaf mér, og 2 jólagjafir (sem gætu verið bækur). Það eina sem ég keypti mér í ferðinni var trefill/sjal sem framleitt er hjá Glófa á Akureyri en kostar minna í túristabúðunum í Reykjavík heldur en í verslunum hér í bæ! Í flugvélinni sat ég svo við hliðina á manni sem leit út fyrir að vera fársjúkur. Hann var rauður í framan og það snörlaði endalaust í honum. Myndi giska á að hann hafði verið með flensu og háan hita. Þannig að ég reyndi eins og ég gat að snúa höfðinu í hina áttina til þess að smitast ekki af honum og var komin með þvílíkan hálsríg í ferðalok (mér er nær fyrir að vera svona mikil pempía).

Jólastjörnurnar eru komnar upp á ljósastaura hér á Akureyri og eru ósköp fallegar að sjá í myrkrinu. Sumir eru líka búnir að setja seríur í alla glugga og fólk almennt að komast í jólagírinn. Mér finnst samt heldur snemmt að byrja að spila jólalög í útvarpinu en það er einmitt tilfellið á Létt-Bylgjunni, útvarpsstöðinni sem ég hlusta venjulega á í bílnum. Spurning að fara að kippa með sér geisladisk í bílinn?

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Skvísan bara orðin 44ra ára...

Já, þessi fíni afmælisdagur er að kvöldi kominn en í tilefni dagsins kemur hérna örstutt blogg. Ég er reyndar svo afvelta eftir að hafa borðað yfir mig af ofnbökuðum fiski og súkkulaðiköku í kvöldmatinn (hm, kakan var nú reyndar í kaffinu líka sko...) að heilastarfsemin er ekki uppá marga fiska í augnablikinu. Annars er bara allt í fína frá Kína, ég fékk fullt af afmælisóskum í ýmsu formi, s.s. SMS skilaboð, símhringingar og kveðjur á facebook, fyrir utan kveðjur og knús svona uppá gamaldags máta. Óvæntasta gjöfin kom frá eiginmanninum sem færði mér pínulítinn þrífót sem er svo léttur að ekkert mál er að taka hann með sér hvert sem er. Og ég sem hef verið svo löt að taka myndir uppá síðkastið... verð nú að taka mig saman í andlitinu og prófa þrífótinn hið fyrsta. Jamm og jæja, held að ég segi þetta gott í bili, set inn eina mynd af gömlu (afsakið ungu) konunni frá því í Feneyjum í sumar :-)

mánudagur, 10. nóvember 2008

Nautakjöt og rauðvín í mánudagsmatinn ;-)

Þessi fíni matur var að sjálfsögðu reiddur fram af bóndanum og var um eins konar fyrirfram afmælismat að ræða. Hann er nefnilega á vakt á miðvikudaginn þegar ég á afmæli og ákvað því að gera vel við mig í dag í staðinn. Sniðugt hjá honum!

Svo ber það til tíðinda að ég er að fara í húsmæðraorlof um næstu helgi. Eins hallærislega og það hljómar nú eiginlega að tala um húsmæðraorlof... Það væri nær að Valur færi í svoleiðis orlof því hann eldar jú matinn samviskusamlega alla daga. En sem sagt, Anna systir er að koma til landsins og af því tilefni ákvað ég að skella mér suður og vera samvistum við hana. Er búin að bóka gistingu á Hótel Álfheimum (í boði Rósu vinkonu) og hlakka bara til :-) Var þar að auki svo ljónheppin að ná í nettilboð á fluginu svo það er á tæpar 10 þús. fram og tilbaka. Hvað vill maður hafa það betra?

Svartur skammdegishiminn

Já, allt í einu hellist skammdegið yfir. Í morgun var ég ótrúlega þung á mér og langaði gífurlega að halda áfram að kúra undir minni hlýju sæng. En það var víst ekki í boði svo ég dreif mig á fætur og í sund um áttaleytið. Það var rigningarsuddi og þegar ég var komin út í laug og byrjuð að synda tók ég eftir því að himininn var alveg kolsvartur. Það er engin launung að mér er hálf illa við myrkrið og skammdegið, aðallega vegna þess að ég hef áður átt við skammdegisþunglyndi að stríða. En ég synti minn venjulega skammt og fór svo í heita pottinn og gufu. Í þann mund sem ég gekk inn í gufubaðið heyrði ég konu sem ég þekki segja við karlmann sem var í pottinum: "Mikið sem er notalegt þegar það er svona dimmt úti". Þessi setning ómaði í huga mér í smá stund og ég fór að hugsa um það hvað viðhorf okkar hefur mikið að segja um það hvernig við metum marga hluti. Þetta eru svo sem engin ný sannindi en þörf áminning til mín núna í morgun þegar ég ætlaði svona hálfpartinn að fara að leggjast í volæði yfir vetrarmyrkrinu. Nú þarf ég bara að finna út úr því hvað er jákvætt við myrkrið og veturinn svo ég geti breytt viðhorfi mínu ;-)

laugardagur, 8. nóvember 2008

Dugleg í dag

Það er nú þannig að ég kann alltaf best við sjálfa mig þegar ég hef náð að skila góðu dagsverki, á hvaða sviði sem það kann að vera. Í dag var ég í fríi frá vinnu í Pottum og prikum og notaði tímann til að vinna hér heima í staðinn. Þreif gestasnyrtinguna og baðherbergið hér uppi hátt og lágt, ryksugaði, skúraði gólf og fór í Bónus, svo eitthvað sé nefnt. Valur skammaði mig nú aðeins því hann hefur svo oft séð það gerast að eftir svona dugnaðarköst dett ég niður hálfdauð og geri ekki meira næstu daga - en vonandi sleppur þetta allt fyrir horn hjá mér núna. Viðurkenni reyndar að ég er hálf þreytt í bakinu í augnablikinu... ætli sé ekki best að slaka aðeins á.

Lúxusvandamál

Já á þessum síðustu og verstu tímum þá eiga margir við stærri vandamál að stríða en það sem ég ætla að lýsa hér. En ég læt það nú samt flakka. Málið er að eftir að ég tók alla óhollustu út úr fæðinu þá hef ég lagt af um nokkur kíló. Það sem þá gerist er að ég hætti að passa í allar buxurnar mínar nema einar (sem voru þröngar á mig fyrir). Hinar poka allar á rassinum á mér og það er ekkert rosalega smekklegt að mínu mati. Hins vegar er ég ekki að nenna fara á stúfana og leita að nýjum buxum því það er ótrúlega erfitt að finna buxur sem fara vel - og í öðru lagi þá gæti ég nú átt eftir að þyngjast aftur og þá væri fúlt að vera búin að eyða peningum í buxur sem yrðu þá of litlar... What to do, what to do!

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Stefgjöld

Þannig er mál með vexti að við höfum ekki verið að spila neina tónlist í versluninni okkar á Glerártorgi og höfum heldur ekki neinar græjur til þess. Í annarri nálægri verslun er hins vegar spiluð tónlist allan daginn og yfirleitt það hátt að mjög vel heyrist inn til okkar. Tónlistarsmekkur þeirra er hins vegar nokkuð annar en okkar og stundum er erfitt að leiða hjá sér þennan hávaða, sérstaklega fyrri part dags þegar færra fólk er í húsinu og hljóðið berst þar af leiðandi betur yfir til okkar. Örsjaldan er svo kveikt á hátalarakerfi sem virðist vera í allri verslunarmiðstöðinni og er þá yfirleitt verð að spila einhverja útvarpsstöðina. Í báðum þessum tilvikum erum við að hlusta á tónlist án þess að fá nokkru um það ráðið hvort hún er spiluð eða ekki. Nú bar svo við að í gær kom fulltrúi STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) í búðina til okkar með þau tíðindi að okkur bæri að greiða stefgjöld fyrir þá tónlist sem ómaði inn í verslunina. Gjaldið fer eftir fjölda fermetra og þannig er okkar ársgjald rúmar 24.000 krónur. Þetta finnst okkur alveg ótrúlegt svo ekki sé meira sagt. Að þurfa að greiða peninga fyrir að hlusta á tónlist sem er neytt uppá okkur! Það er spurning hvort við verðum ekki bara að setja upp græjur í búðinni og fara að spila tónlist við okkar hæfi - svona til að fá eitthvað fyrir peninginn...

mánudagur, 3. nóvember 2008

Úff, púff...

Já, hafi ég ekki vitað það fyrirfram þá veit ég það núna að djúpsteiktir kjúklingabitar fara ekki vel í magann á mér. Jafnvel þó ég hafi sleppt frönskum og búið til gríðarlega hollt salat með, þá er ég að drepast í maganum. Uppþembd, ropandi og skemmtileg. Og ennþá skemmtilegri að vera að lýsa þessu á blogginu... En góðu fréttirnar eru þær að ég er hressari í dag en í gær, þó vissulega sé vefjagigtin að örlítið að láta vita af sér.

Það var bara gaman í vinnunni um helgina og í dag því fólk er greinilega komið á fullt í jólagjafahugleiðingum. Margir að skoða, spá og spekúlera og þónokkrir byrjaðir að kaupa jólagjafir. Ég öfunda alltaf fólk sem er svona snemma í því - þrátt fyrir fögur fyrirheit tekst mér aldrei að kaupa gjafirnar tímanlega og lendi alltaf í einhverju stressi á síðustu dögunum fyrir jól. Sem er ekki gott mál þegar maður er verslunareigandi og frekar upptekinn á þessum árstíma ;-)

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Vona að ég sé ekki að verða veik

Hef verið svo slöpp og skrýtin eitthvað frá því um miðjan daginn, með verki í skrokknum og sljó í höfðinu. Vona að þetta sé "bara" vefjagigtarkast, nenni ekki að vera veik (nenni náttúrulega ekki heldur að fá gigtarkast en það er nú önnur saga...).

Loksins er búið að gera við heita pottinn "minn"

Já undanfarnar vikur hafa sundferðirnar ekki verið nema hálft gaman því stór hluti af prógramminu hjá mér felst í því að fara í heitasta pottinn í lauginni og láta mér hlýna alveg inn að beini. Til að kóróna ástandið fannst mér gufan heldur aldrei nógu heit svo þetta var hálf klént allt saman. Þetta með gufuna reddaðist reyndar um daginn þegar ég fór eitthvað að kvarta yfir þessu við mann sem var staddur þar inni um leið og ég. Hann benti mér á að prófa að setjast í hornið sem hann var í og viti menn, þar var mun heitara en í horninu sem ég hafði alltaf verið vön að sitja. Kom þá í ljós að í "mínu" horni var voru úðararnir óvirkir en á hinum staðnum var funheitt. Ekki hafði ég nú verið búin að kveikja á perunni varðandi þetta en varð voða glöð. Og svo enn glaðari þegar ég kom í sund núna í vikunni og sá að loks var búið að klára viðgerðina á heita pottinum.

Nú er Hrefna farin í bili en kemur aftur um jólin svo það er ekki langt í næstu heimsókn. Það var voða notalegt að hafa hana heima og gaman að vera aðeins fleiri í húsinu um stundarsakir.

Annars settist ég eiginlega við tölvuna til að leita að uppskrift að glútenlausum múffum en ég er bara ekki að finna réttu uppskriftina. Langar svo að fá bökunarlykt í húsið ;-)