sunnudagur, 18. október 2015

Sýnishorn frá ljósmyndasýningu

Ljósmyndaklúbburinn minn er ótrúlega duglegur að halda sýningar. Ég hefði líklega aldrei orðið meðlimur í þessum klúbbi, hefði ég frá upphafi vitað hvað yrðu margar sýningar ;-) en mér finnst þetta sýningarstúss alltaf jafn erfitt. Erfitt að velja myndir og enn erfiðara að stilla þeim upp til sýnis fyrir sýningargesti. Sem er reyndar mjög fyndið þegar ég hugsa um það, því mér finnst ekkert erfitt að setja myndirnar mínar á netið þar sem enn fleiri geta séð þær. 
En mér finnst ég einhvern veginn verða svo berskjölduð - þó þetta séu bara ljósmyndir! 
Hingað til hefur venjan verið sú að klúbburinn ákveður sameiginlegt þema og þá er bara að laga sig að því þema sem verður fyrir valinu hverju sinni. Í þetta sinn var um 5 ára afmælissýningu að ræða og nú fékk hver og ein kona að hafa frjálsar hendur varðandi val á myndefni og framsetningu. Einhver hefði nú kannski haldið að þá einfaldaðist málið, en sú var ekki raunin í mínu tilfelli. 
Fyrst ætlaði ég bara að hafa eina stóra mynd en tókst bara alls ekki að velja eina mynd sem mig langaði að vera með á sýningunni. Úr varð að ég bjó til þrjár mynda-samsetningar sem ég síðan lét prenta fyrir mig í stærðinni 45x30. Það hafði verið talað um að hver okkar hefði til umráða ca. 1 metra á breidd, eða 80 cm. ef maður gerir ráð fyrir bili á milli okkar. Miðað við það þá hefði ég nú átt að láta prenta stærri myndir, og enn frekar þegar kom svo á daginn að hver og ein fékk töluvert meira en metra fyrir sig. Plássið mitt var amk 1,5-2 metra breitt, þannig að þó ég raðaði myndunum þremur lárétt hlið við hlið, þá bara voru þær svo litlar eitthvað í rýminu. Mest langaði mig til þess að fara heim og sækja stóra strigamynd sem ég á og hengja hana upp í staðinn. En hugsaði sem svo að þar sem ég hefði nú haft mikið fyrir því að finna þessar myndir, raða þeim saman, láta prenta þær og setja á fóm, þá skyldu þær bara fá að hanga þarna. Og hana nú! 
Svo fór ég í frí til Spánar og sá ekki sýninguna í heild sinni fyrr en í dag. Þá þyrmdi yfir mig hvað myndirnar voru eitthvað hæverskar þarna á veggnum ... en ætli megi ekki bara segja að þetta hafi verið ágætis æfing í að sleppa aðeins tökunum og láta fullkomnunaráráttuna ekki ná stjórn á mér. 
En já hér að ofan má sjá umræddar myndir (sem njóta sín mun betur á tölvuskjá en stórum vegg) og hér að neðan er texti sem ég sauð saman og lét fylgja þeim á sýningunni.
Með myndavél í hönd
gleymi ég umheiminum um stund.
Hugurinn tæmist,
öll vandamál hverfa á braut. 
Í gegnum linsuna
upplifi ég umhverfið á annan hátt.
Sé það sem áður var hulið,
fegurðina í hinu smáa,
galdrana í geislum sólarinnar. 
Stundum vel ég myndefnið,
en oftast er það myndefnið sem velur mig.
Himinn og haf,
mosavaxin marmarasúla,
ryðgaður olíutankur í síðdegissól. 
Þetta áhugamál hefur gefið mér
nýja sýn á náttúruna
og þá töfra sem tilveran býr yfir. 
Fyrir það er ég óendanlega þakklát.


föstudagur, 16. október 2015

Bara spræk :)

Já batnandi fólki er best að lifa. Mér fannst kominn tími til að skrifa nýjan pistil, þar sem sá síðasti var frekar á neikvæðu nótunum. Auðvitað gafst ég ekkert upp í leikfiminni, en vá hvað fyrstu vikurnar voru erfiðar. Sjúkraþjálfarinn (önnur þeirra sem eru með leikfimina) sagði að það tæki taugakerfið 4-6 vikur að jafna sig á nýju áreiti, og það stóð heima. Ég ákvað að mæta samviskusamlega í hvern einasta tíma (x3 í viku) og eftir ca. 4-5 vikur fór ég að finna heilmikinn mun á mér til hins betra. Mikið sem er gaman þegar eitthvað gengur vel hjá manni :) Mér finnst þessi leikfimi líka henta mér ágætlega og það eru fínar konur þarna allt í kringum mig, bæði þjálfararnir og konurnar í leikfiminni. Sumar þekkti ég fyrir en það voru líka mörg ný andlit.  
Í byrjun október fórum við Valur í frí til Spánar, með Önnu systur og Kjell-Einari manninum hennar. Við leigðum okkur hús í litlu þorpi sem heitir Frigiliana, en það er í ca. 45 mín. akstursfjarlægð frá Malaga. Hitastigið var á bilinu 21-25 gráður og það hentaði mér afskaplega vel. Ég var svo mjúk og góð í skrokknum og átti ekki í neinum erfiðleikum með að ganga upp og niður brattar tröppur og stíga, sem mikið var af í þorpinu. Ég efast ekki um að það var leikfiminni að þakka :) 
Ég þarf eiginlega að gera sérstaka bloggfærslu um Spánarferðina, en læt hér staðar numið í bili. Leyfi einni mynd af sjálfri mér að fljóta með, bara svona til að sýna hvað Spánn fór vel með mig. Góða helgi gott fólk :)