föstudagur, 31. desember 2004

Er ekki vel við hæfi

að eyða síðasta degi ársins í tiltekt? Ég er að reyna að hreiðra um mig í gamla herberginu mínu (sem ég eignaðist þegar ég var 12 ára en þá var byggt við húsið), þ.e. að búa mér til vinnuaðstöðu þar. Þetta er lúxusinn við að vera í svona stóru húsi, við Valur getum verið með sitt hvort vinnuherbergið, troðum hvort öðru ekki um tær á meðan... Hins vegar gera alls kyns mannvistarleifar eftir dóttur mína mér frekar erfitt um vik - hún hafði aðsetur hér inni síðast þegar hún bjó heima og þó hún sé farin þá er ýmislegt eftir enn. Stereogræjur, kertastjakar, risastór spegill og ýmislegt fleira.

Valur var að átta sig á því að hann gleymdi að ganga upp í Fálkafell (gamall skátaskáli hér fyrir ofan bæinn) í dag, nokkuð sem hann hefur haft fyrir venju síðustu árin. Stundum hef ég farið með honum, stundum ekki. Ætli við verðum ekki bara að ganga uppeftir á morgun í staðinn. Það er of seint í dag, bæði byrjað að snjóa og skyggja. Ekki þar fyrir, hann hefur engan veginn verið iðjulaus í dag, fremur en aðra daga. Búinn að þrífa grillið sem nautakjötið verður grillað á í kvöld, fara með hluti út í bílskúr fyrir mig, búinn að brjóta upp klaka við innkeyrsluna á bílaplanið og búinn að fara með mig í leikfimi í morgun. Og síðast en ekki síst er hann búinn að taka til kaffi frammi í eldhúsi - best að drífa sig!

fimmtudagur, 30. desember 2004

Kettirnir

fengu góðan leikfélaga í heimsókn í dag. Þórgunnur Ása, 4ra ára gömul snót, fékk pappírskúlu hnýtta í band og höfðu bæði hún og kettirnir mikið gaman af að skottast um húsið með þetta leikfang. Meira að segja Birta sem er virðulegur hefðarköttur gleymdi bæði stund og stað og tók þátt í leiknum. Þegar Sunna og Kiddi komu að sækja dótturina sagðist hún kurteislega hafa áhuga á því að vera hérna lengur og var það auðsótt mál af okkar hálfu. Situr hún núna við eldhúsborðið og litar í litabók, þannig að ekki þarf nú mikið að hafa fyrir dömunni.

Valur fór út af örkinni áðan til þess að kaupa í áramótamatinn. Sjaldan hefur reynst jafn erfitt að ákveða hvað á að hafa í matinn, að hluta til vegna þess að Ísak blessaður er ekki hrifinn af hverju sem er, en það tókst um síðir. Naut á gamlárskvöld og humar á nýársdag - hins vegar tókst ekki betur til en svo að minn kæri fann hvergi humarinn. Þó er enn von, hann fór ekki í Sælkerabúðina í Kaupangi, ætli húsfreyjan verði ekki "send" þangað seinna í dag. Í "mjólkurbúðina" fór hann og keypti drykkjarföng fyrir fjölda manns - sem er frekar skrýtið í ljósi þess að við eigum ekki von á öðrum en okkur sjálfum í mat - nema hann haldi að ég ætli að drekka svona mikið....

miðvikudagur, 29. desember 2004

Er að lesa

Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Þetta er mikil saga, bæði að inntaki og lengd (447 bls.) og vel skrifuð. Eini gallinn er sá að ég get ekki lagt bókina frá mér fyrr en hún er búin - og sennilega ástæðan fyrir því að ég byrjaði ekki á henni fyrr! Ég hef þennan ávana að þurfa helst alltaf að vita hvernig sögurnar enda og á það jafnvel til að lesa endinn áður en ég er búin með bókina, manninum mínum til mikillar mæðu, hann skilur ekki svona háttalag. Á líka erfitt með að hætta að horfa á kvikmyndir og sjónvarpsþætti í miðjum klíðum, hangi jafnvel yfir einhverju sem mér finnst hundleiðinlegt, bara til að vita endirinn. Jafnframt er fátt sem veldur mér meiri gremju en myndir sem enda ekki. Bara allt í einu klippt á söguþráðinn og enginn fær að vita meir. En sem sagt - ég er ekki búin að lesa endirinn á Karitas - svo það er best að hverfa aftur á vit sögunnar og hætta þessu pári.

þriðjudagur, 28. desember 2004

Við fengum senda mynd af sætum

strák um daginn. Strákurinn heitir Rubén, býr í Paraguay og verður 4ra ára þann 12 janúar. Það hafði lengi verið ætlun okkar að styrkja barn gegnum SOS barnaþorpin og loksins létum við verða af því. Það kostar ekki nema 2.300 krónur á mánuði að vera styrktarforeldri barns og það finnst mér lítil upphæð en mikill ávinningur. Börnin búa í þorpum á vegum SOS, þau eignast nýja fjölskyldu sem samanstendur af "móður" og öðrum börnum, hugsað er vel um þau og þau ganga í skóla. Það verður gaman að fá að fylgjast með Rubén vaxa úr grasi.

Hér er núna snjór, 6 stiga frost og stillt veður. Valur farinn á skíði enda var verið að opna fjallið í dag. Andri lét sig hafa það að vakna (eftir kröftugar ábendingar þess efnis frá (ó)vinsælustu mömmu í heimi) og fer á bretti upp í fjall núna á eftir. Ísak hins vegar lét sér nægja í dag að vera á bretti á hólnum hér fyrir aftan húsið. Þannig að það er eingöngu ég sem er óíþróttamannsleg í dag, fer hvorki á skíði né bretti. Hins vegar fer ég í afmælisveislu nágranna okkar, Jóns á móti, eins og Valur kallar hann í pistli sínum í dag.

mánudagur, 27. desember 2004

Ég er bara ekki að skilja

hvernig hægt er að fá vöðvabólgu aldarinnar í axlir, háls og höfuð - og það í jólafríinu. Sleppti þremur dögum úr leikfimi og á bágt með að trúa því að það sé ástæðan. Ég hef lifað þvílíkt reglulegu lífi um jólin, farið snemma að sofa og út að ganga á hverjum degi, svo mér finnst þetta eiginlega hálf óréttlátt. Þrátt fyrir fínasta axlanudd frá eiginmanninum í gærkvöldi vaknaði ég undirlögð í áðurnefndum vöðvum í morgun og dreif mig í leikfimi.

Það voru nákvæmlega tveir aðrir að æfa í líkamsræktarstöðinni þannig að mér fannst ég nú bara vera dugleg að mæta á svæðið. En þrátt fyrir upphitun, æfingar, teygjur og gufu lagaðist ég ekki neitt. Tæplega þriggja tíma seta fyrir framan tölvuna í vinnunni gerði einungis illt verra og því er ég komin heim, búin að taka tvær verkjatöflur og ætla að leggjast upp í sófa með bók.

sunnudagur, 26. desember 2004

Hverfulleiki lífsins

hefur verið mér hugleikinn síðustu daga, ýmissa hluta vegna. Um miðja síðustu viku lést móðurbróðir vinar okkar og það síðasta sem ég gerði í vinnunni fyrir jól var að votta dóttur mannsins samúð mína. Á aðfangadag dó svo amma þessa sama vinar okkar og sama dag sagði vinkona mín frá fyrrverandi svila sínum (fjölskylduföður á besta aldri) sem berst við krabbamein. Í jólagjöf frá bóndanum fékk ég m.a. Ótuktina, bók Önnu Pálínu Árnadóttur, sem lést fyrir skömmu síðan úr krabbameini eins og flestir vita. Fjallar bókin um baráttu hennar við þessa ótukt sem krabbameinið er og er bókin alveg frábær aflestrar, enda var Anna Pálína alveg einstök kona.

Fyrstu kynni mín af henni (ekki persónuleg þó) voru þegar við keyptum diskinn "Berrössuð á tánum" fyrir Ísak en þá var hann ca. 3ja ára gamall. Diskurinn hljómaði inni og úti (í bílnum) allt að ár og langt fram á næsta. Það kemur nú ekki ósjaldan fyrir að foreldrarnir verða hálf þreyttir á að hlusta á tónlistina sem spiluð er fyrir börnin í bílnum (þetta var áður en allir krakkar eignuðust vasageislaspilara) en ég söng sjálf með Bullutröllum og fleiri lögum því þetta var svo skemmtilegur diskur.

Að öðru leyti hafa þetta verið hefðbundin jól, aðallega borðaður góður matur og sofið meira en góðu hófi gegnir. Það er þessi gullni meðalvegur sem oft reynist svo erfitt að rata. Þannig vaknaði ég alveg eins og sleggja í morgun og þrátt fyrir langan göngutúr með bóndanum hresstist ég lítið sem ekkert. Hann er öllu sprækari enda fór hann einum og hálfum tíma fyrr en ég á fætur í morgun. Búinn að laga til í skáp í vinnuherberginu (sem var fullur af hans dóti NB!) eftir að lítill fugl hvíslaði í eyra hans að það væri ágætt að nota tímann í tiltekt á annan í jólum...

föstudagur, 24. desember 2004

Allt

orðið hvítt úti, inni syngur Sissel Kyrkjebø og matarlyktin úr smiðju bóndans fyllir vitin.

Ég er í smá pásu, það er segin saga að þrátt fyrir fögur fyrirheit er ég alltaf á síðasta snúningi í tiltektinni á aðfangadag. En þetta er nú allt í góðum gír hjá mér, er meira að segja byrjuð að leggja á borð í stofunni og klukkan ekki einu sinni orðin fjögur.

Hef þetta ekki lengra að sinni, óska öllum Bloggheimsbúum (og hinum líka) gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Jólakveðjur að norðan ;-)

fimmtudagur, 23. desember 2004

Dekurdagur

hjá mér í dag. Leikfimi + gufa í morgun og ilmkjarna-andlitsbað eftir hádegi (yndisleg afmælisgjöf frá Bryndísi og Hafdísi, sem upplagt var að nýta sér á þessum annasama degi). Eini gallinn við svona mikla afslöppun er sá að ég er búin að vera eins og slytti allan seinni partinn. Þarf þó að taka mig saman í andlitinu, á eftir að kaupa eina litla jólagjöf, búa til súkkulaðihúðaða marsipan-núggat-rúllu og síðast en ekki síst, fara á bókasafnið. Það er auðvitað algjört "must" fyrir jólin.

Ég geri mér grein fyrir því að miklu er sjálfsagt stolið í verslunum á þessum árstíma, hins vegar finnst mér eiginlega hálf fyndið að sjá þessa stráka sem varla er vaxin grön vinna sem öryggisverðir í aukastarfi og horfa grunsemdaraugum á allt og alla. Í Rúmfatalagernum pípti í nánast hverjum manni sem gekk inn/út úr búðinni og þar var það fullt starf að stoppa allt þetta fólk og fá að kíkja ofan í töskurnar hjá þeim. Búið var að tína allt upp úr veski einnar konu en í hvert sinn sem veskið var sett í hliðið þá fór það að pípa. Ég sá nú ekki hvernig því máli lyktaði, gekk út og var dauðhrædd um að það myndi pípa í mér (minnug síðustu utanlandsferðar þegar hællinn á stígvélunum mínum var sökudólgurinn og ég gekk á sokkaleistunum gegnum tollhliðið).

Öllu ánægjulegra var að sjá hvað rómantíkin virtist blómstra hjá mörgum, kona sem stakk hendi undir arm eiginmannsins, ungt par að kyssast, gömul hjón að leiðast....

miðvikudagur, 22. desember 2004

Alltaf gott

að skila af sér verkefnum í vinnunni. Við vorum að klára verkefni og senda það frá okkur - verðlaunin voru þau að fara fyrr í jólafrí. Leyfði mér þess vegna að sofa til rúmlega níu í morgun, veitti heldur ekki af, var andvaka framan af nóttu og leið eins og fílahjörð hefði trampað yfir mig þegar ég vaknaði. Það var reytingur af fólki í ræktinni þrátt fyrir að jólin nálgist óðum, enda eru menn að átta sig á þeim sannleika allir vita innst inni að líkamsrækt er nauðsynleg nútímafólki, sérstaklega þeim sem sitja á rassinum fyrir framan tölvu allan daginn eins og ég. Kem þó til með að standa aðeins meira upp á endann eftir áramót þegar ég byrja að kenna markaðsfræðina ;-)

Annars er það svo skrítið að mér finnst gaman að kenna og hlakka til að byrja - en engu að síður er smá kvíði í mér. Veit að ég losna við hann um leið og fyrsti tíminn er búinn. En það er hálf fyndið að hugsa til þess að ég sem var svo hræðilega feimin hér áður fyrr skuli núna vera farin að kenna 100 krökkum. Ég man eftir því þegar ég var að byrja í háskólanáminu og við áttum að kynna verkefni og tala fyrir framan alla hina, úff ég var svo stressuð að ég mundi varla eftirá hvað ég hafði sagt. En ein kynning í ensku var tekin upp á videó og svo fékk maður að horfa á hana heima hjá sér í rólegheitum. Það var rosalega skrýtið en gott samt því þá sá ég að þetta hafði nú bara gengið ágætlega hjá mér. Dúndrandi hjartslátturinn sást ekki á upptökunni sem betur fer!

þriðjudagur, 21. desember 2004

Jóla hvað?

Það er ýmislegt sem bætist á mann í jólastressinu. Til dæmis datt Ísak það í hug um daginn að hann þyrfti alveg bráðnauðsynlega að eignast laser (lítið innrautt ljós í lyklakippu, upphaflega fundið upp fyrir fyrirlesara sem þurfa að benda á power-point showið á tjaldinu en litlir krakkar eru mun hrifnari af fyrirbrigðinu en fullorðnir að því er virðist vera). Og til að létta mér ákvarðanatökuna benti hann mér á að hann gæti bara fengið laser í skóinn! Ég er ekki talsmanneskja þess að gefa dýrar gjafir í skóinn þannig að ég gaf bara mjög lítið í nokkurn tíma en svo fékk hann laserinn. Og sá varð nú glaður.

Ekki liðu þó margir dagar þangað til mér var bent á að nú væri upplagt að hann fengi rafhlöður í laserinn (í skóinn að sjálfsögðu). Ég hafði nú ekki enn látið verða af því þegar hann hringir í mig í vinnuna í gær í miklu ofboði og nú var orðið um líf eða dauða að tefla að fá nýjar rafhlöður. Hann var hálf vælandi í símann og móðurhjartað bráðnaði alveg. Fór búð úr búð í hádeginu í því skyni að bjarga þessum málumm, árangurslaust, þar til mér datt í hug að fara á bensínstöð. Viti menn, þar fengust rafhlöður og ég var svo útsjónarsöm að kaupa sex stykki. En það var niðurlútur drengur sem tók á móti mér, laserinn hafði dottið í gólfið og dottið í sundur. Næsti hálftíminn fór í það að reyna að setja hann saman en ekki lukkaðist það nú.

Í gærkvöldi fékk ég svo SMS frá vinkonu minni þar sem hún stakk upp á spjalli yfir einum jólabjór. Mér fannst það góð hugmynd og Valur skutlaði mér til hennar. Við sátum við kertaljós og kjöftuðum og á einhverjum tímapunkti fór ég að rekja þessar laser-raunir mínar. Þá hittist þannig á að sonur hennar, 13 ára gamall heyrði allt saman og kom færandi hendi með laser sem hann hafði keypt á Spáni sl. sumar. Þetta var ennþá flottari laser en sá sem Ísak hafði fengið í skóinn, með fullt af aukahlutum, og strákurinn vildi endilega gefa Ísak hann. Ja, ef þetta er ekki andi jólanna þá veit ég ekki hvað! Og Ísak brosti eyrnanna á milli þegar hann fékk nýja laserinn afhentan í morgun :-)

sunnudagur, 19. desember 2004

Prentari var það heillin

Það fór þó aldrei svo að bóndanum tækist ekki að koma mér á óvart. Kom heim með þennan líka fína litaprentara. Nú á bara eftir að hanna jólakortin (hvernig skyldi það nú ganga?) og prenta þau svo út.

laugardagur, 18. desember 2004

Nú er það spennandi....

að sjá hvort Valur kemur heim með nýjan prentara......

Þannig er mál með vexti að í dag datt mér í hug að það gæti verið gaman að gera sjálf jólakortin í ár. Var nefnilega vön að búa þau til sjálf fyrir nokkrum árum síðan - en síðustu ár hafa verið keypt misjafnlega ljót kort og einhvern veginn hafa þau ekki sama sjarma og heimatilbúin. Svo ég sit og reyni að búa til kort með því að klippa út "mótív" (fyrirgefið enskuslettuna ég man ekki íslenska orðið í augnablikinu) og líma á karton - en þetta er bara ekki að virka hjá mér. Nánar tiltekið: Þetta eru ljótustu jólakort ever (önnur enskusletta, afsakið).

Klukkan er hálf tíu, minn heittelskaði situr í sófanum og hlustar á aríu úr Madame Butterfly þegar mér verður að orði: "Þetta er alveg glatað, ef við ættum litaprentara þá gætum við prentað út einhverja flotta mynd á jólakortin". "Ég fer bara og kaupi litaprentara" segir hann. "Yeah, right" segi ég (og ekki að ástæðulausu, eins ágætur og hann Valur minn er þá er það ekki akkúrat hans stíll að gera eitthvað spontant, þannig að ég hef ekki mikla trú á að það breytist einn tveir og bingó). Nema hvað, hann stekkur á fætur, segist bara fara í Tölvulistann og kaupa prentara. Hringir samt til að tékka á því hvort ekki sé örugglega opið - en það er búið að loka. Þá spyr ég af hverju hann fari ekki í Stefnu því þeir monti sig af því að vera ódýrastir í bænum. Fer á netið, finn símanúmerið þar og hringi. Viti menn, það er ennþá opið og þá hringir Valur næsta símtal í Kidda vin okkar (tölvuséní með meiru og vin Matta sem á Stefnu) til að spyrja hann út í það hvort þeir séu með almennilega prentara í Stefnu. Kiddi segist ætla að koma með og þeir tæta af stað...
Þannig að nú er það spennandi að sjá hvort þessi elska kemur heim með prentara eður ei...

Já, jólin hafa misjöfn áhrif á fólk

Fór áðan út að sækja Ísak á fótboltaæfingu. Á leiðinni ók ég framhjá versunarmiðstöðinni í Sunnuhlíð sem má nú reyndar muna sinn fífil fegurri en það er önnur saga. Ung kona var að koma þaðan út og hún sveiflaði handtöskunni sinni svo glaðlega fram og tilbaka að unun var á að horfa. Það sást langar leiðir að hún var í góðu skapi. Ók aðeins lengra og mætti gömlum manni sem var úti að ganga sér til heilsubótar. Það sem vakti athygli mína öðru fremur var endurskinsmerki sem hann hafði um sig miðjan, eins og belti. Hann virtist líka vera í góðu skapi því hann brosti út í annað og var kíminn á svipinn.

Annað var uppi á teningnum í Hagkaup. Þar var unglingsstúlka á ferð með móður sinni í þeim erindagjörðum að kaupa buxur. Mamman ávarpaði afgreiðslukonu og bað hana um að hjálpa þeim að finna buxur. Þá urraði stelpan "Má ég ekki bara skoða sjálf, hvað er eiginlega að þér?" Afgreiðslukonan hrökklaðist tilbaka og mamman reyndi að gera gott úr öllu, "Jú auðvitað, ég ætlaði bara að hjálpa þér". "Mig vantar enga hjálp" hvæsti dóttirin þá, alveg jafn illskuleg og áður og nú hrökklaðist mamman líka burt.

föstudagur, 17. desember 2004

Úff, púff,

nú er mín alveg búin á því. Jólagjafa-innkaupaferð nr. þrjú í dag (eða var það fjögur??) - nú er þetta alveg að smella. Bara eftir að finna gjöf handa mömmu og svo manni og börnum. Fór sem sagt í bæinn eftir vinnu og var í svona líka góðum gír þegar ég kom heim að mér datt í hug að fara að baka. Byrjaði á að gera deig í gamaldags "kreppukökur" eins og Valur kallar þær, en þetta eru smákökur sem mamma gerði alltaf og er uppskriftin komin frá Helgu Sig. (ef einhver í cyberspace skyldi vita hvaða hússtjórnarsnillingur það var).

Var enn í góða gírnum þegar þarna var komið sögu og ákvað að skella mér í að baka skinkuhorn. Hef að vísu ekki bakað skinkuhorn í MÖRG ár en taldi að best væri að tvöfalda uppskriftina (gamall vani síðan ég var dugleg að baka, já þið lásuð rétt, dugleg að baka (líka mörg ár síðan það var)). Á meðan deigið var að hefa sig kom bóndinn heim og snaraðist í að elda súpu úr smiðju Sollu á Grænum kosti. Eftir að hafa gætt mér á þessari dýrindis súpu hófst síðan fjörið. Og eftir að hafa staðið upp á endann í rúma 3 klukkutíma var afraksturinn hvorki meira né minna en 100 skinkuhorn! Sem eru komin ofan í poka og búið að frysta. Mín er bara ansi ánægð með árangurinn - en skrokkurinn á mér er hins vegar eins og ég hafi lent undir valtara. Ég "neyðist" víst til að fara í leikfimi í fyrramálið til að reyna að tjasla mér saman aftur.

fimmtudagur, 16. desember 2004

Forvitni

er furðulegt fyrirbæri. Það hefur löngum talist löstur að vera forvitinn og þar sem ég hef ýmsa lesti er ég að sjálfsögðu forvitin í meira lagi. Ekki þó á þann hátt að vilja vita sem mest um náungann (í þeim tilgangi að slúðra), ónei! Hins vegar vaknar forvitni mín oft í tengslum við ótrúlegustu hluti.

Þannig er mál með vexti að skrifstofan okkar Bryndísar er á svokölluðum tengigangi í byggingunni og ótrúlegur fjöldi fólks á þar leið um á hverjum degi á leið í matsalinn. Þrátt fyrir ónæði/hávaða á köflum viljum við helst hafa hurðina opna því fólk sem við þekkjum stingur þá oft inn nefinu og kastar á okkur kveðju þegar það á leið hjá. Gallinn er bara sá að þegar ég sit við vinnu mína lendi ég iðulega í því að heyra á tal fólksins sem gengur framhjá. Og heyri að sjálfsögðu bara slitur úr samtalinu því gangurinn er frekar stuttur. Þá kemur forvitnin upp í mér og mig langar ekki ósjaldan til að heyra meira.

Í dag t.d. gengu nokkrir karlmenn framhjá og umræðuefnið var epli. "Já, mér finnast Red Delicious mjög góð en vil helst ekki kaupa þau því þau eru geisluð" (Halló! Hvað á maðurinn við með geislum??? Hér er forvitni mín vakin). "Á ég að segja þér hvað ég geri við epli?" segir þá hinn. "Ég set þau alltaf í örbylgjuofninn". (Örbylgjuofninn??? Til hvers í ósköpunum? Hefur það eitthvað með geislana að gera?) Spyr ég sjálfa mig en heyri ekki meira því þeir eru farnir. Og eftir sit ég með sárt ennið, forvitnin alveg að drepa mig og minnstu munar að ég elti aumingja mennina fram í matsal til að fá forvitninni svalað.....

Er enginn annar

en ég þeirrar skoðunar að fólk sé farið að skjóta yfir markið í jólaskreytingum?

Svo það sé nú alveg á hreinu þá hef ég alls ekkert á móti því að lífga upp á skammdegið með jólaljósum. Málið er bara að fólk kann sér ekki hóf og það er magnið fremur en gæðin sem stjórnar ferðinni hjá ansi mörgum. Sumir virðast hafa tekið þá ákvörðun að setja jólaljós og aðrar skreytingar alls staðar þar sem pláss er að finna; Í alla glugga (jafnvel blikkandi ljós), utan á húsið (t.d. hinn ameríski Rúdolf með hreindýrið), þakskeggið, stóra grenitréð í garðinum, á runnana o.s.frv. Punkturinn yfir i-ið er svo upplýstur plastjólasveinn við útidyrnar og þessi nýju upplýstu hvítu gervijólatré sem búið er að setja á svalirnar eða dreifa víðsvegar um garðinn. Og það er EKKERT samræmi í þessu öllu saman!

Sem betur fer má líka sjá mörg smekklega skreytt hús (þar sem t.d. sami liturinn er gegnumgangandi og hugsað um gæðin ekki magnið) - en hið gagnstæða er bara svo algengt. Þetta var nöldur dagsins. Lofa að skrifa eitthvað jákvætt næst :-)

miðvikudagur, 15. desember 2004

Tilviljanir

eru ótrúlega skemmtilegar. Ég fór í leikfimi í morgun en var hálf lúin eftir smákökubaksturinn í gærkvöldi. Var þess vegna bara stutt á æfingu og skellti mér í langt gufubað í staðinn. Við vorum fjórar konur í búningsklefanum og vorum allar að klæða okkur á svipuðum tíma. Þá tók ég eftir því að þrjár okkar voru í dökkum teinóttum buxum og hvítri blússu/peysu að ofan og sú fjórða var líka í hvítri peysu. Mér fannst þetta hryllilega fyndið en vissi ekki hvort það væri við hæfi að vekja athygli hinna á þessu enda finnst konum fátt verra (skv. kerlingabókunum amk.) en vera eins klæddar. En þá segir ein: "Sjá okkur, það mætti halda að við værum að fara á kóramót, allar í eins fötum". Og jú, jú, auðvitað höfðum við allar tekið eftir þessu og hlógum hjartanlega að þessari tilviljun.

Sem minnir mig á aðra tilviljun. Þegar við Valur komum frá París og vorum að keyra norður í brjáluðu veðri um miðjan október kveiktum við á útvarpinu e-s staðar í Húnavatnssýslunni. Það skrýtna var að við náðum ekki einni einustu íslenskri útvarpsstöð - en þremur eða fjórum norskum. Norskar stöðvar voru þær einu sem náðust og okkur fannst það sérstaklega fyndið í ljósi þess að um þessi áramót eru 10 ár síðan við fluttum aftur heim frá Noregi og þetta er í fyrsta skipti á öllum þessum tíma sem við náum norskri útvarpsstöð í bílnum.

þriðjudagur, 14. desember 2004

Finnst ég ekki hafa frá neinu að segja

og ætti þá líklega að þegja. Ég er greinilega ekki nógu dugleg þessa dagana við að veita hlutum athygli sem gætu nýst mér í blogg-skrifin.

Sama rútínan alla daga: Leikfimi eða sund, vinna fram að hádegi, fara heim og lesa blöðin (gæti nú t.d. reynt að gera eitthað annað)+ taka á móti Ísak þegar hann kemur heim úr skólanum, aftur í vinnuna, versla í kvöldmatinn, hugsanlega fara út að ganga (eða leggjast hreinlega í leti í sófanum), setja í þvottavél, borða kvöldmat, taka Ísak í háttinn, lesa fyrir hann og láta hann lesa fyrir skólann, hengja upp úr þvottavélinni, flakka um á netinu/blogga, horfa á sjónvarp og fara svo að sofa....

Er nema von að ég hafi ekki frá neinu að segja??


mánudagur, 13. desember 2004

Eftir að hafa hreinsað kattasandkassann

er nefið á mér svo stútfullt af ammoníak-lykt að mér liggur við yfirliði. Þetta er refsingin fyrir að hafa látið líða 2-3 daga milli þess að hreinsa úr kassanum. Þessir kettir mínir eru svo miklar blúndur að þau fara helst ekki út fyrir hússins dyr nema það sé nægilega hlýtt úti að þeirra mati og snjókoma eða rigning eiga alls ekki upp á pallborðið hjá þeim. Þannig að þau gera þarfir sínar eingöngu innandyra þessa dagana (sem er náttúrulega hið besta mál, þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að þau séu að skíta í sandkassa sem ætlaðir eru börnum) . Í sumar áttu þau reyndar sérstakt utandyra"klósett" en það er mexíkóskur arinn sem við setjum upp á sólpallinum yfir sumarmánuðina, í þeim tilgangi að kveikja í honum þegar kólnar á kvöldin. Einhverra hluta vegna hefur þessi blessaður arinn aldrei verið nýttur í sínum upphaflega tilgangi en kettirnir voru snöggir upp á lagið, enda sandur í botninum og gat framaná, alveg eins og á kassanum þeirra inni!

sunnudagur, 12. desember 2004

Allt hefst þetta að lokum

Fór fyrstu jólagjafa-innkaupaferðina í gær en gafst upp eftir rúman klukkutíma. Það á svo illa við mig að vera í þessu stappi, allar búðir fullar af fólki og ég ekki alveg upplögð. Rakst þá á konu gamals vinar Vals og bauð þeim að koma í mat til okkar um kvöldið. "Er það ekki alltof mikið ómak fyrir þig?" spurði hún en ég sagði að það væri bara ekkert ómak fyrir mig, það væri Valur sem eldaði matinn.....

Þau komu svo í mat en Valur var að prófa nýja afríska uppskrift að kjúklingarétt sem hann tók úr Fréttablaðinu. Uppskriftin var komin frá kokki Alþjóðahússins og var rétturinn mjög góður en kannski í sterkara lagi fyrir þá sem ekki eru vanir sterkum mat. Sem er ekki vandamál fyrir okkur, við viljum helst hafa meira bragð heldur en minna en það sást að gestirnir eru greinilega vanari hefðbundnum íslenskum mat, þó þau hafi að vísu gert matnum góð skil.

Í dag, að lokinni sundferð og kaffi/te með ristuðu brauði, var svo farið í jólagjafa-innkaupaferð númer tvö og lukkaðist hún ögn betur en sú fyrsta. Enda fór ég með bóndanum og hann er talsmaður þess að vera snöggur að hlutunum! Núna er hann að bræða úr handþeytaranum í eldhúsinu (við eigum ekki hrærivél, þvílíkt húshald) en markmiðið er að baka súkkulaði/lakkrís/marens smákökur. Það er best að fara og bjóða fram aðstoð sína :-)

laugardagur, 11. desember 2004

Það er svo auðvelt

að missa sig í eitthvað stress á þessum tíma ársins. Hugsanir um allt það sem maður á eftir að gera fyrir jólin, sem er reyndar afar takmarkað því á þessu heimili er ekki farið í stórhreingerningu fyrir jól og það er enginn óskaplegur fjöldi af jólagjöfum sem þarf að kaupa. Hins vegar þarf að kaupa/skrifa/senda jólakort, baka 2-3 smákökutegundir, setja upp jólaseríurnar og skrautið, kaupa jólagjafir tímanlega sem eiga að fara suður og til útlanda, kaupa í jólamatinn og kaupa jólaföt á strákana fyrir litlu jólin í skólanum. Engin ósköp en nóg til þess að raska ró minni og gera það að verkum að mér finnst að ég sé að verða of sein með allt.

Núna ætla ég að setjast niður og skipuleggja hvern dag fram að jólum.... já, það sakar ekki að láta sig dreyma... einhverra hluta vegna tekst mér aldrei að vera skipulögð í jólaundirbúningnum. Kem kannski heim úr vinnunni, er að drepast úr þreytu og framkvæmi ekki neitt af því sem er á "á eftir að gera" listanum mínum. En nú er laugardagur og mál að þessu væli linni. Best að rífa sig úr heimagallanum (gamlar, snjáðar flauelsbuxur og flíspeysa sem var einu sinni hvít), fara í bæjargallann og kaupa jólagjafirnar sem eiga að fara til Noregs. Hvað langar þig mest í Anna mín?

föstudagur, 10. desember 2004

Fór í klippingu í dag

eins og blogg-kunningjakona mín í Reykjavík. En gagnstætt við hana þarf ég að lita á mér hárið, enda orðin meira en lítið grá í vöngum og ekki alveg tilbúin að verða svona "gömul" strax. Á meðan ég beið með litinn í hárinu las ég Nýtt Líf, Mannlíf, Séð og heyrt.. en sat svo stundarkorn og slappaði af. Þá varð ég m.a. vitni að eftirfarandi orðaskiptum:

Strákur (ca. 10-11 ára) segir við hárgreiðslukonuna: "Þegar þú varst lítil, hvað langaði til þá til að verða þegar þú yrðir stór?"

"Mig langaði annað hvort til að verða hárgreiðslukona eða sálfræðingur."

"Sálfræðingur! Af hverju langaði þig til að verða sálfræðingur?"

"Ég veit það ekki, mér fannst það bara eitthvað svo spennandi".

"Mamma segir að sálfræðingar séu þeir sem langaði til að verða læknar en voru ekki nógu gáfaðir og þess vegna urðu þeir sálfræðingar."

Samtalinu lauk reyndar ekki alveg hér, hárgreiðslukonan sagði að sig hefði nú aldrei langað til að verða læknir, og eitthvað ræddu þau þetta áfram. Hins vegar varð þetta svar stráksins til að gefa orðatiltækinu "Það læra börnin sem fyrir þeim er haft" alveg nýja merkingu í mínum huga. Hugsið ykkur hvernig við viðhöldum fordómum endalaust í þjóðfélaginu þegar börnin okkar drekka þá í sig svo að segja með móðurmjólkinni.

Og hugsa sér hvað börnin okkar gætu orðið víðsýn ef aðeins við foreldrarnir kynnum að gæta tungu okkar betur. Já, ekki bara gæta þess hvað við segjum heldur miða markvisst að því að tala á uppbyggjandi hátt við börnin okkar. Um þau sjálf, skólann (og kennarana), öryrkja, gamalt fólk, nýbúa... o.s.frv. Mikið væri nú uppbyggilegt að búa í heimi þar sem jákvæðni í garð annarra væri ríkjandi. Þar sem við værum ekki alltaf að upphefja okkur sjálf á kostnað annarra. Þar sem fólk er metið að verðleikum fyrir það hvað það er, ekki fyrir það hvað það á.

fimmtudagur, 9. desember 2004

Eins og tölvur eru frábær uppfinning

þá eru þær vinnuvistfræðilega afar óhollar. Mér verður t.d. alveg rosalega illt í augunum af að stara á tölvuskjáinn 6-8 tíma á dag, að ekki sé minnst á stífar axlir og "músarhendi". Lét mæla í mér sjónina um daginn og fékk að vita að ég sé verr með hægra auganu, er með -0,5 þeim megin. En af því þetta er eitthvað svo lítil sjónskekkja þá finnst mér hálf asnalegt að hlaupa til og fá mér gleraugu. Get samt ekki varist þeirri hugsun að ef það gæti orðið til þess að mér liði ögn betur í augunum þá væri það þess virði. Hef þess vegna farið nokkrar ferðir í gleraugnabúðir og mátað gleraugu en finnst ég svo hallærisleg með þau öll að ég fer alltaf jafn harðan út aftur. Og hvað ef ég fengi mér gleraugu og skánaði ekkert í augunum?

miðvikudagur, 8. desember 2004

Fyrsta krampakennda tilraunin

til að komast í smá jólastemmingu fór fram skömmu fyrir kvöldmat í dag. Fór niður í geymslu og sótti aðventuljósið (dugleg, bráðum 3ji í aðventu) og jólagardínurnar. Það byrjaði þó ekki gæfulega því ekki vildi kvikna á aðventuljósinu þegar ég stakk því í samband. Fyrir tilviljun fann ég ljósaperur sem pössuðu (var að leita að kennaratyggjói og voila! í sömu skúffunni fann ég perur) en þá var þrautin þyngri að finna út hvaða pera eða perur voru ónýtar.

Ég fór kerfisbundið yfir ljósin og skipti út einni peru í einu, árangurslaust. Þá datt mér helst í hug að fleiri en ein væru ónýt og þá var úr vöndu að ráða því ég átti ekki nógu margar til að skipta þeim öllum út. Eitthvað hefur þó athyglisgáfan verið farin að gefa sig því eftir að hafa nært mig á heimagerðri pítsu úr smiðju bóndans fann ég biluðu peruna í fyrstu tilraun!

Eftir að vera búin að þræða rauðar jólagardínur á neðri kappann í gluggunum er ég ekki frá því að votti fyrir örlitlum skilningi hjá mér á því að jólin nálgast nú óðfluga. Á reyndar eftir að sækja stóru piparkökuhjörtun (sem skreytt eru með hvítum glassúr og hanga í rauðum borðum) ofan í frystikistu og hengja þau upp á efri kappana á gardínunum. Mér fannst ansi snjallt þegar mér datt í hug að frysta hjörtun milli jóla og eru þau orðin 5-6 ára gömul núna. Talandi um endurnýtingu.....

Átti annars sérlega ánægjulegt símtal við gamlan mann í dag. Hann hringdi hingað til að fá heimilisfangið hjá Guðjóni bróður Vals sem hafði verið í sveit hjá honum um fermingaraldur. Gamli maðurinn kom með ýmis gullkorn í þessu samtali sem varði í nærri 40 mínútur. Meðal annars sagði hann um pabba (eftir að hafa grennslast fyrir um það hverra manna ég væri) að hann hefði ekki bundið bagga sína sömu hnútum og aðrir. En mesta gullkornið kom þegar sá gamli bað mig að skila kæru þakklæti til Vals því hann hefði lagað svo vel á sér skaufann hérna um árið!

mánudagur, 6. desember 2004

Er með höfuðið fullt af hugsunum

eins og svo oft áður eftir námskeiðin hjá Þorvaldi Þorsteins. Þetta eru góðar hugsanir og til þess gerðar að hjálpa mér áleiðis í lífsdansinum en eini gallinn er sá að ég kann ekki að slökkva á hugsanastraumnum þegar ég ætla að fara að sofa. Hef ekki fundið on-off takkann ennþá... Ligg í rúminu, reyni að slaka á, prófa að telja andardrætti o.s.frv. en hringekjan í höfðinu á mér er óstöðvandi, fer bara áfram hring eftir hring, hraðar og hraðar. Mér var einu sinni sagt að besta ráðið til að stöðva hugann væri að fara á fætur og gera eitthvað verklegt s.s. strauja eða laga til - en ef satt skal segja hef ég aldrei prufað það. Held einhvern veginn að það yrði ekki vinsælt hjá öðru heimilisfólki þegar kveikt yrði á ryksugunni um miðja nótt!

Annars er mér efst í huga þakklæti til þessa indæla fólks sem ég var með á námskeiðinu. Að vera í hópi fólks sem maður þekkir afar takmarkað en geta engu að síður deilt hugsunum sínum með þeim og skipst á skoðunum á jafnréttisgrundvelli (þrátt fyrir afar ólíkan bakgrunn) eru í raun forréttindi. Ef eitthvert þeirra les þessi orð mín þá þakka ég kærlega fyrir samfylgdina og vona að við látum ekki sitja við orðin tóm, heldur höldum fast í þessi tengsl sem hafa myndast.

18 dagar til jóla

og ég er ekki farin að gera neitt sem talist getur til jólaundirbúnings - ekki einu sinni búin að setja aðventuljós í gluggann! Minn heittelskaði stendur sig aðeins betur, fór upp á þak í gær og setti seríu á þakskeggið. Því miður vantaði einhverjar 20 eða 30 ljósaperur á seríuna (og búðin lokuð) þannig að það varð smá bið á ljósadýrðinni. Hann ætlaði líka að byrja að baka mömmukossa en það vantaði flest til bakstursins s.s. sýróp, þannig að það varð líka bið á smákökunum! Þetta stendur þó allt til bóta, hann tók sér frí í vinnunni í dag og er búinn að kaupa ljósaperur í seríuna. Ég fer svo í Bónus eftir vinnu og kaupi hráefni til smákökubaksturs.
Hins vegar er bæði bekkjarkvöld hjá Ísak fyrir kvöldmat og námskeið hjá mér eftir kvöldmat þannig að ekki gefst tími til mikilla afreka í dag.

Ég átti víst alveg eftir að lýsa matseðlinum á Halastjörnunni. En eins og áður hefur komið fram gerðum við Kvennaklúbbsystur ásamt mökum okkur glaðan dag á föstudaginn. Við konurnar byrjuðum aðeins á undan körlunum, fórum í Hár og heilsu - fengum þar hálftíma nudd hver og fórum líka í heitan pott þar sem við nörtuðum í góðgæti frá Bakaríinu við brúna og skoluðum því niður með freyðivíni. Drifum okkur síðan heim og skiptum í föt í snatri því klukkan hálf átta kom rúta sem keyrði allan hópinn fram í Öxnadal.

Á Halastjörnunni beið húsfreyjan (nafnið á henni er alveg dottið úr mér í augnablikinu) og tók á móti okkur með krækiberja-fordrykk sem hún hafði sjálf lagað. Næst kom heimabakað brauð á borðið, fylgt eftir af himneskri fiskisúpu. Léttreyktur lundi á eplabeði kitlaði bragðlaukana vel en þar á eftir kom alveg frábær réttur; grískur geitaostur vafinn í parmaskinku og steiktur á pönnu. Umm! Þegar þarna var komið sögu byrjuðum við nærri því að slefa í hvert sinn sem húsfreyjan nálgaðist með nýja diska. Smokkfiskur kom skemmtilega á óvart og bragðaðist frábærlega eins og allt annað. Klykkt var út í lokin með súkkulaðiköku sem bráðnaði í munni og skildi fólk eftir í himnasælu.

Ekki spillti umhverfið fyrir og borðbúnaðurinn var skemmtilega ósamstæður. Súpan var m.a. borðuð með gömlum silfurskeiðum sem minntu fleiri en mig á þá tíð þegar foreldrar okkar áttu sérstakar skeiðar (gjarnan úr silfri) sem þau borðuðu með. Þjónustan var heimilisleg og fín og loks verður að geta þess að sá sem heiðurinn átti af matseldinni, Rúnar Marvinsson, var meira en til í að spjalla við gesti sem "villtust" inn í eldhús. Þar stóð hann sveittur yfir pottunum og var orðinn rauður í framan af öllum látunum - en það var ekki hægt að fara heim án þess að þakka honum sérstaklega fyrir matinn. Það er því miður alltof sjaldan sem maður upplifir svona herlegheit.

sunnudagur, 5. desember 2004

Er búin að sitja yfir

bókhaldi í allan dag og hef hvorki haft tíma né orku í að blogga. Gengur vonandi betur á morgun!

laugardagur, 4. desember 2004

Get núna skrifað íslenska stafi

í fyrirsögnina - hlóð niður mozilla vafranum og viti mennn, íslensku stafirnir virka þar. Verð að segja frá ótrúlegri veislu fyrir bragðlaukana sem við hjónin áttum því láni að fagna að upplifa í kvöld. Sexréttaður matseðill í Halastjörnunni í Öxnadal. Rúnar Marvinsson eldaði og þetta var bara hreinlega það besta "ever". Nánari lýsing á morgun. Akkúrat núna er ég svo vel mett og búin að drekka ca. einu vínglasi of mikið þannig að það er best að fara að sofa. Sjáumst á morgun!

fimmtudagur, 2. desember 2004

Á í erfiðri baráttu við sjálfa mig

þessa dagana. Ástæðan er sú að strákur sem var hættur að koma og leika við yngri son minn hefur aftur stungið upp kollinum. Ég hef svo blendnar tilfinningar til þessa stráks, partur af mér vorkennir honum en á hinn bóginn þá fer hann alveg hræðilega í taugarnar á mér.

Þessi strákur flutti hingað í bæinn í fyrra ásamt pabba sínum. Mamman er ekki inni í myndinni og hefur strákurinn ekki hafa neitt samband við hana. Pabbinn vinnur ekki úti en sonurinn segir að hann vinni heima á tölvuna. Vandinn er sá að það virðist bara alls ekki vera hugsað nógu vel um strákinn. Hann er að vísu yfirleitt í hreinum fötum en virðist ótrúlega afskiptur að öðru leyti. Í fyrra fékk hann einu sinni að gista hjá okkur, hringdi heim og fékk leyfi. Pabbinn talaði ekkert við mig og kom ekki einu sinni með tannbursta handa stráknum. Þetta var á föstudagskvöldi og stráksi hafði verið hér frá hádegi. Nóttin leið og næsti dagur og aldrei hringdi pabbinn, né kom, til að grennslast fyrir um soninn. Ég sendi hann heim um kvöldmatarleytið á laugardeginum en þá hafði hann verið hér í einn og hálfan sólarhring.

Hann kom hingað á hverjum degi í langan tíma, yfirleitt strax eftir skóla, þó ég brýndi fyrir honum að hann ætti fyrst að fara heim og borða. Og við þurftum nánast að reka hann heim með valdi á kvöldin. Hann sagðist ekki þurfa að koma heim fyrr en kl. átta því þá væri kvöldmatur hjá þeim. Oft þegar við ætluðum að senda hann heim þá fór hann bara út, beið þangað til við vorum búin að borða og hringdi þá bjöllunni aftur. Um vorið fór bekkurinn saman ásamt foreldrum út í Kjarnaskóg að grilla. Hringt var í alla foreldra til að tilkynna ferðina. Þegar hringt var í pabba stráksins sagðist hann ekki reikna með að nenna að mæta! Enda kom hvorugur þeirra.

Þó pabbanum virðist þykja mjög vænt um strákinn (kyssir hann bless þegar hann er að skutla honum eitthvert, leiðir hann úti á götu o.s.frv.) þá er ýmsu í uppeldinu mjög ábótavant. Strákurinn fær að horfa á sjónvarpsþætti eins og CSI og annað efni sem bannað er börnum. Kannski ekki skrýtið að hann hefur orðaforða sem hæfir mun eldri strákum. Svo er hann ótrúlega frekur og telur sjálfsagt að vera hér lon og don + fá hádegismat og kaffi - en þakkar aldrei fyrir sig.

Mitt vandamál er sem sagt það að syni mínum finnst þessi strákur skemmtilegur og vill gjarnan leika við hann en ég vil helst ekki að þeir séu of mikið saman. Og eins og áður sagði þá fer hann bara svo í taugarnar á mér. Veit að ég er hræðilega vond því hann hefur það greinilega hálf skítt heima hjá sér en ég ræð bara ekki við þessar tilfinningar mínar. Algjörlega lost í þessu máli!

miðvikudagur, 1. desember 2004

120

ára hefði amma Pálína orðið í dag, væri hún enn á lífi. En, eins og áður hefur komið fram í þessum pistlum mínum, þá náði hún þeim áfanga að verða 100 ára en dó skömmu síðar. Amma átti framan af ævi heima á Rauðabergi í A-Skaftafellssýslu og þar fæddist mamma líka, árið 1926, í torfbæ. Fyrir nokkrum árum fórum við Valur og strákarnir í orlofsíbúð í Hornafirði og þá komu mamma og Ásgrímur maðurinn hennar líka þangað. Það var virkilega gaman að fara með henni um þessar fornu slóðir og líta augum "tætturnar" eins og hún kallaði það sem eftir var af torfbænum, hruninn grjótgarð sem afi Páll hafði hlaðið og tæran lækinn þar sem mamma veiddi silungana (greip þá með berum höndum þegar þeir syntu framhjá).

Það er ótrúlega erfitt fyrir nútímafólk eins og okkur að gera sér grein fyrir því hversu hörð lífsbaráttan hefur verið hér áður fyrr. Eldri bróðir mömmu, Sigurbergur, fór ungur að heiman til að vinna fyrir peningum til að senda heim. Sá yngri, Daníel, varð eftir heima, tók 18 ára gamall við rekstri búsins og vann myrkranna á milli við að koma öllu í nútímalegra horf, m.a. lét hann byggja þar steinhús ofl. Mamma var yngst, það var langt á milli bæja og hún átti í raun enga leikfélaga nema dýrin. Skólaganga var af skornum skammti, og þegar mamma lærði til ljósmóður seinna meir tók námið ekki nema tæpt ár að ég held. Já, í dag eru breyttir tímar, það sem þótti lúxus hér áður fyrr þykir sjálfsagt í dag - og ótal margt sem ekki fyrirfannst hér áður fyrr gætum við ekki án verið í dag. Sjónvarp, rafmagn, þvottavélar, tölvur, bílar, ferðalög til útlanda, tískufatnaður, .... listinn er óendanlegur. Sumt gott - annað slæmt. Kannski væri ekki svo vitlaust að staldra við annað slagið, setja hlutina í samhengi og þakka fyrir hvað við höfum það gott ;-)

Læt þessum hugleiðingum hér með lokið enda farin fram úr sjálfri mér í tilvistarlegum vangaveltum (sem ekki verða skráðar hér).

Ákvað að vera dömuleg

í morgun og skellti mér í pilsi í vinnuna. Eini gallinn við þetta pils er sá að það er skósítt og frekar þröngt. Óhjákvæmileg afleiðing verður sú að skreflengdin verður ansi stutt - ég skálma ekki áfram eins og ég er vön að gera - og það þarf sérstaka lagni við að stíga upp í upphækkaðan jeppann.

Þegar ég var að ganga inn á vinnustaðinn sá ég að það var karlmaður rétt á hæla mér og ég, af meðfæddri kurteisi minni, hélt dyrunum opnum fyrir honum. Hann þakkaði fyrir og ennþá var allt í besta lagi. Gamanið fór hins vegar að kárna þegar ég gekk á undan honum upp tröppurnar og þrátt fyrir að reyna að flýta mér fann ég hvernig hann andaði gjörsamlega á hnakkann á mér. Það leið ekki á löngu þar til þolinmæði hans var á þrotum og hann missti út úr sér "Ja, þú kæmist ekki langt á hlaupum ef það væri hungrað ljón á eftir þér". Hér ber kannski að taka það fram að viðkomandi maður (Siggi Bjarklind) er langhlaupari og líklega vanur að taka ansi mikið stærri skref, en ég var snögg upp á lagið og svaraði því til að "Ef það væri hungrað ljón á eftir mér, þá myndi ég nú bara kippa upp um mig pilsinu". Við þessu átti hann ekkert svar og ég var bara ansi ánægð með mig. Yfirleitt dettur mér nefnilega ekkert sniðugt í hug fyrr en löngu seinna og þá er nú frekar asnalegt að fara að leita fólk uppi til að svara því :-)

þriðjudagur, 30. nóvember 2004

Gaman þegar

krakkarnir eru að semja ljóð í skólanum. Hér er eitt eftir Ísak:

Jólasveinar syngja dátt
og snjókorn falla í vinstri átt.
Engill svífur um allt
og krökkum finnst vera kalt.

Var með grátbólgin augu

þegar ég kom út af Bridget Jones í gærkvöldi. Ákvað að draga Hrefnu með mér í bíó þar sem hún hafði lent í árekstri fyrr um daginn og var fremur niðurdregin. Það var svínað svo hrikalega fyrir hana að hún ók á fullu beint inn í hliðina á viðkomandi bíl. Hún var sem betur fer í fullum rétti og slasaðist ekki en bíllinn hennar var óökufær á eftir.

En ef við víkjum aftur að Bridget Jones þá er langt síðan ég hef hlegið svona mikið í bíó og tárin bara flæddu. Mikið sem ég var fegin að vera ekki með einhverja stríðsmálningu á mér því þá hefði verið hætt við svörtum taumum niður kinnarnar. Fyrri hlutinn var þó öllu fyndnari - sem betur fer var smá afslöppun í hlátrinum eftir hlé því ég veit ekki hvernig þetta hefði endað hjá mér annars.

Mikið sem það er nú hollt og gott að hlægja!

mánudagur, 29. nóvember 2004

Amælisbarn dagsins

er æskuvinkona mín, hún Rósa. Við erum í dag búnar að þekkjast í ca. 37 ár, sem er ekki slæmt í ljósi þess að við erum aðeins fertugar að aldri. Við Rósa bjuggum á móti hvor annarri, í Stekkjargerði 7 og 8 og brölluðum ýmislegt saman þegar við vorum yngri. Flest af því frekar saklaust því við vorum svo óskaplega vel upp aldar stúlkur. Ég man varla eftir því að við höfum orðið ósammála svo heitið geti, utan einu sinni þegar við hnakkrifumst út af einhverju (sem er auðvitað löngu gleymt) og töluðum ekki saman í nokkra klukkutíma eða svo. Þá kom Rósa lallandi yfir götuna með friðþægingargjöf handa mér, sem ég tók að sjálfsögðu fagnandi. Dúkkuleikur, drullumall, farið út að hjóla, á skauta, skroppið upp að skítalæk.... seinna meir skátarnir og sundið. Þetta voru góðir tímar. Svo skildu leiðir um sinn þegar ég hætti í menntaskólanum og fór að læra sjúkraliðann en Rósa hélt áfram á beinu brautinni. En það er aldrei lengi vík á milli vina og fyrr en varði tókum við upp þráðinn aftur, rétt eins og hann hefði aldrei slitnað. Það er alltaf jafn gaman að hitta Rósu, núna síðast gisti ég hjá henni þegar ég var í Reykjavík í húsmæðraorlofi, og fékk höfðinglegar móttökur eins og alltaf. Sem sagt: Til hamingju með daginn Rósa mín og láttu dæturnar dekra við þig í tilefni dagsins.

sunnudagur, 28. nóvember 2004

Ausa er yndisleg

Var farin að halda að ég gæti ekki lengur hrifist af verkum hjá Leikfélagi Akueyrar. Hafði sem betur fer rangt fyrir mér. Stórkostlegt verk og Ilmur með frábæran leik. Mæli með Ausu.

Ein vinkona

mín fór í sturtu með 4ra ára gamalli dóttur sinni um daginn. Þegar þær voru að þurrka sér segir sú stutta: "Mamma, eru brjóstin á þér lömuð?" "Af hverju heldurðu það" spurði mamman á móti. Dóttirin svaraði að bragði: "Jú, því þau lafa svona máttlaus niður!".

laugardagur, 27. nóvember 2004

Endalaus verkefni framundan

Skrýtið hvernig skyndilega verður alveg brjálað að gera hjá manni, hvert verkefnið á fætur öðru bíður og maður tapar áttum í þessu öllu saman. Streitan tekur völdin og í smá tíma finnst manni eins og það sé engin leið til að komast yfir allt. Jú, jú, af gamalli reynslu veit ég að þetta tekur enda og maður lifir þetta allt af en það er þetta tímabil þegar maður sér ekki fyrir endann á hlutunum sem er svo erfitt.

Var í saumaklúbb í gærkvöldi/nótt. Kom ekki heim fyrr en um hálf fjögur - og kom að læstum dyrum. Þokkalegt eða hitt þá heldur! Var ekki með húslykil og þurfti að hringja dyrabjöllunni sem óð væri þar til eiginmaðurinn vaknaði og staulaðist svefndrukkinn fram og opnaði fyrir mér. Unglingurinn á heimilinu hafði þá sýnt þá ótrúlegu fyrirhyggju að læsa húsinu þegar hann fór í háttinn og hélt auðvitað að mamma hans væri með lykla. Við þetta rifjaðist það upp fyrir mér þegar ég var að koma heim af balli einu sinni um miðja nótt og hafði gleymt lyklum. Þá sváfu allir í húsinu svo fast að enginn vaknaði þótt ég hringdi bjöllunni. Fékk þá snilldarhugmynd að skríða inn um baðherbergisgluggann í kjallaranum. Sem hefði nú verið gott og blessað ef hann væri aðeins stærri. Nema hvað, glugginn var ekki kræktur aftur svo ég náði að opna hann, náði að hefa mig upp í hann (sem var nú afrek út af fyrir sig), náði að koma rassinum upp í gluggakistuna og náði að - festa mjaðmirnar í glugganum. Komst engan veginn lengra inn og þurfti því að reyna að komast niður á jörðina aftur. Þá fór gamanið að kárna því ég var alveg pikkföst í glugganum, rassinn inni - lappir, handleggir og haus úti - (veit ekki hver breiddin er en get lofað því að þetta eru ekki margir sentimetrar). Tókst samt fyrir rest að ná góðu átaki og púff, skaust út eins og kampavínstappi. Gerði aðra tilraun til að vekja eiginmanninn, í þetta sinn með því að banka á svefnherbergisgluggann, og það virkaði. Þegar ég kom inn og fór að hátta tók ég hins vegar eftir því að á öðru lærinu á mér var risastór marblettur sem varð fallega blásvartur næstu daga. Viku eða 10 dögum síðar fórum við Valur svo saman til lands þar sem sólin skín 360 daga á ári og það var rosalega gaman að skarta því sem eftir lifði af marinu á lærinu við sundlaugarbakkann....

fimmtudagur, 25. nóvember 2004

Afmælisbarn gærdagsins

var Sigurður systursonur minn sem átti 11 ára afmæli. Frænka hans á Íslandi alltaf jafn utan við sig..... og fattaði ekki fyrr en seint í gærkvöldi að hún hafði gleymt að hringja til Noregs. Til hamingju með soninn Anna mín!

miðvikudagur, 24. nóvember 2004

Spurning hvort

öll samskipti okkar hjóna eru farin að eiga sér stað í bloggheimum? Þess verður líklega ekki langt að bíða að við sitjum uppi í rúmi á kvöldin með hvora sína fartölvuna í fanginu og lifum okkar hjónalífi alfarið rafrænt.... Þess ber þó að geta að eiginmaðurinn er þessa stundina staddur á Króknum og hafði víst frekar lítið að gera í dag. Það sést á kommentunum sem hann skildi eftir sig inni á síðunni minni!

Best að kíkja aðeins á þessa nýju bresku gamanþætti sem eru að hefja göngu sína í kvöld. Ég er alltaf svo veik fyrir góðu bresku sjónvarpsefni, mætti vera meira af því í Ríkissjónvarpinu. Mætti reyndar líka vera meira af góðu norrænu efni.

þriðjudagur, 23. nóvember 2004

Sit með sveittan skallann

að reyna að finna út hvaða bakkelsi ég á að bjóða upp á á föstudaginn en þá er komin röðin að mér að halda klúbb. Er nefnilega meðlimur í þeim æruverðuga "Kvennaklúbbi Akureyrar" eins og við af lítillæti köllum klúbbinn okkar. Rúm átta ár síðan hann var stofnaður í þeim tilgangi að vera "samkomustaður" fyrir nokkrar heimavinnandi húsmæður en þó engin okkar sé lengur heimavinnandi er klúbburinn enn í fullu fjöri og er merkilegur fyrir þær sakir helstar að við hittumst vikulega, alltaf á föstudögum eftir hádegi. Það er ótrúlega ljúft að enda vinnuvikuna á því að setjast niður í góðra vina hópi og spjalla um allt og ekki neitt.

Annað sem breyst hefur frá upphaflegum ásetningi eru veitingar þær sem boðið er uppá. Fyrst áttu þær í mesta lagi að vera poppkorn og smá nammi en í dag er öldin önnur... Borðin svigna undan hnallþórum og heitum réttum - sem er frábært þegar maður er sjálfur gestur - en skapar smá stress þegar maður er gestgjafinn. Sérstaklega ef maður er eins og ég, kem sjaldnast í eldhúsið nema til að borða þar! Geri ég minnstu tilraun til að nálgast pottana þegar maðurinn minn elskulegur er að elda fæ ég umsvifalaust olnbogaskot í síðuna, mér er sem sagt stjakað frá eldavélinni og enginn mun nokkru sinni geta sagt um mig að minn staður sé "bak við eldavélina". Kosturinn er sá að strákarnir alast upp við það að mamman sé hjálparvana í eldhúsinu og það sé hlutverk karlmannanna á heimilinu að sjá til þess að fjölskyldan haldi holdum. Þannig kom t.d. Andri Þór (14 ára) heim úr skólanum í dag og hreykti sér af því að hafa búið til besta lasanjað í heimilisfræðitímanum - þetta lærir hann af föður sínum.

Nú er ég komin út fyrir efnið en eins og allir hljóta að skilja er ekki einfalt mál fyrir konur eins og mig að halda veislur, klúbba ofl. þar sem gerð er krafa um nokkurn veginn slysalausa frammistöðu í eldhúsinu. Ergo: ég sit með sveittan skallann og reyni að finna kökur/heita rétti sem eru nægilega einfaldir fyrir eldhús-fáráðlinga eins og mig en líta samt út fyrir að vera flottir og flóknir! Þetta tekur á og gott að hvíla sig stundarkorn fyrir framan tölvuna ;-)

Mig langar bara að bæta einu við. Fór út að ganga með vinkonu minni í dag og hún var að segja mér sögur af tengdamömmu sinni, ekki sögur um það hve stórkostleg hún væri, heldur akkúrat öfugt. Gleymdi afmælisdegi barnabarnsins en það var nú bara toppurinn á ísjakanum. Minnti mig á aðra vinkonu mína sem líka á hörmulega tengdamömmu. Þá varð mér hugsaði til minnar yndislegu tengdamömmu og þakkaði í huganum mínum sæla fyrir að eiga hana að. Hún hefur aldrei sagt eitt einasta styggðaryrði við mig og var alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd meðan hún hafði heilsu til - en ég hef alls ekki verið nógu dugleg að segja henni hvað hún er frábær. Hyggst bæta úr því sem fyrst.

mánudagur, 22. nóvember 2004

Velvakandi

Morgunblaðsins í gær innihélt ansi gott bréf frá "Öldruðum skötuhjúum" eins og bréfritarar kalla sig. Málið snýst um bingóið á Skjá einum (sem ég hef reyndar aldrei horft á) en þeim skötuhjúum hafði verið bent á þennan þátt og ákváðu að prófa. Ekki leist þeim vel á og urðu fyrir miklum vonbrigðum. "Ungi maðurinn sem stjórnaði þættinum talaði hratt, var hræðilega upptrekktur, sveiflaði höndunum í allar áttir og hristi blýantinn sem hann hélt á , ótt og títt og af miklum krafti. Ógerningur var að skilja hvað hann sagði."
Þegar þátturinn var hálfnaður voru þau hjónakorn orðin svo dösuð og upptrekkt að þau slökktu á sjónvarpinu (og hér kemur snilldin) ákváðu að mæla hjá sér blóðþrýstinginn, sem var kominn upp úr öllu valdi, nálægt 180! Þau lögðust því strax á gólfið (ennþá meiri snilld) og gerðu slökunaræfingar. Þau mæla ekki með bingóþættinum fyrir fólk með of háan blóðþrýsting!

Það er ekki meiningin hjá mér að gera lítið úr þessu fólki - mér finnst þetta bara eitthvað svo óborganlegt. Stundum er veruleikinn betri en bestu skáldsögur.

Sumt virðist einfalt

við fyrstu sýn en síðar kemur í ljós að svo er ekki (hugleiðing í tengslum við verkefni í vinnunni).

sunnudagur, 21. nóvember 2004

Kuldaboli

hefur heldur betur látið á sér kræla hér á Norðurlandi síðustu daga. Auðvitað á maður ekki að kvarta yfir 15 stiga frosti þegar maður veit að það er mun kaldara annars staðar, eins og t.d. í Mývatnssveit þar sem frostið fór niður í 30 stig. En það vill þannig til að skrokknum á mér er mjög uppsigað við kulda og kvartar og kveinar hástöfum ef hitastigið fer mikið niður fyrir frostmark. Eftir gönguferð með bóndanum í morgun hef ég verið svo undirlögð af "gigtar"verkjum að það er erfitt að láta það ekki hafa áhrif á skapið. Samt var ég svo dúðuð að ég gat mig varla hreyft.

Var að enda við að gefa Ísaki og vinum hans að drekka og þegar þeir voru orðnir saddir og sælir datt þeim í hug að fara í feluleik. Einhvern veginn líkist hávaðinn sem glymur í eyrum mér meira fimm fílum á ferðalagi en fimm strákum í feluleik! En það er gaman hjá þeim - og það er nú aðalatriðið.

fimmtudagur, 18. nóvember 2004

Hvað finnst ykkur?

Verð að segja að ég er sammála þessu:

Reykjavikurferð

í gær og þreytudagur í dag. Það var ný upplifun að aka um á Nissan Micra bílaleigubíl í snjónum - öllu vanari því að vera á jeppanum og komast allra minna ferða vandræðalaust. En bíllinn var þó á nagladekkjum, meira en margir aðrir sem voru í höfuðborgarumferðinni í gær. Ferðin var vinnuferð en sem sannir kvenmenn þá kíktum við aðeins í fatabúðir í leiðinni. En þrátt fyrir mikið úrval sá ég ótrúlega lítið sem höfðaði til mín. Keypti mér samt tvær peysur, aðallega til að þurfa ekki að hlusta á háðsglósur frá eiginmanninum þegar heim kæmi. Hann hefur nefnilega engan skilning á því að hægt sé að eyða klukkutímum saman í fatabúðum og koma ekki með neitt heim!

þriðjudagur, 16. nóvember 2004

Yndislegt

að trítla léttfætt út í frostið og láta sig svo leka eins og máttlaust hrúgald ofan í heita pottinn. Sitja þar um stund, horfa á þétta gufuna sem stígur upp af vatninu, hlusta á rödd sundkennarans sem sendir skólakrakkana af stað yfir laugina, hlusta á hlátrasköll karlanna sem eru í pottinum við hliðina og ræða lífsins gagn og nauðsynjar. Fara upp úr pottinum og ganga örfá skref að gufunni sem bíður passlega heit og góð. Setjast á bekk, lygna aftur augunum og slaka vel á fyrir amstur dagsins. Drífa sig svo í sturtu og þaðan í búningsklefann þar sem notalegt skvaldur kvennanna leikur undir á meðan farið er í fötin og hárið blásið. Fara síðan aftur út í frostið, tilbúin að taka þátt í því sem dagurinn ber í skauti sér.

mánudagur, 15. nóvember 2004

Hrikalegt

hvað maður ryðgar í tungumálum sem maður notar sjaldan. Ég þykist vera nokkurn veginn fluglæs á enskan texta en þegar kemur að því að skrifa sjálf þá versnar málið. Byrja að velta fyrir mér greini og forsetningum og veit allt í einu ekkert í minn haus. Þetta er auðvitað ekkert nema æfingarleysi - en þegar maður þarf ekki nauðsynlega að skrifa eitthvað á ensku þá gerir maður það auðvitað ekki. Þetta minnir mig á að ég fæ alltaf gríðarlegt samviskubit þegar ég sé Gullu, þýskukennarann minn úr framhaldsskóla. Ég var nefnilega fyrirmyndarnemandi í þýsku og afrekaði að fá þýskt ljóðasafn í verðlaun fyrir góðan árangur á stúdentsprófi. Hvað gerist svo? Jú ég hef hvorki lesið né skrifað þýsku síðan þá. Og ekki hef ég gert tilraun til að tala hana síðan við bjuggum í Noregi og ég ætlaði að tala við þýskan sjúkling sem lá á geðdeildinni sem ég vann á. Reyni ekki einu sinni að lýsa því hvaða bull kom út úr munninum á mér.

sunnudagur, 14. nóvember 2004

Var að koma af handboltaleik

en Andri æfir handbolta með 4. flokki KA og um helgina var haldið mót hér á Akureyri. Það gekk bara vel hjá þeim strákunum og gaman að sitja á bekknum og hvetja. Hann spilaði fjóra leiki og pabbi hans kom með á þann síðasta (var annars að vinna um helgina). Valur æfði handbolta sjálfur "hérna í den" og það var alveg ljóst að hann var að upplifa leikinn á allt annan hátt en ég. Náði þó að vera ótrúlega rólegur, líklega vegna þess hve KA strákarnir voru miklu betri en hinir og aldrei var spurning um það hvort liðið myndi vinna. Ég sé það samt að ef ég ætla að njóta þess almennilega að horfa á leiki þá þarf ég að læra reglurnar betur - svo ég viti betur á hvað er verið að dæma!

laugardagur, 13. nóvember 2004

Amælisbarn dagsins er Hrefna Sæunn

dóttir mín sem er 21 árs í dag. Hún lét nú bíða aðeins eftir sér á sínum tíma, þ.e.a.s. hún fæddist reyndar hálfum mánuði fyrir tímann en ég byrjaði að fá hríðir þann 11. og hún kom ekki í heiminn fyrr en seint að kvöldi þess 13. Undir lokin var ég orðin svo þreytt og búið að gefa mér einhverjar kæruleysissprautur svo ég var vissi eiginlega hvorki í þennan heim né annan. Man samt eftir því að hafa spurt fæðingarlækninn hvort við gætum ekki bara hætt við þetta.... Svo sá ég pottablóm úti í glugga og fannst einhver vera að reykja vindla inni á fæðingarstofunni (hvort tveggja eintómar ofskynjanir að sjálfsögðu). Magakveisa og tilheyrandi vökunætur voru næstar á dagskrá og svo fór ég að vinna 100% vaktavinnu sem sjúkraliði þegar hún var bara 3ja mánaða gömul. Fékk að vísu leyfi deildarstjórans til að fara heim einu sinni á vakt og gefa henni að drekka, þannig að hún var á brjósti til 6 mánaða aldurs. En þessi litla skotta mín varð fljótt afskaplega sjálfstæð ung dama og er það enn. Sem sagt: Til hamingju með afmælið Hrefna mín! Það verður fínt að fá afmæliskaffi hjá henni á morgun.

Pabbi hefði líka átt afmæli í dag væri hann enn á lífi. Og það ekkert smá afmæli, hann væri orðinn 105 ára hvorki meira né minna. Enda orðinn 64ra þegar ég fæddist, en núna eru 14 ár síðan hann dó.

Mikið átti ég annars yndislegan dag í gær, fékk margar góðar gjafir, ótal símtöl og heimsóknir. Svo fórum við fjölskyldan öll saman út að borða á Greifann en þar rakst ég meðal annars á hana Höddu með litla guttann sinn. Það er eiginlega frekar fyndið að sjá fólk svona augliti til auglitis sem maður er orðinn vanur að hitta bara í gegnum bloggið - gaman samt.

föstudagur, 12. nóvember 2004

Afmælisbarn dagsins

er ég sjálf. Í dag eru 40 ár liðin frá því ég kom í heiminn, í húsi er nefnist Sjónarhæð og stendur við hliðina á leikhúsinu hér á Akureyri. Þegar ég fæddist átti ég tvö systkini, Önnu sem þá var 5 ára og Palla sem var 6 ára. Þau fylgdust með því þegar ljósmóðirin kom og biðu spennt eftir að fá fregnir af nýja systkininu. Þegar í ljós kom að þau höfðu eignast systur strengdu þau þess heit að þau skyldu alltaf vera góð við litlu systur sína og aldrei vera vond við hana. Þau þekktu víst einhverja krakka sem voru ansi dugleg að stríða yngri systkinum sínum og ætluðu ekki að falla í sömu gryfju. Líklega má segja að í grófum dráttum hafi þeim tekist þetta ætlunarverk sitt - ég er a.m.k. búin að gleyma flestu - ja, þó rámar mig eitthvað í það að hafa verið fleygt út á svalir í snjónum að vetri til en kannski er það bara falsminning. Það er ekki treystandi á minnið hjá svona gömlu fólki.... (Anna mín, þú leiðréttir mig ef þetta er bara steypa hjá mér).

Mér var gefið nafnið Guðný Pálína í höfuðið á ömmum mínum tveimur. Föðuramma mín hét Petrea Guðný en hún lést löngu áður en ég fæddist. Móðuramma mín hét Pálína og hún bjó á Sjónarhæð hjá foreldrum mínum þegar ég fæddist. Lengi fram eftir aldri fannst mér alveg ótækt að heita þessum tveimur nöfnum og skrifaði mig alltaf bara Guðnýju Sæmundsdóttur (fannst Pálínunafnið hálf kerlingarlegt eitthvað, líklega út af laginu "Það var einu sinni kerling og hún hét Pálína..."). Það er í rauninni frekar stutt síðan ég áttaði mig á því að auðvitað væri það bara ánægjulegt að heita í höfuðið á ömmu Pálínu og tók þá ákvörðun að nota bæði nöfnin þegar ég skrifa nafnið mitt. Samkvæmt Íslendingabók er ég eina núlifandi konan með þessu nafni svo þetta er ágætis auðkenni. Mér verður þá ekki ruglað saman við aðrar konur á meðan.

Annað auðkenni sem ég hef er röddin. Mér liggur frekar hátt rómur og eftir að hafa þurft að hlusta á glósur þar að lútandi í gegnum tíðina var ég eiginlega orðin þess fullviss að ég væri með hræðilega rödd. Sama hvað ég reyndi þá gekk mér illa að lækka mig. Þó er ég ekki frá því að ég sé nú farin að tala aðeins lægra í seinni tíð en kannski er það bara ímyndun. Nýlega áttaði ég mig svo allt í einu á því að í rauninni er það bara jákvætt að hafa rödd sem er svolítið sérstök. Það bregst nefnilega ekki að fólk þekkir mig í síma og það getur verið mikill kostur (vil þó taka það fram að ég kynni mig alltaf með nafni, þoli það ekki þegar fólk kynnir sig ekki og maður velkist í vafa um það hver viðmælandinn er).

Það er hægt að horfa á alla hluti frá fleiri en einni hlið og ef við bara veitum því athygli þá getum við fundið eitthvað jákvætt í öllu þó það virðist ekki vera mögulegt við fyrstu sýn.

fimmtudagur, 11. nóvember 2004

Tungutak

fólks er mismunandi. Sumir hafa sérstakan hæfileika til að leika sér að tungumálinu - ef svo má að orði komast. Stelpa sem var með mér á námskeiðinu um daginn nefndi til dæmis að þegar hún og frændi hennar deildu saman íbúð í Reykjavík hefðu þau iðulega leikið sér með tungumálið og ólíkar merkingar þess. Þegar einhver sagði við þau frændsystkinin að þau væru svo lík svöruðu þau: "Já, við búum í líkhúsi".
Húsvörðurinn úti í háskóla er kallaður Matti, afskaplega hress og skemmtilegur náungi. Hann er grannvaxinn og léttur á fæti. Við vorum að velta því fyrir okkur að hann hlyti að vera svona grannur því hann er á fullu allan daginn, gengur örugglega fleiri fleiri kílómetra á dag og virðist vera óþreytandi. Matti stóð sig alveg með eindæmum vel í að aðstoða okkur þegar við vorum að flytja inn í nýju skrifstofuna um daginn og hlaut að launum eilíft þakklæti okkar. Svo stingur hann höfðinu reglulega inn um dyrnar þegar hann á leið framhjá og kemur þá með einhverjar óborganlegar spurningar í hvert sinn. Hins vegar er ekki jafn auðvelt að svara þeim öllum. Í fyrradag kom hann t.d. með stiga og spurði Bryndísi hvort mætti ekki bjóða henni að "klífa metorðastigann". Í annað skipti kom hann með málband og spurði hvort við myndum "mæla með þessu". Í dag var hann að færa til einhverjar hillur þegar ég átti leið fram hjá og spurði mig hvort hann ætti að "hylla mig". Ég svaraði að bragði og sagðist hafa haldið að hann ætlaði að "leggja eitthvað á hilluna". Sem var auðvitað alls ekkert fyndið þegar ég sagði það... Nei, það er best að leyfa Matta að eiga orðaleikina en halda áfram að hafa gaman af því að hlusta á hann.

Í gærkvöldi fór ég niður í geymslu að tína til föt og leikföng sem Ferðaskrifstofan Nonni ætlar að senda fátækum börnum á Grænlandi í jólagjöf. Ekkert nema gott um það að segja. En mikið sem það var gaman að kíkja aðeins í kassann með ungbarnafötunum (sem ég geymi alltaf ef ske kynni að ég yrði amma einn góðan veðurdag) og rifja upp gamlar minningar frá því stóru börnin mín voru lítil. Það lá við að ég fyndi ennþá ungbarnalyktina úr sumum flíkunum. Svo fór ég með nokkra poka af dóti til Surekhu sem vinnur hjá ferðaskrifstofunni og kom heim um hálf níu leytið. Setti bílinn inn í skúr og ætlaði ekki meir út úr húsi. En þá hafði Andri gleymt að skila vídeospólum sem hann hafði tekið kvöldið áður og var nú farinn á handboltaæfingu. Þannig að ég ruslaðist af stað með spólurnar gangandi. Mér var auðvitað engin vorkunn því vídeoleigan er ekki nema örfárra mínútna gang heiman frá okkur. Samt vorkenndi ég sjálfri mér hálf partinn - en rak þá augun í þvílíka sjónarspilið á himninum og átti ekki lengur neitt bágt. Það sem norðurljósin geta verið falleg. Ég starði upp í himininn og gekk hálf partinn afturábak til að missa ekki af þessu. En þegar ég kom út af leigunni var öll dýrðin horfin, alveg eins og hún hefði aldrei verið þar.

miðvikudagur, 10. nóvember 2004

Eftir maraþonskrif gærdagsins

er nokkuð ljóst að ég mun skrifa stuttan pistil í dag. Umfjöllunarefnið er kurteisi.

Ég fór í leikfimi í morgun og verð að viðurkenna að stelpan í móttökunni er farin að fara í mínar fínustu. Ég býð alltaf góðan daginn þegar ég kem inn úr dyrunum - hún býður aldrei góðan daginn að fyrra bragði. Í eitt skiptið bauð ég góðan daginn og þegar bið varð á svari (hún var að skoða eitthvað á internetinu) sagði ég "eða ekki". "Ha, jú, jú auðvitað er þetta góður dagur" sagði hún þá og reyndi að bjarga sér fyrir horn. En ég er harðákveðin í því að halda áfram að bjóða henni góðan daginn, þó ekki sé nema til þess að stríða henni. Eftir hæfilega æfingu í tækjasalnum fór ég svo að teygja en það er fremur lítið pláss ætlað undir teygjuæfingar. Þá var þar fyrir ein kona sem breiddi úr sér yfir dýnurnar og þegar ég settist á örmjóa rönd sem laus var þá datt henni ekki í hug að færa sig svo ég fengi meira pláss. Eftir á að hyggja hefði ég auðvitað átt að biðja hana að færa sig en mér datt ekkert slíkt í hug þegar ég var þarna.

Þetta var nöldur dagsins.

þriðjudagur, 9. nóvember 2004

Afmælisbarn dagsins er Birta

kötturinn okkar sem er 4ra ára í dag. Það var mikil gleði þegar hún kom á heimilið og lán í óláni að Valur skyldi vera veikur heima og geta hugsað um hana fyrstu dagana hennar á nýjum stað. Ástæðan fyrir því að við fengum okkur kött var sú að við höfðum prófað ýmsar tegundir gæludýra og einhvern veginn hafði það alltaf endað með dauða þeirra. Og nei, við vorum ekki að fá okkur í matinn (eins og fólkið sem stútaði kanínunni sinni fyrir jólin - en NB! kanínur þykja herramannsmatur t.d. í Frakklandi).

Þegar við bjuggum í Förde í Vestur-Noregi höfðum við reyndar haft ketti en það var nú alveg óvart að við eignuðumst þá. Þannig var að í raðhúsinu beint á móti okkur bjó fráskilinn sálfræðingur sem fékk syni sína til sín aðra hvora helgi og stundum oftar. Hann fékk sér 2 kettlinga, örugglega til að gera heimilið meira aðlaðandi fyrir synina. Hrefna sem þá var 7 ára hændist ógurlega að kettlingunum og var í sífellu að fara í heimsókn til sála til að fá að leika við þá. Síðan gerðist það að hann kynntist nýrri konu og sást ekki lengur heima hjá sér nema þá helst til að gefa köttunum að borða. Þetta var mikil sorg fyrir Hrefnu sem gat þá ekki hitt þessa vini sína eins oft og áður. Kvöld eitt kemur sálfræðingurinn yfir til okkar með þær fregnir að hann hafi hugsað sér að láta svæfa kettina. Hrefna tók það afar nærri sér og mitt kattahjarta bráðnaði líka alveg. Hvorug okkar gat hugsað sér að þeir hlytu svo slæm örlög og það varð úr að við tókum kettina (sem við nefndum þeim frumlegu nöfnum Svart og Grána) að okkur. Sem var auðvitað bara gálgafrestur því hvernig fara íslendingarnir að þegar þeir fara heim til Íslands í sumarfrí???

Gráni týndist reyndar fljótlega eftir að hann kom til okkar en Svartur lifði þeim mun betra lífi, óx og dafnaði vel. Valur minntist nú á það við mig oftar en einu sinni hvort kötturinn væri ekki orðinn ansi feitur en ég gat ekki séð það... Nokkrir mánuðir liðu, Andri fæddist í febrúar og í mars eða apríl kom Gráni aftur í leitirnar. Birtist allt í einu fyrir utan leikskólann sem Hrefna var á. Hann var nú hálf tuskulegur greyið eftir þessa útilegu, horaður, ljótur á feldinn og óttalega taugaveiklaður orðinn. Í maí fluttum við til Bergen og fórum keyrandi nokkurra klukkutíma leið með kettina í pappakassa sem við höfðum stungið ótal göt á. Þeir urðu alveg snarbrjálaðir í kassanum (það hreinlega hvarflaði ekki að mér að maður gæti keypt búr til að ferðast með þá í) og mjálmuðu og klóruðu í kassann í óratíma að því er mér fannst. Svo allt í einu datt allt í dúnalogn og ég var alveg handviss um að þeir hefðu fengið sjokk og drepist. Þorði samt ekki einu sinni að kíkja ofan í kassann til að tékka á þeim. En þeir steinþögðu það sem eftir var leiðarinnar og létu fyrst í sér heyra þegar við vorum komin til Bergen. Þá höfðu þeir bara sofið vært alla leiðina. Við þorðum ekki annað en hafa þá inni fyrstu dagana en hleyptum þeim svo út í stórborgina. Biðum svo milli vonar og ótta því við vorum alls ekki viss um að þeir myndu rata heim aftur. En sú heimska að efast um ratvísi katta! Þeir skiluðu sér að vísu ekki aftur fyrr en að rúmum sólarhring liðnum, Hrefnu til mikillar gleði því hún hafði varla getað sofið fyrir áhyggjum.

Fljótlega eftir þetta fór mjög að draga af Grána, hann fékk niðurgang og var farinn að skíta út um allt í íbúðinni. Ég var ekki mjög glöð enda með ungabarn á heimilinu. Svo kom að því að fjölskyldan ætlaði heim til Íslands í mánaðarlangt sumarfrí. Nú voru góð ráð dýr, hvað átti að gera við kettina á meðan? Við þekktum engan sem gat haft þá og þegar ég athugaði hvað myndi kosta að hafa þá á kattahóteli kom í ljós að það var álíka dýrt og flugfarið fyrir fullorðinn fram og tilbaka frá Noregi. Ljóst var að þetta yrði ekki eina ferðin okkar til Íslands á meðan Noregsdvölinni stæði og þetta yrði vandamál í hvert sinn sem við myndum ætla að fara eitthvert. Það voru þung spor þegar farið var með kettina til dýralækninsins sem svæfði þá. Þetta var kona og hún sagði að það hefði hvort sem er þurft að svæfa Grána út af hans veikindum en það var lítil huggun. Mér leið svo illa yfir þessu að lengi gat ég ekki hugsað mér að fá mér kött aftur. Hrefna var líka afskaplega leið og henni var lofað því að þegar við flyttum til Íslands myndi hún fá gæludýr.

Fjórum árum síðar fluttum við heim og ekki leið á löngu þar til Hrefna hermdi loforðið um gæludýr upp á okkur og kanína var keypt. Hún var höfð í búri inni í Hrefnu herbergi en var stundum hleypt út (inni í húsinu) til að viðra sig og afrekaði þá að naga í sundur allar þær rafmagnssnúrur sem hún náði í. Um páskaleytið fór Hrefna með hana út og ætlaði að leyfa henni að anda að sér fersku lofti en þá tókst ekki betur til en svo að kanínan stökk úr fangi hennar niður á harðan snjóinn og fótbrotnaði. Dýralæknirinn sagði að það hefði gerst vegna þess að dýr sem höfð væru í búrum fengju beinþynningu af hreyfingarleysi. Ekki þarf að orðlengja það frekar en kanínuna þurfti að aflífa.

Næsta dýrategund sem við reyndum okkur á voru fiskar. En það var sama hvað gert var, þeir týndu alltaf tölunni. Ég var búin að fara ótal ferðir í dýrabúðina og fara samviskusamlega eftir öllum þeim ráðleggingum sem mér voru gefnar - árangurslaust. Keyptir voru nýir og nýir fiskar því þeir drápust alltaf. Ég gafst nú upp á þeirri útgerð og næst fékk Hrefna páfagauka.

Þetta voru kall og kelling og gekk ágætlega með þá til að byrja með. Þeir fengu að vera inni í stofu og við hleyptum þeim iðulega út að fljúga (og skíta, ég er enn að finna fuglaskít á ótrúlegustu stöðum mörgum árum síðar). Kellingin var þó alltaf heldur slappari en kallinn og hefur sennilega verið orðin gömul enda dó hún innan einhverra ára. En við fengum nýja kellingu og sú var hress og spræk. Nógu spræk til þess að þau fóru brátt að sýna hvort öðru mikil ástaratlot. Ég fór þá og keypti varpkassa og viti menn, innan tíðar verpti hún eggjum, við mikinn fögnuð barnanna á heimilinu (sem voru orðin þrjú þegar hér er komið sögu, Ísak hafði bæst í hópinn). Kellingin lá samviskusamlega á eggjunum og kallinn studdi hana dyggilega með því að mata hana þegar þess var þörf. Og viti menn, þegar réttur tími var kominn brutust fimm ungar úr eggjunum, við ennþá meiri fögnuð heimilisfólksins alls. Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með framvindu mála og þegar Andri átti afmæli stuttu síðar voru ungarnir aðal aðdráttaraflið. Ég hleypti einum og einum strák inn í einu til að kíkja ósköp varlega niður í varpkassann og þetta þótti mikið undur. Hins vegar leið ekki á löngu þar til við tókum eftir því að kellingin var hætt að mata ungana. Og ekki hleypti hún kallinum inn í varpkassann heldur svo hann gat ekki bjargað þeim. Þannig að þeir lognuðust út af hver á eftir öðrum og dóu allir.

Við vorum öll alveg miður okkar eftir þetta og þegar ég sá auglýsingu í Dagskránni stuttu síðar þar sem Síamskettlingar voru til sölu var tekin sú ákvörðun að fá sér gæludýr sem myndi ekki drepast við minnsta tilefni. Og kötturinn skyldi verða hafður inni svo ekki yrði keyrt á hann (þau fögru fyrirheit dugðu í eitt ár eða svo og núna fer hún út eins og hún vill, en aldrei langt í burtu og hún passar sig vel á bílunum.)

Birta hefur veitt okkur öllum mikla ánægju og fyrir um ári síðan ákváðum við að fá félaga handa henni því okkur fannst hún hálf leið, sérstaklega yfir veturinn þegar við vorum að heiman meirihluta dagsins í skóla og vinnu. Máni kom þá, pínulítill og vitlaus, en Birta var nú hreint ekki til í það að fá ókunnugan kött inn á heimilið. Til að byrja með var hún alveg galin og hvæsti og urraði á hann ef hann kom of nálægt henni. En smám saman minnkaði radíusinn á hennar yfirráðasvæði og á þriðja degi var hann kominn niður í ca. hálfan metra. Máni er alveg sérstaklega geðgóður og tókst fljótlega að bræða hjarta Birtu þannig að í dag eru þau bestu vinir. Þau borða úr sömu skálinni, sofa iðulega þétt saman og leika sér í eltingaleik þegar sá gállinn er á þeim. Þetta er sældarlíf þetta kattalíf.

mánudagur, 8. nóvember 2004

Helgin að baki

og ný vinnuvika byrjuð. Helgin fór að mestu í að hvíla sig eftir átök síðustu viku og gera sig klára í slag þeirrar næstu. Svo er það þetta klassíska: tiltekt og þrif. Ég átti reyndar því láni að fagna á sunnudaginn að minn heittelskaði tók sig til og þvoði alla gluggana í húsinu bæði að utan og innan. Sem er ekkert smá afrek því þetta er stórt hús með mörgum gluggum. Ísak fékk nú einhvern tímann það heimaverkefni í stærðfræði að telja alla gluggana í húsinu en ég er búin að steingleyma hvað þeir voru margir.

Myrkrið hellist yfir þessa dagana og minnir hressilega á sig hjá þeim sem berjast við skammdegisþunglyndi. Þá er nú aldeilis gott að eiga lampann góða og má eiginlega segja að hann bjargi lífi mínu yfir vetrarmánuðina. Brandarinn er bara sá að við erum með lampann á eldhúsborðinu og þegar búið er að kveikja á honum þá lýsir hann upp eldhúsið af svo miklum krafti að helst mætti halda að geimskip hefði óvart villst inn til okkar. Það er göngustígur meðfram húsinu og fólk sem gengur framhjá missir sig hreinlega alveg og glápir svo mikið inn um eldhúsgluggann að mesta furða má teljast að það gengur ekki á ljósastaur.

Mikið sem það var sorglegt að lesa minningargreinarnar í Mogganum í dag. Verið að jarða tvær ungar konur sem báðar skilja eftir sig ung börn. Það er ekki langt síðan ég vitnaði í Önnu Pálínu Árnadóttur hérna á blogginu og ég ætla að gera það aftur í dag.

"Á morgun er ef til vill alltof seint að yrkja þau ljóð sem í huganum dvelja."

laugardagur, 6. nóvember 2004

Er farin að halda

að það þýði ekkert fyrir mig að fara í leikhús. Við Valur fórum í leikhús í gærkvöldi ásamt vinafólki okkar og sáum Svik. Leikritið byrjaði ágætlega en svo var maður einhvern veginn alltaf að bíða eftir því að eitthvað meira bitastætt gerðist - en það gerðist aldrei! Þetta var samt allt í lagi þannig lagað, mér leiddist ekki og leikararnir stóðu sig ágætlega svo langt sem það náði. Skildi reyndar engan veginn hvaða hlutverki Skúli Gautason gengdi sem ítalskur þjónn með augljósa gervibumbu en verkið sem slíkt náði bara ekki að kveikja í mér og hið sama gerðist þegar við fórum á Brim fyrr í haust. Verð þó að bæta því við að ég var alveg heilluð af Edith Piaf, svo enn er von...

Hrefna og Elli (tengdasonurinn) voru hjá okkur í mat í kvöld og bóndinn eldaði afskaplega ljúffengar beikonvafðar kjúklingabringur. Með þeim var spaghetti og bruchettur með þistilhjörtum. Þessu skoluðum við gamlingjarnir niður með bjór en ungviðið drakk Pepsi Max. Eftir matinn varð ég svo syfjuð að ég var við það að leka út úr sófanum, seig alltaf neðar og neðar og geispaði og geispaði. Ofsalega skemmtilegur félagsskapur eða hitt þá heldur. En nú er Valur búinn að taka vídeó þannig að það er ekki um annað að ræða en hætta þessu pári og skvera sér niður í sjónvarpsherbergi.



fimmtudagur, 4. nóvember 2004

Minningabrot

Bloggari einn er kallar sig Afa rifjar gjarnan upp gamlar endurminningar í skrifum sínum. Af því ég er svo andlaus eitthvað í dag leyfi ég mér að feta lauflétt í fótspor Afa og rifja upp liðna tíð :0)

Ég man eftir því að hafa langað út að leika mér. Það var óveður úti, svo mikið óveður að þakið fauk af Súkkulaðiverksmiðjunni Lindu en ég var of lítil til að gera mér nokkra grein fyrir því. Æpti, skrækti og lét öllum illum látum af því ég fékk ekki að fara út. Mamma og pabbi þurftu að beita mig valdi til að hindra að ég æddi af stað út í óveðrið og eftir þetta atvik var settur hespulás fyrir útidyrnar, hátt uppi svo ég næði ekki að opna hann.

Einu sinni ætlaði bróðir minn að leika við mig en hann var sex árum eldri og lék sjaldan við litlu systur. Ég var hæstánægð og möglaði ekki þegar leikurinn hófst. Hann var þannig að Palli var á reiðhjóli og batt snæri í kerruna mína en í henni sat ég. Síðan hjólaði hann af stað með kerruna í eftirdragi en ferðin tók snöggan enda þegar kerran valt á hliðina og ég fékk gat á hausinn af því ég rak mig í. Það blæddi mikið úr sárinu og ég hlýt að hafa grátið. Mamma lét mig leggjast með kaldan bakstur við sárið þar til hætti að blæða. Á þeim árum var ekki farið upp á slysadeild nema rík ástæða væri til.

Þegar ég hafði safnað nógu lengi átti ég að lokum næga peninga til að kaupa reiðhjól (líklega með smá viðbót frá mömmu og pabba). Ég var sjö ára og þetta var mitt fyrsta hjól. Það var hátíðleg athöfn þegar við pabbi gengum niður í bæ til að kaupa hjólið. Hjólabúðin var í húsnæði því sem núna hýsir Ljósmyndastofu Páls en ekki man ég hvað búðin hét. Við skoðuðum öll hjólin vandlega en ég féll fyrir bláu Raleigh hjóli og það var ótrúlega stolt stelpa sem leiddi hjólið heim sér við hlið. Ég kunni þó að hjóla því systkini mín áttu hjól sem ég gat fengið lánuð ef ég kvabbaði nógu mikið í þeim. Palli átti risastórt karlmannsreiðhjól og ég hjólaði á því með því að setja annan fótinn inn undir stöngina og hjóla standandi, öll skökk og skæld. Verr man ég eftir hjólinu hennar Önnu, minnir þó að það hafi verið rautt og eins og Palla hjól, alltof stórt fyrir mig. Ekki var alltaf auðvelt að halda jafnvægi á svona stórum hjólum og afleiðingin var sú að ég datt oft og hruflaði mig, sérstaklega á hnjánum og sköflungunum.

Rósa var besta vinkona mín. Hún átti heima beint á móti mér og var yngsta barn foreldra sinna rétt eins og ég. Fyrsta minning mín um Rósu er sú að við sitjum báðar í barnakerrum sem lagt er hlið við hlið og horfum á svínin. Á þeim tíma var svínabú þar sem verslunarmiðstöðin Kaupangur er núna og bræður okkar Rósu, sem áttu að vera að passa okkur, höfðu brugðið á það ráð að skilja okkur eftir þarna svo við gætum skemmt okkur við að horfa á svínin á meðan þeir voru að leika sér.

Ég man eftir því þegar pabbi kom heim með bókasafnskort handa mér. Mikið var ég ánægð að eiga mitt eigið bókasafnskort. Eina vandamálið var að það mátti einungis taka 4 bækur í einu og ég var alltaf svo fljót að lesa þær. Það var viðtekin venja að á Þorláksmessu fórum við Anna systir alltaf að ná okkur í bækur á bókasafnið fyrir jólin. Á meðan við vorum á safninu bónaði mamma gólfin og þegar við komum heim angaði allt húsið af bónlykt, sem blandaðist að vísu saman við lyktina af rauðu jólaeplunum sem hann Sigurður í Vísi gaf okkur venjulega fyrir jólin.

Amma mín bjó hjá okkur. Hún var oftast heima. Sat annað hvort á rúminu sínu eða í stól við gluggann og horfði út. Þegar veðrið var gott sat hún stundum í stól úti á tröppum. Á hverjum morgni þvoði hún sér í framan með þvottapoka og strauk yfir hárið í leiðinni eftir að hafa fyrst tekið úr því flétturnar. Síðan fléttaði hún það upp á nýtt, bognum fingrum. Hárið var þunnt og grátt. Ég veit ekki einu sinni hvaða háralit hún var með í æsku því ég sá hana aldrei öðruvísi en gráhærða. Inni hjá ömmu var fataskápur, lítill skápur og við gluggann stóð blómaborð sem geymdi Iðnu Lísu. Við amma spiluðum stundum rommý en ekki mátti spila á spil á jólunum. En svo fékk amma heilablóðfall og lamaðist að hluta. Eftir það var hún rúmföst og það þurfti að hjúkra henni. Mamma gerði það. Lét hækka upp rúmið svo auðveldara væri að hjúkra henni. Saumaði band sem hún festi í fótgaflinn og amma gat notað til að reisa sig upp í rúminu. Þreif hana, skipti á rúmfötum, setti undir hana bekken. Snéri henni í rúminu svo hún fengi ekki legusár. Færði henni mat. Fimmtudagskvöld voru einu kvöldin í vikunni sem mamma fór út en þá fóru þau pabbi á samkomu og annað hvort ég eða systir mín vorum heima og pössuðum ömmu. 1. desember 1984 náði hún þeim áfanga að verða 100 ára en dó svo í febrúar árið eftir.


Svo mörg voru þau orð. Guðný has left the building.

þriðjudagur, 2. nóvember 2004

Undarlegt

hvernig sömu eða svipaðar hugmyndir eru í deiglunni hjá fleira fólki samtímis. Ég hef oft rekið mig á þetta, síðast núna í vikunni. Ég er alltaf að reyna að átta mig á því hvers konar starf myndi henta mér og hvað ég myndi hafa áhuga á að starfa við í framtíðinni. Ókey, ég lærði viðskiptafræði en hef afskaplega lítinn áhuga á viðskiptum sem slíkum, sérstaklega öllu sem hefur með fjármál að gera. Finnst (sem betur fer) ekki leiðinlegt að vinna að markaðsrannsóknum og könnunum eins og við gerum hjá Innan handar - en gæti líka hugsað mér að gera eitthvað annað en það. Uppgötvaði síðasta vor að mér fannst gaman að kenna og vonandi hafa mínir ágætu nemendur ekki beðið mikið tjón af.

Mér finnst gaman að skrifa ( þó vissulega sé íslenskukunnáttan heldur farin að dala) og eftir námskeiðið um daginn var ég að velta því fyrir mér á hvern hátt ég gæti unnið við eitthvað tengt skriftum - og datt í hug að ég, eða við hjá Innan handar, gætum tekið að okkur að uppfæra heimasíður fyrirtækja. Flest öll fyrirtæki eru komin með heimasíður en oft skortir mikið upp á að þær séu uppfærðar reglulega, t.d. skrifaðar fréttir o.s.frv. Yfirleitt er umsjón heimasíðunnar bætt á einhvern sem er þegar með alltof mörg verkefni á sinni könnu og kemst ekki yfir að gera meira þó hann vildi. Þarna sá ég sem sagt möguleika og nefni þetta við Bryndísi í gærmorgun.

Kem svo á námskeiðið í gærkvöldi (okkur fannst svo gaman að Þorvaldur samþykkti að koma norður nokkrum sinnum í viðbót) og þá er Þorvaldur að tala um að hann verði með námskeið í desember í hagnýtum skrifum. Og jú, jú, þetta námskeið er þá einmitt stílað á fólk sem vinnu sinnar vegna þarf að skrifa texta, s.s. fréttatilkynningar og efni á heimasíður. Þar fór sú viðskiptahugmynd - nú fara allir væntanlegu viðskiptavinirnir á námskeið og læra að gera þetta sjálfir........

sunnudagur, 31. október 2004

Ég keypti maskara

í gær....(leiðrétting)...ég keypti fjólubláan maskara í gær (ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki spennandi lesning fyrir karlkyns lesendur bloggsins - en þeir eru nú ekki svo margir - þið kíkið bara aftur seinna strákar mínir!).

Ég lenti nefnilega í þeirri ógæfu að gleyma snyrtibuddunni minni í leikfiminni í gærmorgun og uppgötvaði það ekki fyrr en búið var að loka líkamsræktarstöðinni. Þá horfðist ég í augu við þann hræðilega sannleika að ég er alveg háð snyrtivörum, sérstaklega meiki/púðri, maskara og varalit. Fer náttúrulega aldrei út úr húsi án þess að "setja á mig andlitið" en hvað það segir um mig að öðru leyti vil ég ekki hugsa um. Samt er nú ekki eins og ég sé einhver málningardúkka, onei, það er bara rétt verið að sparsla í það nauðsynlegasta. Jæja, ég var búin að ákveða að fara í sund seinni partinn og áttaði mig á því að ég gat auðvitað ekki farið í sund án snyrtibuddunnar. Gerði vörutalningu í snatri og komst að því að hér heima átti ég allar nauðsynjar, nema maskara. Ákvað að skreppa í Hagkaup og fjárfesta í einum slíkum fyrir sundlaugarferðina. Ekki málið. Hitti á afskaplega indæla afgreiðslukonu og hún sýndi mér hinar ýmsu tegundir af maskara. Frá ólíkum framleiðendum, með ólíka eiginleika (þykkir, lengir, stækkar....þið kannist við þetta). Sem hún var að sýna mér alla dýrðina tók ég eftir því að hún var með fjólubláan maskara sjálf, smá fjólubláan augnblýant og bleikan augnskugga. Þetta var virkilega smart á henni og ég fékk leiftursnöggt flashback til fortíðar. Nánar tiltekið til ársins 1985 - sem var merkilegt fyrir ýmsar sakir en þær helstar að þá kynntumst við Valur. Og mín skartaði fjólubláum maskara þann veturinn! Þrátt fyrir það hann hefði greinilega gefið vel af sér í veiðinni fyrir 19 árum síðan ákvað ég að vera praktísk. Svartur skyldi hann vera, svart fer jú með öllu. Borgaði og var á leið út úr búðinni þegar skyndilega kom yfir mig löngun til að vera ópraktísk. Skítt með það þó ég myndi bara nota fjólubláan maskara í þessi örfáu skipti sem ég fer eitthvað, skítt með það þó mig vanti augnblýant og augnskugga í stíl. Snéri við í dyrunum, fór tilbaka og sagðist ætla að skipta um lit. Var bara ansi létt í spori og ánægð með mig þegar ég gekk út úr búðinni. Fjólublátt var það heillin.

laugardagur, 30. október 2004

Gufubaðið

svíkur aldrei, ekki frekar en heiti potturinn. Þegar maður er með svona verkjaskrokk eins og ég (svo ekki sé minnst á hvað mér er alltaf kalt) þá veit ég fátt betra en skella mér í gufu eða heitan pott, nema hvort tveggja sé. Hins vegar veit ég fátt verra en fara í gufu og hún er ekki almennilega heit. Í morgun ætlaði ég í leikfimi með bóndanum en komst að því eftir 10 mín. rólega göngu á hlaupabrettinu að ég á langt í land með að endurheimta fyrri krafta mína. Þannig að ég ákvað að teygja bara og fara svo í langt og gott gufubað. Ætla ekki að reyna að lýsa vonbrigðum mínum þegar ég kom svo inn í gufuna og hún var rétt rúmlega hálf volg :-(

Talandi um gufuböð, þegar ég var í Reykjavík síðast þá fór ég í Laugardalslaugina að morgni til og eftir að hafa dólað um stund í heita pottinum þá fór ég á stúfana og leitaði að gufubaðinu. Fann það, opnaði hurðina og...... sá ekki handa minna skil. Gufan var svo mikil og þétt að ég sá gjörsamlega ekki neitt. Ljóstýra sem þarna var inni náði ekki að lýsa neitt upp. Lokaði samt hurðinni og þreifaði mig áfram að sæti rétt við dyrnar. Var fyrst í stað óskaplega ánægð, þetta var nú gufubað í lagi, vel heitt og fínt. Eftir smá stund var þó friðurinn úti. Mér datt nefnilega í hug að það gæti legið lík á gólfinu rétt við hliðina á mér, án þess að ég hefði hugmynd um það. Kannski hefði einhver fengið hjartaslag þarna inni, eldri borgari ef til vill, sundlaugin var full af þeim. Eða kannski hefði einhver verið myrtur (spurning með hvaða aðferð, það hefði þá líklega helst verið kyrking því frekar erfitt er að fela á sér vopn innanklæða í laugunum). Og eftir því sem ég hugsaði meira um þetta, þess fullvissari varð ég. Það lá örugglega lík á gólfinu í gufunni. Rétt í þann mund sem ég ætlaði að standa á fætur og rjúka á dyr opnuðust þær og inn komu gömul hjón. Karlinn hélt hurðinni opinni dágóða stund af því konan var svo sein á sér og við það kom loftstraumur inn um dyrnar, nógu mikill til þess að gufunni létti andartak og ég sá - það sem ég hafði að sjálfsögðu vitað allan tímann - að það var enginn þarna inni nema ég.

fimmtudagur, 28. október 2004

Visa reikningar

eru misskemmtilegir. Reyndar notum við Visa afskaplega lítið nema til að greiða fasta liði eins og venjulega s.s. sjónvarpið, Moggann o.s.frv. Nema að sjálfsögðu þegar ferðast er til útlanda, þá stendur nú kortið aldeilis fyrir sínu. Og reikningurinn fyrir Parísarferðina datt inn um lúguna nýlega en ég var fyrst að skoða hann í dag.

Það var að vísu mjög lítil eyðsla í ferðinni (sérstaklega ef haft er í huga hverju ég hefði getað eytt í föt og skó ef verslanirnar hefðu ekki verið lokaðar á sunnudeginum) en ég neyddist til að horfast í augu við skemmtilega reikningsvillu sem ég gerði (viljandi að vísu) meðan við vorum úti. Þar sem ein evra er ca. 85 krónur þá margfaldaði ég allltaf með 80 til að finna út verðið í íslenskum. Vissi auðvitað alveg að ég var að rúnna þetta ansi vel af - en so what? Svo kemur visareikningurinn kæri og viti menn: jakkinn sem ég hafði "reiknað út" að kostaði ca. 6 þús. kostaði í raun 7 þús. og svörtu leðurstígvélin voru allt í einu komin í 14.135 (úr 12 þús. kalli).

Þetta eru þó smámunir hjá konunum sem voru að versla í London og sáu svo ægilega sæt peysusett á útsölu á (skv. þeirra útreikningum) 5 þús. íslenskar. Og af því peysurnar voru virkilega fallegar og virtust þar að auki vera vandaðar - þá keyptu þær eitt sett til viðbótar til að gefa þriðju vinkonunni þegar heim væri komið. Allt var í lukkunnar velstandi, alveg þar til Visareikningurinn kom og með honum sú kalda staðreynd að þær höfðu feilað sig um eitt núll þegar þær voru að snara enskum pundum yfir í íslenskar krónur. Þannig að peysusettið góða kostaði 50 þús. krónur stykkið á útsölunni! Enda um einhverja snobbverslun með hátískufatnað að ræða.

P.S.
Valur vill taka það fram að honum var alltaf ljóst að evran er 85 kr. - og hann fellur að sjálfsögðu ekki í þá gryfju að margfalda með 80 til þess að fá örlítið hagstæðari útkomu. Nei þetta er víst dæmigert kvennaúrræði....

þriðjudagur, 26. október 2004

Var að druslast

út úr rúminu eftir 10 tíma með uppköstum og niðurgangi. Eins og það sé ekki nóg þá fylgdu þessu hrikalegir beinverkir og höfuðverkur. Mér tókst nú ekki beint að horfa á björtu hliðarnar á þessu - en minn heittelskaði benti á að það hefði nú verið gott að við náðum að fara í Parísarferðina. Ég var sem sagt veik bæði fyrir og eftir ferðina en ekki á meðan henni stóð. Ég vissi ekki að þessi elska væri svona mikil Pollýanna í sér en hann lumar greinilega á ýmsu.

mánudagur, 25. október 2004

Þetta er allt að koma

(er ekki annars eitthvað leikrit með þessu nafni?). En það sem er að koma er vinnuaðstaðan hjá Innan handar sf. Við Bryndís vöktum mikla athygli í dag með þessari ósk okkar að vilja fá að vera saman með skrifstofu. Var sagt að yfirleitt kvartaði fólk yfir of litlu rými - en ekki öfugt. En þrátt fyrir ýmsar glósur (að veggirnir myndu hrynja undan þrýstingnum, að við myndum gefast upp á þessu fljótlega o.s.frv) þá fengum við aðstoð Matta húsvarðar við að færa til húsgögn milli herbergja og fá tvö lítil skrifborð inn í herbergið í stað eins stórs sem var þar fyrir. Þannig að á morgun getum við sótt kassana með dótinu okkar og farið að koma okkur fyrir. Svo eru bara "smámunir" eins og síma- og tölvusamband eftir. En það kemur nú fyrir rest.

Síðasta nótt var frekar skrýtin hjá mér. Ég var í saumaklúbbi í gærkvöldi og eins og mín er von og vísa gekk mér afskaplega illa að sofna þegar ég kom heim. Þetta er ættgengur kvilli, að geta ekki sofnað ef eitthvað örlítið meira en venjulega er í gangi. Sofnaði nú samt seint og um síðir, líklega ca. um tvöleytið en hrökk upp þegar klukkuna vantaði korter í fimm við það að unglingurinn á heimilinu var að hefja undirbúning að því að fara í háttinn. Lá vakandi og hlustaði á hann fara á klósettið, bursta í sér tennurnar (og líklega kreista þónokkra fílapensla miðað við tímalengdina á klósettferðinni) og á endanum, fara inn í rúm. Ég var svo fúl yfir því að hann væri að fara svona seint að sofa að ég fór að æsa mig (í huganum) yfir kennaraverkfallinu og auðvitað yfir syninum fyrir að snúa sólarhringnum svona við. Þannig að ég sofnaði ekki aftur fyrr en rúmlega sex og svaf til átta. Dreif mig í leikfimi þegar ég vaknaði og var ánægð með það - sérstaklega þegar ég var búin!

sunnudagur, 24. október 2004

Það er alltaf gaman

að fylgjast með mannlífinu og eitt af því skemmtilegra við að koma á nýja staði. Til dæmis í París um daginn þá hefði ég getað setið heilan dag og bara horft á fólkið í kringum mig. Svo ótrúlega margar og ólíkar týpur. Ég meira að segja öfundaði safnverðina í Pompidou safninu sem sitja á stólum víðsvegar um safnið og gæta þess að allt fari nú "siðsamlega" fram. Þvílíkur fjöldi af fólki sem þeir sjá á hverjum degi og frá ótal löndum.

Einn staður svíkur þó aldrei hvað fjölbreytt mannlíf snertir og það er sundlaugin. Að vísu er fátt um t.d. Kínverja eða Afríkubúa í lauginni, hvað þá yfir vetrartímann, en engu að síður þá er hægt að hafa afar gaman af því að virða fyrir sér sundlaugargestina. Að sitja í heita pottinum snemma á morgnana og hlusta á samræður gamla fólksins er alveg sér kapítuli. Um daginn varð ég t.d. vitni að eftirfarandi samræðum: Ein gömul kona við aðra: "Það er nú meira hvað það er heitt úti, bara alveg dásamlegt". Hin: "Já og veistu hvað, það var svona hlýtt í alla nótt". Ein: "Hvað segirðu manneskja, svafstu ekkert í nótt? Þú hefur kannski bara vakað alla nóttina til að fylgjast með hitamælinum?" Hin: "Nei, ertu alveg frá þér, en mér fannst þetta svo merkilegt að ég leit á mælinn í hvert skipti sem ég vaknaði til að fara á klósettið, til að sjá hvort það hefði ekki kólnað".

Ókey, ég er kannski ein um að finnast þetta fyndið en þess ber að geta að tónninn í röddinni og svipbrigði þeirra gömlu skila sér ekki svo vel á prenti.

laugardagur, 23. október 2004

Jæja, skrifa alveg villt og galið

Þetta er náttúrulega alveg nýtt líf með þessu nýja lúkki (ég hef tekið eftir því að mér hættir til að ofnota orðið "náttúrulega" en vonandi verður mér fyrirgefið). Vandamálið er bara að orðaforði minn er að verða svo takmarkaður eitthvað. Kannski les ég ekki nóg? Hef áhyggjur af því að lítill orðaforði komi til með að há mér í skriftum. Eftir alltof stutt en frábærlega skemmtilegt námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni (höfundi Blíðfinnsbókanna m.a. - Ferilskráin hans er svo löng að það tekur eilífðartíma að skrolla niður síðuna) þá var nú eiginlega meiningin að fara að skrifa eitthvað annað en blogg.

En svo stendur til að hann komi norður einu sinni í mánuði og hitti okkur á eins konar framhaldsnámskeiði - sem er hið besta mál, reyndar alveg frábært því hann er ótrúlegur karakter og fær mann til að hugsa marga hluti alveg upp á nýtt - nema hvað, mín er náttúrulega (sko, notaði aftur sama orðið) ekki búin að skrifa neitt síðan á námskeiðinu og ef vel er að gáð, skrifaði eiginlega ekki neitt á námskeiðinu heldur. Þannig að nú er bara að bretta upp á ermarnar og setja sig í stellingar og BYRJA AÐ SKRIFA ÞÓ ANDINN SÉ EKKI YFIR MÉR!


Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

Bara aðeins að monta mig...

eða þannig. Það er nú ekki eins og ég hafi unnið einhver stór afrek, en mér tókst að skipta um útlit og breyta nýja útlitinu aðeins líka. Lit á stöfunum ofl. Þetta er nú eiginlega svolítið gaman - spurning að fara að læra meira HTML úr því maður er orðinn svona klár (djók).

Við Bryndís fórum út í háskóla í gær að kíkja á nýju skrifstofuna okkar. Það var reyndar búið að gera ráð fyrir því að við fengjum tvær skrifstofur en við erum orðnar svo vanar því að vera saman að við ætlum að troða tveimur skrifborðum inn í eina. Vonandi gengur það eftir á mánudaginn svo við getum farið að vinna aftur!

Í hádeginu sátum við svo hjá nýju bestu vinkonum okkar, þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Katrínu Júlíusdóttur samfylkingarkonum. Þær voru staddar á Akureyri í tilefni af stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar og komu ásamt fleirum upp í háskóla til að auglýsa flokkinn. Eftir örstutt ræðuhöld ákvað fólkið að fá sér að borða og komu þá ekki vinurnar og settust hjá okkur - og ekki gátum við verið ókurteisar, svo við sátum sem fastast. Það var bara ágætt að spjalla við þær, verst að Séð og heyrt var ekki á staðnum......ha?

fimmtudagur, 21. október 2004

Er að gera tilraunir

með nýtt lúkk á síðuna. Fann eitt sem var miklu betra en það gamla en vandinn er sá að íslensku stafirnir fóru fjandans til. Var líka búin að skrifa pistil fyrr í dag en hann fór líka sömu leið. Sem sagt: allt í klessu í bloggheimi Guðnýjar í dag.

Megininntak pistilsins sem týndist í cyberspace var að hvetja vini og vandamenn til að byrja að blogga. Er orðin hundleið á því að lesa um líf fólks sem skiptir mig engu máli - þetta er sáraeinfalt, fara á síður eins og blogger.com, blog.central.is eða upsaid.com, skrá sig, velja sér útlit á síðuna og byrja að skrifa. Kostar ekkert!

Að öðru leyti hefur þessi dagur verið stórundarlegur. Engin vinna og ég lufsast bara um húsið og geri ekkert af viti. Geri ekki einu sinni neitt af verkefnalistanum mínum (þvo gluggana, þvo eldhúsinnréttinguna, sauma gardínur fyrir tvo glugga í kjallaranum, setja reikninga inn í möppu........ listinn er lengri.....). Það er nú einu sinni þannig með mig að því minna sem ég hef að gera því minna geri ég (meikar alveg sens er það ekki) og svo þegar ég hef mikið að gera þá geri ég ekki heldur það sem ég geri ekki þegar ég hef lítið að gera. Rugl, eða hvað?

miðvikudagur, 20. október 2004

Tvennt

vakti athygli mína í Fréttablaðinu í dag.

Annað var frétt á forsíðu þar sem greint var frá því að Baldur Sveinbjörnsson, vinur okkar og prófessor við háskólann í Tromsö, hefði ásamt starfsfélögum sínum fundið lyfjameðferð sem vinnur á krabbameini í börnum. FÁBÆRT! Til hamingju með þennan árangur Baldur!

Hitt sem vakti athygli mína var kennslustefna Hrafnagilsskóla í Eyjafirði en inntaki hennar er lýst með orðunum:
"ALLIR HAFA HIÐ GÓÐA Í SÉR OG MÖGULEIKANN TIL AÐ VERÐA BETRI MANNESKJUR".
Við þetta þarf engu að bæta.

þriðjudagur, 19. október 2004

langaði bara

að bæta því við að ferðin til Parísar hefði sjálfsagt ekki verið farin nema vegna þess að Hrefna Sæunn tók að sér að sjá um börn og bú á meðan við vorum í burtu. Og gerði það að sjálfsögðu með sóma eins og allt annað sem hún tekur sér fyrir hendur. Ekki má heldur gleyma vinafólki okkar, þeim Sunnu og Kidda sem sáu til þess að Ísak ætti öruggt athvarf á meðan Hrefna var í vinnu á daginn. Já, Andri var líka á bak-bakvakt en hans vakt byrjaði nú ekki fyrr en eftir kl. fjögur á daginn - þegar hann var vaknaður!!! Sumir eru búnir að snúa sólarhringnum við í verkfallinu og þegar mamma vekjaraklukka er ekki á svæðinu þá er ekki von á góðu.

Það er hálf undarlegt ástand í vinnunni þessa dagana. Þar sem við hjá Innan handar erum með aðstöðu hjá Frumkvöðlasetri Norðurlands ráðum við litlu um staðsetningu okkar og nú er Frumkvöðlasetrið að flytja upp í háskóla = við þurfum að flytja líka. Þurftum að pakka öllu og fara úr Glerárgötunni fyrir rúmri viku síðan og erum að bíða eftir því að verða úthlutað nýrri skrifstofu á Sólborg. Það er ótrúlega skrítið að vera í svona limbói með aðsetrið og fyrirtækið bókstaflega í kössum. Verður lítið úr verki - en á hinn bóginn var líka ágætt að taka sér frí í smá tíma. Þetta er nú samt að verða ágætt og vonandi fáum við að vita á morgun hvar okkur verður holað niður...

Komin heim

frá París. Frábær ferð, hefði bara mátt vera deginum lengri (a.m.k.). Allt gekk eins og í sögu, hótelið var mjög fínt og afskaplega vel staðsett. Örstutt að ganga niður að Signu og Notre Dame kirkjunni og svo var þetta hverfi (6. hverfi) rosalega lifandi og skemmtilegt. Við vorum ekki með neina sérstaka dagskrá, gerðum bara það sem okkur datt í hug hverju sinni. Fórum m.a. á Pompidou listasafnið, Musée d'Orsay og kíktum á Eiffel turninn. Nánari ferðasaga verður að bíða betri tíma. Ókum svo norður í gær í þvílíka veðrinu. Fyrst var óveður á Kjalarnesi og fór vindhraðinn upp í 45 m/s í verstu hviðunum. Þá þýddi ekkert annað en hægja verulega á sér og stoppa jafnvel. Síðan var áfram rok alla leiðina og sums staðar bættist við rosalegur éljagangur, skafrenningur, hálka og snjókoma svo ekki sá út úr augum. Maður var feginn ef það grillti í næstu vegstiku, svo lélegt var skyggnið. Sem dæmi má nefna þá tók það okkur nærri tvo tíma að keyra frá Varmahlíð til Akureyrar. En allt hafðist þetta að lokum og nú er það bara "back to reality" eftir þessa pásu frá daglega lífinu.

miðvikudagur, 13. október 2004

Er loksins

að hrista þessa pesti af mér. Fór meira að segja í leikfimi í morgun - reyndar meira af vilja en getu - en það er þó alltént byrjunin. Í leikfiminni hitti ég konu sem er "fyrrverandi" sjúkraliði eins og ég. Við tókum tal saman eins og gengur og m.a. spurði hún hvað ég væri að gera núna. Ég svaraði því samviskusamlega og gat þá ekki annað en spurt tilbaka hvað hún væri að gera. Jú, hún er búin að læra nudd og er líka á fullu að selja Herbalife. Allt í góðu með það. Svo þegar ég opnaði póstinn minn áðan var þar bréf frá skólasystur minni úr Háskólanum sem býr núna í Bretlandi. Og hvað haldið þið að hún sé farin að gera - selja Herbalife! - og hagnast mun meira á því heldur en ég í minni vinnu. Ætli þetta séu einhver skilaboð til mín frá æðri máttarvöldum? Kannski Herbalife sé bara málið?

Er á leið í bæinn að skoða ferðatöskur. Við erum búin að eiga sömu ferðatöskurnar í tugi ára og hafa þær þjónað okkur vel og dyggilega. Hins vegar eru þær úr harðplasti og taskan mín brotnaði fyrir einhverju síðan þannig að hjólin kýldust upp í botninn og ég fæ yfirleitt mjög pirruð augnaráð frá fólki þegar ég dreg hana ískrandi á eftir mér á flugvöllum. Við erum ekki að tala um neitt smá ískur!

Parísarferð á næsta leyti. Við keyrum suður þegar Valur er búinn að vinna á morgun og fljúgum út á föstudagsmorguninn. Veðurspáin er svona la la, hitinn í kringum 10 stig en síðan fer það eftir því hvaða spá maður les hvort það er spáð rigningu, skýjuðu, sól eða öllu þessu. Hótelið sem við gistum á Henri IV er á vinstri bakkanum, í Latínuhverfinu nálægt Sorbonne háskólanum. Mér skilst að þetta sé mjög góð staðsetning, svo verður bara að koma í ljós hvernig hótelið er. Ég fann það á netinu og samkvæmt ummælum á Tripadvisor.com þá virðist þetta vera ágætis hótel.

mánudagur, 11. október 2004

Rigningarsuddi

úti og laufblöðin sem fokið hafa af trjánum undanfarna daga liggja eins og hráviði um alla lóð. Trén að verða hálf lufsuleg, þau laufblöð sem eftir eru hanga tilviljanakennt á greinunum og bara tímaspurmál hvenær allt verður farið. Þetta er ekki ósvipað því að líta í spegil þessa dagana! Ekki þar fyrir, hárið er nú allt á mér ennþá, þessi víruspesti mín hefur bara tekið sinn toll og ég er að verða eins og fuglahræða. Föl, með bauga undir augunum og augnaráðið fremur sljótt.

Annars las ég alveg yndislegt viðtal við Önnu Pálínu Árnadóttur söngkonu í afmælisblaði Krafts (stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein). Anna Pálína hefur barist við krabbamein í 5 ár en hefur tekist á ótrúlegan hátt að halda höfði í gegnum allar þessar hremmingar, m.a. með því að persónugera krabbameinið og líkja því við gamla hrörlega kerlingu, Kröbbu frænku, sem verður að búa hjá henni um stundarsakir. Síðast í viðtalinu er hún spurð hvað taki við núna og þessu svarar hún á eftirfarandi hátt: "Lífið er núna og ég ætla ekkert að eyðileggja daginn í dag af því dagurinn á morgun gæti orðið leiðinlegur. Ég er hérna núna, ég get notið lífsins og verið með börnunum og manninum mínum. Ég get gefið þeim þær stundir sem við eigum núna. Maður eyðileggur ekki sólskinsdag af því það gæti hugsanlega rignt á morgun!"

Maður eyðileggur ekki sólskinsdag af því það gæti hugsanlega rignt á morgun.