mánudagur, 28. september 2009

Blogg frá Noregi

Já, tölvan er víst með í för og þrátt fyrir fögur fyrirheit um tölvufrí í fríinu þá er ég víst í tölvunni núna... En tölvan var sem sagt tekin með fyrir Ísak, svo hann gæti horft á bíómyndir á leiðinni í bílnum og fluginu. Það kom hins vegar í ljós að hann gat ekki horft á það sem hann var búinn að hlaða inn í tölvuna, kannski vegna þess að þetta er Apple tölva (annars hef ég ekki hugmynd um ástæðuna).
Við ókum sem sagt suður og sem betur fer var ekki farið að snjóa þá því mér fannst nú alveg nógu erfitt að keyra í þessu brjálaða slagviðri sem var. Alveg hreint úrhellisrigning á köflum og hávaðarok. Vona að það verði gott veður á laugardaginn þegar við komum heim!
Síðan,eftir að hafa gætt okkur á kakói og rjómatertu, gistum við hjá mömmu og Ásgrími í Innri-Njarðvík en daginn eftir flugum við til Noregs. Anna og Sigurður sóttu okkur á flugvöllinn og það var bara rjómablíða í Osló.
Seinna um daginn fórum við Anna í göngutúr út í skóg og umhverfis vatn. Þetta var bara nokkuð langur göngutúr á minn mælikvarða, eða um klukkutími, og mjög hressandi. Svo eldaði Anna þessa dýrindis fiskisúpu um kvöldið.
Við Ísak erum ennþá föst í íslenska tímanum og í gærmorgun fór ég á fætur kl. 10 að norskum tíma og fannst ég nú bara nokkuð dugleg, hehe. Um hádegisbilið fór Kjell-Einar í langan hjólatúr en við Anna og strákarnir ókum til Askim. Þar er stór (ísköld!) sundlaug með tveimur rennibrautum og einni öldulaug. Svo er ein upphituð smábarna/þjálfunarlaug og tveir litlir heitir pottar. Við Anna komum okkur vel fyrir í öðrum heita pottinum en fannst við nú ekki hafa setið þar neitt rosalega lengi þegar strákarnir komu og vildu fara uppúr. Já, það er greinilegt að sumir eru að stækka!
Þegar við vorum komin heim aftur byrjaði ég að prjóna peysu en svo tókst mér nú að steinsofna sitjandi í sófanum, hehe.
Í dag eru Anna og Kjell-Einar í vinnunni og ég er bara búin að taka því mjög rólega. Morgunmatur, sturta, prjónaskapur og tölva hafa verið á dagskrá það sem af er. Núna er ég að reyna að fá strákana til að rölta með mér í búðina en það er ekki að hljóta mikinn hljómgrunn. Þeir eru samt búnir að fá leið á að vera í tölvu í bili og ráfa eirðarlausir um húsið og vita ekki hvað þeir eiga að taka sér fyrir hendur.
Ætli ég reyni ekki að koma mér út í smá göngutúr til að liðka mig :-)

þriðjudagur, 22. september 2009

Sauðfé í sólinni

Hér kemur mynd úr ferðinni okkar á Melrakkasléttu. Ég reyndi að spjalla aðeins við kindurnar til að fá þær til að sitja fyrir á mynd, en það gekk ekki sérlega vel. Þær voru nú samt pínu forvitnar, en ekki nægilega.

Nú nokkrum dögum fyrir Noregsferð er Ísak búinn að vera veikur í þrjá daga. Mjög skemmtilegt eða þannig, því þá verða þetta nærri tvær vikur sem hann missir úr skóla en ekki bara ein. En við því er víst ekkert að gera. Hann er það sterkur námsmaður að honum ætti ekki að verða skotaskuld úr því að vinna þetta upp.

Það er frekar rólegt í vinnunni þessa dagana eins og hefðbundið er í septembermánuði. Samt er ég hálf lúin eftir vinnuna í dag en það helgast nú af því að ég datt í eitthvað tiltektaræði þegar ég var að leita að ákveðnum hlut. Fann reyndar hlutinn fyrir rest svo það var nú aldeilis ánægjulegt.

Ætli sé ekki best að setja í eins og eina þvottavél núna, þarf að hafa þessar fáu spjarir sem Ísak á hreinar fyrir ferðina.

sunnudagur, 20. september 2009

Við Valur gerðum góða ferð á Melrakkasléttu í gær

Eftir svolítið japl jaml og fuður í gærmorgun ákváðum við að láta ekki fjarlægðina og þar með aksturslengdina trufla okkur og ókum af stað austur á Melrakkasléttu. Þangað fórum við síðast saman í lok ágúst 2005 þannig að segja má að tími hafi verið kominn á aðra ferð.

Veðrið hér á Akureyri var afskaplega fallegt þegar við lögðum af stað um ellefuleytið, blankalogn og sólin hafði nýlega brotist fram úr skýjahulunni sem hafði skyggt á hana fyrr um morguninn. Þegar austar dró versnaði hins vegar veðrið, þ.e.a.s. engin var sólin og það var mikill grámi yfir öllu og rigndi á stöku stað. En áfram héldum við, vongóð um að veðrið myndi batna er liði á daginn, eins og það átti að gera skv. veðurspá. Á Húsavík keypti ég heitt kakó og við stoppuðum á útsýnisstað utan við bæinn og fengum okkur kakó og brauð. Og áfram var ekið austur á bóginn. Ég hafði á orði að ólíkt fallegra hefði nú verið að keyra um þessar sömu slóðir fyrr í sumar þegar við fórum í Öxarfjörðinn ásamt Önnu, Sigurði og Ísaki, því veðrið hefur svo mikil áhrif á það hvernig maður uppplifir staði.

Smám saman fór þó aðeins að létta til og þegar við vorum komin á Kópasker var ögn bjartara en þó ekki sól. Við tókum einn rúnt í plássinu en þar var nánast enginn á ferli. Það breyttist reyndar þegar komið var norðar á sléttuna því í nágrenni við Sigurðarstaði var verið að smala kindum og fylltu þær veginn á smá kafla. Ekki var þó margt fólk sem sá um smölunina, það verður að segjast eins og er. Við stoppuðum aðeins og smelltum af nokkrum myndum niðri við sjóinn en héldum svo áfram í gegnum kindahrúguna og ókum sem leið lá niður að eyðibýlinu Skinnalóni.

Viti menn, þá kom loks sólin sem við höfðum beðið eftir, og gerði ljósmyndatökuna enn skemmtilegri. Við stoppuðum lengi við Skinnalón og tókum bæði helling af myndum og skoðuðum eyðibýlin tvö, þó ekki færum við inn í þau. Svo borðuðum við nesti í skjóli við stóran rekaviðarstafla því það var nú ansi kalt. Sólin kom og fór og það var mun hlýrra þegar hún skein, en það var líka vindur og hann kældi mann vel niður. Eftir aðeins meiri myndatökur fórum við aftur í bílinn og ókum aðeins lengra, að afleggjara út að Hraunhafnartangavita.

Ekki var bílfært lengra svo við gengum út að vitanum, mest á afar grýttum "vegi" en þó var sums staðar hægt að ganga á grasi við hliðina. Valur fór upp að haugi þar sem einhver maður (nafnið á honum er dottið úr mér í augnablikinu, spyr Val á eftir) var veginn fyrr á öldum eftir að hafa sjálfur áður vegið þar 14 menn. Ég var þreytt og nennti ekki að ganga meira í bili enda fórum við bæði að haugnum síðast þegar við vorum þarna. Það var samt afskaplega hressandi að ganga þarna við sjóinn. Þarna var enginn nema fuglinn fljúgandi (aðallega skarfar), nokkrar rollur og við. Vitinn og umhverfið var myndað í bak og fyrir og við klifruðum yfir stórgrýtisgarð til að sjá út á sjóinn á næstum því nyrsta tanga landsins. Rifstangi stendur víst örlítið norðar.

Þegar hér var komið sögu var klukkan farin að halla í sex, sólin farin að lækka verulega á lofti, ég var orðin ansi lúin og við bæði að verða nokkuð svöng. Við hröðuðum okkur því aftur í bílinn og lögðum af stað heim á leið. Ekki var mikið stoppað á leiðinni, nema hvað við ákváðum að fá okkur að borða á Húsavík, sem við og gerðum. Fórum á veitingahúsið Sölku þar sem við keyptum okkur steinbít sem bragðaðist mjög vel. Heim vorum við komin um hálf tíu leytið eftir velheppnaða ferð. Lýkur hér með þessari ferðasögu sem einhverra hluta vegna rataði á bloggið mitt :)

fimmtudagur, 17. september 2009

Leifar af sumri


Hippie summer colours, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já það er ennþá sumar hér í höfuðstað Norðurlands. Að minnsta kosti ef farið er í Lystigarðinn - já og eins ef litið er á hitamælinn í dag.

mánudagur, 14. september 2009

Blogg fyrir mig :-)

Ég er örugglega tíu kílóum léttari í dag en í gær... Ekki í bókstaflegri merkingu þó - en í dag var ég að skila af mér bókhaldi Potta og prika til endurskoðanda, eftir að hafa farið í gegnum allt heila klabbið og leiðrétt villur og svoleiðis. Þetta er nokkuð sem ég hef haft hangandi yfir höfðinu á mér frá því í vor - en hef ekki komið mér að verki. Málið er að þetta er töluverð vinna sem einungis er hægt að framkvæma þegar búðin er lokuð. Við erum nefnilega með sölu- og bókhaldskerfið í kerfisleigu og ég kemst ekki í bókhaldið hér heima nema þegar lokað er í Pottum og prikum. Og það er bara á kvöldin (þegar ég er drulluþreytt), já og fyrir hádegi á sunnudögum... En það er með þetta eins og margt annað, tilhugsunin um verkið er mun skelfilegri en framkvæmdin sjálf og eins og allir vita "hálfnað er verk þá hafið er". En alla vega - ég er búin að skila þessu og er mjög glöð með það.

Það styttist í ferð okkar Ísaks til Noregs. Við ætlum að skella okkur í heimsókn til Önnu og co. og það sem meira er, Hrefna ætlar að koma frá Köben og hitta okkur. Ég á reyndar eftir að græja flugið til Reykjavíkur og tilbaka og þarf að drífa í því sem allra fyrst.

Annað fréttnæmt er það að Andri lagaði til í herberginu sínu í gær, að eigin frumkvæði, og gladdi það okkur gömlu hjónin afskaplega mikið. Svo er skólinn að byrja hjá honum og hann fór með fullan kassa af bókum á skiptibókamarkaðinn. Verst að það er svo mikið af bókum í umferð að þau ná ekki öll að losna við gamlar bækur á þennan hátt. En sniðugt er það samt.

Og nú er ég hætt þessu masi.

mánudagur, 7. september 2009

Blogg fyrir mömmu :)

Já mamma hringdi til að athuga hvort væri ekki allt í lagi hjá mér þar sem ég hef ekki bloggað svo lengi. Ég er bara löt að blogga - og löt að skrifa "status" á facebook. Já, bara löt yfirhöfuð! Svo er ég farin að sofa svo mikið að það er ekki tími fyrir neitt annað... Nei, það er nú reyndar ekki alveg rétt. En ég sef samt mikið. Ætli ég sé ekki bara að rétta mig af eftir sumarið því þá var ég svo oft andvaka og átti erfitt með svefn.
Að öðru leyti gengur lífið bara sinn vanagang. Það varð tómt í kotinu þegar Hrefna var farin aftur til Köben og Andri var farinn í útskriftarferðina til Kanarí, en nú kemur hann heim í kvöld þannig að þá lifnar aðeins yfir húsinu aftur. Hann var nú smá klaufi og gleymdi að bera á sig sóláburð fyrsta daginn og brann á öxlunum, því miður. Vonandi er hann búinn að jafna sig. Svo styttist sjálfsagt í að skólinn byrji hjá honum og er það þá síðasta árið hans í Menntaskóla. Það sem tíminn flýgur áfram. Kannski eins gott að maður fari að gera eitthvað meira við tímann sinn úr því hann líður svona hratt... Verst bara hvað gigtin setur alltaf mikið strik í reikninginn hjá mér. Það er að segja, ég hef svo lítið úthald til að gera hluti því ég er alltaf svo þreytt og illa fyrir kölluð. En þannig er það bara.
Við Valur skruppum í smá ljósmyndaferð í gær. Hann fór reyndar líka á laugardaginn (einn) í Flateyjardal og tók svaka skemmtilegar myndir þar en þá var ég að vinna. Í gær fórum við í Bárðardal og vorum að taka myndir af Skjálfandafljóti. Það er viss áskorun að taka myndir sem sýna vatn á hreyfingu, þannig að vel sé, og mér gengur það ekki of vel. En þá er bara málið að æfa sig!
Á föstudaginn verður fyrsti klúbbur vetrarins og er víst röðin komin að mér að halda klúbb. Þá byrjar líka fjörið að finna veitingar handa skvísunum. Í síðustu tvö skipti hef ég verið svo leiðinleg að vera eingöngu með eitthvað hollustufæði en ætli ég hafi ekki einhverja óhollustu með í þetta skiptið.
Og nú held ég að ég segi þetta bara gott í bili :)