- Að koma í Fellabakarí á Egilsstöðum er sérstök upplifun. Ekkert út á bakkelsið að setja samt.
- Þoka á Seyðisfirði kom í veg fyrir að við sæum til fjalla meðan á veru okkar þar stóð.
- Hótel Aldan er nýuppgert og í gömlum húsum en virkilega fínt og ef fólk tímir að eyða peningum í gistingu (ein nótt í tjaldi var nóg fyrir mig og þetta var eina gistiplássið sem var laust) þá er virkilega hægt að mæla með gistingu þar.
- Við gengum út að Skálanesi og sáum m.a. seli og fuglabjarg. Þar hjá er líka stærsti lúpínuskógur sem ég hef séð - og hundurinn Bjartur sem Ísak vingaðist fljótt við.
- Á Seyðisfirði var nýlokið listaviku unga fólksins og við borðuðum í Menningarmiðstöðinni Skaftfelli, þar sem Valur keypti meðal annars póstkort af "íslenskri gleði" - en á kortinu er mynd af tveimur (frekar útlifuðum) mönnum að djúsa og spila á gítar.
- Á Seyðisfirði fórum við líka á kakjak, Ísaki til mikillar ánægju og svei mér þá ef ég hafði ekki bara nokkuð gaman af því líka...
- Þar fannst okkur við vera stödd í súrrealískri bíómynd þegar við ókum fram á tvíbura sem stóðu á gangstétt nálægt fiskvinnslufyrirtæki staðarins. Þeir voru alveg eins klæddir - báðir í ljósum buxum og ljósum jökkum, gott ef skórnir voru ekki hvítir, hárið farið að grána en andlitin sólbrún. Aldurinn óræður - líklega á milli sextugs og sjötugs!
- Á Borgarfirði eystri keyptum við okkur mat í félagsheimilinu Fjarðarborg en þar ræður mamma hans Magna (eina sanna) ríkjum. Steikti hún ofaní okkur hinar ágætustu lambakótilettur. Annars var allt á fullu í húsinu við að undirbúa breiðtjald og hljóð fyrir útsendingu kvöldsins frá Rockstar Supernova (er það ekki nokkuð rétt nafn á þættinum, er ekki alveg inn í þessu...).
- Þar fórum við líka í fuglaskoðun um kvöldið og vorum alein að fylgjast með ótalmörgum lundum og fleiri bjargfuglum í alveg yndislegu veðri.
- Við höfnina er vefmyndavél og stóðst ég ekki mátið að hringja heim í Andra (sem var í tölvunni aldrei þessu vant) og segja honum að hann gæti fylgst með okkur í beinni útsendingu :-)
- Um nóttina gistum við í farfuglaheimili staðarins og þar var ekkert fyllerí og engin læti heldur hinn besti svefnfriður enda flest útlendingar þar fyrir utan okkur.
- Álfasteinn býður upp á úrval hluta sem búnir eru til úr íslensku grjóti og þar fengum við okkur líka afbragðsgóða fiskisúpu með heimabökuðu brauði áður en við lögðum í hann heim aftur.
- Borgarfjörður eystri er með fallegri stöðum á landinu, þar er mikil friðsæld og fólkið með afbrigðum almennilegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli