þriðjudagur, 30. desember 2008

Millibilsástand

Já það ríkir einhvers konar millibilsástand hjá mér í dag. Eða bara eitthvað skrítið ástand. Í gær var ég að vinna og þurfti þar af leiðandi að vakna milli hálf átta og átta. Eftir að hafa sofið til ca. hálfellefu dagana á undan var ósköp erfitt að vakna í gær og ennþá erfiðara að halda sér vakandi restina af deginum. Enda sofnaði ég á sófanum um áttaleytið í gærkvöldi. Á þriðjudagsmorgnum erum við Sunna vanar að hafa vinnufundi og þá sér Anna um að afgreiða í búðinni á meðan. Þannig að nú stendur hún vaktina í Pottum og prikum en ég sit hér heima, enn í náttfötunum og klukkan að verða ellefu. Ég leyfði mér sem sagt þann munað að sofa út í morgun... drattaðist á fætur fyrir rúmum klukkutíma og hefði alveg verið til í að sofa lengur. Já, þetta skammdegi lætur ekki að sér hæða. Það er nú samt markmiðið að fara í sund áður en ég fer að vinna eftir hádegi. Kemst bara ekki alveg strax því ég er búin að borða morgunmat. Annars er þetta hálf asnalegt allt saman, þetta með hvíld og vinnu. Ég þurfti virkilega á hvíld að halda eftir jólatörnina en ef maður hvílir sig of mikið þá bara veslast maður upp úr sleni og deyfð. Hm, rosalega spennandi pælingar, eða þannig sko.

sunnudagur, 28. desember 2008

Áframhaldandi afslöppun

Já ekki eru mörg verkefnin sem liggja fyrir þessa frídaga. Eða kannski væri nær að segja að ekki séu mörg verkefnin sem frúin nennir að sinna. Maður dettur í einhvern letigír og ég nennti meira að segja ekki í sund í morgun. Fór reyndar í gærmorgun og það var ægilega gott. Núna langar mig meira út að ganga, veðrið er svo yndislegt. Það er blankalogn og hlýtt og smám saman birtir af degi. Ég hef nú ekki látið reyna á það lengi hvort ég kemst hringinn í Kjarnaskógi. Síðast þegar ég gekk þennan hring var ég nánast farin að draga fótinn þegar leiðin var rúmlega hálfnuð og það voru svo mikil vonbrigði að ég hef ekki viljað leggja það á mig aftur. En núna langar mig út í Kjarnaskóg. Auðvitað þarf maður ekkert að labba þennan blessaða hring. Það er alveg eins hægt að ganga einhverja skógarstíga og snúa bara við þegar fóturinn er orðinn lúinn.

Svo þyrfti ég eiginlega að þrífa aðeins og þvo þvott. Já og laga til. Og fara yfir nokkur söluuppgjör sem ég tók með mér heim úr vinnunni í gær af því þau stemma ekki. Þá held ég að það sé upptalið. Í kvöld ætlum við svo að borða saman "stórfjölskyldan". Hehe, það er nú enginn brjálaður fjöldi samt. Hrefna og Erlingur verða í mat og svo kemur Sunneva kærastan hans Andra. Á matseðlinum er humar sem Valur ætlar að matreiða af sinni einstöku snilld. Í gærkvöldi var Rósa vinkona hjá okkur í mat og þá töfraði Valur líka fram kræsingar eins og honum er lagið. Í forrétt var hörpudiskur (uppskrift úr bókinni hans Rúnars Marvinssonar sem kom út núna fyrir jólin) og í aðalrétt var indverskur kjúklingaréttur. Eftirrétturinn var nú "bara" kaffi og konfekt. En þetta var voða ljúft allt saman, bæði maturinn og félagsskapurinn :-)

laugardagur, 27. desember 2008

Jæja þá er ég búin að lesa Auðnina eftir Yrsu Sigurðardóttur

Og eins og venjulega þegar ég hef lokið við að lesa bók í einum rykk er ég alveg "stoned" á eftir. Þreytt í höfðinu og augunum og einhverra hluta vegna líka með brjóstsviða. Það tengist þó örugglega ekki bókalestri... Frekar ruglinu með matmálstíma og of miklu sykuráti. Og til að kóróna ástandið sýnist mér allt stefna í rugl á svefninum líka. En ætli vinnan á morgun kippi manni ekki niður á jörðina aftur, myndi a.m.k. gera það ef ég þyrfti að byrja klukkan tíu, en það er víst Sunna sem ætlar að fórna sér í að vakna á morgun og ég þarf ekki að mæta fyrr en um eða eftir hádegið. Jæja, ætli sé ekki best að gera heiðarlega tilraun til þess að fara að sofa.

föstudagur, 26. desember 2008

Það sem ég get sofið

Já, þetta er önnur nóttin í röð sem ég sef langt frameftir þó ég hafi farið tiltölulega snemma að sofa. Sofnaði svona ca. hálf eitt og vaknaði ekki fyrr en hálf ellefu. Ég held reyndar að það sé engin tilviljun að ég vakna á þeim tíma því þá er akkúrat farið að birta úti. Ætli það sé ekki einhver innri klukka í mér sem segir að þá sé kominn rétti tíminn til að vakna. En síðan hef ég bara legið í leti. Tók mér góðan tíma í að borða morgunhristinginn og leysti krossgátu á meðan og hef svo hangið í tölvunni í smá stund. Er eiginlega á leiðinni í sturtu en leiðin þvert yfir ganginn er greinilega mjög löng.

Út um gluggann sé ég gullroða ský. Sólin er þarna einhvers staðar fyrir aftan fjallahringinn í suðri og varpar geislum sínum upp í skýin en annars er nokkuð þungt yfir. Skýjað á köflum og grámi. Og þar sem jólasnjórinn fór allur á Þorláksmessu er líka grátt um að litast á jörðu niðri.

Frammi í eldhúsi spjalla Valur og Kiddi yfir kaffibolla. Ég lét mig hverfa þegar Kiddi boðaði komu sína þar sem ég var enn á náttbuxunum og með þetta skemmtilega "nývöknuð og úldin" útlit. Og nú er ég farin í sturtu!

fimmtudagur, 25. desember 2008

Ég sofnaði ekki ofan í diskinn í jólamáltíðinni

en hins vegar var enginn bókalestur fram á nótt. Við "gamla settið" fórum í háttinn fyrir klukkan ellefu og ég svaf til hálf ellefu í morgun, hvorki meira né minna! Annars gekk aðfangadagur og kvöldið afskaplega vel fyrir sig. Valur sá um jólamatinn að venju og eldaði bæði hangikjöt og hamborgarahrygg. Þegar ég kom heim úr vinnunni kláraði ég að pakka inn gjöfum, lagðaði til í stofunni og lagði á borð. Á meðan hlustaði ég á jólaplötu með Sissel Kyrkjebö, í fyrsta sinn fyrir þessi jól. Nokkuð sem mér var bent á en hafði ekki sjálf hugsað út í. Þessi plata er í miklu uppáhaldi hjá mér og ekki finnst mér leiðinlegt að gaula með. Það hefur nú reyndar verið við mismikla hrifningu annarra fjölskyldumeðlima - en þetta er greinilega orðinn órjúfanlegur hluti jólanna hér í húsinu því það voru allir voða glaðir þegar Sissel var komin á fóninn.

Það er árviss viðburður að Valur tekur myndir af krökkunum fyrir framan jólatréð og á því var engin undantekning í gær. Hins vegar getur það verið þrautin þyngri að ná góðri mynd af þeim öllum þremur. Ef Hrefna myndast vel þá er pottþétt að Andri og Ísak eru eitthvað skrítnir á myndinni (Ísak t.d. að fíflast eitthvað) og svo öfugt. En hér kemur skásta myndin frá því í gær:

og svo ein af feðgum tveimur:

Ísak jólabarn :-)

og eins og sjá má þá fengum við Hrefna báðar sömu bókina í jólagjöf.

mánudagur, 22. desember 2008

Freistingar, freistingar....

Já ég sé að jólin gætu hugsanlega orðið skeinuhætt mínum nýja lífsstíl. Smákökurnar þó aðallega. Í gær var ég að setja krem í mömmukossana sem Valur bakaði og mikið sem það var óskaplega freistandi að sleikja kremið sem slæddist á puttana á mér. Þannig að einn og hálfur mömmukoss og smá smjörkrem endaði ofan í mínum maga. Í kvöld var ég svo að setja suðusúkkulaði ofan á kókos-og haframjölssmákökurnar (sem Valur bakaði líka) og án þess að ég vissi af því var ég síendurtekið farin að sleikja puttana. Þannig að ég setti upp plasthanska... og engin kaka fór ofan í minn maga. Það er reyndar allt í lagi að fá sér eina og eina köku, ég dey ekkert af því. Það kemur bara af stað sykurlönguninni og þá er hætt við að ég springi á limminu. En þar sem ég hef staðist þetta síðan í ágúst þá langar mig ekki að gefast upp núna. Finn alveg hvað þetta nýja mataræði gerir mér gott. Sérstaklega auðvitað að borða allt salatið og grænmetið en líka að sleppa sykrinum og hveitinu. Svo fékk ég frábæra uppskrift að morgunsjeik hjá Ingu Kristjánsdóttur næringarþerapista og þegar ég borða hann (sem er nánast alla morgna) þá er ég södd í ca. 3 tíma á eftir og langar ekki vitund í sætindi. Innihaldið er; frosin ber, kasjúhnetur (sem ég bætti reyndar við), hörfræolía, hrísmjólk og hreint mysuprótein. Próteinið er reyndar hrikalega dýrt hér á kreppu-landi en ein stór dolla dugar í marga margra hristinga. Og síðast en ekki síst þá fer þetta afar vel í magann á mér. Plús að eftir að ég fór að borða olíuna á hverjum morgni þá er húðin á mér miklu betri og er hætt að springa á fingrunum. Hm, þetta varð kannski eitthvað skrítinn pistill en skýrist væntanlega af því að ég er nánast með óráði af þreytu og er í þessum skrifuðu orðum á leið í háttinn.

sunnudagur, 21. desember 2008

Loksins sundferð í björtu

Já, ég nennti ekki í sund um leið og ég vaknaði í morgun og fór ekki fyrr en um ellefuleytið. Kosturinn við það var sá að það var a.m.k. næstum því bjart en gallinn var sá að ég hafði fengið mér morgunmat áður en ég fór og var hálf bumbult á meðan ég var að synda. Það helgaðist nú líka af því að þegar ég kom inn í sturtuklefann var þar alveg skelfilega megn lykt. Hún minnti mig helst á lyktina af líkamspúðri með ilmefnum sem gamlar konur notuðu sumar ótæpilega hérna í den. Sums staðar finnst manni bara að mikil lykt eigi ekki við. Eins og t.d. reykingalykt úti í náttúrunni og ilmvatns- eða rakspíralykt ofan í sundlauginni. Já og reykingalykt í búnings- og sturtuklefanum í sundlauginni. Það kemur stundum fyrir að ég veit nákvæmlega hvaða kona hefur verið á ferðinni á undan mér því reykingalyktin sem fylgir henni er svo mikil að maður finnur ólyktina strax við skóhillurnar frammi. Síðasta vetur var líka kona sem vandi komur sínar í laugina á morgnana og kom þá beint úr hesthúsinu með allan ilminn með sér og það var ekki sérlega vinsælt hjá öðrum sundlaugargestum. Ég reyndar viðurkenni að ég er sérlega viðkvæm fyrir megnri lykt, sem og miklum hávaða og skæru ljósi, þannig að ég er víst ekki alveg hlutlaus í þessum efnum. Og nú er ég hætt að blogga og farin að gera eitthvað nytsamlegt.

Valur bjargar jólunum

Já, heppin er ég að vera gift svona duglegum manni. Þar sem undirrituð er meira og minna í vinnunni þessa dagana (og úrvinda af þreytu þegar hún er heima) þá sýnir Valur enn og aftur úr hverju hann er gerður. Nú er hann búinn að baka 3 smákökusortir og kaupa jólatréð, fara með pakka í póst, þvo þvott, elda mat og bara standa sig eins og hetja í þessu öllu saman.

Hrefna og Erlingur eru komin heim í jólafrí og strákarnir eru líka komnir í jólafrí í skólanum. Andri er reyndar aðeins að hjálpa til í Pottum og prikum þessa dagana, það er svo mikið að gera að ekki veitir af smá auka aðstoð.

Fleira hef ég nú eiginlega ekki að segja, gat bara ekki sofnað og settist við tölvuna þegar ég var búin að liggja andvaka í klukkutíma. Ætli ég taki ekki smá bloggrúnt úr því ég er á annað borð komin með puttana á lyklaborðið.

sunnudagur, 14. desember 2008

Kvenkyns Ragnar Reykás

Já eða bara fröken öfugsnúin eitthvað. Í morgun svaf ég út og vaknaði ekki fyrr en að verða hálf tíu. Var bara nokkuð sátt við það enda orðin lúin eftir 10 daga vinnutörn. Fékk mér morgunmat með bóndanum og dúllaði mér svo við að lesa blöðin og var aðeins í tölvunni. Svo settist ég inn í stofu og fór að prjóna og hlusta á tónlist. Hugsaði með mér hvað það væri nú gott að slappa af og gera ekki neitt stundum. En Adam var ekki lengi í paradís. Fyrr en varði voru annars konar hugsanir farnar að ásækja mig. Hvurslags leti var þetta eiginlega? Af hverju var ég ekki á fullu að gera eitthvað nytsamlegt? Af hverju dreif ég mig ekki í að baka, hengja upp þvott, eða bara út að ganga í góða veðrinu....? Já, allt í einu var ég ekki lengur í minni notalegru hvíld sem ég átti skilið - heldur hafði breyst í letingja og hálfgerðan ræfil. Eftir smá stund áttaði ég mig samt á því hvað ég var mikill Ragnar Reykás og reyni nú að finna einhvern milliveg í þessu öllu saman.

P.S. Hvað Ragnar Reykás snertir þá hef ég ekki horft á Spaugstofuna í nokkur ár og veit ekki hvort hans karakter kemur þar ennþá fram... en hann byrjaði yfirleitt á því að hafa ákveðna skoðun á einhverju máli en talaði sig svo í 180 gráður og endaði á alveg öndverðum meiði.

fimmtudagur, 11. desember 2008

Jæja...

Það fer lítið fyrir bloggi þessa dagana. Fer reyndar lítið fyrir öllu öðru en vinnunni en það er víst eðlilegt hjá verslunarfólki í desembermánuði. Verra væri það nú ef það væri ekkert að gera... Það streyma til okkar vörur þessa dagana og við höfum ekki undan að taka uppúr kössum og raða í hillur. Við fengum risastóra sendingu í gær og eigum von á annarri á morgun svo það verður handagangur í öskjunni ef hún skilar sér. Nú svo þarf að sinna viðskiptavinunum og á meðan bíða kassarnir. Ég hef bara verið svo lúin á kvöldin að ég hef ekki nennt að fara aftur niður í búð eftir kvöldmat. En frá og með 17. des. og fram til jóla verður opið öll kvöld til klukkan tíu. Þá er víst ekki spurt að því hvort maður nenni ;-)

sunnudagur, 7. desember 2008

Mikið fjör í vinnunni þessa dagana

Já jólaösin er komin á fullt og maður sest ekki niður allan tímann í vinnunni. Sem er hið besta mál, þetta er ofsalega skemmtilegt og gefandi. Það er nóg að gera við að afgreiða viðskiptavinina, taka upp vörur og panta vörur. Minna fer fyrir dugnaði hér heima fyrir og ekki einu sinni búið að hnoða í eitt smákökudeig. En það gerir svo sem ekkert til enda var ástandið oft verra þegar ég var í háskólanum og að kenna. Þá var ég ýmist að taka próf eða fara yfir próf á þessum árstíma og jólaundirbúningur fór yfirleitt fram síðustu 3-4 dagana fyrir jól. En nú er ég hætt þessu rausi og farin að taka mig til fyrir vinnuna.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Allt sem ég gerði ekki í dag...

Æ já, ég ætlaði að vera svo dugleg í dag en varð ósköp lítið úr verki. Til dæmis ætlaði ég að setja upp jólagardínurnar í eldhúsið og aðventuljósið en hvort tveggja er ennþá niðri í geymslu. Svo hafði ég bak við eyrað að kanna með jólaseríur til að hafa úti - og eins ætlaði ég að reyna að finna uppskriftir að hollum, glútenlausum jólasmákökum... en ekkert varð úr því heldur. En ég kláraði að færa bókhaldið, fór í nudd, heimsótti vinkonu mína og fór með bóndanum að sjá Bond í bíó. Þetta var dagurinn hjá mér í grófum dráttum. Vonandi verður frúin sprækari á morgun og nær að klára meira af "þarf að gera" listanum ;-)

mánudagur, 1. desember 2008

Birta að drekka myntute

Ég útbjó myntute áðan, með ferskri myntu úr Aerogarden innigarðinum okkar. Tók tebollann með mér inn í herbergi þar sem ég er að færa bókhald og lagði könnuna frá mér eftir að hafa tekið nokkra sopa. Var djúpt niðursokkin í að finna út úr einhverri talna-lönguvitleysu og vissi ekki fyrr en ég heyrði slurp slurp hljóð við hliðina á mér. Var þá ekki Birta mætt á svæðið og hafði nú aldeilis komist í feitt. Eins og sjá má lét hún það ekki einu sinni trufla sig þegar ég dró fram myndavélina og smellti af henni mynd ;-)

sunnudagur, 30. nóvember 2008

Myndir já...

Þegar ég kom heim úr hárgeiðslunni og förðuninni birtist Valur í útidyrunum með myndavél og tók myndir af mér. Birtan úti var reyndar mjög flott en það er frekar absúrd að vera svona uppstríluð en samt í flíspeysu og dúnúlpu... En sem sagt, vegna fjölda áskorana koma hér tvær myndir sem sýna hárgreiðsluna frá mismunandi sjónarhornum.
P.S. Í sokkabuxnaleiðangrinum í gær var ég að flýta mér og það var um svo margar gerðir af sokkabuxuum að velja að ég var orðin alveg rugluð. Ákvað þess vegna að taka tvennar og hugsaði með mér að önnur gerðin hlyti að vera í lagi og svo er alltaf gott að eiga auka sokkabuxur. Svo þegar ég var að klæða mig í aðrar þeirra þá skildi ég ekkert í því hvað þær voru stórar eitthvað. Skoðaði pokann utanaf þeim og viti menn... þetta var stærð 48-50! Já, fröken utanviðsig lætur ekki að sér hæða.

laugardagur, 29. nóvember 2008

Það sem maður lætur hafa sig út í...

Já aldrei hefði mig grunað að ég ætti eftir að samþykkja að koma fram sem módel einhvers staðar en nú er það raunin. Hárgreiðslukonan mín sem er líka vinkona mín er að halda sýningu í dag í tilefni þess að stofan hennar er 10 ára og bað hún mig um að vera módel fyrir sig. Mér fannst ég varla getað neitað henni um þennan greiða og samþykkti þetta. Svo er ég eiginlega komin með hálfgerðan hnút í magann yfir þessu en maður verður víst að standa við gerða samninga... þannig að hér sit ég með stríðsmálningu framan í mér og hárið blásið og greitt með heilu tonni af hárlakki þannig að greiðslan leki ekki úr mér áður en sýningin byrjar. Áttaði mig svo á því áðan að ég eyðilagði sokkabuxurnar mínar um daginn og þarf því að fara á stúfana að kaupa nýjar. Get ekki beint sagt að mig langi til þess að sýna mig á almannafæri með þessa svaka málningu framan í mér. En það er best að drífa sig, ég á líka eftir að laga blússuna sem ég verð í og athuga hvort pilsið passar ekki örugglega á mig ennþá...

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Búin að endurheimta heilsuna

Eða svo gott sem... Ég er alla vega laus við þennan rosalega slappleika og beinverki sem hefur verið að hrjá mig undanfarna viku - og er ekkert smá fegin! Og eins og mín er von og vísa þá fór ég náttúrulega á fullt í vinnunni við að þurrka af ryk og laga aðeins til. Svo er spurning að skella sér í bókhaldið í kvöld en bara ef ég verð í stuði. Langar líka að klára sokkinn sem ég á ólokið og svo bíða nokkur kvennablöð þess að vera lesin, þannig að ég hef úr nógu að moða. Ég fór sem sagt á bókasafnið áðan vegna þess að ég fékk tölvupóst um vanskil. Þegar ég lagði af stað niðureftir flaug í gegnum hugann að kannski myndi ég hitta eina vinkonu mína þar, því það hefur gerst oftar en einu sinni. Svo gleymdi ég því og fór að velja mér bækur og blöð. En viti menn, þegar ég var að fara þá kom hún í flasið á mér. Það fannst mér skemmtilegt. Bæði er alltaf gaman að hitta hana og eins var fyndið að þessi hugsun mín skyldi rætast. Spurning að fara að óska sér einhvers stærra úr því þetta virkar svona vel... ;-)

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Eftir langa yfirlegu á hinum ýmsu matarsíðum á netinu

er ég enn jafn hugmyndasnauð um það hvað við eigum að hafa í kvöldmatinn. Ég hef náð að skoða margar margar uppskriftir en langar bara einhvern veginn ekki í neitt af þessu. Segir sennilega meira um mig heldur en uppskriftirnar. Er ennþá stíf og stirð í öllum skrokknum og það er farið að hafa áhrif á andlegu hliðina. Samt fékk ég minn nætursvefn, ólíkt Val sem þurfti að fara út í nótt og gera aðgerð og svaf þar af leiðandi lítið. En þá er einmitt spurning að finna eitthvað þægilegt fyrir hann að elda í kvöldmatinn. Kannski sé bara málið að vera með egg og samlokur eða eitthvað í þá áttina. En þá er líklega best að vara strákana við svo þeir fái sér ekki samlokur í kaffinu...

Annars bar til þeirra tíðinda í gærkvöldi að frúin tók fram próna og prjónaði nokkrar umferðir. Allt í einu kom prjónalöngunin yfir mig og þá var nú aldeilis heppilegt að eiga hálfprjónaða ullarsokka síðan í fyrra ;-)

mánudagur, 24. nóvember 2008

Fröken utanviðsig

Ég held áfram í mínu gigtarkasti sem líkist því helst að ég sé með alveg hrikalega beinverki uppúr og niðrúr. Þannig að í dag ákvað ég að sleppa sundinu og leggja mig frekar aftur þegar Ísak var farinn í skólann. Sem ég og gerði. Steinsofnaði og svaf til klukkan tíu. Verkirnir í skrokknum voru samt enn á síðum stað og ég ákvað að fara í sjóðandi heitt bað. Skolaði baðkarið að innan, skrúfaði frá heita vatninu og setti smá freyðibað saman við. Síðan fór ég fram í eldhús og hélt áfram að lesa blöðin og sitthvað fleira. Það tekur nefnilega svo agalega langan tíma að renna í baðkarið. Bæði er það stórt og svo er bunan alltaf hálf kraftlítil. Jæja, eftir að hafa hlustað á vatnið renna í dágóða stund fór ég loks aftur inná bað og hvað kemur þá í ljós? Jú, mín hafði gleymt að setja tappann í! Svo ég mátti byrja á öllu ferlinu uppá nýtt.

En til að detta ekki í þunglyndi yfir því hvað ég var rugluð að gleyma tappanum þá rifjaði ég upp sögu sem kona í sundi sagði mér um daginn. Einu sinni fyrir löngu var hún að greiða mömmu sinni og spurði þá gömlu hvort hún ætti ekki að setja hársprey yfir greiðsluna svo hún héldist lengur. Sú gamla vildi það nú helst ekki en dóttirin taldi sig vita betur. Seildist í nálægan spreybrúsa og spreyaði vel yfir hárið. Nema hvað, eitthvað fannst þeim vond lyktin af hárspreyinu svo hún leit á brúsann og sá þá að þetta var flugnaeitur!

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Sunnudagssyndrómið lætur á sér kræla

Ég kalla það þessu nafni, ástandið sem kemur yfir mig á sunnudögum þegar ég sef of lengi og verð í kjölfarið undirlögð í skrokknum, löt og illa fyrirkölluð. Valur "sendi mig" í sund í morgun en aldrei þessu vant þá dugði sundferð ekki til að hressa mig. Ekki bætti klukkutíma blaðalestur úr skák... en nú ætla ég að taka mig saman í andlitinu og detta í húsmóðurgírinn. Þarf að hengja uppúr þvottavélinni og svo var nú meiningin að hengja upp jólaljós í stofuna í dag. Ætli sé þá ekki skemmtilegra að þvo gluggana fyrst. Svo ætla ég líka að kíkja í Potta og prik og athuga hvort hann Sveinn sem er að vinna þarf á aðstoð að halda. Sunnudagarnir hafa nefnilega verið rólegir hingað til en nú er fólk í auknum mæli farið að kaupa jólagjafir og nýtir þá sunnudagana líka í innkaupin. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru líka í fremur rólegum gír í dag, svo þetta er bara allt eins og vera ber. Og nú er ég farin að gera eitthvað af viti ;-)

fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Eitthvað andlaus í augnablikinu

Líður eins og ég sé að verða veik en veit af reynslunni að þetta er líklega bara minn venjulegi slappleiki. Hins vegar á ég eitthvað erfitt með að "takla" þetta núna (svo ég sletti nú smá norsku) og datt í huggunarát áðan. Græddi auðvitað ekkert á því nema uppþembu og svekkelsi yfir sjálfri mér. Svo datt mér í hug að mæla mig og sjá hvort ég væri nokkuð með hita en ónei - hitamælirinn sýndi 35,7 og síðast þegar ég vissi telst það ekki vera hiti...

En svo ég tali nú um eitthvað skemmtilegra þá átti ég hina bestu helgi í höfuðstaðnum. Við systurnar náðum að vera töluvert saman og þá var tilganginum náð. Svo gisti ég hjá Rósu vinkonu og náði þar af leiðandi að hitta hana - og á sunnudeginum hitti ég Sólrúnu og Hjördísi. Eins kíkti ég til tengdaforeldranna á mánudaginn og var svo ljónheppin að Matti keyrði mig og mína þungu tösku út á flugvöll. Taskan var svona þung af því við eigum enga millistærð af ferðatösku og maður treður alltaf svo miklu í þessa stóru þó svo maður noti svo ekki nema örlítið brot af innihaldinu. Að vísu fór ég líka norður með 2 kg. af norskum brúnosti sem Anna færði okkur, 2 handavinnubækur sem Anna hefur þýtt og gaf mér, og 2 jólagjafir (sem gætu verið bækur). Það eina sem ég keypti mér í ferðinni var trefill/sjal sem framleitt er hjá Glófa á Akureyri en kostar minna í túristabúðunum í Reykjavík heldur en í verslunum hér í bæ! Í flugvélinni sat ég svo við hliðina á manni sem leit út fyrir að vera fársjúkur. Hann var rauður í framan og það snörlaði endalaust í honum. Myndi giska á að hann hafði verið með flensu og háan hita. Þannig að ég reyndi eins og ég gat að snúa höfðinu í hina áttina til þess að smitast ekki af honum og var komin með þvílíkan hálsríg í ferðalok (mér er nær fyrir að vera svona mikil pempía).

Jólastjörnurnar eru komnar upp á ljósastaura hér á Akureyri og eru ósköp fallegar að sjá í myrkrinu. Sumir eru líka búnir að setja seríur í alla glugga og fólk almennt að komast í jólagírinn. Mér finnst samt heldur snemmt að byrja að spila jólalög í útvarpinu en það er einmitt tilfellið á Létt-Bylgjunni, útvarpsstöðinni sem ég hlusta venjulega á í bílnum. Spurning að fara að kippa með sér geisladisk í bílinn?

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Skvísan bara orðin 44ra ára...

Já, þessi fíni afmælisdagur er að kvöldi kominn en í tilefni dagsins kemur hérna örstutt blogg. Ég er reyndar svo afvelta eftir að hafa borðað yfir mig af ofnbökuðum fiski og súkkulaðiköku í kvöldmatinn (hm, kakan var nú reyndar í kaffinu líka sko...) að heilastarfsemin er ekki uppá marga fiska í augnablikinu. Annars er bara allt í fína frá Kína, ég fékk fullt af afmælisóskum í ýmsu formi, s.s. SMS skilaboð, símhringingar og kveðjur á facebook, fyrir utan kveðjur og knús svona uppá gamaldags máta. Óvæntasta gjöfin kom frá eiginmanninum sem færði mér pínulítinn þrífót sem er svo léttur að ekkert mál er að taka hann með sér hvert sem er. Og ég sem hef verið svo löt að taka myndir uppá síðkastið... verð nú að taka mig saman í andlitinu og prófa þrífótinn hið fyrsta. Jamm og jæja, held að ég segi þetta gott í bili, set inn eina mynd af gömlu (afsakið ungu) konunni frá því í Feneyjum í sumar :-)

mánudagur, 10. nóvember 2008

Nautakjöt og rauðvín í mánudagsmatinn ;-)

Þessi fíni matur var að sjálfsögðu reiddur fram af bóndanum og var um eins konar fyrirfram afmælismat að ræða. Hann er nefnilega á vakt á miðvikudaginn þegar ég á afmæli og ákvað því að gera vel við mig í dag í staðinn. Sniðugt hjá honum!

Svo ber það til tíðinda að ég er að fara í húsmæðraorlof um næstu helgi. Eins hallærislega og það hljómar nú eiginlega að tala um húsmæðraorlof... Það væri nær að Valur færi í svoleiðis orlof því hann eldar jú matinn samviskusamlega alla daga. En sem sagt, Anna systir er að koma til landsins og af því tilefni ákvað ég að skella mér suður og vera samvistum við hana. Er búin að bóka gistingu á Hótel Álfheimum (í boði Rósu vinkonu) og hlakka bara til :-) Var þar að auki svo ljónheppin að ná í nettilboð á fluginu svo það er á tæpar 10 þús. fram og tilbaka. Hvað vill maður hafa það betra?

Svartur skammdegishiminn

Já, allt í einu hellist skammdegið yfir. Í morgun var ég ótrúlega þung á mér og langaði gífurlega að halda áfram að kúra undir minni hlýju sæng. En það var víst ekki í boði svo ég dreif mig á fætur og í sund um áttaleytið. Það var rigningarsuddi og þegar ég var komin út í laug og byrjuð að synda tók ég eftir því að himininn var alveg kolsvartur. Það er engin launung að mér er hálf illa við myrkrið og skammdegið, aðallega vegna þess að ég hef áður átt við skammdegisþunglyndi að stríða. En ég synti minn venjulega skammt og fór svo í heita pottinn og gufu. Í þann mund sem ég gekk inn í gufubaðið heyrði ég konu sem ég þekki segja við karlmann sem var í pottinum: "Mikið sem er notalegt þegar það er svona dimmt úti". Þessi setning ómaði í huga mér í smá stund og ég fór að hugsa um það hvað viðhorf okkar hefur mikið að segja um það hvernig við metum marga hluti. Þetta eru svo sem engin ný sannindi en þörf áminning til mín núna í morgun þegar ég ætlaði svona hálfpartinn að fara að leggjast í volæði yfir vetrarmyrkrinu. Nú þarf ég bara að finna út úr því hvað er jákvætt við myrkrið og veturinn svo ég geti breytt viðhorfi mínu ;-)

laugardagur, 8. nóvember 2008

Dugleg í dag

Það er nú þannig að ég kann alltaf best við sjálfa mig þegar ég hef náð að skila góðu dagsverki, á hvaða sviði sem það kann að vera. Í dag var ég í fríi frá vinnu í Pottum og prikum og notaði tímann til að vinna hér heima í staðinn. Þreif gestasnyrtinguna og baðherbergið hér uppi hátt og lágt, ryksugaði, skúraði gólf og fór í Bónus, svo eitthvað sé nefnt. Valur skammaði mig nú aðeins því hann hefur svo oft séð það gerast að eftir svona dugnaðarköst dett ég niður hálfdauð og geri ekki meira næstu daga - en vonandi sleppur þetta allt fyrir horn hjá mér núna. Viðurkenni reyndar að ég er hálf þreytt í bakinu í augnablikinu... ætli sé ekki best að slaka aðeins á.

Lúxusvandamál

Já á þessum síðustu og verstu tímum þá eiga margir við stærri vandamál að stríða en það sem ég ætla að lýsa hér. En ég læt það nú samt flakka. Málið er að eftir að ég tók alla óhollustu út úr fæðinu þá hef ég lagt af um nokkur kíló. Það sem þá gerist er að ég hætti að passa í allar buxurnar mínar nema einar (sem voru þröngar á mig fyrir). Hinar poka allar á rassinum á mér og það er ekkert rosalega smekklegt að mínu mati. Hins vegar er ég ekki að nenna fara á stúfana og leita að nýjum buxum því það er ótrúlega erfitt að finna buxur sem fara vel - og í öðru lagi þá gæti ég nú átt eftir að þyngjast aftur og þá væri fúlt að vera búin að eyða peningum í buxur sem yrðu þá of litlar... What to do, what to do!

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Stefgjöld

Þannig er mál með vexti að við höfum ekki verið að spila neina tónlist í versluninni okkar á Glerártorgi og höfum heldur ekki neinar græjur til þess. Í annarri nálægri verslun er hins vegar spiluð tónlist allan daginn og yfirleitt það hátt að mjög vel heyrist inn til okkar. Tónlistarsmekkur þeirra er hins vegar nokkuð annar en okkar og stundum er erfitt að leiða hjá sér þennan hávaða, sérstaklega fyrri part dags þegar færra fólk er í húsinu og hljóðið berst þar af leiðandi betur yfir til okkar. Örsjaldan er svo kveikt á hátalarakerfi sem virðist vera í allri verslunarmiðstöðinni og er þá yfirleitt verð að spila einhverja útvarpsstöðina. Í báðum þessum tilvikum erum við að hlusta á tónlist án þess að fá nokkru um það ráðið hvort hún er spiluð eða ekki. Nú bar svo við að í gær kom fulltrúi STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) í búðina til okkar með þau tíðindi að okkur bæri að greiða stefgjöld fyrir þá tónlist sem ómaði inn í verslunina. Gjaldið fer eftir fjölda fermetra og þannig er okkar ársgjald rúmar 24.000 krónur. Þetta finnst okkur alveg ótrúlegt svo ekki sé meira sagt. Að þurfa að greiða peninga fyrir að hlusta á tónlist sem er neytt uppá okkur! Það er spurning hvort við verðum ekki bara að setja upp græjur í búðinni og fara að spila tónlist við okkar hæfi - svona til að fá eitthvað fyrir peninginn...

mánudagur, 3. nóvember 2008

Úff, púff...

Já, hafi ég ekki vitað það fyrirfram þá veit ég það núna að djúpsteiktir kjúklingabitar fara ekki vel í magann á mér. Jafnvel þó ég hafi sleppt frönskum og búið til gríðarlega hollt salat með, þá er ég að drepast í maganum. Uppþembd, ropandi og skemmtileg. Og ennþá skemmtilegri að vera að lýsa þessu á blogginu... En góðu fréttirnar eru þær að ég er hressari í dag en í gær, þó vissulega sé vefjagigtin að örlítið að láta vita af sér.

Það var bara gaman í vinnunni um helgina og í dag því fólk er greinilega komið á fullt í jólagjafahugleiðingum. Margir að skoða, spá og spekúlera og þónokkrir byrjaðir að kaupa jólagjafir. Ég öfunda alltaf fólk sem er svona snemma í því - þrátt fyrir fögur fyrirheit tekst mér aldrei að kaupa gjafirnar tímanlega og lendi alltaf í einhverju stressi á síðustu dögunum fyrir jól. Sem er ekki gott mál þegar maður er verslunareigandi og frekar upptekinn á þessum árstíma ;-)

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Vona að ég sé ekki að verða veik

Hef verið svo slöpp og skrýtin eitthvað frá því um miðjan daginn, með verki í skrokknum og sljó í höfðinu. Vona að þetta sé "bara" vefjagigtarkast, nenni ekki að vera veik (nenni náttúrulega ekki heldur að fá gigtarkast en það er nú önnur saga...).

Loksins er búið að gera við heita pottinn "minn"

Já undanfarnar vikur hafa sundferðirnar ekki verið nema hálft gaman því stór hluti af prógramminu hjá mér felst í því að fara í heitasta pottinn í lauginni og láta mér hlýna alveg inn að beini. Til að kóróna ástandið fannst mér gufan heldur aldrei nógu heit svo þetta var hálf klént allt saman. Þetta með gufuna reddaðist reyndar um daginn þegar ég fór eitthvað að kvarta yfir þessu við mann sem var staddur þar inni um leið og ég. Hann benti mér á að prófa að setjast í hornið sem hann var í og viti menn, þar var mun heitara en í horninu sem ég hafði alltaf verið vön að sitja. Kom þá í ljós að í "mínu" horni var voru úðararnir óvirkir en á hinum staðnum var funheitt. Ekki hafði ég nú verið búin að kveikja á perunni varðandi þetta en varð voða glöð. Og svo enn glaðari þegar ég kom í sund núna í vikunni og sá að loks var búið að klára viðgerðina á heita pottinum.

Nú er Hrefna farin í bili en kemur aftur um jólin svo það er ekki langt í næstu heimsókn. Það var voða notalegt að hafa hana heima og gaman að vera aðeins fleiri í húsinu um stundarsakir.

Annars settist ég eiginlega við tölvuna til að leita að uppskrift að glútenlausum múffum en ég er bara ekki að finna réttu uppskriftina. Langar svo að fá bökunarlykt í húsið ;-)

fimmtudagur, 30. október 2008

Brr... segir Guðný kuldaskræfa

Það verður að segjast eins og er að það er ekki alveg nógu hlýtt í nýju búðinni okkar. Nokkuð sem skiptir ekki máli fyrir viðskiptavinina sem eru yfirleitt í yfirhöfn þegar kalt er úti - en skiptir máli fyrir starfsfólkið... Það er nefnilega engin upphitun í sjálfri búðinni, okkur var sagt að nægur hiti kæmi frá ljósunum og svo utan af ganginum en það er bara ekki rétt. Þetta var í góðu lagi í sumar og haust en um leið og koma einhverjar mínusgráður þá verður of kalt hérna inni. Þetta er bara spurning um 2 gráður til eða frá - en það munar ótrúlega mikið um þær. Þannig að þá er lausinin að klæða sig vel, vera í ullarflíkum, fá sér heitt að drekka, hreyfa sig og kveikja á hitablástursofni annað slagið.

Í dag ákvað ég að taka með mér orkuhristing í nesti því ég hafði ekki nægan tíma í morgun til að gera salat. Þessi orkushristingur samanstendur af frosnum bláberjum og hindberjum, hrísmjólk, hörfræolíu og mysupróteini. Frosnu berin og mjólkin sjá til þess að hann verður kaldur. Til þess að kóróna þetta geymdi ég hristinginn í stálhitabrúsa (sem heldur köldu)og þegar ég fékk mér svo að borða í hádeginu var hann ennþá ískaldur og mér varð svona líka kalt í kjölfarið. Þrátt fyrir að núna sé tveimur gráðum hlýrra í búðinni en fyrst í morgun er mér alveg ískalt. Þannig að það er best að fara að hreyfa sig, pússa glugga, raða í hillur eða eitthvað.

sunnudagur, 26. október 2008

Vetrarfrí í Lundarskóla á morgun

Sem þýðir að ég þarf ekki að vakna klukkan hálfátta eins og venjulega til að koma Ísaki á fætur. Þá er það stóra spurningin: Skyldi ég engu að síður nenna að vakna snemma og fara í sund? Morgunstund gefur gull í mund eins og allir vita - en á hinn bóginn finnst mér ógurlega gott að sofa, sérstaklega þegar daginn er farið að stytta. Og nú kemur Hrefna, alveg undrandi á því að ég sé að blogga aftur í dag. En þó ekki, hún veit að þetta er mitt týpiska munstur, að blogga ekkert í lengri tíma en síðan jafnvel tvisvar sama daginn. Og nú er ég farin að hengja upp þvott.

Ungt og leikur sér


Ungt og leikur sér, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já Hrefna litla klæddi sig líka í snjófatnað og fór út að leika við bróður sinn. Meðal annars skiptust þau á að hylja hvort annað snjó og eins og sjá má þá er það Ísak sem var "grafinn" niður í þetta skiptið. Svo komu komu þau inn og allt fór á flot í forstofunni, skrýtið!

Meira endalausa magnið af dóti

sem maður sankar að sér í gegnum árin. Það er alveg sama hvað ég reyni að grynnka á þessu, mér finnst þetta aldrei minnka. Í dag ákvað ég að ráðast til atlögu við kassa sem geymir fullt af gömlum myndum í römmum - en vandamálið er bara að ég veit veit ekki hvað ég á að gera við þetta. Rammarnir velflestir komnir á tíma en myndirnar hafa veitt manni ómælda ánægju og ekki stendur til að henda þeim. Það endaði með því að ég tók þær úr römmunum og ætla að henda glerinu en bíða með að taka frekari ákvörðun um myndirnar.

Annars er hér allt á kafi í snjó í dag. Ísak er farinn út í garð með skóflu og ætlar að gera snjóhús, gaman að því.

föstudagur, 24. október 2008

Enn á lífi...

en hef bara ekki verið í neinu bloggstuði undanfarið. Hrefna segir að ég þurfi náttúrulega ekkert að blogga þar sem hún er hér heima... En hér kemur sem sagt bloggtilraun frá frú andlausri. Sem hefur reyndar ekki verið neitt andlaus undanfarið, tja nema í dag og í gær. Í fyrradag var ég rosa dugleg og kláraði allt nema eitt atriði á "þarf að gera" listanum mínum. Enda var ég á þeytingi allan daginn og hef sennilega farið aðeins fram úr sjálfri mér. Þegar við bættist að ég hef sofið frekar illa undarfarnar nætur þá var ég afar drusluleg og þreytt í gær. Fór nú samt í vinnuna og afrekaði meira að segja að heimsækja vinkonu mína seinnipartinn en það er nokkuð sem ég hef ætlað að gera í margar vikur. Ótrúlegt hvað maður er stundum latur að koma sér milli húsa í ekki stærri bæ en Akureyri. Vildi óska að allar vinkonur mínar byggju í 2ja kílómetra radíus frá mér ;-) Í morgun leyfði ég mér þann munað að fara aftur að sofa eftir að Ísak var lagður af stað í skólann og náði að steinsofna svona líka fast. Dreymdi tómt rugl og var eins og vörubíll hefði ekið yfir mig þegar ég vaknaði aftur. Líður reyndar ennþá þannig en verð nú að reyna að taka mig eitthvað saman í andlitinu því ég er að fara í vinnuna eftir 45 mín. Úti er ofboðslega fallegt veður, hvítur snjór yfir öllu og einstaka snjókorn liðast varlega til jarðar. Sólin skín í gegnum skýjahulu og sér til þess að skuggar trjánna teygja sig eftir snjófölinni. Læt ég þessari væmnu veðurfarslýsingu hér með lokið og fer að tygja mig í vinnuna.

sunnudagur, 19. október 2008

Ísak að borða ís :-)

Ég er að fara í gegnum myndasafnið mitt í tölvunni og henda myndum út sem eru misheppnaðar. Rakst á þessa skemmtilegu mynd af Ísaki sem tekin var í Köben í sumar.

Einhver bloggleti að hrjá mig eins og svo oft áður

En að öðru leyti er ég bara hress ;-) Ég er búin að fara í sund í morgun, í ofninum er brauð að bakast, kettirnir liggja hér við hliðina á mér, Andri og kærastan í næsta herbergi, Ísak er hjá Patreki vini sínum og Hrefna og Valur fóru í ræktina. Hvað vill maður hafa það betra? Ég er að herða mig upp í að fara að hreinsa innigarðinn okkar og setja ný fræ í hann. Reyndar ekki mikið vandaverk, stundum bara erfitt að koma sér að verki. Það þarf að henda plöntunum sem í honum eru, þvo hann með klórvatni og setja ný fræhylki, það er nú allt og sumt. Þannig að ætli sé ekki best að hætta þessu blaðri og bretta uppá ermarnar...

fimmtudagur, 16. október 2008

Allt í drasli

Um daginn þegar ég gat varla gengið um geymsluna niðri fyrir dóti, fékk ég þá snilldarhugmynd að fara í gegnum gömul barnaleikföng og henda því sem er ónýtt en setja restina í gegnsæja kassa þannig að hægt væri að sjá hvert innihaldið væri. Svo ég fór í Rúmfó og keypti 6 plastkassa sem eru búnir að standa í forstofunni í nokkra daga núna. Í morgun lét ég svo loks verða af því að byrja á verkinu. Bar marga litla leikfangakassa og einn stóran upp í stofu og byrjaði að sortera. Andinn var samt einhvern veginn ekki yfir mér og mér sóttist verkið seint. Nú þarf ég að fara að taka mig til fyrir vinnuna en stofan er enn full af leikföngum. Ég er líka að vinna í kvöld því það er opið á Glerártorgi til kl. 21 og á morgun og svo er konuklúbbur eftir vinnu, þannig að það er spurning hvort þessi leikfanga- og kassahrúga verði í stofunni til laugardags. Þetta sem sést á myndinni er bara lítill hluti af öllu draslinu...

sunnudagur, 12. október 2008

Þá er ég búin að fá úr því skorið

að mér finnast bókhveitipönnukökur ekki góðar. Mig langaði að prófa að baka svoleiðis því þær eru glútenlausar og ég er jú í 2ja vikna glútenlausu prógrammi. En sem sagt, þetta urðu hálfgerð vonbrigði. Aðallega þá eru þær ótrúlega þurrar á bragðið. Það kom mér reyndar á óvart um daginn hvað glútenlausa brauðið var bragðgott. Reyndar þarf að geyma það í frysti og taka bara út það magn sem maður ætlar að borða því það þornar annars fljótt. Valur var reyndar búinn að vera úti að klippa tré og runna í ca. 3 klt. og hafði því góða lyst á pönnukökunum með sultu og rjóma. Þannig að það var nú ágætt. Líka góð tilbreyting að ég geri eitthvað matarkyns fyrir hann svona einu sinni ;-)

laugardagur, 11. október 2008

Sushi og dömulegir dekurdagar

Það er bara nóg að gera þessa helgina, eins gott að maður er í fríi ;-) Í gærkvöldi hittist starfsfólk og makar hjá Læknastofum Akureyrar og gerði saman sushi. Ég verð þó að viðurkenna að ég horfði bara á hina gera alla handavinnuna ... en gæddi mér hins vegar vel á afurðunum. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrirfram hvernig sushi er búið til og það var gaman að kynnast því. Svo var þetta bara alveg sérlega vel heppnað kvöld og góður félagsskapur.

Í morgun fórum við Sunna svo í dömulegan brunch á Bautanum ásamt fleiri Akureyrardömum. Þetta var einn dagskrárliður dömulegra dekurdaga sem haldnir eru hér í bænum um helgina. Dagskráin er mjög fjölbreytt og má t.d. nefna að á morgun verður bingó á Friðriki V. sem Júlli Júl frá Dalvík stjórnar. Ég var nú samt svo mikill klaufi að mér tókst að gleyma einu dagskráratriði sem ég hafði áhuga að fara á. Það var fyrirlestur hjá Davíð Kristinssyni þar sem hann fjallaði um það hvernig hægt er að minnka allt þetta kolvetnaát.

Já, svo erum við í Pottum og prikum með 20% afslátt af fallegum servíettum sem upplagðar eru í dömuboð vetrarins.


miðvikudagur, 8. október 2008

Allt er gott sem endar vel

Kiddi náði sem sagt að gera við prentarann. Það þurfti að henda út gömlu stillingunum fyrir hann og sækja nýjan driver (að því er mér skilst). Þarna sparaði hann okkur þónokkra þúsundkallana, ekki í fyrsta skipti.

Ef einhver ykkar les matarbloggið hans Ragnars Freys þá langaði mig bara að geta þess að bókin sem hann mælir með í síðasta bloggi "Eldað í hægum takti" fæst í Pottum og prikum ;-)

Einhver slappleiki að hrjá frúna í dag

Er það ekki dæmigert, ég er í fríi í dag en næ ekki að njóta þess því ég er drulluslöpp einhverra hluta vegna. Veit ekki alveg hvað er að hrjá mig. Ekki er það sykurátið því ég er búin að standa mig eins og hetja í nýja mataræðinu. Ég fór hins vegar ekki í sund í morgun eins og ég er vön, heldur á foreldrafund í Lundarskóla, og ég veit fátt verra en byrja daginn á því að sitja eins og klessa í klukkustund þegar ég er nývöknuð. Ég var strax orðin ógurlega þreytt eftir ca. hálftíma. Eftir fundinn gerði ég tilraun til að fara í KA heimilið og sækja jakka sem fylgdi fótbolta-æfingagjöldunum í sumar og Ísak átti alltaf eftir að fá. Ég hitti á framkvæmdastjóra félagsins og bar upp erindið og við fórum niður í kjallara þar sem hann leitaði í dyrum og dyngjum að KA-jökkum en fann enga. Þannig að þetta varð fýluferð hjá mér. Heimkomin ætlaði ég að reyna að detta í eitthvað dugnaðarstuð en var bara ógurlega þreytt og óupplögð eitthvað og endaði uppi í rúmi fyrir rest. Lá nú ekki lengi því ég þurfti að skreppa í vinnuna og sækja prentarann okkar sem gaf upp öndina í morgun. Fór með hann í Tölvulistann þar sem hann var keyptur og hélt að þeir gætu nú kannski bara prófað að setja hann í samband og séð hvort hann væri að virka hjá þeim. En þá hitti ég á einhvern sem ekkert kunni og engu réði og þurfti að bíða eftir að tæknimaðurinn þeirra kæmi úr mat. Þegar þarna var komið sögu var klukkan rúmlega tólf og ég ákvað að rölta um í miðbænum á meðan ég biði. Um hálftvöleytið fór ég aftur í Tölvulistann en þá var tæknimaðurinn enn í mat. Kannski ekki nema von að það sé 4ra daga bið eftir viðgerð ef matar- og kaffitímarnir eru þetta langir... Snilldin er sem sagt sú að það er hægt að fá flýtimeðferð en hún kostar tæpar 5 þús. kr. Svo kostar það kannski annan fimmþúsundkall að láta kíkja á gripinn og þá er kominn 10 þús kall, bara í að sjá hvort hann sé ónýtur eða ekki. Þetta endaði svo með því að Sunna sótti prentarann og ætlaði Kiddi maðurinn hennar að athuga hvort hann gæti tjónkað eitthvað við hann. En nú er ég hætt þessu væli.

þriðjudagur, 7. október 2008

TIl gamans - eða leiðinda

datt mér í hug að birta hér smá brot úr frásögn sem ég skrifaði árið 1992 þegar við bjuggum við í Tromsö. Þá var Hrefna á 9 aldursári og Andri var 2ja ára. Þetta er verulega fært í stílinn hjá mér, best að segja það strax, svo lesendur skulu ekki taka þessar lýsingar af fjölskyldulífinu of alvarlega. En af því okkar börn eru orðin svo stór að við teljumst varla vera barnafjölskylda lengur er gaman að rifja upp hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þegar maður er með lítil börn. Og hefst svo lesningin:

----------------------------------------------------------------------------------------

"Að vinnudegi loknum ferðast eiginmaðurinn heim með almenningsvagni. Reyndar kemst hann varla inn úr dyrunum vegna skófatnaðar, úlpna, vettlinga og ullarsokka sem liggja á víð og dreif út um alla forstofuna. Hann ryður sér leið í gegnum þvöguna og rennur á lyktina og óhljóðin sem berast úr eldhúsinu. Þar stendur þreytuleg eiginkona hans við pottana meðan börnin tvö orga hvort í kapp við annað. Þau hafa nefnilega verið í skóla og hjá dagmömmu allan daginn og þurfa nú á athygli MÖMMU að halda.

Hann andvarpar en brettir síðan upp á ermarnar og hefst handa við uppþvottinn síðan í gær, svo hægt sé að borða af hreinum diskum í þetta skiptið. Kvöldverður er síðan framreiddur og fer fram svona nokkurn veginn stórslysalaust. Að vísu bítur stóra systir litla bróður í kinnina og hann klórar hana, full kanna með ávaxtasafa veltur um koll og eitt glas brotnar en þetta er nú ekki í frásögur færandi.

Eftir matinn eru allir svo örmagna að pabbi og mamma fá óáreitt að horfa á sjónvarpsfréttirnar, með afkvæmin hálf meðvitundarlaus í sófanum við hlið sér. Þetta er þó einungis stundarfriður því nú ákveður stóra systa að rétti tíminn sé runninn upp til að leika við litla bróa. Fara þau í feluleik og á sá stutti að leita, en þar sem talsverður munur er á aldri þeirra systkina finnur hann aldrei systur sína nema þegar henni þóknast og endar leikurinn með því að hann fer að hágráta yfir vanmætti sínum.

Eltingaleikur er næstur á dagskrá og þar stendur sá stutti betur að vígi. Berst leikurinn um allt hús og áður en yfir lýkur hafa öll þau húsgögn sem ekki eru skrúfuð föst við gólfið oltið um koll, allar gólfmottur eru komnar í einn haug og sængurfötin úr hjónarúminu hafa fundið leiðina niður á gólf. Að lokum dettur svo litli kútur í öllu draslinu og rekur upp þvílíkt öskur að ekki hafa önnur eins óhljóð heyrst í blokkinni fyrr en ÍSLENDINGARNIR fluttu inn. Næsti hálftíminn fer svo í að róa drenginn niður og koma honum í háttinn og eftir að hafa fengið lesið fyrir sig fer stelpan sömu leið.

Mesta draslið er týnt saman, tennur eru burstaðar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um lestur námsbóka og innfærslu í heimilisbókhaldið, lokkar rúmið þau til sín og sætur svefninn tekur yfirhöndina. Á morgun er nýr dagur!"

----------------------------------------------------------------------------------------

Jamm og jæja, þannig var nú það. Ég ætlaði sem sagt að fara að vinna í pappírum en fór einhverra hluta vegna að laga til í tölvunni í staðinn (dæmigert fyrir mig). Rakst á þessa örsögu og datt í hug að "leka henni á netið". Spurning hversu þakklátir mér aðrir fjölskyldumeðlimir verða... Þannig að ég ítreka enn og aftur að þetta er afskaplega ýkt frásögn af "eðlilegu" kvöldi í lífi okkar á þessum tíma.

sunnudagur, 5. október 2008

MývatnMývatn, originally uploaded by Guðný Pálína.
Við Valur skruppum í hans ástkæru Mývatnssveit í dag og tókum nokkrar myndir. Það er að segja, hann tók fullt af myndum og prófaði sig áfram með mismunandi ljósop og hraða en ég tók fáar myndir og flestar bara á sjálfvirkum stillingum. Var einhvern veginn ekki í stuði fyrir ljósmyndatilraunir í dag. En þetta var samt góð ferð þó ótrúlega napurt væri úti. Við kíktum m.a. til vinafólks sem er að byggja sumarbústað við vatnið og skoðuðum Fuglasafn Sigurgeirs í Ytri-Neslöndum. Það var ótrúlega gaman að sjá alla fuglana þar og ekki spillti útsýnið út á vatnið fyrir. Tíminn leið hratt og við vorum ekki komin heim fyrr en um fimmleytið. Þá tók við eldamennska hjá bóndanum en ég hélt áfram að lesa bók um hráfæði sem ég keypti í gær. Er nú ekki á leiðinni í þetta mataræði held ég, bara gaman að kynna sér þessa hugmyndafræði. Finn hvað það gerir mér gott að borða meira af ávöxtum og grænmeti. Svo ætla ég að prófa að vera á glútenlausu fæði í 2 vikur og sjá hvað það gerir. Bakaði meira að segja glútenfrítt brauð í gær sem bragðaðist svona líka vel.

Hverfjall í Mývatnssveit

miðvikudagur, 1. október 2008

Kominn tími fyrir vetrar"gírinn"

Einn vinur okkar hefur þann sið að tala alltaf um gír þegar hann er að tala um útbúnað. Einhverra hluta vegna festist þessi enskusletta í höfðinu á mér og birtist nú hér. En sem sagt, með vetrarútbúnaði á ég ekki við vetrardekk á bílinn, heldur vetrarútbúnaðinn í svefnherberginu. Það er farið að vera svo kalt í svefnherberginu á kvöldin að ég er einn frostklumpur þegar ég er lögst upp í rúm. Þannig að nú er kominn tími til að taka fram vetrarsængina (sem er 2.20 á lengd), náttbuxurnar, ullarsokkana og hitapokann. Svo styttist í að nauðsynlegt verði að sækja dagsbirtulampann út í geymslu þannig að skammdegismyrkrið fari ekki eins illa í mig. Þetta er sem sagt vetrargírinn minn. Í framhjáhlaupi má þess geta að bíllinn er reyndar komin á vetrardekkin, ekki veitir af miðað við tíðafarið núna. Verst að vetrardekk hjálpa ekkert uppá tíðafarið í fjármálaheiminum...

sunnudagur, 28. september 2008

Heima er best

Eða a.m.k. þá er rúmið okkar hér heima allra best..

Við flugum suður eftir þónokkra seinkunn á föstudagsmorguninn og lentum í höfuðborginni í þvílíkri ausandi rigningu að flugbrautin var gjörsamlega á floti. Valur fór beint á aðalfund læknafélagsins en ég byrjaði á því að hitta Rósu vinkonu og borðuðum við saman góða fiskisúpu í hádeginu og spjölluðum um heima og geima.

Eftir matinn kíkti ég í Smáralindina og fór góðan hring þar í fatabúðunum, aðallega þó Debenhams og Zöru. Var svo ljónheppin að það var 50% afsláttur á eldri fötum í Esprit (sem er eiginlega mitt uppáhaldsfatamerki þessa dagana) og það fannst mér nú ekki verra. Náði í þessa fínu buxnadragt á hálfvirði.

Þegar Valur var búinn á fundinum kom hann til fundar við mig og við fórum að kíkja á gleraugu handa honum. Það fylgja því töluverðar pælingar að fá sér ný gleraugu og eftir að hafa spáð og spekúlerað og farið og fengið okkur kaffi/tebolla í millitíðinni, valdi hann sér loks þessi fínu gleraugu.

Næst lá leiðin heim á "hótel" en það var gisting sem ég fann á netinu, smá stúdíóíbúð í Bolholti. Við vorum hálf dösuð eftir daginn en ákváðum að fara út að borða og duttum inn á þennan fína stað, Orange, þrátt fyrir að þekkja sama og ekkert til veitingahúsaflórunnar í höfuðstaðnum. Eftir matinn skruppum við svo í heimsókn til tengdó og áttum notalega stund með þeim.

Það var þó ekkert notalegt við það að þegar við fórum í háttinn sáum við að rúmið var varla meira en 1.20 á breidd og þó hvorugt okkar sé sérlega stórvaxið þá var plássið ekki nægilegt til þess að við næðum nokkurri hvíld að ráði. Ég ætlaði aldrei að geta sofnað og svo vöknuðum við bæði örugglega hundrað sinnum, ýmist til að hagræða okkur í rúminu eða af því maður var við það að detta framúr.

Laugardagsmorguninn rann upp og við ætluðum að fara fram í "continental breakfast" sem auglýstur er á heimasíðunni - en hlaðborðið samanstóð þá af nokkrum samlokubrauðsneiðum, osti, skinku og einni fernu af eplasafa. Engin aðstaða var til að borða (nema þá inni á herberginu), ekkert te, ekkert kaffi og enginn starfsmaður var heldur sjáanlegur til að spyrja nánar út í morgunmatinn. Þannig að við drifum okkur í næsta bakarí og fengum okkur í svanginn.

Svo fór Valur aftur á aðalfundinn og ég hélt áfram að dingla mér. Ætlaði að bruna í Njarðvík að heimsækja mömmu og Ásgrím og lagði af stað þangað, en þegar ég ók framhjá Hafnarfirði fékk ég þá skyndihugdettu að líta inn til Sólrúnar vinkonu minnar. Kunni þó ekki við annað en hringja á undan mér og gerði það af bílaplaninu. Það var svolítið fyndið að þegar ég spurði hvað hún segði gott þá sagði hún "allt gott, það er loksins uppstytta hér á höfuðborgarsvæðinu" og þá sagði ég "ég sé það, ég er hér fyrir utan hjá þér". Hehe, hún varð nú svolítið hissa en líka voða glöð og það var virkilega gaman að heilsa aðeins uppá þau hjónakornin.

Eftir klukkutíma hélt ég svo áfram til mömmu og fékk þar fyrst hina bestu kjötsúpu að borða og svo seinna te og hjónabandssælu. Kíkti aðeins á tölvuna með mömmu því hún á stundum í smá basli við tæknina - en mér finnst nú bara svo flott hjá henni að hafa tekið tölvutæknina í sína þjónustu þrátt fyrir að vera fædd í torfbæ, mikið sem mamma og hennar jafnaldrar hafa upplifað miklar breytingar.

Í gærkvöldi fórum við Valur svo aftur út að borða (bara lúxus á okkur) og fengum okkur indverskan mat á "Indian Mango". Eftir matinn langaði okkur í bíó og eftir smá byrjunarörðugleika enduðum við á því að sjá nýjustu mynd þeirra Cohen bræðra í Smárabíói og höfðum gaman af.

Síðan tók við nótt nr. 2 í horror-rúminu og vorum við bæði fegin að tékka okkur þaðan út í morgun. Höfðum verið boðin í morgunmat til vinafólks okkar, þeirra Ingu og Dóra, og þar beið dekkað borð eftir okkur. Ekki var félagsskapurinn síðri og áttum við góða stund saman áður en við drifum okkur út á flugvöll um hádegið.

Þannig var nú þessi suðurferð, nóg að gera allan tímann (líklega sýnu skemmtilegra hjá mér en hjá Val sem sat á fundi tvo heila daga í röð).

En mikið verður gott að fara að sofa í eigin rúmi í kvöld!

fimmtudagur, 25. september 2008

Kettirnir eru lagstir í hýði

eða það lítur a.m.k. helst út fyrir það. Þau sofa meira og minna allan daginn og Birta er nánast hætt að fara út þrátt fyrir þetta fína veður sem við höfum haft undanfarið. Það er ekki alveg kominn hýðistími hjá mér en yfirleitt fer einhver vetrardrungi að gera vart við sig í október. Þegar daginn fer að stytta og ekki lengur er bjart á morgnana þá finn ég mikinn mun á því hvað ég á erfiðara með að vakna.

Annars var ég að spjalla við eldri konu í sundi í morgun og við vorum að tala um hvað það væri gott að sofa við opinn glugga. Þá sagði hún að maðurinn sinn, sem var lögreglumaður, hefði nú ekki alltaf verið jafn hrifinn þegar hann kom heim af næturvöktum í ískalt rúmið. En það vandamál leysti hún með því að sofa þá bara í hans holu (eins og hún orðaði það) og þá kom hann heim í heita sæng á morgnana og hún gat ennþá sofið við opinn glugga. Flott hjá henni.

Og nú held ég að ég fari að huga að því hvað ég ætla að hafa með mér til Reykjavíkur á morgun.

miðvikudagur, 24. september 2008

Heimalöguð spergilkálsúpa og nýbakað speltbrauð

féll ekkert sérlega vel í kramið hjá yngri kynslóðinni hér á bæ. Það skal reyndar viðurkennast að súpan hefði mátt vera aðeins bragðmeiri og brauðið hefði hugsanlega mátt vera aðeins saltara en annars var þetta bara nokkuð gott. Strákarnir hugsa sjálfsagt gott til glóðarinnar um helgina því þá ætlum við Valur að skreppa suður og matseðillinn hjá þeim á meðan mun líklega samanstanda af pítsu og pítsu og pítsu... Tja, eða pítsu og pítsu, þetta verða bara tveir kvöldmatartímar sem þeir þurfa að sjá um matinn.

Annars hef ég ekki bakað brauð svo lengi að ég man bara hreinlega ekki hvað er langt síðan síðast. Það er af sem áður var, þ.e. þegar við bjuggum í Noregi þá fannst okkur brauðið þar svo hræðilega vont að ég byrjaði að baka brauð og bollur við mikla ánægju heimilisfólksins. En hér á Akureyri höfum við jú okkar fína bakarí við brúna og þar eru brauðin svo góð að mér dettur aldrei í hug að baka sjálf.

Og nú hef ég bara ekki fleira að segja!

mánudagur, 22. september 2008

Sé allt í móðu

Ég var að gera mig klára til að setjast við tölvuna og vinna smávegis í bókhaldinu þegar ég tók eftir því að hendurnar á mér voru álíka þurrar og Sahara eyðimörkin á þurrktímabili. Þannig að ég skellti á mig vestfirskum villimeyjar húðgaldri og ætlaði svo að bretta uppá ermarnar og byrja að pikka. Þá tók ég eftir því að mig vantaði gleraugun. Sé ágætlega án þeirra en þreytist í augunum svo ég ákvað að sækja þau og skella þeim á nefið. Tókst þá ekki betur til en svo að ég rak einn fingur í annað glerið (eða plastið, það er víst ekkert gler í þessum gler-augum) og kámaði það þvílíkt út. Tók tusku og reyndi að þurrka fituna burtu með þeim eina árangri að hún dreifðist út um allt. Ekki vildi ég fara með gleraugun undir rennandi vatn því þá myndi handáburðurinn fara af mér í leiðinni - svo hér sit ég með fremur þokukennda sjón á vinstra auganu ;-)

laugardagur, 20. september 2008

"Ég held að ég hafi bara aldrei borðað svona góðan humar"

Þessi setning hraut af vörum mannsins míns í kvöldmatnum. Þannig var að Valur gerði smá viðvik fyrir vinkonu mína og færði hún okkur humar í þakklætisskyni. Þetta var risastór humar og Valur grillaði hann í kvöld og heppnaðist matreiðslan svona líka ljómandi vel. Ég borðaði heilhveitipasta og salat með humarnum og strákarnir borðuðu hefðbundið hvítt pasta (Rustichella) og snittubrauð. Ég er sem sagt enn í hollustunni og hef enn sem komið er bara átt verulega erfitt með mig einn einasta dag. Það var á fimmtudaginn en þá var ég í fríi frá vinnunni og hreinlega hálf leiddist eitthvað. Svo fékk ég þessa fínu uppskrift að hollustuköku í dag í vinnunni hjá henni Fanneyju Dóru sem er annar tveggja nýrra starfskrafta hjá okkur. Ég hlakka virkilega til að prófa uppskriftina. Svo er meiningin að vera dugleg að finna hollustu-uppskriftir og prófa eitthvað nýtt. Ég verð nú bara að segja að ég finn strax smá mun á mér. Finnst ég ekki vera jafn sljó eitthvað og þokukennd í hugsun (tja svona í heildina séð, á nú alveg mín "utanviðmig" moment ennþá). Verkirnir í skrokknum eru kannski svona hakinu minni - og mega gjarnan minnka ennþá meira - en ég var líka að spá í það að ef maður hefur í langan tíma verið að borða eitthvað sem er ekki gott fyrir mann þá hlýtur líka að taka langan tíma fyrir líkamann að ná að "hreinsa sig" af þessu öllu saman. Ég er alla vega ákveðin í því að halda þessu til streitu og sjá hvort ég næ ekki að verða eitthvað betri til heilsunnar með hollara mataræði. Reyndar er ekki eins og ég hafi verið að borða eitthvað brjálað óhollan mat, alls ekki. Ég t.d. drakk sjaldan gos og ekki lá ég í snakkinu, en súkkulaði og sætindi eru minn veikleiki. Valur eldar yfirleitt hollan mat svo málið sýst í raun um að hætta að troða í sig súkkulaði og sætabrauði milli mála og borða meira af ávöxtum og grænmeti. Ætti ekki að vera flókið en ég er sem sagt algjör kolvetnafíkill. Langar alltaf til að troða í mig kexi, súkkulaði og sætindum þegar ég er þreytt, stressuð, leið eða vantar orku. Brandarinn er bara sá að þegar ég borða sætindi þá líður mér voða vel í smá stund en svo ennþá verr á eftir þegar blóðsykurinn fellur hratt aftur. En þegar ég sleppi sætindunum þá er orkan miklu jafnari yfir daginn og mér líður í heildina mun betur. Svo er það bara að halda sömu stefnu áfram - getur reynst erfitt þegar daginn fer að stytta - en ég geri mitt besta til að falla ekki í freistni ;-)

Þetta var enn ein sjálfhverfa bloggfærslan í boði Guðnýjar.

fimmtudagur, 18. september 2008

Íslenskt veðurfar!

Áðan var sól og töluverður vindur úti svo ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og ákvað að þvo af rúminu hans Ísaks af því það var svona góður þurrkur. Það stóð náttúrulega á endum, þegar ég opnaði þvottahúshurðina og fór út með þvottabalann fór að rigna. Sólin skein reyndar ennþá og hjálpaði til við að gera glæsilegan regnboga í norðrinu. Og ég lét þennan rigningarskúr ekki setja mig út af laginu, heldur hengdi upp rúmfötin - hef ekki trú á því að hann standi lengi.

Haustið komið


Haustið komið, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já, það fer víst ekki á milli mála að haustið er komið. Ég tók þessa mynd út um svaladyrnar (eru reyndar ekki lengur svalir þar heldur trappa niður í garðinn), bara svona til að sýna að það snjóaði í fjöll í nótt. Annars hefur septembermánuður fram til þessa verið mjög hlýr, sérstaklega yfir miðjan daginn. Maður kappklæðir sig að morgni því þá er fremur kalt en svo þegar vinnan er búin er maður að kafna úr hita því úti er kannski sól og 18 stiga hiti. Reyndar er hálf skrítið veður úti núna, það er til skiptis sól/sólarlaust og logn/vindur. En akkúrat þegar ég tók myndina var hávaðarok og sólin í felum bak við ský.

miðvikudagur, 17. september 2008

Slök sundferð í morgun

Ég fór í sund þrátt fyrir hvassviðri og komst að því að nýja sundlaugin var lokuð. Mikið af laufblöðum og rusli hafði fokið ofan í hana í nótt og stíflað rennur og niðurföll svo hitastýringin í lauginni klikkaði og hún var ísköld. Það var hægt að synda í gömlu lauginni og ég fór nokkrar ferðir en hún var líka ansi skítug. Svo fór ég í pottinn samkvæmt venju en að sjálfsögðu var hann líka fullur af laufblöðum og sandi þannig að upplifunin var ekki alveg sú sama og venjulega. Gufan var að vísu hrein - en ekki nógu heit, þannig að þetta var hálf misheppnað eitthvað. Kalda sturtan stóð reyndar alveg fyrir sínu, þannig að sá partur var í lagi. Á heimleiðinni sá ég starfsmenn bæjarins í óða önn að hreinsa upp brotin tré af götum og gangstéttum. Íbúum húss við Þingvallastræti hefur áreiðanlega brugðið í brún í nótt því stærðarinnar ösp hafði brotnað nánast niðri við rætur sínar og fallið á húsið. Ég sá nú ekki hvort rúður voru brotnar eða þvíumlíkt en það hefur greinilega gengið á ýmsu í nótt. Sem betur fer svaf ég sætum svefni því það er fátt sem ég þoli verr en hvassviðri.

mánudagur, 15. september 2008

Ég þoli ekki skápalykt af fötum

Er sem sagt búin að taka megnið af sumarfötunum úr umferð og var að setja vetrarpeysurnar í réttar hillur en þá var svo hræðileg skápalykt af sumum þeirra að ég þarf að þvo þær fyrst. Þannig að núna snýst tromlan í þvottavélinni og ég er bara að leika mér á meðan. Þyrfti samt að finna stóran plastpoka undir föt sem fjölskyldan er hætt að nota svo hægt sé að gefa þau í Rauða krossinn.

Svo þyrfti ég líka að leggjast í smá pappírsvinnu og ganga frá reikningum í möppur en því nenni ég ómögulega núna. Það styttist líka í næsta virðisaukauppgjör svo ég þyrfti eiginlega að fara að byrja á bókhaldinu fyrir júlí og ágúst - en ég nenni því ekki heldur. Fussum svei, þvílík leti í konunni! Annars held ég að ég sé ekkert sérlega löt að eðlisfari. Var það þegar ég var unglingur (nennti ekki að hjálpa til heima o.s.frv.) en núna er það aðallega heilsufarið sem verður til þess að ég geri ekki hluti sem ég þyrfti að gera. Tja, að vísu þá á ég það til að fresta því í lengstu lög að byrja á vissum verkefnum, en það er ekki beint leti sem er orsakavaldurinn (frekar angi af verkkvíða, þ.e. það er eitthvað sem vex mér í augum). En svo þegar ég er byrjuð þá er þetta auðvitað ekkert mál.

Af starfsmannamálum í Pottum og prikum er það að frétta að við erum komnar með tvo nýja starfsmenn í hlutastarfi og ætti þá að létta aðeins á okkur Sunnu sem höfum verið að vinna svolítið mikið síðan Nanna flutti til Danmerkur. Þannig að bráðum verðum við komnar með þetta fína vaktaskipulag og þá ætti að komast meiri regla á vinnutímann hjá okkur - sem er bara hið besta mál.

sunnudagur, 14. september 2008

Mér tókst það

Að minnsta kosti nokkurn veginn, að vera með hollustufæði í kvennaklúbbnum. Ég var með hollustuköku (í botninum eru rifnar gulrætur, malaðar hnetur og döðlur og ávextir ofaná) og heitt rúllutertubrauð með grænmeti, hráskinku og ostum. Með kökunni var vanillusósa sem búin var til úr kasjúhnetum sem lagðar voru í bleyti, hörfræolíu, vatni og vanilluhrásykri. Þetta féll bara í ágætan jarðveg hjá dömunum og ég gat borðað veitingarnar án þess að hafa áhyggjur af því að vera að svindla í mataræðinu. Að vísu var eitthvað hveiti í rúllutertubrauðinu en ég geri nú kannski ekki ráð fyrir því að geta verið alveg 100% hveitilaus, amk ekki alveg strax. Í gærkvöldi fórum við svo út að borða fjölskyldan og þá fékk ég mér þetta fína kjúklingasalat. Horfði smá öfundaraugum á karlpeninginn borða afar girnilegt nýbakað hveitibrauð með pestói - en stóðst freistinguna.

Í dag er ég búin að fara í sund, borða morgunmat með eiginmanninum, setja í eina þvottavél og þá er það víst upptalið. Eiginlega ætlaði ég að fara í gegnum fataskápinn minn í dag, setja sumarfötin í geymslu og skoða hvaða föt ég er hætt að nota. En svo settist ég bara fyrir framan tölvuna... Svo erum við Ísak að fara í leikhúsið klukkan þrjú. Hann langaði svo mikið að sjá Óvita af því vinur hans er að leika í sýningunni.

miðvikudagur, 10. september 2008

Byrjar ballið aftur

Eða öllu heldur, nú er komið haust og þá byrjar kvennaklúbburinn að hittast að nýju. Og enn er röðin komin að mér að halda klúbb - og enn er ég í vandræðum með það hvaða veitingar ég á að bjóða uppá. Það er auðvitað ekkert nýtt en nú vandast málið enn frekar því ég er í hveiti- og sykurátaki, þ.e. markmiðið er að hætta alfarið að borða hveiti og sykur og sjá hvort það hefur áhrif til hins betra á vefjagigtina. Þá er nú áskorunin að finna uppskriftir að bragðgóðu hollustufæði í klúbbinn. Ég var reyndar að fletta ýmsum uppskriftum eftir Sollu á Grænum kosti og þar má finna margt sem virðist vera gómsætt. Eiginlega svo margt að það er erfitt að velja. En sem sagt, föstudagurinn í síðustu viku var fyrsti sykur- og hveitilausi dagurinn og hef ég bara staðið mig eins og hetja (með undantekningu af smá ostakökusneið sem var í eftirrétt í matarboðinu á laugardagskvöldið). Er búin að fylla ávaxtaskálina og grænmetishólfin í ísskápnum og kaupa þurrkaðar apríkósur og fíkjur til að seðja sætindaþörfina. Ég reyndar fór í svona samskonar átak í fyrrahaust og það gekk ágætlega fram í nóvember. Um leið og við byrjuðum að vera með nammi í skál handa viðskiptavinum fyrir jólin sprakk ég á limminu og þegar ég var einu sinni sprungin þá var svo óskaplega erfitt að byrja aftur. Þannig að nú má ég bara ekki springa á limminu ;-)

þriðjudagur, 9. september 2008

Uss þetta gengur ekki

Var allt í einu að átta mig á því að ég hef nánast ekki tekið neinar myndir í sumar. Annað en Valur sem hefur verið að taka fullt af myndum. Núna síðast hefur hann verið mikið niðri við sjó og tekið myndir af nýju "vinum sínum" hvölunum sem halda til á Pollinum. Nokkrar þeirra mynda eru rosalega skemmtilegar og spurning hvort ég verð ekki bara að fá eina þeirra lánaða hjá honum til að birta hér á síðunni úr því ég er ekki að standa mig í stykkinu.

Frí í dag og ég í letikasti

Já ég á frí í dag og veit ekki alveg hvað ég á af mér að gera því allir aðrir eru jú í vinnu eða skóla. Heimilisverkin bíða reyndar eftir mér en það er nú önnur saga...

Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég hef að vísu verið alveg sérlega slæm af vefjagigtinni undanfarið og í ofanálag hefur lati fótur verið að stríða mér. Þannig að það er auðvelt að leggjast í sjálfsvorkunn og skiptir þá litlu máli þó maður viti að það sé fullt af fólki sem hefur það margfalt verra en maður sjálfur. Maður verður alveg ótrúlega sjálfhverfur þegar maður á bágt.

Ég áttaði mig samt á því þegar ég sat í heita pottinum áðan að ég mætti nú bara alveg hrósa sjálfri mér stundum. Þó ekki væri nema fyrir það að hafa viljastyrk til að fara á fætur á morgnana, synda og fara í vinnuna, þegar líkaminn er allur undirlagður úr stirðleika og verkjum, þreytan er yfirgengileg og heilastarfsemin er ekki uppá sitt besta. Það væri ótrúlega auðvelt í rauninni að gefast bara upp á þessu ástandi og leggjast í rúmið fyrir fullt og allt. En ég veit að ég er ekki alltaf svona slæm svo það er bara að þreyja þorrann í þeirri fullvissu að þetta fari skánandi.

Sem betur fer tekst mér yfirleitt að gleyma vanlíðaninni í vinnunni og líður vel ef það er mátulega mikið að gera. En það þýðir þá líka að öll orkan er búin þegar ég kem heim svo það er afar heppilegt að minn ástkæri eiginmaður sér um matseldina á þessu heimili. Ég þarf ekki að gera neitt nema setjast að borðinu og ganga frá eftir matinn. Svo set ég kannski í eina þvottavél og þá er það upptalið.

Einhverra hluta vegna hef ég reynt að tala sem minnst um vefjagigtina á þessum blogg-vettvangi. Kannski er ég hálfpartinn með fordóma gagnvart mínum eigin sjúkdómi. Finnst þetta innst inni vera einhver aumingjaskapur, að ég ætti nú að vera fær um að "hrista þetta af mér" og verða frísk. Eftir að hafa verið með þessa gigt í mörg ár er ég farin að átta mig á því að ég get ekki sveiflað töfrastaf og látið hana hverfa. En nú er ég bara eitthvað svo innilega leið á þessu ástandi að ég fann þörf hjá mér til að skrifa um þetta.

Svo ég endi þetta nú á skemmtilegri nótum, þá vorum við Valur boðin í mat á laugardagskvöldið síðasta. Þannig var mál með vexti að vinafólk okkar sem flutti suður fyrir þremur árum voru stödd í sumarbústað yfir í Vaðlaheiði og þau buðu okkur og öðrum vinahjónum í grillaðan mat. Það var humar í forrétt og lax í aðalrétt, hvoruteggja afar ljúffengt. Ekki var nú síðra að hitta gamla vini og spjalla um heima og geima langt fram á kvöld.

Andri og Sunneva eru komin heim frá útlöndum og hafði Andri meðferðis glaðning handa mömmu sinni og pabba og litla bróður. Ég fékk hvorki meira né minna en hlýja peysu fyrir veturinn, Ísak fékk bol og Valur... já hann fékk Superman nærbuxur ;-)

fimmtudagur, 4. september 2008

SMS frá Ísaki...

"Var 4 á toppinn, er núna þar og hinir eru langt á eftir"

Það er sem sagt göngudagur í Lundarskóla í dag og 7. og 8. bekkur gengu á Súlur. Bara verst hvað er lágskýjað þannig að göngugarparnir fá ekki annað útsýni en nærumhverfið.

þriðjudagur, 2. september 2008

Sumarnótt


Sumarnótt, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ein frá því í júlí...

Húsmóðurheiðrinum bjargað

Já gardínurnar eru komnar upp, ótrúlegt en satt. Þetta telst nú enginn afreks-saumaskapur en afrek samt af minni hálfu, amk á þessum síðustu og verstu tímum. Að vísu fannst mér liturinn á gömlu gardínunum tóna betur við gula litinn sem Ísak er með á veggjunum en ég á reyndar eftir að sjá þetta í dagsbirtu. Svo eru veggirnir dálítið tómlegir eftir að hann tók niður allar myndirnar sem þar voru. En það má skoða þetta allt saman.
Áðan heyrði ég einhver ámátleg væl utan úr garði og fann Mána í pattstöðu með öðrum ketti þar úti. Þeir hreyfðu sig aðeins til þegar ég kom og Máni notaði tækifærið til að sýna mér hvað hann væri nú orðinn flinkur að verja lóðina okkar - en sem betur fer urðu engin meiriháttar slagsmál. Meira hvað hannn þykist nú allt í einu vera orðin mikil hetja. Og í þessum töluðu orðum kemur kappinn og stekkur uppá skrifborð til mín. Ætli hann planti sér ekki beint fyrir framan skjáinn næst, hann er vanur því. Við fengum okkur nú öll smá blund saman í dag, ég, Birta og Máni. Vinnunni var nefnilega þannig háttað hjá mér í dag að fyrst var ég að vinna frá 10-13.30 og svo frá 16-18. Í pásunni þarna á milli kom ég heim og var svo slöpp eitthvað að ég lagði mig. Nokkuð sem gladdi kettina mikið og hressti mig við ;-) Svo labbaði ég í vinnuna og kom þangað úthvíld og rjóð í kinnum eftir gönguna.
Heimferðin reyndist mér öllu erfiðari og þessi blessaði "lati" fótur minn var farinn að þvælast dálítið mikið fyrir mér í restina. Hann er svo kraftlaus eitthvað og mig fer að verkja í hann + að ég hálfpartinn dreg hann á eftir mér þegar ég er þreytt. Það eru núna fjórir og hálfur mánuður frá því að ég fór í brjósklosaðgerðina svo eiginlega finnst mér að fóturinn ætti að vera búinn að jafna sig betur - en ætli sé ekki bara best að panta sér tíma hjá sjúkraþjálfara og athuga hvort hann getur kennt mér einhverjar æfingar til að styrkja fótinn.

sunnudagur, 31. ágúst 2008

Dugnaðarforkur í dag

Já ég er bara búin að vera dugleg í dag þó ég segi sjálf frá. Meðal annars notaði ég tækifærið þegar Andri var farinn út á flugvöll og lagaði til í herberginu hans. Það var nú svo sem ekki flókið og fólst aðallega í því að tína upp föt sem lágu eins og hráviði hér og þar í herberginu. Flest þeirra fóru í þvott en sum þurfti nú bara að brjóta saman og setja ofan í skúffu. Og já, ég veit að ég á ekki að gera þetta fyrir hann - málið er bara að hann gerir þetta ekki sjálfur - og ég þoli ekki að horfa uppá draslið. Þoli það í ákveðinn tíma og spring svo á limminu.

Svo er tiltektin/breytingin á Ísaks herbergi alveg að verða búin, á bara eftir að sauma gardínurnar. Ætlaði eiginlega að gera það í dag en held að orkan sé búin í bili. Kannski ég detti í stuð í kvöld...

Valur trúir því þegar hann sér það að ég muni sauma þessar gardínur, hann er búinn að missa alla trú á mér sem saumakonu. Gæti haft eitthvað með það að gera að núorðið sést saumavélin ekki uppi við nema á nokkurra ára fresti. Það er af sem áður var þegar ég saumaði heilu dragtirnar á sjálfa mig og ýmsan annan fatnað á Hrefnu og Andra. Tja, það er nú víst ekki rétt að ég hafi saumað mikið á Andra, en eitthvað samt s.s. jólaföt og öskudagsbúninga. Held að ég hafi ekki saumað eina einustu flík á Ísak hins vegar. Jamm og jæja, er hætt þessu rausi og farin í Hagkaup.

laugardagur, 30. ágúst 2008

Spekúleringar

Það er ýmislegt sem ég er að velta fyrir mér þessa dagana. Þar ber hæst vangaveltur um breyttar kringumstæður í kjölfar þess að börnin eru ekki lengur lítil og þar með er margt sem breytist í hinu daglega lífi. Ég er komin í nýjan fasa í lífinu og þá þarf maður einhvern veginn að finna sér sinn "stað" í þessu öllu saman. Þegar maður er með lítil börn er sólarhringurinn undirlagður af verkefnum sem flest tengjast barnauppeldinu en nú er öldin önnur. Það reyndar vantar svo sem ekki verkefnin - en þau eru af öðrum toga. Nægur tími aflögu til að sinna einhverju áhugamáli eða hitta vini sína. En þrátt fyrir að möguleikinn sé til staðar þá er ég ekki að nýta tímann í áhugamál né vini. Finnst ég bara vera í einhverju tómarúmi og ekki ná að gera neitt af viti. Það vantar alla drift í mig, ég geri ekkert annað en vinna, borða og sofa. Auglýsi hér með eftir sparki í rassinn!

Jæja, nýr pistill kl. 1.30 að nóttu... hvað er í gangi?

Ekkert í gangi - venjulega er ég að vísu steinsofandi á þessum tíma sólarhrings en aðstæður eru svolítið frábrugðnar að þessu sinni. Valur er í veiði, síðasta veiðitúr sumarsins, Andri er úti með vinum sínum, Ísak gistir hjá vini sínum og ég var í heimsókn hjá vinkonu minni og vaki þess vegna lengur en venjulega. Annars er ég eiginlega að fara að sofa. Fór bara að kíkja í tölvuna þegar ég kom heim og gleymdi mér aðeins í Flickr... Setti inn tvær myndir í dag frá ferð minni í Mývatnssveit í morgun. Ferð, eða skottúr öðru nafni. Þegar ég kom heim úr vinnunni um sjöleytið í gærkvöldi sá ég vöðluskó eiginmannsins ásamt ullarsokkum standa umkomulausa á bílaplaninu. Höfðu þeir gleymst í flýtinum þegar verið var að leggja af stað í veiðina í gær. Í morgun hringdi ég á hópferðamiðstöðina kl. 08.01 til að spyrja um ferðir austur og var þá tilkynnt að rútan í Mývatnssveit hefði farið kl. 08.00. Þannig að einungis einn kostur var í stöðunni - að aka austur með skóna (og sokkana) áður en ég þurfti að mæta í vinnu kl. 13. Ég skutlaði í mig skyri með rjóma, og eggi, og lagði af stað akandi á mínum fína frúarbíl. Var komin í Mývatnssveit nákvæmlega 60 mín. síðar og reyndi að hringja í Val en hann hefur ekki heyrt í símanum fyrir hávaðaroki sem ætlaði mig að æra. Ég fór með skóna í veiðihúsið og ók í Skútustaði til að kaupa mér kaloríur fyrir heimferðina. Þar var veðurofsinn þvílíkur að ég þurfti að leggjast á hurðina á sjoppunni til að geta lokað henni. Ók ég síðan heim á leið, lagði mig og fór svo að vinna kl. 13. Já, ég gleymdi að segja frá því að ég tók nokkrar myndir á leiðinni en fæstar tókust, sá fleiri myndefni en þar sem ég var með bílinn stilltan á "cruise control" þá nennti ég ekki að stoppa á réttum stöðum... = hámark letinnar!! En hér má sjá smá myndasýnishorn...Ótrúlegt en satt að þessar myndir voru teknar með ca. 20 mínútna millibili - ekki á sama staðnum samt.

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Hálfnað er verk þá hafið er

Ég reyni amk að telja sjálfri mér trú um það. Ég er búin að taka saman helling af gömlu dóti sem Ísak er hættur að leika sér að, búin að þurrka af og ryksuga ósköpin öll af ryki, búin að þvo veggina, búin að fara í gegnum gamalt skóladót og henda, búin að færa rúmið og Valur er búinn að færa kommóðuna og sjónvarpið. Þá er bara eftir að kaupa mjög langa rafmagnssnúru því það vantar innstungur á austurvegginn. Og koma öllu dótinu á sinn stað aftur (því sem ekki fer í geymslu). Og eftir að sauma nýjar gardínur. Þá held ég að allt sé upptalið. Annað hef ég ekki afrekað í dag - en ætli sé ekki best að fara og kaupa skóladót fyrir Ísak sem nennir engan veginn að taka þátt í þeim verknaði.

mánudagur, 25. ágúst 2008

Ég er á leiðinni, alltaf á leiðinni ...

til þess að taka til í herberginu hans Ísaks. Raunar er það ekki hefðbundin tiltekt sem stendur fyrir dyrum heldur ögn meira en það. Þar sem pilturinn er nú á fjórtánda aldursári er kominn tími til að gera herbergið hans örlítið fullorðinslegra (eða unglingalegra?). Taka niður gardínurnar með bílamyndunum, pakka niður legóinu og öðru dóti sem er ekki notað lengur, þrífa veggina, þurrka ryk af bókum og pakka einhverjum þeirra niður. Einnig stendur til að færa rúmið og fleiri húsgögn í herberginu svo það komi meira "nýjabrum" á þetta allt saman. Einhvern tímann hefði ég stokkið í þetta og ekki hætt fyrr en allt væri búið + nýjar gardínur saumaðar og komnar upp... en það var einhvern tímann. Núna er ég bara ekki að hafa mig í þetta. Tók smá syrpu í gærkvöldi og ætla að taka smá syrpu núna á eftir. Fór reyndar í dag og keypti efni í nýjar gardínur sem ég held að verði OK en sé það ekki almennilega fyrr en í dagsbirtu á morgun. Þegar þetta er skrifað er rigningarsuddi og þungbúið úti svo lýsingin er ekki nógu góð til að hægt sé að dæma í gardínumálinu.

Annars er ég óttalega tuskuleg þessa dagana, ekki beint sú hressasta. Mér tekst að vísu að halda mér gangandi á meðan ég er í vinnunni en hryn saman þegar ég kem heim. Vonum bara að þessi slappleiki fari að rjátlast af mér. Andri var líka veikur í síðustu viku en hann var raunverulega veikur, öfugt við mömmu hans. Sem betur fer er hann að hressast því hann ætlar að skella sér til Kaupmannahafnar og Malmö með kærustunni á sunnudaginn kemur. Ísak er hins vegar ekki á leið í neina utanlandsferð heldur byrjar í skólanum á miðvikudaginn. Valur er farinn að vinna eftir sumarfrí en það hindrar hann sem betur fer ekki í að skella sér í síðustu veiðiferð sumarsins síðar í vikunni. Hvað mig varðar þá gæti ég nú vel hugsað mér snögga ferð til Oslóar að hitta hana systur mína en verður víst að bíða betri tíma.

Og nú held ég að sé kominn tími til að setja upp rykgrímu og ráðast til atlögu við bókahilluna inni í Ísaks herbergi.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Er ekki að standa mig í blogginu

Veit ekki hvað veldur, sennilega bara dottin úr æfingu... Ég er byrjuð að vinna eftir 3ja vikna frí og hefði í aðra röndina alveg verið til í að vera aðeins lengur í fríi en í hina röndina er fínt að byrja "í rútínu" aftur. Við fengum góða heimsókn um síðustu helgi en þá komu Hjörtur bróðir Vals og Guðbjörg mágkona hans og gistu hjá okkur eina nótt. Þau komu færandi hendi með afmælisgjöf til míns ástkæra eiginmanns sem varð 50 ára 2. ágúst síðastliðinn. Þá vorum við stödd á Ítalíu svo það var engin eiginleg afmælisveisla og lítið um gjafir. Vonandi finnum við tíma til að halda veislu í haust. En hér er amk. mynd af afmælisbarninu í afmæliskvöldverðinum sem borðaður var á "local" veitingahúsi í Morrona, sem er smábær rétt hjá húsinu sem við gistum í í Toskana.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Komin heim og byrjuð að blogga...

Líklega nenni ég ekki að skrifa ferðasöguna hér, læt þess bara getið að það var ósköp gott að vera í fríi og mikið sem það var ljúft að vera í sólinni og blíðunni í útlandinu. Það var líka gaman að heimsækja Hrefnu í Kaupmannahöfn og koma til Feneyja. Í Toscana þótti okkur "eldra fólkinu" (okkur Val og Hrefnu) gott að slappa af en þeim bræðrum þótti helst til mikil rólegheit þar.

Heimferðin var ansi skrautleg, við höfðum átt pantað flug Flórens-Stokkhólmur-Kaupmannahöfn á laugardeginum og heim til Akureyrar á sunnudeginum. Flugvélin bilaði hins vegar þegar við vorum rétt lögð af stað frá Flórens og við þurftum að lenda í Bologna og hanga þar allan daginn á flugvellinum. Lentum ekki í Stokkhólmi fyrr en eftir miðnætti og vorum þá löngu búin að missa af fluginu til Köben. Við vorum hálf ráðavillt í smá stund en komumst svo loks í tölvu og gátum bókað nýtt flug næsta morgun. Þegar hér var komið sögu var klukkan orðin eitt og mæting í flugið var klukkan hálf fimm, þannig að það tók því ekki að bóka sig á hótel. Við létum fyrir berast í flugstöðinni og sá eini sem náði aðeins að blunda var Valur en við vöktum allan tímann. Ég náði svo aðeins að dotta á leiðinni til Köben en þar tók síðan aftur við enn meiri bið eftir fluginu til Akureyrar. Það var því ekki fyrr en sú vél fór í loftið, um tvöleytið, að við Valur sofnuðum og steinsváfum alla leiðina. Strákarnir voru hinsvegar orðnir svo spenntir að komast heim að þeir sváfu ekki neitt. Þrátt fyrir þennan tæplega þriggja tíma svefn var ég eins og undin tuska bæði mánudag og í gær og það er fyrst í dag að ég er farin að líkjast sjálfri mér aftur. Ég hef reyndar alltaf vitað að það væri ekki gott fyrir mig að missa svefn en þarna fékk ég það staðfest svart á hvítu. Í gær var ég ennþá alveg glær af þreytu og ekki hægt að sjá að ég væri nýkomin frá útlöndum en í dag er ég komin með lit í kinnarnar aftur - sem betur fer .-)

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Áfram nóg að gera - og enginn tími til að blogga né lesa blogg

Sem sést best á því að ég var fyrst núna að taka eftir öllum athugasemdunum við færsluna mína síðan á laugardaginn. En við fórum sem sagt í glæsilega afmælisveislu hér fyrir handan (í Vaðlaheiði) á laugardagskvöldið og Valur fékk þá tækifæri til að klæðast lopapeysunni sinni góðu sem móðir hans lét prjóna á hann fyrir margt löngu. Í veislunni hittum við margt fólk eins og vera ber og borðuðum góðan mat. Sunnudagurinn fór að mestu í afslöppun og dagarnir síðan (og kvöldin) hafa að mestu farið í vinnu. Þó afrekaði ég að fara á "skátafund" í gærkvöldi en við hittumst nokkrar gamlar skátasystur í tilefni landsmóts skáta sem haldið er að Hömrum þessa dagana. Já, og í tilefni þess að Rósa vinkona mín var stödd fyrir norðan. Hún gistir reyndar hér í kjallaranum en er hálfgerður "laumugestur" því hún hefur eigin lykil og kemur og fer eins og hentar. Í þokkabót er hún læst niðri í kjallara... en það er nú tilkomið vegna kattanna. Það þarf að læsa hurðinni niður svo Máni geti ekki opnað og þau farið niður. Við erum nefnilega hætt að leyfa þeim að vera í kjallaranum því þeim gæti dottið í hug að merkja sér svæðið.
Talandi um gesti þá streyma þeir hingað í Vinaminni þessa síðustu daga fyrir brottför okkar í sumarfríið. Í kvöld kemur maður sem er að fara að veiða með Vali næstu daga, já og sonur mannsins líka og þeir ætla að gista í nótt. Í fyrramálið koma svo Edda mágkona Vals og Óli Valur sonur hennar - þau eru líka að fara að veiða með Vali. Svo koma þau aftur á laugardagskvöldið og gista þá aðfaranótt sunnudags. Á laugardaginn koma líka mamma og Ásgrímur en þau ætla að vera hér og gæta bús og katta á meðan við erum að skemmta okkur í útlandinu. Já það er annað hvort í ökkla eða eyra... ;-) Og nú er best að hætta þessu blaðri og fara að gera klárt fyrir næturgestina. Svo bíður bókhaldið og "þarf að gera" listinn en á honum er m.a. að bóka hótel í Köben fyrir okkur Val en Andri og Ísak gista hjá systur sinni.

laugardagur, 19. júlí 2008

Ef ég væri orðin lítil fluga...

Ein mynd enn ... aldrei friður!

Birta í skugga


Birta í skugga, originally uploaded by Guðný Pálína.

Eins og ég hef örugglega sagt þúsund sinnum áður þá elska kettirnir að vera úti í góða veðrinu. Samt er líka voða gott að setjast í skugga að hluta til og bara lygna augunum aftur og njóta þess að vera til :-)

Óþægur heili heldur fyrir mér vöku

Já mikið sem það væri nú gott að hafa stundum takka til að slökkva á heilastarfseminni svo maður nái að sofna á kvöldin en liggi ekki bara og hugsi um allt sem maður á ógert. Nú er Sunna komin aftur úr fríinu og ég fer í frí eftir eina viku og við eigum eftir að græja ýmislegt áður en ég fer og ég er búin að búa til langan lista yfir það allt. Svo er ég líka búin að gera lista yfir hluti sem ég persónulega þarf að gera áður en við förum... nóg af listum á þessum bæ :-)

Áðan rakst ég líka á forrit sem heitir Remember the milk og þar er hægt að búa til mismunandi lista (t.d. fyrir vinnu og heimili) og til að kóróna snilldina þá var hægt að samræma listana við Google dagatalið og þá er maður með þetta allt á sama stað. Mjög sniðugt fyrir fólk með "listamaníu". Ég fæ samt visst kikk út úr því að handskrifa listana - og strika yfir verkefni sem búið er að ljúka - svo það er spurning hvort ég muni nokkuð færa mig yfir í rafræna lista. Jamm og jæja, eitthvað verður maður að gera við tímann þegar maður er andvaka. Ég hefði reyndar getað fært bókhald en viss leti kom í veg fyrir það. Plús að ég var hrædd um að fara bara að gera vitleysur á þessum tíma sólarhrings.

Mamma og Ásgrímur ætla að koma norður og sjá um hús og ketti á meðan við verðum úti, eða amk. hluta af tímanum. Það er mjög gott því ég fæ alltaf samviskubit yfir því að skilja kettina eftir ein, þó svo að mjög svo hjálpfúsir nágrannar komi og gefi þeim að borða og spjalli aðeins við þá. Þessir síamskettir eru nefnilega svo félagslyndir og þurfa á miklu samneyti við okkur að halda og leggjast bara í þunglyndi þegar við erum ekki heima.

Við erum boðin í fimmtugsafmæli á morgun og ég fór á fullt að spá í það í hvaða fötum ég ætti nú að fara. Langaði að vera sumarleg og sæt og á engin þannig spariföt. Fann buxur í Benetton á 50% afslætti og einhverskonar síða jakkapeysu í Centro sem ég ætlaði að nota yfir hlýrabol. Var bara nokkuð ánægð með mig, alveg þar til það rifjaðist upp fyrir mér að veislan verður haldin í tjaldi og þar af leiðandi er flíspeysa líklega hentugri klæðnaður... Þarf sem sagt að hugsa þetta aðeins betur.

föstudagur, 18. júlí 2008

Innpökkunaræði

hefur gripið um sig hjá viðskiptavinum Potta og prika, þ.e. sífellt fleiri spyrja hvort við getum ekki pakkað inn vörum sem ætlaðar eru til gjafa. Við verðum að sjálfsögðu við þeirri bón en hins vegar verður seint um mig sagt að ég sé nokkur innpökkunarsnillingur. Eins og með svo margt annað smá segja að æfingin skapi meistarann, svo ætli þetta komi ekki fyrir rest... Um daginn kom kona og vildi láta pakka inn í sellófan og þegar hún gerði sig líklega til að aðstoða mig spurði ég hana hvort hún væri vön. Jú jú hún gat ekki neitað því og endaði á því að pakka inn sjálf en ég horfði á hana og reyndi að leggja handtökin á minnið. Ætli ég þyrfti ekki bara að komast á námskeið í innpökkun ;-) Kannski ég ætti að kíkja á bækurnar frá henni systur minni en hún er búin að þýða margar bækur í bókaflokknum "Hugmyndabanki heimilanna" sem bókaútgáfan Edda gefur út. Kannski einhver þeirra fjalli um innpökkun.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Er loks búin að bóka gistingu í Feneyjum

Þannig að þá er einu verkefni færra á "þarf að gera" listanum mínum. Ég gat ekki sofnað því ég var eitthvað svo undirlögð í skrokknum og hvað er þá betra en nota tímann í gáfulega hluti eins og að bóka gistingu. Annars væri líklega enn gáfulegra að reyna aftur að sofna, ég verð ekki beint sú ferskasta ef ég missi svefn.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Í hálfgerðu limbói

Ég var nánast í fríi frá vinnunni í gær, skrapp bara í tvo tíma og kláraði eina pöntun og græjaði eitthvað fleira sem ég man ekki. Jú og fór á fund í gærkvöldi sem haldinn var með nýjum aðilum á Glerártorgi. Annars eyddi ég deginum í að strika út hluti af "þarf að gera" listanum mínum og gekk það bara nokkuð vel. Fór með Ísak til að endurnýja vegabréfið hans og keypti á hann sandala sem reyndar voru heldur stórir. Svo skrapp ég á útsölu í einni fatabúð en endaði á því að kaupa tvö pör af skóm (og ég sem er ekki einu sinni neinn sérstakur skófíkill). Ég skilaði líka bókum á bókasafnið, fór á pósthúsið, keypti kattamat, pantaði klippingu og litun, þvoði þvott og ... man ekki fleira í bili.

Í dag er svo annar frídagur hjá mér (í boði Önnu sem fannst ég þurfa á því að halda) og ég svaf til að verða hálf ellefu, hvorki meira né minna. Hef nánast ekkert gert af viti síðan ég vaknaði. Óspennandi veður úti gæti haft eitthvað með málið að gera en nú neyðist ég bráðum til að hætta þessari leti. Þarf að skreppa í vinnuna og greiða reikninga ofl. Svo þarf ég að þvo meiri þvott, laga til í húsinu og panta hótel í Feneyjum. Svo hefði ég auðvitað rosalega gott af því að fara út að ganga...

sunnudagur, 13. júlí 2008

Einn kemur þá annar fer (eða öfugt)

Já Valur kom heim í gærkvöldi og svo fóru Hrefna og Erlingur aftur til Köben í dag. Það var ekki að sökum að spyrja, við fengum frábæran kjúklingarétt að hætti húsbóndans í kvöldmatinn og ljóst að kokkurinn hefur greinilega ekki beðið varanlegan skaða af mývarginum í Rússlandi.

Ég sit núna og á að vera að panta vörur, þ.e. ég er að panta vörur en svo afvegaleiddist ég út í eitt stk. blogg. Einn helsti birgirinn (mér finnst birgir alltaf jafn skrítið orð, heildsali er alla vega eitthvað sem allir skilja) okkar er að fara í sumarfrí í 3 vikur og því þarf að panta góðan slatta af vörum svo við verðum ekki uppiskroppa meðan hann er í fríi. Þá vantar nú viðskiptafélagann, hana Sunnu, til að ráðgast við. Ég verð því bara að taka sjálfstæðar ákvarðanir og óttast það annað hvort að sitja uppi með alltof lítið af vörum eða alltof mikið. Miðað við stuðið sem ég er í núna er það síðarnefnda líklegra ;-)

Annars var voða ljúft að eiga frí í dag eftir 13 daga vinnutörn. Eiginlega hefði ég átt að vera að vinna á morgun en Anna var búin að bjóða mér að vinna svo ég hringdi í hana í kvöld og þakkaði gott boð. Ég fer reyndar í vinnuna til að redda auglýsingu fyrir næstu viku en annars verð ég heima og í útréttingum. Er komin með langan lista yfir hluti sem ég þarf að gera og það verður gott að geta strokað eitthvað af því út. Ég þvoði nú reyndar 4 vélar af þvotti í dag og verð að segja að mér leið mun betur á eftir.

En af því Sunna var eitthvað að segjast fá heimþrá við síðustu myndir sem ég birti þá kemur hér ein mynd sérstaklega fyrir hana...