föstudagur, 30. maí 2014

Ertu svo bara að "chilla" núna?

- Öööö, það fer nú eftir því hvernig á það er litið. Ég er ekki í launaðri vinnu eins og er en hins vegar hef ég nú kannski ekki beint verið að chilla heldur. 
Og svo kemur sagan af því hvernig mamma brotnaði rétt eftir að Pottar og prik hættu starfsemi, og svo framvegis ...  
Það er sennilega ekkert skrítið þó fólk velti því fyrir sér hvað ég sé að fást við þessa dagana og mér finnst svo sem ekkert óþægilegt heldur að fá svona spurningar. En þá fer ég samt aðeins að velta því fyrir mér hvað framtíðin beri í skauti sér. Á sama tíma hef ég ákveðið að vera ekki í neinni atvinnuleit eins og er, þar sem markmiðið var jú að reyna að safna smá orku og komast til betri heilsu. Þannig að þetta er allt dálítið svona „haltu mér - slepptu mér“ dæmi. Ég fékk nú reyndar tilboð um smá atvinnu um daginn, eða verkefni öllu heldur. Það var á vegum Háskólans á Akureyri og hefði í sjálfu sér örugglega getað verið allt í lagi. Hins vegar dreymir okkur Val um að fara eitthvert til útlanda í haust og þá vorum við aðallega að hugsa um októbermánuð og það er einmitt sá mánuður sem aðalþunginn í verkefninu á að vera. Svo ég gaf það bara alveg frá mér.  
Annars eru það nú ekki atvinnumálin sem hvíla þyngst á mér þessa dagana, heldur þetta mál með mömmu allt saman. Ég er að reyna að dvelja í núinu og hafa ekki áhyggjur af öllu en það gengur frekar treglega. Nú er samt allt á uppleið hjá henni, ég komin norður í land í bili og Anna systir kemur jú á morgun og stoppar í Keflavík í 5 daga, svo ég ætti að geta slakað aðeins á. Það breytir því samt ekki að ég hef sofið mjög illa þessar tvær nætur síðan ég kom heim (skil það ekki!) og er eitthvað svo búin á því. Ég skil heldur ekki hvernig mér tókst að halda mér gangandi (eða svona næstum því) í þennan tíma sem ég var í burtu, til þess eins að hrynja svo þegar ég kem heim... Þetta er svona eins og börnin sem eru voða þæg á leikskólanum og taka svo út alla óþægðina heima hjá sér ;-) En já já ég veit jú að þetta líður hjá. Ætti að vera farin að þekkja ferlið. Þreytt, verð pirruð á því að vera þreytt, langar að gera svo margt en líkaminn vill ekki. Ég synti t.d. engar 20 ferðir í morgun, held þær hafi orðið 14. Samt alltaf gott að fara í sund og ég hreinlega elska að fara í sund þegar sólin skín og ég get farið í útiklefann.  
Hm jæja og mín komin með munnræpu ... það kom að því.  
Ljósmyndaklúbburinn minn verður með sýningu í Lystigarðinum þriðja sumarið í röð. Ég tók að vísu ekki þátt í fyrra en ákvað að vera með í ár til að detta nú ekki alveg út úr þessu. Þannig að í gærkvöldi fórum við og settum upp sýninguna. Valur og tveir aðrir eiginmenn/sambýlismenn hjálpuðu til. Erfiðasti hlutinn er yfirleitt að ákveða uppröðun myndanna og sýnist hverjum sitt, en allt hefst þetta þó að lokum. Þemað í ár er „Óður til fánans“ í tilefni af 70 ára lýðveldisafmæli Íslands. Þannig að myndirnar eru í fánalitunum. Ég valdi mynd sem er í rauðum litum (sjá hér að ofan) en flestar hinna voru með hvíta og bláa litinn sem aðalliti. Blár himinn eða sjór og hvít fjöll. Ég átti líka meira af þannig myndum og var meira að segja búin að taka mynd með bláum aðallit til að hafa á sýningunni, en ákvað svo að hafa rauðu myndina því það var eiginlega meiri skortur á rauðum lit. Rauða myndin er líka hlýrri og vekur kannski upp jákvæðari tengingar hjá þeim sem á horfa. Mér finnst þessi bláa samt svolítið skemmtileg líka ;)mánudagur, 26. maí 2014

Bloggáskorun?


Það eru endalausar áskoranir um allt mögulegt sem ganga á facebook þessa dagana. Það þýðir ekki að skora á mig með neitt svoleiðis - en ég er hins vegar að spá í að skora á sjálfa mig að blogga einu sinni á dag í 10 daga. Hvernig lýst fólki á það? Einhverra hluta vegna hef ég nánast dregið sjálfa mig inn í einhverja skel síðan mamma datt og brotnaði, veit ekki hvers vegna, og ein afleiðing þess er að ég er nánast hætt að blogga. Reyndar hef ég haldið áfram að taka mynd á dag og birta á blippinu/ljósmyndadagbókinni svo ég er ekki alveg dauð úr öllum æðum. En ljósmyndaklúbburinn minn er að fara að halda sýningu og ég er með mynd en hef ekki tekið neinn þátt í undirbúningnum ... og er með smá móral vegna þess. Ekki hef ég hitt konuklúbbinn minn heillengi og nánast engar vinkonur heldur. En jæja nóg um það. 
Hvað mömmu varðar þá voru erfiðleikar hennar því miður ekki á enda eftir aðgerðina sem gerð var á FSA. Við komum suður á mánudegi 12. maí og þar sem ég hafði fengið þá skyndihugdettu að heimsækja Hrefnu dóttur mína í Köben skrapp ég þangað og var frá 13. - 16. maí. Það var reyndar mjög gaman að kíkja aðeins á unga parið í nýju íbúðinni og sjá Hrefnu með kúlu (ég á von á ömmustrák í heiminn 6. ágúst ;-) Svo kom ég á sjúkrahúsið að heimsækja mömmu á laugardeginum og fékk þá að vita að röntgenmynd sýndi að ekki væri í lagi með neglingu nr. 2 og því væri ekki um annað að ræða en fara í þriðju aðgerðina og í þetta sinn að setja gervilið í mjöðmina. Úff! Ég hafði ætlað að stoppa yfir helgina og fara svo norður en þetta kollvarpaði þeim áformum. 
Mamma fór svo í aðgerð miðvikudaginn 21. maí og fyrstu dagarnir á eftir voru nokkuð erfiðir ýmissa hluta vegna. Valur kom reyndar suður á fimmtudeginum og ég var voða glöð að fá að hafa hann yfir helgina. Svo þegar hann var farinn þá reyndar vaknaði ég í morgun og var eiginlega ekki að nenna að vera lengur hér í Keflavík, enda búin að vera tvær vikur í burtu. Vildi samt ekki panta flug fyrr en ég sæi hvort mamma væri ekki örugglega á réttri leið, og það sá ég svo sannarlega þegar ég heimsótti hana í dag. Hún gekk eins og herforingi eftir ganginum, bein í baki og tók stór skref. Enda eins loksins orðin verkjalaus eftir allar þessar vikur með verki (frá 5. mars til ca. 23 maí). Hún var reyndar mun skárri af verkjunum eftir aðgerðina fyrir norðan, en ekki laus við þá. Þetta er þvílíkur munur fyrir hana. Nú þarf bara að þjálfa upp þrek og styrk að nýju, og vonandi nær hún að komast aftur heim í sína íbúð og lífið kemst í samt lag aftur. Allir þessir verkir og verkjalyf hafa hins vegar haft mikil áhrif á hana og ekki undarlegt að það taki smá tíma að jafna sig.   
Annars ætlaði ég að vera svo dugleg að gera allt mögulegt þennan tíma sem ég væri ein hér í Keflavík en hef ekki gert neitt af því. Var búin að skrá mig á námskeið á netinu (tja tvö námskeið meira að segja) og hélt ég hefði nægan tíma til að sinna þeim, sem ég hef jú, en það dugar ekki til. Að vísu var ég nokkuð dugleg að fara út að ganga og eins að fara í sund í síðustu viku. Já og það er kannski stærsta afrekið hingað til, ég er loks búin að ná upp aðeins betra sundþreki og er farin að synda 20 ferðir, eða 500 metra. Hef ekki synt þetta langt í einhver ár. Þetta hafa verið frá 6 upp í 16 ferðir fram að þessu, svo ég er bara nokkuð ánægð með mig :)

miðvikudagur, 7. maí 2014

Er ekki kominn tími til að tengja?


Eða með öðrum orðum, er ekki kominn tími á bloggfærslu? Ég held ég hafi sett persónulegt met með því að blogga aðeins einu sinni í síðasta mánuði.  
Síðasta hálfa árið hefur reynt býsna mikið á mig. Ég man ekki hvort það var í október eða nóvember sem við Sunna ákváðum að loka Pottum og prikum á nýju ári. Í hönd fór síðan jólavertíðin með öllu sínu annríki og andlega séð fannst mér það mjög erfitt að halda haus, panta vörur og afgreiða viðskiptavini, vitandi það að búðin væri að hætta. Á sama tíma var Ásgrímur maðurinn hennar mömmu orðinn mjög veikur af magakrabbameini, og ljóst að það myndi bara enda á einn veg.  
Í byrjun janúar var dreginn úr mér endajaxl og ég var ansi lengi að jafna mig eftir það. Á sama tíma var vörutalning í búðinni en eftir hana fór ég suður að heimsækja mömmu og Ásgrím, og var mjög fegin því en tæpri viku síðar var hann látinn. Seinni partinn í janúar auglýstum við svo að Pottar og prik væru að loka, og við tóku við hálf brjálaðar tvær vikur, þar sem við náðum að selja nánast allt úr búðinni. Það voru langir og mjög erilsamir dagar fyrst eftir að auglýsingin birtist, og ég var því orðin mjög þreytt þegar við Valur fórum til Danmerkur í lok mánaðarins til þess að vera við útskrift Hrefnu úr læknadeildinni.  
Febrúarmánuður fór í að hnýta alls kyns lausa enda í tengslum við lokin á rekstrinum + bókhaldsvinnu hjá mér. Ég reyndi líka að hugsa aðeins um sjálfa mig, lesa bækur og taka myndir, því þreytan ætlaði mig lifandi að drepa eins og svo oft áður ... Í lok febrúar fórum við Valur suður í smá frí. Gistum í orlofsíbúð, hittum ættingjana og fórum með Andra og Freyju út að borða í tilefni þess að Andri var að klára atvinnuflugmanninn. Við komum heim á þriðjudegi og á miðvikudegi hringdi Dísa tengdadóttir Ásgríms með þær fréttir að mamma hefði dottið og mjaðmarbrotnað. Þetta var 5 mars.  
Síðustu átta vikurnar hafa verið mjög erfiðar. Fyrst var ég hjá mömmu í tæpa viku eftir aðgerðina, kom heim og var í massívu gigtarkasti í hálfan mánuð, fór svo aftur suður þegar mamma útskrifaðist af sjúkrahúsinu og var hjá henni í viku. Sú vika var ansi strembin því mömmu leið alls ekki vel. Svaf illa á nóttunni og fékk slæm verkjaköst í tvígang. En svo kom Anna systir og tók við keflinu í eina viku, sem reyndar endaði á því að mamma var lögð inn vegna verkja og átti að verkjastilla hana.  
Þegar hér var komið sögu hafði Anna reyndar látið vita að henni litist ekkert á að mamma gæti séð um sig sjálf þegar hún (Anna) færi aftur til Noregs. Við Valur ákváðum þá að bjóða mömmu að koma norður til okkar, amk yfir páskana og eitthvað lengur. Daginn áður en hún átti að útskrifast var síðan tekin röntgenmynd af mjöðminni, sem sýndi hreyfingu á naglanum sem festur hafði verið í mjaðmakúluna. Hér var komin skýring á þessum verkjaköstum sem mamma hafði verið að fá. Hins vegar var á þessum tímapunkti ákveðið að sjá til hvort þetta myndi lagast af sjálfu sér (beinið að gróa og naglinn festast).  
Mamma kom því norður á skírdag og má það heita hálfgert kraftaverk. Dísa sótti hana á sjúkrahúsið í Keflavík, ók henni til Reykjavíkur og kom henni í flug. Ég var rosalega fegin því þá slapp ég við að fara enn eina ferðina suður. Hins vegar kom fljótt í ljós að ekki var nú gott ástandið á konunni. Fyrst héldum við að hún væri kannski svona eftir sig eftir ferðalagið en að liðnum tveimur sólarhringum sáum við að það var meira en svo. Það kom reyndar einn þokkalegur dagur þar sem hún var skárri af verkjunum en síðan byrjaði ballið aftur og fimmti og sjötti sólarhringurinn voru skelfilegir. Hún náði aldrei verkjalausri hvíld í meira en 15 mín. og svaf mjög illa sökum þess. Valur hafði verið búinn að ráðfæra sig við bæklunarlækni og á sjötta degi ákvað Valur að ekki væri hægt að una við þetta lengur og í kjölfarið var mamma lögð inn á Bæklunardeildina hér á Akureyri.  
Bæklunarlæknarnir vildu samt enn bíða og sjá hvort ástandið myndi lagast og það þurfti sífellt að gefa mömmu meiri verkjalyf því henni bara versnaði. Sem leiddi til þess að fimm dögum síðar var hún orðin afskaplega þrekuð, bæði andlega og líkamlega, og okkur var alveg hætt að lítast á blikuna. En þá var líka ákveðið að hún færi í aðra aðgerð þar sem „gamli“ naglinn væri fjarlægður og nýr settur í staðinn. Okkur létti mikið við þetta og 30. apríl fór mamma loks í aðra aðgerð. Nú miðar henni aftur í rétta átt og er mun skárri af verkjunum, sem betur fer. Við höldum bara áfram að vona allt hið besta.  
Í dag 7. maí var svo tekin röntgenmynd sem sýnir að allt lítur vel út (amk enn sem komið er) með þessa nýju neglingu. Í framhaldinu var ákveðið að mamma hefði ekkert lengur að gera á Bæklunardeildinni, og þar sem ekki er laust pláss fyrir hana í endurhæfingu á Kristnesi, mun hún verða send aftur til Keflavíkur. Þá vitum við það ... Það var talað um að hún yrði útskrifuð héðan í kringum næstu helgi en þótti líklegra að það yrði á mánudaginn. Byrjar þá ballið aftur ... Nei ég segi svona. Það sem ég á við er að enn eitt óvissutímabilið byrjar, þ.e.a.s. ekki vitað fyrirfram hversu lengi mamma mun vera á sjúkrahúsinu, hvernig ástandið á henni verður þegar hún mun útskrifast o.s.frv. Ég er bara dauðfegin að vera ekki í vinnu, segi ekki meir... 
Jæja þetta var nú aldeilis langloka. Spurning hvort ég dett aftur í blogg-gírinn við þetta ;-)