sunnudagur, 29. maí 2005

Náði því

að þvo fjórar þvottavélar í dag og finnst það bara ansi vel af sér vikið. Hef reyndar efnivið í vél nr. fimm og sex en læt staðar numið að sinni. Það var góður þurrkur úti og um að gera að nota sér hann. Ísak afrekaði að fara í "sundlaug" heima hjá vini sínum og koma holdvotur heim, það var ein þvottavélin. Og Valur og Andri komu ansi sveittir og skítugir heim úr fjallgöngunni, það var önnur þvottavél. Hinar tvær voru hefðbundinn helgarþvottur. Skrýtið - og þó ekki - hvað fer alltaf mikill tími í tiltekt og þvotta um helgar ;-)

Eiginmaðurinn og eldri sonurinn

eru líklega að nálgast Súlutind á þessu andartaki. Verð að segja að ég öfunda þá - en ég hef verið hálf slöpp undanfarið og treysti mér ekki í fjallgöngu. Átti nógu erfitt með að halda mér á floti í sundlauginni í morgun. En þeir gætu vart fengið betra gönguveður, það er glampandi sólskin og 10 stiga hiti. Smá norðangjóla sér til þess að þeir kafna ekki úr hita.

Ég hins vegar var að eitthvað að bardúsa í geymslunni niðri og rak þá augun í vatnspoll sem ekki átti að vera þar. Það tók mig smá stund að finna ástæðuna en sökudólgurinn var beint fyrir ofan mig í loftinu, vatnsrör sem liggur ofan af efri hæðinni er greinilega farið að leka. Gaman gaman! Mig hefur reyndar grunað lengi að það væri kominn leki á baðinu uppi en athugasemdir þar að lútandi hafa ekki náð hljómgrunni hjá eiginmanninum - og ekki einu sinni hjá píparanum sem fenginn var til að kíkja á þetta einu sinni eftir ábendingu frá mér. Hm, ég hefði nú frekar viljað hafa rangt fyrir mér, það er svo hrikalega leiðinlegt að þurfa að fara út í framkvæmdir á baðinu með öllu því veseni sem því fylgir ;-(

laugardagur, 28. maí 2005

Vá!

Get hiklaust mælt með því að fólk á leið um Norðurland fari á bæði Síldarminjasafnið og Vesturfarasetrið. Þetta eru alveg svakalega flott söfn bæði tvö og aðstandendum sínum til sóma.

fimmtudagur, 26. maí 2005

Fyrir dyrum stendur ferðalag

á morgun með Ferðamálasetri og Rannsóknarstofnun Háskólans, en þessir tveir vinnustaðir deila "rými" í nýja rannsóknarhúsinu að Borgum. Verður farið á Siglufjörð þar sem Síldarminjasafnið verður skoðað og svo á Hofsós þar sem stendur til að skoða Vesturfarasetrið og borða kvöldmat. Fyrst ætlaði ég varla að nenna með - en sá svo að mér, því þetta er auðvitað upplagt tækifæri til að kynnast fólkinu sem ég verð að vinna með í sumar.

Annars hringdi mamma í mig í kvöld og kom varla upp orði fyrir hæsi (Anna mín, ég veit að þú lest þetta, það var orðið of áliðið til að hringja til Noregs ;-). Ég spurði hana hvort hún væri búin að vera veik (sérhver sæmilega heilvita manneskja hefði nú getað sagt sér það sjálf!) og fékk þá að heyra að hún var búin að vera alveg fárveik, með yfir 40 stiga hita og skjálfta þegar verst var, og hafði Ásgrími ekkert litist á blikuna. Hann hringdi á lækni sem kom og úrskurðaði að hún væri líklega með einhverja sýkingu og setti hana á sýklalyf. Nú er bara að vona að henni batni fljótt, það er ekkert grín að verða svona veik komin á þennan aldur.

Jæja, ég er farin að sofa (geisp).

þriðjudagur, 24. maí 2005

Þá er komið að því

að ég færi mig um set og byrji í sumarvinnunni. Það er alltaf spennandi að takast á við ný verkefni og vita hvernig þau þróast. Ekki er verra ef maður lærir eitthvað nýtt í leiðinni ;-) Brandarinn er samt sá að vinnutölvan mín sem ég hef verið að agnúast útí allan þann tíma sem ég hef haft hana fylgir mér á nýja staðinn. Svona getur lífið gert manni grikk stundum - en kosturinn er sá að ég er svo sem farin að læra á dyntina í henni...

sunnudagur, 22. maí 2005

Hvað er betra

en byrja sunnudaginn á hressandi göngutúr í Kjarnaskógi með eiginmanninum? Kosturinn við skóginn er líka sá að norðanáttin er ekki alveg jafn nöpur þar... En nú bíður heitt kaffi/te í eldhúsinu og best að fá sér morgunkaffi áður en ég skrepp í vinnuna ;-)

laugardagur, 21. maí 2005

Vonandi að þetta verði snjólétt sumar...

Þessi setning hefur heyrst víða síðustu daga. Allir komnir í sumarskapið og svo bara PANG! norðanátt og snjókoma...

fimmtudagur, 19. maí 2005

Arrrg!

Á að vera að fara yfir próf (fór alla vega að heiman undir því yfirskini) en á alveg einstaklega erfitt með að einbeita mér. Er alein í húsinu - sennilega eru allir aðrir heima hjá sér að horfa á forkeppni Evróvisjón - svo ekki er hávaði eða umgangur að trufla mig.

Venju samkvæmt fór ég í sund í morgun og heyrði þá á tal nokkurra unglingsstráka að sunnan sem voru að tala saman. Einn þeirra var að spá í það hvar "mollið" í bænum væri því þangað hafði hann hugsað sér að fara eftir sundið og var að reyna að drífa félaga sína uppúr lauginni til að fara í mollið. Þar sem klukkan var bara hálf níu gat ég ekki orða bundist og sagði þeim að það opnaði nú ekki fyrr en klukkan tíu á Glerártorgi. Þar sem ég hafði gefið færi á mér með þessari athugasemd brugðust þeir eldsnöggt við og spurði hvort ég væri héðan, jú ekki gat ég neitað því. Kom þá að bragði "Hvernig segirðu mjólk?" og átti nú aldeilis að hlægja að norðlenska framburðinum. Ég var nú ekki alveg tilbúin til að taka þátt í þeim leik, minnug þess þegar ég var krakki og frændi minn að sunnan var í heimsókn en þá upphófust miklar deilur um það hvort "tungumálið" væri réttara, norðlenska eða sunnlenska. Strákarnir svöruðu þá spurningunni sjálfir og sögðu mjólK nokkrum sinnum, svona til að sýna mér að þeir gætu nú alveg spjarað sig hér norðanlands. Í framhaldinu komu miklar pælingar um það að þeir þyrftu nú eiginlega að hafa "manual" til að geta átt samskipti við heimamenn á þeirra eigin tungumáli. Ég gaf nú lítið fyrir það og sagðist halda að þetta væri nú ekki svo voðalegt, fólk myndi örugglega skilja þá. En það var gaman að byrja daginn á þessu spjalli og enn meira gaman að sjá að ennþá höfum við norðlendingar einhver sérkenni í augum höfuðborgarbúa ;-)

þriðjudagur, 17. maí 2005

Fæ víst engin frammistöðuverðlaun

fyrir blogg-dugnað... Fátt markvert hefur gerst - en hvenær gerist það svo sem? Jæja, ég skal vera þæg - blogga og þegja (er það hægt?).

Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu fór hvítasunnuhelgin töluvert í vinnu hjá mér en þó voru ágætist hlé inn á milli, hlé sem notuð voru til að slæpast og tjilla með fjölskyldunni. Á sunnudeginum fórum við Valur á þrjár sýningar. Fyrst fórum vð á sýninguna Norðurland 2005 sem haldin var í Íþróttahöllinni, síðan fórum við á sýningu í Listasafninu - sem ég ætla sem minnst að tjá mig um - og loks kíktum svo á vorsýningu nemenda Myndlistaskólans.

Að morgni annars í hvítasunnu fórum við Valur í sund og lágum heillengi í leti þar í sólinni. Með okkur - eða einir sér, allt eftir því hvernig á það er litið - voru Ísak og tveir vinir hans. Þeir ætluðu nú eiginlega að fara einir í sund (en Ísak hefur aldrei áður farið einn í sund) og hjóluðu niður eftir. Svo "hittist" þannig á að við vorum í sundi á sama tíma... En ég sá að það er alveg hægt að sleppa hendinni af stráknum, hann spjarar sig vel í lauginni.

laugardagur, 14. maí 2005

Sumir dagar

nýtast eitthvað svo illa - ekki gott að segja af hverju, manni verður bara lítið úr verki. Eins og lesendur hlýtur að renna í grun þá var einmitt þannig dagur í dag hjá mér. Hann byrjaði reyndar ágætlega, ég fór í sund um níuleytið í morgun ásamt tveimur fylgdarsveinum þeim Val og Ísak - Andri unglingur var að lana hjá félaga sínum og vaknaði ekki fyrr en rúmlega tvö. Ég var hálf stirð eitthvað og synti ekki nema ca. 14 ferðir en þurfti að hafa mikið fyrir því þar sem 1 gamalmenni + 2 konur voru líka í brautinni og annað slagið reyndist nauðsynlegt að fara fram úr þeim gamla en það var erfitt að hitta á réttan tíma (þegar hvorug kvennanna var að koma á móti).

Eftir morgunkaffi (te + brauð og bakkelsi úr Bakaríinu við brúna) fór ég síðan út í skóla og prentaði út lokaverkefni annars nemendanna sem ég er að leiðbeina en meiningin var að eyða eftirmiðdeginum í að lesa þetta yfir. Það gekk nú svona og svona. Fyrst fékk ég heimsókn (sem var í besta lagi ef þú lest þetta Sunna mín ;-) og svo var það kaffi með bóndanum og svo var ég bara svo ægilega þreytt að ég þurfti aðeins að leggja mig - og svo þurfti ég að versla og fór í brjálæðið í Bónus (búðin full af fólki og engar kerrur lausar) og Nettó (til að kaupa það sem fékkst ekki í Bónus). Ég náði reyndar smá spretti í lokaverkefninu á meðan bóndinn var að elda dásamlegan kvöldverð (heimalagað pasta með sjávarréttum - hörpudiski, rækjum, chili, hvítlauk, hvítvíni og ólífuolíu) en eftir matinn nennti ég ekki neinu, nema blogga...

Nú er Valur búinn að taka "The Garden State" á leigunni og ljóst að ég nýti ekki kvöldið til lesturs - þá er bara eitt að gera - vakna snemma í fyrramálið og "carpe diem"!

fimmtudagur, 12. maí 2005

Ég fór að hlaða niður Opera

vafranum því Safari vill aldrei leyfa mér að skrifa íslenska stafi í fyrirsögninni á blogginu - og af því að það tók ca. 1-2 mín. að sækja + installera þá gleymdi gullfiskaheilinn minn algjörlega hvað ég ætlaði að fjalla um í bloggi dagsis. En þetta er nú meira bullið með þessa vafra. Er búin að sækja Firefox og kann ágætlega við hann en svo gerist það alltaf inn á milli að hann bara "gufar upp" hjá mér. Það er að segja, hann er ennþá inni en sama hvað ég smelli á táknmyndina - ekkert gerist. Það verður að koma í ljós hvernig ég kann við Opera. Mágur minn (sem er reyndar norskur og kannski hlutdrægur þess vegna) hefur notað Opera í mörg ár og eins og kemur fram á heimasíðunni þá hafa 2 milljónir manna sótt nýju útgáfuna, þannig að þetta hlýtur að vera almennileg græja!

Fór í gær og keypti mér nýjan hjálm svo ég gæti farið að hjóla. Keypti reyndar líka ný sundföt sem mér skildust á afgreiðslukonunni að kölluðust "tankini" og prufukeyrði þau í morgun. Þau eru í þessum bláa lit sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir (gullfiskaminni, sagði ég ekki) en er svo mikið í tísku núna. Spókaði mig að sjálfsögðu í nýja tankini-inu í morgun og sá a.m.k. tvær aðrar konur í nýjum og sumarlegum sundfatnaði. Það er ekki að spyrja að því, um leið og sólin tekur að skína þá skella allir sér í skæru litina. Annars er ótrúlega fyndið, ég er farin að taka smá lit - á því að fara í sund nokkra morgna í viku og synda í ca. 20 mín. Greinilega pottþétt leið til að ná sér í sólbrúnku á vetrarhvítan skrokkinn ;-)

þriðjudagur, 10. maí 2005

Æskuvinkona

mín er byrjuð að blogga - en hún hefur steingleymt að opna fyrir commentakerfið, þannig að það er engin leið að heilsa upp á hana í bloggheimum. Þessi skrif mín eru sem sagt vinsamleg ábending til hennar að gera mér kleift að kommentera hjá henni - en ekki vil ég nefna nafnið hennar hér, veit ekki hversu sýnileg hún vill vera ;-)

Ha, ha

mér var nær að vera að monta mig svona. Er náttúrulega komin með þvílíku verkina í mjaðmirnar eftir alla þessa göngu... Og í handleggina eftir skriðsundið... Hm, hvað get ég þá gert til að fá endorfínið til að flæða? Hjóla kannski? Það er best að sækja hjólið í geymsluna - þarf bara að fjárfesta í nýjum hjálmi en það er nú ekkert stórmál.

Er annars með próf í dag og er þegar byrjuð að hlakka til að fara yfir þau (eða þannig). Það eru 97 nemendur skráðir í prófið og eins og einn ágætur maður orðaði það í gær þá "er maður orðinn klepptækur eftir að fara yfir svona mörg próf". Það verður spennandi að sjá... nei, nei, með slatta af þolinmæði + hæfilegu magni af hreyfingu þá ætti þetta allt saman að ganga vel.

sunnudagur, 8. maí 2005

Hef loksins uppgötvað

áhrif endorfíns á líkamann og er nú haldin ólæknandi endorfín-fíkn. Þetta byrjaði allt fyrir nokkru síðan þegar ég var að drepast úr verkjum í skrokknum og neyddi sjálfa mig til að fara út í langa gönguferð. Áttaði mig á því þegar ég kom heim að verkjastillandi áhrif endorfínsins dugðu í nærri 3 tíma, vá þvílík uppgötvun! Hef síðan reynt að hreyfa mig markvisst tvisvar á dag: Á morgnana fer ég annað hvort í sund eða leikfimi og seinnipartinn fer ég út að ganga. Breyti reyndar eitthvað röðinni á þessu um helgar en svona er þetta í grófum dráttum. Stundum þarf ég reyndar að sparka í rassinn á mér til að hafa mig af stað en yfirleitt langar mig út. Er meira að segja öll að færa mig upp á skaftið, farin að ganga lengra og hraðar og dró t.d. Val með mér upp í Fálkafell í síðustu viku og blés varla úr nös (hm, verst að hann les þetta - kannski aðeins ýkt hjá mér....). Hann varð svo uppveðraður af þessari nýju þolmiklu eiginkonu að hann fór að dreyma um gönguferð í Glerárdal með viðkomu á Kerlingu í sumar. Það sakar ekki að láta sig dreyma ;-)

föstudagur, 6. maí 2005

Veit ekki alveg

hvað þetta er með mig og lausa hunda. Er alltaf að rekast á þá þegar ég er úti að ganga - síðast núna áðan. Fór með Unni vinkonu minni sem er með brjósklos og var búin að koma sér haganlega fyrir í sófanum þegar ég kom og dró hana með mér í gönguferð í kuldanum (ca. 1 stigs hiti). Þar sem ég vildi nú ekki alveg ganga frá henni (gerði það nefnilega um daginn þegar við fórum 3-4 km. í Kjarnaskógi) þá gengum við í þetta sinn bara rólega um götur nærliggjandi íbúðahverfis. Eftir smá spotta sá ég hvar Golden Retriver hundur lék lausum hala skammt frá okkur og fannst ég eitthvað kannast við kauða. Kallaði á hann (árangurslaust) en fór svo til hans og kíkti betur á hann. Ójú, var þetta þá ekki Bjartur, hundur vinafólks okkar sem hafði greinilega stolist að heiman.

Ég ákvað að gera eins og skátarnir, eitt góðverk á dag, og fylgdi Bjarti heim. Hann lét nú þokkalega að stjórn en ég hélt í hálsólina á honum og þurfti að ganga öll hokin til að toga ekki alltof fast í ólina. Þegar nær dró heimahögunum fór hann að verða viljugri og loks þegar húsið þeirra var í sjónmáli þá sleppti ég takinu og hann hljóp á harðaspretti heim. Einmitt í þeim svifum kom sonur hjónanna á reiðhjóli og hafði verið að leita að Bjarti og rétt á hæla honum kom svo heimilisfaðirinn sjálfur, líka á hjóli og með hundaól í hendinni. Þarna urðu mikilir fagnaðarfundir og ég var að sjálfsögðu hetja dagsins (eða þannig ;-)

miðvikudagur, 4. maí 2005

Skýr skilaboð

Á einni gönguferð minni um bæinn rak ég augun í forstofu-gluggaskreytingu sem vakti athygli mína. Ég held (veit ekki betur) að maðurinn sem er nýbúinn að byggja þetta hús sé piparsveinn. Þeir sem fylgjast með Innlit-Útlit vita að nú er í tísku að setja plastfilmu í glugga í stað gluggatjalda og gjarnan skreyta filmuna með munstri eða þá jafnvel einhverri áletrun s.s. götuheiti og húsnúmeri ef um forstofuglugga er að ræða. Piparsveinninn hefur valið texta, líklega úr einhverju popplagi (ekki mín sérgrein, veit ekkert úr hvaða lagi). Textinn hljóðar svo: "God only knows I may not always love you". Ég sá það alveg fyrir mér þegar hann kemur heim með einhverja dömuna eftir vel heppnað stefnumót, þá er þetta það fyrsta sem hún rekur augun í. Ef þetta eru ekki skýr skilaboð þá veit ég ekki hvað!

þriðjudagur, 3. maí 2005

Verð að segja

að þrátt fyrir að ég velti því stundum fyrir mér af hverju í ósköpunum ég er að halda úti bloggsíðu (NB! ekkert einhlítt svar við því) og eigi stundum við blogg-ritstíflu að eiga, þá finnst mér þessi bloggmenning afskaplega skemmtilegt fyrirbrigði. Fyrir utan þann kost að geta tjáð sig um lífið og tilveruna og fengið viðbrögð þegar það á við, þá kynnist maður mörgu nýju fólki og fær innsýn í þeirra líf og tilveru.

Og nú er ég loksins komin að aðalatriðinu; þegar einhver bloggari hættir skyndilega að blogga, hverfur sá hinn sami úr bloggheimum og allt í einu - ekkert meir! Ekki aðeins er þetta svipað því að horfa á spennandi bíómynd þegar einhver slekkur skyndilega á sjónvarpinu - heldur saknar maður viðkomandi manneskju, sérstaklega ef hún hafði einhverja þá kosti til að bera sem urðu til þess að maður heimsótti síðuna hennar daglega til að sjá hvort nú væri komin ný bloggfærsla.

Tilefni þessa pistils míns er það að Gulla hefur tekið sér hlé frá bloggskrifum í bili og ég sakna þess að geta ekki kíkt við hjá henni og séð t.d. hvort hún er búin að taka einverjar nýjar myndir eða hvernig hún er af vefjagigtinni. Ég get bara vonað að þetta hlé verð sem styst svo við fáum sem fyrst aftur að njóta samvistanna við Gullu ;-)

Það er svo skrýtið

þegar maður lendir í því að eiga allt í einu "engin" föt til að vera í. Núna vantar mig gjörsamlega ALLT fatakyns; nærföt, buxur, boli, skó, peysur, pils, blússu og utanyfirflík. Ég keypti mér reyndar tvennar gallabuxur í síðustu viku og er búin að vera stanslaust í öðrum þeirra síðan en líklega mun ég skila hinum. Þetta er örugglega í fyrsta sinn á ævinni sem ég kaupi tvennar buxur í einu og sést vel á því hvernig ástandið er. Það er sem sagt neyðarástand á morgnana þegar ég reyni að finna eitthvað til að fara í.

Vandamálið er bara að mér finnst svo hrikalega leiðinlegt að fara í búðir hér á Akureyri. Í fyrsta lagi er ekki ein einasta spennandi fataverslun fyrir konur á mínum aldri hér í bænum og í öðru lagi þá er bara svo leiðinlegt að máta föt! Sé samt að ég þarf að ganga í þetta verkefni hið fyrsta því við svo búið má ekki standa.

mánudagur, 2. maí 2005

Ég fékk ansi skemmtilegt símtal í dag

en það var frá stelpu sem kláraði viðskiptafræðina í fyrra og var að leita sér að vinnu. Hún vissi af fyrirtækinu okkar Bryndísar og datt í hug að athuga hvort okkur vantaði ekki starfskraft. Ég varð því miður að hryggja hana með því að við værum svo gott sem hættar starfseminni - en mér fannst samt svo frábært að hún skyldi hafa samband því það hlýtur að þýða að henni hafi litist vel á okkur og það sem við vorum að gera ;-)

sunnudagur, 1. maí 2005

Eins og glöggir lesendur

síðunnar hafa vafalaust tekið eftir þá hef ég einhvern veginn ekki verið í blogg-gírnum undanfarið. Veit ekki sjálf hvað veldur - en nú skal gerð tilraun til að ráða bót á málinu...

Helgin hefur verið nokkuð viðburðarík, við fórum út að borða á Friðrik V. í gærkvöldi og í fyrrakvöld var árshátíð/vorfagnaður starfsfólks háskólans. Þar bar hæst Idol keppni milli deilda og verð ég að segja að rektor stóð sig sérlega vel í dómnefndinni. Eftir matinn lék síðan HA-bandið undir dansi en allir meðlimir hljómsveitarinnar (nema einn) eru starfsfólk háskólans.

Annars ber það helst til tíðinda að uppáhaldsdóttirin (svo enginn haldi að ég sé að gera upp á milli barnanna minna þá upplýsist hér með að hún er jafnframt eina dóttirin) er byrjuð að blogga og verður spennandi að fylgjast með því hvað hún tekur sér fyrir hendur á ritvellinum. Hennar helsta vandamál í lífinu er að hún veit ekki hvað hún á að læra og er það vandamál ekki alveg óþekkt hjá mömmu hennar heldur!