Er búin að endurheimta eiginmanninn úr veiði, sonum okkar til mikillar ánægju því þá fá þeir loks ætan bita á matmálstímum á ný. Ég er búin að átta mig á því að þeir eru orðnir alltof góðu vanir og matur sem þótti frambærilegur hér áður fyrr, þykir það ekki lengur, því sælkerakokkurinn er alltof oft með eitthvað gott að borða. Sem dæmi má nefna þá keypti ég heilgrillaðan kjúkling með frönskum og gosi á tilboði í Hrísalundi um helgina og þeir snertu varla á þessum "kræsingum". Frönskurnar þóttu vondar og kjúklingurinn þurr! Og ég var sú eina sem borðaði tikka masala sósuna (úr krukku) með. Heimatilbúin pítsa féll reyndar vel í kramið en svokallað "hátíðarkjöthakk" gerði það hins vegar ekki. Það þarf alla vega enginn að efast um mikilvægi fjölskylduföðursins hér á heimilinu :-) Mín verk s.s. að þvo þvottinn, laga til og þrífa, falla hins vegar óhjákvæmilega í skuggann, en svona er þetta víst bara...
Annars hafði ég lúmskt gaman af því þegar nýráðinn forstöðumaður Ferðamálaseturs hringdi í mig vegna heimasíðu stofnunarinnar. Hann hafði frétt að ég hefði verið að vinna í síðunni í fyrrasumar og hélt að ég væri algjör gúrú í þessum efnum (smá djók!). Ég fór og kíkti á hann i morgun og sá að það sem hann var að bögglast með hafði ég ekki heldur getað leyst í fyrra. Ég var hins vegar svo heppin að fá aðstoð hjá honum Jóa sem var þá að leysa af á Gagnasmiðjunni en er nú útskrifaður tölvunarfræðingur. Þannig að ég gat ekki annað en sagt manninum eins og satt var, að mér hefði nú ekki tekist þetta á eigin spýtur heldur fengið aðstoð. Hann vildi þá vita hjá hverjum og nú er bara spurning hvað hann gerir við þær upplýsingar, hvort Jói greyið fær símtal...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli