sunnudagur, 31. október 2010

Haustlitadýrð við Mývatn


Það er eitt svolítið skrítið við ljósmyndun sem áhugamál. Maður fer á stúfana og tekur hellinga af myndum. Heima á ný er sest við tölvuna og afraksturinn skoðaður. Þá gerist það oftar en ekki að við fyrstu sýn líst mér ekki á neinar af myndunum sem ég hef tekið og dett í smá óánægjukast yfir þessum lélega árangri. En svo líður tíminn og einn góðan veðurdag sest ég aftur yfir þessar sömu myndir og sé þá jafnvel fleiri en eina sem er bara allt í lagi. Þessi mynd er einmitt dæmi um slíkt. Mér sjálfri finnst hún reyndar ekkert meiriháttar, en margir eru hrifnir af svona "speglunar" myndum og jú haustlitirnir standa alltaf fyrir sínu.

Annars er bara allt gott í fréttum svoleiðis. Við vorum jú með helgargesti úr höfuðborginni og það var voða notalegt þrátt fyrir pínu leiðinlegt veður í gær. Valur bauð uppá heilmiklar kræsingar bæði á föstudags- og laugardagskvöldið, eins og hans er von og vísa, og ég náði svona nokkurn veginn að halda haus. Við fórum á margar listasýningar í gær og fengum okkur að danskt smörrebröd í Hofi í hádeginu. Í gærkvöldi horfðum við Edda á Mamma Mia á meðan bræðurnir hlustuðu á tónlist í Hellinum.

Í dag svar svo kóræfing samkvæmt sunnudagsvenju og ég fór að sjálfsögðu. Ég sé að það sem mun reynast erfiðast fyrir mig meðan ég er að komast inn í þetta allt saman, er að ná að halda mínum sópran 2 tón, og passa að elta ekki sópran 1 uppá háu nóturnar. Í dag var ég að minnsta kosti ekki alveg við hliðina á sópran 1 svo það gekk mun betur en síðast. En í staðinn var konan við hliðina á mér alveg uppgefin að reyna að halda sér á réttum stað, svo þetta er ekki vandamál sem ég er ein um að glíma við.

Og nú held ég að ég fari barasta í háttinn. Það er annasöm vika framundan því Glerártorg á 10 ára afmæli í vikunni, sem haldið verður uppá í vikunni. Og já Sunna á afmæli á morgun!

miðvikudagur, 27. október 2010

Er að baka brauð

Já maður reynir að rífa sig upp úr aumingjaskapnum... Við Valur fórum og fengum okkur sushi í hádeginu og þá varð mér svona agalega illt í maganum á eftir. Ekki af því fiskurinn hafi ekki verið ferskur, því það var hann, líklega hef ég bara ekki þolað wasabi maukið eða sojasósuna eða súrsaða engiferið eða ... Alla vega þá líður mér miklu betur núna og ákvað að taka mig aðeins saman í andlitinu og baka. Ég hafði nýlega fengið senda í tölvupósti uppskrift frá Sollu hollu og ákvað að prófa hana. Og svo ég hafi þetta nú einhvers staðar aðgengilegt þá kemur uppskriftin hér:

Gróft og gott speltbrauð

2 ½ dl gróft spelt
2 ½ dl fínt spelt
1 dl sesamfræ
1 dl sólblómafræ
1 dl kókosmjöl
1 dl saxaðar hnetur
1 msk vínsteinslyftiduft
½ tsk salt
2 -3 msk hunang
2-2 ½ dl sjóðandi vatn
1 msk sítrónusafi
Hitið ofninn í 180°C, blandið þurrefnunum saman í skál + hunang, hellið vatni og sítrónusafa útí og hrærið þessu saman, skiptið í tvennt, setjið í 2 meðalstór smurð form eða 1 í stærra lagi. Bakið við 180°C í um 30 mín , takið brauðið úr forminu og haldið áfram að baka í 10 mín.
Svo er bara spurning hvernig brauðið bragðast.

Bras og þras í höfðinu á mér í dag

Eins og svo oft vill verða þegar skrokkurinn segir pass en hugurinn er ósáttur við svoleiðis ræfilshátt.

Ég vaknaði á tilsettum tíma í morgun og dreif mig í sund um leið og Ísak fór í skólann. Mér gekk nú bara nokkuð vel að koma mér út úr húsi, svona miðað við að ég var gjörsamlega að drepast úr þreytu eftir vinnu í gær. Þá gerði ég nákvæmlega ekki neitt nema bara hanga. Hékk í tölvunni, hékk fyrir framan sjónvarpið, hékk við eldhúsborðið og gerði krossgátu. Þið skiljið hvað ég er að fara...

Það var ósköp ljúft í sundinu, ég synti mínar tíu aumingja-ferðir og fór svo í pottinn og gufu samkvæmt venju. Held að ég hafi samt verið einum of lengi á báðum stöðum því ég var orðin eins og slytti að því loknu. Reyndi að fara undir köldu sturtuna en það var algjör kattarþvottur þar á ferð. Það voru hressar konur í búningsklefanum og ég var að tala um það hvað aldurssamsetningin hefði breyst frá því ég byrjaði að synda svona á hverjum degi. Munur að vera ekki lengur langyngst :)

Þegar ég kom heim var ég svo lúin eitthvað að ég var ekki að nenna að fá mér morgunmat heldur lufsaðist niður fyrir framan tölvuna (já ég veit, meiri bölvaldurinn þessi tölva) í hálftíma eða svo. Þar til hungrið rak mig á fætur og ég fékk mér mitt haframjöl. Ekki dugði það þó til að hressa mig og eftir að hafa farið aftur í tölvuna í smá stund lá leiðin rakleiðis inn í rúm og þar hef ég legið þar til núna (að ég sest aftur fyrir framan tölvuna - vá, held að ég verði barasta að fara í tölvubindindi).

Eins og staðan er núna, þá er ég ekki búin að taka úr uppþvottavélinni né laga til í eldhúsinu, og já ekki búin að gera neitt yfirhöfuð annað en fara í sund í dag - já og anda inn og út. Reyndar setti ég í eina þvottavél áður en ég lagði mig - og þyrfti að hengja upp þvottinn. Svo þyrfti ég sem sagt að græja eldhúsið og helst laga til í húsinu. Nota tímann því við erum að fá gesti um helgina. Guðjón bróðir Vals og Edda konan hans ætla að heiðra okkur með heimsókn, nokkuð sem gerist afar sjaldan. Þannig að það væri nú skemmtilegra að húsfreyjan drattaðist til að hafa sæmilega snyrtilegt þegar gestina ber að garði. Það er bara dálítið erfitt þegar maður kemst varla milli herbergja fyrir þreytu.

Þetta eru líklega  eftirköst eftir ferðina suður í síðustu viku. Ég svaf náttúrulega illa bæði nóttina fyrir Reykjavíkurferðina, á hótelinu, og nóttina eftir að ég kom heim. Og þessa daga vorum við alveg á fullu, plús að ég fór beint í vinnu á föstudagsmorgninum og var líka að vinna á laugardeginum. Var reyndar í fríi á sunnudeginum og hann var bara alveg þokkalega góður hjá mér. En á mánudagurinn, gærdagurinn og dagurinn í dag hafa verið hrikalega þungir. Svona er þetta víst bara, maður þarf að borga fyrir allt sem maður tekur út úr "orkubankanum" með háum vöxtum og nú er ég farin að borga háa yfirdráttarvexti, svona ef maður heldur áfram með þessa líkingu. Og það eina sem dugar í því máli er að safna orku aftur - með því að hvíla mig. En einhvern veginn finnst manni að fullfrísk manneskja á besta aldri eigi ekki að þurfa að sitja á rassinum allan daginn og hvíla sig. Sem sagt, enn og aftur kemur í ljós að ég get seint sætt mig við að vera svona og er með brjálaða fordóma gagnvart eigin sjúkdómi.

Nú er ég aldeilis búin að ausa úr mér og ætla að drífa mig út úr þessu volæði og hitta Val í hádeginu niðri í bæ ;-)

mánudagur, 25. október 2010

Same old, same old... svefnleysi


Ég er svo engan veginn að fatta hvað það er sem ræður því hvort ég næ að sofna á kvöldin eða ekki. Síðustu tvær næturnar hef ég sofið eins og ungabarn og líka gengið mjög vel að sofna. Í kvöld fór ég því mjög afslöppuð inn í rúm og beið eftir því að svefninn kæmi - en hann kom bara ekki neitt. Eftir að hafa legið og bylt mér í rúman klukkutíma gafst ég upp og fór fram. Reyndar var maginn eitthvað að plaga mig eins og stundum áður, svo kannski var það ástæðan fyrir því að ég náði ekki að sofna. Þannig að ég fékk mér lífræna AB jógúrt áðan og vonandi róast mallakútur aðeins við það.

Í morgun spjallaði ég við Hrefnu á skype en svo fórum við Valur út á Hjalteyri í ljósmyndaferð. Veðrið var nú svona la la til að byrja með, sól á köflum og kalt. Það stóð á endum að þegar við vorum orðin svöng og ætluðum að drífa okkur heim fór sólin að skína og loks komið þetta fína ljósmyndaveður. En þá vorum við nú búin að vera þarna í dágóða stund og auðvitað að taka myndir þó skilyrðin væru ekki alveg fullkomin.

Ég eignaðist tvo vini, eða aðallega einn, í ferðinni. Það voru tveir hundar sem gengu lausir en þó báðir með ólar svo líklega hafa þeir átt heima í einhverju af húsunum á Hjalteyri. Stærri hundurinn var tík og greinilega nýlega búin að eiga hvolpa því spenarnir á henni voru svo áberandi stórir. Ekki veit ég nú hvaða tegund þetta var en hún var frekar smávaxin en samt mun stærri en litla dýrið sem fylgdi henni. Sá hundur var svipaður á stærð og púðluhundur - en ekki veit ég heldur hvaða tegund hann var. Þekki greinilega afar fáar hundategundir. Ég er sem betur fer ekki hrædd við hunda og hef bara nokkuð gaman af þeim, þannig að það plagaði mig ekkert þó þau eltu mig á röndum hvert sem ég fór. Tíkin var þó öllu frekari á athyglina og vildi í sífellu láta klappa sér. Henni var nú reyndar svo kalt á tímabili að hún hríðskalf, enda var ansi napurt þarna alveg niðri við sjóinn í norðannepjunni. Það var líka búið að raka megnið af feldinum af henni svo hún hafði ekki sinn venjulega hlýja pels. Ég velti því fyrir mér hvort hún hafi kannski verið með ofnæmi eins og hundur vinkonu minnar, því ég sá enga aðra ástæðu til að raka hana.

Það er nú þannig með þessa ljósmyndara að þeir elta myndefnin eins og þeir geta og ég er engin undantekning þar á. Mér sýndist alveg gráupplagt að klifra uppá varnargarðinn sem lá meðfram vitanum og ná þannig mynd þegar brimið væri að skella á steinunum, með vitann í baksýn. Þannig að uppá varnargarðinn fór ég og byrjaði að taka myndir. Heyrði eftir smá stund miklar drunur í briminu en leit ekki við heldur beið eftir gusunni sem myndi koma. Þá byrjaði tíkin að gelta af miklum móð og fyrr en varði skall sjórinn á mér. Reyndar skvettist bara hressilega á þann fót sem nær var sjónum en brimið fór alla leið uppá garðinn áður en það sogaðist út aftur. Og hundurinn gelti og gelti þar til ég klifraði niður og var komin úr allri hættu. Þetta fannst mér nú svolítið merkilegt. Svo nálguðumst við Val þar sem hann stóð og tók myndir og aftur byrjaði hundurinn að gelta og ætlaði nú að vara mig við þessum manni. Frekar fyndið í ljósi þess að hún þekkti mig ekki frá því áður.

Og svona til gamans þá má sjá þessa nýju vinkonu mína hér á myndinni.

laugardagur, 23. október 2010

Stundum finnst mér ég þurfa að blogga

en hef svo ekkert að segja. Núna er einmitt þannig ástand á mér. Ég er bara hálf andlaus í augnablikinu og á leið í háttinn. Dagurinn var samt fínn. Ég var að vinna frá ca. 10-14.30 og hafði nóg að gera. Bæði við að taka upp vörurnar sem við Sunna komum með úr höfuðborginni, og eins að afgreiða því það var fullt af fólki sem kom í búðina. Margt utanbæjarfólk og ég skildi ekki alveg hvaðan allt þetta fólk kom eiginlega. Tja, ekki fyrr en ég fór á kóramótið í Hofi seinnipartinn og sá allan fjöldann sem þar var af fólki. Já og sumir þeirra höfðu meira að segja komið í Potta og prik fyrr um daginn.

Það var sem sagt heljarinnar kóramót en ég söng ekki með kórnum mínum af þeirri einföldu, eða tvöföldu ástæðu, að ég bæði var að vinna og eins taldi ég mig ekki reiðubúna að syngja með þeim svona nýbyrjuð. Aðallega útaf einu ákveðnu lagi reyndar. Það er japanskt barnalag og ég held að þær hafi byrjað að æfa það fyrir tveimur árum síðan, svo það er nú ekki von að ég hafi náð því alveg einn tveir og bingó. En það var rosa gaman að fara og horfa á þær og ég var bara voða stolt af því að tilheyra þessum kór þegar ég sá þær á sviðinu.

Valur eldaði svo dýrindis kvöldmat eins og hans var von og vísa og kvöldinu eyddum við fyrir framan imbann. Horfðum fyrst á breskan sjónvarpsþátt um Barnaby og svo sat ég heiladauð og horfði á einhverja hundleiðinlega ameríska bíómynd. Valur hafði náttúrulega vit á því að standa upp og fara að gera eitthvað gáfulegra en ég bara lá þarna eins og klessa þar til myndin var búin. Svo er sunnudagur á morgun og frí frá vinnu. Spurning hvernig maður notar tímann fram að kóræfingu. Og nú er ég farin að sofa þó fyrr hefði verið.

þriðjudagur, 19. október 2010

Enn einn dýrðardagurinn


Þó Súlur hafi reyndar gránað aðeins í nótt, enda var hitastigið um frostmark í morgun. En úti skín sólin þó lágt á lofti sé og örlítill andvari sér um að hreyfa greinar trjánna. Ég væri alveg til í að fara út að taka myndir núna en hef ekki tækifæri til þess þar sem ég er að fara á hárgreiðslustofu að láta lita og klippa pínu pons. Ég ætla að halda þessu hársöfnunarátaki til streitu enn um sinn, það þýðir ekkert að gefast upp strax... En ég var sem sagt að skoða gamlar myndir af mér og fannst ég þá miklu fínni með stutt hár. Já það er erfitt að gera sumum til hæfis.

Við Sunna erum að fara í skreppitúr til höfuðborgarinnar á morgun að kíkja á birgjana okkar og vonandi taka með okkur eitthvað af vörum norður. Það er ágætt að nota tækifærið og draga úr sendingarkostnaði sem er orðinn all svakalega hár. Við ætlum sem sagt að keyra suður og leggja af stað eldsnemma í fyrramálið og koma heim á fimmtudagskvöld. Svo er vinna á föstudag og laugardag og ég hef pínu áhyggjur af því að þetta komi til með að verða frekar mikið fyrir frúna, en þetta verður nú gaman líka, ekki má gleyma því.

Ég hef verið að lesa undanfarið um baráttu fólks við vefjagigt og síþreytu og sýnist að eitt sem skiptir gríðarlegu máli, sé að skipuleggja líf sitt þannig að maður geri ráð fyrir að hvíla sig nóg. Til dæmis ef maður veit að maður er að fara að gera eitthvað orkukrefjandi, að maður geri ráð fyrir hvíldartíma bæði fyrir og eftir. Æ og eitthvað fleira sem ég hef ekki tíma til að tala um núna af því ég er að drífa mig til hennar Ernu hárgreiðslukonu.

laugardagur, 16. október 2010

Sælkerasúpa

Já kokkurinn er kominn heim og byrjaður að sýna snilli sína í eldhúsinu enn á ný. Í kvöld eldaði hann alveg dásamlega fiskisúpu og við fengum okkur hvítvínstár með. Ísak reyndar var ekki alveg að falla fyrir súpunni svo hann borðaði afgang af pítsu sem var til í ísskápnum, en við hin borðuðum með bestu lyst.

Annars  er  ég í fríi í dag, nokkuð sem ætti að vera ósköp ljúft, en er minna ljúft þegar vefjagigtar þreytan er að yfirbuga mig. Það er voða lítið gaman að vera í fríi og geta ekkert gert sér til skemmtunar. En svona er þetta bara og ekki seinna vænna að fara að sætta sig við það. Við Valur fórum að vísu saman í Bónus og var það eina útiveran í dag. Vonandi verður morgundagurinn betri, eins og oft er ef ég hef hvílt mig heilan dag. Til dæmis var ég líka í fríi á miðvikudaginn var og sá dagur fór nánast eingöngu í hvíld, og þá var ég aðeins hressari á fimmtudeginum. Þetta er í raun alveg fáránlegt ástand og engin leið fyrir fólk að skilja það sem ekki hefur reynt það á eigin skinni. En já það sem ég hef gert í dag fyrir utan að fara í Bónus er að brjóta saman þvott, taka úr uppþvottavélinni, leggja á borð fyrir kvöldmatinn og vinna í því að koma rennilás í eiturgrænu peysuna mína. Já og tala aðeins við Önnu í símann, Hrefnu á skype og mömmu í símann núna í kvöld. Að öðru leyti hef ég bara ekkert gert í dag, ekki einu sinni lagt mig, og ég hef eiginlega ekki hugmynd um það í hvað tíminn hefur farið. Ég sem var vöknuð klukkan átta í morgun...

En sem sagt, það kemur dagur eftir þennan dag og "I will survive" :-)

P.S. Sorry börnin mín góð, ég veit að það er hundleiðinlegt að lesa svona þreytublogg.

fimmtudagur, 14. október 2010

Sauðfé á beit í sólinni


Mér fannst þetta svo skemmtileg litablanda þegar ég sá þessar rollur við Mývatn um daginn, að ég stóðst ekki að mynda þær. Í sömu ferð tók ég reyndar líka myndir af hesti og kúm, svo hinum ýmsu dýrategundum var bara gert nokkuð hátt undir höfði.

Ég hef verið svo lánsöm að geta farið töluvert út að mynda í þessu dásemdarveðri sem leikið hefur við okkur undanfarið og vonandi komumst við Valur í smá ljósmyndatúr á laugardaginn. Hann kemur sem sagt heim á morgun, eftir 13 daga fjarveru, en tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða finnst mér.

Í kvöld fór ég á tónleika í Hofi, nýja menningarhúsinu. Það voru Margrét Bóasdóttir (sem er einmitt ættuð úr Mývatnssveit) sem söng, Daníel Þorsteinsson (stjórnandinn okkar í kvennakórnum) sem lék undir á píanó, og Þráinn Karlsson leikari, sem las ljóð. Lögin voru eftir Jón Hlöðver Áskelsson en hann á 40 ára starfsafmæli um þessar mundir. Þetta var afar sérstakt en skemmtilegt. Mér fundust lögin hans mörg hver afskaplega falleg en erfitt að útsetja þau til söngflutnings, sérstaklega þegar ljóðin voru held ég öll órímuð. En já þetta var fínt og fullur salur af fólki. Ég kannaðist við ótrúlega mörg andlit, og sat við hliðina á einni kórsystur.

Svo gekk ég heim í kvöldkyrrðinni. Það hafði rignt fyrr í dag og lyktin af gróðrinum lá í loftinu. Og þögnin var algjör fyrir utan stöku bíl sem ók framhjá mér. Það eina sem heyrðist var fótatak mitt og brakið í laufinu sem ég steig ofan á, en nú er laufið óðum að falla af trjánum. Jamm, það er nú ósköp notalegt að ganga úti í myrkri þegar veðrið er svona fallegt. Ég þarf bara að fá mér endurskinsmerki.

þriðjudagur, 12. október 2010

Ég var dugleg og dreif mig í Mývatnssveitina

Stillti klukkuna á hálf átta og hafði hugsað mér að vera farin af stað um hálf níu leytið. Það tókst nú ekki alveg því ég var svo þreytt þegar ég vaknaði að ég lá í rúminu til átta... En hafði mig samt af stað og var ánægð með það. Olíuljósið í bílnum var reyndar að hrella mig. Það hafði byrjað að gefa skilaboð fyrir einni eða tveimur vikum síðan, en ég hafði ekki verið að stressa mig neitt yfir því meðan það blikkaði bara. Um leið og ég var komin á Svalbarðsströndina var það hins vegar farið að loga stöðugt og það stressaði mig nú pínulítið. En áfram hélt ég samt. Var komin í Mývatnssveit um tíuleytið og ók um, stoppaði, fór út úr bílnum og gekk um - já og tók myndir í gríð og erg. Hins vegar þótti mér ráðlegra að kaupa olíu í Reynihlíð en þá byrjaði nú fjörið því samkvæmt smurbókinni átti að vera Castrol olía á vélinni, en hún fékkst ekki hjá þeim í Strax. Svo ég ætlaði að hringja í Tryggva, eina bifvélavirkjann sem ég þekki, og spyrja hann hvaða olíu mætti nota í staðinn, en hann var þá ekki heima í augnablikinu. Starfsfólkið hringdi þá í bifvélavirkja í sveitinni og fékk svar fljótt og vel. Ég afrekaði að hella sjálf olíunni á vélina og varð alveg ótrúlega skítug af því að skrúfa lokið af og á.

Það var kóræfing klukkan fimm og klukkan fjögur átti að vera fundur í kórnum, svo ég ætlaði að leggja af stað heim aftur um tvöleytið, þannig að ég hefði góðan tíma til að hvíla mig og fara í sturtu fyrir fundinn. En veðrið þarna var svo dásamlegt að ég hafði mig ekki af stað heim á leið fyrr en uppúr hálf þrjú. Heimferðin gekk eins og í sögu og þegar ég lagði bílnum á stæðinu heima var kallað á mig. Það var þá Rósa vinkona, sem hafði einmitt verið stödd í Mývatnssveit um helgina. Svona er þetta nú stundum fyndið. Verst bara að ég gat svo lítið spjallað við hana af því ég þurfti að drífa mig heim í sturtu fyrir fundinn.

Eitt af því sem rætt var um á fundinum var kóradagur í Hofi þann 23. október. Þá er kóramót og kórsöngur mun óma liðlangan daginn í nýja menningarhúsinu. Kvennakórinn syngur, bæði einn og sér, en líka í lokin með öllum hinum kórunum. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt, en bæði er þetta vinnuhelgi hjá mér og eins finnst mér ég ekki kunna lögin nógu vel til að geta sungið þau "utanbókar". Það er þó aðallega eitt lag sem ég stend alveg á gati í, japanskt barnalag, en ég er orðin slarkfær í flestum hinna. Það er að segja flestum þeirra sem á að syngja á kóradeginum. Það eru ennþá fullt af lögum sem ég á alveg eftir að læra. En æfingadagurinn á Svalbarðseyri hefur greinilega skilað sínu, það er alveg ljóst. Ég hef meira sjálfstraust eftir hann og bara læt vaða. Ég ýjaði að því við konuna við hliðina á mér að hún léti mig vita ef ég væri alveg úti að aka, og hún sagði þá að ég stæði mig alveg rosalega vel miðað við að vera svona nýbyrjuð. Þá varð Guðný voða montin... tralalala.

Annað sem er hugsanlega í gangi hjá okkur þann 23. okt. er að Guðjón bróðir Vals og Edda konan hans eru að spá í að koma í heimsókn. Það er þó ekki ljóst hvort það er sú helgi eða næsta. En það verður gaman að fá þau, það er ekki svo oft sem við fáum "sunnanfólk" í heimsókn :-)

laugardagur, 9. október 2010

Sjöundi vinnudagurinn í röð í dag

Já svona er það að vera eigin herra... Einn daginn vann ég reyndar bara tvo tíma, því þá var ég svo ónýt að ég bað Andra að vera hluta af tímanum. En já ég vann fyrir Andra síðasta sunnudag af því hann var veikur, svo það er nú að hluta ástæðan fyrir þessum sjö dögum í röð. Laugardagana þurfum við jú alltaf að vinna til skiptis. Það var dásamlegt þegar við vorum með þannig skipulag að við unnum bara þriðja hvern laugardag, en það hefur ekki verið þannig síðan í vor. Ég er nú ekki að vorkenna mér, enda eins og ég segi, ef maður er með fyrirtæki þá þýðir ekki annað en standa sína pligt. Hins vegar er ég afskaplega fegin að eiga frí á morgun, svo ekki sé meira sagt :)

Þá er bara spurningin í hvað frídagurinn á að fara? Mig langar svolítið að fara í Mývatnssveit að taka myndir en veit ekki alveg hvort ég nenni því. Aksturinn fram og tilbaka tekur jú tvo tíma, og ég þarf að vera mætt á kóræfingu klukkan fjögur. Æfingin sjálf byrjar reyndar ekki fyrr en klukkan fimm en fyrst er fundur. Og ég hefði þurft að æfa lögin betur. Þau eru bara svo mörg að mér fallast eiginlega hendur og veit ekki á hvað ég á að leggja áherslu. Þetta eru jú bæði ný lög og svo eldri lög líka. Kannski best að leggja áherslu á nýju lögin, það er auðveldara að syngja með í þeim gömlu, því hinar konurnar kunna þau svo vel.

Það gengur bara vel hjá okkur hér heima þó kokkurinn sé víðsfjarri. Í gær elduðum við Ísak pylsupasta og í dag elduðum við Andri mexíkóska kjúklingasúpu. Það var nú pínu erfitt því hún á að vera bragðmikil og Andri vill helst hafa matinn sterkan, en ef hann er of sterkur vill Ísak ekki borða hann. Þannig að það vantaði nú pínu "piff" í súpuna af því ég var að reyna að passa uppá að Ísak gæti borðað hana. En já það er spurning hvernig verður með mat á morgun því þá er ég jú á kóræfingu til klukkan sjö...

Í morgun var fallegt veður þegar ég vaknaði en lágskýjað. Þó sá ég að sólin skein uppi á Glerárdal, svo ég dreif mig þangað í stuttan ljósmyndaleiðangur fyrir vinnu. Hitinn var nú ekki nema 4 gráður en annars var mjög milt veður. Þegar ég gekk þarna um varð mér hugsað til þess hvað ég væri nú lánsöm. Því þótt ég sé með minn lata fót eftir brjósklosið, og svo óendanlega þreytt á þessari vefjagigt, þá get ég verið úti í náttúrunni.  Ég get gengið úti og andað að mér þessu dásamlega hreina lofti okkar og horft á fegurðina. Fyrir það er ég þakklát. Og með það í huga fer ég í háttinn. Góða nótt :-)

fimmtudagur, 7. október 2010

StöðuuppfærslaGyllt trjágöng, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já já já, það er annað hvort í ökkla eða eyra með blogg virknina hjá mér, eins og venjulega. En ég dreif mig sem sagt út í morgun og rúntaði aðeins um bæinn í leit að myndefni. Það gekk nú svona og svona, aðallega vegna þess að ég var enn að drepast úr höfuðverk og bara alveg hrikalega sloj eitthvað. Ég rakst á hana Berglindi úr ljósmyndaklúbbnum, sem var að sjálfsögðu líka úti með myndavél :) Fyrst ók ég aðeins um innbæinn og fór svo inn að gömlu gróðrarstöðinni. Þar rölti ég um og fór meðal annars upp að gróðurhúsunum ofan og vestan við gamla húsið. Þar er þessi mynd tekin, fyrir ofan gróðurhúsin. Mér fannst nú ekki leiðinlegt að ganga þarna um því ég vann jú í garðræktinni nokkur sumur sem unglingur og þá var maður oft á þessu svæði þarna. Það rifjaðist ýmislegt skemmtilegt upp fyrir mér, enda þótti mér afskaplega gaman að vinna í garðræktinni.
Síðan ók ég fram í fjörð og dólaði mér meðfram Eyjafjarðaránni og inn að Hrafnagili. Fór út úr bílnum nokkrum sinnum og rölti um með myndavélina í góða veðrinu. Það er að minnsta kosti ekki hægt að segja annað en ég hafi reynt að láta mér líða betur, en það gekk víst ekki alveg upp. Þegar ég kom heim var ég alveg úrvinda og bað Andra að byrja í vinnunni fyrir mig í dag. Hann fór klukkan tvö og ég fer svo klukkan fjögur. Svo ég ég búin að biðja Andra að fara í Bónus og Ísak ætlar að elda, þannig að þetta verður í góðu lagi allt saman. Sem minnir mig á það að ég á eftir að gera innkaupalista og finna uppskriftina fyrir Ísak. Já og taka mig til fyrir vinnuna. Þannig að það er best að ég hætti þessu rausi.

Gamla þreytta

Ég dreif mig sem sagt í ljósmyndaklúbbinn í gær og við fórum allar og heimsóttum Heiðu, sem er eini kven-atvinnuljósmyndarinn hér á Akureyri. Þar vorum við í nærri fjóra klukkutíma, hvorki meira né minna, eða fram að miðnætti. Það var mjög athyglisvert að sjá hvað hún er að gera og heyra hennar sjónarmið varðandi atvinnumál ljósmyndara, svo dæmi sé tekið. Eins sýndi hún okkur svolítið hvernig hægt er að vinna myndir í photoshop, og er það mun meiri vinna en margur telur.
Heim var ég komin skömmu eftir miðnættið en þá byrjaði þetta venjulega með að geta ekki sofnað fyrr en seint og um síðir. Hef nú samt örugglega verið sofnuð um tvöleytið. Vaknaði svo til að vekja Ísak um hálfátta í morgun og var þá hreinlega ónýt af þreytu. Hás og með dúndrandi höfuðverk og illt í öllum skrokknum. Þannig að ég dreif mig í rúmið fljótlega aftur til að ná aðeins betri hvíld. Núna er þetta dásemdarveður úti, sólin skín á alla haustlitina, það er örlítil gola og stöku ský á himni. Ætli málið sé ekki bara að fá sér morgunmat og koma sér svo út. Hlýt að hressast við það.

miðvikudagur, 6. október 2010

Menningarhúsið HofSíðsumar, originally uploaded by Guðný Pálína.
Svona fyrir brottflutta Akureyringa sem lesa bloggið mitt þá kemur hér mynd af hinu nýja menningarhúsi bæjarbúa. Hvað sem segja má um útlit hússins og staðsetningu, þá er ég þeirrar skoðunar að það eigi eftir að verða mikil lyftistöng fyrir bæinn.

Annars er ég eitthvað heilalaus í augnablikinu og ekki í bestu bloggástandi. Ég bara sat hér við tölvuna á meðan ég beið eftir því að stíflueyðirinn virkaði á baðkarið, sem var orðið nánast algjörlega stíflað.

Ég er frekar syfjuð í augnablikinu enda komin í einhverja vitleysu með svefninn eina ferðina enn. Hefur gengið illa að sofna á kvöldin alveg síðan á laugardagskvöldið. Tja, nema í gærkvöldi, þá sofnaði ég líklega um ellefuleytið - en í staðinn var ég vöknuð klukkan sex í morgun. Í sundinu hitti ég svo eina sem hafði vaknað klukkan hálf fimm við slæmar draumfarir og ekkert náð að sofna aftur. Þannig að miðað við það var nú bara hátíð að vakna klukkan sex.

En nú þarf ég að hugsa upp einhvern mat fyrir kvöldið. Andri er loks að jafna sig á húðsýkingunni sem hann fékk, og ætlar á æfingu klukkan sjö, þannig að maturinn þarf að vera snemma. Ég var að spá í að vera annað hvort með fisk eða kjúkling en langar að elda eitthvað nýtt. Og þá vantar jú uppskrift...

Í kvöld er svo fundur í ljósmyndaklúbbnum og ég hafði ætlað mér að mæta. En nú veit ég ekki hvort ég verð uppistandandi eftir kvöldmat, þannig að það verður bara að ráðast af ástandinu á frúnni hvort ég fer eða ekki. Neyðist nú samt kannski til þess því ég var búin að bjóða nýrri konu að mæta og hún vildi bara koma með mér, ef hún kæmi á annað borð. Sjáum hvað setur.

Úff, ég er hreinlega að sofna hérna sitjandi, held ég kíki aðeins í sófann...

mánudagur, 4. október 2010

"Ég þekkti þig ekki, þú ert komin með svo sítt hár"

Þetta fékk ég að heyra í sundinu í morgun og er það í annað skipti á fáeinum dögum að fólk er óvíst um það hvort ég er ég. Frekar fyndið eiginlega en kannski ekki skrítið þegar ég hef jú verið stuttklippt síðustu 25 árin og já mest alla ævina reyndar. Hárið á mér er ekkert orðið svo sítt, en vissulega síðara en venjulega, og mér finnst bara gaman að breyta aðeins til. Það er algjör óþarfi að vera eins í útliti alla ævina, tja fyrir utan elli kerlingu sem vissulega sér til þess að maður breytist í útliti.

Helst í fréttum er það að Valur er kominn til Tromsö þar sem hann verður næstu 12 dagana.  Við verðum að spjara okkur án hans hér heima. Fyrir utan að veita okkur hinum félagsskap er hans helsta hlutverk á heimilinu að sjá um matinn, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til hjá okkur. Það verður vissulega áskorun að þurfa að elda en markmiðið er nú að strákarnir taki líka þátt í því verkefni. Ég ákvað að byrja með stæl í gær og keypti lambalærissneiðar. Var fyrst að hugsa um að hafa þær í raspi en rasp fer ekkert sérlega vel í magann á mér svo ég breytti um áætlun. Fann uppskrift á netinu þar sem búinn er til lögur úr ólífuolíu, hvítlauk og kryddi og sneiðunum er velt uppúr þessu og svo steiktar í ofni. Uppskriftin gerði ráð fyrir steikingu í 30 mínútur. Ég tók þetta út eftir rúmar 20 mínútur en þá var kjötið orðið svo steikt og seigt að þetta var eins og að borða skósóla - nema bragðið var betra. Kryddlögurinn var mjög góður fannst mér og þetta HEFÐI getað orðið mjög góður matur. Í dag er ég að borga fyrir langan og strembinn laugardag (þreytan kemur oft ekki fyrr en eftir á). Ég átti í erfiðleikum með að sofna í gær og vaknaði öll undirlögð í morgun. Þannig að það verður engin grand matreiðsla í dag, nei hér verða bara fiskibollur úr dós með karrýsósu.

Ég er alveg að verða búin með eiturgrænu lopapeysuna mína. Hún er reyndar ekki bara græn, það er líka brúnt og hvítt í munstrinu. Ég get ekki sagt að ég sé neitt svakalega ánægð með hana en það gæti nú breyst þegar búið er að þvo hana og setja rennilás. Það er samt á hreinu að ég nenni ekki að rekja hana upp, geri frekar bara fleiri ;-)

laugardagur, 2. október 2010

Jólin koma snemma í ár...

eða þannig. Ég var áðan að syngja O Helga Natt með Sissel Kyrkjebö, svona í tilefni þess að ég er búin að vera syngjandi í allan dag. Það var nefnilega æfingadagur Kvennakórsins og stóð hann yfir frá klukkan níu í morgun til hálf sex. Ég var reyndar orðin vel þreytt strax um hádegisbilið, mjög þreytt um þrjúleytið og algjörlega úrvinda um fimmleytið, en þetta var engu að síður mjög skemmtilegur dagur. Mér finnst bara alveg sérlega gaman að syngja, þó vissulega sé erfitt að byrja í þessu. Hef náttúrulega aldrei sungið neitt að ráði, nema þegar ég var í skátunum, það voru dýrðardagar. En líklega "öskraði" maður meira en söng, ef svo má að orði komast. Nú man ég allt í einu að ég hef raunar verið einu sinni í kór áður. Það var í Gagganum og Ingimar Eydal stjórnaði. Eitt lagið sem við sungum þar var eftir Lennon "Will you still love me". Já, það rifjast ýmislegt upp...

En annars hefur söngur minn undanfarin ár takmarkast við að syngja með jólaplötunni með Sissel Kyrkjebö, Glade Jul. Ég hef tekið hana fram fyrir jólin og gaulað með. Skemmtilegast en jafnframt erfiðast er að syngja O Helga Natt því þar fer hún vel uppá háa C-ið (eða það held ég að minnsta kosti, er ekki alveg með tónfræðina á hreinu sko...). Og já þar sem ég var orðin svo heit eftir allan sönginn í dag datt mér í hug að sækja Sissel og taka Helga natt - og fór létt með það, hehe ;) En ég lét nú þetta eina lag duga að sinni, óþarfi að gaula heila jólaplötu á þessum árstíma.

Ekki þar fyrir, það styttist óðum til jóla, bara svo það sé nú á hreinu. Við þurfum nú að klára að græja starfmsmannamálin í búðinni áður en nær dregur jólum. Þetta er orðið vandamál með helgarnar og sérstaklega ef einhver veikindi eru þá fer allt í vitleysu. Ekki bætir úr skák að 50% af starfsólki búðarinnar eru í Kvennakórnum og þurfa helst að vera í fríi þegar eitthvað sérstakt er um að vera...

Annars er það í fréttum að Valur er farinn suður og flýgur til Tromsö á morgun. Þar verður hann næstu 12 dagana og við verðum víst að bjarga okkur án hans hér heima. Það verður lærdómsríkt fyrir alla, sérstaklega í tengslum við matargerðina en það er nú markmiðið hjá mér að fá strákana til að taka þátt í þeirri vinnu. Svo er spurning hvort ég drattast til að gera lista/skipulag yfir það hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Þetta er nokkuð sem við gerðum fyrir löngu og reyndist vel. Svo vel að það hefur alltaf staðið til að gera það aftur - en einhverra hluta vegna hefur það aldrei orðið.

Og já, ætli ég reyni ekki bara að fara snemma að sofa í kvöld.

P.S. Hm, það er kannski best að taka það fram að Sissel söng inná þessa plötu þegar hún var 18 ára, hugsa að ég fari ekki í sporin hennar í dag... Enda fer ég jú ekki í sporin hennar, finnst bara ótrúlega gaman að syngja "með" henni :)