sunnudagur, 31. júlí 2011

Þriðjudagur í Noregi

snérist aðallega um ferðina mína á Lilleström helseklinikk. Þar hafði ég fengið tíma eftir nokkurra mánuða bið og nú var komið að því. Anna systir tók ekki annað í mál en að keyra mig og var ég þakklát fyrir það. Ferðin þangað tók ca. 45 mín. minnir mig og gekk mjög vel. Anna hafði verið búin að skoða leiðina á korti og var með þetta allt á hreinu. Við komum samt svo snemma að við gátum sest inná kaffihús í smá stund.

En svo var komið að því. Ég tilkynnti komu mína og fékk í hendurnar spurningalista sem ég átti að svara meðan ég beið. Ég var hálf stressuð fyrir og þetta bætti ekki úr skák, því ég hélt að ég ætti að vera búin að svara listanum þegar ég kæmi inn til læknisins. Og þetta voru flóknar spurningar um hin ýmsu einkenni og alvarleika þeirra, fyrri sjúkdóma, fjölskyldusögu ofl. Ég var sem sagt ekki nema ca. hálfnuð með listann þegar ég var kölluð inn til læknisins. Sem var kona, að mér fannst í yngri kantinum (já já smá fordómar í gangi hérna...) en almennileg. Hún sagði þá að það gerði ekkert til þó ég væri ekki búin að svara spurningunum, ég kæmi bara með þetta útfyllt næst. Það fannst mér pínu skrítið því ef ég hefði mátt ráða, þá hefði ég viljað vera búin að fá þennan spurningalista sendan í tölvupósti fyrir tímann, svo ég hefði getað svarað honum í ró og næði, og þá hefði ég líka haft hann til að styðjast við í viðtalinu. Hm, þetta síðasta voru sem sagt bara mínar pælingar, en ég sagði ekkert við hana.

En já, hún spurði mig samt mjög ítarlega út úr og fékk upplýsingar um mína "sjúkrasögu". Eftirá að hyggja var ég frekar stressuð, það var skelfilega heitt þarna inni, og já minnið hjá mér er nú ekki það gott fyrir, svo ég hef smá áhyggjur af því að ég hafi örugglega getað komið öllu á framfæri sem ég vildi sagt hafa. Hún spurði mig t.d. um það hvaða fimm einkenni hefðu verið verst þegar ég var "bara" með vefjagigtina, og hvaða fimm einkenni væru verst hjá mér núna - en ég gat eiginlega ekki svarað henni. Það eina sem ég mundi var að verkir og stífleiki hefðu verið verst, en núna væri það þessi yfirgnæfandi óendanlega þreyta eða örmögnun.

Mér fannst ég eiginlega vera rétt komin þarna inn (var samt inni í ca. klukkutíma) þegar hún tók fram blað og sagðist ætla að panta þessar og hinar prufur og sjá svo hvað kæmi út úr þeim. Það sem átti að skoða var m.a. að taka blóðprufur sem myndu sýna hvort um einhvern sjúkdóm væri að ræða, hormónatruflanir, ofnæmi eða gigtarsjúkdóma. Eins átti að skoða hvort mig vantaði einhver vítamín s.s. B12, D ofl. sem ég man ekki. Svo hvort um einhverjar sýkingar væri að ræða og já hvort ónæmiskerfið væri að virka eins og það á að gera og hvort ég væri með ofnæmi/óþol gagnvart einhverjum matartegundum. Rúsínan í pylsuendanum er að ég á svo að skila hægða- og munnvatnsprufum. Þær verða sendar til Bandaríkjanna og þar er m.a. verið að skoða hvort það sé ofvöxtur af einhverjum bakteríum eða öðrum sníkjudýrum, hvort það séu bólgur í meltingarvegi, glúteinóþol ofl.

Ég spurði hvort mætti ekki frekar taka fleiri en færri prufur, þar sem ég byggi nú á Íslandi og væri ekki alltaf á ferðinni til að gera frekari rannsóknir. En nei, það fannst henni óþarfi miðað við þá mynd sem hún hafði gert sér af ástandinu hjá mér. Hún gat að sjálfsögðu ekki lofað því að neitt kæmi út úr þessum prufum, en hélt samt að það kæmi eitthvað. Til dæmis tengt maganum og mataræðinu. Svo kom hún aðeins inná það að streita væri líklega stór þáttur í mínu ástandi - og satt best að segja þá situr akkúrat það svolítið í mér. Ég veit að streita er minn aðal óvinur, en ég klikkaði alveg á að spyrja hana nánar út í málið. Hvaða ferli færi í gang og hvernig væri þá best að snúa því við. Yfirhöfuð þá var ég alls ekki nógu dugleg að spyrja hana spurninga. Hefði þurft að hafa skrifað hjá mér um hvað ég ætlaði að spyrja, því það var ekkert nema þoka í höfðinu á mér.

Svo sagði hún mér að það tæki 7-8 vikur að fá niðurstöður úr þessum rannsóknum og þá vildi hún helst að ég kæmi aftur til hennar svo hægt væri að fara í gegnum niðurstöðurnar augliti til auglitis. Síðan var tappað af mér slatta af blóð og þá var heimsókninni lokið.

Ég var gjörsamlega púnkteruð eftir þetta. Það var heitt úti og heitt inni á læknastofunni og svo var líka töluvert spennufall að vera loks búin að tjá mig um ástandið á mér við einhvern sem ætti að skilja um hvað ég er að tala. En tilfinningin var samt svolítið eins og að hafa verið í prófi. Maður hefur talið sig vera vel lesinn, en svo voru áherslurnar ekki þær sömu og maður hafði búist við. Eða eitthvað í þá áttina. Ég var að minnsta kosti ekki fullkomlega ánægð. Hugsanlega vegna þess að um leið og farið var að tala um að streita eigi hugsanlega þátt í mínu heilsuleysi, þá fer mér að finnast að þetta sé allt mér að kenna, bara af því ég sé svo asnalega innréttuð að geta ekki unnið úr streitu. Hm, ætli sé ekki bara best að bíða og sjá hvað kemur út úr þessu öllu saman áður en ég fer á fullt í sjálfs-niðurrif.

Anna bjó til dýrindis salat handa okkur í kvöldmat. Við sátum á svölunum í þessu líka fína veðri og ekki spillti fyrir að fá smá hvítvínstár með :-)Já, við erum sem sagt bara tvær að borða, vegna þess að Kjell-Einar og Sigurður voru á ferðalagi uppi í Þrændalögum þessa vikuna.

laugardagur, 30. júlí 2011

Komin heim

Já ferðin til Noregs gekk eins og í sögu, þrátt fyrir að þessi skelfilegu atburðir nokkrum dögum fyrir brottför hafi að sjálfsögðu sett mikinn svip á upplifunina að þessu sinni. Ferðin byrjaði nú reyndar frekar skrautlega þar sem ég var nærri búin að missa af vélinni suður. Heilinn í mér náði einhvern veginn ekki að vinna rétt á þessum tímapunkti og mér fannst að mæting væri á flugvöllinn á þeim tíma sem var í raun brottfarartími. En þetta hafðist allt, ég fékk náðarsamlegast að tékka mig inn þó innritun væri eiginlega lokið, og gekk svo beint út í vél (frekar tæpt sko...).

Ég gisti svo hjá Rósu vinkonu aðfaranótt sunnudags og það er nú aldeilis lúxus að geta gengið að vísri gistingu í Hótel Álfheimum. Við gengum aðeins í grasagarðinn á sunnudaginum, þar er allur gróður í fullum blóma og afskaplega fallegt. Svo keyrði Rósa mig út á BSÍ þar sem ég tók flugrútuna til Keflavíkur. Það var klukkutíma seinkun á fluginu en það gerði svo sem ekkert til, ég var bara eitthvað að dóla mér á flugvellinum. Anna systir sótti mig út á Gardermoen, en það er u.þ.b. 50 mínútna akstur þaðan og heim til þeirra í Ski. Það var nú farið að nálgast miðnætti þegar við komum heim í hús, svo við fórum fljótlega í háttinn, en fyrst skoðaði ég aðeins breytingarnar sem þau hafa verið að gera á húsinu.

Á mánudeginum var ég ótrúlega spræk þrátt fyrir ferðalagið deginum áður, og við fórum inn til Oslóar eftir hádegið. Anna sýndi mér búð sem heitir Design forum, en þar fást afskaplega litrík og falleg föt. Við vorum heillengi að skoða og spá og spekúlera og á endanum gekk ég út með fallega spariskó og einfalda gollu. Þegar hér var komið sögu vorum við orðnar svangar og Anna stakk uppá að við færum á Grand, en það er einskonar kennimerki í miðborginni og þar hefur margur mektarmaðurinn setið. Það stóð líka á endum að komin var úrhellisrigning, svo það passaði fínt að hlaupa þar inn. Við fengum okkur mjög góða krabbasúpu og sátum þarna dágóða stund.

Þegar við komum út af veitingastaðnum var hætt að rigna og við sáum að mikill mannfjöldi var að streyma í miðborgina. Þar átti að fara fram svokölluð "Rósa-skrúðganga", til heiðurs þeim sem létu lífið í hryðjuverkunum. Það var ótrúlegt að sjá allt þetta fólk koma gangandi og langflestir með blóm í hendi. Á sumum götuhornum hafði fólk lagt kerti og blóm.

Við ákváðum að ganga í áttina að svæðinu þar sem sprengjan hafði sprungið og gengum upp einhverja götu sem ég veit ekki hvað heitir, þar til við komum að girðingum sem lögreglan hafði sett upp til að loka svæðinu. Þar sáum við hús með brotnar rúður, og yfir höfuð þá hafði greinilega brotnað mikið af gluggum í verslunum þarna í kring. Mörg hús voru með brúnar spónaplötur í stað glugga.Við ákváðum svo að fylgja mannfjöldanum um stund og gengum í áttina að ráðhúsinu, þar sem skrúðgangan átti að hefjast. Þar dreif endalaust að fólk úr öllum áttum, svo brátt var ekki hægt að ganga neitt lengra og ekki hægt að gera annað en standa kyrr á sama stað. Eftir nokkuð langa bið heyrðist loks í manni í hátalara, sem sagði að um 150.000 manns væru á bryggjunni og í miðbænum, og sökum fólksfjölda væri ekki hægt að ganga að Dómkirkjunni þar sem leggja átti blómin. Í staðinn yrði standandi samvera og klukkan sjö yrðu ræðuhöld.

Við Anna vorum orðnar þreyttar á að standa þarna kyrrar og ákváðum að halda heim á leið. Það var samt ótrúlega erfitt að komast í burtu í öllum þessum mannfjölda, en hafðist að lokum. Alls staðar var fólk, í öllum götum í miðbænum.

Hér sést niður á Karl Jóhann. Þvílík mannmergð þarna í fjarska (fyllir upp í götuna).

Svo keyrðum við aðra leið heim en venjulega og ég fékk að sjá yfir Osló og auk þess að keyra í gegnum íbúðarhverfi sem ég hafði aldrei áður séð. 

sunnudagur, 17. júlí 2011

Hvað er helst í fréttum?

Hrefna kom og fór... Hún stoppaði reyndar í heilar tvær vikur og það var voða notalegt að hafa hana heima. Við enduðum á því að fara öll fjölskyldan saman í keilu síðasta kvöldið hennar heima og það var virkilega gaman. Ég hefði sjálfsagt fengið skammarverðlaun, hefðu þau verið í boði, þvílík var frammistaðan... en mér tókst ekki að einbeita mér nógu vel nema rétt um miðbik leiksins.

Mamma og Ásgrímur komu líka í heimsókn. Erindi þeirra norður í land var að fara í jarðarför og þau ákváðu að bæta smá "sumarfríi" inn í ferðina, úr því þau voru farin af stað á annað borð. Við náðum því að borða öll saman einu sinni, þ.e.a.s. við þessi venjulegu hér heima (ég, Valur, Andri og Ísak) og Hrefna, mamma og Ásgrímur, svo það var nú aldeilis ágætt. Það er gaman að hafa líf og fjör í húsinu og notalegt að hafa fólkið sitt í kringum sig.

Við Valur fórum í dagsferð austur á Melrakkasléttu. Þetta varð reyndar langur dagur og við ókum um 500 kílómetra, en við höfum alltaf gaman af að koma þarna. Það var töluverður vindur þegar við lögðum af stað en við ákváðum að láta það ekki á okkur fá. Við stoppuðum á Húsavík og fengum okkur kaffi í nýju kaffihúsi, sem ég man ekki hvað heitir. Þar fengum við þær stærstu tertusneiðar sem við höfum fengið, og sögðust konurnar vera að reyna að finna út hvaða stærð á sneiðum væri heppilegust þannig að fólk fengi mátulega mikið.

Áfram keyrðum við austur og stoppuðum ótal sinnum á leiðinni til að taka myndir.  Enn bætti í vindinn og þegar við komum á sléttuna þá lagði ég ekki í að ganga út að Rauðanúp/Núpskötlu í þessu svakalega roki. Okkur gekk líka hálf illa að finna stað til að borða nestið okkar, en við enduðum á að keyra að eyðibýlinu Skinnalóni og sitja inn á milli gamalla tófta þar sem við fundum smá skjól. En við vorum vel klædd (ég var í hnausþykkri flíspeysu, hlífðarbuxum og utanyfirjakka, með vettlinga, húfu og bæði hettuna af flíspeysunni og jakkahettuna á höfðinu (hm, kannski frekar ruglingslega orðað hjá mér) og vorum þónokkra stund þarna og tókum myndir. Þarna eru tvö hús og gamlar tóftir, og hægt að ganga niður að sjónum þar sem mikill rekaviður liggur í fjörunni. Við höfum gjarnan tekið myndir af báðum húsunum, en nú brá svo við að byrjað er að lagfæra annað þeirra. Búið að glerja og loka því, þannig að Valur vildi ekki taka myndir af því húsi, en einbeitti sér að hinu. Það hús finnst mér samt ekki jafn ljósmyndavænt en það er mitt vandamál. Valur tekur flottar myndir af því þó mér takist það ekki.

Eftir Skinnalón ókum við til Raufarhafnar. Mér fannst það pláss alveg hræðilega síðast þegar ég kom þangað en fékk ekki alveg sömu tilfinningu núna, þó þetta sé svo sannarlega lítið og eyðilegt. Eiginlega dáist ég að fólkinu sem hefur þrautsegju til að búa á svona stöðum. Frá Raufarhöfn ókum við nýja veginn í áttina að Kópaskeri (man ekki hvað leiðin heitir en þessi vegur styttir leiðina all verulega) og síðan fórum við í Ásbyrgi. Þar ókum við eins langt inn og hægt er og borðuðum nestið okkar í skógarrjóðri. Nú brá svo við að þar var blankalogn (enda kannski ekki skrítið þegar landfræði staðarins er höfð í huga) og sólin kom fram úr skýjunum einmitt meðan við vorum að borða. Á eftir gengum við svo inn að Botnstjörn, svona úr því við vorum komin þetta langt. Það er gaman að koma þangað og við vorum eina fólkið þarna ótrúlegt en satt.

Svo héldum við heim á leið, með endalausum stoppum því ég var alltaf að sjá eitthvað myndefni og biðja Val að stoppa og bakka. Heim vorum við komin milli tíu og hálf ellefu um kvöldið eftir langt en gott ferðalag.


laugardagur, 9. júlí 2011

Síðasti dagurinn fyrir vestan

var laugardagur - og ég man hreinlega ekki hvað við gerðum þá... Eða jú, nú man ég það. Eftir morgunmat ókum við til Bolungarvíkur og byrjuðum á að fara þar í sund. Það var sólarlaust þegar við fórum ofan í laugina en við vorum svo stálheppin að meðan við sátum úti í heitum potti (laugin sjálf er samt innilaug) þá braust sólin milli skýjanna og það var alveg dásamlegt að sitja þarna í smá afslöppun og sólbaði. Eftir sundið tókum við smá rúnt um þorpið og kíktum meðal annars inn í verslun Bjarna Einarssonar, sem hefur verið starfandi síðan árið 1927. Hún lætur ekki mikið yfir sér utan frá séð, en inni fæst allt milli himins og jarðar. Þar sá ég m.a. bókina Húsið eftir bloggvinkonu mína Hörpu Jónsdóttur, og Valur keypti bókina og gaf mér.

Þegar hér var komið sögu ætluðum við að fá okkur að borða og sáum þetta fína veitingahús blasa við. Þar var hópur af fólki fyrir utan og húsið greinilega lokað. Við stoppuðum bílinn og Valur spurði karlmann sem þarna var hvernig staðan væri. Einn úr hópnum var þá einmitt að hringja í kokkinn og í ljós kom að hann (eða hún) hafði farið heim í hádeginu, lagt sig eftir matinn og sofið helst til lengi. Ekkert stress í Bolungarvík, það er nokkuð ljóst. Okkur fannst þetta nú bara frekar sjarmerandi, tókum annan rúnt um plássið og fórum svo á veitingastaðinn þegar kokkurinn var kominn á sinn stað. Fengum þessa ágætu fiskisúpu og vorum ánægð með hana. Það er alltaf svo mikill munur að geta fengið eitthvað annað en hamborgara.

Næst á dagskrá var ferð í Skálavík. Við ætluðum reyndar líka helst að aka uppá Bolafjall, en það var þoka eða mjög lágskýjað, og það féll um sjálft sig. Leiðin til Skálavíkur var fremur seinfarin, aðallega vegna þess að við vorum alltaf að mæta bílum en vegurinn er bara einbreiður, og Valur var svo duglegur að stoppa og hleypa hinum framhjá. Það var eitthvað ættarmót í gangi á þessum slóðum, annars get ég ekki ímyndað mér að það sé svona mikil traffík þarna dags daglega. Það var nú ansi napurt þarna úti við sjóinn, en við vorum með nóg af utanyfirfatnaði með okkur og varð ekki kalt. Svo sátum við bara góða stund í fjörunni og horfðum og hlustuðum á úthafsölduna skella á fjörunni. Það er þetta með mig og sjóinn... Eitthvað tókum við af myndum líka, en mínar voru allar eitthvað hálf misheppnaðar, eins og stundum gerist.

Næst fórum við til Ísafjarðar. Mér datt í hug að gaman gæti verið að finna Húsið sem Harpa skrifar um í bókinni sinni, og við fundum það mjög fljótlega. Svo lögðum við bílnum og gengum aðeins um miðbæinn. Þar hittum við hjón sem einu sinni bjuggu hér á Akureyri, en þau höfðu leigt íbúð sem Læknafélagið á. Við settumst líka inná kaffihús/bakarí og fengum okkur kaffi og muffins. Þegar hér var komið sögu var komið hið ágætasta veður, sólin skein og það var mikið fjör á torginu þar sem einhverjar hljómsveitir voru að spila. Við létum þó gott heita og lögðum af stað aftur til Þingeyrar, með viðkomu í Bónus, þar sem við keyptum inn nesti fyrir heimferðina.

Um kvöldið  eldaði Guðbjörg mjög bragðgóðan kjúklingarétt og við sátum lengi og spjölluðum saman eftir matinn.

Á sunnudagsmorgni fóru svo flestir til síns heima á ný. Hjörtur ók tengdó á flugvöllinn á Ísafirði og hélt svo áfram Djúpið og til Reykjavíkur. Við Valur keyrðum til Akureyrar en Guðbjörg varð ein eftir í Vertshúsi. Þar ætlaði hún að vera ca. viku í viðbót og vinna. Það eru mörg handtökin sem hafa verið unnin í húsinu, og mörg eru enn eftir en fyrir utanaðkomandi þá virðist þetta hafa gengið alveg hreint ótrúlega vel hjá þeim. Og þvílíkur munur á húsinu frá því fyrir fimm árum síðan. Það er búið að vera mjög gaman að koma og sjá þær breytingar sem orðið hafa í hvert sinn, en þetta var jú þriðja ferðin okkar vestur á þessum fimm árum.

Læt ég nú þessari ferðasögu lokið en bæti hugsanlega inn myndum við tækifæri...

miðvikudagur, 6. júlí 2011

Framhald ferðasögu

Old times by Guðný Pálína
Old times, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Ég er bara óendanlega löt þessa dagana og nenni ekki einu sinni að blogga.

En á fimmtudeginum fórum við sem sagt í túristaferð út í eyna Vigur. Hér er mynd þaðan, ein af örfáum sem heppnuðust. Mér fannst mjög gaman að koma þangað, enda kann ég alltaf vel við mig nálægt sjónum og hvar er maður nær sjónum heldur en á eyju? En að minnsta kosti þá var þetta fín ferð og þegar við komum aftur í land þvoði Valur bílinn af því næst fórum við á flugvöllinn og sóttum foreldra hans sem komu frá Reykjavík. Þau höfðu ekki komið til Ísafjarðar í 40 ár og aldrei til Þingeyrar að líta húsið þeirra Guðbjargar og Hjartar augum. Það var mjög notalegt að vera þarna öll saman. Þetta get ég náttúrulega sagt af því ég var gestur og þurfti ekki að hafa áhyggjur af matartilbúningi eða öðru...

Á föstudeginum fórum við Valur í sund og borðuðum svo í hádeginu í Simbahöllinni. Ég mæli endilega með því að fólk á ferð á þessu landssvæði komi við í Simbahöllinni. Þar er bæði hægt að fá dásamlegar belgískar vöfflur (sem við klikkuðum einhverra hluta vegna á núna), súpu í hádeginu og heitan rétt á kvöldin. Hahaha, já nú man ég það. Nánast öll matartekja þennan daginn fór fram á kaffi- og veitingahúsum, bara fyndið ;) En já svo buðu Gunna og Matti okkur í kaffi á Hótel Sandafelli og um kvöldið borðuðum við öll í Simbahöllinni. Þá opnaði Guðbjörg myndlistarsýningu þar (mjög flottar myndir sem hún málaði og tengjast húsinu sem þau eru að gera upp þarna á Þingeyri) og við kíktum á sýninguna og borðuðum afrískan pottrétt sem var afskaplega bragðgóður.

Framhald síðar... Nú er ég að fara að horfa á vídeó með Val.