þriðjudagur, 21. febrúar 2012

Glúten- og eggjalausar vöfflur

Bara svo ég finni þetta aftur þegar ég þarf að nota þessa uppskrift...

The Daily Dietribe: How to Make Gluten-Free, Vegan Pancakes and Waffle...: (Most of my pancakes came out fluffier than the ones in this picture...but they got eaten before I could take a pict...

fimmtudagur, 16. febrúar 2012

Þetta líður hratt

Á morgun er síðasti dagur fyrri vikunnar á Kristnesi og er óhætt að segja að þessi vika hafi liðið hratt. Í rauninni er kannski ekki beint svo mikil dagskrá þarna, en engu að síður er ég orðin frekar lúin eftir vikuna. Ingvar Þórodds (endurhæfingarlæknir) sagði að það væri ágætt að miða við að maður vaknaði ekki þreyttari á morgnana eftir því sem liði á vikuna, og ég hef svo sem ekki gert það. Hef sofið ágætlega á næturnar og fundist ég nokkuð úthvíld þegar ég vakna. Samt geri ég nú fátt annað en hvíla mig þegar ég kem heim á daginn. Í dag skrapp ég reyndar í Bónus og á bókasafnið, en þetta voru lítil innkaup í Bónus og ég þurfti að fara á bókasafnið af því ég var komin með sekt.

En já, í morgun átti að gera á mér þrekpróf og það gekk nú ekki vel. Sjúkraþjálfarinn byrjaði á því að taka púlsinn hjá mér, það átti að vera viðmiðunarpúls, til að sjá hvað gerðist þegar ég færi að reyna á mig. En þá var ég búin að vera í stressi að koma mér á réttum tíma á Kristnes (alltaf á síðasta snúningi, alveg sama hvað ég er með fögur fyrirheit) og púlsinn var yfir 120 slög á mínútu. Svo settist ég nú samt á hjólið og byrjaði að hjóla á vissu álagi, og þá gerðist það að púlsinn lækkaði eftir því sem ég hjólaði lengur. Hehe, ég gat nú ekki annað en hlegið að þessu. Þrekprófið var sem sagt ómarktækt og hún ætlaði að upphugsa einhverja aðra aðferð til að mæla þrekið hjá mér.

Í dag var líka fróðlegur fyrirlestur þar sem Ingvar fjallaði um það hvað gerist í líkamanum þegar fólk lendir í vítahring verkja, svefnleysis og hreyfingarleysis. Honum tókst að útskýra þetta allt saman á góðu mannamáli þannig að allir skildu vel það sem um var rætt.

Í lok hvers dags er hálftíma slökun. Hún fer þannig fram að við liggjum á rúmum í rökkvuðu herbergi og látum fara vel um okkur með kodda, teppi og léttan grjónapoka yfir augunum (þeir sem vilja). Svo er sjúkraliði sem talar okkur inn í slökunina, undir róandi tónlist og/eða náttúruhljóðum. Ein okkar steinsofnar alltaf nánast um leið og hún leggst á koddann, en ég hef bara sofnað einu sinni. Enda er það ekki markmiðið með þessu. Það er ábyggilega mjög þarft að slaka á og mér finnst það í rauninni mjög gott, en ég verð svo óskaplega þreytt eftir slökunina að ég treysti mér aldrei til að leggja strax af stað heim þegar hún er búin. Það gæti nú reyndar haft eitthvað með það að gera að slökunin er næsti dagskrárliður á eftir vatnsleikfiminni, en hún tekur vel á og er þar að auki í vel heitu vatni, svo maður verður alveg eins og undin tuska á eftir.

Á hverjum degi er líka farið út að ganga fyrir hádegismatinn. Hver og einn gengur eins langt og hann treystir sér til og það er engin pressa á að ganga sem lengst, frekar hitt ef eitthvað er. Gengið er á akveginum frá Kristnesi, annað hvort til norðurs eða suðurs, og eru gular vegastikur notaðar sem mælikvarði á göngulengdina. Stikurnar eru sem sagt merktar með metrafjölda frá aðaldyrum. Ég gekk fyrst ekki nema rúma 700 metra, svo ca. 1300 metra og í dag 1600 metra. Hefði í sjálfu sér getað gengið lengra alla dagana, en vil ekki ofgera mér. Heyri alltaf Val segja: "Þú manst að þú þarft að komast til baka líka". Hehe, hann er búinn að horfa svo oft uppá mig ganga of langt og eiga í erfiðleikum með síðasta partinn á tilbaka leiðinni.

Jæja, ég læt þetta gott heita í bili. Eins og Valur sagði í kvöld þegar hann horfði á mig, þá er gott að það er að koma helgi :-)

þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Í garðinum við Kristnes

Shadows in the sun by Guðný Pálína
Shadows in the sun, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Annar dagurinn á enda og ekki sama dramatíkin hjá dömunni og í gær. Þetta var nú líka rólegri dagur og bar þar hæst skoðun hjá sjúkraþjálfara og svo vatnsleikfimina. Það vantar alveg vöðva í fæturnar á mér, það er alveg ljóst, svona miðað við hvað ég verð ofboðslega þreytt í fótunum af vatnsleikfiminni. Í gærkvöldi gat ég ekki sofnað fyrir verkjum í vinstra (vitlausa) fætinum eftir leikfimina en í dag er mér aðallega illt í hægri fætinum. En já ég er að venjast því að vera þarna og finnst ég ekki lengur svona týnd eins og í gær. Það er nú líka þannig að ég þekki annan hvern starfsmann þarna og þó það sé skrítið að vera komin í hlutverk "sjúklings" þá er það svo sem ósköp notalegt að hafa kunnugleg andlit. Það eru að minnsta kosti tvær konur sem ég vann með í heimahjúkrun veturinn '88-'89 og ein sem ég vann með í Selinu. Enn ein sem ég vann með þegar ég var sjúkraliðanemi og svo er sjúkraþjálfari sem ég var með í kórnum í fyrra. Einn iðjuþjálfinn er vinkona Sunnu svo ég þekki hana aðeins. Síðan kannast ég við læknana, læknaritarann, móttökuritarann og eflaust einhverja fleiri sem ég hef ekki hitt ennþá.

Ég sé það samt að þessar tvær vikur munu verða afskaplega fljótar að líða, og líklega frekar takmarkað sem maður nær að vinna upp á þeim tíma. En allt er betra en ekkert þegar maður er jafn lélegur og ég er.

Í dag var líka fyrirlestur um tímastjórnun og markmiðasetningu. Alltaf þarft að velta slíkum hlutum fyrir sér, enda kemur maður meiru í verk með góðu skipulagi. Ég er hins vegar ekki góð í því að setja mér markmið. Sérstaklega ekki lengri tíma markmið. Ég er meira með svona "hlaupandi" markmið, þ.e. skrifa allt niður á lista sem ég vil og þarf að gera á næstunni og fer svo í hlutina á listanum eftir því sem tími og aðstæður leyfa. En það væri ábyggilega hollt að horfa aðeins í eigin barm og velta því fyrir sér hvar maður vill vera staddur eftir t.d. 1 ár, 5 ár, 10 ár. Bæði í bókstaflegri merkingu (vil ég búa í sama húsinu, á sama staðnum) og eins varðandi það hvað maður vill vera að vinna, hvaða áhugamálum maður er að sinna, hvernig maður er að hugsa um heilsuna o.s.frv. Ég er snillingur í að koma mér hjá því að hugsa um svona hluti og læt líf mitt meira ráðast af tilviljunum. Nú er ég ekki að segja að það sé hægt að skipuleggja allt út í ystu æsar, og tel það heldur ekki eftirsóknarvert, en líklega sakar ekki að vera örlítið meðvitaðri um þá staðreynd að maður ræður satt best að segja ansi miklu um hlutina. En þá þarf maður líka að vita hvað maður vill - og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þá þarf að koma til ítarleg naflaskoðun og spurning hvort ég er tilbúin til þess. Hm, jæja ég er búin að bulla nóg í bili. En ég neyðist samt til að setja einhver markmið á blað fyrir næstu viku, svo það er eins gott að leggja heilann í bleyti.

mánudagur, 13. febrúar 2012

Fyrsti dagurinn á Kristnesi búinn

Melting by Guðný Pálína
Melting, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
og ég kom gjörsamlega örmagna heim, hehe og ég sem hélt að ég væri að styrkja mig ;-)

Það tók ótrúlega mikið á að vera stödd á nýjum stað með nýju fólki og í hlutverki/kringumstæðum sem ég er ekki vön að vera í. Framan af var ég óttalega villt eitthvað og fann mig engan veginn. Ég var jú líka þreytt og dagskráin hjá mér riðlaðist til vegna veikinda, og satt best að segja langaði mig mest að stinga af heim á tímabili. Ótrúlegt ekki satt? Svo batnaði nú ástandið um allan helming þegar ég rakst á konu sem ég þekki og í ljós kom að við erum báðar í sama "verkjahóp" eins og hópurinn okkar er kallaður.

Ég varð fyrir smá vonbrigðum með tímann hjá sjúkraþjálfaranum. Hélt að það yrði strax byrjað að taka stöðuna á mér (skoða mig) og svoleiðis, en þetta var bara viðtal. Hitt gerist á morgun. Ég spurði hvort væri ekki hægt að komast í þolpróf, svona til að ég sæi svart á hvítu hvernig staðan væri og jú það er hægt. Eitthvað 6 mínútna próf sem ég fer þá í á morgun.
Annars kom verulega á óvart hvað vatnsleikfimin var erfið. Fyrir það fyrsta var ég hálf sjóveik í sundlauginni, með svima og skrítin yfir höfðinu. Svo vorum við nú aðallega að ganga fram og tilbaka með ýmsum tilbrigðum, en já það tók verulega í fætur og mjaðmir.

Dagurinn endaði á slökun og ég steinsofnaði, alveg búin á því, en mikið var það nú samt gott. Svo er ég sem sagt komin heim en flestir í hópnum (þetta eru 6 manns) ætla að gista á Kristnesi. Kannski geri ég það einhvern tímann eina nótt, bara svona til að prófa, en ég þarf jú líka að komast heim til að græja nesti fyrir næsta dag.
Jæja, ég er hætt þessu masi. Varð bara að koma þessu frá mér, hefði helst viljað hafa tölvu eða bók til að skrifa í í morgun, en hafði þá ekki neitt. Tek líklega með mér dagbók frameftir til að hafa þar, það er ágætt að geta losað sig við eitthvað af því sem fer í gang í höfðinu á manni í þessum nýju kringumstæðum.

sunnudagur, 12. febrúar 2012

Smá stress í gangi hjá minni

Ég er að fara á Kristnes á morgun, og ég veit ekki af hverju en mér finnst það eitthvað svo stressandi tilhugsun. Það er ekki eins og ég búist við því að fólk verði eitthvað óalmennilegt og ég get ekki beint sett fingurinn á það hvað nákvæmlega er svona fyrirkvíðanlegt. Líklega bara það að þurfa að takast á við nýja hluti og fara út fyrir þægindarammann. Ég fékk dagskrá fyrir þessar tvær vikur og á morgun er dagskráin þannig að fyrst er tími hjá sjúkraþjálfara, svo er tími hjá félagsráðgjafa. Það er eitthvað sem allir þurfa að fara í, óháð því hvort manni finnst maður þurfa þess eða ekki. Svo er ganga úti, matartími og síðan vatnsleikfimi (hm, muna að taka með föt til að ganga í úti, og sundföt!). Loks er fræðsla fyrir slökun og dagurinn endar á slökun. Talandi um eitthvað sem ég þarf að taka með mér, þá þarf ég líka að taka með mér nesti því ekki get ég treyst á að fá mat sem ég má borða. Ætli ég taki ekki með mér salat og grænmetishristing. Líklega væri gáfulegt að græja það í kvöld því ég þarf að leggja af stað fram í Kristnes um áttaleytið í fyrramálið.

Annars er þessi annasama helgi víst loks á enda. Ég var jú að vinna í gær og svo vorum við í matarboði í gærkvöldi. Við fórum nú fyrst allra gestanna, eða fljótlega eftir miðnætti, því þá var ég orðin ansi framlág. Í morgun vaknaði ég um sjöleytið en lá sem fastast því ég var ennþá svo þreytt og þar að auki með höfuðverk. Um hálf níu tókst mér að sofna aftur sem betur fer og svaf til rúmlega tíu.

Svo leið dagurinn. Við Valur fórum í smá labbitúr að sækja bílinn en við skildum hann eftir hjá gestgjöfunum í gær. Svo tókum við smá rúnt að leita að myndefni fyrir mynd dagsins hjá mér. Þegar við komum heim fór hann fljótlega að stússast í bílskúrnum en hurðaropnarinn er bilaður. Kiddi kom að aðstoða hann og svo komu þeir inn í kaffi og þá hringdi ég og bauð Sunnu að koma líka. Á meðan þeir höfðu verið að stússast gerði ég hráköku og bauð uppá með kaffinu. Ég gerði reyndar líka súkkulaði. Það verður spurning hversu lengi skammturinn endist í þetta sinn, þar sem ég á mjög erfitt með að hætta eftir einn mola...

En já, núna er Valur að gera kvöldmat og spurning að frúin standi upp af sínum rassi og leggi á borð.

laugardagur, 11. febrúar 2012

Eins og sprungin blaðra

Eftir að hafa verið á fullu alla vikuna er ég eiginlega sprungin núna. En það þýðir ekki því næg er dagskráin framundan. Það er að segja, vinna eftir hádegi og matarboð í kvöld. Það eina hins vegar sem ég hef afrekað í dag er að borða morgunmat og fara í sturtu. Ekki einu sinni búin að græja mig almennilega eftir sturtuna. Á eftir að blása hárið, mála mig, ákveða í hvaða fötum ég ætla að vera og borða hádegismat (svona ef mér tekst að finna mér eitthvað til að borða). Ég hef nú rúman klukkutíma enn til stefnu, svo þetta ætti að hafast, hehe. En já, það er spurning með beikon og grænmeti í hádeginu, eða annað hvort grænmetis- eða ávaxtahristing. Ég borðaði tvær beikon/grænmetis máltíðir í gær svo ég er ekkert að deyja úr spenningi fyrir því sem hádegismat. Og nú ber svo við að engir matarafgangar eru til í húsinu, en þeir bjarga mér ansi oft. Annars er ég alltaf á leiðinni að finna mér fleira til að borða t.d. í morgunmat, en það gengur hægt. Um daginn gerði ég reyndar ágætis gulrótarsúpu úr hráfæðisbókinni sem Hrefna gaf okkur í jólagjöf, en setti of mikinn cayenne pipar í hana og það fór ekki vel í mig. Svo er fullt af öðrum uppskriftum, bæði þar og eins í bókinni hennar Sollu sem ég gæti prófað. Þyrfti bara að gera þetta skipulega einhvern tímann.

fimmtudagur, 9. febrúar 2012

Úff

Allt þetta félagslíf að undanförnu er farið að segja til sín. Það var jú veisla á föstudagskvöldið síðasta, afmælisheimsókn til vinkonu og fundur í ljósmyndaklúbbnum á mánudaginn og svo vinkonuhittingur í Hofi í gær. Ég held bara að ég sé búin að slá nýtt met. Ekki er allt búið enn því það er kvennaklúbbur á föstudaginn og svo erum við Valur að fara í matarboð á laugardagskvöldið. Veit ekki alveg hvernig ég á að fara að þessu öllu... Var alveg ótrúlega þreytt eitthvað í morgun, en leyfði mér að sofa til hálf níu, svo það var nú gott. Hins vegar hafði ég ekki áttað mig á því að bíllinn hafði gleymst úti á bílastæði í gær og ég þurfti að skafa glerharðan ís af framrúðunni í morgun. Það var bara ótrúlega erfitt eitthvað. Svo tókst mér að gleyma leikfimisfötunum heima, en markmiðið var að fara í leikfimi strax eftir vinnu, eða kl. tvö en þá er tími hjá vefjagigtarhópnum. En já nú er best að hætta þessu masi og fara að þurrka ryk af hillum sem ég átti að gera í gær en var ekki í stuði til að gera þá.

miðvikudagur, 8. febrúar 2012

Í Hofi

Ég fór í dag og hitti tvær góðar vinkonur mínar í Hofi, nýja (nýlega) menningarhúsinu okkar. Þar er kaffihús og hægt að sitja í rólegheitum án þess að vera að ærast úr hávaða. Á leiðinni út smellti ég mynd af þessum unga herramanni sem undi glaður við sitt.

Meira brasið á mér

Enn einu sinni búin að breyta útlitinu - held að þetta fari að vera ágætt í bili. Eins og mér finnst þetta nýja "dynamic" útlit (næst nýjasta hjá mér það er að segja) skemmtilegt, þá eru vissir annmarkar við það, sem eru að trufla mig. En aldrei að segja aldrei. Kannski breyti ég til baka strax í kvöld ;-) Bara svona til að halda mínum fáu en dyggu lesendum á tánum...

þriðjudagur, 7. febrúar 2012

Innihald eða útlit...

Já ég var eitthvað að nefna það við Val að enginn hefði sagt álit sitt á þessu nýja útliti, og þá vildi hann meina að ég væri alltof upptekin af útlitinu þegar það væri innihaldið sem skipti mestu máli. Hm, ég vona að það gildi þá bara um bloggið og ekki aðra hluti einnig. Kannski tengist það eitthvað ljósmynduninni að ég er orðin uppteknari af þessu sjónræna, en eins og ein í ljósmyndaklúbbnum sagði í gær, þá fer maður að horfa á allt "í gegnum linsuna" þegar maður er með ljósmyndadellu.

Gærdagurinn hjá mér var býsna þéttskipaður. Fyrst var ég að vinna til um hálf fjögur og svo fljótlega eftir að ég kom heim þá fór ég í blómabúð og svo í heimsókn til vinkonu minnar sem átti afmæli. Hjá henni var allt á hvolfi, enda eru þau í miðjum klíðum að skipta um eldhúsinnréttingu. Búin að rífa gömlu út en eiga eftir að setja þá nýju inn. Þau rákust líka á lekaskemmdir í vegg þegar gamla innréttingin var farin og það tefur aðeins verkið, því fyrst þarf að fá tjónamann til að líta á skemmdirnar og svo þarf að rífa viðkomandi veggpart og setja upp nýjan. Það var voða notalegt að hitta þessa vinkonu mína, en við hittumst svo alltof sjaldan, eins og tilfellið er almennt með mig og vinkonur mínar.

Eftir kvöldmat dreif ég mig svo niður á bókasafn, en þar var fundur í ljósmyndaklúbbnum. Ein okkar vinnur á bókasafninu og þess vegna hittumst við þar eftir lokun. Það er annars orðið smá vandamál með fundarstaði, því bæði erum við svo margar og erfitt að hittast á kaffihúsi þegar góð mæting er, og eins er oft svo skelfilegur hávaði á þessum kaffihúsum, og ég þoli það svo illa.

Ég var ekki komin heim fyrr en um tíuleytið, og eins og stundum vill verða þegar ég fer út eftir kvöldmat, þá gekk mér frekar illa að sofna. Ég verð svo upprifin. Mér gekk líka illa að sofna í fyrrakvöld, þannig að í morgun fann ég það vel á haus og skrokki að ég var ekki búin að fá næga hvíld. Fór nú samt í leikfimi og svo smá ljósmyndarúnt eftir leikfimina. Þar sem ég tók m.a. þessa mynd.

mánudagur, 6. febrúar 2012

Önnur prufa

Bara svona rétt til að halda áfram að sjá hvernig þetta nýja útlit kemur út. Ég er nú reyndar að svindla smá, því ég er í vinnunni, en ætli megi ekki segja að ég sé bara í hádegismat núna. Er að minnsta kosti að borða afgang af kjúklingarétti sem Valur eldaði í gærkvöldi og smakkast enn betur í dag en í gær. Með honum er ég að stelast til að borða hrísgrjónapilaff, sem eru brún hrísgrjón með kryddi, kasjúhnetum og döðlum. Stelast segi ég því ég borða yfirleitt ekki hrísgrjón núna, nema þá rétt til að smakka. En þetta er svo gott að ég stenst ekki freistinguna. Ég er pínulítið að færa mig uppá skaftið með kolvetnin, en þarf samt að passa að ganga ekki of langt, því ekki vil ég falla aftur í sykurfíknipyttinn sem ég var ofaní, og um leið og ég byrja að borða of mikið af kolvetnum þá kallar líkaminn á meira.

sunnudagur, 5. febrúar 2012

Gönguferð á eyrinni

Við Valur fórum í gönguferð um eyrina í dag og ég var með myndavélina með mér. Það er mjög sérstakt að ýmsu leyti að virða fyrir sér húsin þarna. Sum eru afskaplega illa farin og þurfa sárlega á endurbótum að halda, á meðan búið er að gera önnur mjög fallega upp.

Annars er ég enn eina ferðina að gera tilraunir með útlitið á síðunni minni. Gallinn á þessu útliti er sá að ekki er hægt að sjá eldri bloggfærslur, t.d. frá árinu 2004 (vá hvað ég er búin að blogga lengi), nema þá að skrolla endalaust langt niður. Annar galli er sá að til að sjá alla færsluna þarf að smella á fyrirsögnina og þá opnast nýr gluggi með heildartextanum. Þar er líka hægt að skrifa athugasemdir. Ef einhver hefur minnstu skoðun á þessu nýja útliti, þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn að gefa sig fram og segja hvort þetta er gott eða slæmt.

En þetta er stílhreint, því er ekki að neita. Ég þurfti nú samt að lífga aðeins upp á litina, get bara ekki haft allt grátt... Uppi í horninu vinstra megin (þar sem stendur "magazine" getur svo hver og einn lesandi ákveðið sjálfur hvernig útlit hann vill hafa, með því að setja músabendilinn yfir og skrolla niður.





laugardagur, 4. febrúar 2012

Ég er að reyna að halda aftur af mér

Það er eitt alveg stórmerkilegt sem gerist stundum (oft) þegar ég er í þreytukasti. Þá fæ ég yfirgnæfandi löngun til að fara að hamast eitthvað, s.s. að laga til í húsinu. Það er eins og líkamlega tiltektin eigi að bæta fyrir andlegu niðurlæginguna sem fylgir því að vera svona þreytt. Þetta er hins vegar ekki sérlega gáfulegt og minn ágæti eiginmaður er oft búinn að skamma mig þegar hann sér í hvað stefnir hjá mér. Því þetta leiðir jú bara til þess að ég er enn lengur að jafna mig. Þannig að í dag þegar ég fann í hvað stefndi, þá ákvað ég að nú skyldi ég ekki falla í þessa framkvæmdagryfju og bara sitja aðgerðalaus. Tja, eða þannig.

Við vorum í sextugsafmæli í gær sem haldið var í Golfskálanum, og mér tókst að sitja þar í rúma þrjá tíma. Sem er vel af sér vikið, því hátalarakerfið var alltof hátt stillt og þar af leiðandi voru allar ræður og sum skemmtiatriðin alveg ærandi hávær. Það lýsir því best hvað ég var orðin þreytt í höfðinu, að þegar ég fór að sofa þá gat ég ekki hugsað mér að setja róandi slökunar talið/tónlistina í eyrun á mér, heldur stakk eyrnatöppum í eyrun til að hafa sem allra mest hljóð. En svo þetta hljómi nú ekki bara sem eitthvað kvart og kvein, þá verður að segjast að fyrir ári síðan hefði ég átt mun erfiðara með að fara í þessa veislu.

Þetta með að spá í hvernig ástandið var fyrir ári síðan, kom upp í einu viðtalinu á Kristnesi í vikunni. Held að það hafi verið hjúkrunarfræðingurinn frekar en iðjuþjálfinn sem kom með þennan punkt. Ég var nú orðin svo steikt í höfðinu eftir öll þessi viðtöl að þetta fór allt í einn graut og eftirá mundi ég ekki einu sinni nafnið á iðjuþjálfanum, þó ég hefði haft það á blaði.

En já sem sagt, í framhaldinu fórum við Valur að tala um það hvernig ég hefði verið fyrir ári síðan. Ég nefnilega hef verið svo miður mín yfir því að hafa dottið aftur í þreytu-pyttinn eftir jólavertíðina, að ég átti erfitt með að sjá hvað þó hefði áunnist. En já Valur rifjaði upp þegar ég kom í heimsókn til hans í Tromsö, hvað ég hefði verið ónýt þá, og núna áðan las ég bloggfærslur frá því í febrúar, og það er nokkuð ljóst að þrátt fyrir allt þá er ég töluvert mikið hressari í ár. Þreytuköstin eru ekki jafn yfirgengileg, ég á betri klukkustundir og jafnvel heila daga, inn á milli. Meltingartruflanir heyra nánast sögunni til eftir að ég breytti um mataræðið, og hið sama má segja um stíflurnar í nef- og kinnholum sem voru að plaga mig árið um kring. Í heildina séð er ég líka betri í skrokknum, þ.e. ekki með jafn mikla vefjagigtarverki, þó þeir séu alveg ennþá til staðar.

Annars kom til mín kona í veislunni, gömul skólasystir mín, og fór að hrósa mér fyrir ljósmyndirnar mínar (sem hún sér af því við erum vinir á facebook). Hún sagðist oft fara inn á síðuna mína og skoða myndirnar. Það er alltaf gaman að fá jákvæð viðbrögð á það sem maður er að gera,  sama hvað það er.  Og af því tilefni þá kemur hér mynd sem ég tók seinnipartinn í fyrradag, niðri við ósa Glerár. Ég var búin að birta aðra á flickr síðunni minni, sem er mjög svipuð, en hér er ekki sami forgrunnur heldur fær sjórinn meira að njóta sín. Endilega smellið á myndina þá stækkar hún og sést betur ;)