mánudagur, 13. júlí 2009

Þá eru tengdaforeldrarnir búin að vera hjá okkur um helgina

Það var mjög gaman að fá þau og vonandi verða engin stórtíðindi í framhaldinu eins og síðast. Þá voru þau hér seinnipartinn í mars 2008 og þann 9. apríl fékk ég brjósklos og sama dag datt Gunna og brotnaði illa. Hún hefur ekki náð sér að fullu aftur og notar göngugrind en tók hana ekki með hingað norður, svo hún gat sig voða lítið hreyft út úr húsi.

Við fórum samt og skoðuðum Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit og höfðum öll gaman af. Matti fann símanúmer pabba síns í símaskrá frá árinu 1945 og fannst það ekki leiðinlegt. Í sömu ferð komum við við í Holtsseli og fengum okkur ís "beint úr kúnni" eða svona næstum því. Þetta er virkilega góður ís og ágætt að geta sest þarna niður á fjósloftinu og borðað ís þegar tuttugu stiga hiti er úti.

Í fyrradag hvíldu þau sig að mestu en í gær fórum við svo á Iðnaðarsafnið. Þar var brattur stigi uppá efri hæð og ófært fyrir Gunnu að komast þar upp. Að vísu var hjólastólalyfta en hún var jú ekki í hjólastól og unglingarnir sem voru að vinna þarna kunnu hvorugt á lyftuna. Þau voru reyndar líka uppteknust við að vera á netinu og hlægja að einhverju á youtoobe - en það er nú önnur saga. Eftir safnferðina rúntuðum við aðeins um bæinn og enduðum svo á Glerártorgi, í Pottum og prikum, þar sem þau versluðu aðeins (alltaf að styrkja tengdadótturina).

Í dag fóru þau svo og eins og alltaf þegar góðir gestir fara aftur verður svolítið tómarúm í húsinu. En það styttist í næstu gesti því Anna systir og Sigurður koma til landsins á föstudaginn og líklega norður fljótlega eftir það.

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Sumarfríið heldur áfram

og ég geri fátt annað en slappa af en er samt alltaf þreytt. Þetta er náttúrulega ekki í lagi! Ég reyndar hjólaði í sund í gærmorgun og synti heilar 44 ferðir, eða 1,1 kílómetra og var nú bara ansi roggin með mig. Kom svo heim, borðaði morgunmat og gerði fátt annað þann daginn. Lá úti í garði með norska sakamálasögu og bakaði mig í sólinni. Var komin með hálfgerðan sólsting þegar upp var staðið því ekki gat ég lagt bókina frá mér áður en hún var búin. Á meðan var Valur í hálfgerðri svaðilför. Hann ætlaði austur á Langanes að skoða Súluvarp sem þar er og lagði af stað um níuleytið um morguninn. Um tólfleytið hringdi hann með þær fréttir að það hefði sprungið á tveimur dekkjum og hann væri strandaglópur ca. 20 kílómetra frá Þórshöfn. Þá hafði hann ekið utan í einhverja steinnibbu sem hafði skorið í bæði dekkin bílstjóramegin. En hann var ótrúlega heppinn. Á meðan við vorum að tala saman sá hann tvo jeppa nálgast og þeir voru með dekkjaviðgerðargræjur með sér og gátu gert við annað dekkið til bráðabirgða og síðan var varadekkinu skellt undir hitt hjólið. Ekki þorði hannn þó að aka að fuglabjarginu á svona lélegum "skóm" og ekki fengust nein dekk á Þórshöfn, svo hann ók hægt og rólega heim aftur. Frekar leiðinlegt fyrir hann en ég verð að segja að hann tók þessu með ótrúlegu jafnaðargeði.

laugardagur, 4. júlí 2009

Ég skal mála allan heiminn...

... nei, kannski ekki alveg. En í dag erum við Valur búin að mála 1 stk. herbergi. Það er fyrrverandi herbergið hans Andra og tilvonandi svefnherbergið okkar. Liturinn er einhvern vegin grágrænn og ég er rosalega ánægð með hann. Það var Valur sem datt niður á þennan lit og ég þurfti bara að samþykkja :) Sem er ágætis tilbreyting frá því að liggja yfir litum og pæla og pæla áður en ákvörðun er tekin.

Svo á morgun þarf bara að flytja inn í nýja herbergið og setja upp gömlu gardínurnar því þær nýju koma ekki fyrr en eftir ca. 10 daga. Það vantar reyndar líka fataskáp... en það er nú vegna verkstols húsfreyjunnar. Ég skoðaði Ikea fataskápa í blaði og leist ágætlega á en varð aldrei úr verki að panta viðeigandi skáp. Líklega óx mér eitthvað í augum að setja saman heppilega útgáfu/samsetningu af hillum, skúffum og hengiplássi. Að minnsta kosti vantar skápinn því Andri var víst bara með kommóðu. Já og skrifborð - undir fötin sín... ;) Skilji það hver sem skilið getur.

Annars er ósköp ljúft að vera í sumarfríi. Mér brá svolítið mikið í gær þegar mér fannst allt í einu að ég þyrfti að byrja að vinna næsta föstudag. Sem betur fer ruglaðist ég um eina viku og fæ frí í heilar tvær vikur í viðbót :)

miðvikudagur, 1. júlí 2009

23ja stiga hiti í forsælu og 31 stig fyrir sunnan hús

Það mætti halda að maður byggi einhvers staðar annars staðar en á Íslandi! Enda flúðum við Valur inn eftir að hafa setið úti í hálftíma. Ég var nú reyndar hjá tannlækni áðan svo það hefur nú ekki verið eintóm sæla í dag. Og þar sem það þurfti að deyfa mig er kjálkinn og hægri partur munnsins ennþá dofinn og skrautlegur. Svo er bara spurningin í hvað maður á að eyða tímanum þegar veðrið er svona gott. Manni finnast eiginlega helgispjöll að vera inni og gera húsverk í þessum hita - en það liggur við að það sé of heitt til að vera úti. Svo þarf ég nú reyndar kannski aðeins að vinna í Pottum og prikum seinni partinn en það er nú bara ef það verður mikið að gera. Og ég hef nú takmarkaða trú á því að fólk sé mikið á ferðinni í verslunarmiðstöðum í þessu góða veðri.