þriðjudagur, 30. nóvember 2004

Gaman þegar

krakkarnir eru að semja ljóð í skólanum. Hér er eitt eftir Ísak:

Jólasveinar syngja dátt
og snjókorn falla í vinstri átt.
Engill svífur um allt
og krökkum finnst vera kalt.

Var með grátbólgin augu

þegar ég kom út af Bridget Jones í gærkvöldi. Ákvað að draga Hrefnu með mér í bíó þar sem hún hafði lent í árekstri fyrr um daginn og var fremur niðurdregin. Það var svínað svo hrikalega fyrir hana að hún ók á fullu beint inn í hliðina á viðkomandi bíl. Hún var sem betur fer í fullum rétti og slasaðist ekki en bíllinn hennar var óökufær á eftir.

En ef við víkjum aftur að Bridget Jones þá er langt síðan ég hef hlegið svona mikið í bíó og tárin bara flæddu. Mikið sem ég var fegin að vera ekki með einhverja stríðsmálningu á mér því þá hefði verið hætt við svörtum taumum niður kinnarnar. Fyrri hlutinn var þó öllu fyndnari - sem betur fer var smá afslöppun í hlátrinum eftir hlé því ég veit ekki hvernig þetta hefði endað hjá mér annars.

Mikið sem það er nú hollt og gott að hlægja!

mánudagur, 29. nóvember 2004

Amælisbarn dagsins

er æskuvinkona mín, hún Rósa. Við erum í dag búnar að þekkjast í ca. 37 ár, sem er ekki slæmt í ljósi þess að við erum aðeins fertugar að aldri. Við Rósa bjuggum á móti hvor annarri, í Stekkjargerði 7 og 8 og brölluðum ýmislegt saman þegar við vorum yngri. Flest af því frekar saklaust því við vorum svo óskaplega vel upp aldar stúlkur. Ég man varla eftir því að við höfum orðið ósammála svo heitið geti, utan einu sinni þegar við hnakkrifumst út af einhverju (sem er auðvitað löngu gleymt) og töluðum ekki saman í nokkra klukkutíma eða svo. Þá kom Rósa lallandi yfir götuna með friðþægingargjöf handa mér, sem ég tók að sjálfsögðu fagnandi. Dúkkuleikur, drullumall, farið út að hjóla, á skauta, skroppið upp að skítalæk.... seinna meir skátarnir og sundið. Þetta voru góðir tímar. Svo skildu leiðir um sinn þegar ég hætti í menntaskólanum og fór að læra sjúkraliðann en Rósa hélt áfram á beinu brautinni. En það er aldrei lengi vík á milli vina og fyrr en varði tókum við upp þráðinn aftur, rétt eins og hann hefði aldrei slitnað. Það er alltaf jafn gaman að hitta Rósu, núna síðast gisti ég hjá henni þegar ég var í Reykjavík í húsmæðraorlofi, og fékk höfðinglegar móttökur eins og alltaf. Sem sagt: Til hamingju með daginn Rósa mín og láttu dæturnar dekra við þig í tilefni dagsins.

sunnudagur, 28. nóvember 2004

Ausa er yndisleg

Var farin að halda að ég gæti ekki lengur hrifist af verkum hjá Leikfélagi Akueyrar. Hafði sem betur fer rangt fyrir mér. Stórkostlegt verk og Ilmur með frábæran leik. Mæli með Ausu.

Ein vinkona

mín fór í sturtu með 4ra ára gamalli dóttur sinni um daginn. Þegar þær voru að þurrka sér segir sú stutta: "Mamma, eru brjóstin á þér lömuð?" "Af hverju heldurðu það" spurði mamman á móti. Dóttirin svaraði að bragði: "Jú, því þau lafa svona máttlaus niður!".

laugardagur, 27. nóvember 2004

Endalaus verkefni framundan

Skrýtið hvernig skyndilega verður alveg brjálað að gera hjá manni, hvert verkefnið á fætur öðru bíður og maður tapar áttum í þessu öllu saman. Streitan tekur völdin og í smá tíma finnst manni eins og það sé engin leið til að komast yfir allt. Jú, jú, af gamalli reynslu veit ég að þetta tekur enda og maður lifir þetta allt af en það er þetta tímabil þegar maður sér ekki fyrir endann á hlutunum sem er svo erfitt.

Var í saumaklúbb í gærkvöldi/nótt. Kom ekki heim fyrr en um hálf fjögur - og kom að læstum dyrum. Þokkalegt eða hitt þá heldur! Var ekki með húslykil og þurfti að hringja dyrabjöllunni sem óð væri þar til eiginmaðurinn vaknaði og staulaðist svefndrukkinn fram og opnaði fyrir mér. Unglingurinn á heimilinu hafði þá sýnt þá ótrúlegu fyrirhyggju að læsa húsinu þegar hann fór í háttinn og hélt auðvitað að mamma hans væri með lykla. Við þetta rifjaðist það upp fyrir mér þegar ég var að koma heim af balli einu sinni um miðja nótt og hafði gleymt lyklum. Þá sváfu allir í húsinu svo fast að enginn vaknaði þótt ég hringdi bjöllunni. Fékk þá snilldarhugmynd að skríða inn um baðherbergisgluggann í kjallaranum. Sem hefði nú verið gott og blessað ef hann væri aðeins stærri. Nema hvað, glugginn var ekki kræktur aftur svo ég náði að opna hann, náði að hefa mig upp í hann (sem var nú afrek út af fyrir sig), náði að koma rassinum upp í gluggakistuna og náði að - festa mjaðmirnar í glugganum. Komst engan veginn lengra inn og þurfti því að reyna að komast niður á jörðina aftur. Þá fór gamanið að kárna því ég var alveg pikkföst í glugganum, rassinn inni - lappir, handleggir og haus úti - (veit ekki hver breiddin er en get lofað því að þetta eru ekki margir sentimetrar). Tókst samt fyrir rest að ná góðu átaki og púff, skaust út eins og kampavínstappi. Gerði aðra tilraun til að vekja eiginmanninn, í þetta sinn með því að banka á svefnherbergisgluggann, og það virkaði. Þegar ég kom inn og fór að hátta tók ég hins vegar eftir því að á öðru lærinu á mér var risastór marblettur sem varð fallega blásvartur næstu daga. Viku eða 10 dögum síðar fórum við Valur svo saman til lands þar sem sólin skín 360 daga á ári og það var rosalega gaman að skarta því sem eftir lifði af marinu á lærinu við sundlaugarbakkann....

fimmtudagur, 25. nóvember 2004

Afmælisbarn gærdagsins

var Sigurður systursonur minn sem átti 11 ára afmæli. Frænka hans á Íslandi alltaf jafn utan við sig..... og fattaði ekki fyrr en seint í gærkvöldi að hún hafði gleymt að hringja til Noregs. Til hamingju með soninn Anna mín!

miðvikudagur, 24. nóvember 2004

Spurning hvort

öll samskipti okkar hjóna eru farin að eiga sér stað í bloggheimum? Þess verður líklega ekki langt að bíða að við sitjum uppi í rúmi á kvöldin með hvora sína fartölvuna í fanginu og lifum okkar hjónalífi alfarið rafrænt.... Þess ber þó að geta að eiginmaðurinn er þessa stundina staddur á Króknum og hafði víst frekar lítið að gera í dag. Það sést á kommentunum sem hann skildi eftir sig inni á síðunni minni!

Best að kíkja aðeins á þessa nýju bresku gamanþætti sem eru að hefja göngu sína í kvöld. Ég er alltaf svo veik fyrir góðu bresku sjónvarpsefni, mætti vera meira af því í Ríkissjónvarpinu. Mætti reyndar líka vera meira af góðu norrænu efni.

þriðjudagur, 23. nóvember 2004

Sit með sveittan skallann

að reyna að finna út hvaða bakkelsi ég á að bjóða upp á á föstudaginn en þá er komin röðin að mér að halda klúbb. Er nefnilega meðlimur í þeim æruverðuga "Kvennaklúbbi Akureyrar" eins og við af lítillæti köllum klúbbinn okkar. Rúm átta ár síðan hann var stofnaður í þeim tilgangi að vera "samkomustaður" fyrir nokkrar heimavinnandi húsmæður en þó engin okkar sé lengur heimavinnandi er klúbburinn enn í fullu fjöri og er merkilegur fyrir þær sakir helstar að við hittumst vikulega, alltaf á föstudögum eftir hádegi. Það er ótrúlega ljúft að enda vinnuvikuna á því að setjast niður í góðra vina hópi og spjalla um allt og ekki neitt.

Annað sem breyst hefur frá upphaflegum ásetningi eru veitingar þær sem boðið er uppá. Fyrst áttu þær í mesta lagi að vera poppkorn og smá nammi en í dag er öldin önnur... Borðin svigna undan hnallþórum og heitum réttum - sem er frábært þegar maður er sjálfur gestur - en skapar smá stress þegar maður er gestgjafinn. Sérstaklega ef maður er eins og ég, kem sjaldnast í eldhúsið nema til að borða þar! Geri ég minnstu tilraun til að nálgast pottana þegar maðurinn minn elskulegur er að elda fæ ég umsvifalaust olnbogaskot í síðuna, mér er sem sagt stjakað frá eldavélinni og enginn mun nokkru sinni geta sagt um mig að minn staður sé "bak við eldavélina". Kosturinn er sá að strákarnir alast upp við það að mamman sé hjálparvana í eldhúsinu og það sé hlutverk karlmannanna á heimilinu að sjá til þess að fjölskyldan haldi holdum. Þannig kom t.d. Andri Þór (14 ára) heim úr skólanum í dag og hreykti sér af því að hafa búið til besta lasanjað í heimilisfræðitímanum - þetta lærir hann af föður sínum.

Nú er ég komin út fyrir efnið en eins og allir hljóta að skilja er ekki einfalt mál fyrir konur eins og mig að halda veislur, klúbba ofl. þar sem gerð er krafa um nokkurn veginn slysalausa frammistöðu í eldhúsinu. Ergo: ég sit með sveittan skallann og reyni að finna kökur/heita rétti sem eru nægilega einfaldir fyrir eldhús-fáráðlinga eins og mig en líta samt út fyrir að vera flottir og flóknir! Þetta tekur á og gott að hvíla sig stundarkorn fyrir framan tölvuna ;-)

Mig langar bara að bæta einu við. Fór út að ganga með vinkonu minni í dag og hún var að segja mér sögur af tengdamömmu sinni, ekki sögur um það hve stórkostleg hún væri, heldur akkúrat öfugt. Gleymdi afmælisdegi barnabarnsins en það var nú bara toppurinn á ísjakanum. Minnti mig á aðra vinkonu mína sem líka á hörmulega tengdamömmu. Þá varð mér hugsaði til minnar yndislegu tengdamömmu og þakkaði í huganum mínum sæla fyrir að eiga hana að. Hún hefur aldrei sagt eitt einasta styggðaryrði við mig og var alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd meðan hún hafði heilsu til - en ég hef alls ekki verið nógu dugleg að segja henni hvað hún er frábær. Hyggst bæta úr því sem fyrst.

mánudagur, 22. nóvember 2004

Velvakandi

Morgunblaðsins í gær innihélt ansi gott bréf frá "Öldruðum skötuhjúum" eins og bréfritarar kalla sig. Málið snýst um bingóið á Skjá einum (sem ég hef reyndar aldrei horft á) en þeim skötuhjúum hafði verið bent á þennan þátt og ákváðu að prófa. Ekki leist þeim vel á og urðu fyrir miklum vonbrigðum. "Ungi maðurinn sem stjórnaði þættinum talaði hratt, var hræðilega upptrekktur, sveiflaði höndunum í allar áttir og hristi blýantinn sem hann hélt á , ótt og títt og af miklum krafti. Ógerningur var að skilja hvað hann sagði."
Þegar þátturinn var hálfnaður voru þau hjónakorn orðin svo dösuð og upptrekkt að þau slökktu á sjónvarpinu (og hér kemur snilldin) ákváðu að mæla hjá sér blóðþrýstinginn, sem var kominn upp úr öllu valdi, nálægt 180! Þau lögðust því strax á gólfið (ennþá meiri snilld) og gerðu slökunaræfingar. Þau mæla ekki með bingóþættinum fyrir fólk með of háan blóðþrýsting!

Það er ekki meiningin hjá mér að gera lítið úr þessu fólki - mér finnst þetta bara eitthvað svo óborganlegt. Stundum er veruleikinn betri en bestu skáldsögur.

Sumt virðist einfalt

við fyrstu sýn en síðar kemur í ljós að svo er ekki (hugleiðing í tengslum við verkefni í vinnunni).

sunnudagur, 21. nóvember 2004

Kuldaboli

hefur heldur betur látið á sér kræla hér á Norðurlandi síðustu daga. Auðvitað á maður ekki að kvarta yfir 15 stiga frosti þegar maður veit að það er mun kaldara annars staðar, eins og t.d. í Mývatnssveit þar sem frostið fór niður í 30 stig. En það vill þannig til að skrokknum á mér er mjög uppsigað við kulda og kvartar og kveinar hástöfum ef hitastigið fer mikið niður fyrir frostmark. Eftir gönguferð með bóndanum í morgun hef ég verið svo undirlögð af "gigtar"verkjum að það er erfitt að láta það ekki hafa áhrif á skapið. Samt var ég svo dúðuð að ég gat mig varla hreyft.

Var að enda við að gefa Ísaki og vinum hans að drekka og þegar þeir voru orðnir saddir og sælir datt þeim í hug að fara í feluleik. Einhvern veginn líkist hávaðinn sem glymur í eyrum mér meira fimm fílum á ferðalagi en fimm strákum í feluleik! En það er gaman hjá þeim - og það er nú aðalatriðið.

fimmtudagur, 18. nóvember 2004

Hvað finnst ykkur?

Verð að segja að ég er sammála þessu:

Reykjavikurferð

í gær og þreytudagur í dag. Það var ný upplifun að aka um á Nissan Micra bílaleigubíl í snjónum - öllu vanari því að vera á jeppanum og komast allra minna ferða vandræðalaust. En bíllinn var þó á nagladekkjum, meira en margir aðrir sem voru í höfuðborgarumferðinni í gær. Ferðin var vinnuferð en sem sannir kvenmenn þá kíktum við aðeins í fatabúðir í leiðinni. En þrátt fyrir mikið úrval sá ég ótrúlega lítið sem höfðaði til mín. Keypti mér samt tvær peysur, aðallega til að þurfa ekki að hlusta á háðsglósur frá eiginmanninum þegar heim kæmi. Hann hefur nefnilega engan skilning á því að hægt sé að eyða klukkutímum saman í fatabúðum og koma ekki með neitt heim!

þriðjudagur, 16. nóvember 2004

Yndislegt

að trítla léttfætt út í frostið og láta sig svo leka eins og máttlaust hrúgald ofan í heita pottinn. Sitja þar um stund, horfa á þétta gufuna sem stígur upp af vatninu, hlusta á rödd sundkennarans sem sendir skólakrakkana af stað yfir laugina, hlusta á hlátrasköll karlanna sem eru í pottinum við hliðina og ræða lífsins gagn og nauðsynjar. Fara upp úr pottinum og ganga örfá skref að gufunni sem bíður passlega heit og góð. Setjast á bekk, lygna aftur augunum og slaka vel á fyrir amstur dagsins. Drífa sig svo í sturtu og þaðan í búningsklefann þar sem notalegt skvaldur kvennanna leikur undir á meðan farið er í fötin og hárið blásið. Fara síðan aftur út í frostið, tilbúin að taka þátt í því sem dagurinn ber í skauti sér.

mánudagur, 15. nóvember 2004

Hrikalegt

hvað maður ryðgar í tungumálum sem maður notar sjaldan. Ég þykist vera nokkurn veginn fluglæs á enskan texta en þegar kemur að því að skrifa sjálf þá versnar málið. Byrja að velta fyrir mér greini og forsetningum og veit allt í einu ekkert í minn haus. Þetta er auðvitað ekkert nema æfingarleysi - en þegar maður þarf ekki nauðsynlega að skrifa eitthvað á ensku þá gerir maður það auðvitað ekki. Þetta minnir mig á að ég fæ alltaf gríðarlegt samviskubit þegar ég sé Gullu, þýskukennarann minn úr framhaldsskóla. Ég var nefnilega fyrirmyndarnemandi í þýsku og afrekaði að fá þýskt ljóðasafn í verðlaun fyrir góðan árangur á stúdentsprófi. Hvað gerist svo? Jú ég hef hvorki lesið né skrifað þýsku síðan þá. Og ekki hef ég gert tilraun til að tala hana síðan við bjuggum í Noregi og ég ætlaði að tala við þýskan sjúkling sem lá á geðdeildinni sem ég vann á. Reyni ekki einu sinni að lýsa því hvaða bull kom út úr munninum á mér.

sunnudagur, 14. nóvember 2004

Var að koma af handboltaleik

en Andri æfir handbolta með 4. flokki KA og um helgina var haldið mót hér á Akureyri. Það gekk bara vel hjá þeim strákunum og gaman að sitja á bekknum og hvetja. Hann spilaði fjóra leiki og pabbi hans kom með á þann síðasta (var annars að vinna um helgina). Valur æfði handbolta sjálfur "hérna í den" og það var alveg ljóst að hann var að upplifa leikinn á allt annan hátt en ég. Náði þó að vera ótrúlega rólegur, líklega vegna þess hve KA strákarnir voru miklu betri en hinir og aldrei var spurning um það hvort liðið myndi vinna. Ég sé það samt að ef ég ætla að njóta þess almennilega að horfa á leiki þá þarf ég að læra reglurnar betur - svo ég viti betur á hvað er verið að dæma!

laugardagur, 13. nóvember 2004

Amælisbarn dagsins er Hrefna Sæunn

dóttir mín sem er 21 árs í dag. Hún lét nú bíða aðeins eftir sér á sínum tíma, þ.e.a.s. hún fæddist reyndar hálfum mánuði fyrir tímann en ég byrjaði að fá hríðir þann 11. og hún kom ekki í heiminn fyrr en seint að kvöldi þess 13. Undir lokin var ég orðin svo þreytt og búið að gefa mér einhverjar kæruleysissprautur svo ég var vissi eiginlega hvorki í þennan heim né annan. Man samt eftir því að hafa spurt fæðingarlækninn hvort við gætum ekki bara hætt við þetta.... Svo sá ég pottablóm úti í glugga og fannst einhver vera að reykja vindla inni á fæðingarstofunni (hvort tveggja eintómar ofskynjanir að sjálfsögðu). Magakveisa og tilheyrandi vökunætur voru næstar á dagskrá og svo fór ég að vinna 100% vaktavinnu sem sjúkraliði þegar hún var bara 3ja mánaða gömul. Fékk að vísu leyfi deildarstjórans til að fara heim einu sinni á vakt og gefa henni að drekka, þannig að hún var á brjósti til 6 mánaða aldurs. En þessi litla skotta mín varð fljótt afskaplega sjálfstæð ung dama og er það enn. Sem sagt: Til hamingju með afmælið Hrefna mín! Það verður fínt að fá afmæliskaffi hjá henni á morgun.

Pabbi hefði líka átt afmæli í dag væri hann enn á lífi. Og það ekkert smá afmæli, hann væri orðinn 105 ára hvorki meira né minna. Enda orðinn 64ra þegar ég fæddist, en núna eru 14 ár síðan hann dó.

Mikið átti ég annars yndislegan dag í gær, fékk margar góðar gjafir, ótal símtöl og heimsóknir. Svo fórum við fjölskyldan öll saman út að borða á Greifann en þar rakst ég meðal annars á hana Höddu með litla guttann sinn. Það er eiginlega frekar fyndið að sjá fólk svona augliti til auglitis sem maður er orðinn vanur að hitta bara í gegnum bloggið - gaman samt.

föstudagur, 12. nóvember 2004

Afmælisbarn dagsins

er ég sjálf. Í dag eru 40 ár liðin frá því ég kom í heiminn, í húsi er nefnist Sjónarhæð og stendur við hliðina á leikhúsinu hér á Akureyri. Þegar ég fæddist átti ég tvö systkini, Önnu sem þá var 5 ára og Palla sem var 6 ára. Þau fylgdust með því þegar ljósmóðirin kom og biðu spennt eftir að fá fregnir af nýja systkininu. Þegar í ljós kom að þau höfðu eignast systur strengdu þau þess heit að þau skyldu alltaf vera góð við litlu systur sína og aldrei vera vond við hana. Þau þekktu víst einhverja krakka sem voru ansi dugleg að stríða yngri systkinum sínum og ætluðu ekki að falla í sömu gryfju. Líklega má segja að í grófum dráttum hafi þeim tekist þetta ætlunarverk sitt - ég er a.m.k. búin að gleyma flestu - ja, þó rámar mig eitthvað í það að hafa verið fleygt út á svalir í snjónum að vetri til en kannski er það bara falsminning. Það er ekki treystandi á minnið hjá svona gömlu fólki.... (Anna mín, þú leiðréttir mig ef þetta er bara steypa hjá mér).

Mér var gefið nafnið Guðný Pálína í höfuðið á ömmum mínum tveimur. Föðuramma mín hét Petrea Guðný en hún lést löngu áður en ég fæddist. Móðuramma mín hét Pálína og hún bjó á Sjónarhæð hjá foreldrum mínum þegar ég fæddist. Lengi fram eftir aldri fannst mér alveg ótækt að heita þessum tveimur nöfnum og skrifaði mig alltaf bara Guðnýju Sæmundsdóttur (fannst Pálínunafnið hálf kerlingarlegt eitthvað, líklega út af laginu "Það var einu sinni kerling og hún hét Pálína..."). Það er í rauninni frekar stutt síðan ég áttaði mig á því að auðvitað væri það bara ánægjulegt að heita í höfuðið á ömmu Pálínu og tók þá ákvörðun að nota bæði nöfnin þegar ég skrifa nafnið mitt. Samkvæmt Íslendingabók er ég eina núlifandi konan með þessu nafni svo þetta er ágætis auðkenni. Mér verður þá ekki ruglað saman við aðrar konur á meðan.

Annað auðkenni sem ég hef er röddin. Mér liggur frekar hátt rómur og eftir að hafa þurft að hlusta á glósur þar að lútandi í gegnum tíðina var ég eiginlega orðin þess fullviss að ég væri með hræðilega rödd. Sama hvað ég reyndi þá gekk mér illa að lækka mig. Þó er ég ekki frá því að ég sé nú farin að tala aðeins lægra í seinni tíð en kannski er það bara ímyndun. Nýlega áttaði ég mig svo allt í einu á því að í rauninni er það bara jákvætt að hafa rödd sem er svolítið sérstök. Það bregst nefnilega ekki að fólk þekkir mig í síma og það getur verið mikill kostur (vil þó taka það fram að ég kynni mig alltaf með nafni, þoli það ekki þegar fólk kynnir sig ekki og maður velkist í vafa um það hver viðmælandinn er).

Það er hægt að horfa á alla hluti frá fleiri en einni hlið og ef við bara veitum því athygli þá getum við fundið eitthvað jákvætt í öllu þó það virðist ekki vera mögulegt við fyrstu sýn.

fimmtudagur, 11. nóvember 2004

Tungutak

fólks er mismunandi. Sumir hafa sérstakan hæfileika til að leika sér að tungumálinu - ef svo má að orði komast. Stelpa sem var með mér á námskeiðinu um daginn nefndi til dæmis að þegar hún og frændi hennar deildu saman íbúð í Reykjavík hefðu þau iðulega leikið sér með tungumálið og ólíkar merkingar þess. Þegar einhver sagði við þau frændsystkinin að þau væru svo lík svöruðu þau: "Já, við búum í líkhúsi".
Húsvörðurinn úti í háskóla er kallaður Matti, afskaplega hress og skemmtilegur náungi. Hann er grannvaxinn og léttur á fæti. Við vorum að velta því fyrir okkur að hann hlyti að vera svona grannur því hann er á fullu allan daginn, gengur örugglega fleiri fleiri kílómetra á dag og virðist vera óþreytandi. Matti stóð sig alveg með eindæmum vel í að aðstoða okkur þegar við vorum að flytja inn í nýju skrifstofuna um daginn og hlaut að launum eilíft þakklæti okkar. Svo stingur hann höfðinu reglulega inn um dyrnar þegar hann á leið framhjá og kemur þá með einhverjar óborganlegar spurningar í hvert sinn. Hins vegar er ekki jafn auðvelt að svara þeim öllum. Í fyrradag kom hann t.d. með stiga og spurði Bryndísi hvort mætti ekki bjóða henni að "klífa metorðastigann". Í annað skipti kom hann með málband og spurði hvort við myndum "mæla með þessu". Í dag var hann að færa til einhverjar hillur þegar ég átti leið fram hjá og spurði mig hvort hann ætti að "hylla mig". Ég svaraði að bragði og sagðist hafa haldið að hann ætlaði að "leggja eitthvað á hilluna". Sem var auðvitað alls ekkert fyndið þegar ég sagði það... Nei, það er best að leyfa Matta að eiga orðaleikina en halda áfram að hafa gaman af því að hlusta á hann.

Í gærkvöldi fór ég niður í geymslu að tína til föt og leikföng sem Ferðaskrifstofan Nonni ætlar að senda fátækum börnum á Grænlandi í jólagjöf. Ekkert nema gott um það að segja. En mikið sem það var gaman að kíkja aðeins í kassann með ungbarnafötunum (sem ég geymi alltaf ef ske kynni að ég yrði amma einn góðan veðurdag) og rifja upp gamlar minningar frá því stóru börnin mín voru lítil. Það lá við að ég fyndi ennþá ungbarnalyktina úr sumum flíkunum. Svo fór ég með nokkra poka af dóti til Surekhu sem vinnur hjá ferðaskrifstofunni og kom heim um hálf níu leytið. Setti bílinn inn í skúr og ætlaði ekki meir út úr húsi. En þá hafði Andri gleymt að skila vídeospólum sem hann hafði tekið kvöldið áður og var nú farinn á handboltaæfingu. Þannig að ég ruslaðist af stað með spólurnar gangandi. Mér var auðvitað engin vorkunn því vídeoleigan er ekki nema örfárra mínútna gang heiman frá okkur. Samt vorkenndi ég sjálfri mér hálf partinn - en rak þá augun í þvílíka sjónarspilið á himninum og átti ekki lengur neitt bágt. Það sem norðurljósin geta verið falleg. Ég starði upp í himininn og gekk hálf partinn afturábak til að missa ekki af þessu. En þegar ég kom út af leigunni var öll dýrðin horfin, alveg eins og hún hefði aldrei verið þar.

miðvikudagur, 10. nóvember 2004

Eftir maraþonskrif gærdagsins

er nokkuð ljóst að ég mun skrifa stuttan pistil í dag. Umfjöllunarefnið er kurteisi.

Ég fór í leikfimi í morgun og verð að viðurkenna að stelpan í móttökunni er farin að fara í mínar fínustu. Ég býð alltaf góðan daginn þegar ég kem inn úr dyrunum - hún býður aldrei góðan daginn að fyrra bragði. Í eitt skiptið bauð ég góðan daginn og þegar bið varð á svari (hún var að skoða eitthvað á internetinu) sagði ég "eða ekki". "Ha, jú, jú auðvitað er þetta góður dagur" sagði hún þá og reyndi að bjarga sér fyrir horn. En ég er harðákveðin í því að halda áfram að bjóða henni góðan daginn, þó ekki sé nema til þess að stríða henni. Eftir hæfilega æfingu í tækjasalnum fór ég svo að teygja en það er fremur lítið pláss ætlað undir teygjuæfingar. Þá var þar fyrir ein kona sem breiddi úr sér yfir dýnurnar og þegar ég settist á örmjóa rönd sem laus var þá datt henni ekki í hug að færa sig svo ég fengi meira pláss. Eftir á að hyggja hefði ég auðvitað átt að biðja hana að færa sig en mér datt ekkert slíkt í hug þegar ég var þarna.

Þetta var nöldur dagsins.

þriðjudagur, 9. nóvember 2004

Afmælisbarn dagsins er Birta

kötturinn okkar sem er 4ra ára í dag. Það var mikil gleði þegar hún kom á heimilið og lán í óláni að Valur skyldi vera veikur heima og geta hugsað um hana fyrstu dagana hennar á nýjum stað. Ástæðan fyrir því að við fengum okkur kött var sú að við höfðum prófað ýmsar tegundir gæludýra og einhvern veginn hafði það alltaf endað með dauða þeirra. Og nei, við vorum ekki að fá okkur í matinn (eins og fólkið sem stútaði kanínunni sinni fyrir jólin - en NB! kanínur þykja herramannsmatur t.d. í Frakklandi).

Þegar við bjuggum í Förde í Vestur-Noregi höfðum við reyndar haft ketti en það var nú alveg óvart að við eignuðumst þá. Þannig var að í raðhúsinu beint á móti okkur bjó fráskilinn sálfræðingur sem fékk syni sína til sín aðra hvora helgi og stundum oftar. Hann fékk sér 2 kettlinga, örugglega til að gera heimilið meira aðlaðandi fyrir synina. Hrefna sem þá var 7 ára hændist ógurlega að kettlingunum og var í sífellu að fara í heimsókn til sála til að fá að leika við þá. Síðan gerðist það að hann kynntist nýrri konu og sást ekki lengur heima hjá sér nema þá helst til að gefa köttunum að borða. Þetta var mikil sorg fyrir Hrefnu sem gat þá ekki hitt þessa vini sína eins oft og áður. Kvöld eitt kemur sálfræðingurinn yfir til okkar með þær fregnir að hann hafi hugsað sér að láta svæfa kettina. Hrefna tók það afar nærri sér og mitt kattahjarta bráðnaði líka alveg. Hvorug okkar gat hugsað sér að þeir hlytu svo slæm örlög og það varð úr að við tókum kettina (sem við nefndum þeim frumlegu nöfnum Svart og Grána) að okkur. Sem var auðvitað bara gálgafrestur því hvernig fara íslendingarnir að þegar þeir fara heim til Íslands í sumarfrí???

Gráni týndist reyndar fljótlega eftir að hann kom til okkar en Svartur lifði þeim mun betra lífi, óx og dafnaði vel. Valur minntist nú á það við mig oftar en einu sinni hvort kötturinn væri ekki orðinn ansi feitur en ég gat ekki séð það... Nokkrir mánuðir liðu, Andri fæddist í febrúar og í mars eða apríl kom Gráni aftur í leitirnar. Birtist allt í einu fyrir utan leikskólann sem Hrefna var á. Hann var nú hálf tuskulegur greyið eftir þessa útilegu, horaður, ljótur á feldinn og óttalega taugaveiklaður orðinn. Í maí fluttum við til Bergen og fórum keyrandi nokkurra klukkutíma leið með kettina í pappakassa sem við höfðum stungið ótal göt á. Þeir urðu alveg snarbrjálaðir í kassanum (það hreinlega hvarflaði ekki að mér að maður gæti keypt búr til að ferðast með þá í) og mjálmuðu og klóruðu í kassann í óratíma að því er mér fannst. Svo allt í einu datt allt í dúnalogn og ég var alveg handviss um að þeir hefðu fengið sjokk og drepist. Þorði samt ekki einu sinni að kíkja ofan í kassann til að tékka á þeim. En þeir steinþögðu það sem eftir var leiðarinnar og létu fyrst í sér heyra þegar við vorum komin til Bergen. Þá höfðu þeir bara sofið vært alla leiðina. Við þorðum ekki annað en hafa þá inni fyrstu dagana en hleyptum þeim svo út í stórborgina. Biðum svo milli vonar og ótta því við vorum alls ekki viss um að þeir myndu rata heim aftur. En sú heimska að efast um ratvísi katta! Þeir skiluðu sér að vísu ekki aftur fyrr en að rúmum sólarhring liðnum, Hrefnu til mikillar gleði því hún hafði varla getað sofið fyrir áhyggjum.

Fljótlega eftir þetta fór mjög að draga af Grána, hann fékk niðurgang og var farinn að skíta út um allt í íbúðinni. Ég var ekki mjög glöð enda með ungabarn á heimilinu. Svo kom að því að fjölskyldan ætlaði heim til Íslands í mánaðarlangt sumarfrí. Nú voru góð ráð dýr, hvað átti að gera við kettina á meðan? Við þekktum engan sem gat haft þá og þegar ég athugaði hvað myndi kosta að hafa þá á kattahóteli kom í ljós að það var álíka dýrt og flugfarið fyrir fullorðinn fram og tilbaka frá Noregi. Ljóst var að þetta yrði ekki eina ferðin okkar til Íslands á meðan Noregsdvölinni stæði og þetta yrði vandamál í hvert sinn sem við myndum ætla að fara eitthvert. Það voru þung spor þegar farið var með kettina til dýralækninsins sem svæfði þá. Þetta var kona og hún sagði að það hefði hvort sem er þurft að svæfa Grána út af hans veikindum en það var lítil huggun. Mér leið svo illa yfir þessu að lengi gat ég ekki hugsað mér að fá mér kött aftur. Hrefna var líka afskaplega leið og henni var lofað því að þegar við flyttum til Íslands myndi hún fá gæludýr.

Fjórum árum síðar fluttum við heim og ekki leið á löngu þar til Hrefna hermdi loforðið um gæludýr upp á okkur og kanína var keypt. Hún var höfð í búri inni í Hrefnu herbergi en var stundum hleypt út (inni í húsinu) til að viðra sig og afrekaði þá að naga í sundur allar þær rafmagnssnúrur sem hún náði í. Um páskaleytið fór Hrefna með hana út og ætlaði að leyfa henni að anda að sér fersku lofti en þá tókst ekki betur til en svo að kanínan stökk úr fangi hennar niður á harðan snjóinn og fótbrotnaði. Dýralæknirinn sagði að það hefði gerst vegna þess að dýr sem höfð væru í búrum fengju beinþynningu af hreyfingarleysi. Ekki þarf að orðlengja það frekar en kanínuna þurfti að aflífa.

Næsta dýrategund sem við reyndum okkur á voru fiskar. En það var sama hvað gert var, þeir týndu alltaf tölunni. Ég var búin að fara ótal ferðir í dýrabúðina og fara samviskusamlega eftir öllum þeim ráðleggingum sem mér voru gefnar - árangurslaust. Keyptir voru nýir og nýir fiskar því þeir drápust alltaf. Ég gafst nú upp á þeirri útgerð og næst fékk Hrefna páfagauka.

Þetta voru kall og kelling og gekk ágætlega með þá til að byrja með. Þeir fengu að vera inni í stofu og við hleyptum þeim iðulega út að fljúga (og skíta, ég er enn að finna fuglaskít á ótrúlegustu stöðum mörgum árum síðar). Kellingin var þó alltaf heldur slappari en kallinn og hefur sennilega verið orðin gömul enda dó hún innan einhverra ára. En við fengum nýja kellingu og sú var hress og spræk. Nógu spræk til þess að þau fóru brátt að sýna hvort öðru mikil ástaratlot. Ég fór þá og keypti varpkassa og viti menn, innan tíðar verpti hún eggjum, við mikinn fögnuð barnanna á heimilinu (sem voru orðin þrjú þegar hér er komið sögu, Ísak hafði bæst í hópinn). Kellingin lá samviskusamlega á eggjunum og kallinn studdi hana dyggilega með því að mata hana þegar þess var þörf. Og viti menn, þegar réttur tími var kominn brutust fimm ungar úr eggjunum, við ennþá meiri fögnuð heimilisfólksins alls. Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með framvindu mála og þegar Andri átti afmæli stuttu síðar voru ungarnir aðal aðdráttaraflið. Ég hleypti einum og einum strák inn í einu til að kíkja ósköp varlega niður í varpkassann og þetta þótti mikið undur. Hins vegar leið ekki á löngu þar til við tókum eftir því að kellingin var hætt að mata ungana. Og ekki hleypti hún kallinum inn í varpkassann heldur svo hann gat ekki bjargað þeim. Þannig að þeir lognuðust út af hver á eftir öðrum og dóu allir.

Við vorum öll alveg miður okkar eftir þetta og þegar ég sá auglýsingu í Dagskránni stuttu síðar þar sem Síamskettlingar voru til sölu var tekin sú ákvörðun að fá sér gæludýr sem myndi ekki drepast við minnsta tilefni. Og kötturinn skyldi verða hafður inni svo ekki yrði keyrt á hann (þau fögru fyrirheit dugðu í eitt ár eða svo og núna fer hún út eins og hún vill, en aldrei langt í burtu og hún passar sig vel á bílunum.)

Birta hefur veitt okkur öllum mikla ánægju og fyrir um ári síðan ákváðum við að fá félaga handa henni því okkur fannst hún hálf leið, sérstaklega yfir veturinn þegar við vorum að heiman meirihluta dagsins í skóla og vinnu. Máni kom þá, pínulítill og vitlaus, en Birta var nú hreint ekki til í það að fá ókunnugan kött inn á heimilið. Til að byrja með var hún alveg galin og hvæsti og urraði á hann ef hann kom of nálægt henni. En smám saman minnkaði radíusinn á hennar yfirráðasvæði og á þriðja degi var hann kominn niður í ca. hálfan metra. Máni er alveg sérstaklega geðgóður og tókst fljótlega að bræða hjarta Birtu þannig að í dag eru þau bestu vinir. Þau borða úr sömu skálinni, sofa iðulega þétt saman og leika sér í eltingaleik þegar sá gállinn er á þeim. Þetta er sældarlíf þetta kattalíf.

mánudagur, 8. nóvember 2004

Helgin að baki

og ný vinnuvika byrjuð. Helgin fór að mestu í að hvíla sig eftir átök síðustu viku og gera sig klára í slag þeirrar næstu. Svo er það þetta klassíska: tiltekt og þrif. Ég átti reyndar því láni að fagna á sunnudaginn að minn heittelskaði tók sig til og þvoði alla gluggana í húsinu bæði að utan og innan. Sem er ekkert smá afrek því þetta er stórt hús með mörgum gluggum. Ísak fékk nú einhvern tímann það heimaverkefni í stærðfræði að telja alla gluggana í húsinu en ég er búin að steingleyma hvað þeir voru margir.

Myrkrið hellist yfir þessa dagana og minnir hressilega á sig hjá þeim sem berjast við skammdegisþunglyndi. Þá er nú aldeilis gott að eiga lampann góða og má eiginlega segja að hann bjargi lífi mínu yfir vetrarmánuðina. Brandarinn er bara sá að við erum með lampann á eldhúsborðinu og þegar búið er að kveikja á honum þá lýsir hann upp eldhúsið af svo miklum krafti að helst mætti halda að geimskip hefði óvart villst inn til okkar. Það er göngustígur meðfram húsinu og fólk sem gengur framhjá missir sig hreinlega alveg og glápir svo mikið inn um eldhúsgluggann að mesta furða má teljast að það gengur ekki á ljósastaur.

Mikið sem það var sorglegt að lesa minningargreinarnar í Mogganum í dag. Verið að jarða tvær ungar konur sem báðar skilja eftir sig ung börn. Það er ekki langt síðan ég vitnaði í Önnu Pálínu Árnadóttur hérna á blogginu og ég ætla að gera það aftur í dag.

"Á morgun er ef til vill alltof seint að yrkja þau ljóð sem í huganum dvelja."

laugardagur, 6. nóvember 2004

Er farin að halda

að það þýði ekkert fyrir mig að fara í leikhús. Við Valur fórum í leikhús í gærkvöldi ásamt vinafólki okkar og sáum Svik. Leikritið byrjaði ágætlega en svo var maður einhvern veginn alltaf að bíða eftir því að eitthvað meira bitastætt gerðist - en það gerðist aldrei! Þetta var samt allt í lagi þannig lagað, mér leiddist ekki og leikararnir stóðu sig ágætlega svo langt sem það náði. Skildi reyndar engan veginn hvaða hlutverki Skúli Gautason gengdi sem ítalskur þjónn með augljósa gervibumbu en verkið sem slíkt náði bara ekki að kveikja í mér og hið sama gerðist þegar við fórum á Brim fyrr í haust. Verð þó að bæta því við að ég var alveg heilluð af Edith Piaf, svo enn er von...

Hrefna og Elli (tengdasonurinn) voru hjá okkur í mat í kvöld og bóndinn eldaði afskaplega ljúffengar beikonvafðar kjúklingabringur. Með þeim var spaghetti og bruchettur með þistilhjörtum. Þessu skoluðum við gamlingjarnir niður með bjór en ungviðið drakk Pepsi Max. Eftir matinn varð ég svo syfjuð að ég var við það að leka út úr sófanum, seig alltaf neðar og neðar og geispaði og geispaði. Ofsalega skemmtilegur félagsskapur eða hitt þá heldur. En nú er Valur búinn að taka vídeó þannig að það er ekki um annað að ræða en hætta þessu pári og skvera sér niður í sjónvarpsherbergi.fimmtudagur, 4. nóvember 2004

Minningabrot

Bloggari einn er kallar sig Afa rifjar gjarnan upp gamlar endurminningar í skrifum sínum. Af því ég er svo andlaus eitthvað í dag leyfi ég mér að feta lauflétt í fótspor Afa og rifja upp liðna tíð :0)

Ég man eftir því að hafa langað út að leika mér. Það var óveður úti, svo mikið óveður að þakið fauk af Súkkulaðiverksmiðjunni Lindu en ég var of lítil til að gera mér nokkra grein fyrir því. Æpti, skrækti og lét öllum illum látum af því ég fékk ekki að fara út. Mamma og pabbi þurftu að beita mig valdi til að hindra að ég æddi af stað út í óveðrið og eftir þetta atvik var settur hespulás fyrir útidyrnar, hátt uppi svo ég næði ekki að opna hann.

Einu sinni ætlaði bróðir minn að leika við mig en hann var sex árum eldri og lék sjaldan við litlu systur. Ég var hæstánægð og möglaði ekki þegar leikurinn hófst. Hann var þannig að Palli var á reiðhjóli og batt snæri í kerruna mína en í henni sat ég. Síðan hjólaði hann af stað með kerruna í eftirdragi en ferðin tók snöggan enda þegar kerran valt á hliðina og ég fékk gat á hausinn af því ég rak mig í. Það blæddi mikið úr sárinu og ég hlýt að hafa grátið. Mamma lét mig leggjast með kaldan bakstur við sárið þar til hætti að blæða. Á þeim árum var ekki farið upp á slysadeild nema rík ástæða væri til.

Þegar ég hafði safnað nógu lengi átti ég að lokum næga peninga til að kaupa reiðhjól (líklega með smá viðbót frá mömmu og pabba). Ég var sjö ára og þetta var mitt fyrsta hjól. Það var hátíðleg athöfn þegar við pabbi gengum niður í bæ til að kaupa hjólið. Hjólabúðin var í húsnæði því sem núna hýsir Ljósmyndastofu Páls en ekki man ég hvað búðin hét. Við skoðuðum öll hjólin vandlega en ég féll fyrir bláu Raleigh hjóli og það var ótrúlega stolt stelpa sem leiddi hjólið heim sér við hlið. Ég kunni þó að hjóla því systkini mín áttu hjól sem ég gat fengið lánuð ef ég kvabbaði nógu mikið í þeim. Palli átti risastórt karlmannsreiðhjól og ég hjólaði á því með því að setja annan fótinn inn undir stöngina og hjóla standandi, öll skökk og skæld. Verr man ég eftir hjólinu hennar Önnu, minnir þó að það hafi verið rautt og eins og Palla hjól, alltof stórt fyrir mig. Ekki var alltaf auðvelt að halda jafnvægi á svona stórum hjólum og afleiðingin var sú að ég datt oft og hruflaði mig, sérstaklega á hnjánum og sköflungunum.

Rósa var besta vinkona mín. Hún átti heima beint á móti mér og var yngsta barn foreldra sinna rétt eins og ég. Fyrsta minning mín um Rósu er sú að við sitjum báðar í barnakerrum sem lagt er hlið við hlið og horfum á svínin. Á þeim tíma var svínabú þar sem verslunarmiðstöðin Kaupangur er núna og bræður okkar Rósu, sem áttu að vera að passa okkur, höfðu brugðið á það ráð að skilja okkur eftir þarna svo við gætum skemmt okkur við að horfa á svínin á meðan þeir voru að leika sér.

Ég man eftir því þegar pabbi kom heim með bókasafnskort handa mér. Mikið var ég ánægð að eiga mitt eigið bókasafnskort. Eina vandamálið var að það mátti einungis taka 4 bækur í einu og ég var alltaf svo fljót að lesa þær. Það var viðtekin venja að á Þorláksmessu fórum við Anna systir alltaf að ná okkur í bækur á bókasafnið fyrir jólin. Á meðan við vorum á safninu bónaði mamma gólfin og þegar við komum heim angaði allt húsið af bónlykt, sem blandaðist að vísu saman við lyktina af rauðu jólaeplunum sem hann Sigurður í Vísi gaf okkur venjulega fyrir jólin.

Amma mín bjó hjá okkur. Hún var oftast heima. Sat annað hvort á rúminu sínu eða í stól við gluggann og horfði út. Þegar veðrið var gott sat hún stundum í stól úti á tröppum. Á hverjum morgni þvoði hún sér í framan með þvottapoka og strauk yfir hárið í leiðinni eftir að hafa fyrst tekið úr því flétturnar. Síðan fléttaði hún það upp á nýtt, bognum fingrum. Hárið var þunnt og grátt. Ég veit ekki einu sinni hvaða háralit hún var með í æsku því ég sá hana aldrei öðruvísi en gráhærða. Inni hjá ömmu var fataskápur, lítill skápur og við gluggann stóð blómaborð sem geymdi Iðnu Lísu. Við amma spiluðum stundum rommý en ekki mátti spila á spil á jólunum. En svo fékk amma heilablóðfall og lamaðist að hluta. Eftir það var hún rúmföst og það þurfti að hjúkra henni. Mamma gerði það. Lét hækka upp rúmið svo auðveldara væri að hjúkra henni. Saumaði band sem hún festi í fótgaflinn og amma gat notað til að reisa sig upp í rúminu. Þreif hana, skipti á rúmfötum, setti undir hana bekken. Snéri henni í rúminu svo hún fengi ekki legusár. Færði henni mat. Fimmtudagskvöld voru einu kvöldin í vikunni sem mamma fór út en þá fóru þau pabbi á samkomu og annað hvort ég eða systir mín vorum heima og pössuðum ömmu. 1. desember 1984 náði hún þeim áfanga að verða 100 ára en dó svo í febrúar árið eftir.


Svo mörg voru þau orð. Guðný has left the building.

þriðjudagur, 2. nóvember 2004

Undarlegt

hvernig sömu eða svipaðar hugmyndir eru í deiglunni hjá fleira fólki samtímis. Ég hef oft rekið mig á þetta, síðast núna í vikunni. Ég er alltaf að reyna að átta mig á því hvers konar starf myndi henta mér og hvað ég myndi hafa áhuga á að starfa við í framtíðinni. Ókey, ég lærði viðskiptafræði en hef afskaplega lítinn áhuga á viðskiptum sem slíkum, sérstaklega öllu sem hefur með fjármál að gera. Finnst (sem betur fer) ekki leiðinlegt að vinna að markaðsrannsóknum og könnunum eins og við gerum hjá Innan handar - en gæti líka hugsað mér að gera eitthvað annað en það. Uppgötvaði síðasta vor að mér fannst gaman að kenna og vonandi hafa mínir ágætu nemendur ekki beðið mikið tjón af.

Mér finnst gaman að skrifa ( þó vissulega sé íslenskukunnáttan heldur farin að dala) og eftir námskeiðið um daginn var ég að velta því fyrir mér á hvern hátt ég gæti unnið við eitthvað tengt skriftum - og datt í hug að ég, eða við hjá Innan handar, gætum tekið að okkur að uppfæra heimasíður fyrirtækja. Flest öll fyrirtæki eru komin með heimasíður en oft skortir mikið upp á að þær séu uppfærðar reglulega, t.d. skrifaðar fréttir o.s.frv. Yfirleitt er umsjón heimasíðunnar bætt á einhvern sem er þegar með alltof mörg verkefni á sinni könnu og kemst ekki yfir að gera meira þó hann vildi. Þarna sá ég sem sagt möguleika og nefni þetta við Bryndísi í gærmorgun.

Kem svo á námskeiðið í gærkvöldi (okkur fannst svo gaman að Þorvaldur samþykkti að koma norður nokkrum sinnum í viðbót) og þá er Þorvaldur að tala um að hann verði með námskeið í desember í hagnýtum skrifum. Og jú, jú, þetta námskeið er þá einmitt stílað á fólk sem vinnu sinnar vegna þarf að skrifa texta, s.s. fréttatilkynningar og efni á heimasíður. Þar fór sú viðskiptahugmynd - nú fara allir væntanlegu viðskiptavinirnir á námskeið og læra að gera þetta sjálfir........